Hæstiréttur íslands
Mál nr. 447/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Innsetningargerð
- Viðskeyting
- Fasteign
- Lausafé
|
|
Föstudaginn 11. janúar 2002. |
|
Nr. 447/2001. |
Hótel Akureyri ehf. og Ferðamálasjóður (Jónatan Sveinsson hrl.) gegn Óðali ehf. (Hreinn Pálsson hrl.) |
Kærumál. Innsetningargerð. Viðskeyting. Fasteign. Lausafé.
Ó ehf. rak hótel í fasteign í eigu fyrirsvarsmanns félagsins. Svo fór að fasteignin var seld nauðungarsölu. Í kjölfarið reis ágreiningur um veðsetningu lausafjár í eigu Ó ehf., sem staðsett var í fasteigninni. Með dómi Hæstaréttar 27. maí 1997 í máli nr. 213/1997 var fallist á að veðsetning umrædds lausafjár samkvæmt þar til gerðum lista væri andstæð ákvæðum 2. mgr. 4. gr. laga nr. 18/1887 um veð. Að gengnum dómi Hæstaréttar gerðu nokkrir kröfuhafar Ó ehf. fjárnám í ýmsu því lausafé, sem tilgreint var á nefndum lista. Voru þeir munir síðan seldir nauðungarsölu. Á árinu 2001 krafðist Ó ehf. innsetningar í muni, sem voru enn staðsettir í fasteigninni og höfðu verið tilgreindir á áðurnefndum lista. Litið var svo á að umræddir munir hefðu verið í eigu Ó ehf. þegar fasteignin var seld nauðungarsölu. Talið var að munirnir væru lausafé, en ekki fast fylgifé fasteignarinnar. Með vísan til þessa og að munirnir væru eign Ó ehf. var fallist á kröfu félagsins um að því yrði með beinni aðfarargerð heimilað að taka munina í sínar vörslur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 6. desember 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 23. nóvember 2001, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að honum yrði heimilað að fá afhenta sér með beinni aðfarargerð nánar tilgreinda muni í vörslum sóknaraðila, Hótels Akureyrar ehf., að Hafnarstræti 67 á Akureyri. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að kröfu varnaraðila um aðfarargerð verði hafnað, en til vara að kröfu hans verði hafnað „vegna hluta af þeim munum sem taldir eru upp í aðfararbeiðni.“ Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðilar verða dæmdir til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Hótel Akureyri ehf. og Ferðamálasjóður, greiði í sameiningu varnaraðila, Óðali ehf., 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 23. nóvember 2001.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 29. október s.l., barst dóminum með aðfararbeiðni Óðals ehf., dags. 26. júlí s.l.
Sóknaraðili málsins er Óðal ehf., en varnaraðilar eru Hótel Akureyri ehf., Hafnarstræti 67, Akureyri og Ferðamálasjóður, Hverfisgötu 6, Reykjavík.
Kröfur sóknaraðila eru, að félaginu verði heimilað, með beinni aðfarargerð, að taka í sínar vörslur 19 fataskápa, 19 skápa fyrir minibari, 19 skápa fyrir öryggishólf, 19 höfðagafla fyrir rúm og 19 spegla í römmum, en allir þessir munir eru í húsnæði gerðarþola Hótels Akureyrar ehf., að Hafnarstræti 67 á Akureyri. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Kröfur varnaraðila í málinu eru aðallega, að kröfu sóknaraðila um beina aðfarargerð hjá varnaraðila Hótel Akureyri ehf. vegna ofangreindra muna, verði hafnað. Til vara krefjast varnaraðilar þess, að hafnað verði kröfu sóknaraðila um beina aðfarargerð hjá varnaraðila Hótel Akureyri ehf. vegna hluta umræddra muna. Í báðum tilvikum krefjast varnaraðilar málskostnaðar. Að endingu krefjast varnaraðilar þess, verði krafa sóknaraðila tekin til greina, að kæra úrskurðar þessa fresti aðfarargerð.
Í máli þessu greinir aðila á um eignarhald á tilteknum lausafjármunum, sem allir eru staðsettir í sömu fasteign og sóknaraðili hefur krafist innsetningar í. Ræðst eignarhaldið af því hvort munirnir teljast fylgifé fasteignarinnar eða ekki.
Málsatvik eru þau, að fram til loka ársins 1996 rak sóknaraðili hótel í fasteigninni Hafnarstræti 67 á Akureyri. Nefnd fasteign, sem var eign Aðalgeirs T. Stefánssonar framkvæmdastjóra sóknaraðila, var seld nauðungarsölu þann 4. desember 1996 og var rekstri hótelsins hætt við söluna. Tók hæstbjóðandi, varnaraðili Ferðamálasjóður, við umráðum eignarinnar og ráðstafaði henni síðar til varnaraðila Hótels Akureyrar ehf., með kaupsamningi dags. 26. mars 1997. Í tengslum við söluna tók varnaraðili Ferðamálasjóður veð í umræddri eign.
Með dómi Hæstaréttar Íslands þann 27. maí 1997 var staðfestur úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra um ógildingu nauðungaruppboðs á m.a. hinum umdeildu munum, en uppboðið hafði farið fram á grundvelli veðsetningar lausafjárins samkvæmt viðfestum lista veðskuldabréfs.
Nokkrir kröfuhafar sóknaraðila gerðu í framhaldinu fjárnám í ýmsu því lausafé, sem tilgreint var á nefndum lista. Voru þeir munir síðar seldir nauðungarsölu.
Áðurnefndur Aðalgeir T. Stefánsson reyndi að ná nokkrum þeirra muna, sem á títtnefndum lista voru, en forsvarsmaður varnaraðila Hótels Akureyrar ehf. óskaði þá aðstoðar sýslumanns, er kvaddi til lögreglu, sem meinaði forsvarsmönnum sóknaraðila að nálgast nefnda muni. Létu forsvarsmenn sóknaraðila við svo búið sitja að sinni.
Þann 12. janúar 1999 var fjárnám gert í afgreiðsluborði staðsettu í móttöku á fyrstu hæð hússins við Hafnarstræti 67. Fór þá af stað ákveðin atburðarás, sem ekki er þörf á að tíunda hér, en henni lauk með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra, í máli nr. Y-2/2000, dags. 7. júlí 2000. Var í úrskurðinum byggt á því, að umrætt afgreiðsluborð teldist ekki fast fylgifé fasteignarinnar og væri því í eigu sóknaraðila. Úrskurðurinn var ekki kærður til Hæstaréttar Íslands.
Munir þeir, sem sóknaraðili krefst nú innsetningar í, voru á áðurnefndum veðsetningarlista og eru enn staðsettir í fasteigninni að Hafnarstræti 67 á Akureyri.
Sóknaraðili kveður umrædda muni vera lausafé og eign félagsins, enda hafi þeir ekki fylgt við sölu hússins Hafnarstræti 67, Akureyri. Ekkert hafi komið fram um lausaféð í samningum viðvíkjandi kaupum varnaraðila Hótels Akureyrar ehf. á þeirri fasteign af varnaraðila Ferðamálasjóði. Ekki sé uppi neinn vafi um eignarhald á mununum, sbr. úrskurð héraðsdóms í máli nr. Y-2/2000 varðandi afgreiðsluborðið, en telja verði að sama eigi við um þá muni, sem nú sé deilt um.
Vísar sóknaraðili til þess, að varnaraðili Hótel Akureyri ehf. hafi smám saman eignast einstaka lausafjármuni, sem verið hafi í húsnæðinu, við uppboð, t.d. rúm og dýnur. Í þeirri afstöðu hljóti að felast viðurkenning á eignarrétti, því vart færi félagið að bjóða í eignir, sem það teldi sig þegar eiga.
Sóknaraðili kveður liggja fyrir, að umræddir munir hafi allir verið smíðaðir utan hússins við Hafnarstræti 67, en þeir síðan verið fluttir á staðinn og settir þar upp. Varnaraðili Hótel Akureyri ehf. hafi hins vegar í einhverjum tilvikum sett eina og eina skrúfu í bak skápa og fleiri muna, líklega til að láta líta svo út, að um naglfastar innréttingar væri að ræða. Verði ekki séð að nefndar skrúfur geti gegnt öðru hlutverki þar sem húsgögnin séu þung og massíf og standi sjálf án festinga. Rúmgaflar og speglar séu þó hengdir upp á skrúfur, en auðvelt sé að smeigja þeim af. Hafi þessi háttur verið hafður á með rúmgaflana með tilliti til þrifa, en þeir séu vissulega nauðsynlegur hluti rúmanna.
Kveður sóknaraðili verðmæti umræddra hluta liggja fyrir, en í skjali sem fylgt hafi veðsetningarskjali til Landsbanka Íslands hafi undir liðnum „Herbergi“ staðið “Allar lausar innréttingar kr. 6.370.009,-. Verðmætustu hlutirnir í þessari skrá hafi aldrei verið greiddir og því telji sóknaraðili framsett verð sanngjarnt, enda hafi hlutirnir verið vandaðir og með öllu óskemmdir, er rekstri sóknaraðila lauk. Þá verði einnig til þess að líta, að um fimm ára skeið hafi umræddir hlutir verið notaðir við rekstur varnaraðila Hótels Akureyrar ehf., án nokkurs endurgjalds.
Sóknaraðili kveður heimild til að krefjast aðfarar þessarar að finna í 5. tl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90, 1989 um aðför, sbr. og 78. gr. s.l.
Varnaraðilar kveða alla hina umdeildu muni hafa verið í fasteigninni að Hafnarstræti 67, Akureyri, þegar Ferðamálasjóður keypti hana á nauðungaruppboði 4. desmeber 1996. Sjóðurinn hafi litið svo á við upphaflegar lánveitingar til eigenda hótelsins, að munirnir væru venjulegt fylgifé hótela. Á sama grundvelli hafi þeir verið seldir með fasteigninni til sjóðsins á framangreindu uppboði og hafi þeir fylgt henni síðan. Varnaraðilar byggi því á, að munirnir séu fylgifé fasteignarinnar og eigi gerðarbeiðandi því engan rétt til þeirra.
Byggja varnaraðilar jafnframt á því, að um sé að ræða naglfastar innréttingar fasteignarinnar að Hafnarstræti 67 og eigi gerðarbeiðandi því engan rétt til þeirra. Innréttingarnar séu allar meira og minna festar við fasteignina og myndi það valda raski og skemmdum á húsnæðinu, yrðu þær fjarlægðar. Munirnir hafi verið sérsmíðaðir fyrir þessa tilteknu fasteign og hafi lítið notagildi utan hennar. Ef fallist yrði á kröfur sóknaraðila skapaði það fordæmi hvað varðaði hurðir, dyrakarma, vaska og salerni, en þeir munir séu sumir festir með sambærulegum hætti og hinir umdeildu munir.
Þá vísa varnaraðilar til þess, að flestir þeir munir, sem krafist er innsetningar í, séu innréttingar sem séu lögboðið fylgifé hótela, sbr. lög nr. 67, 1985 og III. kafla reglugerðar nr. 288, 1987. Beri því að líta á munina sem hluta fasteignarinnar í þeirri mynd sem hún hafi verið þegar hún var seld nauðungarsölu 4. desember 1996.
Varnaraðilar byggja einnig á því, að þó svo talið yrði að umræddir munir hafi á einhverjum tíma tilheyrt gerðarbeiðanda, þá hafi félagið fyrirgert rétti sínum til þeirra með tómlæti, þar sem engar kröfur hafi verið hafðar uppi frá því að hótelið var selt nauðungarsölu fyrir u.þ.b. fimm árum.
Samkvæmt framansögðu kveða varnaraðilar sóknaraðila ekki eiga rétt á að fá hina umdeildu muni afhenta. Megi því vera ljóst, að skilyrðum 78. gr. laga um aðför nr. 90, 1989 sé ekki fullnægt þar sem um sé að ræða kröfur og réttindi sem séu ekki svo ljós, að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum, sem aflað verði samkvæmt 83. gr. aðfararlaga. Beri því að hafna kröfu sóknaraðila um innsetningu.
Varakröfu kveða varnaraðilar á því byggða, að þó svo dómstóllinn komist að þeirri niðustöðu að einhverjir umræddra muna tilheyri gerðarbeiðanda, þá verði kröfu um innsetningu hafnað varðandi aðra muni á grundvelli framangreindra málsástæðna.
Ágreiningslaust er, að hinir umdeildu munir hafi verið í eigu sóknaraðila fram að nauðungarsölu fasteignarinnar að Hafnarstræti 67 á Akureyri, er fram fór þann 4. desember 1996.
Hvergi kemur fram í uppboðsafsali sýslumannsins á Akureyri til Ferðamálasjóðs, kaupsamningi milli varnaraðila, eða afsali Ferðamálasjóðs til Hótels Akureyrar ehf., að hið afsalaða sé hótel, heldur einungis fasteignin að Hafnarstræti 67 á Akureyri. Þá verður og að hafa í huga, hvað varðar hið síðarnefnda afsal, að Ferðamálasjóður gat ekki afsalað með fasteigninni ríkari rétti til hinna umdeildu muna, en sjóðnum var afsalað með uppboðsafsali sýslumanns, en ekki hefur verið byggt á því í málinu, að Ferðamálasjóður hafi öðlast frekari réttindi yfir Hafnarstræti 67, en samkvæmt uppboðsafsalinu. Af þessum sökum verður ekki við úrlausn þess, hvort hinir umdeildu munir séu lausafé eða fast fylgifé fasteignarinnar, byggt á því að fasteigninni hafi verið afsalað sem hóteli.
Af ofangreindri niðurstöðu leiðir, að ekki stoðar fyrir varnaraðila að bera fyrir sig ákvæði laga nr. 67, 1985 og reglugerðar nr. 288, 1987 í málinu.
Dómurinn hefur skoðað hina umdeildu muni í húsinu við Hafnarstræti 67. Er það mat dómsins, að munirnir geti haft sjálfstætt fjárhagslegt gildi líkt og t.d. bókahillur og venjuleg skrifstofuhúsgögn. Myndi það valda mjög óverulegu tjóni á fasteign varnaraðila Hótels Akureyrar ehf., ef munirnir yrðu fjarlægðir. Það myndi hins vegar að sjálfsögðu hafa töluverðan kostnað í för með sér fyrir varnaraðila Hótel Akureyri ehf. að afla sér sambærilegra muna, en sá kostnaður er máli þessu óviðkomandi. Þá geta hvorki þær festingar, sem settar hafa verið t.a.m. í bak fataskápanna, né sú staðreynd, að munirnir eru allir úr líku smíðaefni og mynda því samstæða heild, haft áhrif við úrlausn þess, hvort um lausafé sé að ræða eða fast fylgifé fasteignar.
Að öllu framangreindu athuguðu er það afdráttarlaus niðurstaða dómsins, að allir umræddir munir séu lausafé, en ekki fast fylgifé fasteignarinnar að Hafnarstræti 67.
Tilvísun varnaraðila til tómlætis þykir ekki eiga lagastoð og er henni því hafnað.
Með vísan til alls ofangreinds telst sannað, að umræddir lausafjármunir séu klárlega eign sóknaraðila. Að mati dómsins er skilyrði 78. gr., sbr. 83 gr., laga nr. 90, 1989 um skýrleika því uppfyllt. Ber því að fallast á kröfu sóknaraðila þess efnis, að félaginu verði, með beinni aðfarargerð, heimilað að taka hina umþrættu muni í sínar vörslur.
Með vísan til framangreindrar niðurstöðu þykir rétt, að varnaraðilar greiði sóknaraðila óskipt kr. 90.000,- í málskostnað.
Varnaraðilar hafa krafist þess, að kæra úrskurðarins til Hæstaréttar Íslands fresti framkvæmd aðfarargerðar samkvæmt honum. Við munnlegan flutning málsins samþykkti sóknaraðili þessa kröfu. Í ljósi þessa og með vísan til 2. og 3. mgr. 84. laga nr. 90, 1989 um aðför, er fallist á greinda kröfu varnaraðila.
Úrskurð þennan kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.
Á L Y K T A R O R Ð :
Sóknaraðila, Óðali ehf., er með beinni aðfarargerð heimilað að taka í sínar vörslur 19 fataskápa, 19 skápa fyrir minibari, 19 skápa fyrir öryggishólf, 19 höfðagafla fyrir rúm og 19 spegla í römmum, en allir þessir munir eru í húsnæði varnaraðila Hótels Akureyrar ehf., að Hafnarstræti 67 á Akureyri.
Varnaraðilar, Hótel Akureyri ehf. og Ferðamálasjóður greiði sóknaraðila óskipt kr. 90.000,- í málskostnað.
Aðför samkvæmt úrskurði þessum skal ekki fara fram, verði hann kærður til Hæstaréttar Íslands.