Hæstiréttur íslands
Mál nr. 317/2002
Lykilorð
- Vátryggingarsamningur
- Gáleysi
|
|
Fimmtudaginn 19. desember 2002. |
|
Nr. 317/2002. |
Vátryggingafélag Íslands hf. (Jakob R. Möller hrl.) gegn þrotabúi Írafárs ehf. (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Vátryggingarsamningur. Gáleysi.
Í ehf. krafði V hf. um bætur úr samsettri lausafjár- og rekstrarstöðvunartryggingu og víðtækri eignatryggingu vegna muna er hurfu í innbroti. Tekið var fram að samkvæmt skilmálum fyrstnefndu tryggingarinnar næði vátryggingin aðeins til tjóns sem yrði á þeim stað sem skírteinið tilgreindi. Var talið að enda þótt fram væri komið í málinu að hringt hefði verið frá Í ehf. til V hf. sama dag og það kvaðst hafa flutt starfsemina væri það engin sönnun þess að Í ehf. hefði tilkynnt V hf. um aðsetursskipti. Væri því ekkert fram komið til stuðnings þeirri fullyrðingu Í ehf. að skírteinið hefði átt að tilgreina hina nýju starfsstöð sem vátryggingarstað. Fyrir lá að brotist hafði verið inn í starfsstöð Í ehf. með því að losa um stormjárn á glugga í rúmlega 2 metra hæð við hlið innkeyrsluhurðar en glugginn hafði verið skilinn eftir opinn í lok vinnudags fyrir langa helgi. Þar sem starfsstöðin var í iðnaðarhverfi, sem er að jafnaði mannlaust á kvöldin og um helgar, yrði að telja það stórfellt gáleysi að skilja við starfsstöðina eins og gert var. Var V hf. því sýknað af kröfu Í ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. júlí 2002 og krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í málflutningi fyrir Hæstarétti var upplýst að bú Írafárs ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Því til samræmis hefur stefndi tekið við aðild málsins fyrir réttinum.
Svo sem fram kemur í héraðsdómi deila aðilar um skilmála tveggja vátrygginga sem Írafár ehf. keypti hjá áfrýjanda og hvort sá síðarnefndi sé greiðsluskyldur vegna muna er hurfu í innbroti að Bíldshöfða 16, Reykjavík, aðfaranótt 17. júní 2001. Annars vegar er um að ræða samsetta lausafjártryggingu, það er fyrir bruna-, vatns- og innbrotstjón og rekstarstöðvunartjón því tengdu, og hins vegar víðtæka eignatryggingu vegna fartölva.
Áfrýjandi styður sýknukröfu sína af kröfum tengdum hinni samsettu lausafjár- og rekstrarstöðvunartryggingu með því að vátryggingin nái aðeins til tjóns, sem verði á þeim stað sem skírteini tilgreinir. Vátryggingastaður hafi verið tilgreindur Laugavegur 3, Reykjavík, en tjónið hafi orðið að Bíldshöfða 16. Stefndi hafi sönnunarbyrði um að hann hafi tilkynnt flutning starfsstöðvar til áfrýjanda, en það sé ósannað. Hvað varði hina víðtæku eignatryggingu sé það skilyrði fyrir greiðslu bóta að eðlileg aðgát hafi verið viðhöfð og híbýli séu ekki ólæst. Skilinn hafi verið eftir opinn gluggi á húsnæði þar sem lítil eða engin umferð sé utan vinnutíma, og það jafngildi því að skilja munina eftir í ólæstum híbýlum.
Í 17. gr. skilmála fyrir hina samsettu lausafjár- og rekstrarstöðvunartryggingu er tekið fram að vátryggingin nái aðeins til tjóns sem verði á þeim stað sem skírteini tilgreinir. Sá staður var Laugavegur 3, Reykjavík. Enda þótt fram sé komið í málinu að hringt hafi verið frá stefnda til áfrýjanda 7. júní 2001, sama dag og stefndi kveðst hafa flutt starfsemina að Bíldshöfða 16, er það engin sönnun þess að stefndi hafi tilkynnt áfrýjanda um aðsetursskipti. Er því ekkert fram komið til stuðnings þeirri fullyrðingu stefnda að skírteinið hafi átt að tilgreina Bíldshöfða 16 sem vátryggingarstað. Verður því tekin til greina krafa áfrýjanda um sýknu að þessu leyti.
Fram er komið að brotist var inn í starfsstöð stefnda að Bíldshöfða 16 með því að losað var um stormjárn á glugga í rúmlega 2 metra hæð við hlið innkeyrsluhurðar, en glugginn hafði verið skilinn eftir opinn þegar starfsstöðin var yfirgefin í lok vinnudags föstudaginn 15. júní. Áfrýjandi ber fyrir sig e) og f) liði 3. gr. hinnar víðtæku eignatryggingar, þar sem segir að það sé skilyrði bóta að eðlileg aðgát hafi verið viðhöfð og tekið fram að vátryggingin bæti ekki tjón á munum sem stolið sé úr ólæstum híbýlum. Starfsstöð stefnda var í húsnæði í iðnaðarhverfi, sem er að jafnaði mannlaust á kvöldin og um helgar. Verður að telja það stórfellt gáleysi af stefnda að skilja við starfsstöð sína eins og gert var, enda býður opinn gluggi af þeirri stærð, sem hér um ræðir, á þessum stað og tíma heim hættu á innbroti og leiðin til þess nokkuð greið. Vegna þessa stórfellda gáleysis verður krafa áfrýjanda að þessu leyti einnig tekin til greina og verður hann sýknaður af kröfum stefnda í málinu.
Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýkn af kröfum stefnda, þrotabús Írafárs ehf.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2002.
I
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 23. maí sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af Írafár ehf., kt. 681200-3710, Bíldshöfða 16, Reykjavík, á hendur Vátryggingarfélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, með stefnu birtri hinn 2. nóvember 2001.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 5.598.000 krónur, auk dráttarvaxta frá 18. júlí 2001 til greiðsludags og málskostnað, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefndi dæmdur til þess að greiða honum málskostnað.
Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.
II
Málsaðilar höfðu gert með sér vátryggingasamninga, sem giltu frá 20. febrúar 2001 til 1. mars 2003. Var um að ræða samsetta eignatryggingu gegn bruna-, vatns- og innbrotstjónum og víðtæka eignatryggingu. Stefnandi hafði keypt tryggingu hjá stefnda samkvæmt vátryggingarskírteini nr. X 137500. Þegar tryggingarnar voru teknar var stefnandi með starfsstöð að Laugavegi 3, Reykjavík, en hann flutti starfsemi sína hinn 7. júní 2001 að Bíldshöfða 16, Reykjavík.
Málavextir eru þeir, að aðfaranótt 17. júní 2001, var brotist inn í starfsstöð stefnanda, að Bíldshöfða 16, Reykjavík, og þaðan stolið verðmætum í eigu stefnanda, sem tryggð voru hjá stefnda. Samkvæmt lista yfir stolna muni, sem fyrirsvarsmaður stefnanda útbjó, höfðu hlutir þessir verið verðlagðir á samtals 4.598.000 krónur, er þeir voru tryggðir hjá stefnda. Auk þess krafði stefnandi um rekstrarstöðvunartryggingu að fjárhæð 1.000.000 krónur.
Stefndi neitaði greiðsluskyldu og byggði á því, að samkvæmt hinni samsettu tryggingu og rekstarstöðvunartryggingu, næði vátryggingin aðeins til þess staðar sem tilgreindur væri á vátryggingarskírteini og, að því er rekstarstöðvunartryggingu varðaði, að hún bætti einungis það tjón sem stafaði af bótaskyldu tjóni úr hinni samsettu tryggingu. Var á því byggt að stefnandi hefði ekki tilkynnt um aðsetursskiptin til stefnda. Þá hefði glugga með opnanlegu fagi, ekki verið lokað af starfsmönnum stefnanda, er þeir yfirgáfu starfsstöðina hinn 15. júní 2001. Munirnir hefðu því verið skildir eftir í ólæstum híbýlum og trygging á fartölvum samkvæmt víðtækri eignatryggingu því ekki bótaskylt.
Stefnandi undi þessari niðurstöðu ekki og skaut málinu til tjónanefndar tryggingafélaganna, sem féllst á sjónarmið stefnda. Í framhaldi af því skaut stefnandi málinu til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, með bréfi dagsettu 28. ágúst 2001. Hinn 10. október 2001 komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að tjón stefnanda teldist ekki bótaskylt, a.ö.l. en því, að tjón á fartölvum ætti að bætast úr víðtækri eignatryggingu. Stefndi lýsti því hins vegar yfir með bréfi til stefnanda, dagsettu 23. október 2001, að hann yndi ekki niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.
III
Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að stefndi sé bótaskyldur á grundvelli vátryggingar, sem stefnandi hafi keypt af stefnda. Mótmælir stefnandi því, að stefndi geti synjað bótaskyldu á þeim forsendum sem stefndi hafi gert, þ.e.a.s. að frágangur glugga hafi verið óforsvaranlegur, að trygging samkvæmt vátryggingarskírteini hafi aðeins gilt á Laugavegi 3, Reykjavík, eða að hann eigi ekki rétt á bótum úr rekstrarstöðvunartryggingu.
Stefnandi mótmælir því, að ákvæði 20. gr. tryggingarskilmálanna verði túlkað með þeim hætti, að lítil rifa á örlitlum glugga í tæplega 3 metra hæð valdi missi bóta. Eðlileg skýring á þessu ákvæði sé, að frágangur á vátryggingarstað sé ekki með þeim hætti að auðvelt sé fyrir innbrotsþjófa að athafna sig vegna þess að beinlínis sé innangengt í húsið. Frágangur gluggans hafi alls ekki verið með þeim hætti. Þá hafi lögfræðingur SjóváAlmennra trygginga hf., svarað fyrirspurn eins af fyrirsvarsmönnum stefnanda um þetta efni með því, að ekki væru gerðar þær kröfur til fólks, að gluggar væru ávallt lokaðir. Stefnandi telur að túlka beri 20. gr. skilmálanna í samræmi við 2. mgr. 18. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954, þar sem kveðið sé á um lækkun bótagreiðslna ef telja megi vátryggingaratburð hafa orðið fyrir stórkostlega vangá vátryggingartaka, en starfsmenn stefnanda hafi ekki sýnt af sér stórkostlega vangá með því að loka ekki glugganum. Ef um vangá hafi verið að ræða hafi hún verið svo lítilvæg að valdi í versta falli lítilsháttar frádrætti á bótum.
Stefnandi byggir á því, að tryggingarskírteinið hafi gilt þó svo vátryggingarskírteinið kveði á um að innbrots-/ þjófnaðartrygging gilti á Laugavegi 3, en starfsemi stefnanda hafi verið flutt að Bíldshöfða 16.
Í 5. gr. kafla A í vátryggingarskilmálunum segi að vátryggingartaka sé skylt að tilkynna VÍS án tafar, m.a. þegar vátryggðir munir séu fluttir af vátryggingarstað. Ekki sé kveðið á um slíka tilkynningarskyldu í kaflanum um innbrotstryggingar, en í 17. gr. skilmálanna komi hins vegar fram að innbrotstryggingin nái aðeins til þess tjóns er verði á vátryggingarstað. Hvergi sé hins vegar kveðið á um það með beinum hætti að tryggingin falli niður við það að vátryggingartaki skipti um aðsetur. Ákvæði 17. gr. beri að skilja svo, að innbrotstryggingin nái ekki til þess ef hinum tryggðu lausafjármunum sé stolið frá öðrum stað en vátryggingarstað. Sjáist þetta best af því, að trygging á fartölvum vátryggingartaka séu ekki háðar ákveðinni staðsetningu, eins og greini í skírteininu. Þá beri að skýra 17. gr. með hliðsjón af 21. gr. skilmálanna, en þar sé stefnda tryggður réttur til þess að geta framkvæmt skoðun á vátryggingarstaðnum hvenær sem er og án fyrirvara. Skoðun á vátryggingarstað í tengslum við aðseturskipti virðist því, samkvæmt skilmálunum, ekki vera höfuðatriðið hjá hinu stefnda tryggingafélagi, heldur það að geta framkvæmt skoðunina. Starfsmaður stefnda hafi skoðað starfsstöð stefnanda að Laugavegi 3, er tryggingin hafi verið keypt. Hins vegar hafi honum ekki fundist ástæða til að kanna lagerhúsnæði stefnanda að Lækjargötu 30, Hafnarfirði. Starfsmanni þessum hafi verið tilkynnt að fyrirhugað væri að flytja starfsemi stefnanda í annað húsnæði, og hafi hann ekki hreyft andmælum við því. Stefnandi kveðst hafa tilkynnt aðsetursskipti til stefnda. Hafi fyrirsvarsmenn stefnanda haft samband við stefnda og verið tilkynnt að ekki væri þörf á sérstakri skoðun á vátryggingarstað við aðsetursskipti. Stefnandi kveðst hafa ítrekað aðsetursskipti við stefnda hinn 8. júlí 2001, og virðist sem sú tilkynning hafi náð til stefnda. Hinn nýi vátryggingarstaður hafi þrátt fyrir það ekki verið skoðaður af stefnda.
Stefnandi kveðst leggja til grundvallar kröfu sinni á hendur stefnda niðurstöðu úrskurðarnefndar um, að innbrotstrygging á fartölvum sé ekki bundin við staðsetningu.
Einnig byggir stefnandi á því, að þau atvik sem ráði því að mati stefnda, að tjónið verði ekki bætt, séu þess eðlis að falli undir 7. gr., þ.e.a.s. að ekki sé hægt með sanni að halda því fram, að vátryggingartaki láti hjá líða að greina tryggingafélagi frá aðsetursskiptum, sé eitthvað sem vátryggingartaka hafi átt að vera ljóst að skipti máli fyrir tryggingafélagið eða að meta megi það sem stórkostlegt gáleysi. Þá beri að hafa í huga að nægilegt sé, samkvæmt kröfum tryggingafélagsins, að tilkynna aðsetursskipti með símtali. Stefnandi heldur því fram að hann hafi tilkynnt aðsetursskiptin með símtali, sbr. yfirlit um símtöl úr símanúmeri stefnanda. Samkvæmt því yfirliti hafi stefnandi, hinn 1. og 7. júní 2001, hringt til stefnda. Fyrra símtalið hafi verið fyrirspurn til stefnda hvernig haga bæri tilkynningu um aðsetursskipti, en hið síðara hafi verið tilkynning um aðsetursskiptin.
Stefnandi telur sig eiga rétt á bótum úr rekstrarstöðvunartryggingu. Mótmælir hann því, sem fram kemur í áliti úrskurðarnefndar, um að rökstuðningur og málatilbúnaður stefnanda lúti ekki að því hvort hann eigi rétt til bóta úr þeirri tryggingu, enda hafi hann bæði í greinargerð til tjónanefndar sem og í kæru til úrskurðarnefndar krafist bótanna. Kveður stefnandi tjón sitt vegna stöðvunar á rekstri vera mun meiri en sem nemi vátryggingarfjárhæðinni, þar sem rekstur fyrirtækisins hafi í raun verið lamaður frá innbrotinu.
Stefnandi kveður stefnufjárhæðina vera í samræmi við vátryggingarskírteinið og skrá stefnanda yfir verðmæti þeirra hluta sem horfið hafi við innbrotið á starfsstöð hans.
Stefnandi byggir kröfu sína um málskostnað á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á III. kafla laga nr. 38/2001.
IV
Stefndi byggir kröfur sínar um sýknu á skilmálum í vátryggingum, sem stefnandi keypti.
Vátryggingarskírteini nr. X137501 og X 137502, séu gefin út samkvæmt skilmálum stefnda nr. RL11, þ.e.a.s. lausafjártryggingsamsett trygging -. Samkvæmt 17. gr. skilmála nr. RL11 nái tryggingin aðeins til þess tjóns, sem verði á vátryggingarstað þeim, sem skírteinið tilgreini. Í skírteinunum sé vátryggingarstaður tilgreindur Laugavegur 3, Reykjavík. Tjónið hafi hins vegar orðið á Bíldshöfða 16, Reykjavík. Stefndi hafi sérstaka og lögmæta hagsmuni af því að vátryggingarstaður sé réttilega tilgreindur. Þegar vátrygging sé seld atvinnufyrirtæki sé venjan sú að viðkomandi húsnæði sé skoðað, eins og gert hafi verið við húsnæði fyrirtækisins að Laugavegi 3, Reykjavík. Þar sem tjónastaður hafi verið allt annar en vátryggingarstaður hafi vátryggingin ekki náð til tjónsins. Stefnandi hafi engin gögn lagt fram, sem geri sennilegt að hann hafi tilkynnt aðsetursskiptin. Þau gögn sem hann hafi lagt fram vísi til einstaklingstryggingar, ekki atvinnufyrirtækis. Samkvæmt skýrum skilmálum tryggingarinnar nái vátryggingin ekki til þess tjóns sem stefnandi kunni að hafa orðið fyrir við innbrot, og eigi hann því ekki rétt til bóta á tjóni vegna tölvubúnaðar o.fl., samkvæmt lista, og tryggingar lagers, þ.e.a.s. bóta úr lausafjártryggingu.
Rekstrarstöðvunartrygging sé hluti samsettrar lausafjártryggingar. Vátryggingarskírteini nr. X137503, sé gefið úr samkvæmt skilmálum félagsins um þá tryggingu, sem sé hluti samsettrar lausafjártryggingar. Eigi því sömu ákvæði við um vátryggingarstað og um lausafjártryggingu sem og sé áskilið, að um bótaskylt tjón úr tryggingu vegna bruna, vatns eða innbrots sé að tefla. Þar sem lausafjártryggingin taki ekki til tjóns stefnanda, eigi hann ekki rétt á bótum úr rekstrarstöðvunartryggingu.
Vátryggingarskírteini nr. X137504 sé gefið út samkvæmt skilmálum félagsins um víðtæka eignatryggingu. Með þessari tryggingu hafi verið tryggðar fjórar fartölvur, samtals að fjárhæð 800.000 krónur. Krafa stefnanda sé innan vátryggingarfjárhæðar. Byggir stefndi sýknukröfu sína vegna þessa liðar á 3. gr. skilmála. Í 3. gr. f) komi fram að vátryggingin bæti ekki tjón á munum, sem stolið sé úr ólæstum híbýlum og í e) lið sömu greinar, sé það gert að skilyrði fyrir greiðslu bóta, að eðlileg aðgát hafi verið viðhöfð. Samkvæmt lögregluskýrslu hafi gluggar á fyrirtækinu, sem séu í u.þ.b. tveggja metra hæð, verið skildir eftir opnir, þegar starfsmenn hafi farið þaðan föstudaginn 15. júní. Hafa verði í huga að fyrirtækið sé með starfsemi sína í iðnaðar- og viðskiptahverfi, þar sem lítil umferð íbúa sé eftir vinnutíma í lok hvers dags. Þá hafi umferð um hverfið líklega verið minni þá helgi sem í hönd hafi farið, þar sem þjóðhátíðardagurinn hafi verið á sunnudegi. Starfsmennirnir hafi því sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að skilja glugga eftir opinn. Ákvæði skilmálanna sé einmitt ætlað til þess að sporna við slíku gáleysi og valdi því, að stefnandi eigi ekki rétt á vátryggingarbótum úr þessari tryggingu.
Stefndi mótmælir upphafsdegi dráttarvaxta og telur hann ekki vera í samræmi við lög nr. 38/2001. Tjónið hafi verið tilkynnt stefnda hinn 18. júní 2001 og geti því dráttarvextir fyrst lagst á hinn 18. júlí 2001. Telur stefndi að með hliðsjón af því að tjónsstaður hafi verið annar en vátryggingarstaður og gáleysi stefnda beri að leggja dráttarvexti á við uppsögu endanlegs dóms í málinu.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um virðisaukaskatt byggir stefndi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
V
Krafa stefnanda er byggð á vátryggingum sem hann keypti af stefnda, samkvæmt vátryggingarskírteinum. Um var að ræða lausafjártryggingu, rekstrarstöðvunartryggingu og víðtæka eignatryggingu. Stefndi hefur neitað greiðsluskyldu. Byggir hann á því, að samkvæmt skilmálum um samsetta tryggingu nái hún aðeins til þess tjóns sem verði á vátryggingarstað, sem tilgreindur er í vátryggingarskírteini. Synjun um greiðsluskyldu úr víðtækri eignatryggingu byggir stefndi á því að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að skilja eftir opinn glugga á starfsstöðinni og því hvorki uppfyllt skilmála tryggingarinnar um eðlilega aðgát né hafi mununum verið stolið úr læstum híbýlum.
Óumdeilt er að brotist var inn á starfsstöð stefnanda, samkvæmt framlagðri lögregluskýrslu, og stolið þaðan þeim munum, sem stefnandi tilgreinir. Samkvæmt áðurgreindum vátryggingarskírteinum er vátryggingarstaður þar tilgreindur Laugavegur 3, Reykjavík. Í 17. gr. skilmála nr. RL11, sem um vátrygginguna gilda, segir svo: „Vátryggingin nær aðeins til þess tjóns, sem verður á vátryggingarstað þeim, sem skírteini þetta tilgreinir.” Stefnandi hafði flutt starfsemi sína frá Laugavegi 3, Reykjavík, að Bíldshöfða 16, Reykjavík, er tjón hans varð. Kveðst hann hafa flutt starfsemina hinn 7. júní 2001, og liggur frammi ljósrit greiðslukvittunar frá Sendibílastöðinni hf., vegna flutnings skrifstofu, eins og þar segir, frá Laugavegi að Bíldshöfða. Stefnandi hefur og haldið því fram að hann hafi tilkynnt um aðsetursskipti með símtali til stefnda, sama dag. Liggur frammi í málinu útskrift frá Landssíma Íslands hf., þar sem fram kemur að hringt var úr símanúmeri stefnanda í símanúmer stefnda þann dag. Samkvæmt því sem fram er komið er það ekki gert að skilyrði af hálfu stefnda að tilkynning sem þessi sé gerð skriflega eða með öðrum hætti en stefnandi heldur fram að hann hafi gert. Með vísan til þess verður litið svo á að stefnandi hafi gert það nægilega sennilegt að aðsetursskiptin hafi verið tilkynnt til stefnda. Samkvæmt því hefði vátryggingarskírteinið átt að tilgreina vátryggingarstað, Bíldshöfða 16, Reykjavík. Með því að tjónið varð á raunverulegri starfsstöð stefnanda ber samkvæmt framansögðu að líta svo á að tjónið hafi orðið á vátryggingarstað, sem vátryggingin nái til.
Stefndi byggir og sýknukröfu sína á því, að stefnandi hafi ekki sýnt af sér nægilega aðgát. Í vátryggingarskilmálum víðtækrar eignatryggingar er í 3. gr. kveðið á um hvaða tjón vátryggingin bæti. Í e- lið þeirrar greinar segir svo: „Það er skilyrði fyrir greiðslu bóta að eðlileg aðgát hafi verið viðhöfð.” og í f- lið: „Vátryggingin bætir ekki tjón á munum sem stolið er úr ólæstum híbýlum, bílum, bátum eða eru skildir eftir á almannafæri.” Í framlagðri lögregluskýrslu kemur fram að á staðnum hafi verið greinileg ummerki eftir innbrot. Stormjárn hafi verið skrúfað úr glugga og hafi skrúfurnar legið utan við húsið. Gluggi þessi sé í rúmlega tveggja metra hæð frá jörðu. Þá hafi verið búið að taka læsingu af hurðinni og dyrnar ekki að fullu lokuðar. Kemur og þar fram, að fyrirsvarsmaður stefnanda hafi talið að gleymst hefði að loka glugganum, er starfsfólk hefði yfirgefið vinnustaðinn hinn 15. júní 2001. Samkvæmt lögregluskýrslunni hefur því ekki verið nægjanlegt að glugginn hafi verið opinn og festur aftur með stormjárni til þess að komast inn í húsið heldur hefur þurft að skrúfa hann lausan. Þá liggur og fyrir að gluggi þessi var í töluverðri hæð frá jörðu. Þegar þetta er virt verður hvorki talið að húsið hafi verið ólæst né að aðgát starfsmanna stefnanda hafi verið óeðlileg og með þeim hætti að firri stefnanda bótarétti úr vátryggingunni.
Með vísan til framanritaðs er ekki fallist á málsástæður stefnda, og verður því krafa stefnanda tekin til greina og stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda endanlegar dómkröfur hans, eins og þeim var breytt við munnlegan málflutning.
Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til þess að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 450.000 krónur.
Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands, greiði stefnanda, Írafári ehf., 5.598.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 18. júlí 2001 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 450.000 krónur í málskostnað.