Hæstiréttur íslands

Mál nr. 43/2010


Lykilorð

  • Félag
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Skaðabótaskylda


                                                        

Fimmtudaginn 3. júní 2010.

Nr. 43/2010.

Jens Líndal Bjarnason

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

gegn

Vörubílstjórafélaginu Þrótti

(Jóhannes Ásgeirsson hrl.)

Félög. Lögvarðir hagsmunir. Skaðabótaskylda.

J höfðaði mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu V vegna ætlaðrar ólögmætrar brottvikningar hans úr félaginu. Talið var að J hefði leitt nægar líkur að því að brottvikning hans úr félaginu hefði valdið honum tjóni, sem fælist í tekjumissi. Hvað varðaði lögmæti þeirrar ákvörðunar V að víkja J úr félaginu var vísað til þess að ósannað væri að J hefði átt þess kost að koma sjónarmiðum sínum að áður en honum var tilkynnt að hann ætti ekki lengur aðild að félaginu. Þá hefði J ekki verið gefinn kostur á að bera mál sitt  undir félagsfund, eins og lög félagsins miðuðu við er víkja ætti félagsmanni úr félaginu. Vegna þessara ágalla á málsmeðferðinni var fallist á að brottvikning J úr V hafi verið saknæm og ólögmæt og fallist á að V bæri skaðabótaábyrgð vegna þess tjóns sem leiddi af brottvikningu hans úr félaginu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. 

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. janúar 2010. Hann krefst viðurkenningar á  skaðabótaskyldu stefnda vegna tjóns sem hann hafi hlotið af brottvikningu úr félaginu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Mál þetta höfðar áfrýjandi til viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda vegna ætlaðrar ólögmætrar brottvikningar hans úr hinu stefnda félagi, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í héraðsstefnu tilgreinir áfrýjandi tjón sitt með tvennum hætti. Annars vegar svo, að hann hafi ekki getað keypt vörubifreið á ný innan þeirra tímamarka, sem skattalög geri að skilyrði fyrir því að fresta megi skattlagningu söluhagnaðar eldri bifreiðar. ,,Krafði því skattstjórinn í Reykjavík [áfrýjanda] um söluhagnað vegna sölunnar, sbr. 14. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt ...“. Kveðst áfrýjandi því hafa þurft að greiða 846.211 krónur í skatt vegna söluhagnaðar af bifreið þeirri, sem hann seldi vegna veikinda sinna í maí 2005. Hins vegar kveðst áfrýjandi hafa orðið fyrir tjóni ,,í formi beins tekjutaps“. Stefndi byggir á því í héraðsgreinargerð sinni að ekki sé vikið að því í stefnu og engin gögn lögð fram sem gefi ,,til kynna að [áfrýjandi] hafi orðið fyrir tjóni.“ Stefndi telur að áfrýjandi hafi hætt sem félagsmaður í stefnda og reisir þá afstöðu einkum á 23. gr. laga félagsins, eins og þeim var breytt 28. júní 2004.

Í héraðsdómi er ekki fjallað skýrlega um þá málsástæðu stefnda að áfrýjandi hafi ekki leitt nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni svo að uppfyllt teljist skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 til að geta gert viðurkenningarkröfu sína í málinu. Álykta má þó af umfjöllun dómsins um ágreining aðila um lögmæti brottvikningar áfrýjanda úr stefnda, að dómurinn hafi hafnað framangreindri málsástæðu stefnda. Verður ágalli á héraðsdóminum sem að þessu lýtur því ekki talinn slíkur að næg ástæða sé til að ómerkja meðferð málsins í héraði hans vegna.

Ekki verður talið að um sé að ræða tjón í skilningi skaðabótaréttar þótt áfrýjandi gæti ekki nýtt heimild 14. gr. laga nr. 90/2003 til að fresta greiðslu skatts á söluhagnað bifreiðar sinnar. Telja verður á hinn bóginn að áfrýjandi hafi leitt nægar líkur að því að brottvikning hans úr félaginu hafi valdið honum tjóni, sem felst í tekjumissi.

II

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi hafði áfrýjandi verið félagsmaður í stefnda frá 1987. Átti hann vörubifreið sem hann gerði út frá stöð stefnda, en stefndi var félag um rekstur vörubifreiðastöðvar og jafnframt hagsmunafélag þeirra, sem aðild áttu að því. Stefndi hafði innan sinna vébanda sjúkra- og styrktarsjóð í þágu félagsmanna sinna.

Áfrýjandi kveðst hafa veikst og orðið óvinnufær vorið 2005 og ,,lagði inn atvinnuleyfi sitt“ til stefnda. Af hálfu stefnda er því haldið fram að áfrýjandi hafi ekki tilkynnt félaginu um veikindi sín á árinu 2005. Ekki er umdeilt að stefndi krafði áfrýjanda um 25% stöðvar- og félagsgjalda mánaðarlega fram til ársloka 2005, er stefndi hætti að senda áfrýjanda greiðslutilkynningar. Ekki er upplýst hvernig sú ákvörðun var tekin á vettvangi stefnda. Áfrýjandi afhenti starfsmanni stefnda og sjúkra- og styrktarsjóðs hans læknisvottorð 11. janúar 2006 ásamt umsókn um dagpeninga úr sjóðnum. Er umsóknin árituð um samþykki sjóðsins og að veittur sé styrkur í 90 daga.

Stefndi sendi áfrýjanda bréf 1. mars 2006 þar sem sagði: ,,Samkvæmt lögum Vörubílstjórafélagsins Þróttar (gr. 23) er bílstjóra heimilt að halda réttindum sínum í allt að 5 mánuði frá innlögn leyfis með því að greiða tilskilin gjöld. Þar sem sá tími er útrunninn fyrir nokkru síðan og ákveðið var að hætta innheimtu umræddra gjalda frá síðustu áramótum lítur stjórn félagsins svo á, að þú sért hættur sem félagsmaður í Þrótti og njótir þar með engra félagsréttinda bæði gagnvart V.b.f. Þrótti og Sjúkra- og styrktarsjóði Þróttar.“

Áfrýjandi svaraði bréfinu 9. mars 2006 og óskaði meðal annars eftir að stefndi endurskoðaði ákvörðun sína þar sem stefndi ,,sviptir mig öllum félagsréttindum“ og að hann mætti halda þeim sér að kostnaðarlausu. Óskaði áfrýjandi skriflegs svars við beiðninni en við því varð stefndi ekki. Málsaðilar deila um lögmæti framangreindrar ákvörðunar stefnda.

III

Í 23. gr. laga stefnda, eftir breytingar 28. júní 2004, segir: ,,Selji félagsmaður bifreið sína eða hætti rekstri hennar um stundarsakir getur félagsmaður sótt um niðurfellingu á hluta af stöðvar- og félagsgjöldum til stjórnar félagsins. Aldrei skal leyfa slíka innlögn á stöðvarleyfi lengur en 5 mánuði á hverju almanaksári nema að um veikindi eða slys sé að ræða. Greiða skal 25% af stöðvar- og félagsgjöldum á meðan slík innlögn varir.“

Í 25. gr. laga stefnda er fjallað almennt um skyldur félagsmanna til að hlíta lögunum og um brottvikningu úr félaginu. Í 2. mgr. þessarar greinar segir: ,,Hverjum þeim félagsmanni, sem gerst hefur brotlegur, getur félagsstjórn svipt vinnuréttindum um takmarkaðan tíma eða vikið honum úr félaginu, ef brot er alvarlegt. Skjóta má slíkum úrskurði til næsta félagsfundar en ákvörðun félagsstjórnar gildir þar til félagsfundur hefur ákveðið annað.“

Eins og áður greinir er óupplýst hvort ákvörðun um að hætta innheimtu stöðvar- og félagsgjalda hjá áfrýjanda var tekin af stjórn félagsins eða ekki. Ekki er heldur upplýst hvenær sú ákvörðun stefnda var tekin, sem tilkynnt var áfrýjanda með bréfi 1. mars 2006, um að stjórnin liti svo á að áfrýjandi væri hættur sem félagsmaður í stefnda og nyti þar með engra félagsréttinda. Mikilsverðir hagsmunir áfrýjanda voru tengdir félagsaðild hans að stefnda og sjúkra- og styrktarsjóði félagsins. Veitti félagsaðildin áfrýjanda meðal annars rétt til að gera vörubifreið út frá stöð stefnda og fá þjónustu þaðan og aðstöðu. Ósannað er að áfrýjandi hafi átt þess nokkurn kost að koma að sjónarmiðum sínum áður en stefndi tilkynnti honum að hann ætti ekki lengur aðild að félaginu. Áfrýjanda var ekki gefinn kostur á að bera mál sitt undir félagsfund eins og 25. gr. laga stefnda miðar við er víkja á félagsmanni úr stefnda. Vegna þessara ágalla á málsmeðferðinni verður fallist á að brottvikning áfrýjanda úr stefnda hafi verið saknæm og ólögmæt. Verður fallist á að stefndi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni áfrýjanda sem leiðir af brottvikningu hans úr félaginu.

Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.   

Dómsorð

Viðurkennd er skaðabótaskylda stefnda, Vörubílstjórafélagsins Þróttar, á tjóni áfrýjanda, Jens Líndals Bjarnasonar, sem hlotist hefur af brottvikningu hans úr félaginu, er tilkynnt var 1. mars 2006.

Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti samtals 600.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var 8. október sl., var höfðað 10. mars sl. af Jens Líndal Bjarnasyni, [...], Reykjavík, gegn Vörubílstjórafélaginu Þrótti,  Sævarhöfða 12, Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði bótaskylda hins stefnda félags vegna tjóns sem hlotist hafi af ólögmætri brottvísun stefnanda úr félaginu. Jafnframt er krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt mati dómsins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en stefnanda var veitt gjafsókn 14. maí 2009.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

                Stefnandi starfaði sem vörubílstjóri og var félagsmaður hjá stefnda. Hann seldi vörubifreið sína vorið 2005 og greiddi stöðvargjöld til stefnda út árið. Stefnandi lýsti því fyrir dóminum að hann hefði farið með læknisvottorð á afgreiðslu stefnda í janúar 2006. Í bréfi stefnda til stefnanda 1. mars sama ár segir að samkvæmt 23. gr. í lögum stefnda     sé bílstjóra heimilt að halda réttindum sínum í allt að fimm mánuði frá innlögn leyfis með því að greiða tilskilin gjöld. Þar sem sá tími sé útrunninn fyrir nokkru og ákveðið að hætta innheimtu gjalda frá síðustu áramótum líti stjórn stefnda svo á að stefnandi sé hættur sem félagsmaður hjá stefnda og njóti þar með engra félagsréttinda, hvorki gagnvart stefnda né sjúkra- og styrktarsjóði stefnda.

Í málinu byggir stefnandi á því að hann hefði átt að halda stöðvarleyfinu, þar sem hann hafi verið frá störfum vegna veikinda, í stað þess að vera sviptur því sem hafi verið ólögmæt ákvörðun af hálfu stefnda. Stefnandi hafi þar með ekki getað nýtt starfsréttindi sín og orðið af þeim sökum fyrir tjóni sem stefndi beri ábyrgð á.

Þessu er mótmælt af hálfu stefnda sem telur að þar sem stefnandi hafi ekki sótt um að halda leyfinu lengur en í fimm mánuði hafi það fallið úr gildi.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að hann hafi verið vörubílstjóri og félags­maður í stefnda síðan 1987. Vorið 2005 hafi hann veikst og orðið óvinnufær. Vegna þessa hafi hann selt vörubifreið sína og lagt inn atvinnuleyfi sitt til hins stefnda félags. Stefnandi hafi lagt inn læknisvottorð til stefnda 11. janúar 2006 þar sem fram komi að hann hafi verið óvinnufær frá 15. júní 2005. Stefnandi hafi átt samskipti við skrifstofu­stjóra hjá stefnda um veturinn vegna fjarveru sinnar og hafi stefnandi talið niðurstöðuna af því þá að haft yrði samband við hann áður en eitthvað yrði aðhafst vegna fjarvista hans.

Stefnandi hafi komist til betri heilsu í febrúar 2006. Hann hafi þá haft í hyggju að festa kaup á annarri vörubifreið og hefja akstur að nýju. Til þess hafi honum hins vegar ekki gefist nægur tími því að með bréfi 1. mars s.á. hafi honum verið tilkynnt að stjórn stefnda liti svo á að hann væri hættur sem félagsmaður og nyti þar með engra félags­réttinda, hvorki gagnvart stefnda né sjúkra- og styrktarsjóði stefnda. Stefnandi telji að stjórn stefnda hafi ekki getað komist að þessari niðurstöðu þar sem fyrrgreint ákvæði kveði skýrlega á um að fimm mánaða tímamarkið gildi ekki ef um veikindi eða slys er að ræða.

Stefnandi hafi mótmælt niðurstöðu stjórnar stefnda með bréfi 9. mars s.á. Þar hafi hann sérstaklega tekið fram að vörubifreið hans hefði verið seld vegna heilsuleysis hans og að hann hefði lagt inn læknisvottorð því til staðfestingar.

Í bréfi lögmanns stefnda 20. júní 2007 komi fram að þar sem innlögn leyfis stefnanda hafi staðið lengur en fimm mánuði og engin gögn um veikindi lögð fram innan þeirra tímamarka hafi stefnandi misst réttindi sín í félaginu. Í framangreindu ákvæði segi ekkert um gögn sem sanni veikindi eða hvenær verði að leggja þau fram. Stefnandi telji þessi rök því fráleit, sérstaklega í ljósi þess að stefnda hafi verið fullljóst að stefnandi átti við veikindi að stríða.

Nokkrum dögum eftir yfirlýsingar stjórnar stefnda í bréfi 1. mars hafi sjúkra- og styrktarsjóður stefnda lagt 163.980 krónur inn á reikning stefnanda, þ.e. 9. mars s.á. Samkvæmt 17. gr. reglugerðar fyrir sjóðinn frá 2006 segi að sá sem óski greiðslna úr sjóðnum skuli leggja fram skriflega umsókn til sjóðsins ásamt nauðsynlegum gögnum, svo sem læknisvottorðum. Læknisvottorð stefnanda hafi því borist nógu tímanlega til að hann teldist eiga rétt á greiðslum úr sjúkra- og styrktarsjóði stefnda. Stefnanda hafi verið tilkynnt að öll réttindi hans teldust niður fallin gagnvart stefnda þar sem veikindi hans voru ekki viðurkennd. Á sama tíma hafi réttindi hans verið viðurkennd með greiðslu rúmlega 160.000 króna úr sjúkra- og styrktarsjóðnum vegna veikindanna. Stefnandi hafi lagt þann skilning í greiðsluna að með henni væru fyrri yfirlýsingar um réttleysi hans dregnar til baka.

Fullyrðingar stefnda, um að læknisvottorð hafi ekki borist innan tilskilinna tímafresta, sé í ljósi atvika málsins ómarktæk og að vettugi virðandi. Stefnandi hafi átt við veikindi að stríða og af þeim sökum hafi hann lagt inn atvinnuleyfi sitt í þeirri von að úr rættist. Sjúkra- og styrktarsjóður stefnda hafi viðurkennt þau veikindi og því ljóst að ákvörðun stjórnar stefnda, um að víkja stefnanda úr félaginu á grundvelli 23. gr. laga félagsins, hafi verið ólögmæt.

Stefnandi hafi selt vörubifreið sína í maí 2005. Hann hafi óskað eftir því á skattframtali fyrir gjaldárið 2006 að hagnaði af sölu hennar yrði frestað um tvenn áramót frá söludegi enda hafi ávallt staðið til af hans hálfu að kaupa aðra vörubifreið til að stunda atvinnu sína þegar heilsan leyfði. Þar sem stefnanda hafi verið vikið úr félagi stefnda hafi hann ekki haft tilskilin leyfi til að starfa sem vörubílstjóri og því ekki getað aflað sér vörubifreiðar innan tilskilinna skattalegra tímamarka. Skatt­stjóri hafi því krafið stefnanda um söluhagnað vegna sölunnar, sbr. 14. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Stefnandi hafi því þurft að borga samtals 846.211 krónur til tollstjóra síðari hluta árs 2008. Hér sé um að ræða beint fjárhagslegt tjón af völdum ólögmætrar ákvörðunar stefnanda og beri stefndi ábyrgð á tjóninu.

Stefnandi hafi ítrekað reynt að ná sáttum í málinu og fá hlut sinn réttan en án árangurs. Hann hafi leitað til lögmanns og með bréfum 15. mars 2007 og 23. apríl s.á. hafi verið óskað eftir afstöðu stefnda til að hefja viðræður um friðsamlega lausn málsins. Lögmaður stefnda hafi svarað í bréfi 24. maí s.á. að stefnanda bæri að sækja um aðild að stefnda að nýju og þannig yrði málið leyst. Stefnandi haldi því þvert á móti fram að vegna reglna um aldurshámark megi ætla að umsókn hans yrði hafnað og hafi stefnandi, m.a. vegna þess, ekki sótt um að nýju. Í lögum stefnda sé ekki að finna neitt aldurs­hámark og gildi ákvæði reglugerðar nr. 397/2003 um leigubifreiðar um það atriði. Í reglugerðinni sé miðað við 76 ára aldur sem hámarksaldur til atvinnuleyfis til leiguaksturs, sbr. 8. gr. Stefnandi hefði því átt rétt á að vera í stefnda fram í miðjan janúar 2009, að skilyrðum reglugerðarinnar uppfylltum.

Nýir meðlimir hafi þurft að greiða fyrir aðgang að félaginu um 400.000 krónur við inngöngu áður en félagaforminu var breytt árið 2007. Jafnvel þótt aldurstakmörk nýrra meðlima hefðu ekki komið í veg fyrir inngöngu stefnanda að nýju þá hefði hin ólögmæta ákvörðun stjórnar stefnda ávallt leitt til fjárhagslegs tjón fyrir stefnanda. Af þeirri ástæðu hafni stefnandi því að ný umsókn hans að stefnda hefði leyst málið.

Með vísan til alls ofangreinds og 23. gr. laga félagsins telji stefnandi ákvörðun stjórnar stefnda, um að fella brott aðild stefnanda að félaginu, ólögmæta. Því sé hið stefnda félag skaðabótaskylt vegna fjárhagslegs skaða sem ákvörðunin hafi valdið stefnanda. Tjónið komi ekki aðeins fram í formi beins tekjutaps, heldur hafi þetta einnig leitt til annars konar fjárhagslegs tjóns, meðal annars skattalegs eðlis.

                Stefnandi byggi kröfu sína á lögum stefnda, reglugerð fyrir sjúkra- og styrktar­sjóð stefnda, reglugerð nr. 397/2003 og almennum reglum skaðabótaréttarins.

Málsástæður og lagarök stefnda

Málsatvikum er af hálfu stefnda lýst þannig að félagið sjái um rekstur vörubílastöðvar. Tilgangur þess sé m.a. að gæta hagsmuna félagsmanna og starfrækja þjónustumiðstöð. Fyrir þjónustu við félagsmenn innheimti stefndi ákveðið gjald.

Starfsemi stefnda byggi á lögum sem félagsmenn verði að samþykkja þegar þeir verði meðlimir í stefnda. Í lögunum séu ýmsar kvaðir og skilyrði sem félagsmenn verði að uppfylla ætli þeir að njóta fullra réttinda. Að öllu jöfnu sé mikil ásókn í starfsleyfi hjá stefnda og því brýnt að fulls jafnræðis sé gætt og að allir sitji við sama borð og hlíti þeim reglum sem stefndi starfi eftir. Í 26. gr. laga stefnda frá 28. júní 2004 komi skýrt fram að tekjur stefnda séu félagsgjöld og afgreiðslugjald sem félagsmönnum beri að greiða á ákveðnum gjalddögum.

Í gegnum tíðina hafi lög stefnda sætt ýmsum breytingum sem taki mið af breyttum þörfum félagsmanna og starfsemi félagins. Í 23. gr. laga félagsins frá árinu 2002 hafi sagt: „Selji félagsmaður bifreið sína eða hættir rekstri hennar um stundarsakir og láti afskrá bifreiðina er honum heimilt að halda réttindum sínum í allt að eitt ár gegn því að greiða tilskilin gjöld.“ Þá hafi í sömu lögum verið heimildar­ákvæði í 21. gr. sem hafi hljóðað þannig: „Nú færir félagsmaður skriflega sönnur á að hann geti ekki ekið bifreið sinni sökum sjúkleika eða annarra gildra ástæðna, en óskar að starfrækja bifreiðina, þá heimilar stjórn félagsins að veita slíka undanþágu.“ Á árinu 2004 hafi 23. gr. verið breytt og sé hún þannig: „Selji félagsmaður bifreið sína eða hættir rekstri hennar um stundarsakir getur félagsmaður sótt um niðurfellingu á hluta af stöðvar- og félagsgjöldum til stjórnar félagsins. Aldrei skal leyfa slíka innlögn á stöðvarleyfi lengur en 5 mánuði á hverju almanaksári nema að um veikindi eða slys sé að ræða. Greiða skal 25% af stöðvar- og félagsgjöldum á meðan slík innlögn varir.“ Með þessari breytingu hafi verið styttur sá tími sem félagsmönnum hafi verið heimilt að leggja inn stöðvarleyfið. Jafnframt hafi verið opnað á þann möguleika að æsktu menn lengri frests vegna veikinda sinna eða slyss þyrftu þeir að sækja um framleng­ingu með framlagningu læknisvottorða innan fimm mánaða.

Stefnandi hafi verið fullgildur félagsmaður í stefnda. Hann hafi tilkynnt skrifstofu stefnda í maíbyrjun 2005 að hann hefði selt vörubifreið sína og legði inn stöðvarleyfi sitt um ótiltekinn tíma. Hann hafi verið tvístígandi um hvort hann ætlaði að hætta rekstri en ákvað að nýta sér heimildarákvæðið í lögum stefnda um allt að fimm mánaða innlögn stöðvarleyfis. Stefnandi hafi á þeim tíma ekki greint frá veikindum sínum.

Mánuðir hafi liðið og starfsfólk stefnda hafi ítrekað leitað eftir því við stefnanda að hann tæki ákvörðun um stöðu sína innan félagsins, annars ætti hann á hættu að vera vísað úr stefnda, sem hafi reyndar komið á daginn. Stefnandi hafi sent sjúkra- og styrktarsjóði stefnda læknisvottorð 11. janúar 2006 vegna réttinda sem hann hafi talið sig eiga í sjóðnum. Stjórn sjóðsins hafi orðið við beiðni stefnanda enda hafi hún talið komið að starfslokum hjá honum. Afstaða stjórnarinnar komi þó máli þessu ekki við, enda sé hún ekki aðili að því. Sjóðurinn lúti sérstakri stjórn, hafi kennitölu og starfi samkvæmt sérstakri reglugerð. Framlagning læknis­vottorðs til sjóðsins jafngildi því ekki framlagningu til stefnda.

Stjórn stefnda hafi ákveðið um áramótin 2005 og 2006 að krefja stefnanda ekki lengur um tilskilin gjöld, en þá hafi átta mánuðir verið liðnir frá því að stefnandi lagði inn stöðvarleyfi sitt. Enn og aftur hafi starfsmenn stefnda ítrekað að stefnandi þyrfti að taka ákvörðun um framtíð sína í félaginu því annars missti hann félagsréttindi sín. Þrátt fyrir þetta hafi stefnandi ekkert aðhafst. Stefnandi hafi ekki átt vörubifreið og ekki lagt fram læknisvottorð um heilsufar sitt. Engin breyting hafi orðið á og með bréfi 1. mars 2006 hafi stefnanda verið tilkynnt, með vísun til laga félagsins og aðgerðarleysis hans, að stjórn stefnda liti svo á að hann væri hættur sem félagsmaður, en þá hafi verið liðnir tíu mánuðir frá því að stefnandi lagði inn stöðvarleyfi sitt.

Með bréfi 14. mars 2006 hafi stefnandi óskað eftir endurskoðun á ákvörðun stjórnar stefnda. Erindi stefnanda hafi verið hafnað enda hafi stjórn stefnda talið sér skylt að hlíta lögum félagsins. Með beiðni stefnanda hafi hvorki fylgt læknisvottorð um heilsufar hans né fyrirætlun um að kaupa vörubifreið.

Stefnandi hafi leitað til lögmanns sem átt hafi í bréfaskriftum við lögmann stefnda. Lögmaður stefnda hafi hvatt stefnanda til að sækja um félagsaðild að nýju á miðju ári 2006, en óhjákvæmilegt skilyrði væri að hann hefði umráð vörubifreiðar. Engin viðbrögð hafi orðið við því fyrr en með bréfi lögmanns stefnanda 12. júní 2007 og hafi því verið svarað með bréfi 20. sama mánaðar. Ekkert hafi síðan gerst í máli þessu fyrr en með birtingu stefnu 10. mars 2009, en þá hafi verið liðin rúm 3 ár frá tilkynningu stefnda um að stefnandi væri ekki lengur félagsmaður.

Í stefnu sé vísað til laga stefnda frá janúar 2007, en þegar mál þetta hófst hafi verið í gildi lög félagsins sem samþykkt voru á aðalfundi 28. júní 2004. Í þeim lögum hafi ekkert ákvæði verið um aldursmörk og hafi aldur stefnanda því ekki verið því  til fyrirstöðu að hann sækti um félagsaðild að nýju. Stefndi mótmæli því að tjón stefnanda megi rekja til skattlagningar á söluhagnaði en það sé ekki tengt ákvörðun stjórnar stefnda og málatilbúnaður stefnanda um það illskiljanlegur. Ekkert liggi fyrir í málinu hvernig fyrningu bifreiðarinnar hafi verið háttað, hvort stofnverð hennar hafi verið lækkað vegna eldri skattlagningar eða flýtifyrnd. Stefnanda hafi verið í lófa lagið að kaupa sér vörubifreið innan þeirra tímamarka sem ákvörðuð eru varðandi skattlagningu á söluhagnaði. Þá sé í stefnu ekki reynt að sýna fram á að stefnandi hafi orðið fyrir tekjutapi vegna ákvörðunar stefnda, t.d. með framlagningu skattframtala, og engin gögn lögð fram er gefi minnstu vísbendingar um það.

Stefndi vísi til laga félagsins frá 28. júní 2004, einkum 23. gr., sem taki af öll tvímæli um að æski félagsmenn lengri frests en fimm mánuði þurfi þeir að sækja um það og leggja fram með umsókn tilskilin gögn. Lagaákvæði félagsins verði ekki túlkuð eftir þörfum sérhvers félagsmanns. Þess verði að gæta sérstaklega að leik­reglum félagsins, sem fram komi í lögum þess, sé fylgt svo að fulls jafnræðis sé gætt meðal félagsmanna. Félagsmenn séu að öllu jöfnu vel upplýstir um réttindi sín og skyldur. Tillögur um lagabreytingar séu lagðar fram á aðalfundi og teknar til af­greiðslu á næsta aðalfundi. Stefnandi hafi verið vel að sér um málefni félagsins og hafi m.a. verið í kjörstjórn þegar lagabreytingin var samþykkt, um að stytta heimild félagsmanna til að leggja inn stöðvarleyfi úr einu ári, sbr. 23. gr. laga stefnda frá 23. apríl 2002 niður í fimm mánuði, sbr. 23. gr. laga stefnda frá 28. júní 2004. Starfsmenn stefnda hafi ítrekað gert stefnanda grein fyrir stöðu hans gagnvart stefnda.

Í stefnu sé ekki með neinum hætti vikið að því og engin gögn lögð fram sem gefi til kynna að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni. Útilokað sé að gera stefnda ábyrgan fyrir ákvæðum skattalaga um söluhagnað. Stefndi vísi enn fremur til aðgerðarleysis stefnanda og tómlætis.

                Niðurstaða

Krafa stefnanda í málinu er byggð á því að ákvörðun stjórnar stefnda um að vísa honum úr stefnda hafi verið ólögmæt. Stefnandi hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna þessa en stefndi beri ábyrgð á því.

Stefnandi lýsti því fyrir dóminum að hann hefði lagt inn stöðvarleyfið hjá stefnda þegar hann seldi vörubifreið sína í maí 2005. Hann hafi greitt stöðvargjöld til áramóta. Í janúar 2006 hafi hann lagt inn læknisvottorð á afgreiðslu stefnda en hann hafi verið óvinnufær frá 15. júní 2005. Læknisvottorðið hafi hann lagt inn til að halda réttindum sínum hjá stefnda. Stefnandi kvaðst hafa orðið vinnufær aftur á árinu 2006. Hann hafi ætlað að kaupa aðra vöru­bifreið í mars eða apríl það ár en þá hafi hann verið búinn að fá bréfið frá stjórn stefnda um að hann væri ekki lengur félagsmaður og hafi þá ekkert orðið úr því.

Framkvæmdastjóri stefnda lýsti því fyrir dóminum að um haustið 2005 hafi hann bent stefnanda á að hann þyrfti að vera með bifreið til að halda réttindum sínum hjá stefnda. Stefnanda hafi m.a. verið bent á það á félagsfundi í nóvember að tíminn væri að renna út og senn kæmi að því að hann missti leyfið. Að liðnum tíu mánuðum frá því að stefnandi lagði inn leyfið hafi honum verið sent bréf um að stjórn stefnda liti þannig á að hann hefði ekki lengur réttindi. Engin viðbrögð hafi komið frá stefnanda við fyrirspurnum stefnda við því hvort hann ætlaði að koma aftur með bifreið á stöðina, en menn geti ekki haldið réttindum sínum út í hið óendanlega. Undanþágur vegna réttindanna væri hægt að veita í veikinda- og slysatilfellum en engar upplýs­ingar um veikindi stefnanda hafi komið fram fyrr en í janúar 2006 þegar hann kom með læknisvottorðið.

Skrifstofustjóri stefnda skýrði frá því fyrir dóminum að stefnandi hefði beðið um að hann yrði látinn vita þegar fimm mánaða tíminn væri liðinn. Það hafi verið gert á félagsfundi í nóvember 2005 þegar honum hafi verið sagt að bráðum fengi hann bréf um að hann hefði ekki lengur réttindi í félaginu. Skrifstofustjórinn kvaðst ekkert hafa vitað af veikindum stefnanda fyrr en hann kom með læknisvottorð í janúar 2006. Stefnandi hafi sótt um sjúkradagpeninga þegar hann kom með læknisvottorðið og fyllt út eyðublað til sjúkra- og styrktarsjóðs. Ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að stefnandi kæmi aftur til starfa að uppfylltum skilyrðum. Stefnandi hafi lagt inn leyfið í maí 2005 og honum hafi verið gert kunnugt að hann þyrfti að gera ráðstafanir til að halda leyfinu lengur en í fimm mánuði. Ekkert læknisvottorð hafi legið fyrir þegar stefnandi var látinn vita í nóvember 2005 að hann þyrfti að gera ráðstafanir til að halda leyfinu.        

Samkvæmt 2. gr. laga stefnda frá 28. júní 2004 geta þeir einir orðið félags­menn í stefnda sem eiga vörubifreið eða hafa hana á kaupleigu og hafa það að aðal­atvinnu að aka henni sjálfir. Ágreiningslaust er í málinu að stefnandi seldi vörubifreið sína í maí 2005 og átti aldrei vörubifreið eftir það. Einnig er ágreinings­laust í málinu að stefnandi var veikur frá 15. júní 2005 fram á árið 2006. Hann greiddi ekki félags- eða stöðvargjöld til stefnda eftir 1. janúar 2006 en lagði inn læknis­vottorð hjá stefnda 11. janúar það ár. Félagsmaður getur sótt um niðurfellingu á hluta af stöðvar- og félags­gjöldum til stefnda ef hann selur bifreið sína eða hættir rekstri hennar um stundarsakir eins og fram kemur í 23. gr. laga stefnda. Þar segir enn fremur að aldrei skuli leyfa slíka innlögn á stöðvarleyfi lengur en fimm mánuði á hverju almanaks­ári nema um veikindi eða slys sé að ræða og að greiða skuli 25% af stöðvar- og félagsgjöldum á meðan slík innlögn varir.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að stefnandi hafi leitað eftir því sérstak­lega að halda réttindum hjá stefnda vegna veikinda lengur en þá fimm mánuði sem vísað er til í 23. gr. laga stefnda. Læknisvottorð eða innlögn þess hjá stefnda verður ekki talið jafngilda erindi til stjórnar stefnda um lengri innlögn leyfisins en almenna reglan segir til um, enda ber ljósrit læknisvottorðsins, sem stefnandi vísar til, með sér að því hefur fylgt umsókn til sjóðsstjórnar um bætur. Ljósritið sýnir að umsóknin er dagsett 11. janúar 2006 og undirrituð af stefnanda. Einnig kemur fram í bréfi stefnanda til stjórnar stefnda 9. mars s.á. að hann hafi lagt inn læknisvottorð 11. janúar s.á. til sjúkra- og styrktarsjóðs. Staðhæfingar stefnanda, um að honum hafi verið sagt að haft yrði sam­band við hann áður en eitthvað yrði aðhafst vegna fjarvista hans, eru engum gögnum studdar. Með vísan til þessa verður að telja ósannað að stefnandi hafi leitað eftir því við stefnda að hann héldi réttindunum lengur en fimm mánuði. Einnig er ósannað að stefnanda hafi verið sagt að haft yrði samband við hann áður en eitthvað yrði aðhafst vegna fjarvista hans.

Þegar litið er til alls þessa verður að telja að stjórn stefnda hafi verið rétt að líta svo á að stefnandi uppfyllti ekki lengur skilyrði til að vera félagsmaður í stefnda þegar stjórnin tók ákvörðun 1. mars 2006 um að stefnandi nyti ekki lengur réttinda í stefnda og væri ekki lengur félagsmaður þar. Með vísan til þess sem fram hefur komið í málinu og hér hefur verið rakið þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að brotnar hafi verið reglur af hálfu stefnda þegar sú ákvörðun var tekin. Greiðsla úr sjúkra- og styrktarsjóði stefnda 9. mars 2006 breytir ekki þessari niðurstöðu, enda var sú greiðsla innt af hendi eftir að hin umdeilda ákvörðun stefnda var tekin.

Að þessu virtu getur krafa stefnanda í málinu ekki náð fram að ganga og ber að sýkna stefnda af henni.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Arnars Þórs Jónssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 250.000 krónur án virðisaukaskatts.

Rétt þykir að málskostnaður milli málsaðila falli niður.

Málið dæmir Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Vörubílstjórafélagið Þróttur, er sýknað af kröfum stefnanda, Jens Líndals Bjarnasonar, í máli þessu.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Arnars Þórs Jónssonar hdl., 250.000 krónur.