Hæstiréttur íslands
Mál nr. 585/2014
Lykilorð
- Gjaldtaka
- Endurgreiðsla
- Höfundarréttur
- Fyrirvari
|
|
Fimmtudaginn 7. maí 2015. |
|
Nr. 585/2014.
|
MBV ehf. (Reimar Pétursson hrl.) gegn IHM, innheimtumiðstöð gjalda (Tómas Jónsson hrl.) |
Gjaldtaka. Endurgreiðsla. Höfundaréttur. Fyrirvari.
M ehf. krafðist þess að I yrði gert að endurgreiða höfundarréttargjöld sem innheimt voru á árunum 2009 til 2013 á grundvelli 11. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 2. gr. laga nr. 60/2000, vegna geisladiska sem M ehf. flutti til landsins. Aðilar deildu um hvort I væri heimilt að innheimta gjaldið vegna geisladiskanna, svo og hvort og ef svo væri að hve miklu leyti M ehf. bæri endurgreiðsla á þeim gjöldum sem hann hafði innt af hendi. Hæstiréttur taldi að virtum lögskýringargögnum laga nr. 78/1984, sem leiddu áðurgreinda gjaldtöku í höfundalög, að gengið hefði verið út frá því að gjald fyrir upptöku verka höfunda til einkanota yrði endurgreitt af tækjum og böndum ef sönnur yrðu færðar á að þau væri ekki notuð til upptöku á höfundaréttarvörðu efni. Þá taldi rétturinn að ekki yrði séð að lög nr. 60/2000 hefðu breytt eldra réttarástandi á þann veg að fortakslaust væri kveðið á um gjaldskylduna þannig að ekki bæri að endurgreiða gjald í þeim tilvikum er hlutir, í hvaða formi sem er, væru sannanlega ekki notaðir til upptöku verka höfunda. Vísaði rétturinn til þess að tilgangur höfundalaga væri að vernda höfundarétt og að sú tækni sem leitt hefði til skerðingur á endurgjaldi til höfunda vegna afritunar á höfundaréttarvörðu efni hefði einnig gert það mögulegt að nota sömu tækni til óskyldrar starfsemi, en ekki stæði lagaheimild til að gera síðargreindri starfsemi að bæta höfundum tap vegna einkanota á verkum þeirra. Með því að ágreiningslaust var að geisladiskar þeir sem málið varðaði væru ekki yfirskrifanlegir og yrðu ekki nýttir til upptöku á höfundaréttarvörðu efni bæri M ehf. réttur til endurgreiðslu vegna gjalda sem af honum höfðu verið tekin vegna geisladiskanna á grundvelli 3. mgr. 11. gr. höfundalaga. M ehf. var á hinn bóginn talinn hafa glatað endurkröfurétti sínum vegna áranna 2009 og 2010 sökum þess að hann hafði fyrst gert kröfu um endurgreiðslu um miðbik ársins 2006, sem I hafnaði síðar sama ár, en áfram greitt gjaldið án fyrirvara allt þar til hann setti á ný fram kröfu um endurgreiðslu árið 2011. Var fjárkrafa M ehf. því tekin til greina að hluta.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Hjördís Hákonardóttir fyrrverandi hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. september 2014. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 3.173.730 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. janúar 2010 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Við meðferð málsins í héraði var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
I
Málavöxtum, málsástæðum og lagarökum aðilanna er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir gerir áfrýjandi kröfu um að stefndi endurgreiði sér höfundarréttargjöld sem innheimt voru á árunum 2009 til og með 2013 vegna geisladiska sem hann flutti til landsins. Stefndi reisir heimild sína til gjaldtökunnar á 11. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 2. gr. laga nr. 60/2000. Samkvæmt 6. mgr. 11. gr. höfundalaga hefur stefndi með höndum innheimtu gjaldanna og ráðstöfun þeirra, en hann hefur falið tollstjóra samkvæmt sömu lagaheimild að annast innheimtu á þeim hluta gjaldanna er falla til vegna innflutnings geisladiska, sem áfrýjandi flytur inn til landsins. Óumdeilt er að diska þá sem um ræðir seldi áfrýjandi unna, skrifaða eða áletraða, til einstaklinga, fyrirtækja eða stofnana. Eru kaupendur diskanna annars vegar þeir sem nota þá ekki til vörslu höfundaréttarvarins efnis en hins vegar þeir sem nota diskana til útgáfu á slíku efni sem þeir eiga sjálfir höfundarétt eða útgáfurétt á.
Eins og rakið er í héraðsdómi snýst ágreiningur málsaðila um hvort stefnda sé heimilt að innheimta gjald vegna þeirra innfluttu geisladiska, sem nýttir eru í þjónustu- og framleiðslustarfsemi áfrýjanda og að hve miklu leyti áfrýjandi eigi rétt á endurgreiðslu þess gjalds sem hann hefur innt af hendi.
II
Umrætt gjald kom fyrst inn í höfundalög með 1. gr. laga nr. 78/1984 um breytingu á þeim lögum, þar sem bætt var við nýrri 2. mgr. 11. gr. höfundalaga sem var svofelld: „Höfundar verka, sem útvarpað hefur verið eða gefin hafa verið út á hljóðriti eða myndriti, eiga rétt á sérstöku endurgjaldi vegna upptöku verka þeirra á hljóð- eða myndbönd til einkanota með heimild í 1. mgr. þessarar greinar. Greiða skal gjald af tækjum til upptöku verka á hljóð- og myndbönd til einkanota, svo og af auðum hljóð- og myndböndum og öðrum böndum sem telja má ætluð til slíkra nota. Gjaldið skal greitt af tækjum og böndum sem flutt eru til landsins eða framleidd eru hér á landi og hvílir skylda til að svara gjaldi þessu á innflytjendum og framleiðendum. Gjald af tækjum nemi 4% af innflutningsverði eða framleiðsluverði ef um innlenda framleiðslu er að ræða. Gjald af auðum hljóðböndum nemi kr. 10,00, en kr. 30,00 ef um auð myndbönd er að ræða. Menntamálaráðherra setur nánari reglur um gjald þetta, þ. á m. um verðtryggingu gjaldsins.“
Í athugasemdum með frumvarpi til laganna sagði meðal annars að tækniframfarir á síðari árum hefðu haft í för með sér stórfellda röskun á hagsmunum og réttindum höfunda, listflytjenda og annarra rétthafa samkvæmt höfundalögum. Frá sjónarmiði höfundaréttar væru ofangreind not með tvennum hætti. Í fyrsta lagi væri um að ræða einkanot, sem lögmæt og heimil væru samkvæmt 11. gr. höfundalaga. Svo mikið kvæði hins vegar að slíkum notum að ekki yrði lengur ætlast til þess að höfundar yndu því bótalaust. Væri með frumvarpinu gert ráð fyrir að lagt yrði sérstakt gjald á tæki og tilfæringar til upptöku verka á hljóðbönd eða myndbönd í þágu einkanota en heimil einkanot yrðu ekki þrengd frá því sem væri í lögum. Í öðru lagi hefðu ýmiss konar ólögmæt not af verkum höfunda farið sívaxandi. Yrði af þeim sökum að gera ráðstafanir til að auka vernd höfundaréttinda. Jafnframt sagði meðal annars svo um meginefni og forsendur fyrir upptöku gjaldsins: „Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því, að ofangreint gjald verði bæði greitt af tækjum og af böndum, sem nota má til upptöku verka í þágu einkanota. Slíkt gjald verður að sjálfsögðu ekki heimt af böndum, sem geyma verk, er rétthafar hafa þegið greiðslu fyrir. Sömuleiðis er gengið út frá því, að tæki og bönd séu undanþegin gjaldi eða innheimt gjald verði endurgreitt, ef sönnur eru færðar á, að tæki eða bönd séu ekki notuð til upptöku verka vegna einkaþarfa, svo sem diktafónar og hljóðbönd fyrir slík tæki. Hins vegar er ekki fært að láta það breyta neinu um gjaldskyldu, þótt í einstaka tilvikum sé sýnt fram á, að ekki hafi verið um upptöku verndaðra verka að ræða, ef einkanot liggja engu að síður fyrir. Menntamálaráðuneytinu er ætlað að setja nánari reglur um gjaldið, þar á meðal um viðmiðun þess og fjárhæð, að undangengnum samningaviðræðum við hagsmunasamtök rétthafa og við framleiðendur og innflytjendur.“
Með 2. gr. laga nr. 60/2000 var ákvæðum 3. mgr. 11. gr. höfundalaga breytt í gildandi horf. Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. skal sérstakt endurgjald til höfunda vegna upptöku höfundaverka til einkanota ná til upptöku „á bönd, diska, plötur eða aðra þá hluti, í hvaða formi sem er, sem taka má upp á hljóð og/eða myndir með hliðrænum eða stafrænum hætti.“ Enn fremur skal greiða endurgjald „af tækjum sem einkum eru ætluð til slíkrar upptöku.“ Þá segir svo í 4. mgr. greinarinnar um fjárhæð gjaldsins: „Gjöld skv. 3. mgr. skulu nema: 1. Af tækjum skal endurgjaldið vera 4% af innflutningsverði eða framleiðsluverði ef um innlenda framleiðslu er að ræða. 2. Af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum til upptöku hljóðs eingöngu skal gjaldið nema 35 kr. 3. Af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum til upptöku mynda, eftir atvikum ásamt hljóði, skal gjaldið nema 100 kr. 4. Gjöld skv. 2. og 3. tölul. eru miðuð við að lengd flutningstíma sé allt að 180 mínútur fyrir hluti til hljóðupptöku og allt að 240 mínútur fyrir hluti til myndupptöku. Sé flutningstími lengri hækkar gjaldið hlutfallslega sem því nemur.“
Loks er kveðið á um í 5. mgr. 11. gr. að ráðherra skuli setja nánari reglur um gjöld samkvæmt 3. og 4. mgr. „þar á meðal af hvaða hlutum og tækjum gjöldin skuli greidd.“ Þá segir: „Lækka má fjárhæðir, sem greindar eru í 4. mgr., af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum ef ætla má að einungis hluti þeirra sé ætlaður til upptöku skv. 3. mgr.“
Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 60/2000 kom fram að breyting með þeim væri einkum gerð til að aðlaga lögin tilskipunum Evrópuréttar, en jafnframt sagði að það væri fyrirsjáanlegt að hið fyrsta þyrfti að breyta ákvæðum laganna varðandi gjöld fyrir upptöku verka til einkanota til samræmis við gjörbreytta upptökutækni.
Í 1. gr. reglugerðar nr. 125/2001 um innheimtu höfundaréttargjalda samkvæmt 3. og 4. mgr. 11. gr. höfundalaga var kveðið á um að gjöld á geisladiska yrðu þau sömu og greindi í lögunum, en með 1. gr. reglugerðar nr. 186/2001 um breytingu á þeirri reglugerð nýtti ráðherra sér heimild í 5. mgr. 11. gr. höfundalaga og lækkaði gjöldin um helming. Kveður stefndi þá breytingu hafa verið gerða í samráði við sig og fleiri hagsmunaaðila vegna nýrrar upptökutækni og án tillits til þess hvort heimild til upptöku væri nýtt. Hafi þetta verið gert til hægðarauka við innheimtuna í stað þess að innheimta hærra gjald með tilheyrandi vandkvæðum við sönnunarfærslu um skilyrði endurgreiðslu. Í kjölfarið ákvað stjórn stefnda að hætta að endurgreiða höfundaréttargjöld sem greidd höfðu verið af geisladiskum nema í þeim tilvikum að þeir hefðu að geyma höfundaréttarvarið efni. Setti stjórnin sér verklagsreglur á árinu 2006 með því efni sem rakið er í héraðsdómi, en þær hafa ekki verið birtar opinberlega.
III
Sú tilhögun, að tollyfirvöldum hafi verið falin innheimta umrædds gjalds, eins og áður er rakið, raskar í engu því að líta verður á endurgreiðslukröfu, á borð við þá er áfrýjandi gerir í máli þessu, sem eðlilegan þátt í framkvæmd við álagningu gjalds samkvæmt 3. mgr. 11. gr. höfundalaga.
Að virtum þeim lögskýringargögnum sem hér hafa verið rakin verður því slegið föstu að með lögum nr. 78/1984 hafi verið gengið út frá því að gjald fyrir upptöku verka höfunda til einkanota yrði endurgreitt af tækjum og böndum ef sönnur yrðu færðar á að þau væru ekki notuð til upptöku á höfundaréttarvörðu efni. Fallast verður á það með stefnda að lækkun sú á gjaldi, sem ákveðin var með reglugerð nr. 186/2001 í samræmi við heimild í 5. mgr. 11. gr. höfundalaga, hafi verið hugsuð til hægðarauka við innheimtu og í hag sumra gjaldenda, auk þess sem ákvæði laga nr. 60/2000 miðuðu að því að víkka gildissvið laganna hvað varðar þau tæki og tól sem gjaldið tók til. Á hinn bóginn verður ekki séð að lög nr. 60/2000 hafi breytt eldra réttarástandi á þann veg að fortakslaust væri kveðið á um gjaldskylduna á þann veg að ekki bæri að endurgreiða gjald í þeim tilvikum er hlutir, í hvaða formi sem er, væru sannanlega ekki notaðir til upptöku verka höfunda. Tilgangur höfundalaga er að vernda höfundarétt. Sú tækni sem leitt hefur til skerðingar á endurgjaldi til höfunda vegna afritunar á höfundaréttarvörðu efni hefur einnig gert það mögulegt að nota sömu tækni til óskyldrar starfsemi. Ekki er í höfundalögum að finna heimild fyrir því að síðargreindri starfsemi verði gert að bæta höfundum tap vegna einkanota á verkum þeirra. Sem fyrr segir er ágreiningslaust að geisladiskar þeir sem um ræðir í málinu eru ekki yfirskrifanlegir og verða ekki nýttir til upptöku á höfundaréttarvörðu efni. Samkvæmt þessu ber áfrýjanda réttur til endurgreiðslu vegna gjalda sem af honum hafa verið tekin á grundvelli 3. mgr. 11. gr. höfundalaga vegna þeirra geisladiska sem hér um ræðir. Geta fyrrgreindar reglur, sem stefndi hefur sett sér um verklag við endurgreiðslu gjaldanna, engu breytt um þá niðurstöðu.
Á það verður ekki fallist með stefnda að áfrýjandi myndi auðgast með óréttmætum hætti ef gjaldið yrði endurgreitt, þar sem hann hefði þegar velt því út í verðlagið og innheimt af sínum viðskiptavinum. Verður eðli máls samkvæmt að miða við að álagning gjaldsins hafi haft áhrif á rekstur áfrýjanda. Kröfu áfrýjanda verður því ekki hafnað af þessari ástæðu.
Eins og rakið er í héraðsdómi sendi áfrýjandi stefnda fyrst athugasemdir vegna gjaldtökunnar með bréfi 18. júlí 2006 þar sem hann boðaði jafnframt kröfu um endurgreiðslu vegna gjalda sem hann hafði innt af hendi á árunum 2005 og 2006. Var sjónarmiðum hans hafnað með bréfi stefnda 24. október það ár. Í kjölfarið var gjaldið áfram lagt á og greitt án fyrirvara allt þar til áfrýjandi með bréfi 8. mars 2011 setti á ný fram kröfu um endurgreiðslu tilgreindrar fjárhæðar. Eftir það fóru fram bréfaskipti milli aðila en þeim lyktaði með því að stefndi hafnaði öllum kröfum áfrýjanda með bréfi 23. apríl 2012. Að þessu virtu hefur áfrýjandi glatað endurkröfu sinni vegna áranna 2009 og 2010, en tekin verður til greina krafa hans vegna áranna 2011 til og með 2013, samtals að fjárhæð 1.859.730 krónur.
Í kröfugerð sundurliðar áfrýjandi höfuðstól kröfu sinnar miðað við lok hvers gjaldárs og skulu dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 taka mið af því með þeim hætti sem í dómsorði greinir.
Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndi, IHM, innheimtumiðstöð gjalda, greiði áfrýjanda, MBV ehf., 1.859.730 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.039.125 krónum frá 1. janúar 2012 til 1. janúar 2013, af 1.508.090 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2014, en af 1.859.730 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2014.
I.
Mál þetta, sem var dómtekið 23. maí sl., er höfðað af MBV ehf., Hátúni 6a-b, Reykjavík, gegn Innheimtumiðstöð gjalda, Laufásvegi 40, Reykjavík, með stefnu birtri 26. júní 2013.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda 3.173.730 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2011 um vexti og verðtryggingu, af 444.539 kr. frá 1. janúar 2010 til 1. janúar 2011, en af 1.314.000 kr. frá þeim degi til 1. janúar 2012, en af 2.353.125 kr. frá þeim degi til 1. janúar 2013, en af 2.822.090 kr. frá þeim degi til þingfestingardags [27. júní 2013], en af 3.173.730 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi.
II.
Málavextir
Stefnandi er innflytjandi og framleiðandi geisladiska. Hann kveðst flytja inn óátekna geisladiska til eigin framleiðslu fyrir einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir, en jafnframt til sölu til almennra einkanota. Frá árinu 2001 hefur stefnanda, með vísan til 3. mgr. 11. gr. höfundalaga nr. 73/1972, eins og ákvæðinu var breytt með 2. gr. laga nr. 60/2000, verið gert að greiða höfundaréttargjöld af innfluttum geisladiskum. Í nefndu ákvæði höfundalaga er kveðið á um það að höfundar verka, sem útvarpað hafi verið eða gefin hafi verið út á hljóðriti eða myndriti, eigi rétt á sérstöku endurgjaldi vegna upptöku verka þeirra til einkanota á bönd, diska, plötur eða aðra þá hluti, í hvaða formi sem er, sem taka megi upp á hljóð og/eða myndir með hliðrænum eða stafrænum hætti. Enn fremur skuli greiða endurgjald af tækjum sem einkum séu ætluð til slíkrar upptöku. Gjöld þessi skuli greidd hvort sem um innlenda eða innflutta framleiðslu sé að ræða og hvíli skylda til að svara gjöldunum á innflytjendum og framleiðendum. Í 4. mgr. 11. gr. laganna er kveðið á um fjárhæð gjaldsins. Þannig skal gjaldið nema 35 kr. af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum til upptöku hljóðs eingöngu og 100 kr. af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum til upptöku mynda, eftir atvikum ásamt hljóði. Ráðherra er falið að setja nánari reglur um gjöldin, þar á meðal af hvaða hlutum og tækjum gjöldin skuli greidd. Þá er honum heimilt að lækka fjárhæðir af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum ef ætla má að einungis hluti þeirra sé ætlaður til upptöku skv. 3. mgr. Með reglugerð nr. 186/2001 nýtti ráðherra sér umrædda lækkunarheimild og lækkaði gjöld á geisladiskum um helming. Innheimta gjaldsins og ráðstöfun þess er skv. 6. mgr. 11. gr. laganna í höndum samtaka höfundaréttarfélaga, sem eru hagsmunasamtök höfunda, listflytjenda og framleiðenda, þ.e. stefnda. Með heimild í sama ákvæði hefur stefndi falið tollyfirvöldum innheimtu á gjöldum þeim sem innflytjendur skulu standa skil á.
Stefnandi sendi stefnda bréf, dagsett 18. júlí 2006, með ósk um endurgreiðslu höfundaréttargjalda sem hann hafði innt af hendi á árunum 2005 og 2006, samtals að fjárhæð 2.272.777 kr. Vísaði stefnandi til þess að hann hefði orðið þess áskynja að stefndi hefði samþykkt ósk samkeppnisaðila stefnanda um endurgreiðslu höfundaréttargjalda af óáteknum geisladiskum sen notaðir hefðu verið við fjölföldun eigin efnis einstaklinga og fyrirtækja. Í svarbréfi stefnda 24. október sama ár var kröfu stefnanda um endurgreiðslu gjaldsins hafnað. Vísaði stefndi m.a. til þess að samkvæmt verklagsreglum stefnda væru gjöldin endurgreidd af diskum sem framleiddir væru til sölu á almennum markaði. Endurgreiðslan væri til þeirra sem sýndu fram á að þeir hefðu þegar greitt hlutaðeigandi rétthöfum efnisins á diskunum fyrir eintakið.
Með bréfi stefnanda til stefnda frá 8. mars 2011 krafðist stefnandi endurgreiðslu á höfundaréttargjöldum á geisladiskum sem notaðir hefðu verið til eigin framleiðslu á tímabilinu 6. mars 2001 til 22. október 2010, samtals að fjárhæð 22.486.957 kr. Hafnaði stefndi því með bréfi 7. apríl sama ár að stefndandi ætti lögbundinn rétt til endurgreiðslu gjaldanna. Hann lýsti sig hins vegar reiðubúinn til viðræðna við stefnanda. Færi svo að það upplýstist í þeim viðræðum að samkeppnisaðilar stefnanda hefðu fengið gjaldið endurgreitt, eins og stefnandi hefði látið í veðri vaka, væri stefndi reiðubúinn til að taka það til skoðunar að leiðrétta slíka mismunun. Mun hafa náðst sátt með aðilum hvað varðar endugreiðslu gjalda vegna ónýtra diska. Með bréfi dagsettu 12. janúar 2012, sem ítrekað var 4. apríl 2012, gerði stefnandi stefnda tilboð um að stefndi greiddi 2/3 af framangreindri endurgreiðslukröfu. Því tilboði hafnaði stefndi með bréfi 23. apríl 2012 og vísaði m.a. til þeirra röksemda sem fram komu í ofangreindu bréfi hans frá 7. apríl 2011. Tók stefndi jafnframt fram að hann hefði enga heimild til þess að ganga til samningaviðræðna um endurgreiðslur á höfundaréttargjöldum sem notuð hefðu verið til eintakagerðar fyrir þriðja aðila. Yrði krafa um endurgreiðslu að koma frá viðkomandi aðilum með viðhlítandi rökstuðningi.
Í máli þessu gerir stefnandi kröfu um endurgreiðslu vegna innflutnings samtals 117.555 óátekinna geisladiska af gerðinni CD og DVD fyrir þar tilgreinda aðila á tímabilinu júní 2009 til fyrrihluta árs 2013. Tæplega helmingur endurgreiðslukröfunnar er tilkominn vegna geisladiska fyrir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu sem notaðir eru til að taka upp skýrslur.
Við meðferð málsins gáfu skýrslu Kristján Ottó Andrésson, fyrirsvarsmaður stefnanda, Gunnar Guðmundsson, fyrirsvarmaður stefnda, og Gunnar Gunnarsson.
III.
Málsástæður stefnanda
Af hálfu stefnanda er á því byggt að innheimta stefnda fái ekki stoð í 3. mgr. 11. gr. höfundalaga nr. 73/1972, með síðari breytingum, eða öðrum réttarheimildum. Annars vegar hafi diskar þeir, sem endurgreiðslukrafan varði, verið fluttir inn og notaðir í framleiðslu fyrir eigendur höfundaréttinda á þeirra eigin efni eða útgáfu höfundaréttarvarins efnis sem greitt hafi verið fyrir til rétthafa. Hins vegar hafi diskarnir verið fluttir inn og notaðir í framleiðslu stefnanda vegna starfsemi sem hafi engin tengsl við verndarhagsmuni höfundalaga. Endurgreiðslukrafa stefnanda lúti ekki að óáteknum geisladiskum sem seldir hafi verið til almennra einkanota. Notkun geisladiskanna falli því augljóslega utan gildissviðs 3. mgr. 11. gr. höfundalaga. Af því leiði að stefndi geti ekki byggt gjaldtöku af stefnanda vegna innflutnings þessara diska á greininni. Gjaldtakan verði ekki byggð á annarri réttarheimild og sé því ólögmæt.
Stefnandi telur að innheimta stefnda sé í andstöðu við tilgang og markmið höfundalaga. Vísar stefnandi í því samhengi sérstaklega til athugasemda með frumvarpi sem orðið hafi að lögum nr. 78/1985, um breytingu á höfundalögum. Þar komi fram að gengið sé út frá því að gjaldið yrði ekki heimt af böndum, sem geymdu verk, sem rétthafar hafi þegið greiðslu fyrir, sem og að tæki og bönd væru undanþegin gjaldi eða innheimt gjald yrði endurgreitt, ef sönnur yrðu færðar á að þau yrðu ekki notuð til upptöku verka vegna einkaþarfa, svo sem diktafónar og hljóðbönd fyrir slík tæki. Allt frá setningu laga nr. 78/1985 hafi þeirri meginreglu verið fylgt og sú venja skapast, að álögð höfundarréttargjöld á tónbönd og myndbönd séu ýmist endurgreidd, eða ekki innheimt, þegar sýnt sé fram á að notkun óátekinna tón- og myndbanda sé ekki gjaldskyld. Stefndi hafi þá ýmist endurgreitt gegn staðfestingu á greiðslu eða fallið frá innheimtu með yfirlýsingu, sem innflytjendur hafi þá lagt fram hjá tollstjóra við tollafgreiðslu vöru. Hafi stefnandi notið þessa jafnt og aðrir, en þessi framkvæmd sé óbreytt að því er tón- og myndbönd snertir þótt vissulega hafi notkun geisladiska rutt notkun hinna fyrrnefndu að umtalsverðu leyti úr vegi. Telja verði að skapast hafi réttarvenjur í framkvæmd að þessu leyti, sem leiða m.a. af þeim athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laga nr. 78/1985. Ekki hafi hins vegar verið gert ráð fyrir því í lögum að höfundaréttargjald yrði innheimt af innfluttum, óáteknum geisladiskum fyrr en með lögum nr. 60/2000 um breytingu á höfundalögum. Eftir að ráðherra hafi með reglugerð nr. 186/2001 lækkað gjaldið hafi skyndilega orðið breyting á framkvæmd stefnda í innheimtu og endurgreiðslu höfundarréttargjalds. Frá þeim tíma hafi stefnandi ekki fengið fellt niður eða endurgreitt gjald vegna innfluttra geisladiska til eigin framleiðslu eða annarra nota eins og þegar um tón- og myndbönd hafi verið að ræða. Umrædd breyting hafi hvorki leitt af breytingu á lögum frá Alþingi, né reglugerð settri af ráðherra. Hún hafi heldur ekki leitt af samningi eða annarri gildri réttarheimild sem hin breytta framkvæmd gat stuðst við. Engin eðlisbreyting hafi heldur orðið á starfsemi stefnanda, sem réttlætti breytinguna, þótt framleiðsluafurðin væri afhent á öðru formi en áður. Hafi ákvörðun um þetta grundvallarfrávik frá þeim venjum sem skapast höfðu verið tekin einhliða af stefnda án tilefnis. Telur stefnandi að framkvæmd þessi sé ólögmæt.
Stefnandi bendir á að þrátt fyrir framangreinda breytingu hafi stefndi endurgreitt höfundaréttargjöld af geisladiskum. Geri hann það í dag samkvæmt reglum um endurgreiðslu gjaldanna sem stjórn stefnda hafi sett einhliða hinn 9. febrúar 2006. Feli reglurnar í sér miklum mun strangari skilyrði fyrir endurgreiðslu en áður hafi gilt. Umræddar reglur sem stefndi vinni eftir við endurgreiðslur lögbundinna gjalda hafi ekki stoð í ákvæðum settra laga eða reglugerða. Þær hafi heldur ekki hlotið staðfestingu ráðherra eða annarra þar til bærra yfirvalda. Reglurnar hafi heldur ekki verið birtar í samræmi við lög um birtingu stjórnvaldsfyrirmæla. Reglurnar og framkvæmd þeirra séu ólögmætur grundvöllur synjunar á endurgreiðslu til stefnanda.
Stefnandi byggir endurgreiðslukröfu sína aðallega á almennum reglum kröfuréttar þess efnis að aðili sem greitt hafi umfram lagaskyldu eigi endurkröfurétt á hendur viðtakanda greiðslunnar. Stefnandi hafi gert ítrekaðar kröfur og athugasemdir við innheimtu stefnda og hafi stefnda því verið fullkunnugt um afstöðu stefnanda til innheimtunnar í þeim tilvikum sem hér um ræði. Kröfur um höfundaréttargjald stofnist skv. 11. gr. höfundalaga í þeim tilgangi að tryggja að þeir sem noti verðmæti, sem höfundar eigi sannanlega eignarréttarlegt tilkall til, sbr. 1. gr. höfundalaga, greiði höfundum fyrir þá notkun. Vegna þess hversu miklum vandkvæðum sé bundið að leiða saman höfunda og notendur hugverka með samningi hafi þessi leið verið valin til hagræðis. Ekki felist í því opinber skattur eða gjöld. Engin rök standi til þess að greiðsla gjaldsins eigi sér stað í öðrum tilvikum en þeim sem skýrt megi leiða af ákvæðum laganna.
Verði ekki fallist á að almennar reglur kröfuréttar eigi við byggir stefnandi á því að eins og mál hafi þróast í framkvæmd hafi höfundaréttargjaldið breyst í skatt sem lagður sé á aðrar vörur, aðila og lögskipti en 3. mgr. 11. gr. höfundalaga fjalli um. Geri hann því kröfu um endurgreiðslu á grundvelli laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Vísar stefnandi að til þess að slík gjaldtaka fái staðist, í þeim tilvikum sem hér reyni, á verði hún að uppfylla kröfur um heimild til skattlagningar, sbr. 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 en það geri hún ekki. Í fyrsta lagi falli starfsemi stefnanda ekki undir ákvæði höfundalaganna. Í öðru lagi sé ekki verið að þjóna neinni almannaþörf með gjaldtökunni heldur sé einungis um sérhagsmuni takmarkaðs hóps manna að ræða. Í þriðja lagi sé ákvörðun um skattinn í höndum samtaka aðila, sem eigi framangreinda sérhagsmuni, sem feli í sér brot á framangreindum ákvæðum stjórnarskrár. Stefndi hafi þannig sett reglur um endurgreiðslur og framkvæmt þær, án þess að hafa til þess fullnægjandi lagaheimildir eða vera bær að lögum til að gera það. Fá hvorki reglur stefnda né framkvæmd þeirra staðist. Í samhengi við framkvæmd endurgreiðslna stefnda og ströng skilyrði um umsóknir og endurgreiðslur höfundarréttargjalda, sem sett séu fram í þeim reglum, byggir stefnandi á að stjórnvöldum og þá þeim sem fara á hverjum tíma með opinbert vald sé skylt að hafa frumkvæði að endurgreiðslu oftekinna gjalda, skv. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/1995. Þá bendir stefnandi á að í gildandi samþykktum sem staðfestar hafi verið af ráðherra sé aðeins kveðið á um skiptingu tekna sem innheimtar hafi verið á grundvelli 11. gr. vegna hljóðbanda, hljóðbandstækja, myndbanda og myndbandstækja, en ekki vegna geisladiska sem mál þetta varði. Gjaldið sé því innheimt, án þess að því formskilyrði um innheimtuna sé fullnægt, að settar hafi verið reglur um skiptingu tekna sem af innheimtunni leiði. Stefnandi byggir kröfur sínar enn fremur á því, verði litið svo á að um opinbert gjald sé að ræða, að í framkvæmd stefnda sé fólgin mismunun í andstöðu við almenna jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá telur stefnandi að innheimta gjaldanna sé brot á friðhelgi eignarréttar, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.
Að lokum byggir stefnandi á því að innheimta höfundaréttargjalda af innlendum aðilum við tollafgreiðslu feli í sér ólögmæta mismunun í skilningi EES-réttar. Ekki þurfi að greiða höfundaréttargjald af innfluttum geisladiskum með höfundarvörðu efni, framleiddum erlendis, á meðan þeir aðilar sem flytji inn diska og setji efni á þá hér á landi þurfi að ganga í gegnum endurgreiðsluferli stefnda. Slík mismunun sé í andstöðu við 1. mgr. 5. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 11. og 36. gr. EES samningsins. Stefnandi telur enn fremur að verði litið svo á að um opinber gjöld sé að ræða, megi jafna þeim við tolla. Í framkvæmd innheimti tollayfirvöld gjaldið með sambærilegum hætti og um aðra tollskylda vöru sé að ræða. Gjaldið sé lagt á þegar umræddar vörur fara yfir landamæri Íslands. Stefnandi telur að þetta brjóti gegn 10. gr. EES-samningsins.
Um lagarök vísar stefnandi til höfundalaga nr. 72/1973 eins og þeim hafi verið breytt með lögum nr. 78/1985 og lögum nr. 60/2000 og lögskýringagagna sem þeim hafi fylgt. Einnig vísar hann til reglugerða nr. 125/2001 og nr. 186/2001 sem settar hafi verið á grundvelli laganna. Um birtingu á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum vísar stefndi til ákvæða laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað er varði birtingu stjórnvaldsfyrirmæla. Þá vísar stefnandi til almennra meginreglna kröfuréttar um endurkröfurétt á hendur viðtakanda greiðslu vegna greiðslu umfram lagaskyldu. Um endurgreiðslu á ofteknum sköttum og gjöldum vísar stefnandi til ákvæða laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Um heimildir til skattinnheimtu vísar stefnandi til 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Þá vísar stefnandi til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og til 11. gr. EES samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um ólögmæta mismunun. Varðandi grundvöll tollálagningar vísar stefnandi til 1. mgr. 5. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 36. gr. EES samningsins nr. 2/1993. Um kröfu til dráttarvaxta vísar stefnandi til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2011 um vexti og verðtryggingu og 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um kröfur um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Krafa stefnanda um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr.
Málsástæður stefnda
Af hálfu stefnda er á því byggt að skýr lagastoð sé fyrir hendi til innheimtu höfundarréttargjalds af innfluttum óáteknum geisladiskum. Vísar hann til þess að höfundaréttargjaldið, sem hér um ræði, skuli inna af hendi fyrir „heimild“ til upptöku á höfundarréttarvörðu efni, án tillits til þess hvort sú heimild sé nýtt. Skv. skýru orðalagi gjaldtökuheimildar í 3. mgr. 11. gr. höfundalaga skuli gjaldið leggjast á „bönd, diska, plötur eða aðra þá hluti, í hvaða formi sem er, sem taka má upp á hljóð og/eða myndir með hliðrænum eða stafrænum hætti“. Bendir stefndi á að ekki sé á því byggt af hálfu stefnanda að þeir diskar sem hann hafi flutt inn hafi verið ónothæfir til upptöku. Stefndi hafi nýtt sér lögbundna heimild í 6. mgr. 11. gr. höfundalaga til þess að fela tollstjóra að annast innheimtu á gjöldum vegna innfluttra diska. Eðli málsins samkvæmt leggi tollstjóri gjöldin á við komu diskanna til landsins og á þeim tíma liggur ekkert fyrir um hverjir muni kaupa diskana eða í hvaða tilgangi þeir verði notaðir. Þannig sé ljóst að gjaldið sé réttilega lagt á stefnanda og hafi hann engan rétt til endurgreiðslu þess enda sé enga lagaheimild að finna fyrir slíkri endurgreiðslu.
Stefndi fellst á þann skiling stefnanda að með lögum nr. 78/1984, hafi verið gengið út frá því að gjaldið yrði endurgreitt af tækjum og böndum ef sönnur yrðu færðar á að þau væru ekki notuð til upptöku. Til þess að koma til móts við vilja löggjafans að þessu leyti hafi verið farin sú leið, þegar 11. gr. höfundalaga hafi verið breytt með 2. gr. laga nr. 60/2000, að heimila ráðherra að lækka gjöldin ef ætla megi að einungis hluti þeirra banda, diska eða annarra hluta, sem gjaldið sé greitt af, væri í raun og veru notaður til upptöku á höfundarverkum (5. mgr. 11. gr. höfundalaga). Umrædda heimild hafi menntamálaráðherra nýtt þegar með reglugerð nr. 186/2001 er hann lækkaði gjald af auðum geisladiskum um helming frá því sem áður var. Þetta hafi ráðherrann gert að undangengnu samráði við innflytjendur geisladiska sem hafi talið að þetta væri æskilegri leið en að innheimta fullt gjald og endurgreiða gjaldið í einstaka tilvikum á grundvelli sönnunarfærslu vegna einstakra diska, sem yrði mjög tafsamt og kostnaðarsamt.
Stefndi hafnar því að réttarvenja hafi myndast fyrir 2001, sem geti skapað nokkurn rétt til handa stefnanda. Ráðherra hafi lækkað umrædd gjöld á geisladiska árið 2001 til þess að koma til móts við það sjónarmið að ekki beri að greiða gjöldin af þeim diskum, sem sannanlega hafi ekki verið notaðir til upptöku. Eðli málsins samkvæmt hafi stefndi hætt að endurgreiða gjöld vegna einstakra diska. Stefndi hafnar þar af leiðandi þeirri staðhæfingu stefnanda að breyting á framkvæmd endurgreiðslna hafi ekki leitt af lagabreytingum eða reglugerð settri af ráðherra.
Stefndi byggir á því að innanhússreglur stefnda geti aldrei skapað rétt til handa stefnanda um endurgreiðslu gjaldsins. Gjaldskylda stefnanda sé og hafi verið til staðar þrátt fyrir að stefndi hafi sjálfur kosið að endurgreiða gjöld ef ákveðin skilyrði hafi verið uppfyllt án þess að honum bæri skylda til þess. Þá hafi stefnandi ekki sýnt að hann hafi uppfyllt þau skilyrði sem stefndi hafi sett til endurgreiðslu. Stefndi hafi einungis endurgreitt innflytjendum diska í þeim tilvikum þegar sannanlega sé sýnt fram á að viðkomandi diskar hafi ekki verið notaðar til upptöku á höfundarréttarvörðu efni. Umrædd lækkun gjaldsins hafi verið gerð til að vinna gegn erfiðleikum við að framkvæma gjaldtökuna. Þrátt fyrir þessa lækkun hafi stefndi gefið stefnanda, og öðrum sem stundi innflutning af sama meiði, möguleika á að fá þessi gjöld endurgreidd ef uppfylltar séu ákveðnar kröfur skv. reglum stefnda sem hann hafi birt stefnanda sem og öðrum innflutningsaðilum. Reglur þessar séu til þess fallnar að tryggja jafnræði meðal innflutningsaðila og veita möguleika á endurgreiðslu. Krafan stefnanda um endurgreiðslu skorti þannig viðhlítandi lagagrundvöll.
Stefndi hafnar þeirri málsástæðu stefnanda að innheimt gjaldanna kunni að fela í sér álagningu skatts eða opinber gjöld. Hlutverk höfundalaga sé m.a. að veita höfundum vernd á tilteknum óáþreifanlegum verðmætum. Vegna tækniframfara síðustu áratuga hafi átt sér stað stórfelld röskun á hagsmunum og réttindum höfunda, listflytjenda og annarra rétthafa sem eigi að njóta réttarverndar skv. höfundalögum. Einkanot þau sem heimiluð séu með 11. gr. laganna eru nú svo umfangsmikil að talið hafi verið, við setningu laga nr. 78/1984, að höfundar þyrftu ekki að una þeim bótalaust. Réttur sá er gert hafi verið ráð fyrir með 3. mgr. 11. gr. laganna feli í sér tiltekin réttindi til höfunda, listflytjenda og framleiðenda. Þrátt fyrir heimild rétthafa skv. höfundalögum til að fá aðstoð tollstjóra til að innheimta viðkomandi gjöld séu rétthafar ekki stjórnvald eða framkvæmdarvald skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og því geti hvorki verið um að ræða skattlagningu né opinber gjöld.
Stefndi mótmælir því að umrædd innheimta feli í sér ólögmæta mismunun í skilningi EES-réttar. Gjöldin séu innheimt jafnt á innlenda sem erlenda aðila og sé stefndi einungis að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Ef svo ólíklega reynist að umrædd lagaregla brjóti í bága við EES- samninginn gæti stefnandi mögulega átt skaðabótakröfu á íslenska ríkið en það geti ekki stofnað til endurgreiðslukröfu á hendur stefnda. Varðandi það hvort innheimta gjaldanna sé brot á friðhelgi eignarréttar sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 þá vísi stefndi til þess að gjaldtökunni sé einmitt ætlað að vernda þann eignarrétt er höfundar, listflytjendur og aðrir rétthafar eiga á verkum sínum sem annars væri lítils virði.
Stefndi byggir enn fremur sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni af framangreindri innheimtu höfundarréttargjaldsins eða það meinta tjón sé í öllu falli ósannað. Stefnandi hafi nú þegar krafið viðskiptavini sína um gjaldið og fengið þannig meintan skaða sinn bættan. Ef stefnandi fengi nú endurgreitt frá stefnda á grundvelli þessarar málssóknar myndi hann því auðgast með ólögmætum hætti nema að hann skilaði viðskiptamönnum ávinningnum.
Að lokum byggir stefndi á því að þar sem stefnandi hafi greitt umrætt gjald án fyrirvara þá hafi hann glatað rétti sínum til endurgreiðslu, hafi hann einhvern tíma verið fyrir hendi. Það liggi fyrir að stefnandi hafi verið ósáttur við álagningu gjaldsins löngu áður en hann hafi innt af hendi gjöld vegna þess tímabils, sem hann krefji nú um endurgreiðslu á. Full ástæða hafi því verið fyrir hann að setja fyrirvara við gjaldið áður en greitt hafi verið eða í það minnsta að gera fyrirvara um að viðkomandi diskar yrðu ekki notaðir til upptöku á höfundaréttarvörðu efni.
Um lagarök vísar stefnandi til höfundalaga nr. 72/1973 eins og þeim hafi verið breytt með lögum nr. 78/1984 og lögum nr. 60/2000 og lögskýringargagna sem þeim hafi fylgt. Stefndi vísar einnig til stjórnvaldsfyrirmæla sem sett hafi verið á grundvelli þessara laga, nánar tiltekið nr. 125/2001 og nr. 186/2001. Varðandi það hvort stefndi sé stjórnvald vísar stefndi til stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Krafa stefnda um málskostnað styðst við XXI kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr.
IV.
Niðurstaða
Í máli þessu deila aðilar um hvort stefnandi eigi rétt til endurgreiðslu á höfundaréttagjöldum, skv. 3. mgr. 11. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 2. gr. laga nr. 60/2000, sem honum hefur verið gert að inna af hendi við innflutning til landsins á óáteknum geisladiskum. Umrædd gjöld, sem eru innheimt af stefnda, með milligöngu tollyfirvalda við innflutning geisladiskanna, renna til aðildarfélaga stefnda. Af hálfu stefnda eru ekki gerðar athugsemdir við útreikninga stefnanda á fjárkröfunni eða þau gögn sem liggja útreikningunum til grundvallar heldur byggjast varnir stefnda fyrst og fremst á því að stefnandi eigi ekki lögvarinn rétt til endurgreiðslu gjaldanna.
Umræddum höfundaréttargjöldum er ætlað að bæta rétthöfum upp þá tekjuskerðingu sem þeir verða fyrir þegar eintak af verkum þeirra er fjölfaldað til einkanota án þess að endurgjald komi fyrir en einstaklingum er samkvæmt 1. mgr. 11. gr. höfundalaga heimilt að gera eintök af birtu verki til einkanota. Heimild til gjaldtökunnar var fyrst bætt við 11. gr. höfundalaga með lögum nr. 78/1984 en þá var kveðið á um sérstakt gjald á upptökutæki og hljóðbönd eða myndbönd til einkanota. Í athugsemdum í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 78/1984 kemur fram að tækni við eintakagerð sem hafi rutt sér til rúms auðveldi einstaklingum æ meir að gera eintök af hugverkum í stað þess að kaupa þau af höfundum eða útgefendum en á þann hátt verði höfundar, listflytjendur og hljóð- og myndritaframleiðendur af hefðbundnum greiðslum fyrir afnot verkanna. Jafnframt kemur fram að gengið yrði út frá því að gjaldið yrði ekki innheimt af böndum, sem geymdu verk, er rétthafar hefðu þegar þegið greiðslu fyrir. Sömuleiðis væri gengið út frá því að tæki og bönd væru undanþegin gjaldi eða innheimt gjald yrði endurgreitt, ef sönnur væru færðar á, að tæki eða bönd væru ekki notuð til upptöku verka vegna einkaþarfa, svo sem diktafónar og hljóðbönd fyrir slík tæki. Þá var kveðið á um að menntamálaráðuneytið setti nánari reglur um gjaldið.
Með lögum nr. 78/1984, var sameiginlegri innheimtumiðstöð samtaka rétthafa, þar með talin félög listflytjenda og framleiðenda, jafnframt falið að sjá um innheimtu á umræddum höfundaréttagjöldum og ráðstöfun þeirra. Innheimtumiðstöðinni skyldu settar samþykktir í samvinnu við menntamálaráðuneytið og væru þær háðar staðfestingu þess. Í samþykktunum skyldi meðal annars ákveða skiptingu tekna með aðildarfélögum og þar mátti einnig mæla fyrir um framlög til styrktar útgáfu hljóð- og myndrita. Á þessum grunni starfar stefndi og hefur ráðherra staðfest samþykktir stefnda sem hafa verið birtar í B-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt samþykktunum, sem eru að stofni til nr. 333/1996, hefur stefndi það ekki að markmiði að safna eignum í eigin þágu. Í samþykktunum er jafnframt kveðið á um meðferð fjármála og hvernig rekstrarafgangi skuli skipta milli aðildarfélaga. Ekki er að finna í samþykktunum sérstakt ákvæði um endurgreiðslu innheimtra höfundaréttagjalda.
Í 6. mgr. 11. gr. höfundalaga er nú kveðið á um að stefnda sé heimilt að fela tollstjóra innheimtu gjalda sem innflytjendur skulu standa skil á.
Með lögum nr. 60/2000 var aftur gerð breyting á 11. gr. höfundalaga. Þannig var ákvæði 3. mgr. 11. gr. höfundalaga um gjaldtökuna breytt á þann veg að hún skyldi ekki einungis ná til upptökutækja og myndbanda heldur einnig diska, platna eða annarra hluta, í hvaða formi sem þeir væru, þar sem taka mætti upp hljóð eða myndir með stafrænum hætti. Í nefndaráliti, sem fylgdi frumvarpi sem varð að lögunum, var til stuðnings breytingunum vísað til þess að komin væri til sögunnar stafræn eintakagerð til einkanota. Slíkar upptökur væru orðnar mjög góðar og segja mætti að eintak sem fjölfaldað væri stafrænt væri mjög svipað að gæðum og frumeintakið. Með lögum nr. 60/2000 var í 2. til 4. tl. 4 mgr. 11. gr. höfundalaga sett ákvæði um fjárhæð gjaldsins. Þannig skyldu gjöldin nema 35 kr. af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum til upptöku hljóðs eingöngu en 100 kr. af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum til upptöku mynda, eftir atvikum ásamt hljóði. Gjöldin voru miðuð við tiltekna lengd flutningstíma en væri hann lengri hækkaði gjaldið hlutfallslega sem því næmi. Í 5. mgr. 11. gr. laganna var kveðið á um að ráðherra væri heimilt að lækka fjárhæðir af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum ef ætla mætti að einungis hluti þeirra væri ætlaður til upptöku. Með reglugerð nr. 125/2001, sem sett var 29. janúar 2001 með stoð í 5. mgr. 11. höfundalaga, var höfundaréttargjald á geisladiskum ákveðið það sama og greinir í lögum nr. 60/2000. Með reglugerð nr. 186/2001, sem sett var 6. mars 2001, um breytingu á framangreindri reglugerð, nýtti ráðherra sér framangreinda heimild höfundalaga til lækkunar gjaldanna og lækkaði þau um helming, þ.e. í 17 kr. annars vegar en 50 kr. hins vegar. Ekki liggur fyrir í gögnum málsins ástæða lækkunarinnar en af hálfu stefnda er því haldið fram að þetta hafi verið gert í samráði við innflytjendur geisladiskanna sem hafi talið að þetta væri æskilegri leið en sú að innheimta fullt gjald og endurgreiða það í einstaka tilvikum á grundvelli sönnunarfærslu vegna einstakra diska, sem yrði mjög tafsamt og kostnaðarsamt. Í kjölfarið hafi stjórn stefnda ákveðið að hætta að endurgreiða höfundaréttagjöld sem greidd höfðu verið af geisladiskum nema vegna höfundarvarins efnis. Fram kom í framburði fyrirsvarsmanns stefnda að ástæða þess hafi verið hin mikla tekjuskerðing stefnda vegna lækkunar gjaldanna. Stjórn stefnda hefur sett sér verklagsreglur um endurgreiðslu höfundaréttargjalda af geisladiskum. Reglurnar, sem eru frá 2006, hafa ekki verið birtar opinberlega en liggja fyrir í málinu. Samkvæmt þeim er nauðsynlegt að geisladiskarnir, sem endurgreiðslukrafan varðar, séu sannanlega notaðir til útgáfu á efni sem nýtur höfundaréttarverndar. Þannig er ekki heimilt að endurgreiða gjaldið af geisladiskum sem notaðir eru til útgáfu á tölvuforritum, þ.m.t. tölvuleikjum. Greiðsla höfundaréttargjalda af hinu útgefna efni til hluteigandi rétthafa verður að liggja fyrir til þess að gjaldið verði endurgreitt. Skal krafa um endurgreiðslu hafa borist stefnda í síðasta lagi þremur mánuðum eftir að diskarnir hafa verið fluttir inn.
Stefnandi byggir endurgreiðslukröfu sína á hendur stefnda á því að hann hafi greitt umfram lagaskyldu og eigi því rétt til endurgreiðslu. Að mati dómsins byggir gjaldtaka höfundaréttargjaldsins á skýrri lagaheimild 3. mgr. 11. gr. höfundalaga. Gerir ákvæðið ráð fyrir því að andlag þess sem sem gjaldið er sett á, í þessu tilviki óáteknir geisladiskar, kunni ekki að vera notað í tengslum við höfundavarið efni, sbr. orðalag ákvæðisins um að gjaldið sé sett á bönd, diska, plötur eða aðra þá hluti, í hvaða formi sem er, sem taka má upp á hljóð og/eða myndir með hliðrænum eða stafrænum hætti. Er því ekki unnt að fallast á að stefnandi hafi greitt umfram lagaskyldu.
Kemur þá til skoðunar hvort stefnandi eigi rétt á endurgreiðslu gjaldsins úr hendi stefnda á þeim grunni að geisladiskanir hafi ekki verið notaðir til að setja inn höfundavarið efni eða einungis verið notaðir í eigin framleiðslu eigenda viðkomandi höfundaréttinda. Stefnandi vísar til þess að skapast hafi réttarvenjur í framkvæmd sem leiddar séu m.a. af þeim athugasemdum sem hafi fylgt frumvarpi til laga nr. 78/1985 sem að ofan er getið, þ.e. að innheimt gjald verði endurgreitt, ef sönnur væru færðar á, að tæki eða bönd væru ekki notuð til upptöku verka vegna einkaþarfa, svo sem diktafónar og hljóðbönd fyrir slík tæki. Að mati dómsins getur stefnandi ekki byggt rétt sinn til endurgreiðslu á framangreindum athugasemdum með lagafrumvarpinu eða framkvæmd sem kann að hafa verið fyrir setningu reglugerðar nr. 186/2001, enda snýr sú framkvæmd einkum að endurgreiðslu gjalda vegna tón- og myndbanda. Í þeim efnum verður enn fremur að horfa til þess að frá því að athugsemdirnar voru settar fram hefur tækni til upptöku fleygt mjög fram. Þannig hefur hin stafræna tækni haft í för sem sér miklar breytingar hvað varðar möguleika á endurritun, bæði hljóðs og mynda. Sú staðreynd að stefndi hefur, á grundvelli reglna sem hann hefur sett sér, endurgreitt höfundaréttargjöld af tilteknum geisladiskum, getur heldur ekki skapað stefnda rétt til endurgreiðslu. Umræddar reglur eiga eingöngu við ef fyrir liggur að höfundaréttargjöld til hlutaðeigandi rétthafa hafi þegar verið greidd af efni því sem vista á á geisladiskunum og þarf staðfesting þess efnis að liggja fyrir. Reglunum virðist þannig vera ætlað að koma í veg fyrir að höfundaréttargjöld séu tvígreidd. Verður ekki annað séð en að málefnaleg sjónarmið búi að baki endurgreiðslu stefnda í þessum tilvikum. Samkvæmt framangreindu eru því hafnað að athugasemdir með lagafrumvarpi sem varð að lögum nr. 78/1985 eða venja til endurgreiðslu gjaldanna skapi stefnanda lögmætan rétt til endurgreiðslu úr hendi stefnda.
Stefnandi byggir jafnframt endugreiðslukröfu sína á hendur stefnda á lögum nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Telur stefnandi að eins og málin hafi þróast í framkvæmd hafi gjaldið breyst í skatt. Dómurinn getur ekki fallist á að umrædd höfundaréttargjöld séu ígildi skatts heldur er um að ræða bætur til rétthafa vegna upptöku verka þeirra til einkanota. Þá verður að líta til þess að samkvæmt 1. gr. nefndra laga ber stjórnvöldum, sem innheimta skatt eða gjöld, að endurgreiða það sem oftekið er. Stefndi getur ekki fallið undir það að vera stjórnvald í skilningi laganna heldur eru um að ræða frjáls félagasamtök sem hafa það að markmiði að innheimta höfundaréttargjöld skv. 3. mgr. 11. gr. höfundalaga. Nær krafa stefnanda ekki fram að ganga á þessum grunni.
Stefnandi byggir enn fremur endurgreiðslukröfu sína á því að innheimta höfundaréttagjaldanna af innlendum aðilum við tollafgreiðslu fari gegn 10., 11. og 36. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Við mat á þessari málsástæðu er til þess að líta að innheimta gjaldanna styðst við skýra lagaheimild 3. mgr. 11. gr. höfundalaga. Jafnvel þótt viðurkennt yrði að lögin gengju gegn samningnum þá leiddi það ekki til þess að stefnda bæri að endurgreiða stefnanda gjöldin heldur kynni það að skapa stefnanda rétt til skaðabóta á hendur íslenska ríkinu á þeim grunni að það hefði með lagasetningunni brotið gegn reglum samningsins. Verður stefndi ekki heldur dæmdur til endurgreiðslu gjaldanna á þessari málsástæðu.
Samkvæmt öllu framangreindu er stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Af hálfu stefnanda flutti málið Birgir Tjörvi Pétursson hdl.
Af hálfu stefnda flutti málið Tómas Jónsson hrl.
Dóminn kvað upp Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Innheimtumiðstöð gjalda, er sýknaður af kröfum stefnanda, MBV ehf., í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.