Hæstiréttur íslands
Mál nr. 225/2006
Lykilorð
- Verðbréfaviðskipti
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 9. nóvember 2006. |
|
Nr. 225/2006. |
Ragnar Sigurðsson(Reynir Karlsson hrl.) gegn Kaupþingi banka hf. (Helgi Sigurðsson hrl.) |
Verðbréfaviðskipti. Skaðabætur.
K krafði R um greiðslu fjárhæðar sem nam því tapi sem R hafði beðið af tveimur skiptasamningum sem hann gerði við K. Þar sem samningsskyldur aðila voru tíundaðar í umræddum samningum var ekki fallist á að K hefði brotið gegn 17. gr. þágildandi laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti. Þá var ekki talið að K hefði brotið gegn fyrirmælum 15. gr. sömu laga um að gæta þess að viðskiptamenn njóti jafnræðis. Þar sem R hafði með undirritun á samningana staðfest að hann hefði kynnt sér eðli þeirra og aflað sér sérfræðiráðgjafar þriðja aðila var ekki talið að hann gæti nú þegar hann hefði orðið fyrir tapi haldið því fram að hann hefði ekki skilið þá. Þá var ekki talið sýnt fram á að K hefði vanrækt upplýsingaskyldu sína gagnvart R og var þvert á móti talið að viðskipti aðila hefðu verið í samræmi við ákvæði laga nr. 13/1996. Jafnframt hlyti R að hafa gert sér grein fyrir því að viðskiptum sem þessum fylgdi áhætta. Að öllu virtu var ekki fallist á að K hefði með framgöngu sinni í viðskiptum aðila bakað R tjón og bæri því ábyrgð á tapi hans vegna samninganna. Þá var ekki talið að umræddir samningar væru ógildir með vísan til 31. og 33. gr. laga nr. 7/1936 eða að víkja bæri þeim til hliðar á grundvelli 36. og 36. gr. a. d. sömu laga. Var krafa K því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. apríl 2006. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Ekki verður talið að ákvæði laga nr. 121/1994 um neytendalán taki til þeirra samninga aðila sem um er deilt í máli þessu. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði fellur niður.
Áfrýjandi, Ragnar Sigurðsson, greiði stefnda, Kaupþingi banka hf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. febrúar 2006.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 26. janúar 2006, var höfðað 31. maí 2005. Stefnandi er Kaupþing banki hf., kt. 560882-0419, Borgartúni 19, Reykjavík en stefndi er Ragnar Sigurðsson, kt. 100360-5949, Lambastaðabraut 11, Seltjarnarnesi.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.229.804 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 20. september 2001 til greiðsludags. Þá krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi dæmdur til að greiða honum málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.
II
Í upphafi árs 2000 leitaði stefndi til starfsmanns Kaupþings hf., (nú stefnanda) og vildi fá upplýsingar um gerð skiptasamninga eða svokallaðra framvirkra samninga. Tókust samningar með aðilum símleiðis og þann 13. janúar 2000 var gengið frá þeim samningi skriflega. Samningurinn heitir samningur um hlutabréfaviðskipti eða skiptasamningur AFS1588. Samkvæmt samningi þessum sem gilti frá 13. janúar 2000 til 13. október 2000 voru viðmiðunarbréf hlutabréf í Össuri. Þessum samningi var lokað 24. nóvember 2000 og var hagnaður stefnda af samningnum 928.872 krónur.
Stefndi kveðst hafa fengið upplýsingar frá verðbréfamiðlara sem hafi unnið hjá stefnanda sem gáfu til kynna að hlutabréf í Daleen Technoligies Inc., DALN, væru vanmetin og hafi það orðið til þess að hann hafi ákveðið að gera samning við stefnanda um hlutabréf í því fyrirtæki fyrir 1.500.000 krónur. Hringdi hann í stefnanda af þessu tilefni og tókust samningar með þeim munnlega sem síðan var gerður skriflega 29. mars 2000. Eins og áður var hér um að ræða samning um hlutabréfaviðskipti, skiptasamning nr. AFS2211. Samkvæmt samningi þessum sem gilti frá 29. mars 2000 til 29. júní 2000 voru viðmiðunarbréf hlutabréf í DALN samtals 910 hlutir. Viðmið stefnanda samkvæmt samningnum voru bréf þessi og viðmiðunargengið 22,763 USD eða samtals 20.714 USD og gengi USD á samningsdegi 73,50 krónur þannig að raunvirði viðmiðs stefnanda nam því 1.522.479 krónum á samningsdegi. Gjald vegna samningsgerðar að fjárhæð 15.225 krónur skyldu greiðast við lok samningsins. Viðmið stefnda var 20.714 USD ásamt 9,28% vöxtum á ársgrundvelli. Gengið var 73,50 krónur þannig að raunvirði viðmiðs stefnda var 1.522.479 krónur á samningsdegi.
Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu af hálfu stefnda á samningi þessum lagði stefndi fram verðbréf í vörslu stefnanda að handveði, en verðmæti þeirra mátti ekki fara undir 450.000 krónur.
Stefndi gerði enn annan samning við stefnanda hinn 31. mars 2000 og bar hann sig eins að við þau viðskipti og áður þannig að fyrst var gengið frá samningi símleiðis og svo gengið frá honum skriflega nokkrum dögum síðar. Þessi samningur var eins og hinir, samningur um hlutabréfaviðskipti, skiptasamningur nr. AFS2264. Samkvæmt þessum samningi sem gilti frá 31. mars 2000 til 30. júní 2000 voru viðmiðunarbréf hlutabréf í NOKIA US samtals 120 hlutir. Viðmið stefnanda samkvæmt samningnum voru bréf þessi og viðmiðunargengið 231,38 USD eða samtals 27.766 USD og gengi USD á samningsdegi 73,70 krónur þannig að raunvirði viðmiðs stefnanda nam því 2.046.325 krónum á samningsdegi. Gjald vegna samningsgerðar að fjárhæð 20.463 krónur skyldi greiðast við lok samningsins. Viðmið stefnda var 27.766 USD ásamt 9,28% ársvöxtum og gengið 73,70 krónur eða samtals 2.046.325 krónur.
Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu af hálfu stefnda á samningi þessum lagði stefndi fram verðbréf í vörslu stefnanda að handveði, en verðmæti þeirra mátti ekki fara undir 600.000 krónur.
Hinn 2. júní 2000 gerðu aðilar með sér fjórða skiptasamninginn nr. AFS3151. Gildistími hans var 6 mánuðir og uppgjörsdagur hans því 2. desember 2000. Að ósk stefnda var þeim samningi lokað 25. september 2000, áður en kom að uppgjörsdegi. Tap stefnda á þeim samningi varð 3.717 krónur og með vöxtum og kostnaði varð skuld stefnda við stefnanda vegna þessa skiptasamnings samtals 24.105 krónur sem stefndi greiddi stuttu eftir að samningnum var lokað.
Dagana 29. og 30. júní 2000 voru báðir skiptasamningarnir, nr. AFS2211 og nr. AFS2265 framlengdir til 15. janúar 2001 að ósk stefnda og uppgjörsdagur hvors samnings færður fram um rúma 6 mánuði. Kostnaður vegna þessara framlenginga var 10.000 krónur fyrir hvorn samning sem greiðast skyldi á nýjum uppgjörsdegi samninganna.
Með samkomulagi aðila um framlengingu skiptasamninganna breyttust vextir á viðmið stefnda þannig að í skiptasamningi nr. AFS2211 urðu þeir 9,76% á gildistíma framlengingarinnar og í skiptasamningi nr. AFS2264 urðu þeir 9,77% á gildistíma framlengingarinnar. Skiptasamningar þessir voru aftur framlengdir til 1. september 2001 að ósk stefnda. Samningur nr. AFS2264 var framlengdur munnlega en samningur nr. AFS2211 var framlengdur skriflega. Kostnaður vegna hans að fjárhæð 10.000 skyldi greiðast á uppgjörsdegi samningsins og vextir á viðmið stefnda breyttist og varð 8,3569% á gildistíma framlengingarinnar.
Á samningstíma skiptasamninga nr. AFS2211 og nr. AFS2264 lækkaði talsvert gengi þeirra hlutabréfa sem voru viðmið stefnanda. Annars vegar þýddi það að sú greiðsla sem stefnanda bar að greiða stefnda lækkaði og útlit var fyrir að tap yrði á skiptasamningunum fyrir stefnda auk þess sem þær tryggingar sem stefndi hafði sett fyrir greiðslum samkvæmt samningunum lækkuðu að markaðsvirði.
Þar sem tryggingar fyrir greiðslu framangreindra samninga nr. AFS2211 og nr. AFS2264 voru ekki fullnægjandi samkvæmt ákvæðum samninganna óskað stefnandi margítrekað eftir því að stefndi legði fram frekari tryggingar. Stefndi varð ekki við þeim óskum og nýtti stefnandi sér heimild í samningunum til að loka þeim þann 20. september 2001.
Við lokun skiptasamnings nr. AFS2211 hafði raunvirði viðmiðs stefnda hækkað frá samningsdegi og stóð í 2.322.827 krónum á uppgjörsdegi. Raunvirði viðmiðs stefnanda hafði hins vegar lækkað umtalsvert og var 41.737 krónur á uppgjörsdegi. Með kostnaði var tap stefnda af þessum skiptasamningi alls 2.316.315 krónur. Við lokun skiptasamnings nr. AFS2264 hafði raunvirði viðmiðs stefnda hækkað í 3.116.043 krónur en raunvirði viðmiðs stefnanda lækkað í 733.588 krónur. Tap stefnda vegna þessa samnings var því 2.382.455 krónur og með kostnaði nam skuld stefnda við stefnanda vegna þessa samnings 2.422.918 krónum.
Samtals nam tap stefnda þannig vegna þessa tveggja samninga 4.739.233 krónum og hinn 17. október 2001 gekk stefnandi að þeim tryggingum sem stefndi hafði sett fyrir greiðslu samkvæmt samningunum. Að frádregnum kostnaði nam söluandvirði þeirra hlutabréfa sem stefndi hafði sett til tryggingar 3.509.429 krónum og gekk sú upphæð til greiðslu skuldarinnar og eru eftirstöðvar skuldarinnar stefnufjárhæð.
Stefndi kvartaði til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki vegna viðskipta sinna við stefnanda og krafðist þess að tap hans vegna skiptasamninga nr. AFS2211 og nr. AFS2264 yrði fellt niður þar sem starfsmenn stefnanda hefðu ekki farið að lögum og samningarnir væru óskiljanlegir.
Úrskurðarnefndin kvað upp úrskurð 15. janúar 2002 og komst að þeirri niðurstöðu að eðlilega hafi verið staðið að málum af hálfu stefnanda í viðskiptum hans við stefnda og í samræmi við lög. Var því kröfum stefnda á hendur stefnanda hafnað.
Þann 26. maí 2003 sameinuðust Búnaðarbanki Íslands hf. og Kaupþing banki hf. í Kaupþing Búnaðarbanka hf. og á árinu 2005 var nafni stefnanda breytt í Kaupþing banka hf.
Eins og rakið hefur verið byggir stefnandi dómkröfur sínar á tveim skiptasamningum milli aðila máls þessa. Stefndi mótmælir greiðsluskyldu sinni á þeim forsendum fyrst og fremst að stefnandi hafi ekki borið sig að við samningagerðina með lögmætum hætti og gert stefnda grein fyrir þeirri áhættu sem fylgdi henni. Af þeim sökum beri hann skaðabótaábyrgð á tjóni stefnda sem hann hafi orðið fyrir vegna viðskiptanna. Verði ekki talið að stefnandi sé skaðbótaskyldur gagnvart stefnda byggir hann á því að samningarnir séu ógildir þar sem stefnandi hafi notfært sér fákunnáttu hans við samningsgerðina.
III
Stefnandi kveður skiptasamning vera afleiðusamning þar sem uppgjörsákvæði byggist á breytingu einhvers þáttar eða viðmiðs á tilteknu tímabili, svo sem vaxta, gengis gjaldmiðla, verðbréfaverðs, verðbréfavísitölu eða hrávöruverðs. Skipta-samningur sé þannig samningur sem kveði á um að hvor samningsaðila greiði hinum fjárhæð sem taki mið af breytingum á hvoru viðmiðinu fyrir sig á samningstímanum.
Í þeim skiptasamningum sem aðilar hafi gert hafi annað eða bæði viðmiðin verið breytileg, þ.e. háð gengi gjaldmiðla eða hlutabréfa í tilteknum fyrirtækjum. Samkvæmt samningum aðila hafi greiðslur aðila á uppgjörsdegi ávallt verið reiknaðar til uppgjörsdags. Um raunveruleg skipti á greiðslum hafi hins vegar ekki verið að ræða. Væri mismunur á viðmiðum á uppgjörsdegi teldist sá mismunur hagnaður annars samningsaðila en tap hins.
Auk þess hafi ekki verið um það að ræða að hvor aðili innti greiðslur af hendi, þ.e. þann mismun sem orðið hafði á viðmiði hans frá samningsdegi til uppgjörsdags, heldur skuldajöfnuðust greiðslur aðila að því marki sem hægt var og kom því einungis til einnar greiðslu milli aðila allt eftir því hvaða verðgildi viðmið hvors aðila hafði á uppgjörsdegi.
Með undirritun aðila á skiptasamninga nr. AFS2211 og nr. AFS2264 hafi komist á bindandi samningar milli þeirra. Þeir samningar hafi komið út í tapi fyrir stefnda sem honum beri að greiða stefnanda í samræmi við ákvæði samninganna. Hafi stefndi borið brigður á að gildur löggerningur hafi komist á með framangreindum skiptasamningum á grundvelli þess að hann hafi ekki gert sér grein fyrir efni þeirra. Slíkum sjónarmiðum hafi hann hins vegar ekki komið á framfæri vegna annarra samskonar skiptasamninga sem aðilar hafi gert þ.e., skiptasamninga nr. AFS1588 og nr. AFS3151.
Stefnandi vísar til meginreglu íslensks kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga sem fái meðal annars lagastoð í 5., 6. og 28. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup. Um gjalddaga kröfunnar vegna skiptasamningsins sé einkum vísað til meginreglu 12. gr. sömu laga.
Jafnframt byggi stefnandi á því að með því að stefndi hafi tekið við greiðslu hagnaðar úr hendi stefnanda vegna samnings nr. AFS1588, svo og með frágangi á uppgjöri hans á skipasamningi nr. AFS3151, hafi hann viðurkennt að um gilda löggerninga væri að ræða en stefndi hafi gert kröfu til þess að stefnandi efndi skiptasamning nr. AFS1588.
Verði niðurstaða málsins sú að umdeildir löggerningar hafi ekki verið skuldbindandi fyrir stefnda kveðst stefnandi byggja til vara á því að stefndi hafi glatað rétti sínum til að bera brigður á gildi löggerninganna vegna tómlætis, en sjónarmið stefnda um að löggerningarnir væru ekki skuldbindandi hafi komið of seint fram. Þá byggir stefnandi á eftirfarandi samþykki af hálfu stefnda, en hann hafi aldrei borið brigður á gildi löggerninganna fyrr en mun seinna og það eftir að hann gerði þá kröfu til stefnanda að hann efndi aðra samskonar löggerninga sína frá sama tíma.
Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 sbr. lög nr. 50/1988. Um varnarþing vísar hann til 3. mgr. 42. gr. og 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991.
IV
Stefndi byggir á því að samningar þeir sem stefnandi gerði við hann séu ekki í samræmi við þær kröfur sem gera verði til slíkra samninga um skýrleika. Þá sé framganga starfsmanna stefnanda við gerð samninganna heldur ekki í samræmi við lög eða þær kröfur sem gera verði til slíkra sérfróðra starfsmanna.
Sé form samninganna þannig upp byggt að þeir séu algerlega óskiljanlegir venjulegu fólki. Beri þeir ekki með sér með skýrum hætti hverjar séu samningsskyldur aðila, en það sé skýlaust brot á 17. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti, þar sem gert sé ráð fyrir að gerður sé sérstakur samningur á milli fyrirtækis og viðskiptamanns þess þar sem meðal annars skuli kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila. Sé ómögulegt að átta sig á því í hverju skyldur stefnda felist samkvæmt samningnum og verði með engu móti séð að í honum felist skuldbinding af hálfu stefnda.
Þær kröfur séu gerðar til viðskiptabréfa eins og skuldabréfa að fram komi einhliða óskilyrt loforð um greiðslu. Þá sé stefnda ekki ljóst hvernig samningarnir skiptist annars vegar í lánssamning og hins vegar í samning um kaup á hlutabréfum, eins og stefnandi virðist skilja þá. Komi fram í samningunum að um sé að ræða tiltekið magn hluta í hlutafélögunum Daleen Technoligies Inc. og Nokia sem séu í eigu stefnanda og stefnandi muni selja í einu lagi eða nokkrum hlutum á gildistíma samningsins í samráði við stefnda. Af þessu verði ekki annað ráðið en að stefnandi hafi verið eigandi bréfanna en ekki stefndi. Hann hafi því hlotið að gera ráð fyrir að stefnandi bæri ábyrgð á gengisfalli hlutabréfanna en ekki hann. Staðið hafi næst sérfróðum starfsmönnum stefnanda, sem gengið hafi frá samningunum, að taka af öll tvímæli um efni samninganna. Allan vafa í þessum efnum beri að skýra stefnda í hag en hann hafi verið ósérfróður á þessu sviði. Stefndi hafi eftir á að hyggja engan veginn gert sér grein fyrir hvað í samningunum fælist heldur hafi hann treyst starfsmönnum stefnanda enda hafi samningarnir fjallað um efni sem hann hafi haft litla eða enga þekkingu á.
Hafi stefnda aldrei verið gerð grein fyrir hvað samningarnir þýddu í raun og veru eða hve áhættusamir þeir hafi verið. Ef hann hefði gert sér grein fyrir áhættunni sem væri því samfara hefði hann aldrei skrifað undir slíka samninga. Í þessu sambandi leggi stefndi ríka áherslu á að samningar á milli aðila hafi komist á í gegnum síma en skrifað hafi verið undir samningana síðar. Fráleitt sé að halda því fram að svo flóknir samningar hafi verið útskýrðir fyrir honum í síma. Í því sambandi vísi stefndi til þágildandi ákvæðis 1. mgr. 13. gr. laga nr. 9/1993 um verðbréfaviðskipti sem sé efnislega samhljóða 1. mgr. 15. gr. núgildandi laga nr. 13/1996 um sama efni. Þá vísi stefndi til 20. gr. laganna um skyldur stefnanda gagnvart stefnda. Um ákvæði 27. gr. laganna haldi stefndi því fram að sú regla sem þar hafi verið lögfest um að leggja skuli mat á faglega þekkingu, fjárhag og reynslu viðskiptavinar áður en til viðskipta komi, hafi gilt áður en hún hafi verið lögfest.
Hafi stefnanda borið á grundvelli framangreindra lagaákvæða að sinna upplýsingaskyldu sinni gagnvart stefnda. Stefndi sé venjulegur fjölskyldu- og launamaður og hafi enga reynslu eða sérþekkingu haft af verðbréfaviðskiptum. Hið fjárhagslega tjón sem hann hafi orðið fyrir hafi haft veruleg áhrif á fjárhag fjölskyldu hans.
Þá vísar stefndi til II. kafla um neytendalán nr. 121/1994 en stefndi telur að II. kafla þeirra megi hafa til hliðsjónar varðandi upplýsingaskyldu stefnanda. Þá byggir stefndi á því að það hafi ekki verið fyrr en allt hafi verið komið í kalda kol sem honum hafi orðið ljóst hversu áhættusamir, margslungnir og flóknir samningarnir hafi verið í raun. Hann hafi til dæmis ekki gert sér ljóst að hann væri að taka gengistryggt lán þar sem gengisáhættan hafi öll verið hans. Þá hafi hann ekki gert sér grein fyrir að áhættan af þróun á gengi hlutabréfanna væri hans enda virtist stefnandi eigandi þeirra. Þá hafi hann heldur ekki gert sér grein fyrir að hann þyrfti að setja fram tryggingar fyrir tapi af samningunum auk 30% af samningsfjárhæð en ákvæði í samningnum um tryggingar geri einungis ráð fyrir tryggingum að hámarki 30% af samningsupphæð.
Verði að líta til þess að stefnandi sé sérfróður í verðbréfaviðskiptum og hafi fjölda sérfræðinga innan sinna vébanda. Staðan hafi því verið ójöfn gagnvart stefnda. Hafi því verið sérstök ástæða til þess að gera honum grein fyrir hversu áhættusöm viðskiptin væru og hvað í þeim fælist, sbr. ákvæði laga nr. 13/1996. Verði sérstaklega að líta til þess að stefnandi hafi verið að versla með eigin bréf, sbr. 20. gr. laganna.
Með vísan til alls framanritaðs um að stefnandi hafi ekki borið sig til við samningsgerðina með lögmætum hætti og ekki gert stefnda grein fyrir þeirri áhættu sem henni fylgdu beri stefnandi skaðabótaábyrgð á tjóni stefnda samkvæmt reglum um skaðabætur innan samninga. Verði stefnandi að bera sjálfur það tjón sem hann kunni að hafa orðið fyrir vegna samninganna og beri því að sýkna stefnda.
Skaðabótakrafa stefnda sé hærri en stefnukrafan og komi til skuldajafnaðar að svo miklu leyti sem þörf krefji. Stefndi eigi skaðabótakröfu á hendur stefnanda vegna alls þess tjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna viðskipta sinna við stefnanda en stefnandi hafi ráðstafað tryggingum frá stefnda til greiðslu á tapi á samningunum í andstöðu við hann. Tapið hafi samtals verið 4.739.233 krónur og að frádregnum hagnaði að fjárhæð 928.872 krónur hafi tjón hans numið 3.810.361 krónu.
Verði ekki fallist á að stefnandi sé skaðabótaskyldur gagnvart stefnda byggir hann sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni eða útbúið samninga með þeim hætti sem lög kveði á um, sbr. 31. og 33. gr. samningalaga nr. 7/1936. Séu samningarnir ógildir gagnvart stefnda þar sem stefnandi hafi notað sér fákunnáttu hans við samningsgerðina. Þá sé það ekki heiðarlegt af stefnanda að bera samninginn fyrir sig vegna atvika sem honum voru ljós við samningsgerðina en stefnda ekki, sbr. 36. gr. og a-d liðir 36. gr. samningalaga um að víkja beri samningunum til hliðar vegna atvika við samningsgerðina.
Stefndi mótmælir því að hafa sýnt tómlæti í málinu. Hann hafi ekki skilið að stefnandi hefði ekki farið að lögum fyrr en hann leitaði aðstoðar lögmanns í málinu. Hafi hann í beinu framhaldi mótmælt kröfum stefnanda. Fram til þess tíma hafi samningunum verið skilmálabreytt þar sem stefndi hafi ekki treyst sér til að gera þá upp og jafnframt vonast til að gengið myndi þróast honum í hag.
Um lagarök að öðru leyti en að framan er rakið vísar stefndi til meginreglna skaðabótaréttarins um skaðabætur innan samninga og til laga 7/1936 einkum 3. kafla laganna um ógilda löggerninga. Um málskostnaðarkröfu vísar stefndi til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 sbr. lög nr. 50/1988.
V
Stefndi byggir á því að umdeildir skiptasamningar séu ekki í samræmi við þær kröfur sem gera verði til slíkra samninga varðandi skýrleika. Þá sé framganga starfsmanna stefnanda við samningsgerðina ekki í samræmi við lög eða þær kröfur sem gera verði til slíkra sérfróðra starfsmanna.
Samningar þeir sem deilt er um í máli þessu eru um hlutabréfaviðskipti. Í samningunum koma fram skýringar á öllum hugtökum sem notuð eru í texta samninganna. Þannig er útskýrt í samningunum hvað átt sé við með hugtökunum, viðmiðunarbréf, reikningsupphæð, reikningsdagur, vaxtatímabil, viðmiðunargengi, markaðsgengi og viðmiðunarupphæð. Þá eru ákvæði í samningunum um jöfnunarhlutabréf, arð, gildistíma, fyrsta vaxtadag, heildarvaxtaupphæðir, vexti og útskýringar á hvernig vaxtareikniupphæðir og vaxtagreiðslur eru reiknaðar. Þá eru ákvæði um hvaða þýðingu greiðsludráttur hafi, hvaða tryggingar stefndi skuli setja fyrir greiðslum samkvæmt samningnum, ákvæði um þóknun og lokun samninganna.
Umdeildir samningar eru skiptasamningar sem snúast um greiðsluskipti samningsaðila. Um þetta segir í samningunum að á hverjum reikningsdegi skuli fara fram greiðslur milli aðila samningsins vegna undangengins vaxtatímabils. Stefnandi greiðir stefnda ef markaðsgengi er hærra en viðmiðunargengi á hverjum reikningsdegi, mismunninn á annars vegar:
A) verði viðmiðunarbréfa á reikningsdegi, að nafnvirði sem samsvarar reikningsupphæð, miðað við markaðsgengi og hins vegar:
B) verði viðmiðunarbréfa á reikningsdegi, að nafnvirði sem samsvarar reikningsupphæð miðað við viðmiðunargengi.
Stefndi greiðir stefnanda vexti á hverja vaxtareikniupphæð. Þá greiðir stefndi stefnanda ef viðmiðunargengi er hærra en markaðsgengi á hverjum reikningsdegi, mismuninn á annars vegar:
A) verði viðmiðunarbréfa á reikningsdegi, að nafnvirði sem samsvarar reikningsupphæð, miðað við viðmiðunargengi og hins vegar:
B) verði viðmiðunarbréfa á reikningsdegi, að nafnvirði sem samsvarar reikningsupphæð miðað við markaðsgengi. Þessu til viðbótar skuli fara fram gjaldmiðlaskipti þar sem stefndi greiðir stefnanda vaxtareikniupphæðir og stefnandi greiði stefnda viðmiðunarupphæð.
Stefndi byggir á því að stefnandi hafi aldrei gert honum grein fyrir hvað þeir samningar sem hér er fjallað um þýddu í raun og veru eða hvað þeir væru áhættusamir. Hafi samningarnir komist á í gegnum síma og sé fráleitt að halda því fram að svo flóknir samningar hafi verið útskýrðir fyrir honum í gegnum síma. Telur stefndi að stefnandi hafi með þessu ekki farið að lögum og vísar í því sambandi til 1. mgr. 13. gr. eldri laga um verðbréfaviðskipti nr. 9/1993 sem sé efnislega samhljóða 1. mgr. 15. gr. þágildandi laga um verðbréfaviðskipti nr. 13/1996. Þar sagði að fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skuli kappkosta að gæta fyllstu óhlutdrægni gagnvart viðskiptamönnum sínum í starfsemi sinni og beri þeim ávallt að haga störfum sínum þannig að viðskiptamenn njóti jafnræðis um upplýsingar, verð og önnur viðskiptakjör í verðbréfaviðskiptum. Þá skuli viðskiptamönnum, að teknu tilliti til þekkingar þeirra veittar greinargóðar upplýsingar um þá kosti sem þeim standi til boða.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins liggur fyrir að stefndi hafði gert samskonar samning við stefnanda og hér um ræðir áður eða hinn 13. janúar 2000. Sá samningur færði stefnda hagnað sem nam rúmum 900.000 krónum. Gengu viðskipti aðila eins fyrir sig þegar umdeildir samningar voru gerðir, stefndi hafði frumkvæðið að því að óska eftir því símleiðis við stefnanda að gera samningana og í kjölfarið gengu aðilar frá þeim skriflega. Eru engin gögn fyrirliggjandi um að stefnandi hafi ekki gætt þess að fylgja þeim fyrirmælum sem fram koma í tilvitnaðri 15. gr. þágildandi laga nr. 13/1996 um að gæta þess í viðskiptum þessum að viðskiptamenn hans nytu jafnræðis. Þá liggur fyrir að með undirritun sinni á samninganna lýsti stefndi því yfir og staðfesti að hann hefði kynnt sér eðli skiptasamninga og aflað sér sérfræðiráðgjafar þriðja aðila áður en hann undirritaði samningana. Þegar þetta er virt getur stefndi ekki nú, þegar hann hefur orðið fyrir tapi, haldið því fram að hann hafi ekki skilið þá samninga sem hér um ræðir. Þykir stefndi því ekki hafa sýnt fram á að stefnandi hafi ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni gagnvart stefnda. Þvert á móti verður ekki annað séð en að eðlilega hafi verið staðið að málum af hálfu stefnanda í viðskiptum hans og stefnda og í samræmi við ákvæði laga um verðbréfaviðskipti sem eiga við í viðskiptum aðila, sbr. samsvarandi ákvæði laga um neytendalán nr. 121/1994. Ekki verður séð hvernig tilvísun stefnda í 20. og 27. gr. þágildandi laga nr. 13/1996 á við í máli þessu.
Stefndi heldur því fram að hann hafi ekki gert sér grein fyrir hversu áhættusamir umræddir samningar voru og telur að á því beri stefnandi ábyrgð. Fyrir dómi kom fram hjá stefnda að á þessum tíma hafi andrúmsloftið, sem hann hafi hrifist af, verið þannig að almennt hafi ríkt bjartsýni á þessum markaði. Hann hafi vitað að báðir aðilar gætu haft hag af svona samningum. Þá kom fram hjá honum að hann hafi fengið tölvupóst sem hafi gefið tilefni til að ætla að hlutabréf í DALN, væru góður kostur. Sá tölvupóstur hafi verið hvatinn að því að hann óskaði eftir að gera skiptasamning nr. AFS2264 sem aðilar undirrituðu 31. mars 2000. Af þessu verður ekki annað ráðið en að stefndi hlaut að hafa gert sér grein fyrir því að viðskiptum sem þessum fylgdi áhætta enda grundvallaratriði í viðskiptum aðila að mögulegur ávinningur eða tap væri háð gengi þeirra hlutabréfa í því fyrirtæki sem skiptasamningarnir miðuðust við.
Þá liggur fyrir að stefnda var kunnugt um það í júní 2000 að tap var á þeim tveim samningum sem um er fjallað í þessu máli en þá undirrituðu aðilar skilmálabreytingu bréfanna þar sem gildistími þeirra var framlengdur. Þá fær það stuðning í fyrirliggjandi upptöku af símtali stefnda við starfsmann stefnanda 15. janúar 2001 að stefnda var á þeim tíma fullkunnugt um stöðu samninganna en þann dag var gildistími þeirra framlengdur til 1. september 2001 að ósk stefnda og kemur fram hjá stefnda í greinargerð hans að ástæður þess að hann óskaði framlengingar á samningunum voru þær að hann hafi ekki treyst sér til að gera þá upp og hann hafi vonast til að gengið myndi þróast honum í hag.
Stefndi heldur því fram að hann hafi ekki gert sér grein fyrir að hann hefði þurft að setja fram tryggingar fyrir tapi af samningunum auk 30% af samningsfjárhæð þar sem ákvæði í samningunum geri einungis ráð fyrir tryggingum að hámarki 30% af samningsupphæð. Hið rétta er að í samningunum segir að stefnandi geti krafist viðbótartryggingar umfram tilgreinds lágmarks, en verðmæti þeirra skuli þó aldrei nema hærri upphæð en sem nemi 30% af ígildi heildarvaxtaupphæðar í íslenskum krónum á hverjum tíma.
Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið verður ekki fallist á það að stefnandi hafi með framgöngu sinni í viðskiptum aðila bakað stefnda tjón og beri því ábyrgð á tapi stefnda á samningunum.
Þá verður ekki séð á hvern hátt stefnandi hafi notfært sér fákunnáttu stefnda við samningagerðina þannig að samningar aðila séu ógildir gagnvart stefnda með vísan til 31. og 33. gr. samningalaga nr. 7/1936, eða að víkja samningunum til hliðar vegna atvika við samningsgerðina á grundvelli 36. og 36. gr. a-d liða sömu laga.
Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er það niðurstaða máls þessa að dómkröfur stefnanda eru teknar til greina eins og þær eru fram settar og nánar greinir í dómsorði, en fjárhæð kröfunnar og vaxtakrafa hafa ekki sætt andmælum.
Eftir þeim úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur, og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnanda flutti málið Andri V. Sigurðsson hdl. en af hálfu stefnda flutti málið Reynir Karlsson hrl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Ragnar Sigurðsson, greiði stefnanda, Kaupþingi banka hf., 1.229.804 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 20. september 2001 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað þar með talinn virðisaukaskattur.