Hæstiréttur íslands

Mál nr. 285/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Fimmtudaginn 24. maí 2007.

Nr. 285/2007.                         Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Arnþrúður Þórarinsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(enginn)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald a. liður 1.mgr. 103.gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. maí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 30. maí 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að við fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfunnar hafi varnaraðili kannast við að hafa farið inn á heimili manns, sem hann telur að skuldi sér peninga. Samkvæmt lögregluskýrslu 23. maí 2007 viðurkennir varnaraðili ennfremur að hafa haft öxi meðferðis, brotið húsmuni og að tveir menn hafi verið með honum. Ekki hefur náðst til þessara manna. Varnaraðili er grunaður um brot sem geta varðað fangelsisrefsingu. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 23. maí 2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu þess efnis að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt.], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 30. maí nk. kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjórans kemur fram að lögregla var kölluð að íbúð á 1. hæð til hægri að [...] í Reykjavík kl. 15:12 þann 21. maí sl.  Tilkynnandi, sem sé annar húsráðanda, hafi borið um að þrír menn hefðu ráðist inn á hana og brotið allt og bramlað í íbúðinni.  Á vettvangi hafi tilkynnandi borið um að kærði hefði ruðst inn á hana ásamt tveimur öðrum mönnum og þeir hafi verið að leita að sambýlismanni hennar, A, sem hafi ekki verið heima.  Hafi kærði verið með öxi og skemmt með henni tölvu, sjónvarp, borðstofuborð og áður en hann hafi farið út hafi hann rekið öxina á kaf í forstofuhurðina og skilið hana eftir, en öxin hafi verið í hurðinni við komu lögreglu á vettvang.  Hafi tilkynnandi verið mjög miður sín og hrædd.  Hafi kærði beðið mennina tvo sem hafi verið með honum að halda henni og leyfa henni ekki að komast í síma, en mennirnir hafi ekki hlýtt fyrirskipununum.  Hafi kærði verið mjög ógnandi en ekki haft nein orð um að meiða hana.  Aftur á móti hafi kærði hótað að drepa A, næði hann til hans. 

Við skýrslutökur hjá lögreglu hafi A og sambýliskona hans greint svo frá að A hafi tekið að sér verkefni fyrir kærða og annan aðila fyrri part árs 2006.  Um mitt ár 2006 hafi vinnusambandinu lokið og hafi kærði nokkru síðar byrjað að hóta A í gegnum síma.  Hafi kærði m.a. hótað honum barsmíðum og að skjóta hann með byssu.  Hafi A síðan ekki heyrt frá kærða síðan í janúar sl., þar til þeir hittust laugardaginn 12. maí sl. í Kringlunni.  Hafi kærði þá komið upp að honum og spurt hvort hann vildi glóðarauga.  Um leið og hann hafi sagt þetta hafi hann slegið A höggi sem hafi lent á vinstra handarbaki, þar sem A studdi sig við slá með hönd á vinstri kinn.  Hafi kærði svo snúið sér við og sagt “þú átt ekki von á góðu”.   Hafi kærði hringt sl. laugardag, en A ekki svarað.

Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði ekki kannast við að hafa farið að [...] umrætt sinn og sagst ekki þekkja neinn sem þar byggi.  Aðspurður út í fyrra atvikið, þ.e. ætlaða líkamsárás í Kringlunni hafi kærði kannast við að hafa slegið til A sem hafi þá borið hendurnar fyrir sig.  Hafi kærði ekki viljað tjá sig um það hvers vegna hann hefði slegið til A.

Ekki hafi náðst til þeirra tveggja aðila sem borið hafi verið um að hafi verið með kærða að [...]. 

Til rannsóknar séu mjög ófyrirleitin brot, þar sem í fyrra tilvikinu sé ráðist að A á almannafæri og að því er virðist án nokkurs aðdraganda.  Í síðara tilvikinu sé farið er í heimildarleysi inn í íbúðarhúsnæði, með stórhættulegt vopn sem beitt sé á búsmuni og hótanir hafðar í frammi við annan húsráðanda sem sé heima þegar háttsemin eigi sér stað.  Sterkur grunur sé um að kærði hafi verið að verki í báðum tilvikum.

Sé hætta á ef kærði gengi laus að hann gæti torveldað rannsókn málsins með því að hafa áhrif á ætlaða samseka og/eða vitni og koma undan munum sem geti tengt hann og/eða ætlaða samseka við brotið.  Þá sé talið að kærði hafi sýnt af sér slíka háttsemi að ætla megi að áðurgreindum A stafi hætta af honum gangi hann laus.

Séu hin ætluðu brot talin varða við 217., 231., 233. og 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

Vísað sé til framangreinds, hjálagðra gagna og a- og d-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

 

Eins og rakið hefur verið kemur fram í rannsóknargögnum málsins að hinn 12. maí sl. hafi verið haft í hótunum við mann og hann sleginn höggi í Kringlunni.  Þá hafi verið ráðist inn á heimili mannsins, þar sem kona hans var stödd, og alvarlegar hótanir hafðar í frammi í garð mannsins. Þá hafi skemmdir verið unnar á heimilinu með háskalegu vopni.  Eru brot talin varða við 1. mgr. 217. gr., 231. gr., 233. gr. og 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Kærði er undir rökstuddum grun um að eiga aðild að þessu máli.  Hann neitar sök en játar að hafa slegið til mannsins 12. maí sl. og að hafa farið á heimili mannsins 21. maí sl.  Fyrir liggur að eftir á að yfirheyra vitni og finna aðra sakborninga og getur kærði haft áhrif á framburð þeirra haldi hann óskertu frelsi sínu.  Þá er ástæða til að ætla að nauðsynlegt sé að verja umræddan mann fyrir kærða.  Á þessum grundvelli er það niðurstaða í málinu að rétt sé að verða við kröfu lögreglu um að kærði sæti gæsluvarðhaldi skv. a- og d-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.  Verður gæsluvarðhaldi markaður sá tími sem krafist er. 

Sandra Baldvinsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

X, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 30. maí nk. kl. 16:00.