Hæstiréttur íslands
Mál nr. 323/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Aðilaskýrsla
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Föstudaginn 21. ágúst 2009. |
|
Nr. 323/2009. |
Besta mál ehf. (Jón Egilsson hdl.) gegn Alastair Nigel Howarth Kent (Bjarni S. Ásgeirsson hrl.) |
Kærumál. Aðilaskýrsla. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
B krafði A um greiðslu skuldar vegna verklauna fyrir málningarvinnu. Við aðalmeðferð málsins í héraði gaf fyrirsvarsmaður B munnlega skýrslu og greindi meðal annars frá því að málningarverktakinn L hefði samið við A um umrætt verk, en B síðar tekið það að sér sem undirverktaki þess félags án þess að standa í samningssambandi við A. Talið var að fyrirsvarsmaður B hafi með þessu gefið yfirlýsingu sem ósamrýmanleg væri málsókn hans til heimtu verklauna úr hendi A, sbr. 1. mgr. 50. og 4. mgr. 48. gr. laga nr. 91/1991. Var málinu því vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júní 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2009, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar úrlausnar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt gögnum málsins höfðaði sóknaraðili það til heimtu skuldar úr hendi varnaraðila að fjárhæð 430.000 krónur vegna verklauna fyrir málningarvinnu við húseign þess síðarnefnda að Ólafsgeisla 47 í Reykjavík. Í héraðsdómsstefnu kvað sóknaraðili varnaraðila hafa fengið sig til að sandspartla og mála húsið fyrir 730.000 krónur og hafi varnaraðili greitt 300.000 krónur af þeirri fjárhæð, en eftir stæði stefnufjárhæðin af launum fyrir verkið, sem hafi verið unnið í júní 2004 og að fullu lokið. Í greinargerð varnaraðila fyrir héraðsdómi var því meðal annars lýst að fyrri hluta árs 2004 hafi hann leitað tilboða nokkurra fagmanna í málningarvinnu við húseign sína að Ólafsgeisla 47 og sóknaraðili átt lægsta tilboðið, sem hafi numið 730.000 krónum. Varnaraðili hafi samið á þessum grunni við sóknaraðila, en skriflegur samningur ekki verið gerður. Meðan á verkinu stóð hafi varnaraðili greitt hluta umsaminna verklauna, 300.000 krónur. Hann hafi á hinn bóginn ekki innt frekari greiðslu af hendi, enda hafi vinnubrögð sóknaraðila reynst óviðunandi og hann horfið frá verkinu óloknu. Síðan hafi liðið á þriðja ár án þess að sóknaraðili léti frá sér heyra þar til varnaraðila hafi borist reikningur fyrir stefnufjárhæð þessa máls. Eftir að það var höfðað hafi aðilarnir átt fund til að leita sátta, en þar hafi sóknaraðili viðurkennt að verkinu hafi ekki verið lokið. Í greinargerðinni krafðist varnaraðili aðallega sýknu af kröfu sóknaraðila, en til vara að hún yrði lækkuð. Aðalkrafan var reist annars vegar á því að reikningur sóknaraðila fullnægði ekki skilyrðum 2. mgr. 34. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup með því að fyrir lægi að verki hans hafi ekki verið lokið og gæti reikningurinn því ekki án frekari skýringa stuðst við fjárhæð tilboðs hans og hins vegar á því að hann hafi með tómlæti glatað rétti til frekari verklauna. Varakrafa varnaraðila var á því byggð að hann ætti tilkall til afsláttar af umsömdum launum fyrir verkið, þar sem það hafi ekki verið unnið að fullu og gallar hafi verið á því.
Samkvæmt því, sem fram er komið fyrir Hæstarétti, gaf fyrirsvarsmaður sóknaraðila munnlega skýrslu 19. maí 2009 við aðalmeðferð málsins í héraði, þar sem meðal annars var greint frá því að málningarverktaki með heitinu Litalínan ehf. hefði samið við varnaraðila um verkið, sem áður greinir, en sóknaraðili síðan tekið það að sér sem undirverktaki þess félags án þess að standa í samningssambandi við varnaraðila. Þótt málatilbúnaður sóknaraðila í héraðsdómsstefnu hafi að því er varðar réttarsamband hans við varnaraðila fallið að lýsingu atvika í greinargerð þess síðarnefnda, hefur fyrirsvarsmaður sóknaraðila með þessu gefið yfirlýsingu, sem ósamrýmanleg er málsókn hans til heimtu verklauna úr hendi varnaraðila, sbr. 1. mgr. 50. gr. og 4. mgr. 48. gr. laga nr. 91/1991. Vegna þessa verður að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Besta mál ehf., greiði varnaraðila, Alastair Nigel Howarth Kent, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 19. maí. sl., er höfðað með stefnu birtri 30. maí 2008.
Stefnandi er Bestamál málningarþjónusta ehf. Reykjavík.
Stefndi er Alastair Nigel H. Kent, Ólafsgeisla 47, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 430.000 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 25. febrúar 2007 til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. sömu laga er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Loks er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar og til vara verulegrar lækkunar krafna og málskostnaðar og til þrautavara að stefnukröfur verði verulega lækkaðar og málskostnaður verði látinn niður falla.
Málsatvikum og málsástæðum er lýst þannig í stefnu:
„Krafa stefnanda er byggð á reikningi nr. 191 sem tilkominn er vegna vinnu stefnanda fyrir stefnda. Stefnandi tekur að sér málningarvinnu og fékk stefndi sem er eigandi hússins að Ólafsgeisla 47 stefnanda til að sandsparsla og mála hjá sér húsið, sem er 167 fm2 raðhús. Verkið var unnið í júní 2004 og var að fullu klárað. Samið var um fast fermetraverð, alls kr. 730.000.- með virðisaukaskatti. Stefndi hefur þegar greitt kr. 300.000.- en hér er krafið um eftirstöðvarnar, þ.e. kr. 430.000.-
Nr. Útgáfudagur Gjalddagi Fjárhæð
1. 25.01.2007 25.02.2007 430.000,00
Skuld þessi hefur ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og er því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.“
Í skýrslu sinn fyrir dómi sagði forsvarsmaður stefnanda að haft hefði verið samband við hann af Litalínunni og kvað hann það fyrirtæki hafa náð samkomulagi um verkið eftir að hafa gert tilboð í það að fjárhæð 930.000 krónur. Hann kvaðst ekki hafa gert tilboð sjálfur.
Eins og þegar sést af þessu er málavaxtalýsing í stefnu ekki í samræmi við skýrslu forsvarsmanns stefnanda og með vísan til e liðar 80. gr. laga nr. verður máli þessu vísað frá dómi án kröfu.
Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnanda 450.000 krónur í málskostnað.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Bestamál málningarþjónusta ehf., greiði stefnda, Alastair Nigel H.
Kent, 450.000 krónur í málskostnað.