Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-108
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Útboð
- Skaðabætur
- Viðurkenningarkrafa
- Verksamningur
- Opinber innkaup
- Tjón
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 10. október 2023 leitar Smíðandi ON ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 15. september sama ár í máli nr. 184/2022: Vatnsveita Rangárþings ytra og Ásahrepps bs. gegn Smíðanda ON ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á bótaskyldu gagnaðila vegna ætlaðs hagnaðarmissis sem leiddi af ákvörðun gagnaðila um að hafna tilboði hans í útboði um stækkun Lækjarbotnavatnsveitu.
4. Með dómi Landsréttar var gagnaðili sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda. Landsréttur hafnaði jafnframt frávísunarkröfu sem var uppi í málinu reistri á 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Þá var rakið í dómi Landsréttar að sá lagagrundvöllur sem málsaðilar studdu málsástæður sínar við í héraði og héraðsdómur byggði á væri ekki réttur, sbr. lög um opinber innkaup nr. 120/2016 og stjórnsýslulög nr. 37/1993. Við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti töldu málsaðilar að framangreint stæði því ekki í vegi að fært væri að leysa efnislega úr málinu og var á það fallist með hinum áfrýjaða dómi. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að þegar gagnaðili hafnaði leyfisbeiðanda sem samningsaðila hefði hann ekki sýnt fram á með gögnum að hann uppfyllti kröfu útboðsins um lágmarks veltu. Því hefði gagnaðila verið heimilt samkvæmt útboðsskilmálum að hafna leyfisbeiðanda sem bjóðanda. Þá var ekki talið að gagnaðili hefði brotið gegn meginreglum stjórnsýsluréttar við meðferð málsins enda hefði leyfisbeiðanda ítrekað og umfram skyldu verið veitt tækifæri til að skila frekari gögnum.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða Landsréttar um lagagrundvöll málsins sé bersýnilega röng. Markmið laga nr. 120/2016 og stjórnsýslulaga sé að tryggja að leitað sé hagkvæmustu viðskipta þegar sýslað sé með opinbert fé. Þá telur leyfisbeiðandi að niðurstaða Landsréttar út frá meginreglum stjórnsýsluréttar sé í andstöðu við túlkun Hæstaréttar í sambærilegum málum. Loks telur leyfisbeiðandi það rangt sem fram komi í dómi Landsréttar að hann hafi fengið ítrekaða fresti til að leggja fram gögn. Gagnaðila hafi verið í lófa lagið að kalla með skýrum hætti eftir staðfestingu á veltutölum. Ákvörðun um að hafna leyfisbeiðanda sem samningsaðila hafi því ekki verið í samræmi við meðalhóf.
6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómurinn sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.