Hæstiréttur íslands

Mál nr. 244/2004


Lykilorð

  • Umboðssvik
  • Lífeyrissjóður
  • Veðsetning
  • Vanhæfi
  • Fyrning
  • Skilorð


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. mars 2005.

Nr. 244/2004.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Karli Gottlieb Sentziusi Benediktssyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Umboðssvik. Lífeyrissjóður. Veðsetning. Vanhæfi. Fyrning. Skilorð.

K var sakfelldur fyrir umboðssvik, með því að hafa farið út fyrir umboð sitt til fjárfestinga fyrir hönd Lífeyrissjóðsins F, þar sem K var framkvæmdastjóri. Var hann dæmdur til 10 mánaða skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. maí 2004 að fenginni yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður en til vara, að refsing verði lækkuð.

I.

Ákærði hóf störf hjá Lífeyrissjóði Dagsbrúnar og Framsóknar árið 1970. Í ársbyrjun 1996 voru nokkrir lífeyrissjóðir sameinaðir í nýjan lífeyrissjóð, Lífeyrissjóðinn Framsýn, og var ákærði ráðinn framkvæmdastjóri hans. Svo sem ýtarlega er rakið í héraðsdómi, með vísan til skýrslna fyrir dóminum, sá ákærði um að fjárfesta í verðbréfum fyrir hönd sjóðsins í samræmi við reglugerð hans og síðar samþykktir sjóðsins, sem honum voru vel kunnar. Virðist sem ákærði hafi haft mikið svigrúm til að taka ákvarðanir um fjárfestingar fyrir sjóðinn og að stjórn hans hafi borið fullt traust til ákærða.

Ákærði lét af störfum sem framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins 1. júlí 2000. Svo sem nánar er rakið í héraðsdómi urðu vanskil hjá nokkrum fyrirtækjum tengdum honum með afborganir af veðskuldabréfum, sem sjóðurinn hafði keypt af þeim, og vaknaði grunur um misferli af hans hálfu í árslok 2000. Eftir fund með ákærða þar sem leitað var skýringa fór fram athugun af hálfu stjórnar sjóðsins, sem leiddi til þess að lögmanni hans var falin úttekt á umræddum lánveitingum síðla árs 2001. Að lokinni athugun lögmannsins var málið sent Fjármálaeftirlitinu, sem tilkynnti ríkislögreglustjóra um ætlað refsivert brot ákærða með bréfi 10. maí 2002. Ákærði var fyrst yfirheyrður um sakarefnið hjá ríkislögreglustjóra 22. maí 2003.

Við stofnun lífeyrissjóðsins Framsýnar voru í gildi lög nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Reglugerð fyrir lífeyrissjóðinn var staðfest af fjármálaráðherra 22. febrúar 1996. Lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða tóku gildi 1. júlí 1998. Í  samræmi við 27. gr. þeirra laga setti lífeyrissjóðurinn sér samþykktir 2. desember 1998 og tóku þær gildi 1. janúar 1999.

II.

Í vörn sinni hefur ákærði vísað til heimilda þeirra sem honum hafi verið veittar í reglugerð sjóðsins, samþykktum hans og fjárfestingarstefnu. Í lið 4.6. í reglugerðinni frá 1996 og liðum 4.5.3., 4.6.2. og 4.6.3. í samþykktunum frá 1998 er fjallað um störf framkvæmdastjóra og segir þar meðal annars að hann skuli fylgja þeirri fjárfestingarstefnu sem samþykkt sé á ársfundi sjóðsins og þeim útlánareglum sem stjórnin setji. Á reglubundnum stjórnarfundum skuli framkvæmdastjóri leggja fram yfirlit um fjárfestingar, rekstur og efnahag sjóðsins. Á ársfundi 28. júní 1996 voru gerðar nokkrar breytingar á reglugerð sjóðsins. Ein þeirra laut að ávöxtun fjár sjóðsins, og varð liður 8.1.5. svohljóðandi: „Í skuldabréfum tryggðum með veði í fasteignum, innan við 50% af fasteignamati. Stjórn sjóðsins er þó heimilt að víkja frá þessu mati, ef markaðsverð eigna gefur tilefni til.“ Á þeim sama fundi gerði ákærði grein fyrir tillögu stjórnar að fjárfestingarstefnu fyrir sjóðinn og var hún samþykkt samhljóða. Með tillögunni fylgdi greinargerð sem nefndist „Takmarkanir sem Lífeyrissjóðurinn Framsýn mun beita við fjárfestingar í einstökum verðbréfum. Þar segir meðal annars:

Skuldabréf tryggð með veði í fasteignum:

Skuldabréf  með veði í íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, allt að 50% af fasteignamati eða mati löggilts fasteignasala sem lífeyrissjóðurinn tilnefnir ef það er hærra, en þó skal veðsetning aldrei fara yfir 50% af brunabótamatsverði viðkomandi eignar.“

 

Ákærði hefur í vörn sinni vísað til þessarar samþykktar ársfundarins 1996 og telur hana hafa veitt sér þá heimild að velja milli fasteignamats og mats löggilts fasteignasala við kaup á slíkum skuldabréfum fyrir sjóðinn, en ekkert tillit sé tekið til þessarar heimildar í héraðsdómi. Hann andmælir einnig lögskýringum héraðsdóms, bæði á 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 31. gr. og 36. gr. laga nr. 129/1997, svo og um fyrningu brota og hæfi hans eftir reglum lífeyrissjóðsins og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

III.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi er ákærði borinn sökum um að hafa brotið gegn ákvæðum 249. gr. almennra hegningarlaga og 31. gr. og 36. gr., sbr. 55. gr. laga nr. 129/1997 með því að hafa farið út fyrir umboð sitt til fjárfestinga fyrir hönd lífeyrissjóðsins, þegar hann keypti af syni sínum A fimm skuldabréf Ingólfshofs ehf. á tímabilinu 5. mars 1999 til 8. október sama ár, þegar hann keypti fyrir hönd sjóðsins skuldabréf sem hann sjálfur var skuldari að 30. desember sama ár, og þegar hann keypti fyrir hönd sjóðsins 25. september 1997 skuldabréf útgefin af Gerplu ehf., sem A sonur hans fór fyrir, en í þeim hafi verið farið langt umfram leyfileg viðmiðunarmörk, án samþykkis eða vitundar sjóðsins. Þessi brot eru sundurliðuð í ákæruliðum I A, I C og II sem greinir í héraðsdómi, en þar var hann sýknaður af ákærulið I B, og er sú niðurstaða ekki hér til endurskoðunar.

Sem fyrr segir er talið af hálfu ákæruvalds að brotin, sem ákærða eru gefin að sök, varði meðal annars við 249. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt niðurlagsorðum þess ákvæðis geta slík brot varðað mest 6 ára fangelsi. Verður að fallast á með ákæruvaldinu að fyrningarfrestur taki mið af því refsihámarki og teljist því 10 ár, sbr. 3. tl. 1. mgr. 81. gr. laganna, sbr. og 3. mgr. sama lagaákvæðis. Eru brot ákærða samkvæmt II. kafla ákæru því ekki fyrnd.

Um hæfi sitt til greindra ráðstafana vísar ákærði til liðar 4.7. í reglugerð sjóðsins og liðar 4.7.1. í samþykktum hans, þar sem segi, að hvorki stjórnarmenn né starfsmenn megi taka þátt í meðferð máls ef þeir hafa persónulegra og verulegra hagsmuna að gæta sem kynnu að fara í bága við hagsmuni sjóðsins. Þetta ákvæði geri ráð fyrir því að aðeins sé um vanhæfi að ræða þegar ákvörðun gangi gegn hagsmunum sjóðsins. Þess vegna verði að finna hverjir hagsmunir sjóðsins hafi verið í hverju tilviki varðandi ávöxtunarkröfu og áhættu. Öll kaup skuldabréfanna hafi uppfyllt fjárfestingarstefnu sjóðsins um áhættu og ávöxtun og hafi hinir persónulegu hagsmunir, sem haldið sé fram að tengdust kaupunum, ekki farið gegn hagsmunum sjóðsins. Hafi  því ekki verið um að ræða brot gegn fyrrgreindum liðum  reglugerðar og samþykkta.

Í áðurnefndum ákvæðum reglugerðar og samþykkta sjóðsins sem ákærði vísar til segir: „Um vanhæfi til meðferðar einstaks máls fer að öðru leyti eftir meginreglum stjórnsýslulaga. Stjórnarmönnum og eftir atvikum starfsmönnum er skylt að upplýsa um aðstæður sem valda kunna vanhæfni skv. framantöldu.“ Hér er um almennar hæfiskröfur að ræða, sbr. og 3. gr., 4. gr. og 5. gr. stjórnsýslulaga með áorðnum breytingum og 31. gr. laga nr. 129/1997. Er fallist á með héraðsdómara, með vísan til forsendna hans, að ákærði hafi verið vanhæfur til að fara með fjárfestingar undir þeim ákæruliðum sem hér eru til meðferðar.

Varðandi ákærulið I A verður að líta svo á að í ljós sé leitt að kaup lífeyrissjóðsins á skuldabréfum tryggðum með veði í eigninni Ingólfshvoli, Ölfushreppi, voru utan þeirra marka sem fjárfestingarstefna hans heimilaði, um sérhæft atvinnuhúsnæði utan höfuðborgarsvæðisins. Með vísan til forsendna héraðsdóms er niðurstaða hans um sakfellingu ákærða í þessum ákærulið staðfest.

Um ákærulið I C hefur ákærði lagt fram ný gögn fyrir Hæstarétt til þess að styðja þá staðhæfingu sína að hann hafi eftir kaup sín á jörðinni Gljúfurárholti, Ölfushreppi, flutt í raun á hana eldra lán annars manns, sem hann hafi orðið að taka að sér að greiða. Gögn þessi ásamt fyrirliggjandi yfirliti yfir viðskiptareikning ákærða hjá lífeyrissjóðnum benda ekki til annars en að skuldabréfið með veði í Gljúfurárholti hafi verið gefið út við lok starfa ákærða hjá sjóðnum til að gera upp skuld, sem myndast hafði á viðskiptareikningnum, meðal annars með færslu eftirstöðvar umrædds láns á hann á fyrri stigum. Fjárfestingarstefna sjóðsins heimilaði ekki ákærða að veð væri tekið í þessari fasteign. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða í þessum ákærulið.

Varðandi ákærulið II hefur ákærði sem fyrr segir borið fram þau rök að með samþykkt ársfundar lífeyrissjóðsins 28. júní 1996 hafi honum verið veitt heimild til að kaupa skuldabréf tryggð með veði í íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, allt að 50% af fasteignamati eða mati löggilts fasteignasala sem sjóðurinn tilnefndi, væri það hærra. Löggiltur fasteignasali hafi metið markaðsverð eignarinnar 70.000.000 krónur. Sjóðurinn hafi keypt veðskuldabréfin fyrir 34.000.000 krónur 25. september 1997. Veðhlutfall hafi því verið 48% og veðsetningin þannig innan leyfilegra viðmiðunarmarka. Á þetta sjónarmið ákærða verður ekki fallist. Fasteignamat eignarinnar var 33.369.000 krónur, en nokkru fyrir útgáfu skuldabréfanna, sem hér um ræðir, hafði Gerpla ehf. keypt hana fyrir 43.000.000 krónur. Ákvæði reglugerðar lífeyrissjóðsins 8.1.5., sem samþykkt var á ársfundi 28. júní 1996, segir að heimilt sé að ávaxta fjármuni sjóðsins í skuldabréfum tryggðum með veði í fasteignum, innan við 50% af fasteignamati, en að stjórn sjóðsins sé þó heimilt að víkja frá þessu mati gefi markaðsverð eigna tilefni til. Í áðurgreindu ákvæði greinargerðar, sem samþykkt var á sama fundi, er bætt við orðunum „eða mati löggilts fasteignasala sem lífeyrissjóðurinn tilnefnir ef það er hærra, en þó skal veðsetning aldrei fara yfir 50% af brunabótamatsverði viðkomandi eignar.“ Hér er ljóslega um að ræða nánari útfærslu á ákvæði reglugerðarinnar um það á hvern hátt stjórn sjóðsins sé heimilt að miða veðhæfi eignar við annað en fasteignamat. Fram er komið að ákærði bar þessi skuldabréfakaup ekki undir stjórnina. Vegna þessa og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða samkvæmt þessum lið ákærunnar.

Brot ákærða eru réttilega heimfærð til refsiákvæða í héraðsdómi. Refsing ákærða er þar hæfilega ákveðin. Með vísan til raka héraðsdóms svo og þess, að dráttur varð í eitt ár á því að lögreglurannsókn hæfist á hendur ákærða, sem ekki hefur verið skýrður, er rétt að skilorðsbinda refsinguna eins og í héraðsdómi greinir. Samkvæmt þessu verður héraðsdómur staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Karl Gottlieb Sentzius Benediktsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 300.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. apríl 2004.

             Mál þetta, sem dómtekið var 6. apríl sl., er höfðað með ákæru útgef­inni af ríkislögreglustjóranum 21. janúar 2004, á hendur Karli Gottlieb Sentziusi Bene­dikts­syni, kt. [...], Gljúfurárholti, Ölfushreppi, fyrir umboðssvik og brot gegn lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með því að hafa í eftirfarandi tilvikum, í starfi sínu sem framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðsins Framsýnar, misnotað aðstöðu sína og stefnt fé sjóðsins í stórfellda hættu:

I

A.

Með því að hafa farið út fyrir umboð sitt til fjárfestinga fyrir hönd lífeyrissjóðsins þegar hann keypti fyrir hönd sjóðsins, af syni sínum A, eftirgreind skuldabréf sem einkahlutafélagið Ingólfshof var skuldari að, en umræddur sonur ákærða A og kona hans B voru í fyrirsvari fyrir félagið, og voru skuldabréfin með veði í lóðinni Ingólfshvoli, Ölfushreppi og þeim eignum er lóðinni tilheyrðu. Ákærði keypti bréfin án samþykkis eða vitundar stjórnar lífeyris­sjóðsins, en samkvæmt fjárfestingarstefnu sjóðsins voru fjárfestingar í skuldabréfum með veði í atvinnuhúsnæði utan höfuðborgarsvæðisins og fasteignum á lands­byggðinni utan kaupstaða óheimilar. Þá var ákærði vanhæfur til að taka ákvörðun um kaup á umræddum skuldabréfum vegna tengsla sinna við lánþega:

  1. Með kaupum á skuldabréfi merktu 687272, að fjárhæð kr. 15.000.000, áhvílandi á 10. veðrétti eignarinnar Ingólfshvols, útgefið þann 3.3. 1999, framselt lífeyrissjóðnum þann 5.3.1999 af A.
  2. Með kaupum á skuldabréfi merktu 687310, að fjárhæð kr. 2.000.000, áhvílandi á 12. veðrétti eignarinnar Ingólfshvols, útgefið þann 16.4.1999 og framselt lífeyrissjóðnum þann 21.4.1999 af A.
  3. Með kaupum á skuldabréfi merktu nr. 687309, að fjárhæð kr. 8.000.000, áhvílandi á 11. veðrétti eignarinnar Ingólfshvols, útgefið þann 16.4.1999 og framselt lífeyrissjóðnum þann 21.4.1999 af A.
  4. Með kaupum á skuldabréfi merktu 688093, að fjárhæð kr. 14.000.000, áhvílandi á 13. veðrétti eignarinnar Ingólfshvols, útgefið þann 7.5.1999 og framselt lífeyrissjóðnum þann 8.10.1999 af A.
  5. Með kaupum á skuldabréfi merktu 688094, að fjárhæð kr. 12.000.000, áhvílandi á 14. veðrétti eignarinnar Ingólfshvols, útgefið þann 29.9.1999 og framselt lífeyrissjóðnum þann 8.10.1999 af A.

 

B.

Með því að hafa farið út fyrir umboð sitt til fjárfestinga fyrir hönd lífeyrissjóðsins þegar hann veitti fyrir hönd sjóðsins sjálfum sér lán, þann 9. mars 1999, að fjárhæð kr. 4.000.000, með veði í jörðinni Hlíðartungu, Ölfushreppi, án samþykkis eða vitundar stjórnar sjóðsins, en samkvæmt fjárfestingarstefnu sjóðsins var veðsetning á fasteignum á landsbyggðinni utan kaupstaða óheimil. Þá var ákærði vanhæfur til að taka ákvörðun um að veita sjálfum sér lán.

 

C.

Með því að hafa farið út fyrir umboð sitt til fjárfestinga fyrir hönd lífeyris­sjóðsins þegar hann keypti fyrir hönd sjóðsins skuldabréf, sem hann sjálfur var skuldari að, þann 30. desember 1999, að fjárhæð kr. 6.000.000, með veði í jörðinni Gljúfur­árholti, Ölfushreppi, án samþykkis eða vitundar stjórnar sjóðsins, en sam­kvæmt fjárfestingarstefnu sjóðsins var veðsetning á fasteignum á landsbyggðinni utan kaupstaða óheimil. Þá var ákærði vanhæfur til að taka ákvörðun um kaup á skulda­bréfi sem hann var sjálfur skuldari að.

Eru brot þessi talin varða við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. og 5., sbr. 2. mgr. 31. gr., sbr. 55. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, sbr. 3., 4. og 5. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með áorðnum breytingum.

II

Með því að hafa farið út fyrir umboð sitt til fjárfestinga fyrir hönd lífeyrissjóðsins þegar hann veitti fyrir hönd sjóðsins einkahlutafélaginu Gerplu, sem sonur hans A var í fyrirsvari fyrir, eftirfarandi lán, þann 25. september 1997, með veði í fasteigninni Hverfisgötu 74, Reykjavík, sem numu samtals kr. 34.000.000, sem var 79% af kaupverði eignarinnar og langt umfram leyfileg viðmið­unar­mörk, án samþykkis eða vitundar stjórnar sjóðsins. Þá var ákærði vanhæfur til að taka ákvörðun um lánveitingu vegna tengsla sinna við lánþega:

        

Númer skuldabréfs:

Upphæð skuldabréfs:

 

685094

1.600.000

685095

2.250.000

685096

2.150.000

685097

3.500.000

685098

3.500.000

685099

3.500.000

685100

3.500.000

685101

3.500.000

685102

3.500.000

685103

3.500.000

685104

3.500.000

                                                                                                   

Eru brot þessi talin varða við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. og 5., sbr. 2. mgr. 31. gr. og 1. mgr. 36. gr., sbr. 55. gr. laga um skyldutryggingu líf­eyris­réttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, sbr. 3., 4. og 5. gr. stjórn­sýslulaga nr. 37/1993, með áorðnum breytingum.

             Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

             Elvar Örn Unnsteinsson hrl. gerir þá kröfu, fyrir hönd Lífeyrissjóðsins Fram­sýnar, kt. 561195-2779, að ákærða verði gert að greiða lífeyrissjóðnum skaðabætur að fjárhæð 30.430.535 krónur, auk vaxta skv. IV. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 16. júní 2002 til greiðsludags.

             Ákærði neitar sök. Af hálfu verjanda er þess krafist, að ákærði verði alfarið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi. Þá er krafist hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.

             Málsatvik:            

Með bréfi 10. maí 2002 tilkynnti Fjármálaeftirlitið ríkislögreglustjóranum um ætlað refsivert brot ákærða, sem fyrrverandi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðsins Framsýnar. Er tekið fram í bréfinu, að Fjármálaeftirlitið hafi haft lánveitingar lífeyris­sjóðsins, sem fyrrverandi framkvæmdastjóri hans hafi staðið að, til sérstakrar athugunar, en ákærði hafi verið framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins frá 1. janúar 1996 til 30. júní 2000. Er í bréfinu gerð grein fyrir því að Fjármálaeftirlitinu hafi 14. desember 2001 borist bréf stjórnar Lífeyrissjóðsins Framsýnar, ásamt úttekt Elvars Arnar Unnsteinssonar hæstaréttarlögmanns, á lánveitingum sjóðsins sem tengdust ákærða, og væru útistandandi hjá sjóðnum. Í bréfi stjórnarinnar sé óskað eftir því að Fjármálaeftirlitið skoði umræddar lánveitingar og annað það er tilefni þætti til vegna málsins. Er tekið fram að í úttekt lögfræðings lífeyrissjóðsins hafi verið tekin til skoðunar 23 lán sem öll hafi tengst lánveitingum ákærða, fjölskyldu hans eða fyrirtækja og félaga í eigu fjölskyldu hans. Fram kemur, að Fjármálaeftirlitið hafi ekki rætt við ákærða sjálfan um málið, né stjórnarmenn sjóðsins. Núverandi fram­kvæmdastjóri sjóðsins, C, hafi verið í samskiptum við Fjármála­eftirlitið vegna málsins og veitt þær upplýsingar er óskað hafi verið eftir. Er niðurstaða Fjármálaeftirlitsins sú, að við kaup á 28 veðskuldabréfum fyrir hönd Lífeyrissjóðsins Framsýnar, hafi ákærði brotið gegn ákvæðum laga, reglugerða, samþykkta og fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðsins. Í bréfi Fjármálaeftirlitsins er nánar rakið í hverju ætluð brot séu fólgin, en þau eru talin beinast gegn 5. mgr., sbr. 2. mgr., og 3. mgr. 31. gr. og 4. mgr. 38. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyris­réttinda og starfsemi lífeyrissjóða og 2. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.  Þá eru brotin talin beinast gegn 1. mgr. gr. 4.6 í reglugerð lífeyrissjóðsins, sbr. 4.5.3 í síðari reglugerð sjóðsins, ákvæðum 1. mgr. 4.7 í reglugerð sjóðsins, sbr. 4.7.1 í síðari reglugerð, ákvæðum 2. mgr. 4.7 í reglugerð sjóðsins, sbr. 4.7.2 í síðari reglugerð sjóðsins, ákvæðum 8.1.5 í reglugerð sjóðsins, ákvæði 9 töluliðar starfsreglna framkvæmdastjóra, sem samþykktar hafi verið á stjórnarfundi í lífeyrissjóðnum 1. október 1998 og ákvæðum í fjárfestingarstefnum sjóðsins. Telur Fjármálaeftirlitið ljóst, með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, að ákærði hafi sem framkvæmdastjóri sjóðsins farið út fyrir heimildir sínar varðandi kaup á veðskuldabréfum og í ákveðnum tilvikum tekið slíkar ákvarðanir án þess að fyrir hafi legið heimildir frá stjórn lífeyrissjóðsins. Ennfremur telur Fjármálaeftirlitið ástæðu til að ætla, að ákærði hafi með óeðlilegum hætti staðið að fyrirgreiðslu til aðila sem séu nátengdir honum og með þeim ráðstöfunum hafi hann stefnt hagsmunum og fjármunum sjóðsins í hættu. Hafi Fjármálaeftirlitið ástæðu til að ætla að háttsemi ákærða varði við 249. gr. laga nr. 19/1940. Er tekið fram, að Fjármálaeftirlitið hafi farið yfir skýrslur endurskoðanda á árunum 1999 og 2000, en endurskoðunarfyrirtækið Deloitte & Touche hf. hafi farið með endurskoðun og innri endurskoðun á þeim tíma. Í þeim skýrslum sé ekki að finna sérstaka umfjöllun eða athugasemdir varðandi starfsemi sjóðsins vegna lánveitinga framkvæmdastjórans að undanskilinni ábendingu í skýrslu um innra eftirlit, frá 16. febrúar 2000, þar sem bent sé á þörf á vandaðri málsmeðferð við kaup á skuldabréfum og vakin athygli á háu veðhlutfalli einstaka skuldabréfa. Með bréfi Fjármálaeftirlitsins til ríkislögreglustjórans fylgdi greinargerð um einstök skuldabréf sem athuguð voru, afrit af skuldabréfunum 28, bréf stjórnar Lífeyrissjóðsins Framsýnar til Fjármálaeftirlitsins, ásamt greinargerð lögmanns sjóðsins, bréf Bankaeftirlits Seðla­banka Íslands frá 23. nóvember 1998 ásamt niðurstöðum vettvangsathugunar á starf­semi sjóðsins miðað við 31. mars 1998, reglugerðir og samþykktir lífeyris­sjóðsins, starfsreglur stjórnar og framkvæmdastjóra, fjárfestingarstefnur og skýrsla um innra eftirlit Deloitte & Touche hf.. Að auki fylgdu með afrit af öðrum skuldabréfum, afrit úr hlutafélagaskrá og yfirlit yfir uppboðssölur. Ákæra ríkis­lögreglu­stjórans byggir á meðferð ákærða á 18 skuldabréfum af þeim 28 er rannsökuð voru.

Ákærði var fyrst yfirheyrður um sakarefnið hjá ríkislögreglustjóranum 22. maí 2003. Núverandi framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins, C, var einnig yfirheyrðir um efnið, sem og fyrrverandi formenn og varaformenn lífeyrissjóðsins, D og E. Ákærði og framangreind vitni voru yfirheyrð fyrir dómi, sem og vitnin F endurskoðandi hjá Deloitte & Touch hf., fasteignasalarnir G, H og I og sonur ákærða A. Þá gaf Elvar Örn Unnsteinsson lögmaður lífeyrissjóðsins skýrslu fyrir dómi, sem og J, starfsmaður Íslandsbanka hf. Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærða og vitna.

Ákærði kvaðst hafa hafið störf hjá Lífeyrissjóði Dagsbrúnar-Framsóknar á árinu 1970. Þegar sex sjóðir hafi verið sameinaðir í Lífeyrissjóðinn Framsýn 1. janúar 1996 hafi hann verið ráðinn framkvæmdastjóri hins nýstofnaða sjóðs. Hafi hann frá upphafi séð um að fjárfesta í verðbréfum fyrir hönd sjóðsins í samræmi við reglugerð sjóðsins til að byrja með og síðar samþykktir hans, en allar reglur sjóðsins og ákvæði laga um heimildir til fjárfestinga hafi verið ákærða kunnar. Allar fjárfestingar hafi verið gerðar án athugasemda af hálfu stjórnar sjóðsins, en samskipti við stjórn hafi alla tíð verið í föstum skorðum. Fjárfestingarstefnur sjóðsins, sú fyrsta frá árinu 1996, hafi að grunni til verið samdar af ákærða og síðar samþykktar af sjóðsstjórn. Síðari breytingar á stefnunni hafi þróast í samráði ákærða við stjórn lífeyrissjóðsins og fjármálastjóra. Í fjárfestingarstefnum sé að finna ákvæði um takmarkanir sjóðsins um veðsetningu fasteigna gagnvart skuldabréfum tryggðum með veði í fasteignum. Ákærða hafi þó ekki verið óheimilt að fjárfesta í skuldabréfum með veði annars staðar en þar sé tilgreint og hafi sjóðurinn í einhverjum tilvikum fjárfest í verðbréfum með veði í eignum á öðrum stöðum en þar sé tilgreint. Fjárfestingar á höfuðborgarsvæðinu hafi t.d. farið alfarið eftir fjárfestingarstefnunni. Stefnan hafi ekki bannað fjárfestingar með kaupum á skuldabréfum með veði í fasteignum á landsbyggðinni. Hafi fjárfestingar í þeim tilvikum byggt á mati hverju sinni, um hve verðmæta eign hafi verið að ræða o.s.frv. Sjóðsfélögum hafi t.a.m. verið veitt lán með veði í jörðum, en það séu helstu dæmi þess að sjóðurinn hafi fjárfest í skuldabréfum með veði í jörðum úti á landi. Þar sé í raun ekki um fjárfestingakost að ræða, heldur fjárfestingar tengdar réttindum sjóðsfélaga.

Ákærði kvaðst reglulega hafa lagt fyrir stjórnarfundi lista yfir öll keypt verðbréf, til að unnt hafi verið að gera athugasemdir við fjárfestingar hans. Ekki hafi verið farið yfir kaup á hverju og einu skuldabréfi, nema athugasemdir hafi verið gerðar við kaupin. Þá kvað ákærði Deloitte & Touche hf. hafa annast innra eftirlit fyrir lífeyrissjóðinn. Lífeyrissjóðurinn hafi staðið framarlega í því að fullnægja þeim skyldum er lagðar hafi verið á lífeyrissjóði með lögum nr. 129/1997, en sjóðurinn hafi fyrstur sjóða fengið starfsleyfi og orðið fyrstur sjóða til að koma á innra eftirliti. Því hafi verið komið á laggirnar á árunum 1998 og 1999. Úttekt hafi verið gerð á verðbréfaeign sjóðsins í innra eftirliti, án þess að nokkurn tíma hafi verið gerðar athugasemdir við fjárfestingar ákærða fyrir hönd sjóðsins. Niðurstöður innra eftirlits hafi verið lagðar fyrir stjórn lífeyrissjóðsins, án þess að það hafi nokkru sinni leitt til viðbragða af hálfu stjórnar.

 

I.A.  Ákærði kvaðst, á fyrri hluta árs 1999, utan eitt bréf í september það ár, hafa annast kaup lífeyrissjóðsins á 5 skuldabréfum er keypt hafi verið af einkahlutafélaginu Ingólfshofi, með veði í lóðinni Ingólfshvoli í Ölfushreppi og þeim eignum er lóðinni tilheyrðu. Fyrirsvarsmaður einkahlutafélagsins hafi verið A, sonur ákærða. Um hafi verið að ræða skuldabréf er farið hafi á 10.-14. veðrétt eignarinnar. Við verðmat á eigninni hafi verið stuðst við mat G fasteignasala frá 28. september 1998 á verðmæti eignarinnar, en Magnús hafi margsinnis komið að því að meta verðmæti jarða á landsbyggðinni fyrir sjóðinn. Þá hafi fyrirhugaðar framkvæmdir við uppbyggingu að Ingólfshvoli lítið verið farnar af stað. Í ársbyrjun 1999 hafi nánast allt verið tilbúið, en þá hafi starfsemi reiðskóla þar hafist. Síðar hafi legið fyrir annað mat G, frá í október 1999, er hafi metið verðmæti lands og eigna 218.000.000 króna. Á þeim tíma hafi framkvæmdir á Ingólfshvoli nánast allar verið búnar. Kvaðst ákærði hafa fylgst vel með allri framvindu mála í þeim efnum. Hafi hann sjálfur haft yfir að ráða viðamikilli reynslu við mat á byggingum og framkvæmdum og á því byggt mat sitt á verðmæti jarðarinnar. Er undir ákærða var borin skýrsla I löggilts fasteignasala, frá 27. nóvember 2001 um áætlað söluverð á jörðinni 190.000.000 króna, kvað hann rangt er þar kæmi fram að um væri að ræða sérhæfðar eignir, því unnt væri að breyta húseignum á jörðinni til að þær myndu henta hvaða rekstri sem væri, t.d. iðnaði. Endurstofnverð eignanna væri á bilinu 220.- 250.000.000 króna. Fyrir hafi legið tvö verðmöt er sjóðnum hafi verið kunnugt um. Annað að fjárhæð 218.000.000 króna en hitt að fjárhæð 250.000.000 króna. Meðaltal þeirra mata væri 234.000.000 króna, en eftir að lánin hafi verið tekin hafi verið áhvílandi á eignunum 92.000.000 króna. Ef litið væri á reiðhöll og hesthús sem sérhæft atvinnuhúsnæði, mætti lána 35% af verðmæti þeirra. Hið sérhæfða húsnæði væri samkvæmt verðmati metið á 156.000.000 króna, en 35% af þeirri fjárhæð næmi tæpum 55.000.000 króna. Annað húsnæði væri veitingahús og íbúðir, veitingahúsið 500 m2 og íbúðirnar 206 m2. Verðmæti þeirra eigna væri 78.000.000 króna og 50% af þeirri fjárhæð væri 39.000.000 króna. Samkvæmt því hafi verið innan marka um heimildir til fjárfestinga fyrir hönd sjóðsins að veita lán að fjárhæð 39.000.000 króna, að viðbættum 55.000.000 króna sem myndu þá vera í allt 94.000.000 króna. Svigrúm til lánveitinga myndi hækka ef reiðhöllin yrði ekki skilgreind sem sérhæft atvinnuhúsnæði. Reiðhöllin væri skemma, fulleinangruð með hárri lofthæð, sem hugsa mætti til margvís­legra nota. Það væri því rangt að skilgreina þessar eignir sem sérhæfð atvinnu­húsnæði.

Þegar ákærði var inntur eftir því af hverju hann hafi ekki gert stjórn lífeyrissjóðsins grein fyrir kaupum sínum á skuldabréfunum kvað hann viðskiptin hafa verið unnin með sama hætti og gilti almennt um fjárfestingar hans fyrir hönd sjóðsins. Hafi hann haft umboð sjóðsins til að fjárfesta í skuldabréfum og hafi hann ekki borið einstök mál inn á borð stjórnar nema um hafi verið að ræða sérstök tilvik, eins og ef um hafi verið að ræða kaup á skuldabréfum útgefnum vegna framkvæmda við Hvalfjarðargöng. Kvað ákærði sér sem framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins hafa verið kunnugt um takmarkanir á veðsetningu fasteigna, en samþykkt hafi verið í stjórn sjóðsins að veð í íbúðarhúsnæði í kaupstöðum á landsbyggðinni hafi ekki mátt fara upp fyrir 35%. Sama hafi gilt um sérhæft atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. ef um hafi verið að ræða sérhæft atvinnuhúsnæði skyldi hámarkið ekki vera hærra en 35%. Sér hafi verið kunnugt um öll áhvílandi lán á jörðinni Ingólfshvoli þegar umrædd veðskuldabréf hafi verið keypt.

Fram kom hjá ákærða að starfandi framkvæmdastjóri, formaður og varaformaður sjóðsins, ásamt skrifstofustjóra, hafi fundað með ákærða undir lok árs 2000 vegna vanskila á tilteknum skuldabréfum. Um hafi verið að ræða skuldabréf með veði í Ingólfshvoli. Á fundinum hafi ákærði samið við sjóðinn um að koma málum á hreint og hafi fundarmenn samþykkt það. Ári síðar, eða 27. nóvember 2001, hafi D ritað bréf til Elvars Arnar Unnsteinssonar hæstaréttarlögmanns og óskað eftir athugun á umræddum bréfum, þar sem hluti þeirra hafi þá verið kominn í vanskil á ný. Kvað ákærði tilraunir hafa verið gerðar með að koma á laggirnar skóla að Ingólfshvoli. Ef skólanum hefði verið komið á laggirnar haustið 2002 hafi verið unnt að skuldbreyta áhvílandi skuldabréfum og hefðu málin þá leyst. Elvar Örn hafi talið fyrirsvarsmönnum sjóðsins trú um að það væri sjóðnum fyrir bestu að selja eignirnar að Ingólfshvoli það sumar. Þar sem skólinn hafi ekki verið kominn af stað hafi reksturinn ekki gengið eftir, en hin húsin á staðnum hafi verið nemendahús, mötuneyti og þess háttar. Ef sjóðurinn hefði beðið með aðgerðir sínar þar til skólinn hafi verið kominn af stað, hefði sjóðurinn fengið hærra verð fyrir eignirnar. Kvaðst ákærði á nefndum fundi hafa gert stjórnarmönnum grein fyrir því að mál væru í ákveðnum farvegi sem myndi leiða til þess að sjóðurinn myndi ekki tapa neinum fjármunum. Kvað ákærði sjóðinn m.a. hafa tekið upp í skuld vegna vanskila veð­skuldabréf með veði í Sundstræti 36 á Ísafirði.

 

I.B.  Ákærði kvaðst hafa keypt jörðina Hlíðartungu í Ölfushreppi í maí 1998. Um hafi verið að ræða ríkisjörð. Húseignir á jörðinni hafi verið til sölu, en ekki jörðin sjálf. Ábúendum á litlum jörðum á þessu svæði hafi verið boðið að kaupa jarðir af ríkinu. Kvaðst ákærði hafa haft uppi fyrirvara við kaupin, um að ábúandi jarðarinnar myndi hefjast handa við að kaupa jarðarhlutann af ríkinu. Það hafi síðan gengið eftir og 18. maí 1998 hafi verið búið að ganga frá kaupum á jörðinni af ríkinu. Ákærði kvaðst hafa látið ábúandann hafa fjármuni til þeirra kaupa, þar sem ábúandinn hafi ekki haft neina fjármuni sjálfur. Kaupverð jarðarhlutans af ríkinu hafi verið 836.000 krónur. Þegar kaupsamningur hafi síðar verið gerður milli ákærða og seljanda, hafi jörðin verið komin inn í kaupin. Brunabótamat jarðarinnar byggi eingöngu á fasteignamati jarðarinnar, ekki landverðinu sjálfu. Við það að fá landið sem byggðarland hafi verðmæti jarðarinnar aukist úr 836.000 krónum í 9-10.000.000 króna. Heildarverðmæti jarðarinnar hafi þá verið komið yfir 20.000.000 króna. Við mat á heildarverðmætinu væri unnt að miða við söluverð á jörðum í næsta nágrenni. Ákærði kvað því rangt, að verðmæti jarðarinnar hafi verið 10.500.000 krónur, eins og miðað hafi verið við. Eignin hafi því ekki verið veðsett yfir mörk.

Ákærði kvaðst kannast við að hafa fengið sjóðsfélagalán 9. mars 1999, að fjárhæð 4.000.000 króna, með veði í jörðinni Hlíðartungu. Þá hafi verið liðinn töluverður tími frá kaupum hans á jörðinni. Munur á sjóðsfélagalánum og öðrum lánum sjóðsins felist fyrst og fremst í hagstæðari vöxtum fyrir sjóðsfélaga. Hafi hann átt jafnan rétt á slíku láni og aðrir sjóðsfélagar og hafi staða hans sem framkvæmda­stjóri sjóðsins engu breytt um það. Ákærði kvaðst hafa verið sjóðsfélagi frá árinu 1970. Slík lán væru jafnan meðhöndluð af skrifstofustjóra, K. Kvaðst ákærði ekki hafa gert stjórn lífeyrissjóðsins grein fyrir þeirri lánveitingu, enda hafi hann ekki þurft þess. Sjóðsfélagalán hafi ekki farið á lista sem lagður hafi verið fyrir stjórn, heldur fari um lánin eftir sérstökum reglum um sjóðsfélaga. Þrátt fyrir að heimildir sjóðsins til fjárfestinga í skuldabréfum með veði í fasteignum á landsbyggðinni hafi verið takmarkaðar, hafi oft komið til þess, þegar um sjóðsfélaga­lán hafi verið að ræða, að sjóðurinn hafi tekið veð í eignum á landsbyggðinni utan kaupstaða. Hafi lánveiting þessi að öllu leyti verið eðlileg og innan þeirra reglna sem miðað hafi verið við.

Ákærði kvað Hlíðartungu hafa verið selda, en jörðina hafi hann selt syni sínum L. Lífeyrissjóðurinn væri með allar kröfur sínar þar tryggðar áfram, en salan hafi falist í yfirtöku kaupanda á áhvílandi veðskuldum.

 

I.C. Ákærði kvað jörðina Gljúfurárholt í Ölfushreppi hafa komið í sölu á árinu 1999. Dánarbú hafi selt ákærða jörðina fyrir 27.500.000 krónur. Til að fjármagna kaupin hafi ákærði notið aðstoðar Íslandsbanka, en ákærði hafi gert bankanum grein fyrir áformum sínum um að taka 75 hektara lands og gera úr þeim 15 spildur, 5 hektara að stærð hverja um sig, fyrir sumarhús og eftir atvikum beit fyrir hross yfir sumartímann, en skortur hafi verið á slíkum möguleikum fyrir hestamenn. Bankinn hafi samþykkt að veita ákærða lán að fjárhæð 21.500.000 krónur á þessum forsendum. Til að auðvelda sölu á einstaka spildu hafi verið ákveðið að gefa út 15 skuldabréf að fjárhæð 1.000.000 króna hvert. Eitt bréf hafi átt að geta fylgt hverri spildu við sölu. Ákærði kvað fyrir hafa legið áætlun um að hver spilda myndi seljast á 2 - 2.500.000 krónur. Við það kvað ákærði landverðið hafa vaxið, en heildarverðmæti fyrir allar spildurnar hafi þá verið komið í 50-60.000.000 króna. Síðar um haustið hafi sveitarstjórnarmaður í sveitarfélaginu rætt við ákærða um að æskilegt væri að búa til á þessum stað þéttbýliskjarna. Ákærði kvaðst hafa fallist á það og hafi þá verið ákveðið að útbúið yrði deiliskipulag fyrir hektarana 75. Samþykkt hafi síðan verið í bæjarstjórn í mars 2000, að setja á laggirnar þéttbýliskjarna á svæðinu. Skipulags­stofnun hafi stöðvað þau áform á þeim forsendum að gera hafi þurft aðalskipulag fyrir svæðið áður en til þess kæmi. Úr hafi orðið að skipulagðir hafi verið 20 hektarar af 75 og búið væri að selja 15 lóðir af 20. Verð á jörðinni hafi við þetta hækkað úr 50-60.000.000 króna í um 400.000.000 króna. Þá standi eftir verðmæti jarðarinnar að öðru leyti, því inni í því mati séu ekki um 60 hektarar landsvæðis, ásamt mannvirkjum á þeim hluta jarðarinnar. 

Ákærði kvað í raun ekki hafa átt sér stað lánveitingu vegna skuldabréfs, að fjárhæð 6.000.000 króna, með veði í jörðinni Gljúfurárholti. Um hafi verið að ræða nafnbreytingu á skuldabréfi, sem stofnað hafi verið til á líftíma lífeyrissjóðs Dagsbrúnar – Framsóknar, en ákærði hafi í raun einungis yfirtekið það bréf. Það hafi verið gert með þeim hætti að eldra bréfið hafi verið tekið út úr tölvukerfi sjóðsins í lok júní 1999 og síðan hafi verið gengið frá málinu í lok desember 1999 með útgáfu nýs bréfs, en af því sjáist að vextir séu reiknaðir frá 1. júlí það ár. Í raun hafi einungis nafni á eldra skuldabréfi verið breytt. Bréfið hafi í raun gengið í gegnum venjulegt ferli hjá sjóðnum og þannig komið að einhverju leyti á borð ákærða. Ekki hafi verið ástæða til að fara með þetta bréf inn á stjórnarfund, þar sem ekki hafi verið um nýja lánveitingu að ræða. Fyrir lögreglu kvað ákærði kaupin hafa verið gerð í samráði við stjórnarformann, varaformann stjórnar og starfandi framkvæmdastjóra. Kvaðst ákærði á þessum tíma hafa verið að ganga frá ýmsum uppgjörsmálum við sjóðinn.

Ákærði kvað jörðina Gljúfurárholt hafa verið metna á 150.000.000 króna. Þau skuldabréf er nú hvíli á jörðinni nemi um 50.000.000 króna og séu þau öll í skilum. Sjóðurinn beri ekkert tjón vegna ráðstafana ákærða, en jörðina hafi hann selt syni sínum A. Salan hafi falist í yfirtöku áhvílandi veðskulda.

 

II. Ákærði kvaðst kannast við að hafa, fyrir hönd Lífeyrissjóðsins Framsýnar, veitt einkahlutafélaginu Gerplu, sem A sonur ákærða hafi verið í fyrirsvari fyrir, 11 tilgreind lán með veði í fasteigninni Hverfisgötu 74 í Reykjavík. Lánin hafi numið samtals 34.000.000 króna. Einkahlutafélagið hafi gengið inn í kaup á eigninni á grundvelli kauptilboðs gagnvart dánarbúi, sem aðrir hafi átt og hafi verið að renna út. Kaupverðið hafi verið 43.000.000 króna, en það verð hafi verið greitt fyrir hús með 8 íbúðum og verslunarhúsnæði á fyrstu hæð. Um hafi verið að ræða fasteign á besta stað í Reykjavík, og lánið til langs tíma með góðum vöxtum. Kvaðst ákærði hafa litið svo á að um væri að ræða góðan kost fyrir lífeyrissjóðinn til fjárfestinga. Lánaðar hafi verið 34.000.000 króna til kaupa félagsins á eigninni, sem geti verið 79% af söluverðmæti eignarinnar, en ekki af markaðsvirði hennar. Söluverð eignarinnar hafi legið fyrir er lánin hafi verið veitt. Markaðsvirðið hafi verið 70.000.000 króna, en ákærði kvaðst hafa miðað við mat G fasteignasala á áætluðu markaðsvirði eignarinnar þegar hann hafi miðað við heimilt veðsetningarhlutfall á eigninni. Brunabótamat eignarinnar hafi verið 73.000.000 króna. Fáránlegt hafi verið að miða við 43.000.000 króna þegar veðhlutfall eignarinnar hafi verið skoðað. Eignin hafi verið vel seljanleg og fjárfestingin því til hagsbóta fyrir sjóðinn. Ekki hafi stjórn lífeyrissjóðsins verið upplýst sérstaklega um kaupin, en þau unnin með hefðbundnum hætti. Fjárfestingin hafi verið innan allra leyfilegra marka og bréfin með venjulegum vöxtum. Kvaðst ákærði ekki hafa litið svo á að grein 8.1.5 í reglugerð sjóðsins, sem miði við að heimilt sé að ávaxta fjármuni sjóðsins í skuldabréfum tryggðum með veði í fasteignum, innan við 50% af fasteignamati, hafi átt við í þessu tilviki. Ákærði kvað það viðhorf sitt að mat fasteignasala á verðmæti eignar gengi framar söluverði eignar þegar metið væri hve stórt hlutfall af verðmæti eignar mætti veðsetja. Á þeim forsendum gæti komið til þess að lífeyrissjóðurinn veitti lán fyrir hærri fjárhæð en næmi söluverði eignar. Frá því lífeyrissjóðurinn hafi farið af stað með fjárfestingar og kaup á veðskuldabréfum, hafi auk mats fasteignasala á verðmæti eigna verið miðað við brunabótamat fasteigna. Fasteignamatið hafi hins vegar lítið verið notað. Fasteignin Hverfisgata 74 hafi síðar verið seld. Lífeyrissjóðurinn eigi enn eitthvað af veðskuldabréfum áhvíldandi á eigninni sem væru vel tryggð. Sjóðurinn beri því ekkert tjón af ráðstöfunum ákærða.

Ákærði kvað ekki hafa verið fjallað sérstaklega um skilning sinn á fjárfest­ingar­stefnu lífeyrissjóðsins í stjórn lífeyrissjóðsins. Er ákærði var inntur eftir því hvort hann hafi ekki talið sig vanhæfan til þess að fjárfesta í skuldabréfum fyrir hönd sjóðsins þegar í hlut hafi átt ákærði sjálfur eða ættingjar hans eða fyrirtæki í eigu ættingja, þá kvaðst ákærði alltaf hafa haft að leiðarljósi að kaupa bréf sem hafi verið sjóðnum í hag, veðskuldabréf á góðum kjörum og með góðri veðtryggingu. Ákvæði um vanhæfi til meðferðar mála hafi verið að finna í samþykktum sjóðsins en þar hafi verið haft að leiðarljósi að svo fremi ráðstafanir hafi ekki gengið gegn hagsmunum sjóðsins, hafi ákærði ekki verið vanhæfur til meðferðar máls. Eftir þeim reglum hafi hann farið. Hafi þá ekki skipt máli hver skuldari hafi verið. Sér hafi ekki þótt ástæða til að greina stjórn sjóðsins sérstaklega frá viðskiptum þegar svo hafi staðið á. Slíkt hafi ekki verið gert nema um hafi verið að ræða óvenjuleg viðskipti, svo sem vegna fjárfestinga í bréfum með sérstaklega lágum vöxtum og einhverju slíku. Ef eingöngu hafi verið um að ræða kaup á venjulegum veðskuldabréfum með góðum vöxtum og ekki hafi verið um það að ræða að verið væri að hygla einum eða neinum, þá hafi ákærði ætíð farið eins að í fjárfestingum í veðskuldabréfum fyrir sjóðinn. Hann hafi í engum þeim tilvikum er ákært sé fyrir talið að um óvenjulegar eða miklar ráðstafanir hafi verið að ræða. Það eigi t.a.m. við um kaup á veðskuldabréfunum með veði í jörðunum Ingólfshvoli og Hlíðartungu í Ölfushreppi. Hann hafi aldrei í störfum sínum haft uppi neinar ráðstafanir sem hafi verið til þess fallnar að afla ákveðnum sjóðsfélögum, fyrirtækjum eða öðrum hagsmuna umfram aðra á kostnað sjóðsins. Hann hafi litið svo á, að eignir í Ölfushreppi færu eftir sömu lögmálum og eignir á höfuðborgarsvæðinu, en svæðin væru skilgreind sem sama atvinnusvæðið. Ekki væri því unnt að skilgreina eignir á þeim stað sem eignir á landsbyggðinni.

D, fyrrverandi formaður stjórnar Lífeyrissjóðsins Framsýnar, kom fyrir dóminn sem vitni. Kvaðst vitnið hafa verið í stjórn sjóðsins og fyrirrennara hans allt frá árinu 1970 og hafi það ýmist gegnt störfum formanns eða varaformanns frá 1983 og þar til það hafi látið af störfum á árinu 2003. Kvað vitnið vanskil á veðskuldabréfum er hafi tengst ákærða hafa orðið til þess að sjóðurinn hafi látið skoða fjárfestingar ákærða fyrir hönd sjóðsins. Fjárfestingar hafi verið skoðaðar í samvinnu við endurskoðanda. Í upphafi hafi verið talið að unnt yrði að koma þeim bréfum er hafi verið í vanskilum í skil, en haustið 2001 hafi staðan verið orðin þannig að ákveðið hafi verið að senda málið til Fjármálaeftirlitsins til frekari skoðunar og þá með tilliti til þess hvort ákærði hafi farið út fyrir takmörk sín til fjárfestinga fyrir hönd sjóðsins. Niðurstaða þeirrar skoðunar Fjármálaeftirlitsins hafi verið sú, að eftirlitið hafi sent kæru til lögreglu vegna starfa ákærða fyrir hönd lífeyrissjóðsins.

Vitnið kvað ákærða hafa haft víðtækt umboð til fjárfestinga fyrir hönd sjóðsins, en þó samkvæmt reglum hans. Framkvæmdastjóri sjóðsins, fyrst ákærði og síðan C, hafi reglulega lagt fyrir stjórn sjóðsins lista yfir allar fjárfestingar sjóðsins. Þar hafi komið fram upplýsingar um fjárhæðir skuldabréfa, veð, nöfn skuldara og þess háttar. Sá háttur hafi verið hafður á síðan 1987, en fyrir þann tíma hafi stjórn sjóðsins komið virkar að hverri og einni ráðstöfun. Vitnið kvað sjóðsfélagalán ekki hafa farið á lista er lagður hafi verið fyrir stjórn. Þannig hafi það verið í upphafi, en síðar hafi því verið breytt þannig að stjórn hafi einungis verið gerð grein fyrir hve mörg sjóðsfélagalán hafi verið veitt. Vitnið kvað ákærða hafa átt rétt á venjulegu sjóðsfélagaláni og hafi honum ekki borið skylda til að tilkynna stjórn sérstaklega um slíkt lán. Ef um sérstök mál hafi verið að ræða, hafi framkvæmdastjóri gert sérstaka grein fyrir þeim, en það hafi t.d. átt við ef einhver tiltekinn skuldari hafi skuldað sjóðnum óeðlilega háa fjárhæð. Vitnið kvað ákærða einan hafa tekið endanlegar ákvarðanir um kaup á veðskuldabréfum á þeim tíma sem hann hafi verið við störf. Á tilteknu tímabili hafi hann verið með aðstoðarmann í þeim efnum. Síðar hafi C verið ráðinn sem sjóðsstjóri. Ekki kvað vitninu því hafa verið kunnugt um verkaskiptingu milli ákærða og sjóðsstjóra, en ákærði hafi tekið endanlegar ákvarðanir um kaup á skuldabréfum. Þessum reglum hafi verið breytt síðar og nú á tímum þurfi tveir aðilar að rita undir allar lánveitingar fyrir hönd sjóðsins. Ákærða hafi verið treyst fyrir því að fara með öll mál eftir þeim reglum er gilt hafi.

Fjárfestingarstefna hafi verið samþykkt fyrir sjóðinn, upphaflega 1996. Hafi hún verið í sífelldri endurskoðun. Það hafi verið ljóst, að ákærða hafi í einu og öllu borið að fara eftir stefnu sjóðsins í fjárfestingum. Hafi hann átt að bera undir stjórn sjóðsins ef út af henni yrði brugðið, en vitnið kvaðst muna eftir tilvikum af þeim toga. Þegar beitt hafi verið ákvæðum um heimildir til fjárfestinga í stefnunni innan höfuðborgarsvæðisins, hafi höfuðborgarsvæðið fylgt hinum landfræðilegu mörkum. Kvaðst vitnið ekki minnast þess að í stjórn hafi verið rætt um að Ölfushreppur teldist til þess svæðis skv. fjárfestingarstefnum sjóðsins. Þá kvaðst vitnið ekki getað ímyndað sér að rætt hafi verið í stjórn sjóðsins um að heimilt hafi almennt verið fyrir sjóðinn að fjárfesta í skuldabréfum með veði í eignum utan þeirra svæða er fjárfestingarstefnan hafi heimilað.

Vitnið kvaðst, ásamt varaformanni stjórnar E og framkvæmdastjóra C, hafa farið að Ingólfshvoli haustið 2001. Tilgangur með þeirri ferð hafi verið að skoða eignir fyrir austan til að meta veðandlög samkvæmt þeim skuldabréfum er hafi verið í vanskilum. Hafi sú ferð verið farin í kjölfar þess að stjórn sjóðsins hafi verið farin að hafa áhyggjur af fjárfestingum ákærða, en áður en Fjármálaeftirlitinu hafi verið falið að kanna ráðstafanir ákærða. Á þeim tíma hafi stjórn orðið það ljóst hverjir hafi setið í stjórn Ingólfshofs ehf. Sú vitneskja hafi ekki legið fyrir áður en skuldabréfin hafi farið í vanskil. Kvaðst vitnið líta svo á, að veðandlagið að Ingólfshvoli hafi verið talið til landsbyggðarinnar, en ekki höfuðborgarsvæðisins, þegar miðað væri við ákvæði í reglugerð sjóðsins um heimildir til fjárfestinga. Að auki teldist reiðhöllin að Ingólfshvoli til atvinnuhúsnæðis á landsbyggðinni, sem óheimilt hafi verið að fjárfesta í. Fullyrti vitnið að kaup á skuldabréfum með veði í Ingólfshvoli hafi ekki verið samþykkt fyrir fram af stjórn lífeyrissjóðsins. Jafnframt fullyrti vitnið, að því hafi ekki verið kunnugt um eigendur, eða tengsl þeirra við ákærða, að veðandlögunum Hlíðartungu og Gljúfurárholti í Ölfus­hreppi eða Hverfisgötu 74 í Reykjavík, er kaup á skuldabréfum með veði í þeim eignum hafi átt sér stað. Kaup á þeim skuldabréfum hafi heldur ekki verið samþykkt fyrir fram af stjórn lífeyrissjóðsins.

E, kom fyrir dóminn sem vitni, en hann kvaðst ýmist hafa verið formaður eða varaformaður stjórnar lífeyrissjóðsins frá árinu 1995 til vorsins 2003. Kvað vitnið ástæður þess að tilteknar fjárfestingar ákærða fyrir hönd lífeyrissjóðsins hafa verið teknar til skoðunar hafa verið þær, að tiltekin skuldabréf sem sjóðurinn hafi fjárfest í hafi gjaldfallið. Í framhaldi þess hafi starfsmenn sjóðsins séð ástæðu til að gera formanni og varaformanni hans viðvart um málið þar sem þeir hafi haft af því vaxandi áhyggjur. Eftir að formaður og varaformaður hafi skoðað tiltekin viðskipti ákærða hafi niðurstaða þeirra orðið sú, að fela einum af lögmönnum sjóðsins að fara yfir þessi tilteknu viðskipti og gera þeim og síðan stjórn grein fyrir hvernig þau féllu að reglum sjóðsins um fjárfestingar.

Litið hafi verið svo á, að ákærða bæri í öllu að fara að reglum lífeyrissjóðsins um heimildir til fjárfestinga. Ákærði hafi notið mikils trausts stjórnar til fjárfestinga, en hann hafi áður rekið Lífeyrissjóð Dagsbrúnar-Framsóknar í langan tíma með mjög góðum hætti. Hafi ákærði getið sér góðs orðs á meðal verðbréfasala og í umhverfi lífeyrissjóða fyrir að hafa verið mjög naskur við kaup á veðskuldabréfum og mat á verðmæti eigna. Hafi hann því haft nokkuð frjálsar hendur við fjárfestingar sínar. Aldrei hafi komið inn á borð stjórnar upplýsingar um kaup ákærða á skuldabréfum sem hafi verið tengd honum eða nákomnum honum. Þannig hafi fyrst verið ræddar í stjórn sjóðsins, eftir að mál ákærða hafi verið tekin til skoðunar, fjárfestingar sjóðsins í skuldabréfum með veði í eignum í Ölfushreppi og hvernig þær hafi samrýmst fjárfestingarstefnum sjóðsins. Fjárfestingarstefnan hafi verið skýr um hvaða fjárfestingar hafi verið heimilar, en ekki hafi í stjórn sjóðsins verið tekið til umræðu að framkvæmdastjóra hafi verið heimilt að fjárfesta í skuldabréfum með veði í eignum á svæðum er ekki hafi verið talin þar upp. Þá kvað vitnið ekki hafa verið rætt í stjórn sjóðsins um að Ölfushreppur teldist til höfuðborgarsvæðisins í skilningi reglna sjóðsins og fjárfestingarstefnu um heimildir sjóðsins til fjárfestinga. Ekki hafi heldur verið fjallað í stjórn um skilgreiningu á sérhæfðu atvinnuhúsnæði, en vitnið kvað það skoðun þess að reiðhöllin að Ingólfshvoli væri sérhæft atvinnuhúsnæði. Þá skoðun byggði vitnið á því að í húsnæðinu hafi ekki verið fullburða gólf, en það fælist töluverður kostnaður í að koma því upp. Auk þess væri staðsetning húsnæðisins vandamál í þessu efni, en markaður fyrir slíkt hús væri minni þar en á höfuðborgar­svæðinu. Orðalag í fjárfestingarstefnu væri svo sem ekki afdráttarlaust eða skýrt um að sjóðnum væri beinlínis bannað að fjárfesta í skuldabréfum með veði í sérhæfðu atvinnu­húsnæði á landsbyggðinni. Um það hafi að einhverju leyti verið deilt í stjórn sjóðsins, þar sem nokkurs konar grámi hafi hvílt yfir því, hvort sérhæft atvinnu­húsnæði hafi eingöngu verið takmarkað við höfuðborgarsvæðið eða hvort það hafi að einhverju leyti mátt ná til landsbyggðarinnar líka. Vitnið kvað það hins vegar að sínu mati óeðlilegan skilning miðað við samhengi orðalagsins í fjárfestingarstefnunni. Ljóst væri að þungi sjóðsins í fjárfestingum hafi alltaf verið á höfuðborgarsvæðinu og við það miðist þær flestar. Það hafi t.a.m. verið ljóst að sjóðnum hafi verið óheimilt að kaupa skuldabréf með veði í sumarbústöðum. Þessi sjónarmið þurfi að hafa í huga þegar fjárfestingarstefnan sé skoðuð, en hún þrengi heimildir til fjárfestinga umfram það sem lög nr. 129/1997 og samþykktir fyrir sjóðinn geri, sem geri ekki greinarmun á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni í þeim efnum. Stjórn sjóðsins setji fjárfest­ingar­stefnuna, en ekki aðalfundur, og sé það því hennar einnar að veita undanþágur frá stefnunni í einstaka tilvikum. Það liggi þá fyrir sérstök samþykkt um það, en fjárfestingarstefnan sé bindandi fyrir starfsmenn sjóðsins, sem leiði til þess, að þeir þurfi að taka upp við hana einstök mál vilji þeir að einhverju leyti víkja frá henni varðandi spennandi fjárfestingarkosti.

Vitnið staðfesti að það hafi farið að Ingólfshvoli ásamt D og ákærða til að skoða þar eignir, en ferðin hafi verið farin eftir að farið hafi að bera á vanskilum á skuldabréfum með veði í eignunum. Vitnið kvað því ekki hafa verið kunnugt um tengsl ákærða við þá aðila eða fyrirsvarsmenn þeirra aðila er hafi verið skuldarar að bréfum með veði í eignununum. Það sama hafi átt við um skuldabréf með veði í fasteigninni Hverfisgötu 74 í Reykjavík, en kaup á þeim bréfum hafi ekki verið borin undir stjórn fyrir kaupin. Vitnið staðfesti að framkvæmdastjóri sjóðsins hafi lagt fyrir stjórn lista yfir keypt skuldabréf á hverjum tíma. Í einhverju tilviki hafi verið spurst fyrir um kaup framkvæmdastjóra þar sem veð hafi verið á landsbyggðinni, en hann hafi fullvissað stjórn um að um kaup á bréfum hafi  verið að ræða, sem fyllilega væru innan allra veðsetningamarka og þyrfti stjórnin engar áhyggjur að hafa af kaupunum. Þeim athugasemdum hafi ekki verið fylgt frekar eftir. Innra eftirlit sjóðsins hafi verið að skríða í gang á þessum tíma, en vitnið kvaðst ekki muna eftir því að það hafi gert athugasemdir við kaup ákærða á skuldabréfum með veði í fasteignum á landsbyggðinni. Kvaðst vitnið ekki vilja fullyrða, að ákærða hafi beinlínis verið óheimilt að fjárfesta í skuldabréfum með veði í eignum í Ölfushreppi, heldur hafi hann farið umfram þær veðsetningarheimildir er hann hafi haft í starfi. Þegar veð­setningarheimildir væru metnar, væri fyrst og fremst horft á fasteigna- og bruna­bótamat og ef talið væri að það gæfi ekki réttar vísbendingar um verðmæti eigna, væri fengið mat fasteignasala á verðmæti þeirra. Staðfesti vitnið, að G fasteignasali hafi unnið slík möt fyrir sjóðinn þegar um hafi verið að ræða jarðir á landsbyggðinni, en Magnús hafi selt mikið af jörðum. Vitnið kvaðst ekki hafa haft hugmynd um að ákærði hafi verið eigandi að eignunum í Hlíðartungu og Gljúfurárholti í Ölfushreppi, þegar skuldabréf hafi verið keypt með veði í þeim eignum.

C, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðsins Framsýnar kom fyrir dóminn. Vitnið kvaðst í upphafi hafa verið ráðinn sem sjóðsstjóri hjá sjóðnum, eða í ágúst 1997, og hafa starfað sem slíkur þar til það hafi verið ráðinn framkvæmdastjóri í júlí 2000. Hafi vitnið tekið þátt í stofnun Verðbréfamiðlunar Framsýnar og starfað sem framkvæmdastjóri hennar frá því í lok sumars 1999, en á því tímabili hafi vitnið ekki starfað fyrir lífeyrissjóðinn. Kvað vitnið upphaf þess að fjárfestingar ákærða hafi verið teknar til skoðunar hafa verið að vanskil hafi orðið á tilteknum skuldabréfum í eigu sjóðsins. Í framhaldi af því hafi vitnið ásamt formanni og varaformanni stjórnar átt fund með ákærða, en bréfin hafi tengst honum með ýmsu móti. Ákærði hafi á fundi aðila lýst því yfir að skuldabréfunum yrði komið í skil. Hafi hann gert það, að hluta með afhendingu veðskuldabréfa með veði í fasteigninni að Sundstræti 36 á Ísafirði. Síðar hafi aftur farið að myndast vanskil á skuldabréfunum og hafi það leitt til þess að Fjármálaeftirlitið hafi verið fengið til að skoða þessar tilteknu fjárfestingar ákærða fyrir hönd lífeyrissjóðsins. Ákærði hafi í störfum sínum fyrir lífeyrissjóðinn haft mikla þekkingu á fjárfestingum í veðskuldabréfum. Hafi hann þekkt öll fasteigna- og fermetraverð og í raun allt sem snúið hafi að fasteignum. Ef vitnið hafi fengið bréf til afgreiðslu fyrir sjóðinn, hafi það alltaf borið kaup á þeim undir ákærða vegna þeirrar þekkingar og reynslu er hann hafi búið yfir. Kvaðst vitnið hins vegar sjálft hafa séð um fjárfestingar í skuldabréfum og hlutabréfum sem hafi verið á markaði. Kaup á skuldabréfum með veði í fasteignum hafi reglulega verið lögð fyrir stjórn sjóðsins, en þau hafi verið færð inn á lista, þar sem fram hafi komið hver hafi verið skuldari einstakra bréfa, fjárhæð skuldabréfsins, ávöxtunarkrafa, dagsetning kaupa, söluverð og oftast hver hafi selt bréfin. Á þeim lista hafi ekki komið fram t.d. hvert veðandlagið hafi verið. Hafi þessi aðferð verið viðhöfð um kaup á öllum verðbréfum, hvort sem um hafi verið að ræða veðskuldabréf eða önnur verðbréf.

Ekki kvað vitnið ákærða hafa gert stjórn lífeyrissjóðsins grein fyrir tengslum sínum við fyrirsvarsmenn skuldara að skuldabréfum með veði í eignunum að Ingólfs­hvoli í Ölfushreppi og Hverfisgötu 74 í Reykjavík, en sonur ákærða hafi verið í fyrirsvari fyrir einkahlutafélög er hafi verið skuldarar að bréfum með veði í þeim eignum. Af lista um kaup á veðskuldabréfum er ákærði hafi lagt fyrir stjórn, hafi ekki verið unnt að átta sig á þeim tengslum, þar sem ekki hafi komið þar fram hverjir hafi verið í fyrirsvari fyrir einstök félög. Vitnið staðfesti, að sjóðsfélagalán hafi ekki farið á lista um keypt skuldabréf er lagður hafi verið fyrir stjórn. Á fundi stjórnar 1. mars 1999 hafi reglum um sjóðsfélagalán verið breytt þannig, að hámarkslán hafi verið hækkuð í 4.000.000 króna. Hafi sjóðsfélagi öðlast full réttindi til láns eftir að hafa verið sjóðsfélagi í 3 ár, án tillits til eftirstöðva fyrri lána.

Vitnið kvað það skoðun þess að ekki hafi verið heimilt fyrir sjóðinn að fjárfesta í skuldabréfum með veði í jörðum á landsbyggðinni, þar sem fjárfestingar­stefna sjóðsins hafi ekki heimilað það. Þá kvað vitnið það skoðun þess að ekki hafi heldur verið heimilt á grundvelli fjárfestingarstefnu sjóðsins að fjárfesta í skulda­bréfum með veði í sérhæfðu atvinnuhúsnæði á landsbyggðinni. Vitnið kvaðst hafa setið stjórnarfundi lífeyrissjóðsins allt frá upphafi starfa þess hjá lífeyrissjóðnum á árinu 1997 og því hafa setið fundi þegar yfirlit hafi komið um þær fjárfestingar ákærða er ákæra lúti að, þ.e. í skuldabréfum með veði í fasteignunum að Ingólfshvoli, Hlíðartungu og Gljúfurárholti í Ölfushreppi og fasteigninni að Hverfisgötu 74 í Reykjavík. Ekki hafi komið fram á því yfirliti upplýsingar um hvar eignirnar hafi verið staðsettar

Fasteignin Ingólfshvoll hafi verið seld nauðungarsölu og í framhaldi af því hafi lífeyrissjóðurinn eignast jörðina. Eignin hafi verið seld í kjölfarið. Ekki hafi verið hafist handa við að innheimta mismun á söluverði eignarinnar og þeirri fjárhæð er fjárfest hafi verið fyrir á sínum tíma, með því að beina kröfum um eftirstöðvar að Ingólfshofi ehf. sem upphaflegum skuldara. Lífeyrissjóðnum hafi verið gert kaup­tilboð í eignirnar að Ingólfshvoli og hafi sjóðurinn svarað því tilboði með sölutilboði. Þar hafi verið gert ráð fyrir að söluverð eignarinnar yrði 95.000.000 króna, en forsenda fyrir sölunni hafi verið að kaupandi myndi einnig ná samkomulagi um kaup á 5 útskiptum lóðum úr eigninni, ásamt mannvirkjum. Staðfesti vitnið að Hlíðar­tunga í Ölfushreppi hafi verið seld nauðungarsölu. Við uppgjör á uppboðsandvirði hafi lífeyrissjóðurinn átt þess kost að fá kröfur sínar vegna tveggja skuldabréfa í eigu sjóðsins með veði í eigninni að fullu greiddar. Sjóðurinn hafi kosið að láta skulda­bréfin hvíla áfram á eigninni eftir sölu eftir að þeim hafi verið komið í skil.

Vitnið kvað lífeyrissjóðinn í fjárfestingum sínum jafnan hafa miðað verðmæti fasteigna við fasteignamat eigna eða eftir atvikum brunabótamat eignanna. Miðað hafi verið við markaðsverð eigna, ef það hafi verið lægra en fasteigna- eða brunabótamat. Innra eftirliti hafi verið komið á fyrir sjóðinn. Það eftirlit hafi verið í höndum Deloitte & Touche hf. Vitnið kvaðst ekki minnast þess að innra eftirlit hafi gert athugasemdir við skuldabréfakaup ákærða fyrir hönd lífeyrissjóðsins, t.a.m. vegna þess að um hafi verið að ræða fasteignir eða jarðir á landsbyggðinni. Vitnið kvað sjóðinn ekki fjárfesta í skuldabréfum með veði í fasteignum á landsbyggðinni. Það komi þó helst til greina í þeim tilvikum þegar um sé að ræða sjóðsfélagalán. Reglur sjóðsins um kaup á skuldabréfum í öðrum tilvikum banni ekki beinlínis kaup á skuldabréfum með veði í fasteignum á landsbyggðinni, en setji slíkum kaupum þó veruleg takmörk. Í slíkum tilvikum sé horft til stórra byggðarkjarna á landsbyggðinni.

F löggiltur endurskoðandi hjá Deloitte & Touche hf. kom fyrir dóminn. Kvaðst vitnið, ásamt öðrum starfsmönnum Deloitte & Touch hf., hafa annast innra eftirlit fyrir Lífeyrissjóðinn Framsýn, en samningur hafi verið gerður um eftirlitið 25. september 1998. Innra eftirlit hafi falist í úttektum, er hafi verið kynnt stjórn bréflega með reglubundnum hætti. Staðfesti vitnið að eitt slíkt bréf væri á meðal gagna málsins, en það væri dagsett 16. febrúar 2000. Bréfum innra eftirlits hafi fylgt samantektir, unnar m.a. af vitninu, þar sem fram hafi komið ýmsar upplýsingar um einstök lán, svo sem útreiknuð veðhlutföll og veðhlutföll samkvæmt fjárfestingar­stefnu lífeyrissjóðsins. Hluti af innra eftirliti hafi falist í að kanna hvort fjárfestingar­stefnu sjóðsins hafi verið fylgt. Eftirlitið hafi byggt á úrtakskönnunum og eitt af því sem tekið hafi verið til athugunar hafi verið hvort veðsetningar hafi verið innan veðmarka samkvæmt þeim reglum er sjóðnum hafi borið að fara eftir. Kvaðst vitnið hafa ritað minnisblað í janúar 2001 um skuldabréfakaup ákærða. Skuldabréf með veði í jörðinni Ingólfshvoli hafi komið í úrtakskönnun og hafi þau að mati innra eftirlits fallið innan þess flokks að vera með veði í sérhæfðu atvinnuhúsnæði. Jafnframt hafi þau verið talin vera umfram 35% af fasteignamatsverði samkvæmt fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðsins. Að mati vitnisins hafi fjárfestingarstefnan ekki gert greinarmun á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni þegar um sérhæft atvinnuhúsnæði hafi verið að ræða. Það hafi verið mat innra eftirlits, að veðsetning Gljúfurárholts hafi verið innan viðmiðunarmarka, svo sem tekið sé fram í minnisblaði Deloitte & Touche frá 22. janúar 2001. Samkvæmt þeim upplýsingum er eftirlitið hafi haft undir höndum hafi það sama átt við um Hverfisgötu 74 í Reykjavík, eins og tekið sé fram í minnis­blaðinu.

G löggiltur fasteignasali kom fyrir dóminn. Vitnið kvaðst  að beiðni Lífeyrissjóðsins Framsýnar hafa framkvæmt mat á jörðinni Ingólfshvoli 11. október 1999 og hafi vitnið metið verðmæti eigna á 218.000.000 króna. Eignirnar að Ingólfshvoli séu þess eðlis, að þær nýtist til margra hluta. Sérhæfing þeirra sé því í sjálfu sér ekki mikil og í raun sé húsnæðið atvinnuhúsnæði sem nýtt sé sem reiðhöll. Sérhæfing húsnæðis felist í því að ekki sé unnt að nota það nema undir eina starfsemi. Miklu skipti um eignirnar að Ingólfshvoli, hversu rúmgott húsnæðið sé, en hátt sé til lofts og vítt til veggja. Hvoru tveggja gefi mikla möguleika varðandi nýtingu hús­næð­isins. Flestar byggingar að Ingólfshvoli sé unnt að nota undir annars konar starfsemi. Ekki hafi verið mikið framboð á eignum í Ölfushreppi en eftirspurn talsverð. Eignir á því svæði hafi því verið vel seljanlegar og eftirsóttar. Hitaveita á svæðinu skipti miklu máli í því sambandi. Þetta hafi því gilt um fasteignirnar að Ingólfs­hvoli, Hlíðartungu og Gljúfurárholti.

Vitnið kvaðst hafa framkvæmt mat á verðmæti fasteignarinnar að Hverfisgötu 74 í Reykjavík. Hafi það mat gert ráð fyrir að verðmæti eignarinnar væri 70.000.000 króna. Hafi vitnið skoðað allar íbúðir eignarinnar við matið og að baki matsfjárhæð hafi því búið sjónarmið eins og hvert gæti verið verðmæti eignarinnar ef hún yrði seld í hlutum. Eignin hafi verið seld 9 dögum síðar á 43.000.000 krónur, en vitnið kvaðst ekki hafa komið nærri þeirri sölu. Vitnið hafi í gegnum 20 ára reynslu sína sem fast­eignasali öðlast verulega reynslu við mat á eignum og þá sérstaklega eignum á jaðar­svæðum, s.s. jarðir í sveitum og stærri eignir og eignir í nágrenni Reykjavíkur. Vitnið meti mikið af eignum fyrir lánastofnanir og ýmsa opinbera aðila. Vitnið kvaðst kannast við kauptilboð ákærða í eignina Hlíðartungu í Ölfushreppi, en það hafi haft milli­göngu um söluna á sínum tíma. Samkvæmt því hafi verið gerður fyrirvari um eignarhald seljanda á landi. Jörðin hafi verið ríkisjörð en seljandi hafi átt öll mannvirki á jörðinni. Kauptilboð ákærða hafi gengið út á að hann myndi geta keypt landið af ríkinu. Það hafi tíðkast að ábúendur ríkisjarða hafi fengið jarðir keyptar undir markaðsverði eignanna. Þar sem fjárhagsstaða seljanda jarðarinnar hafi verið slík, hafi ákærði lagt út fyrir kostnaði seljanda við að ná til sín eignarhaldi á ríkishlutanum. Eftir að jörðin hafi verið keypt af ríkinu, hafi verðmæti hennar aukist til muna. Ávinningurinn fyrir ákærða hafi falist í því að kaupa jörðina með þessum hætti, en ákærði hafi ekki átt þess kost að fá jörðina fyrir sama verð og sá er hafi keypt af ríkinu. Á þessu svæði hafi vitnið verið að selja landsvæði, á um 250.000 krónur hvern hektara, m.v. sölu á 10-30 hektara lands. Minni svæði hafi kostað meira á hvern hektara. Jörðin Hlíðartunga hafi sennilega verið um eða tæpir 40 hektarar. Vitnið kvaðst einnig hafa selt ákærða jörðina Gljúfurárholt, en hann hafi keypt jörðina af dánarbúi. Vitnið hafi metið jörðina þegar fyrir hafi legið drög um að búta jörðina niður í íbúðarhúsalóðir, sennilega um 15 spildur, þar sem hver spilda hafi verið 5 hektarar að stærð. Svipuð sjónarmið hafi legið að baki verðmætaaukningu jarðarinnar og á jörðinni Hlíðartungu. Verðmæti landsins hafi verið um 3-500.000 krónur fyrir hvern hektara lands.

H fasteignasali kom fyrir dóminn. Vitnið kvaðst hafa framkvæmt mat á verðmæti eigna að Ingólfshvoli í Ölfushreppi, en matið sé dagsett 2. nóvember 2000. Eignin hafi verið metin á 266.000.000 króna. Tildrög þess hafi verið þau að ákærði hafi farið þess á leit við vitnið að mat yrði framkvæmt. Að baki mati á verðmæti eignarinnar hafi legið sjónarmið um að eignin hafi verið dýr og sérhæfð og að kaupendahópur tæki mið af því. Á þessum tíma hafi eignin verið í fullum rekstri, en miðstöð hestaviðskipta hafi verið á þessu svæði. Reiðhöllin að Ingólfshvoli væri í raun fjölnota húsnæði og teldist því ekki vera sérhæft atvinnuhúsnæði. Auðveldlega mætti breyta húsnæðinu í iðnaðarhúsnæði eða knattspyrnuvöll. Hesthúsin á staðnum væru sérhæfð, en sumarbústaðina mætti taka og flytja burtu af staðnum. Vitnið kvaðst líta svo á, að verðmæti eigna í Ölfushreppi hafi vaxið gríðarlega á undanförnum árum. Þjónusta hafi öll aukist á svæðinu og þéttbýli sömuleiðis. Það væri engu að síður munur á verðmæti eigna á þessu svæði samanborið við höfuðborgarsvæðið og jaðarsvæði þess. 

I fasteignasali gaf skýrslu fyrir dómi. Vitnið staðfesti að það hafi unnið mat á verðmæti eigna að Ingólfshvoli í Ölfushreppi í nóvember 2001. Eignin hafi verið metin á 190.000.000 króna, en ekki hafi verið nema á hendi fjár­sterkra aðila að kaupa eignir á því verði. Verkefni vitnisins hafi verið fólgið í að meta andvirði eignanna ef til nauðungarsölu kæmi og hvert væri líklegt söluverðmæti eignanna við þær aðstæður. Kaupendahópurinn hafi því verið þröngur og markaðurinn sérstakur. Einnig hafi þurft að taka tillit til þess að eignirnar væru sérhæfðar og notkun þeirra takmörkuð. Endurstofnverð eigna hafi verið áætlað 250.000.000 króna, en hafa þyrfti í huga að söluverð eigna næði að jafnaði ekki byggingarkostnaði eignanna. Veðhafar hafi tekið áhættu með að fara hátt í veðsetningu á slíkri eign. Ef horft væri á reiðhöllina og mat lagt á hvort hún teldist vera sérhæft atvinnuhúsnæði, þá þyrfti að hafa í huga að eignin væri mjög stór. Hún henti því eftir atvikum ekki vel sem lagerhúsnæði eða verslunarhúsnæði, því unnt væri að reisa ódýrara og minna stálgrindar- eða límtréshúsnæði undir slíka starfsemi.

J, starfsmaður Íslandsbanka, kvað aðalstöðvar bankans á Kirkjusandi hafa veitt ákærða lán að fjárhæð 21.000.000 króna, með veði í eigninni Gljúfurárholti í Ölfushreppi. Vitnið kvaðst kannast við að til hafi staðið að skipta út úr landinu 15 spildum, sem hafi verið 5 hektarar að stærð hver um sig, undir sumar­bústaði. Láninu hafi verið skipt þannig, að 15.000.000 króna hafi verið lánaðar í 15 hlutum en síðan hafi 6.000.000 króna verið lánaðar með veði í íbúðarhúsnæði á jörðinni. Lán að fjárhæð 1.000.000 króna hafi síðan átt að fylgja hverri spildu. Vitnið kvaðst ekki telja að tiltekið mat hafi legið að baki verðmæti hverrar spildu, en bankinn hafi þó aldrei farið að lána umræddar fjárhæðir án þess að einhvers konar áætlun hafi legið til grundvallar verðmæti hverrar spildu.

A, sonur ákærða, kom fyrir dóminn. Gerði vitnið grein fyrir þeirri uppbyggingu og framkvæmdum er átt höfðu sér stað að Ingólfshvoli allt frá árinu 1997 og þeim hugmyndum er hafi búið að baki uppbyggingu á svæðinu með því að koma þar á fót hestamiðstöð og alþjóðlegum reiðskóla. Öll uppbygging hafi miðast við að samþætta starfsemi reiðskólans við ferðaþjónustu á svæðinu. Framburður vitnisins var nánari lýsing á ferli uppbyggingar hestamiðstöðvar, en í gögnum málsins liggur fyrir á dskj. nr. 7 stutt yfirlit um efnið. Vitnið kvaðst hafa fengið góðar undir­tektir við áform um stofnun reiðskólans og hafi skólinn verið fullsetinn haustið 1999. Sóst hafi verið eftir því við Félag tamningamanna, eina fagfélag hestamanna á Íslandi, að það myndi viðurkenna nám við skólann. Félagið hafi ekki talið sér unnt að viðurkenna námið, þar sem það hafi verið í samstarfi við Hólaskóla. Það svar hafi sett starfsemina út af laginu, því erfitt hafi verið að bjóða upp á nám sem ekki hafi uppfyllt skilyrði um að einstaklingar fengju menntun sína viðurkennda. Í framhaldinu hafi hafist áralöng barátta fyrir starfsleyfi fyrir skólann. Á árinu 2000 hafi skólinn hætt að bjóða upp á menntun, en haldið hafi verið áfram baráttu fyrir að fá starfsleyfi. Vorið 1999 hafi búfræðslulögum verið breytt og hafi búfræðsluyfirvöld þá talið að ríkið væri með einkaleyfi á að bjóða búfræðslu í landinu. Hafi þau neitað að taka málstað skólans til skoðunar. Allt þetta hafi leitt til þess að forsendur hafi brostið. Bakhjarlar uppbyggingarinnar hafi ekki lifað af baráttuna fyrir að fá starfsleyfi fyrir skólann, sem tekið hafi 3 ár. Með hjálp Umboðsmanns Alþingis og menntamálaráðherra hafi tekist að fylgja málinu eftir og haustið 2001 hafi nánast öll leyfi legið fyrir. Í október það ár hafi fengist viðurkenning Félags tamningamanna á náminu og í mars 2002 hafi legið fyrir að menntamálaráðuneytið myndi greiða með hverjum nemanda í takt við reiknilíkan framhaldsskólanna. Í kjölfarið hafi verið reynt að ná sáttum við veðhafa í eignunum á Ingólfshvoli, en á þeim tíma hafi þær verið komnar í nauðungar­sölumeðferð. Veðhafar hafi ekki treyst sér til að koma til móts við rekstraraðila, en  Lífeyrissjóðurinn Framsýn hafi t.a.m. hafnað skuldbreytingum á lánum sínum. Eignir hafi í kjölfarið verið seldar nauðungarsölu. Viðræður hafi átt sér stað í kjölfarið við lífeyrissjóðinn en þeirra viðhorf hafi verið að eignirnar skyldu seldar á frjálsum markaði. Vitnið kvaðst, ásamt þeim er í upphafi hafi staðið að skólanum, hafa komist í samband við fjársterkan aðila um kaup á eignunum af lífeyrissjóðnum. Tilboð hafi gengið á milli aðila. Síðar hafi annar aðili komið að málinu með vitninu, en skilyrði hafi verið sett af hálfu sjóðsins um að reiðhöllin yrði ekki seld nema hótelbyggingar á staðnum væru hluti af kaupunum. Vitnið kvað eignir að Ingólfshvoli síðar hafa verið seldar. Kröfum hafi ekki enn verið beint að Ingólfshofi ehf. vegna mismunar á söluverði eignanna og kröfum sjóðsins á hendur einkahlutafélaginu.

Vitnið kvaðst hafa keypt fasteignina að Gljúfurárholti í Ölfushreppi af ákærða. Upphaflegt kaupverð eignarinnar hafi verið 27.500.000 krónur. Jörðin liggi næst Hveragerði og verði svæðið væntanlegt byggingarland fyrir Hveragerði. Hafi vitnið talið kaup á jörðinni áhugaverðan fjárfestingarkost. Margir þættir hafi valdið því að verðmæti jarðarinnar hafi verið verulegt. Hafi vitnið verið í samstarfi við ákærða við hugmyndir um að skipta landinu upp í 15 spildur, en það hafi m.a. lánað fjármuni til kaupanna á sínum tíma. Staðfesti vitnið áform um að Íslandsbanki myndi lána fjármuni til kaupanna þar sem lán myndi fylgja hverri spildu við áframhaldandi sölu. Að mati vitnisins hafi verðmæti jarðarinnar ásamt öllu er fylgdi verið umtalsvert. G fasteignasali hafi metið verðmæti jarðarinnar 154.000.000 króna í september 2000. Hin auknu verðmæti landsins miðað við kaupverðið, hafi tekið mið af þeim tækifærum er hafi falist í landinu.

Vitnið kvað einkahlutafélagið Gerplu vera í eigu þess. Vitninu hafi borist upplýsingar um áhugaverða fasteign að Hverfisgötu 74 í Reykjavík, en athygli hafi vakið að um hafi verið að ræða 12 einingar í einni eign. Með því að skipta eigninni í 12 sjálfstæðar eignir, hafi verið unnt að selja hverja eign fyrir sig. Það hafi því legið í augum uppi að um rakinn fjárfestingarkost hafi verið að ræða. G fasteignasali hafi metið eignina á 70.000.000 króna. Það mat hafi gefið raunhæfa mynd af verðmæti eignarinnar í heild sinni.  

Elvar Örn Unnsteinsson hæstaréttarlögmaður kvaðst hafa ritað greinargerð um fjárfestingar ákærða til stjórnar sjóðsins. Í ályktun hafi verið vakin sérstök athygli á að ákærði kynni í störfum sínum sem framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins að hafa brotið gegn 3. og 4. mgr. 31. gr. laga nr. 129/1997. Þegar skuldabréf með veði í eignunum að Ingólfshvoli hafi verið skoðuð, hafi heildartapsáhætta lífeyrissjóðsins af bréfunum verið metin, en þau hafi verið alls 8 á mismunandi veðréttum. Tapsáhættan hafi ekki verið metin sjálfstætt fyrir hvert og eitt bréf. Vitnið hafi haft þessi tilteknu skulda­bréfin til innheimtu fyrir lífeyrissjóðinn. Eignir að Ingólfshvoli hafi verið seldar nauðungarsölu, en þær hafi síðar verið seldar af hálfu sjóðsins. Ekki hafi enn verið beint kröfum að Ingólfshofi ehf. vegna mismunar á söluverði eignarinnar og eftir­stöðvum á skuldabréfum með veði í eignunum.

             Niðurstaða:

             Sakarefni máls þessa varðar tilteknar fjárfestingar ákærða, fyrir hönd Lífeyrissjóðsins Framsýnar, sem samkvæmt I. hluta ákæru áttu sér stað á árinu 1999, en samkvæmt II. hluta á árinu 1997. Með þessum fjárfestingum er ákærði talinn hafa farið út fyrir umboð sitt til fjárfestinga fyrir hönd lífeyrissjóðsins, með því að fjárfestingar hafi gengið gegn fjárfestingarstefnum sjóðsins, samþykktum hans og reglugerðum. Með þessu hafi ákærði gerst sekur um umboðssvik skv. 249. gr. laga nr. 19/1940, en hann hafi sem framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins misnotað aðstöðu sína sér og nákomnum til hagsbóta. Eru brot ákærða jafnframt talin varða við ákvæði 31. og 36. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, en umrædd ákvæði mæla fyrir um hæfi framkvæmdastjóra til ráðstafana ef í hlut eiga þeir sjálfir eða nákomnir, auk þess sem mælt er fyrir um fjárfestingar lífeyrissjóða. Refsiákvæði 55. gr. laganna er talið eiga við um háttsemi ákærða. Samkvæmt því ákvæði varða brot gegn lögunum sektum eða fangelsi allt að einu ári, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt almennum hegningarlögum. Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 81. gr. laga nr. 19/1940 fyrnist sök á 2 árum, þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en 1 árs fangelsi eða refsing sú, sem til er unnið, fer ekki fram úr sektum. Fyrningarfrestur telst frá þeim tíma er ákærði framdi brot sín, sbr. 1. mgr. 82. gr. laga nr. 19/1940. Samkvæmt I. hluta ákæru eru brotin sem áður segir framin á árinu 1999, en samkvæmt II. hluta 25. september 1997. Rannsókn málsins gagnvart ákærða hófst 22. maí 2003, sbr. 4. mgr. 82. gr. laga nr. 19/1940.  Þar sem brot ákærða eru einnig talin varða við 249. gr. laga nr. 19/1940, verður miðað við að brot ákærða samkvæmt þeim lögum og lögum nr. 129/1997 fyrnist á 5 árum, sbr. 2. tl. 1. mgr. 81. gr. laga nr. 19/1940. Miðað verður við að brot ákærða séu framhaldsbrot, framin í samfellu með samkynja ráðstöfunum yfir tiltekinn tíma. Hagsmunir þeir er brotin beinast að eru þess eðlis, að þeir standa ekki í vegi fyrir að unnt sé að meta brotastarfsemina sem eina heild. Í því ljósi verður talið að miða eigi fyrningu við síðasta ætlaða refsilagabrot ákærða, sem ber upp á 30. desember 1999. Samkvæmt því eru sakir ákærða ekki fyrndar í máli þessu.

 

             I.A. Ákærði fjárfesti fyrir hönd lífeyrissjóðsins í 5 veðskuldabréfum, útgefnum í mars, apríl, maí og september 1999. Fjárfestingin var fólgin í því að lífeyrissjóðurinn veitti einkahlutafélaginu Ingólfshofi 5 lán, sem öll voru tryggð með veði í lóðinni Ingólfshvoli í Ölfushreppi og þeim eignum er lóðinni tilheyrðu. Sonur ákærða og eiginkona hans, voru í fyrirsvari fyrir einkahlutafélagið. Í framburðum ákærða og vitna fyrir dómi hefur komið fram, að umtalsverð uppbygging hafi átt sér stað að Ingólfshvoli á þessum tíma, en áform hafi m.a. staðið um að koma á laggirnar alþjóðlegum reiðskóla á staðnum. Hefur ákærði borið því við að um hafi verið að ræða góðan kost fyrir lífeyrissjóðinn til fjárfestinga, en hann hafi haft fullt umboð til slíkra ráð­stafana fyrir hönd sjóðsins. Hafi veðandlag skipt miklu um lánveitinguna, en G fasteignasali hafi metið eignir á jörðinni í september 1998 á 72.000.000 króna, og aftur í október 1999, en þá hafi eignirnar verið metnar á 218.000.000 króna. Ákærði kvað tengsl sín við fyrirsvarsmenn einkahlutafélagsins ekki hafa valdið því, að ástæða hafi verið að gera stjórn lífeyrissjóðsins viðvart um lánveitinguna, en hann hafi metið fjárfestinguna trygga.

             Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, öðluðust gildi 1. júlí 1998, en lögin gilda fyrir alla lífeyrissjóði í landinu, sbr. 1. gr. laganna. Lögin voru afrakstur mikilla umræðna um málefni lífeyrissjóða í landinu, allt frá árinu 1976, er fyrst var skipuð stjórnskipuð nefnd til að fjalla um efnið. Lögum 129/1997 var ætlað að setja almenna umgjörð um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða með því að setja almenn skilyrði fyrir starfsemi lífeyrissjóða og heimildum þeirra til fjárfestinga og kveða á um eftirlit með lífeyris­sjóðum. Kostir lífeyrissjóða til fjárfestinga hafa sætt miklum breytingum á undanförnum árum. Eiga þeir nú mun fleiri kosti til fjárfestinga en nokkru sinni fyrr. Samfara slíkri aðstöðu eykst hætta á að fjármunum sé illa varið. Slíkt umhverfi hefur án vafa kallað á meira eftirlit og aðhald með fjárfestingum lífeyrissjóða en áður. Ákærði hafði starfað í umhverfi lífeyrissjóða allt frá árinu 1970. Honum voru því vel kunnar umræður og sjónarmið um öruggt rekstrarumhverfi lífeyrissjóða og mikilvægi öruggra fjárfestinga. Má ætla að hann hafi að talsverðu leyti verðið leiðandi í umræðu og ákvörðunum um fjárfestingarstefnur fyrir Lífeyrissjóðinn Framsýn og átt drjúgan þátt í að setja sjóðnum samþykktir og reglugerðir.

             Á þeim tíma er ákærði veitti einkahlutafélaginu Ingólfshofi framangreint lán höfðu lög nr. 129/1997 öðlast gildi. Samkvæmt 36. gr. laganna skyldi stjórn lífeyris­sjóðs móta fjárfestingarstefnu og ávaxta fé sjóðsins með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu. Er tekið fram með hvaða hætti lífeyrissjóðum sé heimilt að ávaxta fé sitt. Um skuldabréf er fjallað í 3. tl. 1. mgr. 36. gr., en þar segir að lífeyrissjóðum sé heimilt að ávaxta fé sitt í skuldabréfum tryggðum með veði í fasteign að hámarki 65% af metnu markaðsvirði nema þegar um sé að ræða sérhæft atvinnuhúsnæði þá skuli hámark vera 35%. Í framhaldi gildistöku laga nr. 129/1997 setti Lífeyrissjóðurinn Framsýn sér fjárfest­ingar­stefnu, en í gögnum málsins liggur fyrir fjárfestingarstefna fyrir sjóðinn, sem m.a. hefur sætt breytingum á stjórnarfundi 1. október 1998. Fjárfestingarstefna lífeyris­sjóðsins hefur að verulegu leyti tekið mið af efnisinnihaldi 36. gr. laga nr. 129/1997, en samkvæmt fjárfestingarstefnunni beitti lífeyrissjóðurinn takmörkunum við val á einstökum verðbréfum, eins og segir í stefnunni. Þar kemur fram að lífeyris­sjóðurinn hafi takmarkanir um veðsetningu fasteigna, sem séu eftirfarandi:

,,- Skuldabréf með veði í íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, allt að 65% af fasteignamati eða mati löggilts fasteignasala sem lífeyrissjóðurinn tilnefnir ef það er hærra, en þó skal veðsetning aldrei fara yfir 50% af brunabótamatsverði viðkomandi eignar.

-          Skuldabréf með veði í íbúðarhúsnæði á Reykjanesi og Akureyri, allt að 50% af fasteignamati

-          Skuldabréf með veði í íbúðarhúsnæði í kaupstöðum á landsbyggðinni, allt að 35% af fasteignamati.

-          Skuldabréf með veði í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, allt að 50% af fasteignamati eða mati löggilts fasteignasala ef það er hærra. Ef ekki er stuðst við fasteignamat viðkomandi eignar skulu tveir löggiltir fasteignasalar meta eignina, annar tilnefndur af lífeyrissjóðnum og skal það mat ráða sem lægra reynist.

-          Ef um er að ræða sérhæft atvinnuhúsnæði þá skal hámark þetta ekki vera hærra en 35%.”

Fjárfestingarstefna lífeyrissjóðsins fyrir árið 1999 hafði sömu takmarkanir varðandi skuldabréf tryggð með veði í fasteignum, nema skuldabréf með veði í atvinnu­húsnæði á höfuðborgarsvæðinu mátti nú vera að hámarki 60%. Þá var bætt inn ákvæði um að forðast skyldi að fara í hámarksveðsetningu í þeim tilvikum nema um væri að ræða seljanlega eign, sem væri vel staðsett og skuldabréfið á fyrsta veðrétti. Svo sem ráða má af framansögðu, hefur Lífeyrissjóður Framsýnar takmarkað svigrúm til fjárfestinga í skuldabréfum tryggðum með veði í fasteignum, umfram það er 3. tl. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 129/1997 gerir ráð fyrir. Liggur það einnig fyrir í framburðum fyrrum stjórnarmanna lífeyrissjóðsins fyrir dómi. Gera verður ráð fyrir að umfjöllun um takmarkanir þessar hafi fengið nokkra umfjöllun í lífeyrissjóðnum, þar sem þær þrengja þær heimildir er lög gera ráð fyrir.

Jörðin Ingólfshvoll er í Ölfushreppi, sem ekki telst til höfuðborgarsvæðisins. Að mati dómsins er fjárfestingarstefna lífeyrissjóðsins skýr um að heimila ekki fjár­festingar í fasteignum utan höfuðborgarsvæðisins, nema á tilgreindum stöðum á lands­byggðinni. Þó svo ákærði hafi notið víðtæks umboðs til fjárfestinga fyrir hönd lífeyri­sjóðsins, hafa kaup sjóðsins á skuldabréfum tryggðum með í jörð í Ölfushreppi, gengið gegn afdráttarlausu orðalagi í fjárfestingarstefnu sjóðsins, sem ákærði þekkti manna best. Verður ekki séð að skynsamleg rök standi til þess að heimila fjárfestingar í sérhæfðu atvinnuhúsnæði utan höfuðborgarsvæðisins en ekki í öðru atvinnuhúsnæði á slíkum stöðum. Framburður vitnisins E er þessari niðurstöðu til stuðnings.

Um hæfi framkvæmdastjóra til meðferðar máls fer samkvæmt ákvæðum II. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sbr. 5. mgr. 31. gr. laga nr. 129/1997. Samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 37/1993 er starfsmaður vanhæfur til meðferðar máls m.a. ef hann tengist fyrirsvarsmanni aðila með þeim hætti að hann er skyldur honum í beinan legg. Ákærði fjárfesti í skuldabréfum sem einkahlutafélagið Ingólfshof var útgefandi að. Sonur ákærða, A var annar fyrirsvarsmanna hlutafélagsins á þeim tíma. Þar sem svo háttaði til var ákærði vanhæfur til þess að fara með fjárfestingar gagnvart einkahlutafélaginu. Ákvæðum um vanhæfi er ætlað að fyrirbyggja að ómálefnaleg sjónarmið ráði úrlausn máls. Þegar haft er í huga að fjárfestingar ákærða í skulda­bréfum tengdum Ingólfshofi ehf. voru utan þeirra marka er fjárfestingarstefna Lífeyrissjóðs Framsýnar heimilaði og að ákærði annaðist þær sjálfur, verður ekki hjá því komist að slá föstu að ákærði hafi farið út fyrir umboð það er hann hafði til fjárfestinga fyrir hönd lífeyrissjóðsins. Með því hefur hann misnotað aðstöðu sína sjálfum sér og nákomnum til hagsbóta.

Fyrir liggur að jörðin að Ingólfshvoll, ásamt mannvirkjum, hefur verið seld af hálfu lífeyrissjóðsins. Kaupverð er 95.000.000 króna. Í bréfi Elvars Arnar Unnsteins­sonar hæstaréttarlögmanns, sem sett hefur fram skaðabótakröfu í málinu fyrir hönd Lífeyrissjóðs Framsýnar, er lýst hvernig bótafjárhæð á hendur ákærða er fundin. Samkvæmt þeim gögnum er bótakröfunni fylgja liggur fyrir krafa sjóðsins á grundvelli áhvílandi veðskuldabréfa, að fjárhæð 101.524.510 krónur. Er um nokkurn mismun að ræða á söluverði og áhvílandi veðskuldabréfum, en til viðbótar kröfum samkvæmt veðskuldabréfunum hefur bæst við annar kostnaður vegna meðferðar málsins. Fram hefur komið við meðferð málsins fyrir dómi, að Lífeyrissjóður Framsýnar hafi ekki enn beint kröfum að einkahlutafélaginu Ingólfshofi vegna þessa mismunar. Þó svo úr endanlegri kröfu hafi enn ekki verið skorið, þykir nægjanlega fram komið, að skilyrðum um auðgunarásetning skv. 243. gr. laga nr. 19/1940 sé fullnægt, enda ákvæðum um fjárfestingarstefnur lífeyrissjóða og ákvæðum um vanhæfi starfsmanna til meðferðar mála ætlað að girða fyrir, að til sjónarmiða um óréttmætan fjárvinning geti stofnast. Samkvæmt þessu hefur ákærði misnotað aðstöðu sína sem framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins þannig að ákvæði 249. gr. laga nr. 19/1940 eigi við. Hefur hann jafnframt gerst brotlegur við 5. mgr. 31. gr. laga nr. 129/1997, sbr. 55. gr. laganna.

 

I.B. Samkvæmt þessum lið ákæru leggur ákæruvald til grundvallar, að ákærði hafi farið út fyrir umboð sitt til fjárfestinga fyrir hönd Lífeyrissjóðs Framsýnar, þegar hann veitti sjálfum sér lán 9. mars 1999, að fjárhæð 4.000.000 króna, með veði í jörðinni Hlíðartungu í Ölfushreppi, án samþykkis eða vitundar stjórnar sjóðsins. Ákærði hefur frá upphafi haldið því fram, að um hafi verið að ræða sjóðsfélagalán er hann hafi átt rétt á, en slík lán lúti öðrum reglum en venjulegar fjárfestingar sjóðsins í veðskuldabréfum. Slík lán hafi ekki þurft að gera stjórn lífeyrissjóðsins grein fyrir. Fyrrum stjórnarmenn lífeyrissjóðsins, sem gefið hafa skýrslu fyrir dómi, hafa staðfest þessar fullyrðingar ákærða. Telja þeir hann hafa átt rétt á sjóðsfélagaláni, eins og aðrir sjóðsfélagar og hafi staða hans sem framkvæmdastjóra fyrir sjóðinn engu breytt um afgreiðslu lánsins. Þá er fram komið, að sjóðurinn hafi haft rýmri ráð en ella með að taka veð í jörðum á landsbyggðinni þegar um slík lán hafi verið að ræða. Fullyrð­ingum ákærða að um sjóðsfélagalán hafi verið að ræða hefur ekki verið hnekkt. Í því ljósi og með hliðsjón af framburðum vitna þykir ekki hafa verið sýnt fram á, að ákærði hafi misnotað aðstöðu sína eða farið út fyrir umboð sitt þegar lífeyrissjóðurinn veitti honum lán 9. mars 1999. Verður hann því sýknaður af ákæruefni samkvæmt þessum ákærulið.

 

I.C. Ákærði hefur staðhæft, að lífeyrissjóðslán frá tíma Lífeyrissjóðs Dags­brúnar-Framsóknar, hafi hvílt á jörðinni Gljúfurárholti. Hafi hann eftir kaup sín á jörðinni yfirtekið lánið, en nafnbreyting á láninu hafi verið framkvæmd 30. desember 1999. Því hafi ekki verið um nýtt lán að ræða, svo sem ákæruvald miði við. Á meðal gagna málsins er afrit af veðskuldabréfi, sem gefið er út 30. desember 1999, að fjárhæð 6.000.000 króna, með veði í jörðinni Gljúfurárholti. Bréfinu fylgir kvittun frá Líf­eyris­sjóði Framsýnar, frá 30. desember 1999, fyrir greiðslu á 6.000.000 króna. Kvittunin ber með sér upphafsstafi ákærða. Veðbókavottorð liggur frammi fyrir jörðina Gljúfurárholt, að undanskildum spildum. Á vottorðinu er þessa skuldabréfs getið sem upphaflega áhvílandi á 6. veðrétti eignarinnar. Á undan bréfinu eru áhvíl­andi 15 skuldabréf, hvert að fjárhæð 1.000.000 króna, til Íslandsbanka hf. sem veð­hafa. Einnig er þar á undan skuldabréf að fjárhæð 6.000.000 króna, einnig til Íslandsbanka hf. sem veðhafa.

Ákærði hefur ekki stutt gögnum fullyrðingu sína að um nafnabreytingu á eldra láni hafi verið að ræða. Gögn málsins þykja á móti gefa til kynna, að út hafi verið gefið skuldabréf til handhafa 30. desember 1999, sem Lífeyrissjóðurinn Framsýn hafi keypt, en svo sem áður er rakið liggur kvittun frá lífeyrissjóðnum frammi í málinu. Þá verður að skoða fullyrðingar ákærða um nauðsyn nafnabreytingu út frá því, að eldra lánið átti að öðru óbreyttu að geta hvílt áfram á eigninni eftir kaup ákærða á henni. Hefur þörf á nafnabreytingu því ekki verið skýrð nægjanlega. Verður því lagt til grundvallar hér, að ákærði hafi fyrir hönd lífeyrissjóðsins fjárfest í veðskuldabréfi, að fjárhæð 6.000.000 króna, sem hann sjálfur var skuldari að, með veði í eigninni Gljúfurárholti í Ölfushreppi.

Svo sem áður er rakið, voru fjárfestingar af hálfu lífeyrissjóðsins með veði í fasteignum utan höfuðborgarsvæðisins verulegum takmörkunum háðar. Með vísan til þess er þar er rakið verður talið, að kaup ákærða fyrir hönd lífeyrissjóðsins á skuldabréfi með veði í jörðinni Gljúfurárholti í Ölfushreppi, hafi verið óheimil. Ekki er annað fram komið en að ákærði hafi sjálfur annast kaup lífeyrissjóðsins á skulda­bréfinu. Til þess var hann vanhæfur skv. 5. mgr. 31. gr. laga nr. 129/1997. Ráðstafanir ákærða voru til þess fallnar, að draga í efa hvort hann mæti eigin hagsmuni ofar hagsmunum lífeyrissjóðsins. Þó svo lífeyrissjóðurinn hafi ekki haft uppi skaða­bóta­kröfu vegna ráðstafana ákærða er ekki þar með sagt, að sjóðurinn hafi ekki eða muni ekki hafa af þeim fjárhagslega byrði, en skuldabréfið hvílir enn á eigninni. Að baki ráðstöfunum ákærða bjuggu því sjónarmið um óréttmætan fjárvinning, sem hann ekki átti tilkall til eftir þeim leiðum er hann kaus að fara. Samkvæmt því verður talið, að fullnægt sé skilyrðum 249. gr. laga nr. 19/1940 til að um umboðssvik af hálfu ákærða sé að ræða. Jafnframt verður hann sakfelldur fyrir brot gegn 5. mgr. 31. gr. laga nr. 129/1997, sbr. 55. gr. laganna.

 

II. Síðasti hluti ákæru varðar fjárfestingar ákærða í 11 skuldabréfum útgefnum af einkahlutafélaginu Gerplu, 25. september 1997, samtals að fjárhæð 34.000.000 króna, en bréfin voru öll tryggð með veði í fasteigninni Hverfisgötu 74 í Reykjavík. Sonur ákærða, A, var í fyrirsvari fyrir einkahlutafélagið. Ákæruvald byggir sem fyrr á að ákærði hafi farið út fyrir umboð sitt til fjárfestinga fyrir hönd lífeyris­­sjóðsins, þar sem lán lífeyrissjóðsins hafi verið umfram heimil viðmiðunar­mörk, þar sem lánað hafi verið fyrir fjárhæð sem numið hafi 79% af kaupverði eignar­innar. Þá hafi ákærði ekki mátt annast fjárfestingarnar sjálfur vegna tengsla sinna við fyrirsvarsmann Gerplu ehf.

Ekki liggur fyrir í gögnum málsins fjárfestingarstefna Lífeyrissjóðs Framsýnar fyrir árið 1997, enda höfðu lög nr. 129/1997, sem mæla fyrir um að lífeyrissjóðir skuli móta fjárfestingarstefnur, ekki öðlast gildi. Á ársfundi sjóðsins, sem haldinn var 28. júní 1996, voru gerðar verulegar breytingar á reglugerð sjóðsins. Fram kemur í fundar­gerð ársfundar, að breytingar á reglugerð hafi verið af tvennum toga, aðlögun að samningi ASÍ og VSÍ frá 12. desember 1995 og orðalagsbreytingar til sam­ræmingar við reglugerð Sambands almennra lífeyrissjóða. Ákvæði um ávöxtun fjár sjóðsins tóku nokkrum breytingum. Ákvæðum 8. gr. reglugerðarinnar, er kváðu á um að stjórn sjóðsins sæi um ávöxtun á fé hans og væri skylt að ávaxta það á sem bestan hátt að teknu tilliti til öryggis og áhættu, sættu nokkrum breytingum. Eftir þær breytingar var kveðið á um að heimilt væri að ávaxta fjármuni sjóðsins m.a. með eftirfarandi hætti: ,,8.1.5. Í skuldabréfum tryggðum með veði í fasteignum, innan við 50% af fasteignamati. Stjórn sjóðsins er þó heimilt að víkja frá þessu mati, ef markaðsverð eigna gefur tilefni til.” Einn liður á ársfundi sjóðsins var tillaga að fjárfestingarstefnu fyrir sjóðinn og gerði ákærði grein fyrir tillögu stjórnar í þeim efnum.

Ákærði og vitnið A hafa gert grein fyrir hvaða sjónarmið hafi legið að baki kaupum Gerplu ehf. á fasteigninni að Hverfisgötu 74. Í framburði ákærða og vitnisins kom fram, að litið hafi verið á eignina sem spennandi fjárfestingarkost, en það hafi verið álit þeirra að eignin hafi verið til muna verðmætari en kaupverð hennar hafi gefið til kynna. Fram er komið, að eignina keypti einkahlutafélagið á 43.000.000 króna, með kaupsamningi 19. september 1997. G fasteignasali mat verðmæti eignarinnar 16. september 1997 á 70.000.000 króna. Þá var fasteignamat fyrir eignina 33.369.000 króna, en brunabótamat 73.722.000 króna. Fyrir kaup einkahlutafélagsins á eigninni voru því uppi mismunandi viðhorf um verðmæti eignarinnar. Ári áður hafði ákærði, ásamt öðrum, átt þátt í að breyta ákvæðum reglugerðar fyrir lífeyrissjóðinn um fjárfestingar í skuldabréfum tryggðum með veði í fasteign. Lánveitingar ákærða numu nærri sömu fjárhæð og fasteignamat fyrir eignina var á þessum tíma. Ákvæði reglugerðar fyrir lífeyrissjóðinn eru afdráttarlaus um, að stjórn sjóðsins hafi einni verið heimilt að víkja frá öðrum viðmiðunum um kaup á skuldabréfum en að hámarki 50% af fasteignamatsverði, en þáverandi stjórnar­formaður og varaformaður hafa lýst því yfir, að ákærði hafi alfarið verið bundinn af reglugerð sjóðsins í fjárfestingum fyrir hans hönd. Vitnið E kvað stjórn sjóðsins hafa samið reglurnar, en ekki aðalfund sjóðsins, og það hafi því verið hennar einnar að veita undanþágur frá reglunum, svo sem þær sjálfar geri ráð fyrir. Í þessu ljósi verður að telja, að ákærði hafi farið út fyrir heimildir til fjárfestinga fyrir hönd lífeyrissjóðsins, þegar hann fjárfesti fyrir hönd lífeyrissjóðsins með kaupum á skuldabréfum að samanlagðri fjárhæð 34.000.000 króna, en sú fjárhæð var nærri því að vera jafnhá fasteignamat eignarinnar á þeim tíma. Námu þau skuldabréfakaup um 79% af kaupverði eignarinnar.

Sonur ákærða, A, var í fyrirsvari fyrir einkahlutafélagið Gerplu á þessum tíma. Svo sem áður er rakið höfðu lög nr. 129/1997 þá ekki öðlast gildi. Ákvæði um vanhæfi starfsmanna lífeyrissjóðsins var þá að finna í grein 4.7.1. í reglugerð fyrir lífeyrissjóðinn. Þar sagði:

 

,,Hvorki stjórnarmenn eða starfsmenn mega taka þátt í meðferð máls ef þeir hafa persónulegra og verulegra hagsmuna að gæta sem kynnu að fara í bága við hagsmuni sjóðsins. Sama gildir ef um er að ræða ákvarðanir sem tengjast fyrirtæki þar sem stjórnarmaður kann að eiga umtalsverðra hagsmuna að gæta sem eigandi, stjórnarmaður eða starfsmaður. Um vanhæfi til meðferðar einstaks máls fer að öðru leyti eftir meginreglum stjórnsýslulaga. Stjórnarmönnum og eftir atvikum starfsmönnum er skylt að upplýsa um aðstæður sem valda kunnu vanhæfi skv. framantöldu. Skal þá varamaður taka sæti aðalmanns meðan fjallað er um mál sem svo er vaxið.”

 

Ákvæði um vanhæfi í reglugerð lífeyrissjóðsins eru hér efnislega hin sömu og tóku gildi með lögum nr. 129/1997. Með vísan til umfjöllunar undir I.A. verður talið, að ákærði hafi verið vanhæfur til þess að annast fjárfestinguna. Hafi honum borið að fela öðrum starfsmanni lífeyrissjóðsins að annast skuldabréfakaupin fyrir hönd sjóðsins. Ráðstafanir ákærða voru til þess fallnar að draga í efa, hvort hann mæti eigin hagsmuni eða nákominna ofar hagsmunum lífeyrissjóðsins. Þó svo lífeyrissjóðurinn hafi ekki haft uppi skaðabótakröfu vegna fjártjóns af völdum ráðstafana ákærða verður með því engu slegið föstu um fjárhagslegan skaða lífeyrissjóðsins vegna óheimilla ráðstafana ákærða. Að baki þeim bjuggu sjónarmið um óréttmætan fjárvinning, sem ákærði átti ekki tilkall til eftir þeim leiðum er hann kaus að fara. Þykir ákærði með þessu hafa gerst brotlegur við 249. gr. laga nr. 19/1940. Þó svo ákærði hafi verið vanhæfur til meðferðar málsins verður ákvæðum 5. mgr. 31. gr. laga nr. 129/1997, sbr. 55. gr. laganna ekki komið við, þar sem lögin höfðu ekki öðlast gildi á þessum tíma. Verður ákærði því sýknaður af broti gegn þeim lögum. 

Samkvæmt öllu ofangreindu er það niðurstaða máls þessa, að ákærði hafi með háttsemi sinni samkvæmt I.A., I.C. og II. hluta ákæru, sem framkvæmdastjóri Líf­eyris­sjóðs Framsýnar, gerst sekur um brot gegn 249. gr. laga nr. 19/1940 og að því er I.A. og I.C. hluta ákæru varðar einnig gerst sekur um brot gegn 5. mgr. 31. gr., sbr. 55. gr. laga nr. 129/1997. Ákærði hefur hins vegar verið sýknaður af hluta I.B. í ákæru og broti gegn lögum nr. 129/1997 í II. hluta.

Refsingar:

Ákærði er fæddur í júlí 1933. Hann hefur ekki áður sætt refsingum svo kunnugt sé. Þegar horft er til ákvörðunar refsingar er til þess að líta, að ákærði gegndi trúnaðarstöðu fyrir Lífeyrissjóð Framsýnar. Honum var falin rík ábyrgð við fjár­festingar fyrir hönd lífeyrissjóðsins fyrir umtalsverðar fjárhæðir á grundvelli þess, að hann hafði frá árinu 1970 aflað sér viðamikillar og haldgóðrar reynslu við fjár­festingar. Brot ákærða voru honum sjálfum og þó aðallega syni hans til hagsbóta. Á hitt er að líta, að Lífeyrissjóður Framsýnar hefur ekki haft uppi skaðabótakröfu gagn­vart ákærða nema vegna fjárfestinga hans í jörðinni Ingólfshvoli í Ölfushreppi. Með því verður engu slegið föstu um hvort lífeyrissjóðurinn hafi engu að síður orðið fyrir tjóni vegna háttsemi ákærða eða líkur standi til þess að svo kunni að vera í framtíðinni, en sjóðurinn er enn eigandi skuldabréfa er ákærði fjárfesti í. Ákærði leitaðist ekki við að leyna brotum sínum með skipulögðum hætti. Starfsmenn sjóðsins og innra eftirlit, áttu færi á að afla upplýsinga um allar fjárfestingar ákærða, en athygli vekur að innra eftirlit lífeyrissjóðsins hafði farið yfir fjárfestingar ákærða er hér hafa verið til meðferðar, án afgerandi athugasemda. Með hliðsjón af öllu þessu er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 10 mánuði. Ákærði er nú nærri 71 árs að aldri. Rétt þykir að skilorðsbinda refsinguna og er því frestað fullnustu hennar og skal hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Skaðabætur:

Elvar Örn Unnsteinsson hæstaréttarlögmaður hefur krafist þess, fyrir hönd Lífeyrissjóðs Framsýnar, að ákærða verði gert að greiða lífeyrissjóðnum skaðabætur að fjárhæð 30.430.535 krónur, auk vaxta skv. IV. kafla laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 16. júní 2002 til greiðsludags. Krafan er í megin­atriðum sundurliðuð með eftirfarandi hætti:

                Staða skuldabréfakrafna sjóðsins með veði í Ingólfshvoli,    kr. 101.524.510

                Greiðslur til sýslumanns vegna uppboðskaupa,                

                þinglýsingar- og stimpilgjöld, lögfræði- og sölu-

            kostnaður o.fl.,                     kr. 23.906.025

                Söluverð Ingólfshvols,                                  - kr. 95.000.000

                          Endanleg krafa                                 kr. 30.430.535

              Skaðabótakrafa lífeyrissjóðsins byggir á tjóni er lífeyrissjóðurinn hefur orðið fyrir vegna fjárfestinga ákærða í skuldabréfum með veði í eigninni Ingólfshvoli í Ölfushreppi. Fram hefur komið við meðferð málsins fyrir dómi, að lífeyrissjóðurinn hafi ekki beint kröfu að skuldara samkvæmt bréfum þessum, einkahlutafélaginu Ingólfshofi, vegna mismunar á söluverði eignarinnar og kröfum samkvæmt hinum áhvílandi skuldabréfum. Skaðabótakrafa lífeyrissjóðsins hvílir á venjuhelguðum grunni um að sjóðnum beri skaðabætur fyrir sannanlegt og endanlegt tjón af völdum saknæmrar háttsemi ákærða. Þó svo fyrir liggi að ákærði hafi með saknæmum hætti stofnað til bótaskyldu, liggur ekki fyrir hvert endanlegt tjón lífeyrissjóðsins verður vegna háttsemi hans. Áður en til þess getur komið er lífeyrissjóðnum nauðsynlegt að beina kröfum að Ingólfshofi ehf. vegna þess mismunar er hér hefur verið nefndur. Í þessu ljósi er skaðabótakrafan ekki enn orðin endanleg, sem leiðir til þess að henni verður vísað frá dómi í þessu máli.       

             Ákærði hefur verið sakfelldur samkvæmt meginefni ákæru. Hefur hann einungis verið sýknaður af háttsemi I.B. hluta ákæru, er varðar fjárfestingu í skuldabréfi að fjárhæð 4.000.000 króna, auk þess sem tilvísun til laga nr. 129/1997 þykir ekki eiga við í II. hluta. Er hér um lítinn hluta sakarefnisins að ræða, sem ekki hefur áhrif á ákvörðun sakarkostaðar í málinu. Í því ljósi greiði ákærði allan sakar­kostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveins­sonar hæstaréttarlögmanns, svo sem í dómsorði greinir. Við ákvörðun málsvarnar­launa er stuðst að nokkru leyti við framlagða tímaskýrslu verjanda í málinu.

             Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Björn Þorvaldsson fulltrúi ríkislögreglu­stjóra.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

                Ákærði, Karl Gottlieb Sentzius Benediktsson, sæti fangelsi í 10 mánuði. Frestað er fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningar­laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Skaðabótakröfu Lífeyrissjóðsins Framsýnar er vísað frá dómi.

                Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 450.000 krónur.