Hæstiréttur íslands
Mál nr. 272/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 1. júlí 2004. |
|
Nr. 272/2004. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Sigmundur Hannesson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X var gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. júní 2004. Kærumálsgögn bárust réttinum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 27. júlí nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald verði hafnað.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði var varnaraðili dæmdur í fangelsi í þrjú ár með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn var upp 29. júní 2004. Við uppkvaðningu dómsins lét varnaraðili ekki uppi afstöðu til þess hvort hann mundi una dóminum, en hann sætti þá gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Var varnaraðili þá leiddur fyrir dómara kl. 10.35 þann dag og krafðist sóknaraðili þess að gæsluvarðhald yfir honum yrði framlengt meðan á áfrýjunarfresti stæði, sbr. 106. gr. sömu laga. Var fallist á það með hinum kærða úrskurði. Engin efni eru til að hnekkja þeirri niðurstöðu og verður úrskurður héraðsdómara því staðfestur á þann hátt, sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 27. júlí 2004 kl. 10.30.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2004.
Ár 2004, þriðjudaginn 29. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er af Arnfríði Einarsdóttur, settum héraðsdómara, uppkveðinn úrskurður þessi.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði á grundvelli 106. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan á fresti samkvæmt 2. mgr. 151. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 stendur svo og á meðan mál hans verður til meðferðar hjá Hæstarétti komi til áfrýjunar þess, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 27. júlí nk.
Samkvæmt fyrirliggjandi dómi er dómfelldi vanaafbrotamaður en hann hefur hlotið 32 refsidóma frá árinu 1979.
Ferill dómfellda og hegðun hans áður en hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald bendir til þess að yfirgnæfandi líkur séu á að dómfelldi haldi áfram afbrotum gangi hann laus. Er því nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi uns hann hefur afplánun refsingar.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum í dag var dómfelldi dæmdur í fangelsi í 3 ár fyrir brot gegn 244. og 1. mgr. 254 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og umferðarlagabrot og skal gæsluvarðhald hans frá 4. maí 2004 koma til frádráttar refsivistinni. Við uppkvaðningu dómsins tók dómfelldi sér lögmæltan áfrýjunarfrest.
Samkvæmt 106. gr. laga nr. 19/1991 lýkur gæsluvarðhaldi þegar dómur hefur verið kveðinn upp í málinu. Eftir kröfu ákæranda getur dómari þó úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á fresti skv. 2. mgr. 151. gr. laganna stendur. Dómfelldi hefur sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laganna vegna gruns um afbrot sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir. Skilyrði 106. gr. eru því uppfyllt og verður krafan því tekin til greina eins og hún er fram sett.
Úrskurðarorð
Dómfelldi, X, skal sæta gæsluvarðhaldi meðan á fresti samkvæmt 2. mgr. 151. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 stendur, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 27. júlí nk.