Hæstiréttur íslands
Mál nr. 671/2016
Lykilorð
- Líkamstjón
- Ökutæki
- Vátryggingarsamningur
- Slysatrygging
- Stórkostlegt gáleysi
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. september 2016. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 3.366.170 krónur með 4,5% ársvöxtum af 967.830 krónum frá 19. júní 2011 til 19. desember sama ár og af fyrrnefndu fjárhæðinni frá þeim degi til 16. desember 2015 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum stefnda 22. desember 2015 að fjárhæð 1.983.850 krónur og 1. mars 2016 að fjárhæð 34.030 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og rakið er í héraðsdómi varð áfrýjandi fyrir slysi 19. júní 2011 þegar hann missti stjórn á þungu bifhjóli sem hann ók eftir vegarslóða í Kelduhverfi. Við slysið hlaut áfrýjandi líkamstjón og hefur stefndi bætt það að hálfu leyti úr slysatryggingu ökumanns hjá félaginu. Telur stefndi að áfrýjandi verði að öðru leyti að bera tjón sitt sjálfur þar sem það verði rakið til stórkostlegs gáleysis hans við aksturinn. Áfrýjandi krefst þess að fá tjónið að fullu bætt úr tryggingunni hjá stefnda.
Um persónutryggingar gildir II. hluti laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Með persónutryggingum er meðal annars átt við slysatryggingu, sbr. 2. mgr. 61. gr. laganna, þar með talið slysatrygging ökumanns, sbr. dóma Hæstaréttar 12. nóvember 2009 í máli nr. 107/2009 og 19. nóvember 2015 í máli nr. 202/2015. Þegar vátryggingaratburði, sem fellur undir persónutryggingar aðrar en líftryggingar, er valdið af gáleysi vátryggðs fer eftir 1. mgr. 90. gr. laganna. Þar segir að lækka megi eða fella niður ábyrgð vátryggingafélags ef sá sem er vátryggður með slíkri tryggingu hefur valdið því af stórkostlegu gáleysi að vátryggingaratburður varð eða afleiðingar hans urðu meiri en ella. Hið sama á við ef vátryggður hefur af stórkostlegu gáleysi valdið því að vátryggingaratburður varð með því að hlíta ekki varúðarreglum. Við úrlausn á þessum atriðum skal meðal annars litið til sakar vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að og atvika að öðru leyti.
Samkvæmt þeim varúðarreglum sem eftir vátryggingarsamningi áttu við um trygginguna í umrætt sinn var áskilið að ökumaður skyldi hafa þau réttindi og þá kunnáttu sem krafist væri til að stjórna ökutækinu. Þegar áfrýjandi ók bifhjólinu hafði hann ekki öðlast ökuréttindi til að stjórna þungu bifhjóli. Jafnframt er staðhæfing hans um reynslu af akstri bifhjóla ekki studd haldbærum gögnum. Áfrýjandi gætti því ekki að varúðarreglum við aksturinn. Þá hefur áfrýjandi lýst því að hann hafi misst stjórn á hjólinu við að lenda á einhverju, hvort sem það var steinn, hola eða „grjótköggull“ í vegarslóðanum sem hann ók eftir. Verður því að leggja til grundvallar að aðstæður í umrætt sinn til aksturs eftir slóðanum hafi verið erfiðar og bar að haga ökuhraða í samræmi við það, sbr. 1. mgr. 36. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Að framansögðu virtu verður talið að slysið verði rakið til stórkostlegs gáleysis hans sjálfs, sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004. Verður því ekki fallist á að hann eigi rétt til frekari bóta en hann hefur þegar fengið frá stefnda. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.
Það athugast að þess er ekki getið í hinum áfrýjaða dómi, í samræmi við a. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að málið var höfðað 23. desember 2015.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2016.
Mál þetta, sem dómtekið var 2. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu þingfestri 7. janúar 2016 af A, […], á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, 108 Reykjavík.
I.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 3.366.170 krónur, ásamt 4,5% ársvöxtum af 967.830 krónum frá 19. júní 2011 til 19. desember 2011, en af 3.366.170 krónum frá þeim degi til 16. desember 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun stefnda þann 22. desember 2015 að fjárhæð 1.983.850 krónur og 1.mars 2016 að fjárhæð 34.030 kr.
Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Þá er þess krafist að tekið verði tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun, þar sem stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur aðili.
Við upphaf aðalmeðferð þann 2. júní 2016 lagði stefnandi fram breytingu á upphaflegri kröfugerð í stefnu þar eð stefndi greiddi stefnanda 34.030 kr. þann 1. mars 2016, í framhaldi af leiðréttingu upphaflegrar matsgerðar, og kemur sú fjárhæð til frádráttar eins og fram kemur hér að framan.
II.
Málsatvik
Málsatvik voru með þeim hætti að stefnandi var þann 19.6.2011 að aka bifhjólinu […] á Sultavegi, sem er slóði í Kelduhverfi, er hann missti stjórn á því og kastaðist af bifhjólinu með þeim afleiðingum að líkamstjón hlaust af. Bifhjólið, sem stefnandi ók í umrætt sinn, var í eigu föður hans, B, og er torfæruhjól og skráð sem þungt bifhjól í ökutækjaskrá. Bifhjólið var tryggt ökutækjatryggingu hjá stefnda á tjónsdegi, sbr. vátryggingaskilmálar nr. BA10. Stefnandi var því tryggður slysatryggingu ökumanns hjá hinu stefnda félagi, skv. ökutækjatryggingunni og 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Atvikið var fyrst tilkynnt lögreglu viku eftir að það gerðist, eða þann 26. júní 2011, og var þá tekin skýrsla af stefnanda og föður hans. Ekki er í lögregluskýrslu getið um að fleiri hafi verið í för með þeim feðgum. Nú liggur hins vegar fyrir að tveir yngri bræður stefnanda voru með í för. Í lögregluskýrslu er atvikum lýst með þeim hætti að stefnandi hafi verið aka umræddu bifhjóli á heiðarvegi í Kelduhverfi í samfloti með föður sínum sem var nokkuð á eftir stefnanda. Vegurinn nefnist Sultavegur og liggur hann til suðurs frá bænum Sultum suður Bláskógaheiði suður að þvergirðingu við rætur Þeistareykjabungu. Samkvæmt framburði stefnanda hjá lögreglu er um gamlan moldarveg eða vegslóða að ræða sem hefur mótast þannig að um tvö hjólför er að ræða með hrygg á milli eins og tíðkast með einbreiða heiðarvegi eða slóða. Stefnandi kvaðst ekki vita á hvaða hraða hann ók, þó hafi ekki verið um hraðakstur að ræða. Hann hafi ekið að megninu til hægra megin á veginum. Stefnandi kvaðst ekki vita hvað gerðist í akstrinum hjá honum eða hvort hann hafi hugsanlega lent á einhverjum aðskotahlut í slóðinni, en skyndilega hafi hann lent nokkuð hægra megin á veginum og misst vald á hjólinu, en síðan hafi hjólið farið yfir til vinstri og hann hafi ekkert ráðið við það og lent utan í vinstri eða austari kanti vegslóðans sem var niðurgrafinn með nokkuð miklu moldarbarði með fram veginum. Stefnandi hentist við þetta af hjólinu langt út í móa og hjólið hafi farið enn þá lengra út í móa. Hann kvaðst hafa lent á grónu en þýfðu landi, en sloppið við grjót eða hraun. Hann kvaðst hafa verið vankaður um stund og átt erfitt með andardrátt, en fyrir rest hafi hann jafnað sig. Faðir hans hafi komið þarna rétt á eftir og hlúð að honum. Eftir nokkra stund hafi þeir ekið heim á hjólunum. Þar sem doði og verkir hurfu ekki þegar heim kom hafi hann farið í læknisskoðun sem leitt hafi í ljós þrjá brotna eða brákaða hryggjarliði í miðju baki. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa öðlast réttindi til að aka þungu bifhjóli eins og því sem hann ók í umrætt sinn, en það hafi þó staðið til.
Lögreglan ræddi við föður stefnanda sem kvaðst ekki hafa hafa orðið var við óhappið, en séð för eftir hjól stefnanda í vinstri vegkanti. Hann kvaðst hvorki hafa séð né munað eftir aðskotahlut á veginum í aðdraganda óhappsins sem skýrt gæti hvað hefði gerst. Þá kom fram hjá lögreglu að stefnandi og faðir hans hafi skýrt frá því að þeir ækju ávallt í viðurkenndum og góðum öryggisbúnaði og fatnaði, með hlífum, hryggspjöldum, hálskrögum og skóm fyrir slíkar aðstæður.
Með bréfi, dags. 2.9.2011, hafnaði stefnandi bótaskyldu úr slysatryggingu ökumanns og eiganda, sem vátryggingartaki hafði hjá félaginu á slysdegi. Það var afstaða stefnanda að með því að reyna að aka umræddu bifhjóli án tilskilinna réttinda hafi stefnandi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi. Bein orsakatengsl hafi verið á milli réttindaleysis stefnanda og þess að hann missti stjórn á bifhjólinu og varð fyrir því líkamstjóni sem nánar er lýst í gögnum málsins.
Stefnandi sætti sig ekki við þessi málalok og kærði ákvörðun félagsins til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, með málskoti dags. 21.11.2011. Með úrskurði, dags. 19.1.2012, í máli nr. 486/2011, komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að stefnandi ætti ekki rétt á tryggingabótum hjá stefnda. Í áliti nefndarinnar kom fram að stefnandi hefði í greint sinn ekið þungu bifhjóli við erfiðar aðstæður án þess að hafa réttindi til að aka bifhjólinu. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að stefnandi hefði sérstaka reynslu af akstri þungs bifhjóls og hann hafi því sýnt af sér stórkostlegt gáleysi þannig að hann ætti ekki rétt á bótum úr slysatryggingu ökumanns og eiganda hjá stefnda.
Stefnandi óskaði eftir að metnar yrðu afleiðingar slyssins og voru þeir C og D fengnir til að annast matið og skiluðu þeir matsgerð í málinu þann 9.11.2015. Niðurstaða samkvæmt matsgerð var svofelld:
Þjáningabætur skv. 3. gr. skbl., 2 dagar rúmliggjandi og 73 dagar án rúmlegu.
Varanlegur miski skv. 4. gr. skbl. 8%.
Varanleg örorka skv. 5.-8. gr. skbl. 5%.
Í kjölfarið óskaði stefnandi eftir því að mál hans yrði tekið upp að nýju og bótaskylda viðurkennd. Félagið tók málið til endurskoðunar og var ákveðið að viðurkenna bótaskyldu að hálfu og var málið gert upp miðað við helmings bótaskyldu, sbr. tjónskvittun, lokauppgjör, dags. 14.12.2015. Tekið var við bótum með fyrirvara um réttmæti niðurstöðu fyrirliggjandi matsgerðar og greiðslu lögmannskostnaðar. Þá var áskilinn réttur til að endurmeta afleiðingar slyssins og krefja félagið um frekari bætur vegna slyssins. Auk þess var gerður fyrirvari við sakarskiptingu og áskilinn réttur til að sækja frekari bætur fyrir dómstólum.
Stefnandi greiddi þjáningarbætur á grundvelli tímabils sem fram kom í samantektarkafla í upphaflegri matsgerð, sbr. fyrirliggjandi fullnaðaruppgjörstillögu og tjónskvittun. Villa hafði verið í upphaflegri matsgerð og eftir að leiðrétt matsgerð barst með stefnu greiddi stefndi þjáningarbætur í samræmi við það tímabil sem fram kemur í leiðréttri matsgerð, auk vaxta, dráttarvaxta og lögmannsþóknunar.
III.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi vísar til þess að samkvæmt 1. mgr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 skuli hver ökumaður,sem ökutæki stjórnar, tryggður sérstakri slysatryggingu, enda hafi hann ekki notað ökutækið í algeru heimildarleysi, sbr. 2. mgr. 90. gr. sömu laga. Vátryggingin skuli tryggja bætur fyrir líkamstjón af völdum slyss, sem ökumaður verður fyrir við stjórn ökutækisins, enda verði slysið rakið til notkunar ökutækis í merkingu 88. gr., sbr. 2. mgr. 92. gr. laganna.
Faðir stefnanda hafi verið með í gildi hjá stefnda lögboðna slysatryggingu ökumanns og eiganda fyrir bifhjólið […]. Stefnandi hafi ekið bifhjólinu þegar slysið varð og stefndi sé því greiðsluskyldur vegna tryggingarinnar. Stefndi hafi hins vegar skert bætur úr tryggingunni með vísan til þess að stefnandi hafði ekki ökuréttindi á þungt bifhjól þegar slysið varð og að bein orsakatengsl séu á milli réttindaleysis stefnanda og að hann missti stjórn á bifhjólinu, sbr. gr. 4.1 í vátryggingarskilmálum hans og 1. mgr. 90. gr. vsl.
Í gr. 4.1 vátryggingarskilmála stefnda nr. BA-10 komi fram: „Ökumaður hins vátryggða ökutækis skal hafa þau réttindi og þá kunnáttu sem krafist er til þess að aka því.“ Stefnandi byggir á því að bótaréttur hans úr slysatryggingu ökumanns og eiganda verði ekki skertur nema stefndi sýni fram á annars vegar að stefnandi hafi af stórkostlegu gáleysi valdið slysinu með því að hlíta ekki varúðarreglu og hins vegar að orsakatengsl séu á milli réttindaleysis stefnanda og slyssins. Sönnunarbyrði um að gáleysi hafi verið stórkostlegt sem og orsakatengsl hvíli á stefnda. Stefnandi byggir einnig á því að gera verði ríkar kröfur til sönnunar atvika, sem leiða eigi til skerðingar bótaréttar vegna líkamstjóns í umferðarslysum á grundvelli stórkostlegs gáleysis.
Ágreiningur málsins lúti að því hvort stefnandi þurfi að bera helming af tjóni sínu sjálfur vegna háttsemi sem jafna megi til stórkostlegs gáleysis. Kröfugerð stefnanda í málinu byggi á því að ekki beri að skerða bótarétt til hans að neinu leyti.
Stefnandi byggir á því að hann hafi ekki sýnt af sér stórkostlegt gáleysi þegar hann ók bifhjólinu umræddan dag. Þá byggir stefnandi á því að ekki sé sjálfkrafa samhengi milli þess að aka án ökuréttinda og þess að sýna af sér stórkostlegt gáleysi við akstur. Ákvæði 1. mgr. 90. gr. vsl. áskilji stórkostlegt gáleysi til að lækka eða fella niður ábyrgð stefnda. Einfalt gáleysi nægi ekki. Stórkostlegt gáleysi hafi verið skilgreint á þá leið að það sé meiri háttar aðgæsluleysi. Þá feli stórkostlegt gáleysi í sér alvarlegra frávik frá þeirri háttsemi sem tjónþola bar að viðhafa en þegar um almennt gáleysi er að ræða.
Stefnandi hafi verið með mikla reynslu af akstri bifhjóla og hafi ekið bifhjólum um árabil. Þegar slysið varð hafi bifhjólið […] verið í eigu föður stefnanda í rúmlega þrjú ár og stefnandi margsinnis ekið hjólinu við sambærilegar aðstæður og voru uppi þegar slysið varð. Þá hafi bifhjólið verið sérhannað til utanvegaaksturs og stefnandi verið í viðurkenndum og góðum öryggisbúnaði og öryggisfatnaði, með hlífum, hryggspjöldum, hálskraga og með hjálm. Stefnandi hafði jafnframt verið með gild ökuréttindi í B flokki í þrjú ár á slysdegi og veiti þau leyfi til aksturs létts bifhjóls. Stefnandi hafði því yfir að búa nægri kunnáttu til að aka hjólinu þegar slysið varð þrátt fyrir að hann hafi ekki verið með formleg réttindi til að aka hjólinu.
Stefnandi byggir einnig á því að réttindaleysi hans sé í engu orsakasamhengi við slysið. Ófrávíkjanlegt skilyrði vátryggingaréttar sé að þær ástæður sem byggt er á að leiði til niðurfellingar bótaréttar séu í beinu orsakasamhengi við það tjón sem um ræðir og þá sé það vátryggingafélags að sýna fram á orsakasamhengi milli slyss og þeirra þátta sem byggt er á að leiða eigi til niðurfellingar bótaréttar. Stefnandi byggir á að þessu skilyrði sé ekki fullnægt í málinu. Samkvæmt framburði stefnanda hjá lögreglu megi rekja orsök slyssins til þess að hann missti stjórn á bifhjólinu eða þegar hann hafi hugsanlega lent á einhverjum aðskotahlut í slóðinni. Það hafi ekki verið vegna réttindaleysis sem það gerðist. Þvert á móti hafi stefnandi verið með mikla reynslu af akstri bifhjóla og hafði ekið bifhjólum um árabil utanvegar þegar slysið varð. Þá komi jafnframt fram að ekki hafi verið um hraðakstur að ræða. Ekkert í gögnum málsins gefi tilefni til að álykta að stefnandi hafi vanrækt skyldur sínar við akstur bifhjólsins eða að orsakir slyssins verði raktar til reynslu- eða kunnáttuleysis hans.
Komist dómurinn að því að um stórkostlegt gáleysi hafi verið að ræða og að fullnægt sé skilyrði um orsakatengsl byggir stefnandi á því að hann eigi samt sem áður rétt á óskertum bótum frá stefnda. Stórkostlegt gáleysi leiðir ekki fyrirvaralaust til niðurfellingar bótaréttar heldur verði að líta til allra þeirra atriða sem fram komi í 1. mgr. 90. gr. vsl. þegar verið sé að meta hvort vátryggingarfélagi sé heimilt að takmarka ábyrgð sína. Þannig sé beinlínis óheimilt að líta til eins atriðis, til að mynda réttindaleysis vátryggðs, og láta niðurstöðu um takmörkun ábyrgðar ráðast af því. Með því sé horft fram hjá öðrum þeim atriðum sem taka verði tillit til samkvæmt ákvæðinu og geti leitt til annarrar niðurstöðu. Stefnandi byggir á því að horfa verði á atvik í heild sinni við mat á ábyrgð félagsins. Vísar hann um það til þess sem fram kemur í ákvæðinu, að við úrlausn á því hvort og þá hve mikið eigi að skerða rétt hans til bóta skuli litið til sakar vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð hafi borið að, hvort vátryggður hafi verið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna sem hann hafi sjálfviljugur neytt og til atvika að öðru leyti.
Með vísan til alls framangreinds telur stefnandi að ekki skuli skerða bótarétt hans um helming vegna stórkostlegs gáleysis og krefst hann því fullra bóta úr hendi stefnda vegna slyssins.
Dómkröfur stefnanda eru á því byggðar að stefnandi eigi rétt á óskertum skaðabótum úr hendi stefnda vegna líkamstjóns síns. Dómkröfur stefnanda sundurliðast á eftirfarandi hátt og eru reiknaðar á grundvelli matsgerðar C læknis og D hrl.
Þjáningabætur skv. 3. gr. skbl. 138.870 kr.
2 dagar rúmliggjandi á 3.370 kr. 6.740 kr.
73 dagar án rúmlegu á 1.810 kr. 132.130 kr.
Varanlegur miski skv. 4. gr. skbl. 828.960 kr.
10.362.000 * 8,00%
Varanleg örorka skv. 5.-8. gr. skbl. 2.398.340 kr.
2.776.500 * 17,276 * 5%
Samtals 3.366.170 kr.
Frá dómkröfu dregst greiðsla að fjárhæð 1.983.850 krónur þann 22. desember 2015 og 34.030 kr. þann 1. mars 2016, sem eru greiðslur stefnda miðað við 50% bótaskyldu. Við uppgjör málsins gerði lögmaður stefnanda fyrirvara við mat á varanlegum afleiðingum slyssins og skerðingu vegna meints stórkostlegs gáleysis.
Bætur fyrir þjáningar eru reiknaðar á grundvelli 3. gr. skaðabótalaga, sbr. 15. gr. laganna, en í fyrirliggjandi matsgerð kemur fram að tímabil þjáninga sé frá 19. júní 2011 til 2. september 2011, þar af rúmliggjandi í tvo daga. Bætur fyrir varanlegan miska eru reiknaðar á grundvelli 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 15. gr. laganna.
Bætur fyrir varanlega örorku eru reiknaðar á grundvelli lágmarkslauna, sbr. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Útreikningur kröfu vegna varanlegrar örorku tekur mið af margföldunarstuðli 6. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Höfuðstóll dómkröfunnar er því 3.366.170 krónur. Í málinu er jafnframt gerð krafa um greiðslu 4,5% vaxta samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga vegna miska og þjáninga, að fjárhæð 967.830 krónur, frá tjónsdegi þann 19. júní 2011 til stöðugleikatímapunkts þann 19. desember 2011 og að viðbættri kröfu vegna varanlegrar örorku, samtals að fjárhæð 3.366.170 krónur, frá stöðugleikapunkti til 16. desember 2015, en þá var mánuður liðinn frá því að krafa á grundvelli matsgerðar var send stefnda.
Þá er krafist dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, vegna allra bótaliða frá 16. desember 2015, mánuði frá þeim degi sem krafa stefnanda var send stefnda og til greiðsludags, samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur aðili. Þar sem lögmönnum er gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.
Stefnandi vísar til umferðarlaga nr. 50/1987. Vísað er til meginreglna íslensks skaðabótaréttar, einkum sakarreglunnar og skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá er vísað til laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga. Stefnandi vísar jafnframt til vátryggingarskilmála stefnda nr. BA-10.
Um aðild málsins er vísað til III. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Um varnarþing er vísað til ákvæða V. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Varðandi málskostnað vísar stefnandi til ákvæða 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt byggist á ákvæðum laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.
Um bótakröfu er vísað til skaðabótalaga nr. 50/1993. Um vexti og dráttarvexti á dómkröfu stefnanda er vísað til ákvæða 6. og 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, sem og skaðabótalaga nr. 50/1993.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi mómælir öllum kröfum og málsástæðum stefnanda og gerir kröfu um sýknu af öllum kröfum stefnanda. Stefndi byggir kröfur sínar um sýknu á því að stefnandi hafi fengið tjón sitt að fullu bætt samkvæmt skaðabótalögum með þegar greiddum bótum og hann eigi þar af leiðandi ekki lögvarinn rétt til frekari bóta úr hendi stefnda.
Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 30/2004 losni vátryggingafélag úr ábyrgð í heild eða að hluta hafi vátryggður, í öðrum vátryggingum en ábyrgðartryggingum, valdið vátryggingaratburði með háttsemi sem telja verður stórkostlegt gáleysi. Í grein 9 í sameiginlegum skilmálum félagsins, sem í gildi voru á tjónsdegi, sé að finna samsvarandi ákvæði er varðar stórkostlegt gáleysi. Þar segi orðrétt í gr. 9.1: „Ef vátryggingaratburður verður rakinn til stórkostlegs gáleysis vátryggðs losnar félagið úr ábyrgð sinni í heild eða að hluta, nema hann hafi ekki vegna aldurs eða andlegs ástands gert sér grein fyrir afleiðingum gerða sinna. Í persónutryggingum gildi þetta einnig ef afleiðingar vátryggingaatburðar verða meiri en ella vegna stórkostlegs gáleysis vátryggðs.“ Þá segi í gr. 9.2 orðrétt: „Við mat á ábyrgð félagsins skal líta til sakar vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að, hvort vátryggður var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna sem hann hafði sjálfviljugur neytt og atvika að öðru leyti.“
Í varúðarreglum vátryggingarskilmála fyrir ökutækjatryggingu nr. BA10 sé þess getið að ökumaður hins vátryggða ökutækis skuli hafa þau réttindi og þá kunnáttu sem krafist er til þess að aka því, sbr. grein 4.1. Um afleiðingar þess að varúðarreglum er ekki fylgt sé fjallað í grein 5 í skilmálunum, sbr. og 26. gr. laga um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004. Þar komi fram að ábyrgð félagsins geti fallið niður í heild eða að hluta sé varúðarreglum ekki fylgt. Við mat á afleiðingum þess að brotið sé gegn varúðarreglu sé farið meðal annars eftir sök vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að og eftir atvikum að öðru leyti.
Sýknukrafa stefnda byggir á því að stefnandi hafi ekki fylgt fyrrgreindri varúðarreglu og sýnt af sér stórkostlegt gáleysi þegar hann ákvað að reyna að stjórna bifhjólinu, […], án þess að hafa tilskilin réttindi til þess. Með vísan til 2. mgr. 27. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004, sbr. og 9. gr. í sameiginlegum skilmálum félagsins, sem í gildi voru á tjónsdegi, telur stefndi að stefnandi hafi verið meðvaldur að umræddu slysi með háttsemi sem telst vera stórkostlegt gáleysi og því sé rétt að hann beri helming tjónsins sjálfur.
Miðað við lýsingar stefnanda á aðdraganda óhappsins í skýrslu lögreglu sé heldur ekki hægt að útiloka að bifhjólinu hafi verið ekið of hratt miðað við aðstæður og að það hafi, ásamt réttindaleysinu, verið þess valdandi að stefnandi missti stjórn á hjólinu. Það hvernig stefnandi lýsir ferli hjólsins fyrir lögreglu í aðdraganda þess að hann missir stjórn á því og síðan í kjölfarið á því og hvernig hann sjálfur „kastast af hjólinu langt út í móa og hjólið farið ennþá lengra út í móa“ bendi í raun eindregið til þess að ekið hafi verið alltof hratt miðað við aðstæður. Þá kvaðst stefnandi ekki vita hver hraðinn á hjólinu var sem styðji það að stefnandi hafi verið að aka of hratt miðað við aðstæður.
Stefndi mótmælir því sem ósönnuðu að engin orsakatengsl séu á milli réttindaleysis stefnanda og óhappsins. Þvert á móti verði að telja yfirgnæfandi líkur á því að réttindaleysi stefnanda hafi verið orsök þess að hann réð ekki við hjólið, missti vald á því og kastaðist af því, eins og hann sjálfur lýsir fyrir lögreglu og fram kemur í lögregluskýrslu vegna málsins. Að mati stefnda hafi stefnandi þannig ekki fært fram fullnægjandi sönnur á því að réttindaleysi hans til að aka bifhjólinu hafi engu skipt varðandi tjónsatburðinn. Þessu til staðfestingar sé áðurnefndur framburður stefnanda í lögregluskýrslu, þar sem orðrétt segir:
„A kvaðst ekki vita hvað gerðist í akstrinum hjá honum eða hvort hann hafi hugsanlega lent á einhverjum aðskotahlut í slóðinni, en skyndilega hafi hann lent nokkuð hægra megin á veginum og misst vald á hjólinu en síðan hafi hjólið farið yfir til vinstri og [stefnandi] hafi ekkert við hjólið ráðið og lent utan í vinstri eða austari kanti vegslóðans [...].“
Að mati stefnda sé stefnandi með þessu í raun að lýsa því að réttinda- og kunnáttuleysið hafi gert það að verkum að hann réð ekkert við bifhjólið í umrætt sinn við þær aðstæður sem þarna voru. Sem fyrr segir sé heldur ekki hægt að útiloka að of hraður akstur miðað við aðstæður hafi einnig verið orsök tjónsatviksins. Þá hafnar stefndi því sem ósönnuðu að einhver aðskotahlutur í vegslóðanum hafi verið þess valdandi að stefnandi missti stjórn á hjólinu. Aðeins sé um getgátur af hálfu stefnanda að ræða og þá kemur fram í framburði föður stefnanda hjá lögreglu að hann mundi ekki eftir neinum aðskotahlut á veginum í aðdraganda óhappsins sem skýrt gæti hvað hefði gerst.
Stefndi vísar til þess að stór þáttur í akstri bifhjóla og annarra vélknúinna ökutækja sé að hafa til þess þekkingu og reynslu. Þá sé kveðið á um það í 48. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, að enginn megi stjórna bifreið eða bifhjóli nema hann hafi til þess gilt ökuskírteini sem ríkislögreglustjóri gefur út. Fyrir liggur að umrætt bifhjól sé svokallað þungt bifhjól og skráð með slagrýmið 249 CM³. Ágreiningslaust sé að stefnandi var ekki með réttindi til að aka bifhjóli eins og því sem um ræðir í þessu tilviki og hafi verið fullmeðvitaður um eigið réttindaleysi, sbr. ummæli í lögregluskýrslu. Þrátt fyrir það hafi stefnandi ákveðið að fara á hjólið og aka því eftir gömlum moldarvegi eða vegslóða upp á fjalllendi. Í ljósi aðstæðna var því enn meiri ástæða til að ökumaður bifhjólsins hefði þá kunnáttu, getu og þau réttindi sem krafist er samkvæmt lögum og skilmálum til að stjórna því, enda liggi það í augum uppi að þörf sé á mun meiri hæfni og getu til að stjórna þungu bifhjóli við fyrrgreindar aðstæður en til dæmis á beinum, breiðum og malbikuðum vegi. Sök stefnanda sé því ótvíræð að mati stefnda og eðlilegt að hann beri helmingsábyrgð á eigin háttsemi.
Með vísan til framangreinds og gagna málsins telur stefndi sannað að stefnandi hafi verið meðvaldur að umræddu slysi af stórkostlegu gáleysi þegar hann tók þá ákvörðun að aka þungu bifhjóli, sem hann hafði hvorki réttindi né þekkingu til að stjórna, eftir fjallvegi við erfiðar aðstæður.
Upphafstíma dráttarvaxtakröfu er mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi, sbr. niðurlag ákvæðis 4. mgr. 5. gr., sbr. 9., laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Um lagarök vísar stefndi til meginreglna skaðabóta- og vátryggingaréttar, skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, laga um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, og umferðarlaga nr. 50/1987.
Málskostnaðarkrafa stefnda er byggð á ákvæði 129. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Ágreiningur aðila snýst ekki um afleiðingar slyssins eða fjárhæðir tiltekinna bótaliða, heldur aðeins um þá ákvörðun stefnda að skerða bætur til handa stefnanda. Við aðalmeðferð gaf stefnandi skýrslu og vitnaskýrslur gáfu faðir stefnanda, B, og bræður stefnanda, E og F.
Framburðir vitna voru nokkuð misvísandi um það hvort stefnandi hefði lent á grjóti eða ekki. E kvaðst hafa séð stefnanda lenda á grjóti, en F sá hann ekki falla af hjólinu og kvaðst ekki hafa séð grjót í hjólfarinu. Framburður föður stefnanda var á þá leið í lögregluskýrslu að hann kvaðst hvorki hafa séð né muna eftir aðskotahlut á veginum í aðdraganda óhappsins sem skýrt gæti hvað hefði gerst. Hins vegar kemur fram í framburðum vitna að nokkuð hafi verið um steina í hjólförunum. Þá kom fram í framburði vitnanna að stefnandi hefði haft reynslu af því að aka umræddu bifhjóli við sambærilegar aðstæður.
Í framburði stefnanda fyrir dómi kom fram að hann viti ekki hvað olli því að hann missti stjórn á bifhjólinu í greint sinn, en ekki hafi verið um hraðakstur að ræða þó hann viti ekki á hvaða hraða hann ók. Þá kvaðst hann hafa ekið bifhjólinu talsvert áður við þessar aðstæður.
Óumdeilt er að stefnandi hafði heimild umráðamanns bifhjólsins til að aka því. Hann hafi almennt ökupróf frá árinu 2009. Stefnandi, sem var 20 ára gamall þegar slysið varð, kveðst hafa gert sér grein fyrir því að hann hefði ekki tilskilin réttindi til að aka bifhjólin […], sem er svokallað þungt bifhjól og er skráð með slagrýmið 249 rúmsentimetrar. Í 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er tekið fram að enginn megi stjórna bifreiða eða bifhjóli nema hann hafi til þess gilt ökuskírteini. Í varúðarreglum vátryggingarskilmála fyrir ökutækjatryggingu nr. BA 10 hjá stefnda er þess getið að ökumaður hins vátryggða ökutækis skuli hafa þau réttindi og þá kunnáttu sem krafist er til þess að aka því, sbr. grein 4.1. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 30/2004 losnar vátryggingafélag úr ábyrgð í heild eða að hluta hafi vátryggður, í öðrum tryggingum en ábyrgðartryggingum, valdið vátryggingaratburði með háttsemi, sem telja verður stórkostlegt gáleysi. Samsvarandi ákvæði var í 9. gr. 1 í sameiginlegum skilmálum félagsins, sem í gildi var á tjónsdegi. Um afleiðingar þess að varúðarreglum er ekki fylgt er fjallað í grein 5 í skilmálunum, sbr. og 26. gr. laga um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004. Þar kemur fram að ábyrgð félagsins geti fallið niður í heild eða að hluta sé varúðarreglum ekki fylgt. Við mat á afleiðingum þess að brotið sé gegn varúðarreglu fari meðal annars eftir sök vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að og eftir atvikum að öðru leyti.
Lýsing stefnanda á aðdraganda slyssins hjá lögreglu og því hvernig hann missti stjórn á bifhjólinu, hvernig hann hafi „kastast af hjólinu langt út í móa og hjólið farið enn lengra út í móa“, bendir til þess að bifhjólinu hafi verið ekið of hratt miðað við aðstæður sem voru erfiðar. Telja verður, miðað við þessa lýsingu stefnanda á aðdraganda slyssins, að hann hafi verið meðvaldur að slysinu með stórkostlegu gáleysi með því að aka bifhjólinu í greint sinn við erfiðar aðstæður án þess að hafa til þess tilskilin réttindi. Lýsing atvika bendir og til þess að hjólinu hafi verið ekið of hratt við aðstæður og stefnandi ekki haft fulla stjórn á því. Þó bræður stefnanda og faðir hafi borið um að hann hafi áður ekið umræddu bifhjóli hefur stefnandi ekki fært fullnægjandi sönnur á því að réttindaleysið hafi engu skipt varðandi slysið. Bein orsakatengsl eru því milli réttindaleysis stefnanda og þess að hann missti stjórn á bifhjólinu.
Telja verður að stefnandi hafi ekki fylgt framangreindri varúðarreglu og hann hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi sem með vísan til 2. mgr. 27. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, sbr. og 9. gr. í sameiginlegum skilmálum stefnda, sem í gildi voru á tjónsdegi, leiðir til þess að rétt þykir að stefnandi beri helming tjónsins sjálfur. Þar sem stefnandi hefur þegar fengið tjón sitt bætt að fullu miðað við þessa niðurstöðu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður milli aðila. Stefnandi nýtur gjafsóknar og ber að greiða gjafsóknarkostnað stefnanda, þar með talda málflutningsþóknun lögmanns hans, úr ríkissjóði. Hún þykir hæfilega ákveðinn eins og kveðið er á um í dómsorði. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts.
Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndi, Vátryggingarfélag Íslands hf., er sýkn af kröfum stefnanda, A.
Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 1.050.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.