Hæstiréttur íslands

Mál nr. 245/2000


Lykilorð

  • Ábyrgð
  • Sveitarstjórn
  • Skuldabréf
  • Málskostnaður


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. febrúar 2001.

Nr. 245/2000.

Hafnarfjarðarbær

(Valgarður Sigurðsson hrl.)

gegn

Sameinaða lífeyrissjóðnum

(Gestur Jónsson hrl.)

og

Sameinaði lífeyrissjóðurinn

gegn

Þorsteini Steinssyni

(Andri Árnason hrl.)

                               

Ábyrgð. Sveitarstjórn. Skuldabréf. Málskostnaður.  

H keypti fasteignina Strandgötu 30 á árinu 1988 ásamt lóðarleiguréttindum og seldi hana aftur sama ár til K. Lóðin sem fylgdi eigninni við sölu til K átti samkvæmt kaupsamningi að vera aðeins brot af stærð lóðarinnar samkvæmt lóðarleigusamningi. Það láðist að þinglýsa kaupsamningnum og ekki varð af gerð nýs lóðarleigusamning. Í kjölfarið  reis ágreiningur um það hvort veðréttindi í fasteigninni væru bundin við lýsingu á söluandlaginu samkvæmt kaupsamingi eða hvort þau næðu jafnframt til lóðaspildunnar, sem fylgdi eigninni við sölu til H fyrr á árinu. H hafði þegar úthlutað hluta af umræddri lóðaspildu undir nýbyggingar og í því skyni að forða eigninni frá nauðungarsölu vegna greiðsluörðugleika K var Þ, sem var fjármálastjóri H, falið að vinna að lausn málsins af hálfu H. Samningar náðust við MH, sem keypti eignina og nýr lóðarleigusamingur var gefinn út og undirritaður haustið 1995. Einn liður í fjármögnum MH á fasteigininni var útgáfa 4 skuldabréfa með 2. veðrétti í eigninni. Þessi skuldabréf áritaði Þ fjármálastjóri H  um einfalda ábyrgð H. S keypti tvö af þessum skuldabréfum og þegar þau fengust ekki greidd var lögmanni falið að innheimta þau hjá H eftir að fasteignin hafði verið seld á nauðungarsölu og ekkert fengist greitt upp í bréfin. Byggði S kröfu sína á undirritun Þ um einfalda ábyrgð H. H taldi að ekki hefði verið gætt ákvæða 5. mgr. 86. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 um ábyrgðarveitingar sveitarstjórna þegar Þ áritaði skuldabréfin. Héraðsdómur taldi að meta yrði áritun Þ í ljósi aðdraganda hennar. Í ljós væri leitt að áritunin hefði verið forsenda þess að greiðsla fékkst fyrir bréfin og að því virtu gæti gildi skuldbindingar af hálfu H ekki verið bundið við það að gætt hafi verið ákvæða 5. mgr. 89. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga. Var því fallist á einfalda ábyrgð H fyrir greiðslu á skuldabréfunum. Hæstiréttur staðfesti héraðsdóminn með þeirri athugasemd að áritunin fæli ekki í sér venjulega ábyrgð fyrir þriðja aðila. Sýnt hefði verið fram á að áritun Þ og öll framganga hans í málinu var í þágu H og með hagsmuni hans í huga. Slík ábyrgð geti eðli málsins samkvæmt ekki fallið undir umrætt ákvæði sveitarstjórnarlaga.

 

 Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 21. júní 2000. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. júlí 2000. Hann krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara, að gagnstefndi verði dæmdur til að greiða sér 4.722.176 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 11. apríl 1996 til greiðsludags. Samkvæmt greinargerð krefst hann í báðum tilvikum málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnstefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram er deilt um það, hvort áritun gagnstefnda fyrir hönd aðaláfrýjanda á skuldabréf í eigu gagnáfrýjanda um einfalda ábyrgð bæjarsjóðs feli í sér ábyrgðarveitingu til þriðja aðila í skilningi 5. mgr. 89. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986.

Framangreind áritun felur ekki í sér venjulega ábyrgð fyrir þriðja aðila. Sýnt hefur verið fram á, að áritun gagnstefnda og öll framganga hans í málinu var í þágu aðaláfrýjanda og með hagsmuni hans í huga. Slík ábyrgð getur eðli máls samkvæmt ekki fallið undir 5. mgr. 89. gr. laga nr. 8/1986. Með vísan til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta hann.

Fallist er á það með héraðsdómi, að engin rök séu til þess, að gagnstefndi þurfi sjálfur að bera kostnað af málsókn gagnáfrýjanda. Þegar litið er til þess, að afstaða aðaláfrýjanda olli því, að gagnstefndi var dreginn inn í málið, þykir rétt að taka tillit til þess kostnaðar, sem gagnáfrýjandi verður fyrir, við ákvörðun málskostnaðar til hans. Þar sem málinu var ekki gagnáfrýjað á hendur aðaláfrýjanda verður ekki hróflað við málskostnaðarákvæði héraðsdóms. Við þessar aðstæður verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti, og gagnáfrýjandi til að greiða gagnstefnda 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Aðaláfrýjandi, Hafnarfjarðarbær, greiði gagnáfrýjanda, Sameinaða lífeyrissjóðnum, 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi greiði gagnstefnda, Þorsteini Steinssyni, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 31. mars 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var 8. þ.m., er höfðað með stefnu birtri 27. maí og 2. júní 1999.

Stefnandi er Sameinaði lífeyrissjóðurinn, kt. 620492-2809, Suðurlandsbraut 30, Reykjavík.

Aðalstefndi er Hafnarfjarðarbær, kt. 590169-7579.

Varastefndi er Þorsteinn Steinsson, kt. 110254-4239, Lónabraut 21, Vopnafirði.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi Hafnarfjarðarbær, en til vara stefndi Þorsteinn Steinsson, verði dæmdur til að greiða stefnanda 4.722.176 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 11. apríl 1996 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt gjaldskrá lögmanns stefnanda, aðallega úr hendi aðalstefnda, en til vara úr hendi varastefnda.

Aðalstefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins.

Varastefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að bótakrafa sú, sem stefnandi hefur uppi í málinu á hendur honum, verði felld niður eða stórlega lækkuð. Þá er þess krafist að stefnanda verði gert að greiða varastefnda málskostnað að skaðlausu að mati réttarins.

I.

Mál þetta varðar tvö skuldabréf í eigu stefnanda, sem Miðbær Hafnarfjarðar hf. gaf út 13. apríl 1994 til Jóns P. Jónssonar hf., hvort að fjárhæð 2.000.000 krónur. Á útgáfudegi voru þau og tvö samhljóða skuldabréf tryggð með 2. veðrétti í fasteigninni nr. 30 við Strandgötu í Hafnarfirði. Öll bera þau svohljóðandi áritun, sem varastefndi undirritaði, en hann var þá fjármálastjóri aðalstefnda: „Jafnframt tekst undirritaður á hönd f.h. Bæjarsjóðs Hafnarfjarðar einfalda ábyrgð á greiðslu þessa bréfs ásamt kostnaði er af vanskilum kann að leiða.” Framan við þessa áritun er ritað: „Bréf þetta er framselt til:”. Framsalshafa er hins vegar ekki getið.

Framangreind fasteign var seld nauðungarsölu 23. september 1998. Samkvæmt úthlutunargerð uppboðsandvirðis kom engin greiðsla upp í veðkröfur á 2. veðrétti. Þá var bú útgefanda skuldabréfanna tekið til gjaldþrotskipta 22. október 1996. Beinir stefnandi nú kröfu um greiðslu umræddra tveggja skuldabréfa aðallega að aðalstefnda. Er sú krafa grundvölluð á þeirri ábyrgð sem aðalstefndi gekkst að mati stefnanda undir með framangreindri áritun varastefnda á bréfin. Verði hins vegar ekki fallist á greiðsluskyldu aðalstefnda hefur stefnandi til vara uppi bótakröfu á hendur varastefnda, sem byggð er á 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.   

II.

Forsaga þeirra lögskipta sem ágreiningsmál þetta er sprottið af er sú, að með dómi Héraðsdóms Reykjaness 10. október 1986 var staðfestur leiguréttur Níelsar og Kristins Árnasona að lóðarspildu frá húsi þeirra nr. 30 við Strandgötu og að sjóvarnargarði neðan Fjarðargötu í Hafnarfirði. Byggðist leiguréttur þeirra á lóðarleigusamningum frá árunum 1903 og 1914. Aðalstefndi keypti eignina að Strandgötu 30 ásamt tildæmdum lóðarleigu-réttindum 9. september 1988, en seldi hana 23. sama mánaðar. Kaupandi var Kvikmyndahús Hafnarfjarðar hf. og kaupverð 15.000.000 krónur. Kaupandi greiddi stærstan hluta kaupverðsins með skuldabréfi að fjárhæð 13.000.000 krónur, sem tryggt var með 2. veðrétti í fasteigninni Strandgötu 30, en uppfærslurétti næst á eftir skuld við Iðnlánasjóð. Bréfið var gefið út 28. desember 1988.  Þetta skuldabréf seldi aðalstefndi veðdeild Sparisjóðs Hafnarfjarðar 18. janúar 1989 og tókst þá jafnframt á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslu þess gagnvart sjóðnum.

Lóðin sem fylgdi eigninni við söluna til Kvikmyndahúss Hafnarfjarðar átti samkvæmt kaupsamningi að vera aðeins brot af upphaflegri lóð, eða um 500m².  Meginhluta lóðarinnar hélt aðalstefndi eftir til úthlutunar undir nýbyggingar. Vegna þessarar breytingar á stærð lóðarinnar átti að gefa út nýjan lóðarleigusamning og fella úr gildi lóðarleigusamningana frá 1903 og 1914.  Það láðist hins vegar að þinglýsa kaupsamningnum og ekki varð af gerð nýs lóðarleigusamnings í samræmi við gerðan kaupsamning.

Rekstur Kvikmyndahúss Hafnarfjarðar hf. gekk ekki sem skyldi og félagið stóð ekki í skilum með greiðslur af veðskuldabréfinu. Hinn 11. febrúar 1993 var skuldin ásamt áföllnum dráttarvöxtum talin vera 23.775.554 krónur. Þá er þess að geta að félagið hafði selt Hárgreiðslustofunni Toppi 7% eignarhluta 0101 í Strandgötu 30 með kaupsamningi 9. nóvember 1991 og fengið kaupverðið að fullu greitt.  Hins vegar var veðskuldum sem hvíldu á allri eigninni að Strandgötu 30 ekki aflétt af eignarhluta 0101. 

Í byrjun árs 1993 var fasteignin Strandgata 30 í nauðungarsölumeðferð að kröfu veðhafa.  Var það skilningur veðhafa, að minnsta kosti sumra þeirra, að veðkröfur þeirra næðu til lóðarréttinda samkvæmt lóðarsamningunum frá 1903 og 1914. Hafði forsvarsmaður eins veðhafans gert aðalstefnda grein fyrir því að veðhafinn myndi krefjast uppboðs á lóðinni allri í samræmi við þinglýstar heimildir að henni. Jafnframt var forsvarsmönnum aðalstefnda kunnugt um að þessi veðhafi væri reiðubúinn að fara með álitamálið um stærð veðandlagsins fyrir dómstóla. Á þessum tíma hafði aðalstefndi úthlutað stórri byggingarlóð milli Strandgötu og sjávar og voru framkvæmdir þar hafnar, en lóðin er nr. 13-15 við Fjarðargötu. Byggingarlóðin var að hluta til á lóðinni sem upphaflega fylgdi Strandgötu 30.

Í tengslum við nauðungarsölu á fasteigninni, sem fyrirhuguð var hinn 14. apríl 1993, gerði  JVJ hf. Kvikmyndahúsi Hafnarfjarðar hf. tilboð í 93% hennar. Nam tilboðið 31.000.000 króna, en á þessum tíma munu áhvílandi veðskuldir hafa numið nærri 42.000.000 króna. Á grundvelli þessa kauptilboðs samþykktu uppboðsbeiðendur að fresta uppboði á eigninni. Samkomulagi var einnig náð við þá um það að þeir gæfu eftir tiltekið hlutfall krafna sinna til að þessi kaup mættu takast. Samkomulagið náðist meðal annars fyrir tilstilli varastefnda, sem var þá fjármálastjóri aðalstefnda. 

Þann 14. apríl 1993 greiddi aðalstefndi upp öll vanskil skuldabréfsins frá 28. desember 1988, en vanskilin námu þá 7.919.634 krónum. Með þessari greiðslu var ætlunin að liðka fyrir kaupum JVJ hf. á Strandgötu 30. Var við það miðað að félagið myndi endurgreiða aðalstefnda þessa fjárhæð síðar með gatnagerð í miðbæ Hafnarfjarðar.  Með bréfi 23. apríl 1993 tilkynnti JVJ hf. varastefnda og Kvikmyndahúsi Hafnarfjarðar hf. að stjórn félagsins hefði ákveðið að hætta við fyrirhuguð kaup.  Málefni Strandgötu 30 voru því enn ófrágengin og nauðungarsala á eigninni yfirvofandi.

Síðla árs 1993 lýsti annar aðili, Miðbær Hafnarfjarðar hf., yfir áhuga á að kaupa eignina á sambærilegum kjörum, eða fyrir 31.500.000 krónur. Með kaupsamningi 31. janúar 1994 var þinglýst yfirlýsingu frá öllum veðhöfum um að þeir væru samþykkir kaupunum og að veðkröfur væru að fullu greiddar. Eignarhluti 0101 var jafnframt leystur úr veðböndum. 

Verðbréfafyrirtækinu Handsali hf. var falið að hafa beina milligöngu um endurfjármögnun áhvílandi veðskulda á eigninni. Í því skyni voru gefin út 8 skuldabréf með 1. veðrétti í Strandgötu 30 og 4 skuldabréf með 2. veðrétti í sömu eign, hvert að fjárhæð 2.000.000 krónur. Þessi síðastnefndu skuldabréf áritaði varastefndi með framangreindum hætti. Skráður kröfuhafi að þeim öllum var Jón P. Jónsson hf. Ekki er vitað til þess að Jón P. Jónsson hf. hafi verið raunverulegur eigandi kröfunnar. Mun nafn hans hafa verið notað til þess að fullnægt væri skilyrði 1. tl. 1. mgr. 39. gr. laga nr. 13/1979, sbr. 1. gr. laga nr. 13/1989 um heimild til verðtryggingar skuldabréfa. Í stað bréfanna fékk aðalstefndi greidd fasteignagjöld að fjárhæð 3.297.000 krónur og eftirstöðvar skuldabréfsins sem aðalstefndi var í ábyrgð fyrir, en þær námu 12.319.471 krónu. Þá fékk aðalstefndi endurgreiddar 7.919.634 krónur sem hann hafði lagt út í tengslum við kauptilboð JVJ hf. Af Handsali hf. keypti stefnandi tvö bréf með 2. veðrétti í Strandgötu 30 og einfaldri ábyrgð aðalstefnda og tvö bréf með 1. veðrétti í sömu eign.

Miðbær Hafnarfjarðar hf. seldi Strandgötu 30 ehf. eignarhluta sinn í fasteigninni að Strandgötu 30 þann 19. september 1995.  Samkvæmt afsali er lóðin rúmir 500 m².  Nýr lóðarsamningur var gefinn út og undirritaður af bæjarstjóranum í Hafnarfirði 25. október 1995, en 2. nóvember sama árs af lóðarhafa. Þá fyrst voru lóðarsamningarnir frá 1903 og 1914 felldir úr gildi.

Skuldabréfin sem stefnandi keypti og mál þetta snýst um fengust ekki greidd og var lögmanni falið að innheimta andvirði þeirra. Í kjölfar innheimtubréfs var lögmanni aðalstefnda falið að kanna hvort áritun varastefnda um einfalda ábyrgð aðalstefnda væri gild. Niðurstaða hans var að svo væri ekki. Hefur afstaða aðalstefnda til málsins haldist óbreytt síðan. Var forsvarsmönnum Handsals hf. gerð grein fyrir þessari niðurstöðu í bréfi lögmanns aðalstefnda 16. apríl 1997. Strandgata 30 var þá komin á nauðungarsölu og þótti sýnt að veðskuldabréfin á öðrum veðrétti væru nánast ótryggð. Byrjun uppboðs á eigninni var þrívegis frestað á meðan leitað var leiða til lausnar á málinu, en þær tilraunir leiddu ekki til árangurs. Framhaldssala á eigninni var fyrirhuguð 24. nóvember 1997. Með bréfi lögmanns stefnanda 18. sama mánaðar var aðalstefnda gerð grein fyrir því að látið yrði reyna á gildi ábyrgðaráritunar varastefnda. Þeirri skoðun var jafnframt lýst að þeir einstaklingar sem stóðu að ábyrgðarveitingunni væru persónulega ábyrgir ef þeir reyndust ekki hafa haft umboð til að veita ábyrgðina. Í kjölfar þessa komu fram hugmyndir um að endurfjármagna þær skuldir sem hvíldu á 2. veðrétti og ræddar voru aðrar leiðir til að koma áhvílandi skuldum á 1. veðrétti í skil. Framhaldssala var afturkölluð í þeirri von að leysa mætti málið án nauðungarsölu. Ófært reyndist hins vegar að fá skuldirnar greiddar og var fasteignin því seld nauðungarsölu 23. september 1998. Ekkert fékkst greitt upp í bréf stefnanda á 2. veðrétti og eru bréfin árituð um það. Stefnandi og Lífeyrissjóðurinn Framsýn keyptu eignina á uppboðinu og seldu hana síðan á 19.600.000 krónur.

Með bréfi 15. mars 1999 var stefndu gerð grein fyrir því að stefnandi hygðist leita dóms fyrir kröfum sínum en jafnframt var lýst yfir því að stefnandi væri reiðubúinn til viðræðna um frágang málsins með samkomulagi. Með bréfi lögmanns aðalstefnda 18. mars 1999 var greiðslukröfu á hendur aðalstefnda hafnað.

Í málsatvikalýsingum sínum greinir aðalstefnda og varastefnda á í nokkrum atriðum.  Meðal annars er deilt um að frumkvæði hvers og fyrir hvern varastefndi hafi hafið samningaviðræður við uppboðsbeiðendur og aðra sem veð áttu í fasteigninni Strandgötu 30 til að afstýra nauðungarsölu á henni sem fyrirsjáanleg var vorið 1993.

Aðalstefndi heldur því fram að þessar samningaviðræður hafi á engan hátt verið að frumkvæði eða fyrirboði hans, enda ekki í verkahring varastefnda, sem fjármálastjóra aðalstefnda, að fara í samningagerð um veðkröfur sem aðalstefndi væri ekki greiðandi að.  Aðalstefndi fullyrðir að varastefndi hafi hafið viðræðurnar að undirlagi uppboðsþolans, Kvikmyndahúss Hafnarfjarðar hf., og JVJ hf., sem þá hafði í hyggju að kaupa fasteignina.

Það er einnig afstaða aðalstefnda að varastefndi hafi setið uppi með vandamál eignarinnar eftir að stjórn JVJ hf. hafði ákveðið að kaupa hana ekki. Hann hafi fyrir hönd eigenda Strandgötu 30 samið við kröfuhafana um greiðslu krafna þeirra á tiltekinn hátt á grundvelli tilboðs sem var afturkallað, en þó ekki fyrr en kröfueigendurnir höfðu afturkallað uppboðsbeiðnir sínar. Skuldirnar við þá hafi því enn verið ógreiddar. Vegna þessarar stöðu málsins hafi varastefndi haft milligöngu um að Miðbær Hafnarfjarðar ehf., sem á þessum tíma stóð í framkvæmdunum við Fjarðargötu 13-15, keypti eignina.  Varastefndi hafi einnig aðstoðað félagið við útvegun lánsfjár þar á meðal með útgáfu þeirra veðskuldabréfa sem málið er sprottið af.

Varastefndi heldur því hins vegar fram að aðalstefndi hafi ákveðið að leita viðeigandi leiða til þess að koma í veg fyrir að fasteignin Strandgata 30, ásamt tilheyrandi lóðarréttindum, yrði seld nauðungarsölu og að varastefnda hafi verið falin framkvæmd þessa fyrir hönd aðalstefnda. Ástæða þessara afskipta sé sú að aðalstefndi hafi á þessum tíma verið þinglýstur eigandi eignarinnar þar sem kaupsamningi aðalstefnda og Kvikmyndahúss Hafnarfjarðar hf. hafði ekki verið þinglýst. Forsenda afskipta aðalstefnda hafi því verið að fá veðhafa til að færa niður veðkröfur sínar og fá nýjan kaupanda að eigninni til þess að unnt væri að gefa út nýjan lóðarsamning.  Með þessu móti hefði verið unnt að afstýra því uppnámi sem byggingarframkvæmdir við Fjarðargötu 13-15 voru í þegar yfir vofði nauðungarsala á allri lóðinni sem fylgdi Strandgötu 30. Varastefndi hafi því annast alla umsýslu sem þetta mál tekur til, að beiðni bæjarstjóra aðalstefnda og/eða í samráði við bæjarstjóra og aðra yfirmenn aðalstefnda og hann hafi ekki gætt hagsmuna annarra aðila en aðalstefnda. Jafnframt fullyrðir varastefndi að það hafi verið samkomulag um það milli kaupandans, Miðbæjar Hafnarfjarðar hf, verðbréfafyrirtækisins Handsals hf. og aðalstefnda að til fjármögnunar kaupunum yrði farin sú leið að kaupandi gæfi út ný skuldabréf, tryggð með veði í eigninni, sem kæmu sem greiðsla í stað eldri skulda.  Á grundvelli þessa fyrirkomulags hafi Handsal hf. ráðist í að greiða upp áhvílandi veðskuldir á eigninni til þess að veðsetja mætti eignina á ný til tryggingar hinum nýju skuldabréfum, sem aðalstefndi yrði í reynd eigandi að, en framseldi beint til Handsals hf. Varastefndi heldur því einnig fram að það hafi verið áskilnaður Handsals hf. að skuldabréfin á 2. veðrétti væru með áritaðri framsalsábyrgð aðalstefnda, enda hafi aðalstefndi þegar fengið andvirði þeirra greitt samkvæmt uppgjörssamningnum milli kaupandans, aðalstefnda og Handsals hf.  Andvirði bréfanna hafi gengið til endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem Handsal hf. hafi lagt fram tímabundið til að aflétta veðskuldum af Strandgötu 30 til að tryggja mætti skuldabréfin með veði í þeirri eign. Varastefndi hafi því áritað þau skuldabréf, sem tryggð voru með 2. veðrétti, fyrir hönd aðalstefnda. Fyrir neðan eyðuframsal hafi verið ritað: „Jafnframt tekst undirritaður á hönd f.h. Bæjarsjóðs Hafnarfjarðar einfalda ábyrgð á greiðslu þessa bréfs ásamt kostnaði er af vanskilum kann að leiða.” Þessi ábyrgð hafi því aðeins verið framsalsábyrgð (skaðlaust framsal) á skuldabréfum, sem aðalstefndi hafi þegar samþykkt að ráðstafað yrði til Handsals hf.

III.

Stefnandi reisir kröfur sínar á hendur aðalstefnda á áritun varastefnda fyrir hönd aðalstefnda um ábyrgð þess síðarnefnda á skuldabréf þau, sem málið snýst um. Að mati stefnanda verður í ljósi aðdraganda áritunar varastefnda á bréfin ekki litið svo á, að um veitingu einfaldrar ábyrgðar í skilningi 5. mgr. 89. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 hafi verið að ræða. Með veitingu ábyrgðarinnar hafi aðalstefndi verið leystur undan sjálfskuldarábyrgðum sem numið hafi mun hærri fjárhæðum en einfalda ábyrgðin tók til og önnur vandmál, sem fyrirséð var að kynnu að valda aðstefnda verulegum fjárútlátum, hefðu verið leyst farsællega. Varastefndi hafi sem fjármálastjóri aðalstefnda haft heimild til að framselja skuldabréfið frá 28. desember 1988 með venjulegri framsalsábyrgð. Honum hafi með sama hætti verið heimilt að árita umrædd skuldabréf um einfalda ábyrgð aðalstefnda, enda hafi með þeim verið greitt upp skuldabréf með sjálfskuldarábyrgð sama aðila. Fyrir liggi að bú útgefanda skuldabréfanna, Miðbæjar Hafnarfjarðar hf., var tekið til gjaldþrotaskipta 22. október 1996. Þá hafi tvívegis verið gert árangurslaust fjárnám hjá félaginu sem framseldi bréfin til stefnanda, fyrst 14. janúar 1997 og síðan 29. maí 1998. Því sé einföld ábyrgð aðalstefnda nú orðin virk, teljist hafa stofnast til hennar.

Verði talið að samþykki bæjarstjórnar aðalstefnda hafi þurft til þess að til einfaldrar ábyrgðar hans stofnaðist er á því byggt að hann beri húsbóndaábyrgð á því tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir. Stefnandi hafi fjárfest í umræddum skuldabréfum í trausti þess að aðalstefndi bæri einfalda ábyrgð á greiðslu þeirra. Áritun varastefnda á þau hafi verið gerð með vitund og vilja þáverandi bæjarstjóra aðalstefnda. Með þeirri ákvörðun hafi þeir farið út fyrir umboð sitt og brotið gegn ákvæðum sveitarstjórnarlaga. Áritun varastefnda hafi hins vegar verið til þess fallin að hafa áhrif á verðmætamat á skuldabréfunum við framsal og stefnandi mátt treysta því við kaup á þeim að þau fengjust greidd þótt skuldari samkvæmt þeim og framseljandi reyndust ekki gjaldfærir. Bréfin hafi verið seld á genginu 99,55 með 7% ávöxtunarkröfu, en bréf, sem tryggð voru með 1. veðrétti í fasteigninni Strandgötu 30 og ekki báru áritun um ábyrgð aðastefnda, hafi verið seld á genginu 93,57 með 10% ávöxtunarkröfu.

Verði ekki á framangreint fallist beinir stefnandi kröfu sinni að varastefnda. Er þá á því byggt að varastefnda hafi skort umboð til að veita einfalda ábyrgð fyrir hönd aðalstefnda. Stefnandi hafi hins vegar mátt treysta því að varastefndi hefði sem fjármálastjóri aðalstefnda umboð bæjarstjórnar aðalstefnda til að veita umrædda ábyrgð. Stefnanda hafi því verið rétt að binda traust við áritun varastefnda og ekki haft ástæðu til að kanna sjálfstætt heimildir varastefnda til áritunarinnar. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga beri varastefnda að bæta stefnanda það tjón sem hann hafi hlotið af því að geta ekki krafið aðalstefnda um greiðslu á grundvelli áritunar um einfalda ábyrgð. Eigi bætur til stefnanda að gera hann eins settan og hann hefði verið ef hann hefði getað haldið einföldu ábyrgðinni upp á aðstefnda.

Í öllum framangreindum tilvikum er fjárkrafa stefnanda samtala þeirra tveggja skuldabréfa, sem hann krefst greiðslu á, miðað við uppreiknað verðmæti þeirra hvors um sig á fyrsta vaxtagjalddaga 11. apríl 1996 að viðbættum áföllnum vöxtum. Uppreiknað verðmæti hvors skuldabréfs nemur samkvæmt þessu 2.071.130 krónum og áfallnir vextir 289.958 krónum.

IV.

Aðalstefndi byggir sýknukröfu sína á því að ekki hafi verið gætt ákvæða 5. mgr. 89. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 um ábyrgðarveitingar sveitarstjórna til annarra en sveitarsjóðs sjálfs eða stofnana hans þegar varastefndi og þáverandi fjármálstjóri aðalstefnda áritaði skuldabréf þau sem hér um ræðir um einfalda ábyrgð aðalstefnda. Skilyrði þess að aðalstefndi verði bundinn við ábyrgðaryfirlýsinguna séu þau samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði, að bæjarráð hans hafi samþykkt ábyrgðarveitinguna og að tekin hafi verið trygging vegna hennar, sem bæjarstjórn metur gilda. Hvorugu þessara skilyrða sé fullnægt í máli þessu. Ákvæðið sé óundanþægt og fortakslaust. Því beri að sýkna aðalstefnda. Þá beri að hafa í huga í þessu sambandi að í 4. mgr. 71. gr. tilvitnaðra laga sé kveðið á um það að framkvæmdastjóri sveitarfélags, í tilviki aðalstefnda bæjarstjóri, skuli undirrita skjöl varðandi ábyrgðir og skuldbindingar, sem samþykki sveitarstjórnar þarf til.

Þann skilning stefnanda, að ekki hafi verið um að ræða veitingu einfaldrar ábyrgðar í skilningi 5. mgr. 89. gr. laga nr. 8/1986, telur aðalstefndi fjarri sanni og í raun fjarstæðukenndan. Miðbær Hafnarfjarðar ehf. hafi keypt fasteignina nr. 30 við Strandgötu í Hafnarfirði af þrotabúi Kvikmyndahúss Hafnarfjarðar ehf. Aðalstefndi hafi ekki verið aðila að þeim kaupsamningi þótt samþykki hans þyrfti til sölunnar, enda hafi hann þá verið þinglýstur eigandi hennar. Hann hafi jafnframt verið kröfuhafi samkvæmt skuldabréfi á 1. veðrétti. Á þessu tímamarki hafi aðalstefndi átt tveggja kosta völ, það er að samþykkja söluna eða krefjast þess að fá eigina sér útlagða af þrotabúinu sem ófullnægðum veðhafa, en auk framangreindrar veðkröfu hafi aðalstefndi átt lögveð í fasteigninni fyrir vangoldnum fasteignagjöldum. Í þessari aðstöðu hafi aðalstefndi valið þá leið að samþykkja söluna. Hann hafi samkvæmt framansögðu átt kröfu til andvirðis hennar að svo miklu leyti sem nægði til fullnustu á veðkröfum hans og veðstaða hans verið ágæt þar sem krafa hans var tryggð með 1. veðrétti í eigninni. Segir í greinargerð aðalstefnda að hann hafi á þessu tímamarki greitt upp ábyrgðarskuld sína við Sparisjóð Hafnarfjarðar og fengið bréfið framselt sér. Á grundvelli þess hafi hann átt veðkröfu í þrotabú seljanda eignarinnar og því fengið andvirði seldra skuldabréfa áhvílandi á 1. veðrétti að fullu greitt. Með sama hætti hafi hann átt að fá greitt andvirði fjögurra skuldabréfa á 2. veðrétti, þar á meðal skuldabréf þessa máls. Kaupanda eignarinnar hafi hins vegar gengið illa að selja þau, þar sem dregið hafi verið í efa af væntanlegum kaupendum þeirra að fullnægjandi trygging væri fyrir því að þau fengjust greidd. Á þessum tímapunkti hafi varastefndi hins vegar gripið til þess ráðs, án heimildar og án samþykkis bæjarráðs aðalstefnda, að árita þau um einfalda ábyrgð aðalstefnda og þvert gegn hagsmunum hans. Í ljósi þess að aðalstefndi hafði fengið greidda fjárhæð, sem að langstærstum hluta hafi samsvarað þeim sjálfskuldarábyrgðum sem hann var í áður, sé vandséð hvert samhengi sé á milli ábyrgðarveitingarinnar á skuldabréfunum sem hvíldu á 2. veðrétti og fyrri ábyrgðarskuldbindingar. Veðstaðan hafi verið verri en áður, ábyrgðarskuldbindingin verið uppgreidd og útgefin skuldabréf á engan hátt átt að koma í stað eldra skuldabréfs, sem aðalstefndi hafði ábyrgst greiðslu á.

Aðalstefndi hafnar því alfarið að hann verði gerður greiðsluskyldur gagnvart stefnanda á grundvelli húsbóndaábyrgðar. Bæjarstjórn sveitarfélags hafi ein ákvörðunar-vald um veitingu ábyrgðar til annarra. Þannig hafi starfsmenn aðalstefnda ekki stöðuumboð til að skuldbinda hann í þessum tilvikum nema samþykki sveitarstjórnar liggi fyrir. Þá séu nú gerðar ríkar kröfur til verðbréfamiðlara um að þeir kanni gildi ábyrgðaryfirlýsingar sveitarfélags gaumgæfilega og þá sérstaklega ef skuldbinding þess er talin ákvörðunarástæða fyrir veitingu láns til aðalskuldara. Þessu til viðbótar bendir aðalstefndi á, að ákvæði 5. mgr. 89. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 hefðu í reynd lítinn tilgang ef sveitarfélag yrði skaðabótaskylt á grundvelli meginreglu skaðabótaréttar um ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna sinna vegna ábyrgðaryfirlýsinga starfsmanna þess, sem reynast ógildar eða uppfylla ekki lögmælt skilyrði. Þeim hagsmunum, sem ákvæðunum sé ætlað að vernda, sé þá jafn hætt hvort sem greiðslu-skuldbinding sveitarsjóðs stofnast á grundvelli kröfuábyrgðar eða skaðabótaskyldu. Starfsmenn sveitarfélags eigi því ekki að geta með gáleysi sínu bundið sveitarfélag byrðum, sem því sé ekki heimilt að taka á sig nema að undangenginni formlegri ákvörðun sveitarstjórnar.

V.

Varastefndi reisir sýknukröfu sína á því, að hann hafi haft fullkomið umboð og heimild aðalstefnda til þess að árita umrædd skuldabréf með þeim hætti sem raun varð á. Áritunin hafi verið staðfesting á framsalsábyrgð (skaðlausu framsali) aðalstefnda gagnvart Handsali hf., eða þeim aðila sem fengi bréfin framseld til sín. Ekki hafi verið um að ræða einfalda ábyrgð skv. 5. mgr. 89. gr. þágildandi sveitastjórnarlaga nr. 8/1986, enda ekki til þess vísað í ábyrgðarárituninni.

Að mati varastefnda verður að líta svo á að honum hafi, sem fjármálastjóra aðalstefnda, verið heimilt að árita skuldabréf í eigu aðalstefnda, eða sem honum tilheyrðu, með framsalsábyrgð, það er sjálfskuldarábyrgð eða einfaldri ábyrgð, enda fengist andvirði þeirra samhliða greitt. Því hafi ekki verið um að ræða ráðstöfun sem samþykki sveitarstjórnar þarf til í skilningi 4. mgr. 71. gr. 1aga nr. 8/1986. Slík framsalsáritun sé hluti af daglegum rekstri sveitarfélags, sem í þessu tilfelli sé falin fjármálastjóra. Sé þetta í samræmi við langa venju á sviði fjármála sveitarfélaga.

Með vísan til þess sem fram er komið varðandi aðdraganda að umræddri áritun sé ljóst, að aðalstefndi hafi fengið umrædd skuldabréf sem greiðslu sem veðhafi í fasteigninni Strandgötu 30, Hafnarfirði, en greiðsla þessi byggðist á kaupsamningi milli þrotabús Kvikmyndahúss Hafnarfjarðar hf. og Miðbæjar Hafnarfjarðar hf. Það greiðslufyrirkomulag sem sá kaupsamningur ráðgerði hafi ekki getað farið fram með þeim hætti sem tiltekinn var í kaupsamningi, það er að yfirteknar yrðu veðskuldir við aðalstefnda, meðal annars vegna þess að aðalstefndi hafði þegar greitt umræddar veðskuldir niður í tengslum við kauptilboð JVJ hf. Hafi því verið brugðið á það ráð að Handsal hf. greiddi tímabundið upp áhvílandi veðskuldir á fasteigninni, þar með talið lán með sjálfskuldarábyrgð aðalstefnda. Aðalstefndi fengi þess í stað afhent sem greiðslu veðskuldabréf sem tryggð yrðu með veði í umræddri fasteign. Þau skyldu framseld til Handsals hf., sem þegar hafði fjármagnað umrædda uppgreiðslu veðskulda og séð um eða tryggt uppgreiðslu annarra krafna aðalstefnda vegna fasteignarinnar Strandgötu 30. Staða aðalstefnda hafi því einfaldlega verið sú, að í stað þess að fá sjálfur afhent umrædd skuldabréf til ráðstöfunar og sölu hafi bréfin verið framseld til Handsals hf. eða þess aðila sem Handsal hf. framseldi bréfin til, í þessu tilfelli meðal annars til stefnanda. Andvirði bréfanna hafi þannig beinlínis gengið til að greiða niður áhvílandi lán, þar með talið lán hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar og til greiðslu annarra krafna aðalstefnda. Engu skipti í þessu sambandi að áhvílandi lán voru greidd upp áður en umrædd bréf voru framseld Handsali hf., enda hafi viðkomandi aðilum hlotið að vera ljóst að forsenda og reyndar skilyrði þess að Handsal hf. greiddi upp áhvílandi skuld við Sparisjóð Hafnarfjarðar f.h. aðalstefnda og annaðist fjármögnun greiðslu kaupverðs að öðru leyti, var að ný bréf, sem þannig tilheyrðu aðalstefnda, yrðu strax framseld til Handsals hf. Staða aðalstefnda hafi ekki á nokkurn hátt verið önnur en ef hann hefði sjálfur fengið umrædd bréf afhent, framselt að skaðlausu og ráðstafað andvirði þeirra til greiðslu umræddra skuldbindinga. Eðli viðskiptanna geti ekki breyst eingöngu vegna þess fyrirkomulags sem viðhaft var. Þá sé ljóst, að framsal skuldabréfa hefði í öllum tilvikum leitt til framsalsábyrgðar aðalstefnda, ef slík ábyrgð hefði verið áskilin af framsalshafa (kaupanda bréfanna). Bréf þau sem komu í stað fyrri veðskulda hafi með þessum hætti verið greiðsla til aðalstefnda. Við framsal bréfanna hafi aðalstefndi ekki á nokkurn hátt verið að gangast í ábyrgð gagnvart öðrum aðila í skilningi 5. mgr. 89. gr. 1aga nr. 8/1986. Áritunin beri þess engin merki að hafa annan tilgang en að vera venjuleg framsalsábyrgð. Af hálfu Handsals hf. hafi verið áskilið við kaup á þeim skuldabréfum, sem tryggð voru með 2. veðrétti í eigninni, að þeim fylgdi árituð framsalsábyrgð aðalstefnda. Enginn slíkur áskilnaður hafi verið gerður varðandi skuldabréf sem tryggð voru með 1. veðrétti, enda talið óyggjandi að veðið tryggði skuldabréf á þeim veðrétti. Varðandi skuldabréf á 2. veðrétti hafi verið áskilið að bréfin bæru framsalsábyrgð, þó þannig að ekki var áskilin sjálfsskuldarábyrgð, heldur eingöngu einföld ábyrgð. Sú ábyrgð hafi átt að tryggja að framsalshafi gæti gengið að aðalstefnda ef útgefandi og skuldari bréfsins yrði ógjaldfær. Að virtum atvikum máls þessa í heild sinni sé því ljóst, að varastefndi sinnti með eðlilegum og venjubundnum hætti starfi sínu sem fjármálastjóri aðalstefnda.

Að mati varastefnda verður að telja afdráttarlaust, að upphafleg afskipti aðalstefnda af fasteigninni Strandgötu 30 hafi tengst lóðarmálum fasteignarinnar, auk þess sem aðalstefndi bar sjálfsskuldarábyrgð á skuldabréfi því sem hvíldi á 1. veðrétti, og framselt hafði verið til veðdeildar Sparisjóðs Hafnarfjarðar. Hafi aðalstefndi því haft beina hagsmuni af því að farsæl lausn fengist í máli þessu. Sú lausn hafi annað hvort getað falist í því að kaupa eignina á nauðungaruppboði og ráðstafa henni aftur, eða að hún yrði seld frjálsri sölu með samþykki allra veðhafa. Sú áhætta, að aðrir veðhafar myndu mótmæla tilgreiningu lóðarinnar við nauðungarsöluna, hafi hins vegar verið til staðar ef síðari leiðin hefði verið farin.

Sú ráðstöfun að heimila Kvikmyndahúsi Hafnarfjarðar hf. að veðsetja eignina til tryggingar skuldum við þriðja mann, áður  en nýjum lóðarsamningi hafði verið þinglýst, hafi fyrirsjáanlega leitt til þess að veðhafar gátu litið svo á að lóðarréttindi eignarinnar samkvæmt gildandi lóðarsamningum væru veðsett. Þar sem verulegar framkvæmdir voru hafnar annars staðar á lóðinni, sem síðar varð Fjarðargata 13-15, hafi verið ljóst að nauðsynlegt var fyrir aðalstefnda að afstýra því að fasteignin Strandgata 30, ásamt tilheyrandi lóðarréttindum, yrði seld nauðungarsölu í apríl 1993. Fullyrðingar aðalstefnda um að málefni Strandgötu 30 hafi verið aðalstefnda óviðkomandi eiga ekki við nokkur rök að styðjast.

Af hálfu varastefnda er sérstaklega á það bent, að hann hafi sem fjármálastjóri haft stöðuumboð til þess að árita hvers konar skuldabréf í eigu sveitarfélagsins um ábyrgð við framsal, auk þess sem varastefndi hafi sem fjármálastjóri um árabil undirritað hvers konar lánsskjöl fyrir hönd aðalstefnda. Samþykki sveitarstjórnar til að framselja megi með framsalsábyrgð viðskiptaskjöl, sem tengjast viðskiptum sveitarfélaga, sbr. 4. mgr. 71. gr. 1aga nr. 8/1986, sé ekki áskilið. Fjármálastjóri sveitarfélagsins hafi því umboð til slíkrar ráðstöfunar. Ekki sé á því byggt af hálfu stefnanda, að ábyrgð varastefnda byggist á umboðsskorti að þessu leyti, sbr. til hliðsjónar 4. mgr. 71. gr. 1aga nr. 8/1986. Því sé ekki ástæða til að fjalla frekar um heimild varastefnda sem fjármálastjóra til að skuldbinda aðalstefnda með þessum hætti.

Verði ekki fallist á þau sjónarmið sem að framan eru rakin er á því byggt af hálfu varastefnda, að stefnandi hafi ekki sýnt fram á eða sannað að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna áritunar varastefnda á umrædd skuldabréf. Fyrir liggi að stefnandi keypti fasteignina Strandgötu 30 í félagi við annan aðila fyrir 12.500.000 krónur, en selt hana aftur fyrir 19.600.000 krónur. Ekkert liggi fyrir um ráðstöfun þess mismunar sem samkvæmt þessu var á kaup- og söluverði. Þá liggi ekkert fyrir um raunverð eignarinnar eða hvort eðlilegar ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja viðunandi verð fyrir hana, sbr. til hliðsjónar 57. gr. laga nr. 90/1991. Fyrir liggi hins vegar að eignin var seld fyrir 31.500.000 krónur samkvæmt kaupsamningi 31. janúar 1994 og fyrir sambærilega upphæð samkvæmt kaupsamningi 19. september 1995. Þá liggi fyrir matsgerð, þar sem verðmæti eignarinnar er áætlað 30.000.000 til 35.000.000 krónur. Telja verði að þar með sé fram komin sönnun um verðmæti eignarinnar við nauðungarsölu á henni í september 1998.

Verði ekki fallist á að um framsalsáritun innan stöðuumboðs hafi verið að ræða, heldur einfalda ábyrgð á grundvelli 5. mgr. 89. gr. laga nr. 8/1986, er á því byggt, að stefnandi hafi sem fjármálastofnun vitað eða mátt vita að skilyrði ákvæðisins hafi ekki verið uppfyllt. Þannig hafi ekki legið fyrir samþykki bæjarstjórnar aðalstefnda, svo sem áskilið er í ákvæðinu. Þá sé ekki heldur vísað til slíkrar ábyrgðar í umræddri áritun. Stefnanda hafi sem fjármálstofnun með umfangsmikil verðbréfaviðskipti borið að afla sérstakrar staðfestingar á því að um þvílíka ábyrgð hafi verið ræða. Ekki verði byggt á því síðar, enda komi það hvergi fram í árituninni. Áritunin á bréfin sjálf beri þess merki að sá sem hana gerði hafi litið svo á að um framsalsáritun væri að ræða. Með vísan til lagareglna um eigin sök geri stefnandi því ekki reist kröfur sínar á hendur varastefnda á 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1936.

Til þrautavara krefst varastefndi þess að bótafjárhæð verði felld niður eða stórlega lækkuð með vísan til 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með lögjöfnun. Er í því sambandi vísað til þess að stefnandi hafi keypt eignina á nauðungarsölu fyrir 12.500.000 krónur. Samkvæmt því sem áður er rakið verði að ætla að raunverð eignarinnar hafi verið mun hærra á uppboðsdegi.

VI.

Guðmundur Árni Stefánsson alþingismaður, sem var bæjarstjóri í Hafnarfirði samfellt um sjö ára skeið og þar til í júní 1993, gaf vitnaskýrslu við aðalmeðferð málsins. Í henni kom fram, að það hafi verið tilgangurinn með kaupum aðalstefnda á fasteigninni Strandgötu 30 í Hafnarfirði í september 1988 að hann næði undir sig lóðarspildu sunnan Strandgötu þannig að hægt yrði að hefjast handa við uppbyggingu á miðbæ Hafnarfjarðar. Við söluna til Kvikmyndahúss Hafnarfjarðar stuttu síðar hafi stærstum hluta lóðarinnar þannig verið haldið eftir. Hluta þeirra lóðar, sem ekki hafi átt að fylgja við söluna, hafi síðan verið úthlutað og byggingarframkvæmdir þar verið hafnar þegar ákveðin réttaróvissa, sem þegar hefur verið lýst, skapaðist um hana. Við þessar aðstæður hafi vitnið falið varastefnda að leita lausna á þeim vanda sem upp var kominn. Öllum sem að málinu komu hafi verið ljóst mikilvægi þess að samið yrði um lausn á því og að það yrði þannig leitt til lykta með farsælum hætti. Umtalsverðir fjárhagslegir hagsmunir hefðu verið í húfi, en að auki hafi verið um að ræða nýbyggingu, eina þá stærstu í bænum, sem nauðsyn var á að risi hratt og vel þannig að svæðið yrði ekki allt í uppnámi árum saman.

Auk Guðmundar Árna komu fyrir dóminn sem vitni þeir Ingvar Viktorsson, sem var bæjarstjóri í Hafnarfirði frá miðju ári 1993 og til 1. júlí 1994 og síðan aftur frá 1. júlí 1995 til 1. júlí 1998, Magnús Jón Árnason, sem gegndi starfi bæjarstjóra frá 1. júlí 1994 til 1. júlí 1995, Pálmi Sigmarsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Handsals hf., Helgi Sigurðsson héraðsdómslögmaður og Ingvar Guðmundsson löggiltur fasteignasali. Þá gaf varastefndi ítarlega aðilaskýrslu. Ekki er ástæða til að rekja það sem fram kom í skýrslum þessum.

VII.

Niðurstaða.

Hér að framan er lýst tildrögum þess að ágreiningur reis um það hvort veðréttindi í fasteigninni Strandgötu 30 í Hafnarfirði, sem stofnað var til eftir kaup Kvikmyndahúss Hafnarfjarðar hf. á henni 23. september 1988, væru bundin við eignina samkvæmt lýsingu á henni í samningi um þau kaup á milli aðalstefnda og félagsins eða hvort þau næðu jafnframt til lóðarspildu sem fylgdi eigninni við sölu til aðalstefnda 9. sama mánaðar, en sem skilin hafði verið frá henni þegar seinni samningurinn var gerður. Þegar þessi ágreiningur kom upp hafði aðalstefndi úthlutað hluta þeirrar lóðar sem hér um ræðir undir nýbyggingu og voru framkvæmdir við hana hafnar. Hafði aðalstefndi augljósa og ríka hagsmuni af því að þetta mál yrði farsællega til lykta leitt. Í því sambandi þótti brýnt að ekki kæmi til þess að eignin yrði seld nauðungarsölu, en fyrir lá að við hana kynnu veðhafar að láta á það reyna hvort veðréttindi þeirra næðu til þeirrar lóðar sem tilheyrði Strandgötu 30 samkvæmt fyrri samningnum. Fram er komið að þáverandi bæjarstjóri aðalstefnda fól varastefnda að vinna að lausn málsins. Upphaflegar tilraunir varastefnda í þá átt fóru út um þúfur þegar JVJ hf. féll frá tilboði sínu í fasteignina. Með þeim samningi um hana sem komst á milli þrotabús Kvikmyndahúss Hafnarfjarðar hf. og Miðbæjar Hafnarfjarðar hf. 31. janúar 1994 og ráðstöfunum sem gripið var til í tengslum við gerð hans var þessi ágreiningur um afmörkun lóðarinnar hins vegar leystur til frambúðar og í samræmi við óskir og þarfir aðalstefnda. Af samningnum leiddi að aðalstefndi fékk endurgreidda fjárhæð sem hann hafði lagt út í tengslum við tilboð JVJ hf. í eignina og hafði að svo stöddu ekki veð fyrir, en hún nam 7.919.634 krónum. Þá var veðkrafa, sem aðalstefndi stóð í sjálfskuldarábyrgð fyrir, gerð upp við kröfuhafann, Sparisjóð Hafnarfjarðar, með 12.319.471 krónu. Samkvæmt sérstöku samkomulagi sem gert var við sjóðinn að tilstuðlan varastefnda hafði krafan þá verið lækkuð nokkuð frá því sem ítrustu kröfur gerðu ráð fyrir. Nam lækkunin samkvæmt málatilbúnaði varastefnda 3.537.000 krónum. Báðar tengdust þessar kröfur veðskuldabréfi, sem gefið var út til aðalstefnda af Kvikmyndahúsi Hafnarfjarðar hf. við kaup félagsins á Strandgötu 30 í september 1988. Skuldabréfið seldi aðalstefndi Sparisjóði Hafnarfjarðar 18. janúar 1989 og tókst þá jafnframt á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslu þess. Loks fékk aðalstefndi fasteigna-gjöld, sem alls námu 3.297.000 krónum, að fullu greidd. Hefur ekki verið andmælt þeirri fullyrðingu varastefnda í aðilaskýrslu hans að lögveðréttur fyrir hluta þeirra hafi verið fyrndur og að fullnaðargreiðsla á þeim hefði ekki fengist af andvirði eignarinnar við nauðungarsölu á henni.

Ákvæði framangreinds kaupsamnings um greiðslu kaupverðs var svohljóðandi: „Kaupverð [...] greiðist með yfirtöku áhvílandi skulda og er háð því að takast megi að semja við kröfuhafa áhvílandi skulda um að þær verði ekki hærri en nemur samningsupphæðinni.” Því varð hins vegar ekki við komið svo sem á stóð að greiðslu til aðalstefnda yrði hagað með þessum hætti. Fór svo að hún var í reynd í því fólgin að hann fékk í sinn hlut veðskuldabréf útgefin af kaupanda, samtals að nafnvirði 24.000.000 króna. Skuldabréfunum afsalaði aðalstefndi síðan til Handsals hf., sem í staðinn greiddi framangreindar kröfur hans. Hefur því ekki verið haldið fram af hálfu aðalstefnda að með þessari ráðstöfun hafi verið farið út fyrir þær heimildir sem varastefndi ótvírætt hafði til að leiða málið endanlega til lykta.

Í máli þessu er deilt um gildi áritunar varastefnda fyrir hönd aðalstefnda á tvö skuldabréf, sem aðalstefndi fékk í sinn hlut samkvæmt framansögðu. Heldur aðalstefndi því fram að með henni hafi það verið ætlun varastefnda að stofna til einfaldrar ábyrgðar aðalstefnda í skilningi 5. mgr. 89. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Er sýknukrafa aðalstefnda á því byggð, að með því að ekki var fylgt fortakslausum skilyrðum ákvæðisins fyrir stofnun ábyrgðar af því tagi sem þar greinir hafi áritunin ekkert slíkt gildi gagnvart honum. Þá séu engin efni til að líta svo á að í árituninni hafi falist framsalsábyrgð, sem aðalstefndi sé bundinn við. Greiðslukrafa vegna þessarar áritunar varastefnda verði því ekki með réttu gerð á hendur aðalstefnda.

Í tilvitnuðu lagaákvæði fólst að sveitarstjórn var heimilt að veita einfalda ábyrgð til annarra aðila en stofnana sveitarfélagsins gegn tryggingu sem metin væri gild af henni. Með 4. mgr. 89. gr. laganna var hins vegar lagt bann við því að binda sveitarsjóð við sjálfskuldarábyrgð á skuldbindingum annarra aðila er stofnana sveitarfélagsins. Ákvæði þessi stóðu því ekki í vegi að sveitarfélag ábyrgðist með framsalsáritun viðskiptaskjöl, svo sem ávísanir, víxla og skuldabréf, sem það hafði eignast á eðlilegan hátt í tengslum við rekstur þess.

Meta verður umdeilda áritun í ljósi aðdraganda hennar samkvæmt framansögðu. Er sérstaklega til þess að líta, að þá er hún átti sér stað hafði aðalstefndi fengið andvirði skuldabréfanna greitt til sín. Telst nægilega í ljós leitt að áritunin hafi verið forsenda þess að Handsal hf. innti þá greiðslu af hendi til aðalstefnda. Að þessu virtu er það mat dómsins að gildi skuldbindingar af hálfu aðalstefnda um ábyrgð hans á greiðslu skuldabréfanna verði ekki bundið við það að gætt hafi verið ákvæða 5. mgr. 89. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga við stofnun hennar. Stóð ákvæðið samkvæmt framansögðu ekki í vegi fyrir því, svo sem hér var komið, að aðalstefndi ábyrgðist greiðslu þeirra með þeim hætti sem stefnandi og varastefndi halda fram. Breytir engu í þessu sambandi þótt bréfin hafi síðar ekki fengist greidd af andvirði veðsins. Þá er lagt til grundvallar dómi, að umræddri áritun hafi ekki verið ætlað að hafa gildi umfram það að vera einföld framsalsábyrgð.

Upplýst var undir rekstri málsins að það hafi nánast alfarið verið í verkahring varastefnda á meðan hann gegndi starfi fjármálastjóra hjá aðalstefnda að árita verðbréf í eigu aðalstefnda um ábyrgð við framsal þeirra. Verður í ljósi þessa fallist á það með varastefnda að hann hafi haft fullt umboð til þeirrar áritunar sem hér er fjallað um. Er þá jafnframt til þess að líta að ákvæði 4. mgr. 71. gr. eldri sveitarstjórnarlaga, sem vísað er til í greinargerð aðalstefnda, var samkvæmt orðum sínum bundið við skuldbindingar eða ráðstafanir sem samþykki sveitarstjórnar þurfti til.

Af framangreindu leiðir að fallist er á það með stefnanda að aðalstefndi sé gagnvart honum ábyrgur fyrir greiðslu á þeim skuldabréfum, sem málið snýst um. Ekki er ágreiningur um tölulegan grundvöll málsins á milli þessara aðila. Þá hefur aðalstefndi ekki hreyft athugasemdum við dráttarvaxtakröfu stefnanda. Verður aðalstefnda því gert að greiða stefnanda 4.722.176 krónur ásamt dráttarvöxtum svo sem krafist er. Þegar af þessum sökum verður varastefndi sýknaður af dómkröfum stefnanda.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður aðalstefnda gert að greiða stefnanda málskostnað. Þykir hann með hliðsjón af hagsmunum þeim sem um er deilt hæfilega ákveðinn 600.000 krónur.

Við munnlegan flutning málsins lýsti lögmaður stefnanda þeirri skoðun sinni, að að hafna bæri kröfu varastefnda um málskostnað óháð niðurstöðu málsins. Álitamál er hvort krafa hér um hafi verið sett fram. Hvað sem því líður standa að mati dómsins engin rök til þess svo sem sakarefni málsins er háttað að varastefndi þurfi sjálfur að bera kostnað af málssókn stefnanda. Leiða skaðleysissjónarmið hér til þeirrar niðurstöðu að varastefnda ber réttur til málskostnaðar úr hendi stefnanda. Þá þykja ekki efni til annars en að ákvarða varastefnda sama málskostnað og aðalstefnda er hér gert að greiða stefnanda.

Við ákvörðun málskostnaðar samkvæmt framansögðu hefur verið tekið tillit til kostnaðar sem stefnandi og varastefndi þurfa að bera vegna virðisaukaskatts af endurgjaldi fyrir lögmannsþjónustu samkvæmt lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

Dómsorð :

Aðalstefndi, Hafnarfjarðarbær, greiði stefnanda, Sameinaða lífeyrissjóðnum, 4.722.176 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 11. apríl 1996 til greiðsludags.

Varastefndi, Þorsteinn Steinsson, er sýknaður af kröfum stefnanda.

Aðalstefndi greiði stefnanda 600.000 krónur í málskostnað.

Stefnandi greiði varastefnda 600.000 krónur í málskostnað.