Hæstiréttur íslands
Mál nr. 162/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 26. mars 2008. |
|
Nr. 162/2008. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. mars 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 14. apríl 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2008.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að kærði, X, [kt.], pólskur ríkisborgari, með dvalarstað að [...], sæti gæsluvarðhaldi til mánudagsins 14. apríl nk. kl. 16:00.
Í kröfu lögreglustjóra kemur fram að um kl. 16:00 í gær, laugardaginn 22. mars, hafi borist tilkynning um slagsmál í íbúð í A í Reykjavík. Sjúkrabifreið hafi verið send á vettvang þar sem upplýsingar hafi legið fyrir um að menn hafi verið þar alvarlega slasaðir.
Á vettvangi hafi verið rætt við íbúa hússins sem kvaðst hafa séð 10-12 menn koma á tveimur bifreiðum sem þeir hafi lagt á bílastæði við fjölbýlishús við hlið A. Þessir menn hafi verið vopnaðir járnrörum, slaghömrum og sleggju. Þeir hafi farið inn í hús nr. [...] og í kjölfarið hafi heyrst mikil læti og barsmíðar. Kvaðst vitnið hafa séð einn mann hlaupa af vettvangi blóðugan í andliti. Mennirnir hafi síðan ekið á brott á bifreiðunum og tekið vopnin með sér. Hafi hann lýst bifreiðunum og gaf upp skráningarnúmer annarrar þeirrar, [B]. Hafi lögreglan á Suðurnesjum stöðvað bifreið sem kom heim og saman við lýsingu á annarri bifreiðinni. Í bifreiðinni hafi verið kærði og þrír meðkærðir sem einnig eru erlendir ríkisborgarar. Við leit í bifreiðinni hafi fundist blóðug sleggja, blóðugt steypustyrktarjárn, rörbútur og tveir hnífar.
Í íbúðinni hafi verið 10 menn og hafi 7 þeirra , sem allir eru Pólverjar, verið með mikla áverka víðs vegar um líkamann. Hafi komið fram hjá einum árásarþolanna að hópur manna hafi ruðst inn í íbúðina vopnaðir hafnaboltakylfum, járnrörum, exi og öðrum baröflum. Hafi þeir fyrirvaralaust ráðist á þá með þessum vopnum. Kvað hann árásarmennina vera frá C.
Í frumskýrslu lögreglu komi fram lýsing á sjáanlegum áverkum árásarþolanna auk þess sem ljósmyndir hafi verið teknar af þeim. Miklir áverkar hafi verið á höfði nokkurra þeirra og sumir höfðu hlotið opin beinbrot. Sjáanleg hafi verið djúp för eftir gaddakylfur á líkama þeirra. Þrír hafi tafarlaust verið fluttir á sjúkrahús með sjúkrabifreið. Liggi einn þeirra þungt haldinn á gjörgæslu.
Áverkum árásarþolanna sé lýst frekar í gögnum málsins en þeir eru eins og áður segir umtalsverðir og alvarlegir. Þá sé bráðabirgðalæknisvottorð eins árásarþolans á meðal gagna málsins en þar komi fram að hann sé brotinn á nokkrum stöðum, með djúpa skurði og bólgur víðsvegar um líkamann og loftbrjóst. Enginn vafi leiki á að árásarmennirnir hafa gengið fram gegn árásarþolunum af mikilli heift með stórhættulegum vopnum.
Kærði hafi verið yfirheyrður í dag og kvaðst hafa verið ölvaður og því ekki muna atvik máls.
Fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi ásamt meðkærðu framið brot gegn 2. mgr. 218. gr. sem getur varðað allt að 16 ára fangelsisrefsingu.
Rannsókn máls þessa sé á frumstigi. Eins og málið ber með sér krefjist rannsóknarhagsmunir þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Yfirheyrslur hafi staðið yfir í dag af sakborningum. Um viðamikið mál sé að ræða og enn gangi árásarmenn lausir sem leitað er. Ljóst sé að málið sé á það viðkvæmu stigi að hætt er við að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins gangi hann laus.
Ætluð brot teljast varða við 231. gr. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og a- liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, er þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um fólskulega og stórhættulega árás, í félagi við aðra, í framangreindi íbúð. Getur refsing varðað allt að 16 ára fangelsi, sbr. 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Rannsókn málsins er á frumstigi. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins, haft áhrif á framburð vitna og annarra sakborninga, eða komið sönnunargögnum undan. Með vísan til framangreinds er fallist á að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir, settur héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
X, [kt.], sæti gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 14. apríl nk. kl. 16:00.