Hæstiréttur íslands

Mál nr. 394/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Föstudaginn 24. júní 2011.

Nr. 394/2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. júní 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. júní 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 21. júlí 2011 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og greinir í dómi Hæstaréttar 1. júní 2011 í máli nr. 344/2011 er varnaraðili sakaður um að hafa í félagi við annan mann að kveldi þriðjudagsins 10. maí 2011 svipt A frelsi sínu. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.                            

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 23. júní 2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 21. júlí 2011 kl. 16. 

Í greinargerð lögreglustjóra segir að lögreglan hafi til rannsóknar ofbeldis-, hótunar- og frelsissviptingarbrot kærða, þar sem honum er gefið að sök að hafa í félagi við Y að kvöldi þriðjudagsins 11. maí og aðfaranótt 12. maí svipt A frelsi sínu, haldið honum nauðugum á heimili Y að [...] í [...], í geymsluhúsnæði að [...] í Reykjavík og í bifreið sinni, misþyrmt honum og svívirt með margvíslegum hætti. Eru brotin talin varða við 218. gr., 226. gr. og 231. gr. almennra hegningarlaga. 

Í stuttu máli séu málavextir þeir að hinn 11. maí sl. hafi brotaþoli A leitað til lögreglu og skýrt frá því að kærði, ásamt Y, hafi haldið sér í gíslingu og misþyrmt sér á heimili Y að [...] í [...] og í bifreið kærða. Hafi Y og kærði verið handteknir grunaðir um að hafa svipt brotaþola frelsi sínu, hótað honum og misþyrmt.

Þeir hafi í kjölfarið verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. til 20. maí, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 293/2011 og 294/2011. Gæsluvarðhaldinu hafi verið framlengt til 27. maí sl., sbr. úrskurði Héraðsdóms Reykjaness og dóm Hæstaréttar í máli nr. 322/2011 og aftur til dagsins í dag og þá á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laganna, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 344/2011.

Brotaþoli hafi í skýrslutöku hjá lögreglu skýrt frá því að kærði hafi sótt hann um kl. 21:00 að kvöldi þriðjudagsins 10. maí sl. í iðnaðarhverfi í [...]. Honum hafi svo verið ekið að heimili Y, þar sem hann hafi mátt þola margvíslegar árásir. Hann hafi verið laminn margítrekað í höfuð og líkama, með ýmsum áhöldum, hýddur með þykkri rafmagnssnúru, hótað að skornar yrðu í sundur sinar á fótleggjum og tennur dregnar úr honum. Barsmíðarnar hafi staðið yfir allt frá því hann hafi komið í húsnæðið og til kl. 00:30 um nóttina. Hann hafi svo verið fluttur um nóttina, með einhverskonar hettu yfir höfðinu, frá húsnæðinu í geymsluhúsnæði, sem hann viti ekki hvar er. Þar hafi honum verið haldið til morguns er kærði hafi sótt hann og ekið með hann aftur að heimili Y. Á leiðinni hafi kærði tekið „hettuna“ af honum og hent út um glugga bifreiðarinnar. Þeir hafi þá verið staddir rétt við Sprengisand við Reykjanesbraut. Lögreglan hafi fundið húfu við Sprengisand sem talin sé að hafi verið sett yfir höfuð brotaþola, en beðið sé niðurstaðna tæknideildar á húfunni.  Er þeir hafi komið á heimili Y hafi brotaþoli verið vistaður inni á baðherbergi. Kærði og Y hefðu haft uppi miklar ásakanir á hendur brotaþola og sagt að hann skuldaði 10 milljónir króna. Um kl. 10:00 hafi þeir, X og A, svo aftur farið út í því augnamiði að svíkja út fasteign og bifreiðar með því að nota kennitölu brotaþola. Hann hafi hins vegar sloppið út úr bifreið kærða um kl. 12:00, þar sem þeir hafi verið staddir í Borgartúni í Reykjavík.

Brotaþoli hafi lýst því að hafa í umrætt sinn m.a. verið klæddur í brúnar Carhart buxur og nærbuxur, gráar og marglitar. Buxurnar hafi rifnað í átökunum og hann jafnframt misst saur í buxurnar. Y hafi þá sótt aðrar buxur handa honum og hent Carhart buxunum og nærbuxunum inn í þvottahús. Í umræddu þvottahúsi hafi lögreglan fundið rifnar Carhart buxur og karlmannsnærbuxur, gráar og marglitar.

Aðspurður hvers vegna kærði og Y hafi ráðist á brotaþola hafi brotaþoli sagt að þeir hefðu talað um að hann hefði svikið þá og skemmt mannorð kærða með illu umtali. Brotaþoli hafi sagt að hann hefði trúað hótunum Y um barsmíðar, en Y hafi haldið á vopnum til að leggja áherslu á orð sín. Brotaþoli hafi sagt að hann hefði verið laminn meira og minna „í skömmtum“, milli þess sem hann hafi þrifið íbúð Y, m.a. blóð eftir sjálfan sig. Honum hefði liðið mjög illa á meðan frelsissviptingunni og barsmíðunum stóð, enda hafi hann séð fyrir sér að verða drepinn og þeirri tilfinningu gæti hann ekki lýst.

Brotaþoli hafi hlotið talsverða áverka eftir barsmíðarnar, m.a. nefbrot, fjölda yfirborðsáverka og tognanir, auk þess sem hann hafi sjóntruflanir og ógleði, sbr. áverkavottorð og ljósmyndir.

Við leit í íbúð Y hafi mátt sjá blóðslettur á vegg, gangi og í svefnherbergi, sem lögregla ætli að sé úr brotaþola. Jafnframt hafi lögreglan fundið í íbúðinni samskonar sverð, hníf og leðurbelti sem brotaþoli hafi lýst að notað hafi verið gagnvart honum.  Þá hafi fundist blóð í bifreið kærða, sem lögregla ætli að sé einnig frá brotaþola komið. Tekin hafi verið blóðsýni úr íbúðinni og bifreiðinni sem bíði niðurstaðna tæknirannsóknar. Í síma Y hafi fundist drög að smáskilaboðum til brotaþola þar sem fram komi grófar hótanir um líkamlegt ofbeldi greiði hann ekki tiltekna skuld.

Lögreglan hafi fundið húsnæðið sem brotaþoli hafi verið vistaður í og komi lýsing hans á húsnæðinu heim og saman við húsnæðið. Þá hafi lögreglan fundið þar tóbakskodda (munntóbak) sem brotaþoli segir að hann hafi skilið eftir. Hafi koddinn verið tekinn til rannsóknar m.t.t. DNA-rannsóknar.

Þá hafi lögreglan kannað staðsetningar á símum kærða, Y og brotaþola á umræddu tímabili, m.t.t. framburðar brotaþola, og komi staðsetningarnar vel heim og saman við frásögn hans.

Þá liggi og fyrir í málinu framburðir nágranna Y að [...] um að mikil læti og barsmíðar hafi borist frá íbúð hans umrætt kvöld.

Kærði hafi alfarið neitað sök í málinu. Í máli þessu liggi fyrir greinargóður og skýr framburður brotaþola. Þau sönnunargögn og þær athuganir sem lögregla hafi aflað í máli þessu styðji ótvírætt frásögn brotaþola. Framburður kærða sé á hinn bóginn ótrúverðugur og algjörlega á skjön við það sem fram hafi komið við rannsókn málsins. Þá gæti mikils ósamræmis í framburði hans og framburði Y.

Ljóst megi því vera að kærði sé nú, þrátt fyrir neitun hans, undir sterkum grun um að hafa, í félagi við Y, svipt brotaþola frelsi sínu og misþyrmt og þannig brotið gegn 1. mgr. 218. gr., 2. mgr. 226. gr. og 231. gr. almennra hegningarlaga.   

Samkvæmt upplýsingum og gögnum sem lögreglan hafi undir höndum séu kærði og Y meðlimir í mótorhjólagengi sem kenni sig við [...] og sé Y fyrirsvarsmaður samtakanna. Það sé grunur lögreglu að ofangreind brot séu unnin í nafni samtakanna.

Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lagaskilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt. Enda sé kærði nú undir sterkum rökstuddum grun um að hafa framið brot sem varðað geti allt að ævilöngu fangelsi og sé í eðli sínu svo svívirðilegt að almannhagsmunir krefjist þess að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi. Það myndi valda mikilli hneykslun og særa réttarvitund almennings gangi kærði frjáls ferða sinna. 

Að svipta annan mann frelsi sínu með þeim hætti sem kærði hafi nú verið uppvís af sé eitt af alvarlegustu afbrotum sem lýst sé í almennum hegningarlögum. Að frátöldum landráðs- og stjórnskipunarbrotum X. og XI. kafla laganna séu einungis tvö önnur ákvæði sem bjóði ævilanga fangelsisrefsingu, þ.e. manndráp skv. 211. gr. og frelsissvipting skv. 193. gr. laganna.

Rannsókn málsins sé á lokastigi. Einungis sé beðið eftir niðurstöðu blóðrannsóknar sem muni samkvæmt upplýsingum tæknideildar liggja fyrir á allra næstu dögum. Verði málið þá sent ríkissaksóknara til ákvörðunar um saksókn.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir sterkum grun um alvarleg brot, framin í félagi við annan mann. Kærði hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 11. maí sl., fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna en síðar með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 344/2011.

Rannsókn málsins er á lokastigi. Rétt fyrir þinghaldið í dag bárust lögreglustjóra niðurstöður DNA rannsóknar á blóðsýnum sem voru tekin að [...], [...], og í bifreið kærða. Niðurstöður hvað varðar fyrrnefnda brotavettvanginn styðja enn frekar að kærði sé undir sterkum grun um þá háttsemi sem lýst er hér að framan. Enn er beðið niðurstöðu rannsóknar á „tóbakskodda“. Með vísan til alls framangreinds verður fallist á með lögreglustjóra að nauðsynlegt sé að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi með tilliti til almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Verður því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 21. júlí 2011 kl. 16.