Hæstiréttur íslands
Mál nr. 111/2009
Lykilorð
- Einkahlutafélag
- Verksamningur
- Riftun
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 19. nóvember 2009. |
|
Nr. 111/2009. |
Hjörtur J. Hjartar(Sigmundur Hannesson hrl.) gegn FS13 ehf. (Hróbjartur Jónatansson hrl.) |
Einkahlutafélag. Verksamningur. Riftun. Skaðabætur.
H var ráðinn framkvæmdastjóri F ehf. og dótturfélags þess en af því tilefni var gerður svokallaður rammasamningur um kaup og kjör hans. Í málinu krafði H, F ehf. um vangreidd laun samkvæmt samningnum. Talið var að þegar litið væri til efnis rammasamningsins, einkum tilhögunar um greiðslu fyrir þá þjónustu sem veitt skyldi, yrði að draga þá ályktun að ekki væri um að ræða ráðningarsamning heldur verksamning. Þannig væri hvorki samið um sérstakan uppsagnarfrest í samningnum né vísað til kjarasamninga eða laga um tilvist uppsagnarfrests. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 20. febrúar 2009 hafði H verið dæmdur til greiðslu sektar fyrir brot gegn 1. tl. 127. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög fyrir að senda ranga tilkynningu til hlutafélagaskrár. Með háttseminni hefði H brotið gegn trúnaðarskyldum sínum við F ehf., bæði með því að standa að ólöglegum fundi í þeim tilgangi að víkja löglegri stjórn félagsins frá, auk þess sem hann í framhaldinu aflaði og nýtti til tjóns fyrir félagið opinbert vottorð með röngum upplýsingum. Þá hafði H í kjölfarið hafið störf sem framkvæmdastjóri félags sem hafði verið ætlað að vinna að sömu verkefnum og F ehf. og dótturfélag þess. Að öllu þessu virtu var fallist á það með F ehf. að riftun rammasamningsins hefði verið réttmæt af þess hálfu og gat H því ekki krafið félagið um skaðabætur sem jafngiltu þeirri þóknun sem hann hefði fengið eftir riftunina. Þá var jafnframt ekki fallist á það að H ætti rétt á þóknun samkvæmt samningnum fyrir um tveggja vikna tímabil, áður en til riftunar samningsins kom, þar sem samningurinn tiltók aðeins mánaðarlega heildargreiðslu fyrir þá þjónustu sem um var að ræða, án þess að upplýst væri hvernig sú fjárhæð væri ákvörðuð eða reiknuð. Var F ehf. því sýknað af kröfum H.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. mars 2009. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 37.950 evrur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 11.500 evrum frá 1. janúar 2008 til 1. febrúar 2008, af 26.450 evrum frá þeim degi til 1. mars sama ár, en af 37.950 evrum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt nokkur ný skjöl eftir að gagnöflunarfresti lauk og koma þau ekki til athugunar.
Upphaf máls þessa er að í mars 2007 gerði Árni Benóný Sigurðsson þjónustusamning við KPMG hf. um að félagið myndi finna fjárfesta að tiltekinni viðskiptahugmynd sem hann vildi hrinda í framkvæmd í Króatíu. Keypti hann í þessu skyni stefnda, FS13 ehf. Síðar keypti Standhóll ehf., félag í eigu Róberts Melax, helmingshlut í stefnda og lagði því til fé. Áfrýjandi var í júlí 2007 ráðinn framkvæmdastjóri stefnda og dótturfélags þess í Króatíu, FS13 d.o.o. Svonefndur rammasamningur var gerður um kjör áfrýjanda 16. júlí 2007. Þar segir meðal annars: „Gert er ráð fyrir að Hjörtur stofni félag (XY) í eigin nafni í Króatíu og FS-13 greiði fyrir þjónustu hans til þess félags. XY skal greitt 1.000.000 kr. á mánuði.“ Við þetta er handrituð breyting svohljóðandi: „NB: 17.8.2007. Ákveðið að laun verði greidd í euro 11.500 á mánuði.“ Áfrýjandi reisir kröfu sína á þessum samningi, en heldur því fram að tilgreint einkahlutafélag sitt hafi aldrei verið stofnað. Í samningnum eru ennfremur tiltekin ýmis hlunnindi sem hann skuli njóta, meðal annars „greiðslu á ígildi 10% í lífeyrissjóð“ og ennfremur að hann skuli hafa kauprétt á hlutabréfum í stefnda samkvæmt því sem þar er nánar útfært. Í viðskiptaferð eigendanna og áfrýjanda í Króatíu dagana 3. til 5. desember 2007 kom í ljós ágreiningur milli eigenda félagsins og á fundi í félaginu 11. sama mánaðar lýsti Róbert því yfir að hann vildi slíta samstarfinu og óskaði eftir því Árni Benóný gengi út gegn tiltekinni greiðslu. Árni Benóný hafnaði þessu og virðist óumdeilt að hann hafi sama dag rift framangreindum rammasamningi. Bréf þess efnis hefur þó ekki verið lagt fram í málinu. Árni Benóný var stjórnarformaður félagsins. Einnig virðist óumdeilt að áfrýjandi hafi ekki orðið við þeirri kröfu, sem þar mun hafa komið fram og var ítrekuð í bréfi lögmanns 11. janúar 2008, að skila bókhaldsgögnum og öðrum gögnum félagsins.
Daginn eftir ofangreindan fund yfirtóku framkvæmdastjórinn, áfrýjandi, og annar eigandinn, Standhóll ehf., félagið á svonefndum hluthafafundi, og sendi áfrýjandi og umboðsmaður Standhóls ehf. tilkynningu til hlutafélagaskrár um „breytingu á prókúru, stjórn og firmaritun og nýjar samþykktir.“ Samkvæmt tilkynningunni var áfrýjandi nú eini stjórnarmaður félagsins og prókúruhafi. Fékk hann í framhaldinu vottorð frá hlutafélagaskrá um að þannig væri félagið skráð og nýtti hann það til þess að færa alla fjármuni af reikningum félagsins á Íslandi og í Króatíu. Kveðst hann hafa fært allt féð inn á reikninga í eigu Róberts Melax en engin gögn liggja fyrir um það. Þá var félagið Tilt ehf. stofnað 12. desember 2007 af félagi í eigu Róberts Melax, og réðist áfrýjandi sama dag til starfa hjá Tilt ehf. sem framkvæmdastjóri, en að eigin sögn án launa. Hefur hann lagt fram þessu til stuðnings utanréttarvottorð útgefið í Króatíu, þar sem kemur fram að hann hafi engin laun fengið sem framkvæmdastjóri Tilt Project d.o.o. frá desember 2007 til útgáfudags 28. nóvember 2008.
Viðurkennt hefur verið að hluthafafundur í stefnda 12. desember 2007 var ólögmætur og var skráning sú sem gerð var í framhaldi hans hjá hlutafélagaskrá leiðrétt 28. desember 2007. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 20. febrúar 2009 var áfrýjandi dæmdur til greiðslu sektar fyrir brot gegn 1. tölulið 127. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög fyrir að senda ranga tilkynningu til hlutfélagaskrár.
Þegar litið er til efnis rammasamnings áfrýjanda og stefnda, einkum tilhögunar um greiðslu fyrir þá þjónustu, sem veitt skyldi, verður sú ályktun dregin að ekki sé um að ræða ráðningarsamning heldur verksamning. Hvorki er samið um sérstakan uppsagnarfrest í samningnum né vísað til kjarasamninga eða laga um tilvist uppsagnarfrests. Sannað er að áfrýjandi braut gegn trúnaðarskyldum sínum við stefnda, bæði með því að standa að ólöglegum fundi í þeim tilgangi að víkja löglegri stjórn frá og afla í framhaldinu og nýta til tjóns fyrir félagið opinbert vottorð með röngum upplýsingum og hefja störf sem framkvæmdastjóri félags sem virðist ætlað að vinna að sömu verkefnum og stefndi og dótturfélag þess var ætlað að sinna. Þegar allt þetta er haft í huga verður að fallast á með stefnda að riftun rammasamningsins 11. eða 12. desember 2007 hafi verið réttmæt af hans hálfu. Getur hann því ekki krafist skaðabóta sem jafngilda þeirri þóknun sem hann hefði fengið eftir það tímamark. Áfrýjandi hefur lýst því að hvað sem öðru líði eigi hann rétt til greiðslu fyrir tímabilið 1. til 12. desember 2007, það er áður en til riftunar rammasamningsins kom. Samkvæmt samningnum skyldi greiða mánaðarlega þá fjárhæð sem þar er tiltekin. Ekki er tilgreint hvernig sú fjárhæð er ákvörðuð eða reiknuð. Eins og atvikum málsins er háttað verður að líta svo á að um mánaðarlega heildargreiðslu fyrir þjónustu sé að ræða. Er þegar af þeirri ástæðu ekki grundvöllur til að líta svo á að áfrýjandi eigi rétt til sérstakrar greiðslu fyrir þetta tímabil. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Hjörtur J. Hjartar, greiði stefnda, FS13 ehf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. desember 2008.
Mál þetta, sem var dómtekið 3. desember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Hirti J. Hjartar, Fáfnisnesi 1, Reykjavík á hendur FS13 ehf., Skógarhlíð 22, Reykjavík, með stefnu birtri 28. maí 2008.
Dómkröfur stefnanda eru þær að hið stefnda einkahlutafélag verði dæmt til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð EUR 37.950 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af EUR 11.500 frá 1. janúar 2008 til 1. febrúar 2008, af EUR 26.450 frá 1. febrúar 2008 til 1. mars 2008, af EUR 37.950 frá 1. mars 2008 til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. sl. er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 1. janúar 2009 en síðan árlega þann dag. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefnda eru þær að stefndi verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað auk álags skv. 2. mgr. 131 gr. eml.
Málavextir
Stefndi kveður upphafið vera það að Árni B. Sigurðsson, fyrirsvarsmaður stefnda, hafi snemma árs 2007 leitað til KPMG um öflun fjárfesta að tilteknu viðskiptatækifæri í Króatíu. Stefnandi var þá starfsmaður KPMG. Gerður var samningur milli Árna og KPMG um öflun fjárfesta að verkefninu. Liður í því var að selja Árna félagið FS 13 ehf. sem var í eigu KPMG, eignalaust að frátöldu hlutafé. Stefnandi kom sérstaklega að þeirri vinnu sem starfsmaður KPMG. Fjárfestirinn Róbert Melax gerði samning við FS 13 ehf. fyrir milligöngu KPMG og greiddi FS 13 ehf. háa fjárhæð í þóknun til KMPG vegna þess. Var FS 13 ehf. eftir það í jafnri eigu Árna og Róberts.
Hinn 16. júlí 2007 var stefnandi ráðinn framkvæmdastjóri stefnda og dótturfélags þess í Króatíu. Hann hóf störf 1. ágúst 2007 og fékk 11.500 EUR í laun á mánuði.
Í bréfi stefnda til stefnanda, dags.11. janúar 2008, var stefnanda tilkynnt að hann hefði formlega verið leystur frá störfum sem framkvæmdastjóri stefnda. Fram kom í bréfinu að stefndi hefði haft upplýsingar um að stefnandi hefði þá þegar hafið störf fyrir félag í eigu Róberts Melax. Í bréfinu var þess krafist að stefnandi skilaði öllum bókhaldsgögnum félagsins og öðrum gögnum félagsins sem hann hafði undir höndum. Þá var stefnanda einnig tilkynnt að stjórn stefnda teldi að hann hefði brotið af sér í starfi fyrir stefnda, m.a. með refsiverðum hætti, annars vegar með því að hafa komið því til leiðar í desember 2007, með fulltingi Ágústs Þórhallssonar, og með blekkingum, að hlutafélagaskrá RSK breytti skráningu á stjórn stefnda þannig að stefnandi ásamt Ágústi tóku sæti aðal- og varamanns. Hins vegar, að á grundvelli hinnar röngu skráningar, eftir að leiðrétting hefði átt sér stað, hefði hann tekið út peninga af bankareikningi dótturfélags stefnda í Króatíu og greitt þriðja manni án heimildar. Þá var stefnanda tilkynnt að kærur á hendur stefnanda yrðu lagðar fram hjá viðeigandi lögregluyfirvöldum.
Hinn 6. febrúar 2008 krafðist stefnandi þess að við hann yrði gerður starfslokasamningur.
Hinn 22. febrúar 2008 er stefnda sent innheimtubréf.
Hinn 13. mars 2008 svarar stefndi innheimtubréfi stefnanda og telur að engin greiðsluskylda hvíli á honum. Tekið var fram að hann hefði hlaupið úr starfi sínu fyrirvaralaust. Þá hefði stefnandi ekki afhent bókhaldsgögn og fleira sem búið var að krefja hann um. Jafnframt var honum sent afrit af kæru til lögreglu.
Í apríl 2008 höfðaði stefndi mál á hendur stefnanda og fleiri mönnum vegna viðskipta sinna við þá. Það mál bíður í Héraðsdómi vegna opinbers máls á hendur stefnanda, en ákæra var gefinn út á hendur stefnanda hinn 28. október 2008.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Krafa stefnanda er vegna ógreiddra/vangreiddra launa vegna desember 2007, janúar og febrúar 2008, samtals EUR 34.500, auk lífeyrissjóðsgjalds EUR 3.450 eða samtals EUR 37.950
|
Nr. |
Útgáfudagur |
Gjalddagi |
Fjárhæð |
|
1. |
01.12.2007 |
01.01.2008 |
11.500 EUR |
|
2. |
01.01.2008 |
01.02.2008 |
3.450 EUR |
|
3. |
01.01.2008 |
01.02.2008 |
11.500 EUR |
|
4. |
01.02.2008 |
01.03.2008 |
11.500 EUR |
Verði ekki á það fallist með stefnanda að hann eigi lögvarða kröfu um ógreidd/vangreidd laun skv. framansögðu, þ.e. á grundvelli skriflegs launasamnings aðila, er á því byggt af hálfu stefnanda að hann eigi rétt til skaðabóta úr hendi hins stefnda félags vegna vanefnda á launasamningi aðila, allt að stefnufjárhæð.
Skuld þessi hefur ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og er því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.
Um lagarök er vísað til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en regla þessi fær m.a. lagastoð í VI. og VII. kafla laga nr. 50/2000. Um gjalddaga kröfunnar er einkum vísað til meginreglu 49. gr. sömu laga. Jafnframt vísast til meginreglna skaðabótalaga eftir því sem við á.
Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum númer 50/1988. Stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og ber honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu. Varðandi varnarþing vísast til 33. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda
Málsástæður stefnda eru þær að stefnandi eigi ekki rétt til launa eða skaðabóta úr hendi stefnda þar sem stefnandi hafi brotið af sér gagnvart stefnda með afar alvarlegum hætti, gerst sekur um refsiverða háttsemi, brotið trúnaðarskyldur og fleira og því valdið félaginu verulegu fjártjóni. Þá hafi stefnandi hlaupist úr starfi sínu hjá félaginu, hirt með sér bókhald þess, síma, tölvur og fleira í desember 2007 og hafið störf hjá félagi í sinni eigu og Róberts Melax. Sé ljóst að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum til launa frá og með desembermánuði 2007. En ekki er ágreiningur um laun vegna vinnu sem féll til fyrir desember 2007.
Stefndi bendir á það ex tuto að horfa verði á það að stefnandi var ekki með venjulegan launþegasamning við stefnda heldur starfaði í gegnum erlent félag sitt og á hann því ekki rétt, hvað sem öðru líður, til sjálfkrafa 3ja mánaða launa ef svo ólíklega yrði talið að stefndi hefði vanefnt skyldur sínar gagnvart honum eða félagi hans.
Verði talið að stefnandi ætti fjárkröfu á hendur stefnda er ljóst að stefndi á skuldajöfnunarrétt á hendur stefnanda og ber því að sýkna stefnda af þeim ástæðum.
Stefndi telur málsókn stefnanda í bága við a- og c-lið 1. mgr. 131 gr. eml., honum og lögmanni hans megi vera ljóst að málsóknin sé bersýnilega tilefnislaus og að kröfur og málsástæður stefnanda séu rangar eða haldlausar. Af þeim sökum verði stefnanda gert að greiða stefnda álag á málskostnað skv. 2. mgr. 131.gr.
Kröfum stefnanda er mótmælt sem röngum, ósönnum og án lagastoðar. Þá er þeim mótmælt sem tölulega röngum.
Stefndi tekur einnig fram að laun stefnanda hjá öðrum vinnuveitenda eigi að koma til frádráttar tildæmdri fjárhæð og er skorað á stefnanda að upplýsa um tekjur sínar á tímabilinu desember 2007 og, janúar og febrúar 2008.
Forsendur og niðurstaða
Eins og að framan greinir var gerður samningur milli málsaðila hinn 16. júlí 2007 og stefnandi ráðinn framkvæmdastjóri fyrir stefnda og dótturfélag þess í Króatíu. Fyrir hönd stefnda rita þeir Róbert Melax og Árni B. Sigurðsson undir samninginn. Ágreiningslaust er að stefnandi fékk greidd laun fyrir nóvember 2007 og krefur nú launa fyrir desember 2007 og janúar og febrúar 2008.
Það liggur fyrir í málinu að hinn 12. desember 2007 hafi Tilt ehf. verið stofnað. Stefnandi var í stjórn þess félags, ásamt því að vera framkvæmdastjóri og hafa prókúruumboð. Stofnandi þessa félags er Merla ehf., en í stjórn þess félags og með prókúru fyrir það er Róbert Melax. Þetta er á sama tíma og stefnandi er framkvæmdastjóri hjá stefnda. Augljóst er að það samrýmist ekki vinnuskyldum stefnanda hjá stefnda, að hann ræður sig sem framkvæmdastjóra hjá öðru félagi.
Þennan sama daga, eða 12. desember 2007, tilkynnir stefnandi ásamt öðrum manni til Hlutafélagaskrár, að þeir hafi verið kjörnir sem aðal- og varamaður í stjórn stefnda. Fram kemur í tilkynningunni að þetta hafi verið gert á löglegum hluthafafundi sem haldinn hafi verið í stefnda. Umboð fyrri stjórnarmanna, þeirra Árna Sigurðssonar og Róberts Melax, var einnig afturkallað og stefnanda veitt prókúra. Enginn fótur mun hafa verið fyrir þessari tilkynningu og vegna þessarar athafnar stefnanda hefur verið gefin út ákæra á hann og er hún nú til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Ljóst er að stefnandi fór langt út fyrir skyldur sínar sem framkvæmdastjóri stefnda sem hann ber, samanber 44. gr. laga um einkafélög nr. 138/1994. Að mati dómsins var háttsemi stefnanda ósamrýmanleg trúnaðarskyldum, sem hann bar gagnvart vinnuveitanda sínum, þ.e. stefnda.
Eins og að framan greinir áttu atburðir þessir sér stað 12. desember 2007. Varðandi laun frá 1.12. desember þá athugast að stefnandi hélt sjálfur um stjórnvölinn hjá stefnda og var því í lófa lagið að greiða sér laun fyrir þetta tímabil, hafi hann á annað borð litið svo á að hann ætti rétt til launa.
Í ljósi alls þess sem að framan greinir er það niðurstaða dómsins að stefnandi eigi ekki rétt til þeirra launa né skaðabóta, sem hann krefur um í málinu. Stefndi er því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað, sem þykir, eins og hér stendur á, hæfilega ákveðinn 650.000 kr.
Af hálfu stefnanda flutti málið Sigmundur Hannesson hrl.
Af hálfu stefnda flutti málið Hróbjartur Jónatansson hrl.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefndi, FS 13 ehf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Hjartar J. Hjartar. Stefnandi greiði stefnda 650.000 kr. í málskostnað.