Hæstiréttur íslands
Mál nr. 265/2006
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skilorð
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 9. nóvember 2006. |
|
Nr. 265/2006. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Elvari Loga Rafnssyni (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Líkamsárás. Skilorð. Miskabætur.
E var sakfelldur fyrir líkamsárás samkvæmt 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fyrir að hafa slegið X í andlitið með bjórflösku, sem brotnaði við það og hlaut X meðal annars áverka á auga, mar, bólgu og hrufl. Var refsing ákveðin fangelsi í sex mánuði með vísan til 1., 2. og 3. töluliðar 70. gr. og 3. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga, en hluti refsingarinnar var skilorðsbundinn. E var dæmdur til greiðslu miskabóta og lögmannskostnaðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 5. maí 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds sem krefst þyngingar á refsingu auk greiðslu skaðabóta til X að fjárhæð 1.749.268 krónum auk vaxta og dráttarvaxta eins og greinir í ákæru.
Ákærði krefst þess að refsing verði milduð og bótakröfum vísað frá héraðsdómi, þeim verði að öðrum kosti aðallega hafnað en til vara lækkaðar.
Eins og nánar greinir í héraðsdómi fékk lögreglan tilkynningu um líkamsárás á skemmtistaðnum Players 26. mars 2005. Ákærði hefur viðurkennt hafa þennan dag slegið X með glasi í andlitið eins og lýst er í ákæru með þeim afleiðingum að hann hlaut hruflsár í andliti, stóra blæðingu undir húð og mar yfir hægra efra andliti, mar á vinstra kinnbeini og hreyfiskerðingu og tvísýni á vinstra auga vegna skaða á augntóft.
Ákærði lýsti atburðarrásinni svo í skýrslu sinni hjá lögreglu að X hafi átt upptökin með því að ýta „hálfpartinn“ við honum og sparka svo í fótlegg hans. Í framhaldi af rifrildi þeirra hafi X svo kýlt hann í ennið af nokkru afli og sín fyrstu viðbrögð hafi verið að svara með því að slá hann í andlitið með bjórglasi sem hann hélt á. Glasið hafi komið í andlit hans vinstra megin og brotnað. Framburður ákærða var efnislega á sama veg fyrir dómi. Aðspurður þar hvort hann hafi veitt X fleiri högg kvaðst ákærði ekki muna eftir því, en sagði að þeir hafi tekist á eftir að þeir hafi verið „komnir niður í gólfið“ og svo hafi dyraverðir komið og farið með sig á brott.
X bar í skýrslum sínum hjá lögreglu og fyrir dómi að upphaf deilu þeirra ákærða hafi verið að ákærði hafi ranglega sakað hann um að hafa sparkað í sig. Fljótlega eftir það hafi ákærði tekið bjórglas eða krús og slegið henni í andlit hans. Taldi X að við þetta hefði hann fallið í gólfið, komið niður á hnakkann og hálfvankast. Sagði hann í lögregluskýrslu að trúlega hefði ákærði einnig kýlt sig, en fyrir dómi fullyrti hann að ákærði hafi veitt sér fleiri högg eftir að hann datt í gólfið. Átökin hafi verið stöðvuð nánast strax og dyravörður farið með sig afsíðis.
Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að sjáanlegir áverkar hafi verið á ákærða, „lítillegur roði á enni á tveimur stöðum og einhver bólga.“ Í skýrslum hjá lögreglu og fyrir dómi báru vitnin A og B, kunningjar ákærða, að X hafi slegið ákærða fyrsta höggið og ákærði svarað því með höggi. Með vísan til framangreinds þykir mega leggja til grundvallar í málinu að X hafi slegið ákærða áður en ákærði sló hann með glasinu. Sú háttsemi X gat þó ekki réttlætt hina hættulegu atlögu ákærða. Upptök átaka milli kæranda og ákærða eru hins vegar óljós og verða ekki rakin frekar til annars þeirra en hins.
Eins og fyrr greinir hefur ákærði játað að hafa slegið X með glasi í andlitið. Við munnlegan flutning málsins var því haldið fram af hálfu ákærða að ákverkar á hægri hluta andlits X gætu vart hafa verið af völdum þess að hann sló hann í andlitið með glasinu, þar sem glasið hafi lent vinstra megin í andlitinu. Á ljósmyndum af andliti X, sem teknar voru í kjölfar árásarinnar, má meðal annars sjá að mikil bólga og hrufl er á hægri kinn hans, en minni bólga fyrir neðan vinstra auga. Hrufl eða skrámur sjást á andliti hans fyrir ofan efri vör hægra og vinstra megin. Fyrir Hæstarétt hafa ekki verið lögð frekari gögn um batahorfur vegna skaðans á vinstra auga hans. Er því ekki komið fram í málinu að þau meiðsli séu varanleg. Með játningu ákærða sem fær stoð í öðrum gögnum málsins er sannað að hann hafi með háttsemi sinni valdið áverkum á tjónþola sem fjallað er um í ákæru, þó þannig að ekki verður fullyrt að hann hafi valdið öllum áverkunum á hægri hluta andlitsins. Er brot ákærða rétt heimfært til refsiákvæða í héraðsdómi vegna hinnar hættulegu aðferðar sem hann beitti.
Við ákvörðun refsingar ákærða verður annars vegar vísað til 1., 2. og 3. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en hins vegar 3. mgr. 218. gr. b sömu laga með áorðnum breytingum. Er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Ákærði hefur ekki áður hlotið refsingu fyrir hegningarlagabrot og fram er komið að brotaþoli hafði slegið hann áður en til atlögunnar kom. Þegar hins vegar er litið til þess hversu háskaleg atlagan var og þess alvarlega skaða sem sannað er að varð á vinstra auga tjónþola, jafnvel þótt að ósannað sé að hann verði varanlegur, svo og þess að ákærði hefur ekki leitast við að bæta fyrir brot sitt, þykir ekki fært að skilorðsbinda refsinguna að öllu leyti. Skal fresta fullnustu fimm mánaða hennar og binda almennu skilorði eins og nánar greinir í dómsorði.
Tjónþoli á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sem eru ákveðnar 400.000 krónur. Ákærði hefur andmælt kröfum tjónþola um þjáningabætur og annað fjártjón. Kröfur þessar eru engum gögnum studdar og verður þeim því vísað frá héraðsdómi. Niðurstaða héraðsdóms um bætur vegna lögmannsþóknunar að fjárhæð 45.000 krónur verður staðfest. Ákærði verður því dæmdur til að greiða tjónþola 445.000 krónur ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Elvar Logi Rafnsson, sæti fangelsi í sex mánuði, en fresta skal fullnustu fimm mánaða af refsingunni og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði X 445.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 400.000 krónum frá 26. mars 2005 til 19. október 2005, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 445.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, samtals 210.662 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 28. mars 2006
Mál þetta, sem dómtekið var 10. mars sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara 30. desember 2005 gegn Elvari Loga Rafnssyni, kt. 101082-3939, Flúðaseli 69, Reykjavík, „fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 26. mars á veitingastaðnum Players, Bæjarlind 2, Kópavogi, slegið X í andlitið með glerglasi með þeim afleiðingum að hann hlaut hruflsár í andliti, stóra blæðingu undir húð og mar yfir hægra efra andliti, mar á vinstra kinnbeini og hreyfiskerðingu og tvísýni á vinstra auga vegna skaða á augntóft.
Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
X, kennitala [...], krefst bóta að fjárhæð kr. 1.749.268 auk vaxta og dráttarvaxta skv. vaxtalögum nr. 38/2001 frá 26. mars 2005 til greiðsludags.“
Af hálfu ákærða er krafist vægustu refsingar. Þá er þess krafist aðallega að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð verulega. Málsvarnarlauna er krafist.
I.
Þann 26. mars 2005, kl. 02:07 fékk lögreglan tilkynningu um líkamsárás á skemmtistaðnum Players. Lögreglan fór á staðinn og hitti ákærða sem var með sjáanlega áverka, lítillegan roða á enni á tveimur stöðum og einhverja bólgu. Dyravörður gætti ákærða sem var sjáanlega undir áhrifum áfengis en rólegur. Vitnið, X, var með greinilega áverka á andliti, mjög bólginn við kinnbein báðum megin og blóðugur.
Í frumskýrslu lögreglu er haft eftir ákærða að hann hafi verið á barnum og verið að panta sér áfengi. Þá hafi X komið að honum og ýtt við honum án ástæðu. Ákærði hafi ýtt eitthvað til baka en X þá sparkað í fótlegg ákærða. Þá hafi ákærði slegið til mannsins með glasi í hægri hönd í höfuð X. Þeir hafi síðan tekist á og högg gengið á milli.
Haft er eftir X á staðnum að hann hafi verið að panta sér áfengi á barnum. Upp hafi komið einhver misskilningur milli hans og ákærða sem hafi undið upp á sig og endað með því að ákærði hafi slegið hann í andlitið með glasi.
Kærandi, X, sagði hjá lögreglu að hann hafi verið staddur á veitingastaðnum Players ásamt félaga sínum, C. Hann hafi staðið við barinn að panta sér drykk þegar ákærði, sem hafi staðið við hlið hans, hafi borið það upp á hann að kærandi hafi sparkað í ákærða. Kærandi kvaðst hafa neitað því enda væri það ekki rétt. Í framhaldi af þessu hafi komið til orðahnippinga milli þeirra og pústra. Fljótlega eftir að þeir hafi byrjað að deila hafi ákærði tekið bjórglas og slegið því í andlit hans og trúlega kýlt hann á eftir. Hann hafi við þetta fallið í gólfið og komið niður á hnakkann og hálf vankast. Átökin hafi verið stöðvuð nánast strax.
Fyrir dómi lýsti kærandi atvikum þannig að hann hafi staðið við barinn er ákærði hafi ásakað hann um að hafa sparkað í sig. Það hafi ekki verið rétt og hafi komið til orðahnippinga milli þeirra. Þetta rifrildi hafi staðið örskamma stund og fyrirvaralaust hafi ákærði slegið hann í andlitið með glasi. Við það hafi hann fallið í gólfið og ákærði fylgt á eftir og kýlt hann fleiri höggum. Hann hafi reynt að verjast og kýlt til baka.
Hjá lögreglu skýrði ákærði svo frá að hann hafi í umrætt sinn staðið við barinn og verið að ræða við stúlku. Þá hafi kærandi komið aðvífandi og hálfpartinn ýtt honum frá. Hann kvaðst hafa ávarpað kæranda og sagt honum að kærandi gæti beðið ákærða um að færa sig ef kærandi teldi hann vera fyrir. Kærandi hafi þá svarað með hálfgerðum skætingi og sparkað létt í fótlegg ákærða. Í framhaldi af þessu hafi komið til orðaskipta þeirra í milli og báðir orðið æstir. Þá hafi kærandi kýlt ákærða í andlitið af nokkru afli. Hans fyrstu viðbrögð hafi verið að svara í sömu mynt. Hafi hann verið með bjórglas í hendi og hafi hann slegið því í andlit mannsins og það brotnað við það. Eftir það hafi þeir fallið í gólfið en dyravörður komið og skilið þá í sundur.
Fyrir dómi skýrði ákærði á sama veg frá og hjá lögreglu.
Vitnið B, vinur ákærða, sagði hjá lögreglu og fyrir dómi að hann hafi staðið við endann á barnum í um það bil 5-10 metra fjarlægð. Frekar mikið af fólki hafi verið við barinn og þvaga fyrir framan hann. Hann kveðst hafa séð er kærandi hafi komið upp að ákærða og ýtt við honum. Kærandi og ákærði hafi talað eitthvað saman en hann hafi ekki heyrt orðaskipti. Hann hafi síðan séð þegar kærandi hafi slegið ákærða og í framhaldi af því séð er ákærði hafi slegið til baka.
Vitnið A, vinur ákærða, kvaðst hafa staðið við hlið félaga síns, vitnisins B. Hafi þeir verið í um það bil 10 metra fjarlægð frá ákærða. Hann sagðist hafa séð ákærða vera að tala við einhverja stúlku og hafi verið nokkur þvaga fyrir framan barinn. Síðan hafi hann séð kæranda slá ákærða í andlitið. Ákærði hafi slegið kæranda til baka en vitnið kvaðst ekki hafa séð hvort ákærði hafi verið með glas í hendi.
Vitnið C, vinur kæranda, skýrði svo frá hjá lögreglu og fyrir dómi að hann og kærandi hafi staðið við barinn ásamt fleira fólki og beðið eftir afgreiðslu. Ákærði hafi staðið honum á vinstri hönd og kærandi á hægri hönd. Allt í einu hafi ákærði sakað kæranda um að hafa sparkað í sig en C taldi það útilokað vegna þess að hann hafi staðið á milli þeirra. Til orðahnippinga hafi komið milli kæranda og ákærða og hafi hann þá staðið fyrir aftan þá. Skyndilega hafi ákærði slegið kæranda með bjórglasi í andlitið með þeim afleiðingum að glasið brotnaði. Einhver átök hafi átt sér stað milli þeirra eftir að glasið brotnaði.
II.
Kærandi fór á slysavarðstofu og segir í læknisvottorði að hann hafi verið með mjög stóra blæðingu undir húð og mar yfir hægra kinnbeini og hafi þessir áverkar verið nánast yfir öllu hægra efra andliti. Hægri efrivör hafi verið bólgin og hún hrufluð. Mar hafi verið á vinstra kinnbeini ásamt hruflsári og storknað blóð í báðum nösum eftir blóðnasir. Kærandi hafi verið með mikil eymsli yfir kinnbeinsboga hægra megin.
Kærandi var skoðaður aftur seinna sama dag og við skoðun á augum kom í ljós að hann var með tvísýni við að horfa upp á við og hægra auga gekk töluvert lengra upp en það vinstra. Hann var því með hreyfiskerðingu á vinstra auga. Röntgenmynd var tekin af kæranda og hann sendur til augnlæknis til frekara mats.
Við skoðun 12. apríl 2005 vaknaði grunur um að augnhreyfivöði að neðanverðu vinstra megin væri fastur, hugsanlega vegna vöðvaskaða eða beinbrots. Var kærandi svæfður 15. apríl 2005 og gerð frekari rannsókn. Í svæfingu var ekki hægt að snúa vinstra auga upp á við og því áfram sterkur grunur um að neðri hreyfivöðvi vinstra auga væri fastur og því var gerð aðgerð á augntóftarbotni vinstra megin.
Kærandi fór aftur í skoðun 19. apríl 2005 og kom þá í ljós að hann var ennþá með tvísýni þegar hann horfði upp á við. Við skoðun var hann vel gróinn en hafði áfram skerta hreyfigetu á auga upp á við og sá tvöfalt þá.
Fyrir dómi skýrði kærandi svo frá að ástand hans væri óbreytt en til stæði að hann færi fljótlega í þriðju augnaðgerðina.
Í vottorði Elínborgar Guðmundsdóttur, augnlæknis, dagsett 30. ágúst 2005, segir meðal annars að ástand kæranda sé óbreytt en til standi að reyna aðra aðgerð.
III.
Framburður ákærða og kæranda stangast á um hver hafi átt upptökin að átökunum. Framburðir vitna stangast einnig á um þetta atriði. Mest er þó að byggja á framburði vitnisins C sem stóð fyrir aftan ákærða og kæranda og sagðist hafa séð glögglega hvað fram fór. Sagði hann útilokað að kærandi hafi sparkað til ákærða þar sem hann hafi þá staðið á milli þeirra. Þá staðhæfði vitnið að fyrsta höggið sem gengið hafi milli þeirra hafi verið högg ákærða með glasinu. Önnur vitni stóðu í töluverðri fjarlægð en öllum ber þeim saman um að fjöldi fólks hafi staðið við barinn í umrætt sinn.
Hvernig sem þessu var varið liggur ljóst fyrir og því játað af ákærða að hann sló kæranda með bjórglasi í andlitið. Þessi atlaga var háskaleg og ekki í neinu samhengi við það sem á undan var gengið. Orðaskak og jafnvel pústrar, þó sannað teldist, gátu ekki réttlætt þessa atlögu. Með þessari háttsemi stefndi ákærði heilsu kæranda í voða eins og raun varð og rakið er hér að framan. Þjáist kærandi af tvísýni við vissar aðstæður og er óljóst með batahorfur. Brot ákærða er réttilega fært undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga í ákæru.
Sakaferill ákærða er þannig að hann hefur tvívegis gerst sekur um umferðarlagabrot.
Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Í ljósi þess hversu hættuleg árás ákærða var þykir ekki fært að skilorðsbinda refsingu hans í heild sinni. Þegar hins vegar er litið til sakaferils ákærða þykir mega skilorðsbinda refsingu hans að hluta eins og nánar greinir í dómsorði.
IV.
Kærandi sundurliðar skaðabótakröfu sína þannig:
1. Miskabætur 1.500.000 krónur.
2. Þjáningabætur 81.600 krónur.
3. Annað fjártjón 30.000 krónur.
Lögmannsaðstoð 137.668 krónur.
Miskabótakröfu sína byggir kærandi á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, þjáningabætur á 15. gr. sömu laga og annað fjártjón á 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga. Krafa um greiðslu vegna lögmannsaðstoðar styður kærandi við 4. tl. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Skilyrði eru samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga til þess að dæma ákærða til greiðslu miskabóta og verða þær taldar hæfilegar 300.000 krónur. Taka ber kröfu kæranda um þjáningabætur að fjárhæð 81.600 krónur til greina með vísan til 15. gr. skaðabótalaga. Kærandi hefur ekki lagt fram reikninga fyrir öðru fjártjóni og verður því sú krafa ekki tekin til greina. Þá verður ákærði dæmdur til þess að greiða lögmannskostnað kæranda við að halda fram bótakröfunni og telst sá kostnaður hæfilegur 45.000 krónur. Ákærði verður því samtals dæmdur til að greiða kæranda 426.600 krónur í skaðabætur. Um vexti fer eins og í dómsorði greinir en ákærða var birt bótakrafan hjá lögreglu 19. september 2005.
Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður ákærði dæmdur til þess að greiða verjanda sínum, Sveini Andra Sveinssyni hrl., 172.557 krónur í málsvarnarlaun. Annar sakarkostnaður er 40.700 krónur sem ákærði verður einnig dæmdur til að greiða.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Elvar Logi Rafnsson, sæti fangelsi í 6 mánuði. Fresta skal fullnustu þriggja mánaða af refsingunni og hún falla niður að liðnum þremur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði brotaþola, X, 426.600 krónur með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. mars 2005 til 19. október 2005 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar, samtals að fjárhæð 213.257 krónur, þar af 172.557 krónur til skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hrl.