Hæstiréttur íslands

Mál nr. 213/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði


Þriðjudaginn 12

 

Þriðjudaginn 12. maí 2009.

Nr. 213/2009.

A

(Ingvar Þóroddsson hdl.)

gegn

B

(Gunnar Sólnes hrl.)

 

Kærumál. Lögræði.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms  um að A yrði sviptur sjálfræði í tólf mánuði á grundvelli 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. 

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. apríl 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 17. apríl 2009, þar sem sóknaraðila var gert að sæta sviptingu sjálfræðis í tólf mánuði. Kæruheimild er í 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að honum verði einungis gert að sæta sjálfræðissviptingu í sex mánuði. Þá er þess krafist að skipuðum verjanda hans verði dæmd þóknun úr ríkissjóði vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 28. apríl 2009 og krefst þess að hann verði felldur úr gildi og krafa hans fyrir héraðsdómi tekin til greina að fullu og sóknaraðili sviptur sjálfræði ótímabundið. Til vara krefst varnaraðili staðfestingar hins kærða úrskurðar. 

Í málinu liggur fyrir vottorð C geðlæknis 17. apríl 2009 um heilsuhagi sóknaraðila. Fallist er á með héraðsdómi að skilyrði séu til að svipta sóknaraðila sjálfræði frá 17. apríl 2009 með heimild í 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga. Það athugast þó að héraðsdómara hefði verið rétt, sbr. 2. mgr. 11. gr. laganna, að kveðja geðlækninn fyrir dóm til staðfestingar á vottorðinu. Að því athuguðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og skipaðs talsmanns varnaraðila fyrir Hæstarétti að meðtöldum virðisaukaskatti úr ríkissjóði, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Ingvars Þóroddssonar héraðsdómslögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Gunnars Sólness hæstaréttarlögmanns, fyrir Hæstarétti, 186.750 krónur handa hvorum, greiðist úr ríkissjóði.

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 17. apríl 2009.

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar í dag, er komið til dómsins með bréfi sóknaraðila, B, kt. [...], [...], Akureyri, dagsettu og mótteknu hinn 14. apríl, þar sem hann krafðist þess að varnaraðili, sonur sinn, A, kt. [...], [...], Akureyri, yrði sviptur sjálfræði.

Varnaraðili krefst þess að kröfunni verði hafnað en til vara að sjálfræðissvipting verði takmörkuð við sex mánaða skeið.

Talsmaður sóknaraðila og verjandi varnaraðila krefjast báðir þóknunar úr ríkissjóði.

Í bréfi sóknaraðila segir að varnaraðili sé nú nauðungarvistaður með leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og hafi verið frá 4. þessa mánaðar. Enn sem komið sé hafi varnaraðili lítil batamerki sýnt, einkenni séu sveiflótt og hafi hann suma daga neitað lyfjagjöf. Reynslan sýni að til lengri tíma litið sé óhjákvæmilegt að halda áfram lyfjagjöf og fylgja henni eftir næstu misseri. Varnaraðili sé ekki samþykkur þeirri leið og sé því nauðsynlegt að fylgja nauðungarvistuninni eftir með sviptingu sjálfræðis.

Varnaraðili kom fyrir dóminn og kvaðst þar hafna beiðninni. Kvaðst hann vera fullfær um að standa á eigin fótum, hann ætti eigin íbúð og gæti sem bezt séð um sín mál sjálfur.

Meðal gagna málsins er vottorð C geðlæknis á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Segir þar að varnaraðili sé nú nauðungarvistaður á geðdeild sjúkrahússins. Hafi hann fyrst verið lagður inn á unglingageðdeild fyrir tæpum tveimur áratugum, þá með „psychotísk einkenni með heyrnarofskynjunum“. Einkenni hafi látið undan lyfjameðferð og honum liðið betur, þó framtakslítill og óvirkur. Illa hafi gengið um dagana að halda meðferðarsambandi við varnaraðila og eigi hann að baki átta legur á geðdeildinni; fyrstu tvær sumarið 2000 og regluleg meðferð með geðrofalyfi hafi hafizt eftir veikindi í marz 2002. Veikindin hafi einkennzt af „sjúkdómsþróun með afbrigðilegri hegðun, skertri getu til að mæta kröfum samfélagsins og almennt minnkaðri færni. Negatíf einkenni, s.s. grunn geðhrif og viljaleysi hafa þróast smám saman með breytingu í persónuleika og hegðun sem koma fram í áhugaleysi, óvirkni og félagslegri hlédrægni. Hugsanagangur virðist óljós með skertri hæfni til að setja sig í spor viðmælanda. Fyrr u.þ.b. ári síðan byrjaði hann að fá alvarlegar hreyfiaukaverkanir, vöðvaspennutruflun (tardivar dyskynesiur) og var þá áætlað að skipta yfir í annað lyf en hann hætti fljótlega að taka inn það lyf þar sem hann var hræddur um að það myndi skerða aksturshæfni sína. Í maí 2008 stóð til að A legðist inn til endurmats á meðferðinni en ekki tókst samvinna við hann um þá innlögn. Þann 20. 06. ’08 samþykkti A að leggjast inn til sinnar fjórðu innlagnar og skv. upplýsingum í læknabréfi voru þá engin einkenni um ranghugmyndir eða ofskynjanir. Útskrifaðist 12 dögum síðar án geðrofslyfja. Hann lagðist svo enn inn þann 11.07.’08 og útskrifaði sig síðar sama dag. Hann var innlagður brátt þann 28.07.’08 eftir að hafa skorið sig á hægri úlnlið. Hafði þá verið ómeðhöndlaður með lyfjum í 3 mánuði og sjúkdómurinn farið versnandi með lífsleiða. Var í kjölfarið nauðungarvistaður á geðdeild til að tryggja viðeigandi meðferð. Illa hefur gengið að fylgja A eftir þar sem hann mætir stopult í viðtal hjá geðlækni. Undanfarið hafa foreldrar haft vaxandi áhyggjur af honum vegna hegðunar, hann hefur hætt að taka a.m.k. sum lyf án samráðs við lækna. Hann hefur þó ekki viljað leggjast inn fyrr en 24.03.’09 að hann lagðist inn sjálfviljugur. Hafði þá lýst dauðaóskum fyrir móður og vondri líðan eftir að greiðslukorti hans hafði verið hafnað við innkaup. Sennilega ekki tekið inn sín föstu geðrofslyf í viku fyrir innlögn. Í legunni var verið að vinna í lyfjabreytingum vegna aukaverkana, ennfremur var í gangi umsóknarferli vegna Hamratúns, áfangaheimilis. Hann hvarf endurtekið af deildinni og fylgdi ekki fyrirmælum um fjarvistir. Hann kvaðst jafnframt hafa afþakkað áfangaheimilið sagðist „ekki vita hvert hugurinn bæri sig næst“. Hann útskrifaði sig af deildinni þann 03.04.’09, var síðan innlagður á ný síðar þann sama dag og í kjölfarið nauðungarvistaður að beiðni föðurs til að tryggja áframhaldandi meðferð.“

Í lok vottorðs síns gefur læknirinn svo látandi álit: „Batahorfur A ráðast af meðferðarstjórn og eina sjáanlega leiðin er að gefa honum viðeigandi reglulega lyfjameðferð til að fyrirbyggja og/eða stytta með öllum hugsanlegum ráðum geðrofslotur. Sérhver geðrofslota í geðklofasjúkdómi brýtur niður geðheilsu umfram það sem sjúkdómurinn sjálfur gerir. Mögulega munu vöðvaspennutruflanir ganga til baka á næstu misserum á meðferð með geðrofslyfinu Leponex. Nákvæmt og þétt eftirlit er nauðsynlegt samfara meðferð með Leponex, m.a. með vikulegum blóðprufum á næstu misserum. Undirritaður geðlæknir mælir eindregið með áframhaldandi vistun og meðferð á geðdeild. Það er mat undirritaðs að A sé ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum vegna alvarlegs geðsjúkdóms og styður því framkomna kröfu um sjálfræðissviptingu hans þar eð hagsmunum sjúklings er best borgið með þeim hætti.“

Af ofanröktu vottorði C þykir dóminum sannað að varnaraðili sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og að batahorfur hans ráðist af því að meðferðarstjórn verði góð og lyfjameðferð regluleg. Þá þykir sannað af vottorðinu að varnaraðili hafi verið fremur ósamvinnuþýður um lyfjagjöf, horfið af geðdeild og útskrifað sig sjálfur eftir hentugleikum. Fellst dómurinn á það mat geðlæknisins að hagsmunum varnaraðila sé bezt borgið með því að hann verði sviptur sjálfræði svo koma megi við þeirri læknismeðferð er honum sé nauðsynleg.

Sjálfræði er meðal mikilvægustu réttinda hvers manns. Svipting þess er ráðstöfun sem ekki má ganga lengra en nauðsyn krefur hverju sinni. Með vísan til þess mats C geðlæknis, að „nákvæmt og þétt eftirlit“ sé nauðsynlegt samfara þeirri lyfjameðferð sem fyrirhuguð sé á næstu misserum, þykir sem efni séu til að svipta varnaraðila sjálfræði í tólf mánuði.

Með vísan til 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 skal þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Ingvars Þóroddssonar héraðsdómslögmanns, og skipaðs talsmanns sóknaraðila, Gunnars Sólness hæstaréttarlögmanns, greiðast úr ríkissjóði, 124.500 krónur til hvors og hefur þá verið litið til reglna um virðisaukaskatt.

Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

Varnaraðili, A, er sviptur sjálfræði í tólf mánuði.

Málskostnaður greiðist allur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun talsmanns sóknaraðila, Gunnars Sólness hæstaréttarlögmanns, og verjanda varnaraðila, Ingvars Þóroddssonar héraðsdómslögmanns, 124.500 krónur til hvors.