Hæstiréttur íslands
Mál nr. 305/2003
Lykilorð
- Tilboð
- Samningur
- Riftun
- Vanheimild
|
|
Fimmtudaginn 26. febrúar 2004. |
|
Nr. 305/2003. |
Vífilfell hf. (Gunnar Jóhann Birgisson hrl.) gegn þrotabúi Ice-Mex ehf. (Gestur Jónsson hrl.) |
Tilboð. Samningur. Riftun. Vanheimild.
V og þrotabú I deildu um hvað hafi falist í samningi V og I. Einnig var um það deilt hvort I hefði efnt samninginn af sinni hálfu. Þótti skjal sem I hafði útbúið gefa vísbendingu um hvað I taldi felast í samningnum. Það ásamt öðru leiddi til þess að telja yrði að í samningnum fælist loforð I um að afsala sér rétti samkvæmt tilteknum dreifingarsamningi við E og að koma á samningi milli E og V um dreifingu á tilteknum vörum. Talið að I hefði efnt samninginn af sinni hálfu og í samræmi við það var V dæmt til greiðslu þess hluta kaupverðsins sem enn var ógreiddur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut máli þessu upphaflega til Hæstaréttar 11. júní 2003. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu málsins 23. júlí 2003 og áfrýjaði hann að nýju 6. ágúst sama ár með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Krefst hann aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Verði fallist á varakröfu stefnda í héraði krefst hann þess að til skuldajafnaðar komi gagnkrafa að fjárhæð 3.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 20. apríl 2001 til 1. júlí sama ár, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.
Eftir að hinn áfrýjaði dómur var upp kveðinn var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur mál til að taka skýrslu af Angel Garcia Gomez svæðisstjóra félagsins Eurocermex S.A. Fór skýrslutakan fram gegnum síma 17. september 2003. Var endurrit hennar ásamt íslenskri þýðingu lagt fram fyrir Hæstarétt af hálfu áfrýjanda. Er skýrsla þessi svo ruglingsleg og óskýr að ekki verður á henni byggt við úrlausn málsins fyrir Hæstarétti.
Málavöxtum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir tókust samningar með áfrýjanda og Ice-Mex ehf. í byrjun mars 2001 þegar síðarnefnda félagið samþykkti tilboð áfrýjanda í „Corona umboðið“. Kaupverðið var 28.000.000 krónur. Greiddi áfrýjandi 3.500.000 krónur 5. mars 2001 en Ice-Mex ehf. afhenti honum samtímis til tryggingar tékka að sömu fjárhæð. Ice-Mex ehf. höfðaði mál þetta 28. september 2001 og krafðist þess aðallega að áfrýjandi greiddi eftirstöðvar kaupverðsins og skilaði sér umræddum tékka. Hefur áfrýjandi lýst því yfir að hann hafi tékka þennan undir höndum.
Ágreiningur aðila snýst annars vegar um hvað hafi falist í umræddum samningi og hins vegar hvort Ice-Mex ehf. hafi efnt samninginn af sinni hálfu.
Áfrýjandi heldur því fram að í samningnum hafi falist að Ice-Mex ehf. framseldi sér þann rétt sem síðarnefnda félagið hafði samkvæmt dreifingarsamningi við Eurocermex S.A. og hafi hann staðið í þeirri trú að það væri Ice-Mex ehf. heimilt án samþykkis hins erlenda viðsemjanda. Þar sem síðar hafi komið í ljós að svo var ekki hafi honum verið rétt að rifta samningnum eða krefjast ógildingar hans ella. Stefndi telur hin vegar að í samningnum hafi falist að Ice-Mex ehf. tæki að sér að koma á samningi milli áfrýjanda og hins erlenda viðsemjanda með skilmálum samkvæmt hinu samþykkta tilboði.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi sendi áfrýjandi Ice-Mex ehf. drög að kaupsamningi skömmu eftir að síðarnefnda félagið samþykkti margnefnt tilboð. Skjal þetta var aldrei undirritað en það var samið af forsvarsmönnum áfrýjanda og gefur það því vísbendingu um hvað þeir töldu að fælist í samningi aðila. Í 1. grein kaupsamningsdraganna sagði að hið selda væri allur rekstur seljanda en í því fælist meðal annars „Vöruumboð Corona og Negro Modelo ásamt upplýsingum um viðskiptasamninga og viðskiptasambönd seljanda svo og viðskiptavild seljanda. Vöruumboðin og viðskiptasambönd seljanda færist yfir til kaupanda, en báðir aðilar skulu vinna sameiginlega að því að vöruumboðin flytjist yfir til kaupanda.“ Þá var svofellt ákvæði í 5. grein kaupsamningsdraganna. „Kaupsamningur þessi er háður samþykki Corona um yfirtöku kaupanda á umboðum og viðskiptasamböndum og fyrir liggja skrifleg yfirlýsing frá Corona um yfirtöku kaupanda á vörumerkjum seljanda til a.m.k. x ára.“ Styður þessi texti eindregið þann skilning sem stefndi vill leggja í efni samningsins. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður fallist á þá niðurstöðu hans að í samningnum milli áfrýjanda og Ice-Mex ehf. hafi falist loforð þess síðarnefnda um að afsala sér rétti samkvæmt dreifingarsamningnum við Eurocermex S.A. og að koma á samningi varðandi dreifingu á umræddum vörum milli áfrýjanda og Eurocermex S.A.
Þar sem einnig verður fallist á það með héraðsdómara með vísan til þeirra forsendna er í héraðsdómi greinir að Ice-Mex ehf. hafi efnt samninginn af sinni hálfu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti verður ákveðinn í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Áfrýjandi, Vífilfell hf., greiði stefnda, þrotabúi Ice-Mex ehf., samtals 1.300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2003.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 13. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ice-Mex ehf., kt. 450298-2399, Smiðjuvegi 2, Kópavogi, með stefnu, birtri 28. september 2001, á hendur Vífilfelli hf., kt. 470169-1419, Stuðlahálsi 1, Reykjavík. Undir rekstri málsins var Ice-Mex ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og tók þrotabúið við rekstri málsins.
Dómkröfur stefnanda eru þessar aðallega:
1. Að stefndi greiði stefnanda kr. 24.500.000, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 24.05. 2001 til 01.07. s.á., en samkvæmt 1. málsgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
2. Að stefndi verði dæmdur til að skila til stefnanda ávísun nr. 8102978, gefinni út af stefnanda 19.03. 2001, á tékkareikning stefnanda nr. 120-26-1019, að höfuðstólsfjárhæð kr. 3.500.000.
3. Að stefndi greiði stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi, sbr. gjaldskrá Lögmanna Mörkinni 1 ehf.
Til vara gerir stefnandi þessar kröfur:
1. Að stefndi greiði stefnanda skaðabætur að fjárhæð kr. 28.000.000, auk dráttarvaxta af fjárhæðinni samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 24.05. 2001 til 01.07. s.á., en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. málsgr. 6. gr. l. nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
2. Að stefndi greiði stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi, sbr. gjaldskrá Lögmanna Mörkinni 1 ehf.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara er þess krafizt, að kröfur stefnanda verði stórlækkaðar, og er krafizt skuldajafnaðar við varakröfu stefnanda vegna kröfu stefnda að fjárhæð kr. 3.500.000, með dráttarvöxtum samkvæmt 10., 1 l. og 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 20.04. 2001 til 01.07. s.á., og með dráttarvöxtum samkvæmt III. og V. kafla laga nr. 38/2001 af kr. 3.500.000 frá 01.07. 2001 til greiðsludags.
Í öllum tilvikum er krafizt málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu, að mati dómsins.
II.
Málavextir:
Stefnandi var með umboð fyrir Corona-bjór á Íslandi allt frá árinu 1997. Umboðið byggðist á einkadreifingarsamningi félagsins við Eurocermex S.A., skráðs fyrirtækis í Belgíu og umboðsaðila fyrir vöruna. Gildistími samningsins var frá 1. apríl 1997 til 31. desember 2001, en var framlengdur til 31. desember 2006 með samningi, dags. 17.05.2000. Í samningnum er ákvæði um að samningstíminn framlengist sjálfkrafa um 5 ár, nema annar hvor aðila tilkynni hinum á tilskilinn hátt, að samningurinn skuli falla úr gildi að loknum samningstímanum.
Stefnandi kveður rekstur sinn að öllu leyti hafa verið tengdan fyrrnefndu Corona-umboði, þegar atvik þau, sem eru tilefni málshöfðunarinnar, áttu sér stað. Félagið hafi af margvíslegum ástæðum verið hætt rekstri með aðrar vörur og önnur vöruumboð hafi verið komin, eða verið um það bil að komast í hendur annarra rekstraraðila. Eini starfsmaður stefnanda sé Þórir Einar Steingrímsson, kt. 050652-2469, sem sé bæði stjórnarmaður og framkvæmdastjóri.
Í febrúarmánuði 2001 föluðust fyrirsvarsmenn Sólar-Víkings ehf., sem nú hefur sameinazt stefnda, Vífilfelli hf., eftir Corona-umboðinu og rekstri stefnanda. Í framhaldi af samningsviðræðum gerði stefndi stefnanda tilboð, dags. 2. marz 2001, um kaup á umboðinu og því, sem því fylgdi. Kaupverð hljóðaði upp á kr. 28.000.000. Í tilboðinu kemur fram sú forsenda fyrir kaupunum, að umboðssamningur yrði tryggður milli stefnda og Corona til næstu 6 ára a.m.k., auk þess sem seljandi þyrfti að fá Corona til að leggja fé í markaðsstarf við að viðhalda vexti samkvæmt samningi. Stefnandi samþykkti tilboðið með undirskrift sinni innan tilboðsfrests, en tilboðið skyldi gilda til 5. marz 2001. Í framhaldi af samningnum gerðu forsvarsmenn stefnda drög að formlegum samningi um kaup á öllum rekstri stefnanda. Í 3. gr. draganna er ákvæði um dreifingu á greiðslu kaupverðsins. Samkvæmt a-lið ákvæðisins skyldi stefndi greiða stefnanda kr. 3.500.000 við samþykki tilboðsins. Stefndi innti greiðsluna af hendi í samræmi við ákvæðið. Stefnandi lét stefnda í hendur tékka að sömu fjárhæð til tryggingar, ef ekkert yrði af samningnum.
Kveður stefndi greiðsluna hafa verið innta af hendi í þeim tilgangi að gera stefnanda kleift að greiða uppsafnaðar skuldir við Eurocermex, en á þeim tímapunkti hafi rekstur stefnanda gengið mjög illa, og vörur hafi ekki verið afhentar af birgjum vegna ógreiddra reikninga.
Eftir að kaupsamningur komst á unnu aðilar í sameiningu að því að tryggja, að markmiðum samningsins yrði náð með því að viðskiptasamböndin flyttust til kaupanda. Þann 21. marz 2001 var Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins tilkynnt, að stefndi hefði tekið við dreifingu og sölu á Corona.
Skömmu eftir undirritun kauptilboðsins tók stefndi við dreifingu á Corona-bjór á Íslandi, en samskiptin við Eurocermex voru enn í gegnum stefnanda og skyldi svo vera, þar til stefndi væri kominn með umboðssamning við Eurocermex. Voru allir reikningar frá Eurocermex áfram útgefnir á stefnanda, og kveður stefndi stefnanda ekki hafa viljað, að því yrði breytt fyrr en seinna, og hafi beðið starfsmenn stefnda um að hafa ekki samband við Eurocermex vegna þessa.
Þann 26. marz 2001 óskaði stefnandi skriflega eftir því við Eurocermex, að allir reikningar yrðu gefnir út á stefnda, en Eurocermex myndi síðar gera samning við stefnda um sölu og dreifingu á Corona. Jafnframt kemur fram í bréfinu, að stefnandi hygðist loka rekstri sínum vegna fjárhagserfiðleika.
Í svarbréfi Eurocermex, dags. 26. marz 2001, segir m.a., að engir reikningar verði gefnir út á stefnda, þar eð fyrirtæki stefnda hafi samninga við Ice-Mex, en ekki Eurocermex. Jafnframt segir, að sé stefnandi að loka rekstri sínum, vilji Eurocermex fá skriflega staðfestingu á því, að fyrirtækið sé ekki lengur umboðsaðili fyrir Corona-bjór á Íslandi. Þá segir einnig í bréfinu, að það sé hlutverk Eurocermex að gera umboðssamning við stefnda (Víking ölgerðina).
Í bréfi Eurocermex til stefnanda, dags. 2. apríl 2001, kemur fram, að Eurocermex líti svo á, að Ice-Mex sé innflutningsaðilinn og biður fyrirtækið um skriflega yfirlýsingu frá Ice-Mex, ef það fyrirtæki vilji ekki vera lengur með innflutning á Corona Extra. Þá er áréttað, að það sé ekki í verkahring stefnanda að ákveða, hver verði næsti umboðsaðili Corona á Íslandi, heldur Eurocermex. Jafnframt er tekið fram, að allir samningar, sem stefnandi kunni að hafa gert við stefnda, séu ógildir.
Í bréfi stefnanda til Eurocermex, dags. 2. apríl 2001, fullyrðir stefnandi, að hann hafi sagt stefnda, að engar breytingar yrðu gerðar á dreifingar- og umboðssamningi, nema með samþykki Eurocermex. Stefndi muni sjá um að greiða reikninga fyrir stefnanda og dreifa bjórnum, þar sem einungis sé einn starfsmaður hjá Ice-Mex. Stefnandi fullyrðir jafnframt, að hann hafi tjáð stefnda, að Ice-Mex væri umboðsaðili fyrir Corona á Íslandi, en ekki stefndi.
Stefndi kveðst ekkert hafa vitað um framangreind bréfaskipti eða haft hugmynd um annað, en að hann væri orðinn umboðsaðili Corona á Íslandi fyrir samþykki kauptilboðs.
Stefnandi kveður Þóri Steingrímsson hafa verið boðaðan á fund hjá stefnda þann 20. apríl 2001. Þórir hafi komið til fundarins í þeirri trú, að þar yrði gengið frá nánar útfærðum kaupsamningi. Á fundinum hafi stefndi lýst því yfir, að ekki stæði til að greiða umsamið kaupverð og að gerð væri krafa til þess, að stefnandi endurgreiddi þær kr. 3.500.000, sem hann hafði þegar fengið greiddar frá stefnda. Hafi komið fram af hálfu stefnda, að stefnandi hefði ekki haft heimild til að ráðstafa Corona-umboðinu. Það hefði einungis hinn erlendi aðili getað gert.
Stefndi kveður atvik hafa verið þau, að þann 19. apríl hafi stefnandi hringt í Stefán Steinsen, markaðsstjóra hjá stefnda, og tjáð honum, að Angel Garcia Gomez hefði hringt í sig og spurt, hvort hann væri að selja stefnda Corona-umboðið. Stefnandi hefði sagt, að svo væri ekki og hafi beðið Stefán um að láta Angel Garcia Gomez ekki vita af kauptilboðinu, ef hann innti eftir því.
Þann 20. apríl s.l. hafi átt að ganga frá kaupsamningi milli stefnda og stefnanda um Corona-umboðið. Vegna tilfærslna með reikningagerð, pukurs með það, hvort Þórir, fyrirsvarsmaður stefnanda, ætti að vinna hjá stefnda eftir gerð umboðssamnings og vegna samtalsins 19. apríl við stefnanda hafi vaknað grunur hjá Stefáni Steinsen um, að ekki væri allt með felldu. Hafi hann því haft samband við Angel Garcia Gomez og látið hann vita, hver staða málsins væri gagnvart stefnanda. Hann hafi brugðizt ókvæða við og tjáð stefnda, að stefnandi hefði ekki heimild til að selja Corona-umboðið. Það hafi verið fyrst þá, sem Eurocermex og stefndi hafi fengið vitneskju um, að stefnandi hefði selt það, sem var ekki hans.
Í framhaldi af þessu hafi Eurocermex rift umboðssamningi við stefnanda og stefndi hafi fengið tímabundið umboð til dreifingar Corona-bjórs á Íslandi. Kveður stefndi umboðið hafa verið til 6 mánaða, en þá skyldi endurskoða réttarsamband aðila. Umboðið sé nú runnið út, og hafi ekki verið gengið frá nýjum samningi.
III.
Málsástæður stefnanda:
Stefnandi byggir kröfu sína á samningi aðila á dskj. nr. 5. Vísar hann til meginreglna samninga- og kröfuréttar um, að gerða samninga beri að halda og efna samkvæmt efni þeirra.
Bindandi samningur hafi komizt á með samþykki stefnanda á tilboði stefnda samkvæmt grundvallarreglum samningaréttarins og laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Stefndi hafi ekki haft neitt lögmætt tilefni til að lýsa einhliða yfir riftun á samningnum þann 20. apríl 2001. Í því sambandi sé bent á eftirfarandi:
1. Stefndi hafi átt frumkvæði að umræddri samningsgerð og séð um skjalagerðina. Í því ljósi sé vandséð, hvernig stefnandi hafi átt að geta blekkt fyrirsvarsmenn stefnda, sem hafi mikla reynslu á því viðskiptasviði, sem um ræði.
2. Stefnandi telji, að fyrirsvarsmönnum stefnda hafi allan tímann verið eða mátt vera ljóst, að í samningi aðila hafi ekki falizt ráðstöfun á Corona-umboðinu til stefnda, án samþykkis hins erlenda eiganda. Vísist til grundvallarreglna í viðskiptum og hefðbundinna viðskiptahátta. Þá vísist til framansagðs um forsendu í kauptilboði á dskj. nr. 5, 5. gr. kaupsamningsdraganna á dskj. nr. 9 og þess, sem fyrir liggi um samskipti aðila í framhaldi af samningsgerðinni, sem öll hafi gengið út á að ná samningsmarkmiðinu. Í ljósi alls þessa telji stefnandi fullyrðingar lögmanns stefnda um svik eða blekkingar vera fráleitar.
3. Gögn málsins beri með sér, að þegar stefndi lýsti því yfir, að hann ætlaði ekki að standa við gerðan samning, hafi engin þau atvik verið komin fram, sem gátu heimilað honum að lýsa fyrirvaralaust yfir samningsrofum.
1. og 2. töluliður aðalkröfu miðist við að fá dóm á hendur stefnda fyrir eftirstöðvum kaupverðsins samkvæmt samningnum á dskj. nr. 5. Þegar hafi verið tekið tillit til innborgunar stefnda á kröfuna, að fjárhæð kr. 3.500.000. Stefnandi hafi samhliða gefið út ávísun sömu fjárhæðar til tryggingar á samningsefndum af sinni hálfu. Þar sem stefnandi hafi efnt samninginn af sinni hálfu, krefjist hann skila á ávísuninni.
Krafa stefnanda sé aðallega byggð á þeim málsgrundvelli, að um sé að ræða kröfu um samningsefndir in natura. Til vara sé krafan sett fram á þeim grundvelli, að í henni felist krafa um efndabætur vegna ólögmætra samningsrofa og þar með vanefndar af hálfu stefnda 20. apríl 2001. Beint augljóst fjártjón stefnanda af vanefndum stefnda fáist einungis bætt með því, að kröfurnar verði teknar til greina. Í þessu máli sé ekki gerð krafa um bætur vegna óbeins eða afleidds tjóns af völdum vanefnda stefnda. Sé áskilinn réttur til slíkrar kröfugerðar síðar með annarri sjálfstæðri málssókn. Um rétt til efndabóta vegna ólögmætra samningsrofa stefnda og þar með vanefnda vísist til almennu skaðabótareglunnar og grundvallarreglna kröfuréttarins. Í bótakröfunni felist jafnframt varakröfur um skaðabætur lægri fjárhæða, í því tilviki, að dómurinn sjái ástæðu til að lækka kröfuna af einhverjum sökum.
Stefnandi setji fram varakröfu um greiðslu á kr. 28.000.000, þ.e. kaupsamningsfjárhæðinni, verði því haldið fram af stefnda, að honum sé ómögulegt að skila stefnanda tékkanum, sem lýst sé í aðalkröfu. Að öðru leyti byggist varakrafan á sömu málsatvikum, málsástæðum og lagarökum og greini í aðalkröfu.
Um aðild stefnda vísist til þess, sem rakið sé í málavaxtalýsingu, að við samruna Vífilfells hf. og Sólar-Víkings ehf., hafi stefndi tekið við öllum réttindum og skyldum Sólar-Víkings ehf.
Krafa um dráttarvexti sé gerð með stoð í ákvæðum III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 og III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Krafa um málskostnað byggist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður stefnda:
Aðalkrafa:
Um stofnun samnings:
Stefndi byggir sýknukröfu sína m.a. á þeirri málsástæðu, að enginn bindandi samningur hafi komizt á milli hans og stefnanda um kaup á Corona-umboðinu, líkt og stefnandi haldi fram, og af þeim sökum beri að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda.
Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því, að samningur hafi verið gerður með þeim hætti, sem lýst sé í stefnu, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 eml.
Tilboð það, er stefndi lagði fram í Corona-umboðið, hafi verið skilyrt, og hafi þeim skilyrðum aldrei verið fullnægt af hálfu stefnanda. Skilyrði þau, er stefndi setti fyrir því, að bindandi samningur kæmist á, hafi í fyrsta lagi verið þau, að seljandi yrði að tryggja umboðssamning milli Sólar-Víkings og Corona til 6 ára a.m.k. Í annan stað hafi seljandi þurft að fá Corona til að leggja fram meira fé til markaðsstarfs til að viðhalda vexti Corona samkvæmt samningi.
Stefnandi hafi ekki getað tryggt stefnda a.m.k. 6 ára umboðssamning. Hann hafi ekki haft heimild til slíks, en jafnframt hafi hann enga milligöngu haft um gerð umboðssamnings, eins og fram komi í yfirlýsingu Eurocermex, dskj. nr. 53, og umboðssamningi milli Eurocermex og stefnanda, dskj. nr. 54. Þegar greinargerð sé rituð, hafi stefndi ekki umboðssamning við Eurocermex, og ekkert liggi fyrir um framhald þeirra mála. Stefnda hafi því aldrei verið afhent hið selda. Í annan stað hafi stefnandi ekki útvegað aukið fé til markaðsmála til að viðhalda vexti samkvæmt samningi. Skilyrðum stefnda hafi því ekki verið mætt af hálfu stefnanda, og þar með hafi ekki stofnazt bindandi samningur milli aðila.
Stefndi hafi jafnframt sett þann fyrirvara við tilboð sitt, að stjórn stefnda, dskj. nr. 55, samþykkti tilboðsgjöfina. Á fundi með stefnanda, dags. 20. apríl 2001, hafi fulltrúar stjórnar stefnda lýst því yfir, að kauptilboði væri rift og afturkallað og ekkert yrði af staðfestingu þess. Samþykkið fyrir kauptilboðinu hafi þar af leiðandi aldrei fengizt, og því hafi ekki komizt á bindandi samningur milli aðila.
Endurspeglist ofannefnt í þeirri staðreynd, að aldrei hafi verið gengið frá formlegum kaupsamningi milli aðila.
Af ofangreindu megi ljóst vera, að aldrei hafi stofnazt til samningssambands milli aðila, hvorki fyrr né síðar, og fyrirhugaðar greiðslur því aldrei inntar af hendi og hafi jafnframt verið gerð krafa af hálfu stefnda um endurgreiðslu fyrirframgreiðslu.
Með vísan til ofangreinds hafni stefndi alfarið málflutningi stefnanda um, að samningur hafi komizt milli aðila
Um gildi samnings:
Stefndi byggir á því, að ekki hafi stofnazt gildur samningur milli aðila, sem hafi þau réttaráhrif, sem efni hans bendi til.
Um vanheimild stefnanda:
Í sölu- og dreifingarsamningi milli stefnanda og Eurocermex, dskj. nr. 54, komi fram í gr. 7, að stefnanda hafi verið óheimilt að skuldbinda Eurocermex að nokkru leyti. Jafnframt sé lagt blátt bann við því í samningnum, að stefnandi framselji réttindi sín samkvæmt samningnum, án skriflegs samþykkis Eurocermex, sbr. gr. 13.1. Þetta árétti Angel Garcia Gomez nokkrum sinnum í bréfum sínum til stefnanda, sbr. bréf, dags. 26. marz 2001, dskj. nr. 46; dags. 2. apríl 2001, dskj. nr. 48; og dags 9. maí 2001, dskj. nr. 38; og yfirlýsingu, dags. 30. apríl 2001, dskj. nr. 53. Athyglisvert sé, að í bréfi stefnanda til Angel Garcia Gomez, dags. 26. marz 2001, dskj. nr. 45, viðurkenni hann, að það sé hlutverk Eurocermex að gera samning við stefnda um Corona-umboðið, en ekki stefnanda. Stefnandi hafi því verið að reyna að selja eitthvað gegn betri vitund, sem ekki hafi verið hans.
Í bréfi frá Angel Garcia Gomez til lögmanns stefnda, dags. 30. maí 2001, dskj. nr. 53, staðfesti hann, að stefnandi hafi ekki verið milligöngumaður við samningagerð stefnda og Eurocermex og jafnframt, að hann hafi ekki haft heimild til að selja Corona-umboðið.
Um sé að ræða vanheimild stefnanda til að selja Corona-umboðið, eins og hann hafi gert, sem valdi ógildi samningsins.
Um svik, sbr. 1. mgr. 30. gr. saml., og óheiðarleika, sbr. 33. gr. saml.:
Á því sé byggt af hálfu stefnda, að stefnandi hafi beitt hann svikum til að gera tilboð í Corona-umboðið, og því sé löggerningur, er kunni að hafa stofnazt á grundvelli þess, ekki skuldbindandi fyrir stefnda. Í l. mgr. 30. gr. saml. segi: “Löggerningur skuldbindur eigi þann mann, sem gerði hann, ef hann var fenginn til þess með svikum, og sá maður, sem við löggerningnum tók, beitti sjálfur svikunum eða hann vissi eða mátti vita, að gerningurinn var gerður fyrir svik annars manns.”
Það, sem skiptir máli hér, sé, að stefnandi hafi blekkt umbjóðanda sinn og stefnda í öllu þessu ferli, sbr. bréf Angel Garcia Gomez til stefnanda, dags. 20. apríl 2001, dskj. nr. 33, þar sem vísað sé í símtal hans og stefnanda deginum áður, þar sem stefnandi hafi lýst því yfir, að hann hefði ekki framselt Corona-umboðið til stefnda. Er hér var komið, hafi verið liðnar, tæpar 7 vikur frá því, að stefnandi undirritaði tilboð stefnda.
Stefnandi hafi jafnframt beitt stefnda svikum til að fá hann til að gera kauptilboð í Corona-umboðið. Stefndi hafi ekki vitað betur en að stefnanda væri heimilt að framselja réttindi sín sem umboðsmaður Corona á Íslandi. Stefnandi hafi lagt mikið á sig til að ekki kæmist upp um hann. Þannig hafi hann takmarkað samskipti stefnda og Eurocermex eins og mögulegt var. Jafnframt hafi hann haft áhrif á það, hvað mönnum fór á milli.
Stefnandi hafi, með ólögmætum hætti og gegn betri vitund, gefið stefnda rangar upplýsingar varðandi heimild sína til að selja Corona-umboðið, með það að ásetningi að fá hann til að gera tilboð í greint umboð. Við samþykki kauptilboðs stefnda hafi eignarréttur eða önnur réttindi hvorki flutzt né getað flutzt yfir til stefnda, sbr. bréf stefnanda til Eurocermex, dags. 2. apríl 2001, dskj. nr. 49, þar sem stefnandi fullyrði, að hann sé enn umboðsaðili Corona-bjórs á Íslandi. Þetta sé fullyrt gegn betri vitund og þrátt fyrir undirritun kauptilboðs. Stefndi hafi staðið í þeirri meiningu, að svo væri, en hér sé stefnandi vísvitandi að blekkja stefnda. Tilboðið og afleiddur löggerningur séu því ekki skuldbindandi fyrir stefnda.
Verði eigi fallizt á ofangreint, sé það afstaða stefnda, að það sé eigi heiðarlegt af stefnanda að krefjast efnda samkvæmt samningi aðila á grundvelli 33. gr. samningalaga.
Það sé afstaða stefnda, að það sé óheiðarlegt af stefnanda að bera kaupsamning um Corona-umboðið fyrir sig. Sá samningur hafi verið fenginn með óheiðarlegum hætti, sem heiðvirður maður geti ekki borið fyrir sig. Í greinargerð með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 7/1936, segi eftirfarandi um 33. gr. samningalaga:
Svo getur staðið á, að ekki verði sagt, að t.d. svikum hafi verið beitt eða okur átt sér stað, en atvik að gerningnum séu þannig löguð, að heiðvirður maður myndi eigi hafa tekið við gerningnum.
Það, að stefnandi skyldi hafa fengið stefnda til að gera tilboð í greint umboð, vitandi vits að hann hafi ekki haft heimild til að selja það, verði að teljast blekking. Slíkt geti á engan hátt talizt eðlilegir viðskiptahættir og í senn ólögleg og óheiðarleg háttsemi. Af þeim sökum geti stefnandi ekki borið samninginn fyrir sig.
Um efndir in natura:
Verði á því byggt, að samningur hafi stofnazt milli aðila, sé stefnanda ekki kleift að krefjast efnda in natura og því beri að sýkna stefnda. Af málflutningi stefnanda megi ráða, að um hafi verið að ræða gagnkvæman samning milli aðila, þ.e. öðrum aðilanum hafi borið að inna sína af hendi greiðslu í formi peninga, en hinum hafi borið að greiða í formi afhendingar verðmæta, í þessu tilviki umboð fyrir dreifingu og sölu á Corona-bjór á Íslandi. Stefndi haldi því fram, að greind verðmæti hafi aldrei verið innt af hendi af hálfu stefnanda, og sá tími sé liðinn, að það sé hægt. Með hliðsjón af meginreglu íslenzks réttar um, að forsenda greiðsluskyldu annars aðila samkvæmt ákveðnum samningi sé, að hinn aðilinn inni sína greiðslu af hendi, geti stefnandi af þeim sökum eigi krafið stefnda um greiðslu in natura í samræmi við meintan samning aðila.
Í þessu sambandi og öðrum, er að ofan hafi verið nefnd, beri og að skoðast, að stefnandi hafi aldrei afhent stefnda þá hluti, er áttu að fylgja með Corona-umboðinu, þ.e. vörulager, viðskiptasamninga og auglýsingaefni. Hann hafi því aldrei fullnægt neinum hluta kauptilboðsins.
Um riftun
Verði á því byggt, að stofnazt hafi samningur milli aðila, sé á því byggt, að stefnda hafi verið heimilt að rifta þeim samningi vegna verulegra vanefnda stefnanda. Gildi það jafnt um munnlega yfirlýsingu Þorsteins M. Jónssonar, forstjóra stefnda, sbr. dskj. nr. 1, og yfirlýsingu lögmanns stefnda, sbr. dskj. nr. 39.
Samkvæmt kauptilboði, dags. 2. marz 2001, um kaup stefnda á Corona-umboðinu, sem hafi átt að vera eign stefnanda, skyldi stefnandi tryggja stefnda umboðssamning til a.m.k. 6 ára og auk þess að fá Corona til að leggja fé til markaðsstarfs. Eins og áður hafi komið fram, hafi stefnandi efnt hvorugt, sem hafi þó verið meginefni samningsins. Um sé að ræða verulega vanefnd, sem heimili stefnda að rifta samningi milli aðila.
Það, sem stefnandi var að selja stefnda, hafi verið Corona-umboðið, og hann skyldi leggja það til samkvæmt tilboðinu. Eins og áður segi, hafi komið í ljós skömmu fyrir kaupsamningsgerð, að stefnandi hafi ekki haft heimild til að selja Corona-umboðið á Íslandi. Honum hafi því verið ómögulegt að uppfylla skilyrði þau, er sett voru fram í tilboðinu, og hafi því verið brostnar forsendur fyrir gerð þess.
Varakrafa stefnda:
Um málsástæður varakröfu stefnda sé vísað til þess, sem rakið sé í umfjöllun um aðalkröfu.
Því sé alfarið hafnað, að stefnandi eigi rétt á efndabótum. Skilyrði þess séu ekki fyrir hendi. Á því sé byggt, að stefndi hafi ekki vanefnt samning gagnvart stefnanda, og ekki verði talið, að stefndi hafi valdið stefnanda tjóni með ólögmætri og saknæmri háttsemi. Ekki hafi verið fyrir að fara réttarsambandi milli stefnda og stefnanda, sem geti verið grundvöllur efndabóta. Stefnandi hafi verið að selja hlut, sem var ekki hans að selja, hvorki hafi greint umboð verið hans eign né hafi hann haft umboð til selja það. Af því verði hann að bera hallann.
Jafnframt sé byggt á því, verði talið, að stefnandi eigi rétt á efndabótum, að hann hafi ekki sýnt fram á tjón sitt. Hvorki liggi fyrir mat á tjóni stefnanda, sem stuðzt verði við, né liggi fyrir önnur gögn, er styðji kröfu hans.
Sé varakrafa stefnanda á hendur stefnda viðurkennd að hluta eða öllu leyti, lýsi stefndi yfir skuldajöfnuði við kröfu stefnanda. Samkvæmt ofangreindu nemi gagnkrafa stefnda til skuldajafnaðar gegn kröfum stefnanda kr. 3.500.000, með dráttarvöxtum samkvæmt 10., 11. og 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 20.04. 2001 til 01.07. 2001 og dráttarvöxtum samkvæmt III. og V. kafla laga nr. 38/2001 af kr. 3.500.000 frá og með 01.07. 2001 til greiðsludags.
Skuldajafnaðarkrafa stefnda sé til komin vegna fyrirframgreiðslu samkvæmt kauptilboði, dags. 2. marz 2001, sbr. dskj. nr. 5 og 8.
Skilyrði fyrir skuldajöfnuði séu fyrir hendi samkvæmt 28 gr. eml., en kröfur aðila séu milli sömu aðila, samkynja, samrættar, lögvarðar og séu fallnar í gjalddaga.
Um lagarök vísar stefndi sérstaklega til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, grundvallarreglna samningaréttar um skuldbindingargildi samninga, til almennra reglna kröfuréttar um skuldajöfnuð og riftun og ákvæða vaxtalaga nr. 25/1987 um dráttarvexti og ákvæða laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Kröfu um málskostnað styður stefndi við 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómkröfur stefnanda:
Stefnandi byggi á því, að stefndi hafi ekki verið að kaupa Corona-umboðið af stefnanda, heldur frekar milligöngu hans um að koma umboðssamningi á. Þannig hafi stefnda verið kunnugt um, að stefnandi hafi ekki haft heimild til að selja stefnda greint umboð. Þessu sé harðlega mótmælt. Stefndi hafi ekki vitað um heimildarskort stefnanda, fyrr en 20. apríl 2001. Það beri að athuga, að þessi málsástæða sé í hrópandi ósamræmi við öll skjöl, er liggi fyrir í málinu. Þannig lúti tilboð stefnda til stefnanda, dskj. nr. 5, að því að kaupa Corona-umboðið, en ekki sé verið að semja um þóknun fyrir milligöngu til stefnanda. Í tilboðinu sé talað um kaupanda og seljanda og kaupverð viðkomandi umboðs, en ekki um milligöngu við kaup umboðsins. Til þess sé og að líta, þakki stefnandi sér tímabundinn umboðssamning, sem stefndi hafi fengið hjá Eurocermex, hvar umboð stefnanda frá Eurocermex sé til að annast þá milligöngu. Staðreyndin sé sú, að stefnandi hafi enga formlega aðkomu haft að þessu máli. Stefndi hafi hins vegar verið að taka yfir viðskiptasamband, sem stefnandi hafi á engan hátt getað sinnt lengur og hafi viljað losna við. Í þessu sambandi beri að athuga, að það hafi verið að frumkvæði Eurocermex, að stefnandi missti umboð sitt, vegna ástæðna, sem komi stefnda ekkert við.
Staðreynd málsins sé sú, að stefnandi hafi fullyrt við stefnda, að hann hefði heimild til að selja Corona-umboðið. Stefndi hafi mátt trúa því. Á grundvelli fullyrðingar stefnanda hafi verið gengið frá kaupsamningi milli aðila. Stefnanda hafi verið í lófa lagið að óska eftir því, að gerður yrði samningur um milligöngu hans við að koma á samningi milli stefnda og Eurocermex, en það hafi hann ekki gert, því hann hafi talið sig hafa heimild til að selja greint umboð. Af því beri hann hallann.
Það sé fráleitt, að stefnandi geti reist kröfur sínar um þóknun vegna milligöngu á kauptilboði stefnda. Einungis verði gerð krafa um greiðslu kaupverðs á grundvelli kaupsamnings, hafi sala átt sér stað, og eign hafi skipt um eigendur. Hér hafi hvorki átt sér stað sala né milliganga, og því ber að sýkna stefnda.
Það sé mat stefnda, að stefnandi sé að beina kröfum sínum að röngum aðila. Eigi stefnandi einhverjar kröfur, beri að beina þeim að fyrrum umbjóðanda á grundvelli samnings þeirra í milli.
Það sé ranglega farið með í stefnu, að stefnandi hafi verið fyrsti umboðsaðili Corona á Íslandi. Hið rétta í málinu sé, að stefndi hafi verið umboðsaðili löngu á undan stefnanda og hafi misst það umboð, án þess að greiðsla kæmi þar fyrir.
Því sé harðlega mótmælt, að stefndi hafi haft áhuga á að kaupa rekstur stefnanda, eins og fram komi í stefnu. Gert hafi verið kauptilboð í nánar tiltekið umboð, en ekki rekstur stefnanda, eins og kauptilboðið beri með sér. Ekki verði séð, hvaða akk stefndi hefði af því að kaupa rekstur stefnanda, sem hafi verið ógjaldfær.
Því sé jafnframt harðlega mótmælt, að myndazt hafi bindandi kaupsamningur, er stefnandi undirritaði kauptilboðið. Eins og áður greini, hafi tilboðið verið gert með fyrirvörum, sem aldrei hafi verið efndir, og þar af leiðandi hafi aldrei myndazt bindandi samningur milli aðila.
Í stefnu segi, að stefndi hafi greitt stefnanda kr. 3.500.000 samkvæmt drögum að kaupsamningi. Þessu sé harðlega mótmælt. Nefnd drög hafi ekki legið fyrir, er greiðslan átti sér stað, og því hafi hún ekki verið innt af hendi samkvæmt þeim. Drög þessi hafi ekki neina þýðingu í þessu máli, því þau hafi einungis verið lögð fram sem umræðugrundvöllur, og hafi stefndi átt eftir að aðlaga drögin, sem voru stöðluð, að viðkomandi viðskiptum.
Í stefnu leggi stefnandi mikið upp úr því, að samningsmarkmið hafi náðst, þ.e. stefndi sé orðinn umboðsaðili Corona, þótt það sé ekki rétt. Það, sem skipti hér öllu máli, sé, að stefndi hafi ekki orðið umboðsaðili fyrir tilstilli stefnanda, heldur hafi hann fengið umboðið beint frá Eurocermex. Stefnandi hafi reynt að selja annars manns eign. Það, að Eurocermex ráðstafi réttindum til stefnda, leiði ekki til þess, að stefnandi eigi rétt á greiðslu þar fyrir, heldur þvert á móti. Eins og fram komi í gögnum málsins, hafi Eurocermex ekki lengur viljað hafa stefnanda sem umboðsaðila á Íslandi og hafi á endanum rift þeirra réttarsambandi, eftir að stefnandi hafði lýst því yfir, að hann gæti ekki sinnt því hlutverki lengur. Stefnandi hafi því verið dottinn út úr myndinni, er stefndi fékk umboðið frá Eurocermex, og sá gerningur hafi ekkert komið stefnanda við. Bæði stefndi og Eurocermex hafi, er umboðssamningur var undirritaður, verið búnir að rifta gagnvart stefnanda, og hann hafi því ekki haft aðkomu að málinu.
Því sé andmælt sérstaklega, að stefnda hafi verið kunnugt um, að stefnandi hafi ekki haft heimild til að ráðstafa umræddu umboði. Stefnandi hafi fullyrt, að hann gæti það, og þess vegna hafi honum verið gert kauptilboð.
Það sé ljóst, af öllum bréfaskriftum milli stefnanda og Eurocermex, að stefnandi hafi viljað láta Eurocermex halda, að stefndi hefði verið dreifingaraðili Corona, samkvæmt gr. 13.1, dskj. nr 54, en ekki, að hann hefði keypt umboðið dýrum dómum. Varðandi blekkingarvef og svik stefnanda vísist til þess, er áður segi.
Stefnandi beri fyrir sig, að varðandi framsal á umboðum sé eitthvað til, sem kalla megi grundvallarreglu í viðskiptum og hefðbundnir viðskiptahættir. Því sé harðlega mótmælt, að nokkuð slíkt sé til staðar.
Upphafstíma dráttarvaxtakröfu stefnanda sé sérstaklega mótmælt. Stefndi byggi á því, að upphaftíma dráttarvaxta beri að miða við þann dag, er dómsmál sé höfðað, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
IV.
Forsendur og niðurstaða:
Fyrir dóminn komu til skýrslugjafar Þórir Einar Steingrímsson eigandi Ice-Mex ehf., Þorsteinn M. Jónsson forstjóri Vífilfells hf. og fyrrum stjórnarformaður Sólar-Víkings hf., og Stefán Steinsen fyrrverandi sölu- og markaðsstjóri hjá Sól-Víking hf.
Samningur sá, sem liggur til grundvallar viðskiptum aðila, er samþykkt tilboð á dskj. nr. 5. Tilboðið er samið af Stefáni Steinsen, sem var á þeim tíma sölu- og markaðsstjóri bjórhlutans hjá Sól-Víking hf., og sá hann að sögn alfarið um viðskiptin við stefnanda. Einnig fylgdist Þorsteinn M. Jónsson, þáverandi stjórnarformaður Sólar-Víkings, með þeim viðskiptum og þekkti efni tilboðsins. Stefán Steinsen skýrði m.a. svo frá fyrir dómi, að aðdragandi tilboðsgerðarinnar hefði verið sá, að þeir hefðu heyrt, að Ice-Mex væri í erfiðleikum og einhver hefði laumað því að þeim, að það gæti verið sniðugt að kaupa Corona-umboðið, því Ice-Mex hefði ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að kaupa inn vörur. Tilboðið hefði því verið gert að frumkvæði Sólar-Víkings hf. Tilboðið, sem gert var með fyrirvara um samþykki stjórnar Sólar-Víkings, hljóðar um kaup á Corona-umboðinu “sem er í eigu Ice-Mex ehf.” Tekur tilboðið til umboðsins, og alls sem því fylgir, sem er nánar tilgreint vörulager, með fyrirvara um samþykki á dagsstimplun og ástandi, viðskiptasamningar, auglýsingaefni, kostnaðarverð vöru og verð. Þá segir í tilboðinu, að forsendur þess séu þær, að umboðssamningur verði tryggður milli kaupanda og Corona til næstu 6 ára a.m.k. Ágreiningslaust er, að seljandi átti að sjá um, að þessu skilyrði væri fullnægt.
Fyrirliggjandi drög að kaupsamningi, sem útbúin voru af hálfu stefnda, gefa til kynna, að tilboðið hafi átt að taka til alls reksturs stefnanda, svo sem hann hefur haldið fram, og verður engan veginn ráðið af þeim drögum, að um staðlað form hafi verið að ræða. Hins vegar voru þau drög ekki undirrituð og hlutu því aldrei gildi samnings.
Sá fyrirvari, sem settur er í tilboðinu um forsendur þess, gefur til kynna, að sala á umboðinu hafi falizt í því að koma á samningi milli tilboðsgjafa og Corona-umboðsins. Í því felst loforð stefnanda um að afsala sér umboðinu. Sú skýring stefnda, að hann hafi staðið í þeirri trú, að stefnandi hefði heimild til að framselja samninginn við Eurocermex, án samþykkis hins erlenda aðila, svo sem Stefán Steinsen bar fyrir dómi, á ekki stoð í orðalagi tilboðsins, sem samið var af tilboðsgjafa, svo sem fyrr greinir. Þessi niðurstaða er jafnframt í samræmi við það, sem almennt gerist við sölu umboðs og sem stefnda var kunnugt um, sbr. framburð Þorsteins M. Jónssonar fyrir dómi, sem skýrði svo frá, að í þeim tilvikum, sem hann þekki til, myndi umboð ekki vera selt, nema í samstarfi við erlenda samstarfsaðila.
Sól-Víking greiddi stefnanda í kjölfar þess, að tilboðið var samþykkt, kr. 3.500.000, sem var hluti kaupverðsins, en fékk á móti ávísun að sömu fjárhæð til tryggingar þeirri fjárhæð, meðan samningurinn var ekki fullfrágenginn. Kaupandi tók jafnframt við dreifingu og sölu bjórsins, þótt umboðið hefði ekki verið formlega flutt á hans nafn. Enda þótt formlegt samþykki stjórnar stefnda hafi ekki legið fyrir, svo sem kveðið er á um í tilboðinu, er ljóst að stjórninni var kunnugt um kaupin, en Þorsteinn M. Jónsson var formaður stjórnar á þessum tíma, og voru aldrei gerðar athugasemdir af hálfu stjórnarinnar eða höfð uppi andmæli við kaupunum. Er ekki trúverðug sú skýring, að framangreind greiðsla upp í kaupverð hafi farið fram án vitundar eða vilja stjórnarinnar. Þá sendu aðilar sameiginlega yfirlýsingu til ÁTVR, dags. 21. marz 2001, um yfirtöku Sólar-Víkings á sölu og dreifingu Corona-bjórs.
Stefnandi tók að sér að afla samþykkis hins erlenda aðila samkvæmt tilboðinu, svo sem áður er rakið. Fyrir tilstilli stefnanda kom fulltrúi hins erlenda aðila, Angel Garcia Gomes, til Íslands, um páskana 2001. Var þá haldinn fundur hjá stefnda, nánar tiltekið þann 12. apríl, þar sem viðstaddir voru Angel Garcia Gomes, Þórir Steingrímsson, Stefán Steinsen og Þórður Gunnarsson frá Sól-Víking. Á þessum tíma var samningur aðila enn í fullu gildi og ekkert, sem benti til þess, að stefndi hefði talið að fram væru komnar ástæður, sem réttlætt gætu riftun hans. Í bréfi Angel Garcia Gomes til Þóris Steingrímssonar, dags. 10. apríl 2001, sbr. dskj. nr. 28, er engum vafa undirorpið, að tilgangur fundarins var að kynna fyrirtæki stefnda fyrir hinum erlenda aðila, með yfirtöku Sólar-Víkings á bjórumboðinu í huga. Þessi tilgangur er áréttaður í bréfi, sem barst Sól-Víking í kjölfar fundarins frá Angel Garcia, en bréfið er dagsett 13. apríl 2001. Þar er Stefáni Steinsen þökkuð kynningin þann 12. apríl og því lýst yfir, að Eurocermex sé nú í aðstöðu til þess að bjóða Sól-Víking að kaupa beint frá Eurocermex til dreifingar á Íslandi. Er síðan vísað til innihalds viðræðna aðila og Stefáni Steinsen boðið að undirrita bréfið, sé hann sammála skilmálum, sem þar koma fram, svo hægt verði að útbúa formlega viljayfirlýsingu, en þangað til gegni bréfið hlutverki formlegs samnings. Skilmálar og skilyrði fyrir samstarfi aðila eru síðan tilgreindir í 16 töluliðum. Í tl. 16 segir, að í upphafi muni viljayfirlýsingin gilda í 6 mánuði, frá 23. apríl til 31. október 2001, en að því loknu verði farið yfir stöðu mála, og séu báðir aðilar því samþykkir, verði undirritaður samningur, sem gildi til ársins 2006. Bréf þetta var undirritað af hálfu stefnda þann 2. maí 2001 og hlaut við það gildi samnings. Stefndi hefur lýsti því yfir, að ástæða þess, að ekki var undirritaður áframhaldandi samningur samkvæmt lokaákvæði 16. tl., hafi verið sú, að stefndu hafi ekki óskað eftir því, vegna málaferlanna við stefnanda, og hafi viljað fá það mál á hreint fyrst.
Á fundi Þóri Steingrímssonar með fyrirsvarsmönnum stefnda hinn 20. apríl 2001 var Þóri tjáð, að ekkert yrði af kaupunum vegna meints heimildarskorts stefnanda til sölunnar. Stefnanda var síðan tilkynnt með formlegum hætti með bréfi, dags. 5. júní 2001, að kaupsamningi aðila, sem byggðist á áðurnefndu tilboði, væri rift.
Það er ljóst, samkvæmt því, sem hér að framan hefur verið rakið, að stefnandi kom á samskiptum milli stefnda og hins erlenda fyrirtækis, sem leiddi til þess, að stefnda var sent framangreint bréf, eða samningur, til samþykktar, með vilyrðum um áframhaldandi samstarf. Verður ekki annað séð, en að stefnandi hafi verið búinn að uppfylla sinn hluta kauptilboðsins, þegar samningnum var rift, og skiptir þá ekki máli þótt svo virðist, sem stefnandi hafi ekki áður upplýst hið erlenda fyrirtæki nákvæmlega um samskipti sín og stefnda, svo sem skilja má af bréfaskiptum, sem frammi liggja í málinu. Milliganga stefnanda leiddi til samnings milli stefnda og erlenda fyrirtækisins, en atvik, sem stefnanda eru óviðkomandi, ollu því, að ekki hefur verið gengið formlega til áframhaldandi samstarfs. Stefndi hefur engu að síður farið með sölu og dreifingu bjórsins í raun og sýnist þannig, að um ótímabundinn umboðssamning sé að ræða, enda þótt aðilar kjósi að nefna hann ekki því nafni. Með hliðsjón af framburði Stefáns Steinsen fyrir dómi er ljóst, að erlenda fyrirtækið lagði fram aukið fé til markaðsstarfs, auk þess sem samningurinn gefur kost á frekara framlagi.
Fyrir tilstilli stefnanda hefur stefndi fengið það, sem hann keypti, með samþykki áðurgreinds tilboðs, og ber honum að standa stefnanda skil á kaupverðinu. Stefndi getur ekki borið fyrir sig, að stefnandi hafi ekki staðið við sinn hluta samningsins, eða ekki haft heimild til gerðar hans. Þegar hafa verið greiddar kr. 3.500.000 upp í kaupverðið. Ógreiddar eru kr. 24.500.000, sem stefnda ber að standa þrotabúi stefnanda skil á. Dráttarvextir dæmast eins og greinir í dómsorði. Þá hefur stefndi með höndum ávísun að fjárhæð kr. 3.500.000, sem var trygging fyrir efndum stefnanda. Ber stefnda að skila þrotabúi stefnanda þessari ávísun.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 1.600.000, en þá hefur ekki verið litið til virðisaukaskatts.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Vífilfell hf., greiði sóknaraðila, þrotabúi Ice-Mex ehf., kr. 24.500.000, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá 24.05. 2001 til 01.07. s.á., en samkvæmt 1. málsgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og kr. 1.600.000 í málskostnað.
Stefndi skal skila til sóknaraðila ávísun nr. 8102978, útgefinni af stefnanda 19.03. 2001, á tékkareikning stefnanda nr. 120-26-1019, að fjárhæð kr. 3.500.000.