Hæstiréttur íslands

Mál nr. 32/2012


Lykilorð

  • Lífeyrissjóður
  • Lífeyrisréttur


                                     

Þriðjudaginn 19. júní 2012.

Nr. 32/2012.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

(Þórey S. Þórðardóttir hrl.)

gegn

Þresti Ólafssyni

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

Lífeyrissjóður. Lífeyrisréttur.

Þ krafðist viðurkenningar á því að hann ætti rétt til lífeyrisgreiðslna úr B-deild L fyrir tímabil er hann gegndi starfi framkvæmdastjóra S og greiddi í A-deild sjóðsins. Starf Þ hjá S uppfyllti skilyrði laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins til aðildar að L. Með vísan til 8. mgr. 24. gr. laganna átti Þ því ekki, auk launa, jafnframt rétt til ellilífeyris úr hendi L meðan hann gegndi starfi hjá S. Taldi Hæstiréttur að með því að synja Þ um greiðslu ellilífeyris úr B-deild meðan hann gegndi enn starfi sem veitti rétt til aðildar að L hefði sjóðurinn ekki skert áunninn lífeyrisrétt hans. Þá þóttu engin rök standa til þess að gagnálykta frá lagaskilareglu 1. mgr. 37. gr. laganna á þann veg að Þ hafi, þrátt fyrir áðurnefnda 8. mgr. 24. gr. laganna, átt rétt til töku ellilífeyris samhliða því starfi sem hann gegndi, þar sem hann hafi ekki átt kost á að velja á milli þess að greiða iðgjöld til A- eða B-deildar L. Var L því sýknaður af kröfu Þ.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. janúar 2012. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi ávann stefndi sér lífeyrisréttindi hjá áfrýjanda á árunum 1971 til 1973, 1980 til 1983 og 1990 til 1997. Stefndi hóf störf 1. september 1998 sem framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands og óskaði þá eftir að fá að greiða iðgjald til B-deildar áfrýjanda, en því var synjað þar sem iðgjaldagreiðslur hans höfðu fallið niður í lengri tíma en tólf mánuði. Greiddi hann því eftir það í A-deild áfrýjanda vegna starfa sinna fyrir hljómsveitina.

Stefndi varð 67 ára 4. október 2006 og sótti 23. júlí 2007 um að fá greiddan lífeyri úr B-deild áfrýjanda samhliða starfi sínu hjá Sinfóníuhljómsveitinni. Þeirri umsókn fylgdi stefndi eftir með bréfi 30. ágúst sama ár til stjórnar áfrýjanda þar sem hann fór fram á að fá greidd uppsöfnuð réttindi sín í B-deildinni frá 1. nóvember 2006 til 30. september 2007 og síðan mánaðarlega eftir það. Með bréfi áfrýjanda 8. október 2007 var því erindi hans synjað.

II

Frá því að lög nr. 101/1943 um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins leystu af hólmi lög nr. 51/1921 um lífeyrissjóð embættismanna og ekkna þeirra og þar til lög nr. 141/1996 um lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins tóku gildi 1. janúar 1997 var lagaumgjörð og starfsemi áfrýjanda um margt frábrugðin því sem almennt gerist nú um lífeyrissjóði. Þannig áunnu sjóðfélagar sér ekki réttindi á grundvelli innborgaðra iðgjalda, heldur var mælt fyrir um þau í lögum, óháð iðgjöldum. Einnig var búið svo um hnúta að ríkissjóður og aðrir launagreiðendur stæðu undir skuldbindingum áfrýjanda gagnvart sjóðfélögum, þar á meðal var ríkissjóður í bakábyrgð fyrir öllum lífeyrisgreiðslum hans, sbr. 20. gr. laga nr. 29/1963 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. 

Í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963, sbr. 6. gr. laga nr. 98/1980, sagði að hver sjóðfélagi, er greitt hefði iðgjöld til áfrýjanda og orðinn væri fullra 65 ára að aldri, ætti rétt á árlegum ellilífeyri úr honum. Í lagagreininni var augljóslega gengið út frá, eins og áður hafði verið gert, að sjóðfélagi ætti því aðeins rétt á að fá ellilífeyri greiddan að hann hefði látið af starfi sem veitt hafði honum rétt til lífeyris. Í samræmi við það var kveðið á um í 6. mgr. greinarinnar að upphæð ellilífeyris væri hundraðshluti af kjarasamningsbundnum launum og persónuuppbót er á hverjum tíma fylgdi starfi því sem sjóðfélaginn gegndi síðast. Að auki kom þar fram að hundraðshlutinn, sem upphæð ellilífeyris sjóðfélaga miðaðist við, yrði hærri fyrir hvert starfsár eftir að iðgjaldagreiðslu lyki „og þar til sjóðfélaginn öðlast rétt til að láta af störfum og fá ellilífeyri.“ Enn fremur var svo fyrir mælt í 9. mgr. sömu lagagreinar að á meðan starfsmaður gegndi áfram starfi, eftir að hann hefði verið frá því leystur, eða hann fengi af öðrum ástæðum áfram greidd óskert laun, sem starfinu fylgdu, ætti hann ekki jafnframt rétt til lífeyris. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 29/1963, sbr. 1. gr. laga nr. 65/1990, var stjórn áfrýjanda veitt heimild til að taka meðal annarra í tölu sjóðfélaga starfsmenn Sinfóníuhljómsveitar Íslands, enda væru uppfyllt skilyrði sem kveðið var á um í a. lið 3. gr. I um ráðningartíma og aðalstarf.

Með lögum nr. 141/1996 voru gerðar gagngerar breytingar á lagaumgjörð áfrýjanda og þar með lífeyrisréttindum sjóðfélaga í honum. Komið var á nýju réttindakerfi, sem nýráðnir starfsmenn skyldu greiða iðgjald til, og var um það stofnuð sérstök deild í áfrýjanda, A-deild. Var að því stefnt, eins og fram kom í athugasemdum með frumvarpi til laganna, að sjóðfélagar áynnu sér rétt í hinu nýja kerfi á grundvelli innborgaðra iðgjalda. Eldra réttindakerfi var hins vegar lokað fyrir nýjum starfsmönnum og því skipað í sérstaka deild, B-deild. Meginreglan var sú að sjóðfélagar, sem áttu aðild að áfrýjanda við gildistöku laga nr. 141/1996, yrðu í B-deildinni, þar sem réttindareglur héldust að mestu leyti óbreyttar frá eldri lögum, nema þeir kysu að færa sig yfir í A-deildina.

Með heimild í 2. mgr. 34. gr. laga nr. 141/1996 var meginmál breytinga samkvæmt þeim lögum fellt inn í lög nr. 29/1963 og þau síðan gefin út sem lög nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Eftir 1. mgr. 4. gr. síðastgreindra laga skulu iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga og réttindaávinnsla til ársloka 1996 varðveitt í B-deild áfrýjanda. Í 2. mgr. 4. gr. þeirra segir að sjóðfélagar, sem greiddu iðgjald til áfrýjanda eða áunnu sér réttindi án iðgjaldagreiðslu við árslok 1996, skuli eiga rétt til aðildar að B-deild áfrýjanda á meðan þeir gegna störfum hjá ríkinu, enda séu þeir skipaðir, settir eða ráðnir til að minnsta kosti eins árs eða ráðnir með minnst þriggja mánaða uppsagnarfresti og starf þeirra sé eigi minna en hálft starf. Kjósi sjóðfélagi að greiða fremur iðgjald til A-deildar áfrýjanda sé honum það þó heimilt, enda hafi hann tilkynnt um þá ákvörðun sína fyrir 1. desember 1997, eins og segir í 4. mgr. sömu greinar. Samkvæmt málsgreininni fellur þá niður réttur hans til að greiða iðgjald til B-deildarinnar. Þar kemur enn fremur fram að sjóðfélagi geti einungis hafið greiðslu til A-deildar ef iðgjaldagreiðslur hans hafa fallið niður í tólf mánuði eða lengur. Í lagagreininni, einkum 5. mgr. hennar, er tekið af skarið um að sams konar reglur og að framan greinir skuli gilda um þá starfsmenn sem öðlast höfðu aðild að áfrýjanda á grundvelli 4. gr. laga nr. 29/1963, þar á meðal starfsmenn Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 1/1997 segir enn fremur að sjóðfélagi, sem ekki greiddi iðgjald til áfrýjanda við árslok 1996, án þess þó að formlegu ráðningarsambandi hans og launagreiðanda sem tryggir starfsmenn sína hjá sjóðnum hafi verið slitið, hafi sama rétt til aðildar að B-deild áfrýjanda og þeir einstaklingar sem falli meðal annars undir 2. og 5. mgr. 4. gr. laganna. Í niðurlagi 2. mgr. 5. gr. er kveðið á um að falli iðgjaldagreiðslur til áfrýjanda niður lengur en tólf mánuði eigi viðkomandi einstaklingur ekki framar rétt á aðild að B-deild áfrýjanda.

Í III. kafla laga nr. 1/1997 eru ákvæði um B-deild áfrýjanda. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laganna á hver sjóðfélagi, sem greitt hefur iðgjald til sjóðsins, rétt á lífeyri frá næstu mánaðamótum eftir að hann verður 65 ára „enda hafi hann þá látið af þeim störfum sem veitt hafa honum aðild að sjóðnum.“ Þá segir í fyrri málslið 8. mgr. sömu greinar: „Sjóðfélagi, sem gegnir starfi sem uppfyllir aðildarskilyrði að sjóðnum skv. 4. gr., á ekki auk launa jafnframt rétt til lífeyris meðan hann gegnir því starfi.

Með lögum nr. 141/1996 var svofellt ákvæði tekið upp í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 29/1963 sem síðar varð 1. mgr. 37. gr. laga nr. 1/1997: „Sjóðfélagar, sem rétt eiga á að greiða iðgjald til B-deildar lífeyrissjóðsins skv. 4. gr. en kjósa fremur að greiða til A-deildar, eiga ekki rétt til töku ellilífeyris úr B-deild á meðan þeir gegna störfum sem uppfylla aðildarskilyrði 4. gr.“ Ákvæði þetta var að finna í IV. kafla laganna, sem bar heitið „Gildistaka og lagaskil“, og fylgdu því svohljóðandi skýringar í athugasemdum með frumvarpi til þeirra: „Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. ... eiga sjóðfélagar í B-deild sjóðsins ekki rétt á lífeyri á meðan þeir gegna störfum sem uppfylla aðildarskilyrði að sjóðnum. Greinin er að þessu leyti óbreytt frá gildandi lögum sjóðsins. Ákvæði 1. mgr. 37. gr. frumvarpsins er til áréttingar því að sama gildi þó svo að sjóðfélagi, sem aðild hefur átt að B-deild sjóðsins, hefji iðgjaldagreiðslu til A-deildar hans. Þetta gildir um þá sjóðfélaga sem aðild eiga að sjóðnum við gildistöku þessara laga og færa sig yfir í A-deildina. Og þetta gildir einnig um þá sjóðfélaga sem eiga geymdan rétt í sjóðnum við gildistöku þessara laga en hefja síðar iðgjaldagreiðslu til A-deildar sjóðsins vegna starfa þar sem aðildarskilyrðum B-deildar um ráðningartíma og starfshlutfall er fullnægt.“ Umræddu ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga nr. 1/1997 hefur verið breytt með 1. gr. laga nr. 48/2010. Samkvæmt því eiga sjóðfélagar ekki rétt til töku ellilífeyris úr B-deild áfrýjanda á meðan þeir gegna störfum sem veitt hefðu rétt til aðildar að áfrýjanda fyrir stofnun A-deildar hans. Breytingin var meðal annars skýrð á þann veg í athugasemdum með frumvarpi til laganna að henni væri ætlað að taka af öll tvímæli um að þeir, sem væru í störfum er heimiluðu aðild að B-deild, gætu ekki samhliða slíkum störfum tekið ellilífeyri úr deildinni, jafnvel þótt greitt væri af því starfi í annan lífeyrissjóð.

III

Samkvæmt 5. mgr., sbr. 2. mgr., 4. gr. laga nr. 1/1997 áttu þeir starfsmenn Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem greiddu iðgjald til áfrýjanda eða áunnu sér réttindi hjá honum án iðgjaldagreiðslu við árslok 1996, rétt til aðildar að B-deild hans og áframhaldandi réttindaávinnslu hjá deildinni. Sem fyrr greinir höfðu iðgjaldagreiðslur stefnda til áfrýjanda fallið niður í meira en tólf mánuði er hann hóf störf hjá Sinfóníuhljómsveitinni. Af þeim sökum uppfyllti hann ekki lagaskilyrði til aðildar að B-deildinni, sbr. 2. mgr. 5. gr. sömu laga, og átti þar af leiðandi ekki val um hvort hann greiddi iðgjöld til hennar eða A-deildar áfrýjanda er hann hóf þar störf.

Eins og áður segir er svo fyrir mælt í 8. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997, sem eftir 22. gr. þeirra á sérstaklega við um B-deild áfrýjanda, að sjóðfélagi, sem gegnir starfi er uppfyllir aðildarskilyrði að áfrýjanda samkvæmt 4. gr., eigi ekki auk launa jafnframt rétt til lífeyris meðan hann gegnir því starfi. Ágreiningslaust er að starf framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem stefndi gegndi þegar hann fór fram á að fá greiddan ellilífeyri frá 67 ára aldri, uppfyllti skilyrði 2. mgr., sbr. 5. mgr., 4. gr. laganna til aðildar að áfrýjanda. Samkvæmt fyrrgreindu ákvæði 8. mgr. 24. gr. þeirra átti stefndi því ekki rétt til ellilífeyris úr hendi áfrýjanda meðan hann gegndi því starfi.

Þegar stefndi greiddi iðgjöld til áfrýjanda fram til 1. janúar 1997 gilti sem áður greinir sú meginregla samkvæmt 12. gr. laga nr. 29/1963 að sjóðfélagar áttu þá fyrst rétt á að fá greiddan ellilífeyri er þeir létu af starfi sem veitti rétt til aðildar að áfrýjanda. Með því að synja stefnda um greiðslu ellilífeyris meðan hann gegndi enn slíku starfi var áfrýjandi því ekki að skerða áunninn lífeyrisrétt hans. Af þeim sökum standa engin rök til þess að gagnálykta frá lagaskilareglu 1. mgr. 37. gr. laga nr. 1/1997, eins og hún hljóðaði upphaflega, á þann veg að stefndi hafi, þrátt fyrir fyrrgreint ákvæði 8. mgr. 24. gr. laganna, átt rétt til töku ellilífeyris samhliða því starfi, sem hann gegndi, þar sem hann hafi ekki átt kost á að velja á milli þess að greiða iðgjöld til A- eða B-deildar áfrýjanda. Þá er til þess að líta að þeir starfsmenn Sinfóníuhljómsveitarinnar, sem áttu rétt til aðildar að B-deildinni og gátu þar með kosið að færa sig úr henni yfir í A-deildina, áttu samkvæmt fyrirmælum laganna ekki rétt á ellilífeyri úr fyrrgreindu deildinni meðan þeir gegndu störfum hjá hljómsveitinni, hvorn kostinn sem þeir völdu. Væri fallist á kröfu stefnda með gagnályktun frá áðurnefndu ákvæði yrði honum veittur rýmri réttur en umræddum starfsmönnum vegna þess að iðgjaldagreiðslur hans höfðu fallið niður um meira en tólf mánaða skeið.

Samkvæmt öllu framansögðu verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda í máli þessu, en rétt þykir að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, er sýkn af kröfu stefnda, Þrastar Ólafssonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. október 2011.

Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 30. ágúst 2010. Það var dómtekið að lokinni aðalmeðferð þann 20. júní 2011, en dómtekið að nýju eftir aðalmeðferð þann 12. október 2011.

Stefnandi er Þröstur Ólafsson, Bræðraborgarstíg 21B, Reykjavík, en stefndi er Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Bankastæti 7, Reykjavík.

Stefnandi krefst viðurkenningar á því að stefnda beri að greiða stefnanda mánaðarlega ellilífeyri úr B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins frá og með 1 nóvember 2006 til og með 31. desember 2009 í samræmi við áunnin réttindi stefnanda.

Stefnandi krefst jafnframt viðurkenningar á þeirri skyldu stefnda að greiða dráttarvexti af mánaðarlegum lífeyrisgreiðslum til stefnanda vegna tímabilsins frá og með 1. nóvember 2006 til greiðsludags samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar auk lögmælts virðisaukaskatts samkvæmt lögum nr. 50/1988.

Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar að skaðlausu.

Málsatvik

Með lögum nr. 141/1996 var eldri lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins nr. 29/1963 breytt og þau svo endurútgefin sem lög nr. 1/1997. Fyrir gildistöku laga nr. 141/1996 starfaði Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins í einni deild en eftir gildistöku laganna var honum skipt í A- og B-deild. Með breytingunum árið 1996 var stefnt að því að loka eldra lífeyrissjóðakerfi, sem var að miklu leyti gegnumstreymiskerfi, og opna nýtt kerfi sem byggði á sjóðsöfnun þar sem iðgjöldin stæðu að fullu undir lífeyrisgreiðslum. Nýja kerfið var kallað A-deild en eldra kerfinu var lokað fyrir nýjum launagreiðendum og nýjum sjóðfélögum og kallað B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Ákveðið var að þeir sem þegar greiddu til stefnda gætu haldið óbreyttri aðild að sjóðnum en það átti þá jafnt við launagreiðendur sem heimild höfðu til að greiða fyrir starfsmenn sína í sjóðinn, auk sjóðfélaga. A-deild stefnda er uppbyggð á þann hátt að henni er ætlað að eiga fyrir skuldbindingum sínum á hverjum tíma og eru iðgjaldagreiðslur því við það miðaðar. B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins er aftur á móti aðeins að hluta til sjóðsöfnun en að meginstefnu til gegnumstreymiskerfi þar sem launagreiðendur standa straum af öllum hækkunum sem verða á áður úrskurðuðum lífeyri, sbr. 33. gr. laga nr. 1/1997.

Stefnandi máls þessa er sjóðfélagi hjá stefnda og hefur áunnið sér lífeyrisréttindi úr bæði A-deild stefnda og B-deild stefnda, sbr. lög nr. 1/1997 um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Á árunum 1971-1973, 1980-1983 og 1990-1995 starfaði stefnandi sem aðstoðarmaður ráðherra og ávann sér lífeyrisréttindi úr B-deild og greiddi einnig í þá deild þegar hann var framkvæmdastjóri þingflokks Alþýðuflokksins 1995-1997. Þegar stefnandi hóf störf sem framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands í september 1998, óskaði hann eftir því að fá að greiða áfram í B-deild. Þeirri beiðni var hins vegar synjað þar sem hann fullnægði ekki skilyrðum um samfellu í iðgjaldagreiðslum í B-deild. Stefnandi greiddi því eftirleiðis iðgjöld í A-deild stefnda en hann lét af störfum hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands haustið 2009.

Þegar stefnandi náði 67 ára aldri í október 2006 fór hann að huga að lífeyrissjóðsréttindum sínum. Tilefni þessa var tilkynning stefnda um að stefnandi ætti lífeyrisjóðsréttindi og í kjölfar þess sótti stefnandi um lífeyri úr B-deild með umsókn dags. 23. júlí 2007. Við nánari eftirgrennslan stefnanda var honum hins vegar tjáð að af greiðslum gæti ekki orðið og vísað til reglna þar um.

Í tilefni ofangreindrar synjunar ritaði stefnandi bréf til stjórnar stefnda, dags. 30. ágúst 2007, þar sem hann ítrekaði kröfur sínar. Erindið var afgreitt á fundi stjórnar stefnda 3. október 2007 þar sem því var synjað. Í kjölfar þess fékk stefnandi bréf frá stefnda, dags. 8. október 2007 þar sem segir m.a.: „Stjórnarmenn lögðu á það áherslu að stofnun A-deildar LSR hafi ekki verið ætlað að opna þann möguleika að fastráðnir starfsmenn geti tekið lífeyri úr B-deild samhliða störfum. Synjun á aðild að B-deild byggir á því að ekki hafi verið greitt í deildina í tólf mánuði en þar sem starfið uppfyllir almenn skilyrði B-deildar er ekki heimilt að greiða lífeyri samhliða starfi, sbr. nánar 54. gr. samþykkta LSR.“ Í framhaldi af þessu leitaði stefnandi sér lögfræðiaðstoðar vegna málsins og bar synjun stefnda undir umboðsmann Alþingis með kæru, dags. 18. janúar 2008.

Þann 5. mars 2010 skilaði settur umboðsmaður ítarlegu áliti sínu í máli stefnda, nr. 5222/2008. Þar eru rakin lagasjónarmið er varða 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar. Þá er í álitinu fjallað um synjun stefnda, dags. 8. október 2007, á beiðni stefnanda um lífeyrisgreiðslur úr B-deild stefnda, hafi verið í samræmi við lög. Eru ákvæði laga nr. 7/1997 rakin, forsaga þeirra og lögskýringargögn. Um lögmæti ofngreindrar synjunar stefnda á beiðni um greiðslu lífeyris segir m.a.: „Með vísan til þess sem að framan greinir er það niðurstaða mín að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hafi ekki sýnt mér fram á að sjóðurinn hafi haft nægilega ótvíræða og skýra heimild í lögum nr. 1/1997 til að synja A um lífeyri úr B-deild sjóðsins hinn 8. október 2007. Ég legg á það áherslu að hvað sem líður réttmæti þeirra fullyrðinga sjóðsins að það hafi verið „vilji löggjafans“ og „meginmarkmið“ við setningu laganna að girða alfarið fyrir að þeir sem ættu réttindi í B-deild gætu hafið töku þeirra samhliða störfum sem uppfylla aðildarskilyrði að sjóðnum, hvort sem er í A- eða B-deild, verður ekki dregin sú ályktun af ákvæðum laganna að löggjafinn hafi með beinum ákvæðum laganna fjallað um tilvik það sem fjallað er um í áliti þessu. Þegar reynir á hagsmuni sem njóta verndar mannréttindarákvæða stjórnarskrárinnar verður ekki að jafnaði á það fallist að sá einstaklingur, sem í hlut á, verði við slíkar aðstæður látinn bera hallann af skorti á skýrum og ótvíræðum fyrirmælum löggjafans um tilvist skerðingar slíkra réttinda.“

Niðurstaða setts umboðsmanns Alþingis var því sú að synjun stefnda, dags. 8. október 2007, á beiðni stefnanda um rétt til lífeyris úr B- deild sjóðsins, hafi ekki verið í samræmi við lög og segir í niðurstöðu: „Með vísan til þess sem framan er rakið er það niðurstaða mín að synjun Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, dags. 8. október 2007, á beiðni A um rétt til lífeyris úr B-deild sjóðsins, hafi ekki verið í samræmi við lög.“ Jafnframt beindi settur umboðsmaður þeim almennu tilmælum til stefnda að tekin yrði eins fljótt og kostur væri afstaða til þess hvort og þá með hvaða hætti yrði brugðist við gagnvart þeim sjóðfélögum sem teldust að mati stefnda vera í sömu stöðu og stefnandi.

Í kjölfar þessarar niðurstöðu tók stjórn stefnda málið til umfjöllunar að nýju á fundi þann 13. mars 2010. Taldi stjórnin sér ekki fært að greiða út lífeyri til stefnanda og annarra sem eins væri ástatt um og tilkynnti stefnda því óbreytta afstöðu sína með bréfi dags. 23. mars 2010. Í niðurlagi bréfsins segir jafnframt: „Eftir að umboðsmaður hefur látið álit sitt í ljós ríkir hins vegar nokkur óvissa og af því tilefni verður lagt til að lagatextanum verði breytt til að skýra og styrkja lagastoðina undir núverandi framkvæmd.“

Þær lagabreytingar sem hér er vísað til eru lög nr. 48/2010 um breyting á lögum nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og lögum um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga,  sem tóku gildi 1. júní 2010.

Þar sem stefnandi var ósáttur við ofangreinda afstöðu stefnda höfðaði hann mál þetta til úrlausnar um ágreininginn.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi telur að réttur hafi verið á honum brotinn með synjun stefnda um lífeyrisgreiðslur úr B-deild stefnda, það tímabil sem um ræðir. Þar sem honum hafi verið synjað um aðild að B-deild þegar hann hóf störf hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands hafi samskiptum hans við þá deild þar með verið lokið. Réttur hans til að fá greiddan lífeyri úr B-deild eftir að hann hafi náð tilteknum aldri hljóti því að taka mið af algerlega aðskildum deildum hvað hann snerti þótt sjóðurinn sé sá sami.

Um rétt stefnanda til greiðslu lífeyris séu skýr ákvæði í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þar segi að hver sjóðfélagi, sem greitt hefur iðgjald til sjóðsins eigi rétt á lífeyri frá næstu mánaðamótum eftir að hann verður 65 ára, enda hafi hann þá látið af þeim störfum sem veitt hafa honum aðild að sjóðnum.  Stefnandi hafði látið af þessum störfum fyrir löngu og uppfylli önnur skilyrði laganna til að eiga rétt á greiðslu.

Í málinu sé byggt á eftirfarandi málsástæðum: Lífeyrisréttindi stefnanda njóti verndar grundvallarreglu 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 um friðhelgi eignarréttar. Þau verði því ekki tekin af stefnanda nema fullar bætur komi fyrir. Að íslenskum rétti njóti eignarrétturinn jafnframt verndar 1. mgr. 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sem hafi verið veitt lagagildi með ákvæði 1. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.

Stjórn stefnda hefði þurft að styðja synjun sína við beiðni stefnanda við skýra og ótvíræða heimild í lögum nr. 1/1997 eða eftir atvikum í samþykktum sjóðsins, enda hafði stefnandi þá fullnægt lágmarksaldursskilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997, sbr. Hrd. 1998, bls. 2140. Hér gildi það lögskýringarsjónarmið að vafa um hvort stjórn sjóðsins hafi haft viðhlítandi heimild til að synja stefnanda um rétt til lífeyris verði almennt að túlka stefnanda í hag sem handhafa þeirra réttinda sem njóti stjórnskipulegrar verndar. Enn fremur styðjist þessi ályktun við lögmætisreglu stjórnsýsluréttar sem kunni eftir atvikum að þurfa að horfa til þegar stjórn stefnda taki ákvarðanir um réttindi sjóðfélaga, en samkvæmt henni geti stjórnvöld eða aðilar, sem hafi með lögum fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna, ekki íþyngt einstaklingum með ákvörðunum sínum nema þau hafi til þess viðhlítandi heimild í lögum. Eftir því sem slík ákvörðun verði meira íþyngjandi því strangari verði þær kröfur sem gera verði til þess að lagaheimildin sé skýr og ótvíræð.

Synjun stefnda byggi á 8. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997. Með vísan til lögskýringargagna að baki ákvæðinu, sé ótvírætt að takmörkunarregla ákvæðisins sé bundin við þau tilvik þegar sjóðfélagi, sem náð hafi lágmarksaldri 1. mgr. 24. gr. og óski eftir rétti til lífeyris, gegni starfi sem geti veitt honum sjálfum vegna starfs síns rétt til aðildar að B-deild lífeyrissjóðsins eftir þeim reglum sem fram komi í 4. gr. laganna. Þannig fari hann fram á útgreiðslu lífeyris á sama tíma og hann gegni starfi þar sem hann og launagreiðandi hans geti greitt iðgjald í B-deildina í samræmi við 23. gr. laganna. Ofangreind tilvik eigi ekki við um stefnanda í máli þessu.

Stefndi hafi ekki fært fram nein haldbær rök fyrir þeim skilningi að einungis sé áskilið samkvæmt 8. mgr. 24. gr., að launagreiðandi hafi í tilviki einhverra starfsmanna, eftir atvikum samkvæmt 5. mgr. 4. gr. laga nr. 1/1997, heimild til að greiða fyrir þá starfsmenn sína í B-deild sjóðsins. Ákvæði 5. mgr. 4. gr. eigi einfaldlega ekki við þegar starfsmaðurinn greiði sjálfur iðgjald til A-deildar á grundvelli 13. gr. laga nr. 1/1997 þar sem hann hafi þá annað hvort kosið sjálfur að færa sig yfir í þá deild eða hann hafi ekki lengur átt rétt til aðildar að B-deildinni vegna skilyrða um samfellu í iðgjaldagreiðslum, sbr. 2. mgr. 5. gr. Þegar starfsmaður eigi ekki sjálfur rétt til aðildar að B-deildinni og greiði í starfi sínu iðgjald til A-deildar sjóðsins geti hann ekki talist gegna starfi sem uppfylli aðildarskilyrði að sjóðnum samkvæmt 4. gr. í merkingu 8. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997. Skipti þá engu máli þótt launagreiðandinn kunni í tilviki annarra starfsmanna að hafa heimild til að greiða í B-deild sjóðsins á grundvelli 5. mgr. 4. gr. sömu laga. Líta verður til þess að 8. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997, eins og túlka verði hana í ljósi markmiðsákvæðis 1. gr. laganna, beinist að réttarstöðu sjóðfélagans sjálfs en ekki að réttarstöðu eða heimild launagreiðanda hans. Að öllu þessu virtu og í ljósi stjórnarskrárvarins réttar stefnanda til að njóta lífeyrisréttinda beri stefnda að verða við kröfum stefnanda í máli þessu.

Krafa um viðurkenningu á þeirri skyldu stefnda að greiða dráttarvexti af mánaðarlegum lífeyrisgreiðslum til stefnanda vegna tímabilsins frá og með 1. nóvember 2006 til greiðsludags er byggð 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Verði krafan um greiðslu ellilífeyris viðurkennd sé stefnanda nauðsynlegt að fá viðurkenndan rétt sinn til greiðslu dráttarvaxta af þeim fjárhæðum sem þá komi til greiðslu. Stefnanda er nauðsynlegt að fá dóm fyrir þessu atriði þar sem stefndi hafi sjálfur sett sér reglur um leiðréttingar á lífeyri til sjóðfélaga, sem séu á skjön við ákvæði laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Málskostnaðarkrafa byggir á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað byggir á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Varðandi réttarfar vísast að öðru leyti til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, m.a. 3. mgr. 25. gr.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir synjun sína á kröfu stefnanda til töku lífeyris úr stefnda einkum á eftirfarandi röksemdum:

Starf stefnanda sem fastráðinn forstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands uppfylli almenn skilyrði sem sett séu fyrir aðild að B-deild, þ.e. að vera skipaður, settur eða ráðinn til a.m.k. eins árs eða ráðning með minnst þriggja mánaða uppsagnarfresti og að starfið sé eigi minna en hálft starf, sbr. nánar 2. og 5. mgr. 4. gr. laga nr. 1/1997, sbr. lög nr. 141/1996. Í 5. mgr. 4. gr. laga nr. 1/1997 komi fram að launagreiðendur hafi sömu heimild til að greiða fyrir starfsmenn sína í sjóðinn. Í ákvæðinu sé vísað til þeirra sem heimild hafi haft til að greiða til sjóðsins samkvæmt lögum nr. 29/1963 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins en þau lög hafi verið endurútgefin eftir gildistöku laga nr. 141/1996 sem lög nr. 1/1997. Sinfóníuhljómsveit Íslands hafði og hafi enn heimild til að greiða iðgjöld til B-deildar LSR fyrir starfsmenn sína sem gegni störfum sem uppfylli þau skilyrði sem tilgreind hafi verið í 3. gr. I.a. laga nr. 29/1963 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Samkvæmt því þurfi starfið að vera „til eigi skemmri tíma en eins árs eða með minnst þriggja mánaða uppsagnarfresti, enda sé það starf þeirra aðalstarf og hlutaðeigandi taki ekki minna en hálf laun, er slíku starfi fylgi fyrir fullan vinnutíma.“

Ástæða þess að stefnandi hafi ekki greitt til B-deildar sjóðsins af starfi sínu hafi verið sú að iðgjaldagreiðslur höfðu fallið niður í lengri tíma en tólf mánuði og því ekki réttur til frekari ávinnslu til deildarinnar, sbr. ákvæði í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 1/1997. Starf stefnanda sem slíkt hafi hins vegar uppfyllt öll skilyrði þess að heimilt væri að greiða af því til B-deildar.

B-deild sjóðsins sé ekki nema að litlu leyti fjármögnuð með iðgjöldum og sé að stærstum hluta fjármögnuð með samtíma greiðslum frá launagreiðendum og ríkissjóði, sbr. 32. og 33. gr. laga nr. 1/1997. Lífeyriskerfi B-deildar sé því ekki nema að litlu leyti sjóðsöfnun heldur byggir fjármögnunin á gegnumstreymi. Það sé í andstöðu við uppbyggingu kerfisins, sem ekki standi undir lífeyrisgreiðslum með iðgjöldum, og réttindi séu á ábyrgð launagreiðanda og ríkissjóðs, að heimila lífeyristöku samhliða fullum störfum sem séu skipun, setning eða ráðning til a.m.k. eins árs eða ráðning með minnst þriggja mánaða uppsagnarfresti. Tilgangur greiðslu eftirlauna úr B-deild sjóðsins sé að greiða lífeyri eftir að látið hafi verið af föstum störfum hjá launagreiðanda sem heimild hafi til að greiða til sjóðsins fyrir starfsmenn sína. Ákvæði laga sjóðsins beri að túlka til samræmis við þann tilgang.

Með lögum nr. 141/1996 hafi A-deild sjóðsins verið stofnuð sem byggi á fullri sjóðsöfnun. Eldri réttindi í sjóðnum hafi verið skilgreind sem B-deildar réttindi. Sjóðfélagar hafi fengið val um hvort þeir vildu hefja greiðslur til A-deildar eða halda óbreyttri réttindaávinnslu í B-deild. Við stofnun A-deildar hafi ekki verið ætlunin að opna á þann möguleika að hefja ávinnslu í A-deild og taka lífeyri úr B-deild samhliða störfum sem veitt hefðu aðild að B-deild fyrir gildistöku laga nr. 141/1996.

Fyrir stofnun A-deildar hafi verið fyrir ákvæði í lögum um sjóðinn sem nú sé í 8. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997 sem ætlað sé að koma í veg fyrir að sjóðfélagar taki lífeyri samhliða störfum sem uppfylli hin almennu aðildarskilyrði að sjóðnum. Við stofnun A-deildar hafi að auki verið sett ákvæði sem er í 37. gr. laga nr. 1/1997 og hafi verið ætlað að koma í veg fyrir þann möguleika að réttur skapaðist til lífeyristöku úr B-deild ef greitt væri til A-deildar.

Ákvæðið hafi það meginmarkið að koma í veg fyrir að sjóðfélagar geti hafið lífeyristöku samhliða störfum, sem fyrir stofnun A-deildar hefðu verið þess eðlis að samhliða þeim væri ekki unnt að hefja töku lífeyris, sbr. meginrökin að baki núgildandi 8. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997. Stefndi byggi á því að skýra beri ákvæðið til samræmis við tilgang sinn og vísi til athugasemda við 37. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 141/1996.

Fyrir stofnun A-deildar hafi verið greitt af starfi forstjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands til sjóðsins og hafi þá legið ljóst fyrir að ekki væri réttur til að hefja töku lífeyris úr sjóðnum vegna starfa hjá fyrrum launagreiðendum. Sú staðreynd að ávinnsla réttinda í B-deild sé vegna annarra starfa en hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands skipti ekki máli við mat á rétti til töku lífeyris úr B-deild. Enda sé það afar algengt að réttindaávinnsla í B-deild sé vegna starfa hjá mörgum launagreiðendum en slíkt hafi engin áhrif á það hvort réttur skapist til lífeyristöku. Ljóst megi vera að með stofnun A-deildar hafi ekki verið ætlað að auka á skuldbindingar launagreiðenda og ríkissjóðs með því að opna á frekari eftirlaunaréttindi úr B-deild en verið hafði fyrir gildistöku laga nr. 141/1996.

Í þessu sambandi skuli bent á að vilji löggjafans hafi ekki staðið til þess að veita þann rétt sem stefnandi geri kröfu um og skýrt, þegar lögskýringargögn séu skoðuð, að ekki hafi verið ætlunin að veita réttindi til eftirlauna samhliða fullum störfum. Við útreikning á réttindum sjóðfélaga og þeim skuldbindingum sem hvíli á launagreiðendum og ríkissjóði sé ekki gert ráð fyrir að skuldbindingar B-deildar hafi aukist við stofnun A-deildar vegna þess möguleika að sjóðfélagar gætu tekið lífeyri samhliða störfum, sem áður hefðu veitt aðild að B-deild og því fyrirgert samhliða lífeyristöku.

Stefndi taki undir þau sjónarmið stefnanda að áunnin réttindi til lífeyris njóti verndar sem önnur eignarréttindi samkvæmt Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Í þessu máli liggi hins vegar ekki fyrir að lífeyrisréttur sé til staðar sem felist í rétti til töku lífeyris samhliða starfi, en ljóst sé að við setningu laga nr. 141/1996, þ.e. við stofnun A-deildar, hafi ekki verið ætlunin að skapa rétt til lífeyris samhliða störfum.

Við stofnun A-deildar og síðar hafi ekki verið gert ráð fyrir auknum skuldbindingum sem væru samfara því að heimila stefnanda og öðrum sjóðfélögum í sambærilegri aðstöðu rétt til töku lífeyris samhliða störfum sem greitt hefði verið af til B-deildar fyrir stofnun A-deildar. Launagreiðendur og ríkissjóður hafi ekki við útreikninga á lífeyrisskuldbindingum gert ráð fyrir slíkum réttindum og ljóst sé að það hafi ekki verið fyrr en mál stefnanda hafi komið upp að í ljós hafi komið að lögin hafi ekki verið eins skýr og æskilegt hefði verið. Óskýr lagatexti 37. gr. laga nr. 1/1997, sem hafi þann tilgang að koma í veg fyrir tvítryggingu réttinda og þar með lífeyristöku samhliða störfum, verði vart talinn geta skapað lífeyrisréttindi sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Launagreiðendur sem greiði fyrir starfsmenn sína til stefnda hafi ekki reiknað með því að þurfa að greiða lífeyri til starfsmanna fyrr en eftir starfslok. Önnur niðurstaða sé í andstöðu við tilgang eftirlauna, sem sé að greiða lífeyri eftir að störfum sé lokið.

Heimild til töku eftirlauna úr eftirlaunakerfi ríkisstarfsmanna, sem byggi á gegnumstreymi samhliða föstum störfum hjá sömu launagreiðendum, verði að vera skýr og geti ekki byggst á óljósum ákvæðum laga þar sem meginreglan sé sú að sjóðfélagar í B-deild verði að láta af störfum til að öðlast rétt til lífeyristöku. Ákvæði laganna beri að túlka til samræmis við tilgang sjóðsins að greiða lífeyri eftir starfslok.

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að stefnandi eigi rétt til að hefja töku lífeyris úr B-deild stefnda samhliða störfum sem greitt hafi verið af til B-deildar fyrir stofnun A-deildar, liggi ljóst fyrir að stefnandi ætti þá jafnframt rétt til greiðslu dráttarvaxta á kröfu sína, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Stefndi vísi til ákvæða laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, einkum 8. mgr. 24. gr. og 37. gr. laganna. Sérstaklega er vísað til síðari breytingar laga nr. 1/1997 með lögum nr. 49/2010. Jafnframt er vísað til 54. gr. samþykkta stefnda. Hvað varðar málskostnaðarkröfuna þá vísist til 1. mgr. 130. gr., sbr. 4. mgr. 129. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Bent sé á að stefndi er ekki virðisaukaskattskyldur aðili og krafa um greiðslu er jafngildir virðisaukaskattsgreiðslu af málflutningsþóknun byggist á lögum nr. 50/1988.

Forsendur og niðurstaða

Stefnandi málsins er sjóðfélagi hjá stefnda og hefur með störfum sínum á árunum 1971-1997 áunnið sér lífeyrisréttindi úr B-deild hans, sbr. lög nr. 1/1997 um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Stefnandi hefur sömuleiðis áunnið sér lífeyrisréttindi úr A-deild sjóðsins með störfum sínum á árunum 1998-2009. Tildrög þess að stefnandi hóf að greiða iðgjöld í A-deild sjóðsins voru þau að hann hóf störf hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands haustið 1998 og óskaði þá eftir því að fá að greiða áfram iðgjöld í B-deild sjóðsins. Þessari beiðni hans var synjað. Byggðist synjun stefnda á því að samfellu skorti í störfum hans, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 1/1997 en greinin fjallar um þá aðstöðu er sjóðsfélagi hættir í starfi eða skiptir um starf og óskar eftir áframhaldandi aðild að B-deild. Segir í greininni að sjóðfélagi eigi rétt til aðildar að B-deildinni, svo fremi hann hefji aftur starf sem veitir honum rétt til aðildar að deildinni eigi síðar en tólf mánuðum frá því að iðgjaldagreiðslur féllu niður.  Starf stefnanda hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands uppfyllti hins vegar aðildarskilyrði að B-deildar. Varð stefnandi því að sætta sig við að greiða iðgjöld í A-deild þaðan í frá. Er þetta ágreiningslaust í málinu. Jafnframt er ágreiningslaust að hin áunnu réttindi stefnanda hjá stefnda séu stjórnarskrárvarinn eignarréttur skv. 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Ágreiningur málsins lýtur að því hvort að stefnandi, sem varð 67 ára í október 2006, eigi rétt til lífeyrisgreiðslna úr B-deild frá 1 nóvember 2006 til og með 31. desember 2009, sem er það tímabil er stefnandi gegndi starfi hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands og greiddi iðgjöld í A-deild sjóðsins eins og áður segir.

Stefnandi byggir á því að þar sem um stjórnarskrárvarin réttindi sé að ræða hafi stefndi þurft skýra og ótvíræða heimild í lögum, eða eftir atvikum í samþykktum sjóðsins, til að byggja synjun sína á. Leiki vafi á skýrleika laga beri að túlka þann vafa stefnanda í hag. Þá telur stefnandi að ákvæði 8. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997, sem synjun stefnda sé byggð á, eigi ekki við um tilvik stefnanda.

Stefndi telur hins vegar að lög og lögskýringargögn leiði til þeirrar niðurstöðu að stefnandi eigi ekki tilkall til lífeyrisgreiðslna úr B-deild fyrir það tímabil er krafa hans lítur að. Réttindi stefnanda fyrir umrætt tímabil hafi ekki stofnast, en  8. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997 girði fyrir að sjóðfélagar geti tekið lífeyri samhliða fullu starfi, sem uppfyllir aðildarskilyrði að sjóðnum, skv. 4. gr. laga nr. 1/1997. Stefndi byggir sömuleiðis á 37. gr. laganna sem komi í veg fyrir að réttur skapist til lífeyris úr B-deild ef jafnframt er greidd iðgjöld í A-deild. Réttindi stefnanda hafi því verið geymd réttindi í B-deild sjóðsins.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 1/1997 er hlutverk stefnda að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri samkvæmt ákvæðum laganna.  Sjóðfélagar eru skv. 2. gr. laganna þeir sem greiða iðgjald til sjóðsins, þeir sem njóta elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum og þeir einstaklingar sem með iðgjaldagreiðslum hafa áunnið sér rétt í sjóðnum en greiða ekki lengur iðgjald og hafa ekki hafið töku lífeyris úr sjóðnum.

Í 4. gr. laganna er að finna aðildarskilyrði að B-deild sjóðsins. Samkvæmt 1. gr. skulu iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga og réttindaávinnsla til ársloka 1996, varðveitt í B-deildinni. Samkvæmt 4. mgr., getur sjóðfélagi kosið að greiða fremur iðgjald í A-deild ef hann er að skipta um starf, enda uppfylli nýja starfið aðildarskilyrði að sjóðnum, eða ef iðgjaldagreiðslur hans hafa fallið niður af öðrum ástæðum í tólf mánuði eða lengur. Í 5. mgr. greinarinnar er fjallað um launagreiðendur sem greiða iðgjald fyrir starfsmenn sína og halda áfram heimild sinni til greiðslu iðgjalds til B-deildar fyrir starfmenn sína og aðra sem greiddu iðgjald til sjóðsins fyrir árið 1996. Kjósi sjóðsfélagi að færa iðgjöld sín yfir til A-deildar, að uppfylltum skilyrðum þar um, fellur niður heimild hans til að greiða iðgjald til B-deildar.

Í III. kafla laga nr. 1/1997 er nánar fjallað um B-deild stefnda. Í 1. mgr. 24. gr. laganna segir að hver sjóðfélagi, sem greitt hafi iðgjald til sjóðsins, eigi rétt á lífeyri frá næstu mánaðamótum eftir að hann verður 65 ára, enda hafi hann þá látið af þeim störfum sem veitt hafa honum aðild að sjóðnum.

Í 8. mgr. 24. gr. segir að sjóðfélagi, sem gegnir starfi sem uppfyllir aðildarskilyrði að sjóðnum skv. 4. gr. eigi ekki auk launa jafnframt rétt til lífeyris meðan hann gegnir því starfi. Sama eigi við um þá sem fá óskert laun, sem starfinu fylgja, eftir að þeir láta af störfum.

Ákvæði þetta var lögfest í tíð eldri laga nr. 29/1963 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, en var breytt með lögum nr. 141/1996 til þess að taka af öll tvímæli um inntak hennar. Ákvæðið er óbreytt í núgildandi lögum. Af athugasemdum við greinina í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 141/1996 má sjá að nauðsynlegt þótti að leggja áherslu á að sjóðfélagar hefðu látið af störfum, sem veittu þeim aðild að sjóðnum, til þess að eiga rétt á lífeyri úr B-deild. Þar segir m.a.: „Málsgrein þessari sé ætlað að taka af öll tvímæli. Í henni er tvennt tiltekið: Í fyrsta lagi það að ef sjóðsfélagi gegnir starfi sem uppfyllir aðildarskilyrði að B-deild sjóðsins, skv. 4. gr. laga hans, eigi hann ekki rétt á lífeyri. Samkvæmt þessu á sjóðsfélagi hins vegar rétt á lífeyri eftir að hann hefur látið af þeim störfum, sem veitt geta honum rétt til aðildar að B-deild sjóðsins skv. 4. gr., að því tilskyldu að hann hafi þá náð þeim aldri að hann eigi rétt á lífeyri. Breytir þá engu hvort hann stundi launaða vinnu sem ekki getur veitt aðild að B-deildinni. Í öðru lagi er tiltekið í málsgreininni að ef sjóðsfélagar fá áfram óskert laun sem starfinu fylgja eftir að þeir láta af störfum, eigi þeir ekki jafnfram rétt til lífeyris.“

Með lagaákvæði þessu er þannig verið að leggja áherslu á, að óski sjóðfélagi, sem uppfyllir skilyrði 1. mgr. 24. gr. laganna, eftir að hefja töku lífeyris úr  B-deild sé það skilyrði að hann hafi látið af starfinu sem veitti honum aðild að deildinni. Þannig geti sjóðfélagi B-deildar ekki greitt iðgjöld til B-deildar og samhliða því þegið lífeyri úr deildinni.

Með tilkomu A-deildar með lögum nr. 141/1996 var 37. gr. lögfest í IV. kafla um gildistöku og lagaskil (nú lagaskil og sérákvæði). sem var svohljóðandi:

„Sjóðfélagar, sem rétt eiga á að greiða iðgjald til B-deildar lífeyrissjóðsins skv. 4. gr. en kjósa fremur að greiða til A-deildar, eiga ekki rétt til töku ellilífeyris úr B-deild á meðan þeir gegna störfum sem uppfylla aðildarskilyrði 4. gr.

Að öðru leyti skal setja ákvæði í samþykktir sjóðsins til að koma í veg fyrir niðurfall réttinda eða tvítryggingu réttinda þegar sjóðfélagi flytur sig úr B-deild sjóðsins yfir í A-deild.“

Í athugasemdum um 1. mgr. 37. gr. segir m.a.: „Samkvæmt 1. mgr. 24. gr., eins og hún verður eftir breytingu skv. 15. gr. frumvarpsins, eiga sjóðfélagar í B-deild sjóðsins ekki rétt á lífeyri á meðan þeir gegna störfum sem uppfylla aðildarskilyrði að sjóðnum. Greinin er að þessu leyti óbreytt frá gildandi lögum sjóðsins. Ákvæði 1. mgr. 37. gr. frumvarpsins er til áréttingar því að sama gildi þó svo að sjóðfélagi, sem aðild hefur átt að B-deild sjóðsins, hefji iðgjaldagreiðslu til A-deildar hans. Þetta gildir um þá sjóðfélaga sem aðild eiga að sjóðnum við gildistöku þessara laga og færa sig yfir í A-deildina. Og þetta gildir einnig um þá sjóðfélaga sem eiga geymdan rétt að sjóðnum við gildistöku þessara laga en hefja síðar iðgjaldagreiðslu til A-deildar sjóðsins vegna starfa þar sem aðildarskilyrðum B-deildar um ráðningartíma og starfshlutfall er fullnægt.“ Með ákvæði þessu var þannig komið í veg fyrir að sjóðfélagar sem komnir væru á aldur og uppfylltu skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997, kysu að segja upp aðild að B-deild og færða sig yfir í A-deildina til að eiga möguleika á að hefja töku áunnins lífeyris úr B-deild samhliða því að þeir greiddu iðgjöld í A-deild. Ætla má að það sama sé haft í huga um þá sem eiga geymdan rétt en hefja aftur störf sem uppfylla aðildarskilyrði að B-deild, þ.e. í stað þess að greiða iðgjald í B-deild kjósi þeir að greiða í A-deild. Þykir orðalag ákvæðisins, svo og athugasemdir í greinargerð benda til þess að með þessu sé verið að koma í veg fyrir svokallaða „tvítryggingu réttinda“.

Í 2. mgr. 37. gr. er eins og áður segir heimild til handa stjórnar stefnda til að setja í samþykktir reglur, m.a. til þess að koma í veg fyrir tvítryggingu réttinda. Var það gert í kafla samþykktanna sem ber yfirskriftina „um lífeyrisréttindi að B-deild – ellilífeyrir“ nánar tiltekið í 54. gr. sem var svohljóðandi: „Sjóðfélagi, sem greitt hefur iðgjald til sjóðsins 1996 og fyrr eða til B-deildar hans, á rétt á lífeyri úr henni frá þeim tíma sem kveðið er á um í 57. grein hafi hann látið af þeim störfum sem veitt hafa honum aðild að sjóðnum. Sjóðfélagi, sem gegnir starfi, sem uppfyllir aðildarskilyrði að B-deild sjóðsins skv. 17. gr. eða fær óskert laun, sem starfinu fylgdu, eftir að hann lét af störfum á ekki auk launa jafnframt rétt til lífeyris. Sjóðfélagi á ekki rétt á lífeyri úr deildinni á meðan hann fær greitt þingfararkaup, biðlaun þingmanna, ráðherralaun eða biðlaun ráðherra. Sjóðfélagi, sem átti rétt á að greiða iðgjald til B-deildar en kaus fremur að greiða til A-deildar á ekki rétt til töku ellilífeyris á meðan hann gegnir störfum sem uppfylla aðildarskilyrði að deildinni.“

Í máli þessu er óumdeilt eins og áður segir að stefnandi átti þess ekki kost að greiða iðgjald í B-deild þó svo að hann hafi kosið að gera það. Þá er óumdeilt að hið nýja starf stefnanda hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands uppfyllti aðildarskilyrði að B-deild. Á því er byggt af hálfu stefnda að þetta sé grundvallaratriði sem synjun um greiðslu lífeyris úr B-deild hafi verið byggð á auk 37. gr. laga nr. 1/1997.

Ljóst er að við mat á ofangreindu leggur stefndi áherslu á starfið sem stefnandi gegndi og hvort það uppfylli aðildarskilyrði að B-deild en ekki hvort hann hafi sóst eftir því að greiða iðgjöld til A-deildar. Að mati dómsins er þetta atriði sem líta verður til þegar leyst er úr ágreiningi þessum.

Þær lagagreinar sem raktar hafa verið hér að framan og synjun stefnanda er byggð á eru tvenns konar. Í fyrsta lagi 8. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997, sem samkvæmt efni sínu hefur að geyma takmörkun gagnvart 1. mgr. 24. gr. og er ætlað að koma í veg fyrir töku lífeyris sjóðfélaga úr B-deild samhliða störfum sem uppfylla aðildarskilyrði að sömu deild. Ákvæði þetta tekur því ekki til tilviks stefnanda, þ.e. þegar sjóðfélagi greiðir iðgjöld til A-deildar þrátt fyrir að hann gegni starfi sem uppfyllir aðildarskilyrði að B-deild.  Í öðru lagi 1. mgr. 37. gr. sem er ætlað að taka við þar sem 8. mgr. 24. gr. sleppir. Að mati dómsins verður ekki ráðið af orðalagi ákvæðisins að það geti tekið til tilviks stefnanda. Má fyrst nefna að skýrt kemur fram í ákvæðinu að það taki til sjóðsfélaga „sem rétt eiga á að greiða iðgjald í B-deildar lífeyrissjóðsins.“ Þar sem stefnandi átti þess ekki kost skv. 2. mgr. 5. gr. verður að telja að hann falli ekki undir umrædda grein.  Þá má nefna að í ákvæðinu er fjallað um tilvik er sjóðfélagi „kjósi fremurað greiða iðgjald í A-deild en B-deild. Því skilyrði var heldur ekki fyrir að fara í tilviki stefnanda. Þegar athugasemdir við 37. grein eru skoðaðar má sjá að ætlunin er að undir greinina falli þeir sem eiga geymd réttindi í B-deild. Með vísan til þess sem áður segir verður að telja að löggjafinn hafi m.a. haft í huga tilvik þar sem tímafrestur skv. 2. mgr. 5. gr. er ekki liðinn, enda segir í niðurlagi þeirrar málsgreinar að ella eigi viðkomandi einstaklingur ekki rétt á aðild að B-deild sjóðsins. Því er það mat dómsins að tilvik stefnanda falli utan þess sem hér er vísað til enda verður ekki séð annað en að það fæli í sér viðbætur sem ættu heima í lagatexta en ekki eingöngu lögskýringargögnum.

Á árinu 2009 voru gerðar breytingar á 54. gr. samþykkta LSR auk þess sem breyting var gerð á 37. gr. laga nr. 1/1997. Ákvæðið hljóðar svo í dag: „Sjóðfélagar eiga ekki rétt til töku lífeyris úr B-deild sjóðsins á meðan þeir gegna störfum sem veitt hefðu rétt til aðildar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins fyrir stofnun A-deildar sjóðsins, þ.e. eru skipaðir, settir eða ráðnir til a.m.k. eins árs eða ráðnir með minnst þriggja mánaða uppsagnarfresti og starfið er eigi minna en hálft starf.“

Að öðru leyti skal setja ákvæði í samþykktir sjóðsins til að koma í veg fyrir niðurfall réttinda eða tvítryggingu réttinda þegar sjóðfélagi á réttindi í B-deild og A-deild sjóðsins“.

Í athugasemdum við greinina í frumvarpi til laga nr. 48/2010 segir, „Nú ríkir hins vegar nokkur óvissa eftir að umboðsmaður hefur látið álit sitt í ljós og þykir því nauðsynlegt, með lagafrumvarpi þessu, að leggja til lagabreytingar sem ætlað er að skýra og styrkja stoðina undir núverandi framkvæmd sem sjá má af fyrri lögskýringargögnum að samræmist vilja löggjafans.“ Að mati dómsins hafa verið gerðar viðamiklar breytingar á 37. gr. laga nr. 1/1997 og þykir sú breyting fela í sér enn frekari skerðingu en áður var á töku lífeyris eftir að skilyrði 1. mgr. 24. gr. um aldur er uppfyllt. Er ákvæðinu eins og það hljóðar nú augljóslega ætlað að girða fyrir að unnt sé að greiða út lífeyrir í tilvikum sem hjá stefnanda. Slíku ákvæði verður ekki beitt afturvirkt í hans tilviki.

Að öllu framansögðu virtu verður fallist á það með stefnanda að skýra lagaheimild skorti til að synja honum um greiðslu ellilífeyris sem hann hafði áunnið sér.

Ekki er gerðar athugasemdir við kröfu um dráttarvexti af hálfu stefnda ef fallist yrði á kröfu stefnanda. Við málflutning kom hins vegar fram hjá lögmanni stefnda að miða ætti við annan upphafsdag dráttarvaxta en stefndi krefst. Að þessu er vikið í greinargerð. Fallist verður á það með lögmanni stefnanda að málsástæða þessi sé því of seint fram komin, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að kröfur stefnanda, eins og þær eru settar fram í stefnu, eru teknar til greina.

Stefndi greiði stefnanda 765.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti. Við ákvörðun málskostnaðar er tekið tillit til þess að málið var endurflutt, sbr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Hins vegar er kostnaður stefnanda við rekstur málsins hjá umboðsmanni Alþingis ekki talinn til málskostnaðar skv. 129. gr. laga nr. 91/1991.

Sigríður Hjaltested, settur héraðsdómari, sem hefur farið með málið frá 30. september sl., kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Viðurkennt er að stefnda, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, beri að greiða stefnanda, Þresti Ólafssyni, mánaðarlega ellilífeyri úr B-deild stefnda, frá og með 1. nóvember 2006 til og með 31. desember 2009 í samræmi við áunnin réttindi stefnanda, auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Stefndi greiði stefnanda 765.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.