Hæstiréttur íslands

Mál nr. 460/2001


Lykilorð

  • Börn
  • Kynferðisbrot


Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 18. apríl 2002.

Nr. 460/2001.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

X

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

 

Börn. Kynferðisbrot.

X var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa árin 1995-1996 nokkrum sinnum haft kynferðismök við telpuna A, fædda 1986, með því að leggja getnaðarlim sinn milli læra telpunnar og viðhafa samfarahreyfingar. A hafði verið í tímabundinni umsjón á heimili X. Játaði X sakargiftir en krafðist þess að brot hans yrðu heimfærð til 2. málsliðar 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sem varðar aðra kynferðislega áreitni. Héraðsdómur taldi að framburður telpunnar A hefði verið einlægur og trúverðugur í öllum aðalatriðum, auk þess sem hann hefði stoð í vætti vitna. Frásögn A var því lögð til grundvallar um athæfi X. Var brotið heimfært til 1. málsliðar 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga og dómur héraðsdóms um tveggja ára fangelsi staðfestur. Ekki var deilt um niðurstöðu héraðsdóms um miskabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. desember 2001 að ósk ákærða. Ákæruvaldið krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða og heimfærslu verknaðar til refsiákvæða, en að refsing verði þyngd.

Ákærði krefst mildunar refsingar og að hún verði að öllu leyti skilorðsbundin.

Enginn ágreiningur er með aðilum um niðurstöðu héraðsdóms um miskabætur. Krafa ákærða um mildun refsingar er á því byggð að brot hans hafi í héraði verið heimfærð til 1. málsliðar 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992. Hann telur hins vegar að brotið heyri undir 2. málslið sömu málsgreinar, sem varðar aðra kynferðislega áreitni.

Með vísan til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta hann um sakfellingu ákærða, heimfærslu til refsiákvæða og refsingu ákærða.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

                                                  Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Páls Arnórs Pálssonar, hæstaréttarlögmanns, 120.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 8. nóvember 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 27. september s.l., er höfðað með ákæruskjali ríkissaksóknara, útgefnu 4. júlí 2001, á hendur X;

„fyrir kynferðisbrot með því að hafa árin 1994-1995 að […], nokkrum sinnum haft kynferðismök við telpuna A, með því að leggja getnaðarlim sinn milli læra telpunnar við kynfæri hennar og viðhaft samfarahreyfingar.

Telst þetta varða við 1. málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 40, 1992.

Þess er krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Af hálfu A er krafist skaðabóta að fjárhæð 1.500.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987.“

Af hálfu sækjanda var verknaðarlýsing í ákæru leiðrétt við aðalmeðferð málsins, sbr. heimildarákvæði 117. gr. laga nr. 19, 1991 og var miðað við að ætluð háttsemi ákærða hefði átt sér stað árin 1995 og 1996.  Að öðru leyti ítrekaði sækjandi gerðar kröfur. 

Dómkröfur skipaðs verjanda Arnars Sigfússonar hdl. eru þær, að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög framast heimila og að hún verði skilorðbundin. Um heimfærslu til lagaákvæða vísaði verjandinn til 2. málsliðar. 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 40, 1992. Þá krefst verjandinn að skaðabótakrafa verði lækkuð. Loks krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati réttarins.

1.  Málsmeðferð.

Samkvæmt gögnum málsins barst Barnaverndarnefnd [...] barnaverndartilkynning frá skólahjúkrunarfræðingi hinn 5. desember 2000 vegna ætlaðra kynferðisbrota ákærða í máli þessu.  Tilefnið var frásögn telpunnar A í venjubundnu sjálfsmatsviðtali hjúkrunarfræðingsins við telpuna þann 29. nóvember s.á.  Rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri barst formlegt kæruerindi vegna þessa hinn 7. desember.  Ákærði var handtekinn 12. desember og var hann yfirheyrður í tvígang um kæruefnið, en í framhaldi af því vistaður í fangahúsi.  Ákærði var yfirheyrður að nýju 13. desember 2000 og 14. febrúar 2001 að viðstöddum þáverandi  verjanda sínum.  Vitni voru yfirheyrð á tímabilinu frá 10. desember 2000 til 1. mars 2001. 

Samkvæmt beiðni sýslumannsins á Akureyri var dómskýrsla tekin af telpunni A hinn … s.l.  Var frásögn hennar tekin upp á myndband og er það meðal gagna málsins. 

Við áframhaldandi rannsókn lögreglu og meðferð málsins fyrir dómi var aflað sálfræðigagna um ákærða og telpuna A.  Af hálfu málsaðila var gagnaöflun lýst lokið þann 20. september s.l.

2.  Málsatvik.

A.  Samkvæmt vætti vitna, frásögn ákærða og öðrum gögnum málsins var telpunni A komið í fóstur haustið 1995 hjá hjónunum D og G, en tilefni þess var að faðir hennar, sem var einstæður, hafði langar útiverur vegna sjómannsstarfa.  Upplýst er að faðir telpunnar hóf sambúð með núverandi sambýliskonu sinni haustið 1995 og fór telpan þá á ný á heimili hans.  Fjölskylda telpunnar fluttist erlendis í ágústmánuði 1996, en kom til landsins á nýjan leik í lok árs 1998. 

Fyrir liggur í málinu að dótturdóttir fósturmóður telpunnar A dvaldi tíðum á heimili hennar á árabilinu 1993-1996.  Er upplýst að telpurnar bundust vináttuböndum og fengu á stundum að gista á heimilum hvorrar annarrar.  Hófust þannig kynni með A og ákærða, en hann er faðir nefndrar vinkonu hennar.

B.  Fyrir dómi, líkt og við skýrslugjöf hjá lögreglu, hefur ákærði játað sakarefni ákæruskjalsins.  Kannast ákærði þannig við að hafa haft kynferðisleg afskipti af telpunni A í nokkur skipti það ár er hún fór erlendis með fjölskyldu sinni.  Fyrir dómi ætlaði ákærði að þetta hefði gerst í þrjú eða fjögur skipti, en við skýrslugjöf hjá lögreglu hafði hann nefnt þrjú til fimm skipti.  Nánar lýsti ákærði athæfi sínu þannig að það hefði ávallt gerst seint að kveldi ellegar á nóttunni þegar dóttir hans var sofnuð og eiginkona hans var fjarverandi af heimilinu.  Kvaðst ákærði hafa látið telpuna krjúpa nakta á hjónarúminu, en hann síðan komið sér fyrir fyrir aftan líkama hennar og nuddað stífum lim sínum á milli fóta hennar, við kynfæri, stutta stund.  Við skýrslugjöf hjá lögreglu lýsti ákærði athæfinu nánar þannig að hann hefði skekið sér á telpunni, en fyrir dómi orðaði hann það þannig að hann hefði hreyft lim sinn með hendinni.  Ákærði kannaðist ekki við að hafa fengið sáðlát við nefndar aðfarir, en minntist þess að telpan hefði grátið í eitt eða tvö skipti. 

Telpan A lýsti athæfi ákærða fyrir dómi á þá leið að hann hafi vakið hana á nóttunni og látið hana krjúpa á hjónarúminu, fært hana úr náttkjól, en í framhaldi af því athafnað sig fyrir aftan hana.  Hún kvað þetta hafa gerst er hún gisti hjá dóttur ákærða er hún var á aldursbilinu 7-10 ára og áður en hún fluttist með fjölskyldu sinni til útlanda haustið 1996.  Fyrir dómi vísaði telpan til þess að langt væri um liðið, en ætlaði að ákærði hefði viðhaft nefnt athæfi í sjö eða átta skipti og ekki oftar en í tíu skipti.  Nánar lýsti telpan atvikum máls þannig, að ávallt hefði verið dimmt í herberginu, og vegna ungs aldurs kvaðst hún ekki almennilega hafa áttað sig á atferli ákærða, en þó a.m.k. í eitt skipti séð lim hans.  Er atburðir þessir gerðust kvaðst telpan hafa fundið til mikils sársauka við kynfæri og sviða í rassi.  Vegna þessa og mikillar hræðslu kvaðst hún hafa grátið og beðið ákærða um að hætta.  Taldi telpan að ákærði hefði ekki athafnað sig lengi í einu og bar að hún hefði komist frá honum með því að segjast þurfa að fara á salerni.  Kvaðst hún þá hafa verið blaut á kynfærum sínum.  Telpan greindi frá því að hún hefði árið 1995 eða 1996 náð að koma í veg fyrir athæfi ákærða með því að hóta að öskra á eiginkonu hans er þá hafi verið sofandi í öðru herbergi í íbúðinni.

C.  Samkvæmt rannsóknargögnum fór telpan A í skoðun hinn 7. mars s.l. hjá Jóni R. Kristinssyni barnalækni, og Þóru F. Fischer kvensjúkdómalækni, en í vottorði þeirra, sem dagsett er 26. s.m. segir m.a.: 

[„...“] 

Í málinu liggur fyrir skýrsla Vigdísar Erlendsdóttur sálfræðings vegna greiningar og meðferðar telpunnar A, á tímabilinu frá … til … s.l., vegna kynferðisofbeldis.  Vitnið staðfesti skýrsluna hér fyrir dómi, en í henni segir m.a.: 

[„…“] 

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslur vitnin MS skólahjúkrunarfræðingur, IB sálfræðingur, B stjúpmóðir telpunnar, C fyrrverandi eiginkona ákærða, og D fyrrverandi fósturmóður telpunnar, en ekki þykir þörf á að rekja framburði þeirra umfram það sem þegar hefur komið fram.

Niðurstaða.

Við alla meðferð málsins hefur ákærði játað sakargiftir.  Frásögn hans af athæfinu hefur að mati dómsins ekki að öllu leyti verið skýr og nákvæm, en í nokkrum atriðum hefur hann borið við minnisleysi.  Misvísandi frásögn ákærða um það atriði hvort hann hafi skekið sér eða hreyft lim sinn með eigin hendi á milli læra telpunnar og við kynfæri hennar breyta hins vegar að áliti dómsins í engu um  refsinæmi háttseminnar.

Að mati dómsins er framburður telpunnar A um athæfi ákærða einlægur og trúverðugur í öllum aðalatriðum.  Þá hefur hann stoð í vætti vitna, ekki síst Vigdísar Erlendsdóttur sálfræðings og MS skólahjúkrunarfræðings.  Ber því að áliti dómsins að leggja frásögn telpunnar til grundvallar um að ákærði hafi í endurtekin skipti viðhaft þau kynferðisbrot sem greinir í ákæruskjali líkt og verknaðarlýsingu var breytt við aðalmeðferð málsins, sbr. heimildarákvæði 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19, 1991.  

Að ofangreindu virtu þykir sök ákærða nægjanlega sönnuð og er háttsemi hans rétt færð til refsiákvæðis í ákæru, 1. málsliðar 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 40, 1992. 

3.  Brot ákærða gagnvart telpunni A eru alvarleg og beindust gegn mikilvægum hagsmunum.  Þá braut hann gegn telpunni er hún var á tíunda og ellefta aldursári, er hún var gestkomandi og í tímabundinni umsjón á heimili hans.  Ákærði játaði hins vegar brot sín og samþykkti að greiða skaðabætur að hluta.  Þá hefur hann ekki áður gerst sekur um háttsemi sem hefur áhrif á ákvörðun refsingar í máli þessu.

Þykir refsing ákærða að ofangreindu virtu og með hliðsjón af 1. tl. 70. gr., 9. tl. 74. gr. og 1. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár.

Inga Þöll Þórgnýsdóttir héraðsdómslögmaður bar fram skaðabótakröfu við lögreglurannsókn málsins á hendur ákærða fyrir hönd E vegna ólögráða dóttur hans A, með bréfi dagsettu 27. apríl 2001, og krafðist miskabóta að fjárhæð kr. 1.500.000, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1983.  Þá var krafist dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 7. desember 2000 til greiðsludags.  Loks krafðist réttargæslumaðurinn hæfilegrar þóknunar vegna starfa sinna sbr. i-lið 44. gr. laga nr. 19, 1991, sbr. lög nr. 36, 1999.

Lögmaðurinn rökstuddi kröfur sínar við aðalmeðferð málsins. 

Fyrir dómi hefur ákærði fallist á að greiða skaðabætur en krafðist lækkunar. Stúlkan A á rétt á miskabótum úr hendi ákærða vegna þeirrar háttsemi sem hann hefur verið sakfelldur fyrir, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993.  Að mati dómsins hefur verið sýnt fram á, þ.á.m. með sérfræðivottorðum, að A hafi orðið fyrir umtalsverðum sálrænum erfiðleikum vegna verknaðar ákærða og verður hann því dæmdur til að greiða henni miskabætur, sem þykja hæfilega ákveðnar 600.000 krónur, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993.  Þá verður ákærði dæmdur til að greiða vexti eins og í dómsorði greinir.

Nefndur réttargæslumaður gætti hagsmuna A við meðferð málsins, þ.á.m. með áður greindri einkaréttarkröfu.  Verður réttargæslumanninum því ákvörðuð þóknun skv. 1. mgr. 44. gr. i-liðar laga nr. 19, 1991, sem þykir hæfilega ákveðin 75.000 krónur.

Samkvæmt framangreindum málsúrslitum ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Arnars Sigfússonar hdl., sem þykja hæfilega ákveðin 140.000 krónur. 

Af hálfu ákæruvalds flutti málið Ragnheiður Harðardóttir saksóknari. 

Dómsuppkvaðning í máli þessu hefur dregist vegna allverulegra starfsanna dómara. 

Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson, héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, X, sæti fangelsi í 2 ár.

Ákærði greiði E, vegna ólögráða dóttur hans, A, 600.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 13. september 2001 til dómsuppsögudags, en frá þ.d. með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga til greiðsludags, sbr. nú IV. kafla laga nr. 38, 2001. 

Ákærði greiði þóknun réttargæslumanns, Ingu Þallar Þórgnýsdóttur hdl. 75.000 krónur.

Ákærði greiði allan annan sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnars Sigfússonar hdl., 140.000 krónur.