Hæstiréttur íslands
Mál nr. 695/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Föstudaginn 2. janúar 2009. |
|
|
Nr. 695/2008. |
Ákæruvaldið(Daði Kristjánsson saksóknari) gegn X(enginn) |
|
Kærumál. Farbann.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta farbanni á grundvelli b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. desember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. desember 2008, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi meðan mál hans er til meðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 27. janúar 2009 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sem enn voru í gildi þegar kært var. Litið verður svo á að varnaraðili kæri úrskurðinn í því skyni að hann verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. desember 2008.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X kt. [...], verði gert að sæta áfram farbanni meðan mál hans er til meðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 27. janúar nk. kl. 16:00.
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að þann 24. október sl. hafi lögreglu verið tilkynnt um slasaðan mann í íbúð að Y í Reykjavík. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi mátt sjá kæranda, A, þar sem hann hafi setið í stól í íbúðinni. Hafi hann verið með stungusár á hægra handarbaki og stungan náð í gegnum höndina. Kærandi hafi sagt frá því að ákærði, sem sé vinnufélagi hans, hafi stungið hann með hníf í gegnum höndina þannig að hnífurinn hafi staðið fastur í hurð sem kærandi hafði lagt höndina upp við.
Í skýrslutöku af ákærða hafi hann kannast við að hafa verið í íbúðinni á umræddum tíma en neiti að hafa stungið kæranda. Vitnið B hafi borið hjá lögreglu að ákærði og kærandi hafi farið saman að reykja. Hann hafi svo heyrt mikið öskur og kannað hvað væri að gerast og þá komið að kæranda með höndina upp við hurð og hafi hnífur staðið í gegnum höndina og inn í hurðina. Ákærði hafi þá verið horfinn á braut.
Ríkissaksóknari hafi gefið út ákæru á hendur ákærða 22. desember sl. fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa, að kvöldi föstudagsins 24. október 2008, að Y í Reykjavík stungið A með eldhúshnífi í hægri hönd þannig að hnífurinn hafi farið í gegnum hönd hans. Við þetta hafi A hlotið skurð í gegnum hægri höndina sem sauma hafi þurft saman. Teljist háttsemi ákærða varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði hafi sætt farbanni frá 29. október sl.
Ákærði sé undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um sérstaklega hættulega líkamsárás, hann sé pólskur ríkisborgari og til að tryggja nærveru hans þyki nauðsynlegt að honum verði bönnuð för frá Íslandi á meðan mál hans sé til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.
Ákærði er undir rökstuddum grun um brot sem varðað getur refsingu samkvæmt 2. mgr. 218. gr almennra hegningarlaga. Ákærði er pólskur ríkisborgari og hefur takmörkuð tengsl við landið. Verður honum með vísan til 110. gr. laga nr. 19/1991, sbr. b-lið 1. mgr. 103. gr. gert að sæta farbanni allt til þriðjudagsins 27. janúar nk. kl. 16.00.
Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Ákærða, X, kt. [...], er áfram bönnuð för frá Íslandi meðan mál hans er til meðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 27. janúar nk. kl. 16:00.