Hæstiréttur íslands

Mál nr. 222/2014


Lykilorð

  • Landamerki


                                     

Fimmtudaginn 30. október 2014.

Nr. 222/2014.

 

Ólína Kristín Jónsdóttir

(Skúli Bjarnason hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen hrl.)

 

Landamerki.

Eigendur Miðhúsa, Ó, og Barma, Í, í Reykhólahreppi, greindi á um landamerki milli jarðanna. Í fyrsta lagi var deilt um hvort leggja ætti til grundvallar úrlausn ágreinings um merki jarðanna landamerkjaskrá Miðhúsa eða Reykhóla, en í seinni skránni var lýst merkjum Barma. Í öðru lagi var ágreiningur um hvort orðalag landamerkjaskránna skaraðist og ef svo væri hvort og þá hvaða þýðingu það hefði. Litið var til þess að landamerkjaskrá Miðhúsa var gerð í maí 1884 og þinglesin á manntalsþingi í sama mánuði, en landamerkjaskrá Reykhóla og Barma gerð í febrúar þetta sama ár og henni ekki þinglýst fyrr en tveimur árum síðar. Að virtri þeirri reglu að menn geti ekki með einhliða ráðstöfun og þinglestri landamerkjaskrár aukið við rétt sinn umfram það sem áður hefði verið ákveðið var landamerkjaskrá Miðhúsa lögð til grundvallar úrlausn ágreiningsins. Í þriðja lagi var deilt um hvar væru upptök Vökugrafarlækjar og þar með hve langt til fjalls hann næði. Að virtum staðháttum og gögnum málsins var lagt til grundvallar að Ó hefði sýnt fram á að upptök Vökugrafarlækjar væru í melhaug utan í fjallshlíð rétt innan við Miðhúsahóla, þar sem væri vatnsból Reykhóla, en ekki efst í Vökugröf eins og Í hélt fram. Því var með hliðsjón af staðháttum og að teknu tilliti til reglu 2. mgr. 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923 fallist á með Ó að merki jarðanna réðust af farvegi Vökugarafarlækjar.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. apríl 2014. Hún krefst viðurkenningar á því að landamerki jarðanna Miðhúsa og Barma í Reykhólahreppi liggi milli hnitapunkta 1 til 19 eins og þeir eru nánar tilgreindir á héraðsdómskjölum nr. 4 og 5. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Dómendur fóru á vettvang 18. október 2014.

I

Jarðirnar Barmar og Miðhús eru í Reykhólahreppi og deila eigendur þeirra um merki. Land beggja jarðanna nær frá fjöru í Berufirði upp á fjallsbrúnir í Miðhúsahyrnu sem er norðan og vestan bæjanna. Barmar og Miðhús eiga sameiginlegt hornmark með jörðinni Reykhólum í sama hreppi, og er það í um 400 m hæð í brúnum fjallsins þar sem heitir Skálarhaus eða Skálarhöfuð og er staðsetning þess óumdeild. Land Barma liggur austast jarðanna þriggja, þá kemur land Miðhúsa en þar fyrir vestan er land Reykhóla. Landamerkjaskrá var gerð fyrir Miðhús 10. maí 1884, hún lesin á manntalsþingi 20. sama mánaðar og var þar lýst merkjum jarðarinnar gagnvart Reykhólum og Börmum. Merkjum Barma gagnvart Miðhúsum var á hinn bóginn lýst í landamerkjaskrá Reykhóla frá 16. febrúar 1884, sem lesin var á manntalsþingi tveimur árum síðar. Mun ástæða þess fyrirkomulags hafa verið sú að sami maður var eigandi og umboðsmaður beggja jarðanna þegar landamerkjaskráin var gerð.

Á svæðinu milli Barma og Miðhúsa er undirlendi næst sjónum lítið og það mýrlent en ofan mýranna taka við brattar hlíðar Miðhúsahyrnu með grónum berg- og skriðuhlaupum sem ýmist munu nefnd Hólar eða Miðhúsahólar. Í melhaug utan í fjallshlíðinni ofan hólanna er kaldavatnslind. Úr henni er tekið vatn í vatnsból þorpsins á Reykhólum og hefur svo verið frá árinu 1991. Lækur sem kemur úr kaldavatnslindinni hlykkjast niður fjallshlíðina í grunnum en sýnilegum farvegi sunnan hólanna, upp að svokölluðum Reiðhól sem mun vera yngsti hluti berghlaupsins og niður með honum um efri Barmamýrar að þjóðvegi sem sker land Barma og Miðhúsa. Áður en vegur var lagður á svæðinu um miðja síðustu öld mun lækurinn hafa runnið í farvegi niður í mýrlendi fyrir neðan vegstæðið, þar sem heita neðri eða lægri Barmamýrar, en á svæðinu þar sem þjóðvegurinn sker landið mætast efri og neðri Barmamýrar. Í neðri mýrinni virðist lækurinn hafa sveigt til suðurs á nokkur hundruð metra kafla, þar til komið var á móts við Miðhúsamel, en þá tekið stefnu til austurs og fallið skemmstu leið til sjávar um breiðan hvamm sem nefnist Vökugröf, en um þetta er ágreiningur í málinu. Frá Miðhúsamel hallar landi til austurs en frá Barmabarði, sem er ofan bæjarins á Börmum, hallar því til vesturs og þar sem hallarnir mætast eru Barmamýrar lægstar. Við þjóðveginn hverfur lækurinn sem kemur ofan fjallið úr náttúrulegum farvegi sínum og fylgir á um 85 m kafla vegskurði til austurs þar til hann fer undir veginn í ræsi. Fellur lækurinn eftir það í nýlegum framræsluskurði neðan þjóðvegar og fylgir honum út í Vökugröf og þaðan til sjávar. Upphaflega mun eitthvað vatn hafa bæst í lækinn á leið hans frá upptökum niður mýrarnar og þá meðal annars við Reiðhól og Miðhúsamel sem er forn og mikill sjávarhjalli. Vegagerð og framræsla mýrlendis um miðbik síðustu aldar munu hafa breytt farvegi lækjarins og vatnsmagni í honum, en í mýrinni neðan þjóðvegar hafa verið grafnir með stefnu frá austri til vesturs tveir framræsluskurðir sem eins og í héraðsdómi greinir veita vatni til Vökugrafar.

II

Í opnu bréfi 21. apríl 1571 sagði eftirfarandi: „Þad giöre eg þorleifur prestur biörnsson godum mönnum vitanlegt med þessu mynu opnu brefe ad eg medkennist at eg hefur gefid herdyse þorleifsdottur dottur minni jordina midhus j mynar loggiafir med þeim landamerkium eijum og holmum sem henne hefur filgt at fornu og nyu og fadir minn hiellt um syna daga og hann gaf andrese sine synum og erfde aftur og eg vard eigandi ad effter minni fodur gud hannz sal nadi uoru mier þesse landa merke til saugd j mille reik hola og mid husa bædi af honum sialfum og þeim ellstu mönnum sem þar hofdu vid buid og hier j sueit hofdu vpp alist ad mid hus ætte uti slietta berg og ofann j jllu kelldu kollud er og sionhuerfing og ur illu keldu og ofann j midia loma tiörn kollud er enn inn fra j midia vöggu grof hrys ei hellis ei biorz ei og hrut holma, af hendte fadir minn heitinn andrese heitnum og med jördinne barma lond kendir eru holmar eiga mid hus og hafdi fadir minn heitinn lied þa þeim sem j bormum voru medann hann atte badar jardirnar og alldrei hefer eg heirt og ei halldid annad enn nu hefur eg sagdt og til sann inda hier um og audsyningar þricke eg mitt innsigle a þetta bref skrifad a stad a Reikianese firsta og tuttugasta dag aprilis Anno MD 1xxi.“

Í lögfestu Páls Ingimundarsonar 20. júní 1870 sagði að hann „lögfesti hérmeð eignarjörð mína konu minnar og sona, Miðhús á Reykjanesi ... meðfylgjandi landamerkjum, að utanverðu milli Miðhúsa og Reykhóla ráði Illakelda, rétta sjónhending upp í Sléttaberg og ofan í miðja Lómatjörn til sjávar og að innanverði milli Miðhúsa í Vökugróf yfir innrilækjarkvísl sem rennur eptir henni beina sjónhverfing upp í fjall; Hvar tilgreind landamerki hafa haldin verið eptir gömlum eignar- og landamerkja skrám sem ég í höndum hefi – kaupbréfum og yngri og eldri lögfestum ein af þeim af 1793 sem tilgreinir: að þessi landamerki hafi verið órofin og óátöluð þá í hundrað ár, þessi lögfesta endurnýjuð og aptur upplesin fyrir manntalsþingrétti að Berufirði 1837 að þessum landamerkjum hefur verið yrkt og notað af Miðhúsa ábúendum í mínu mynni og þeirra manna sem nú lifa og tilvita; nema hvað ég eptirgaf ... S.T. Herra Br. Benedictsen sál. í Flatey ad mestuleyti Reykhola eigar, þá ST Herra Jón Bjarnason sem nú er á Ólafsdal var ábúandi Reykhóla, að landamerki skyldi vera millum Miðhúsa og Reykhóla úr Sléttabergi rétta sjónhending í Vogsbotninn sem kallaður er Miðhúsavogur þangað sem innst fellur sjór sem flóð og stórstreymi og þaðan í miðja Lómatjörn til sjáfar ... síðan hafa þessi landamerki verið haldin nema hvað nú seinni ábúendur Reykhóla hafa viljað beita ásælni og ágangi yfir þau landamerki á Miðhúsa litlu landareign ... Hvarfyrir og lögfesti nefndrar jarðar ... en aptur að utanverðu ráði Illakelda beina sjónhending uppí Sléttaberg, og ofan í miðja Lómatjörn til sjáfar, að innan verðu ræður Vökugrófar innrilækur og frá upptökum hans bein sjónhending upp í fjall“. Bréfið var lesið á manntalsþingrétti 28. júní 1870 og innfært í afsals- og veðskuldabréfabók.

Í landamerkjaskrá Miðhúsa 10. maí 1884 sem lesin var á manntalsþingi 20. sama mánaðar sagði meðal annars um landamerki jarðarinnar að þau liggi úr „svonefndu skálarhöfði sem er í fjallsbrúninni fyrir innan Miðhúsahyrnu eftir fjallshriggnum hæstum í vestur ... og þaðan eptir miðjum álnum útá móts við Vökugröf og upp eptir Vökugrafarlæk og þaðan ræður bein sjónhending í Skál í fjallsbrúninni, sem upphafleg er nefnd og skálarhöfuð innan hértaldra landamerkja lýsi ég hérmeð Miðhúsaland að vera.“ Bréfið undirrituðu Páll Ingimundarson sem „eigandi og ábúandi að nokkru af Miðhúsum“ og Jón Pálsson sem „eigandi að nokkru af Miðhúsum“ og var bréfið áritað um samþykki af Bjarna Þórðarsyni sem eiganda og umboðsmanns jarðanna Reykhóla og Borga en hann mun á þessum tíma einnig hafa verið eigandi og umboðsmaður Barma.

Í örnefnaskrá Miðhúsa sem er án ártals, en með viðbót frá 1976, segir að Sléttaberg sé uppi í klettum og þar séu landamerki milli Miðhúsa og Reykhóla. Um Miðhúsahyrnu segir að hún sé á fjallsbrúninni upp frá Miðhúsum í um 301 m hæð og að Stekkjardalur liggi inn undir merkjum, skáhalt upp og inn undir Skál en þar uppi sé Skálarhaus um 400 m hár og sjáist langt til á landamærum. Miðhúsamelur sé stórt svæði, grjótbreiða, frá Barmalandareign út undir Miðhúsatún, undir Miðhúsahyrnu. Þar á melnum utanverðum sé nýlega hlaðin stór og fögur varða að fyrirsögn Odds læknis Jónssonar, sem nefnd sé „Hjalla“ en Vatnanes heiti einu nafni frá Vognum að landamerkjum og sé þar Lómatjörn. Barmalönd séu inn frá Miðhúsum í Berufjarðarmynni.

III

Landamerkjaskrá Reykhóla er frá 16. febrúar 1884 og var hún lesin á manntalsþingi 20. maí 1886, en þar var eins og áður segir einnig lýst merkjum Barma. Í landamerkjaskránni segir að hún sé „uppskrifuð árið 1884 af eiganda Reykhóla Bjarna Þórðarsyni bónda á Reykhólum ... Landamerki þau sem áreiðardómur Orms lögmanns Sturlusonar frá 1572 ásamt fleiri skjölum helga Reykhólum og sem er ... innan þeirra ummerkja sem hér segir: Fyrst bein sjónhending í stóru laugina fyrir innan Höllustaði ... þaðan eptir hæsta fjallinu út fyrir ofann stuðlabrún fyrir botninn á Nautadal og þaðan ofan í svonefndann skálarhaus; þaðan bein sjónhending ofan í miðja vökugróf og þaðan beint áfram á sjó út, mitt á millum Pundskers og Barmalanda og inneftir miðjum álnum inná Berufjörð miðjann á bý við áður áminnstan hraunlæk, á því nefnd kirkjujörð Barmar allt það land sem er innan greindra ummerkja nl. hraunlækjar og vökugrófar að neðan og norðanfells og skálarhaus að ofan og það upp á fjall og ofan í sjó sem áður segir.“ Undir bréfið ritaði Bjarni Þórðarson sem eigandi og ábúandi og um samþykki meðal annars Páll Ingimundarson sem „eigandi að meiri parti Miðhúsa og ábúandi að nokkru af nefndri jörð“ og Jón Pálsson sem „eigandi að nokkru af jörðinni Miðhúsum“.

Í örnefnaskrá Barma sem er án ártals, en með viðbót frá 1976, segir að út frá túninu á Börmum liggi hærri og lægri mýrar. „Úr Lægrimýrum liggur Engjanes ... niður og útundir merkin; þar er Vöggugróf ... líklega fremur Vakargröf ... vegna lindar, sem fellur í sjóinn og heldur þar lengi þýðri vök við landið ... Reiðhóll ... Út yfir hann liggur þjóðvegurinn. Er þá komið út í Miðhúsalandareign ... Fjallið upp frá Börmum er einu nafni nefnt Barmahæð ... þar eru þessi örnefni, byrjað neðst að utan: Skál ... hvylft í fjallið, niður frá Skálarhöfðinu ... Þar niður af eru Hólar ... virðist geta verið framhlaup úr Hvylftinni ... Reiðhóll ... Yfir hann lá gamli vegurinn, og var oft áð öðru hvoru megin við hólinn.“

IV

Ágreiningur um landamerki Barma og Miðhúsa er í aðalatriðum þríþættur. Í fyrsta lagi er um það deilt hvort heldur eigi að leggja til grundvallar úrlausn ágreiningsins landamerkjaskrá Miðhúsa eða Reykhóla, en í seinni skránni er lýst merkjum Barma eins og áður getur. Í öðru lagi er ágreiningur um hvort orðalag landamerkjaskránna skarist og ef svo er hvort það hafi þýðingu og þá hverja. Í þriðja lagi er um það deilt hvar séu upptök Vökugrafarlækjar og þar með hversu langt til fjallsins hann nær.

 Landamerkjaskrá Miðhúsa var gerð 10. maí 1884 og lesin á manntalsþingi 20. sama mánaðar. Landamerkjaskrá Reykhóla og Barma er frá 16. febrúar 1884 og því tæplega þremur mánuðum eldri en landamerkjaskrá Miðhúsa. Henni var þinglýst tveimur árum síðar. Verður því lagt til grundvallar að eigendur þessara jarða hafi með landamerkjaskrá Miðhúsa sem er yngri samið um merki sín í milli með þeim hætti sem þar er lýst og ekki er fram komið að hafi verið breytt með síðari ráðstöfunum. Í því ljósi getur engu skipt um gildi landamerkjaskrár Miðhúsa þótt landamerkjaskrá Reykhóla og Barma hafi verið lesin athugasemdalaust á manntalsþingi tveimur árum síðar. Ber í því sambandi að líta til þess að sú regla hefur gilt hér á landi, allt frá því er gildi tóku í núverandi mynd reglur um þinglýsingar og réttaráhrif þeirra, að menn geta ekki með einhliða ráðstöfun og þinglestri landamerkjaskrár aukið við rétt sinn umfram það sem áður hafði verið ákveðið, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 20. október 1967 í máli nr. 84/1966, sem birtur er í dómasafni réttarins 1967 bls. 916. Af þessu leiðir að við úrlausn ágreinings aðila um merki milli Miðhúsa og Barma verður landamerkjaskrá Miðhúsa frá 10. maí 1884 lögð til grundvallar.

Sem fyrr segir ná lönd Barma og Miðhúsa frá fjöru í Berufirði til fjalls í Miðhúsahyrnu og er ágreiningslaust að merki jarðanna eru í Vökugrafarlæk þar sem hann fellur til sjávar. Dómkrafa áfrýjanda er á því reist að merki jarðanna fari milli þeirra hnitasettu punkta sem fram koma á héraðsdómskjölum nr. 4 og 5 og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Punktur 1 samkvæmt kröfugerð áfrýjanda er í fjöruborðinu þar sem lönd jarðanna liggja saman og er staðsetning hans óumdeild. Úr þeim punkti liggur kröfulína áfrýjanda í nokkurn veginn beinni línu til norðvesturs í farvegi Vökugrafarlækjar um punkta 2 og 3 í punkt 4 sem er efst í Vökugröf, og er staðsetning þess örnefnis einnig óumdeild. Í Vökugröf, sem eins og í héraðsdómi greinir gengur undir ýmsum nöfnum, telur áfrýjandi að merkjalínan beygi þvert til austurs og fylgi farvegi lækjarins um punkta 5 og 6, en þar taki hún aftur beygju eftir farvegi lækjarins til norðvesturs og hlykkist þaðan upp fjallshlíðina eftir lækjarfarveginum milli punkta 7 og 17 í punkt 18, þar sem sé kaldavatnslind og upptök Vökugrafarlækjar. Úr þeim punkti telur áfrýjandi að sjónhending ráði stefnu í vestnorðvestur í hornmark jarðanna um Skál í Skálarhöfuð, þar sem er punktur 19 samkvæmt hnitamerkingum áfrýjanda. Stefndi er því sammála að merki Barma og Miðhúsa séu í farvegi Vökugrafarlækjar frá hnitapunkti 1 í hnitapunkt 4 efst í Vökugröf, en þar telur stefndi að séu upptök lækjarins en ekki í hnitapunkti 18. Er dómkrafa hans í samræmi við það á því reist að úr Vökugröf ráði sjónhending merkjum úr hnitapunkti 4 til norðvesturs í Skálarhöfuð í punkti 19.

Meðal gagna málsins er greinargerð Árna Hjartarsonar vatnajarðfræðings frá 11. nóvember 2011 um Vökugröf og Vökugrafarlæk sem aflað var að tilhlutan áfrýjanda. Þar vísar Árni til þess að rétt innan við Melhúsahóla sé lítil framhlaupsskál neðarlega í hlíðinni og grasi grónir urðarhólar neðan undir henni. Uppi í skálinni sé melhaugur og utan í honum komi upp lind í um 140 m hæð yfir sjávarmáli og sé þar núverandi vatnsbólslind Reykhóla. Í framhaldinu er lýst farvegi þessa lækjar niður undir Reiðhól og segir að áður en þjóðvegurinn var lagður „rann lækurinn eftir grunnum en glöggum farvegi niður í mýrlendi þar neðan við ... Þar sveigði hann til suðurs á nokkur hundruð metra kafla uns komið var út á móts við Miðhúsamel að hann sveigði til austurs og féll skemmstu leið til strandar um allbreiðan hvamm sem nefnist Vökugröf.“ Um þennan sama læk segir í greinargerðinni að vegagerð og framræsla mýrlendis um miðbik 20. aldar hafi breytt farvegi lækjarins og að við „þjóðveginn hverfur lækurinn nú úr hinum náttúrulega farvegi og fylgir vegarskurði að ræsi nokkru innar. Þar fer hann undir veginn og fylgir nýlegum farvegi í framræsluskurði nokkru neðan þjóðvegar og fylgir honum til sjávar.“

Árni Hjartarson gaf skýrslu fyrir dómi og lýsti þar farvegi lindarlækjar þess er sprettur fram úr melhaugnum utan í fjallshlíðinni innan við Melhúsahóla. Sagði hann að lækurinn rynni „ekki lengur í náttúrulegum farvegi sínum en ég lýsi því þarna í greinargerðinni hvernig hann mun hafa runnið áður. Lækurinn dregur nafn sitt af stað niður við sjóinn sem heitir Vökugröf ... og sú ... skýring er langlíklegust á nafni lækjarins, sem er nokkuð sérkennilegt, að þar hafi verið vakir alltaf fyrir landi, hvernig sem viðraði vegna þess að þetta er lindarlækur með jöfnu og góðu hitastigi ... Mér finnst langlíklegast að hann hafi runnið frá aldaöðli þarna ... landinu hallar nú þannig og ... þessir lækir ... hafa ekki tilhneigingu til að breyta mikið farvegi sínum, það kemur ekki oft í þá þannig vatnavextir að þeir brjóti bakka eða fara að gera sér nýja farvegi. Þannig að mér finnst mjög líklegt að hann hafi haldið þessari rás frá aldaöðli.“ Aðspurður um hvort hann hafi séð ummerki eftir það í mýrinni að lækurinn hafi runnið í áttina að Miðhúsamelnum svaraði Árni því til að sér virtist hann hafa gert það „og það er sem sagt framræsluskurður, sem síðar hefur verið grafinn ... mjög nálægt því sem að lækurinn hefur runnið og nýtir sér sama hallann eins og ... lækurinn rennur eftir til að veita vatninu.“ Spurður um hvort lækurinn hafi sprottið fram víðar á svæðinu svaraði Árni því til að lækurinn sprytti fram efst þar sem upptökin væru „og síðan rennur hann upp að Miðhúsamelnum og þar bætist í hann svolítið af vatni og svo fer hann aftur niður í mýrarnar og þar er ekki mikið að bætast í hann, en þegar hann kemur á nýjan leik upp að ... Miðhúsamelnum, að þar koma í hann, eða hafa komið í hann smálindir til viðbótar.“

Við skoðun á vettvangi 18. október 2014 var gengið að kaldavatnslindinni í melhaugnum rétt innan við Melhúsahóla þar sem er vatnsból Reykhólahrepps. Þar sést að úr lindinni sprettur fram lækur sem fellur í grunnum en vel sýnilegum farvegi niður með Reiðhól þar til hann mætir vegskurði við þjóðveginn og var þeim farvegi fylgt í vettvangsgöngunni. Þaðan fellur lækjarvatnið eftir vegskurðinum til austurs, fer undir þjóðveginn í ræsi um 85 metrum austar og þaðan eftir efri framræsluskurðinum út með ströndinni til vesturs að Vökugröf þar sem vatnið fellur til sjávar. Á þeim stað þar sem farvegur lækjarins úr kaldavatnslindinni mætir vegskurðinum norðan við þjóðveginn mátti á vettvangi sjá að lækjarfarvegurinn hefur fyrir þær vega- og framræsluframkvæmdir sem áður getur haldið áfram í beinni stefnu suður yfir landið þar sem vegstæðið er nú. Þá mátti á svæðinu sunnan þjóðvegarins einnig greina gamlan lækjarfarveg með stefnu í átt að Miðhúsamel og Vökugröf. Þegar þetta er virt ásamt greinargerð Árna Hjartarsonar, skýrslu hans fyrir dómi og öðrum gögnum málsins verður lagt til grundvallar að áfrýjandi hafi sýnt fram á að upptök Vökugrafarlækjar séu í melhaugnum utan í fjallshlíðinni rétt innan við Miðhúsahóla, þar sem er vatnsból Reykhóla, en ekki efst í Vökugröf eins og stefndi heldur fram.

Áður er komist að þeirri niðurstöðu að leggja beri landamerkjaskrá Miðhúsa til grundvallar úrlausn ágreinings um merki milli Barma og Miðhúsa. Í landamerkjaskránni er merkjum lýst frá fjöru til fjalls og vísað til Vökugrafarlækjar. Segir þar að merkin liggi úr miðjum Barmaál mitt á milli Pundskers og Blikhólmahleina „og þaðan eptir miðjum álnum útá móts við Vökugröf og upp eptir Vökugrafarlæk og þaðan ræður bein sjónhending í Skál í fjallsbrúninni, sem upphaflega er nefnd“. Í ljósi staðhátta er það eðlilegastur skilningur á orðalaginu „upp eptir Vökugrafarlæk“ að með því sé skírskotað til þess að landamerkjalína jarðanna fylgi farvegi lækjarins allt að upptökum hans, sem samkvæmt framansögðu eru í melhaugnum utan í fjallshlíðinni rétt innan við Miðhúsahóla. Er þá einnig litið til þess að frá þeim stað er sjónhending um Skál í Skálarhöfuð, en sem fyrr segir er ágreiningslaust að þar er sameiginlegt hornmark Miðhúsa, Barma og Reykhóla. Vitnið Jón Sveinsson, sonur áfrýjanda, annaðist þá hnitasetningu sem dómkrafa áfrýjanda er reist á. Hann kvaðst fyrir dómi hafa keypt sér „ný gps-tæki í bænum og gekk þetta og merkti ... inn og fór síðan með þetta til Loftmynda og lét þá setja þetta út, en þeir eiga myndir sem hægt er að stækka og það eru þeir sem að unnu þetta fyrir mig.“ Af hálfu stefnda er ekki vefengt að hnitasetning áfrýjanda, sem gerð var með framangreindum hætti, lýsi réttum merkjum jarðanna verði það niðurstaðan að Vökugrafarlækur ráði merkjum Barma og Miðhúsa.

Samkvæmt framansögðu og að teknu tilliti til þeirrar reglu 2. mgr. 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923 um að eigi breytist merki þótt farvegur breytist er fallist á með áfrýjanda að merki jarðanna Barma og Miðhúsa í Reykhólahreppi ráðist af farvegi Vökugrafarlækjar og fari samkvæmt því milli hnitapunkta 1 til 19 á héraðsdómskjölum nr. 4 og 5.

Eftir þessum úrslitum verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Landamerki milli jarðanna Barma og Miðhúsa í Reykhólahreppi liggja milli hnitapunkta 1 til 19 eins og þeir eru tilgreindir á héraðsdómskjölum nr. 4 og 5.

Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, Ólínu Kristínu Jónsdóttur, 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. janúar 2014. 

                Mál þetta var höfðað 19. september 2012 og dómtekið 19. desember 2013. Stefnandi er Ólína Kr. Jónsdóttir Heiðargerði 31, Reykjavík. Stefndi er íslenska ríkið.

                Dómkröfur stefnanda í aðalsök eru þær að staðfest verði með dómi að landamerki milli jarðanna Miðhúsa, Reykhólahreppi, landnr. 139642, og jarðarinnar Barma, Reykhólahreppi, landnr. 139535, markist af línu sem er dregin frá hnitpunkti 1. X 353980 Y 555597, um hnitpunkt 2. X 353910 Y555609, um hnitpunkt 3. X 353825 Y555635, um hnitpunkt 4 . X 353728 Y 555677 um hnitpunkt 5. X 353778 Y555930 um hnitpunkt 6. X 353823 Y 556043, um hnitpunkt 7. X 353785 Y 556057, um hnitpunkt 8. X 353751 Y 556051, um hnitpunkt 9. X 353708 Y 556073, um hnitpunkt 10. X 353687 Y 556083, um hnitpunkt 11. X 353647 Y 556087, um hnitpunkt 12. X 353611 Y 556102, um hnitpunkt 13. X 353575 Y 556137, um hnitpunkt 14 . X 353506 Y 556131 um hnitpunkt 15. X 353466 Y 556118 um hnitpunkt 16. X 353437 Y 556117, um hnitpunkt 17. X 353393 Y 556205, um hnitpunkt 18. X 353330 Y 556279, og þaðan í hnitpunkt 19. X 352762 Y 556065, allt samkvæmt hnitsetningu á myndgrunni Loftmynda ehf. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

                Af hálfu stefnda í aðalsök er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

                Með gagnstefnu birtri 18. október 2012 höfðaði stefndi gagnsök á hendur stefnanda í aðalsök. Dómkröfur stefnanda í gagnsök eru þær aðallega að viðurkennt verði með dómi að landamerki jarðanna Barma og Miðhúsa afmarkist af línu sem liggi á milli eftirtalinna hnitsettra landamerkja frá hnitpunkti nr. 1 í Rökugróf 353857,64m 555620,77m í hnitpunkt nr. 2 í Skálarhaus, 352769,51m 556060,98 samkvæmt hnitsettum uppdrætti á myndgrunni Ísnet93. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

                Stefnda í gagnsök krefst sýknu af öllum kröfum gagnstefnanda auk málskostnaðar.

I.

Málsatvik

                Stefnandi í aðalsök og stefnda í gagnsök, hér eftir nefnd stefnandi, er eigandi jarðarinnar Miðhúsa í Reykhólahreppi. Stefndi í aðalsök og stefnandi í gagnsök, hér eftir nefndur stefndi, er eigandi jarðarinnar Barma í Reykhólasveit. Ágreiningur er um legu landamerkja jarðanna frá Vökugróf (einnig nefnd Vökugröf, Rökugróf, Rökugröf, Vakargröf, Vökugröf og Vaggargröf í málsskjölum) í Skálarhaus. Aðdraganda málsins má rekja til þess að Reykhólahreppur óskaði eftir því að fá ríkisjörðin Barma keypta og einnig hluta Reykhólajarðarinnar.

                Með bréfi stefnanda til stefnda, dagsett 2. október 2008, var áréttað að landamerki Barma og Miðhúsa væru samkvæmt áðurnefndum hnitpunktum en meðfylgjandi var uppdráttur þar sem sýnt var hvernig talið væri að Vökugrafarlækur (einnig nefndur, Rökugrófarlækur og Rökugrafarlækur) hafi runnið um aldir áður en farvegi hans var breytt. Landamerkin væru í reynd lína sem dregin væri um hnitpunkta nr. 1 til nr. 19. Í svarbréfum stefnda var þessum sjónarmiðum hafnað og því haldið fram að landamerkjalínan væri sjónlína úr svonefndri Vökugröf sem væri merkt nr. 1-3 í punkt nr. 19 sem heitir Skálarhöfuð. Það athugist að stefnandi notar Isnet93 myndgrunn, en nokkur munur er á hnitum eftir því hvor myndgrunnur er notaður.

                Landamerkjum Barma er lýst í sameiginlegu landamerkjabréfi jarðanna Reykhóla og Barma sem undirritað var hinn 19. febrúar 1884 og lesið á manntalsþingi 20. maí 1886. Varðandi það álitaefni sem hér er til meðferðar segir þar m. a.:

                ... þaðan eftir hæsta fjallinu út fyrir ofan stuðlabrún fyrir botninn á Naustadal og þaðan ofan í svonefndan Skálarhaus, þaðan bein sjónhending ofan miðja Vökugróf og þaðan beint áfram á sjó út mitt millum Hundskers (sic, ætti að vera Pundskers) og Bjarmalanda.

                Landamerkjabréf fyrir jörðina Miðhús er undirritað þann 10. maí 1884 og lesið á manntalsþingi 20. maí sama ár. Þar er landamerkjum Miðhúsa m.a. lýst með eftirfarandi hætti:

                ...þaðan í vestur eftir miðjum Barmaál mitt millum ?skers (sic, ætti að vera Pundskers) og Blikhólmahleina og þaðan eftir miðjum álnum útá móts við Vökugróf og upp eftir Vökugrófarlæk og þaðan ræður bein sjónhending í Skál í fjallsbrúninni sem upphaflega er nefnd og skálarhöfuð innan hértaldra landamerkja lýsi ég hér með Miðhúsaland að vera...

                Vökugróf er lýst svo í örnefnaskrá fyrir jörðina Barma sem Samúel Eggertsson skráði en leiðbeinandi er sagður Þórður Ólafsson: Úr Lægrimýrum liggur Engjanes niður og út undir merkin; þar er Vöggugróf, líklega fremur Vakargröf, vegna lindar sem fellur í sjóinn og heldur þar lengi þýðri vök við landið. Að öðru leyti er ekki minnst á Vökugrafarlæk í örnefnaskránni.

                Um Reiðhól segir í hinni sömu örnefnaskrá: Efst í hærri Mýrunum heitir Reiðhóll. Út yfir hann liggur þjóðvegurinn. Er þá komið í Miðhúsalandareign.

                Í örnefnaskrá fyrir jörðina Miðhús, sem Samúel Eggertsson skráði eftir leiðbeiningum Tómasar bónda á Miðhúsum, er ekki getið um Vökugróf eða Vökugrófarlæk. Viðbætur við örnefnaskrána voru skráðar af Brynjúlfi Sæmundssyni í ágúst 1976 eftir heimildarmönnunum Ingibjörgu Árnadóttur, Jóni Daðasyni, Ólínu Jónsdóttur og Sveini Guðmundssyni. Þar segir m.a.: Landamerki voru sett inn á uppkast að korti um leið og þessi viðbótarskrá var tekin saman. Hér skal aðeins tekið fram, að merkjalínan úr Rökugróf (eða Vöggugróf) í Skál er þannig að Skálarhaus er allur í Miðhúsalandi.

                Meðfylgjandi viðbætinum er kort unnið á Örnefnastofnun með örnefnum ásamt landamerkjalínu jarðanna Barma og Miðhúsa á hinu umþrætta svæði. Kortið er sagt hreinskrifað eftir uppkasti Brynjúlfs Sæmundssonar og örnefnaskrár Miðhúsa hafðar til hliðsjónar.

                Hinn 28. júní 1870 er þinglesin lögfesta Páls Ingimundarsonar fyrir manntalsþingrétti Barðastrandarsýslu. Þar segir: Ég undirskrifaður lögfesti hérmeð eignarjörð mína konu minnar og sona, Miðhús á Reykjanesi liggjandi í Berufjarðarþinghá og  Barðastrandarsýslu með meðfylgjandi landamerkjum, að utanverðu milli Miðhúsa og Reykhóla ráði Illakelda, rétta sjónhending upp í Sléttaberg og ofan í miðja Lómatjörn til sjávar og að innanverðu milli Miðhúsa í Vökugróf yfir innrilækjarkvísl sem rennur eptir henni beina sjónhverfing upp í fjall.

                Þá liggur fyrir í máli þessu greinargerð Árna Hjartarsonar, vatnafræðings hjá ISOR, um Vökugröf og Vökugrafarlæk, frá árinu 2008. Þar segir: Lækurinn frá lindinni rennur suður við urðarhólana sem tengjast skálinni og upp að Reiðhól og í sveig niður með honum. Þar rennur lækurinn eftir sínum gamla farvegi  niður að Þjóðvegi. Farvegurinn er grunnur og lítt áberandi eins og títt er um farvegi  lindarlækja. Áður en vegurinn var lagður rann lækurinn eftir grunnum en glöggum farvegi niður í mýrlendi þar neðan við sem samkvæmt örnefnaskrá Barma nefnist Lægri- Mýrar. Þar sveigði hann til suðurs á nokkur hundruð metra kafla uns komið var út á móts við Miðhúsamel að hann sveigði til austur og féll skemmstu leið til strandar...

                Síðar segir: Vegagerð og framræsla mýrlendis  um miðbik 20. aldar breyttu farvegi lækjarins. Við þjóðveginn hverfur lækurinn úr hinum náttúrulega farvegi og fylgir vegarskurði að ræsi nokkru innar. Þar fer hann undir veginn og fylgir nýlegum farvegi í framræsluskurð nokkru neðan þjóðvegar og fylgir honum til sjávar.

                Einnig liggja fyrir í máli þessu drög og álitsgerð Sigurgeirs Skúlasonar landfræðings frá 30. nóvember 2011 sem unnin var að beiðni stefnda. Þar er lýst vettvangsgöngu 14. júlí 2011. Byrjað var við vatnsból Reykhóla og fylgt farvegi sem liggur frá því niður að mýri sem er neðan þjóðvegar. Þar sem þessi lækur sem við fylgdum kemur niður hlíðina er nokkuð stór kvos. Venjulega virðist vera nokkuð jafnt rennsli úr uppsprettunni sem hann á upptök sín í en út frá umhverfinu þarna hlýtur rennslið að aukast til muna við leysingar og í mikilli bleytutíð. Það sést líka þegar komið er niður fyrir veg þar sem hann kom áður niður í mýrina, en þar er nokkurt skarð í barðið sem er ofan við mýrina. Núna er búið að færa rennslið að ofan um 85 metra í suður. Frá þessum stað sem farvegurinn kom áður í mýrina og fram á brún hennar við sjóinn eru 170 metrar og er hæðarmunurinn þar um 15 metrar. Ef farið er frá þessum stað og í suður að Rökugróf er fjarlægðin þar á milli 390 metrar og hæðarmunurinn 3 metrar. Út frá þessu tel ég mjög ólíklegt að lækurinn hafi getað runnið efst í mýrinni alla þessa leið í mjög litlum halla (3 m á 390 m vegalengd) í stað þess að fara niður yfir mýrina þar sem hallinn er mun meiri eða 15 m á 170 m.   Enn fremur um landamerkjabréf Miðhúsa: Misræmi er í bréfinu þar sem segir að skálin sé upphaflega nefnd en það er ekki rétt þar sem hennar er bara getið í lok bréfsins, og síðar: Mín niðurstaða er miðað við skoðun á vettvangi, hæðarmælingum og landamerkjabréfum að líklegasta lega línunnar sé úr (R) Vökugróf og bein sjónhending upp eftir framhlaupinu og í skálarhausinn.

                Þá liggja fyrir í málinu yfirlýsingar þeirra Magnúsar Jónssonar, dags. 22. júní 2011, og Arnars Sveinssonar, dags. 12. september 2011, til stuðnings sjónarmiðum stefnanda. Einnig umsögn Þórarins Sveinssonar, dags. 4 apríl 2008, og yfirlýsing Egils Sigurgeirssonar, dags. 29. mars 2012, til stuðnings sjónarmiðum stefnda.

                Gengið var á vettvang hinn 11. október 2013. Þátttakendur í vettvangsgöngu, auk dómara og lögmanna málsaðila, voru Jón Sveinsson, sonur stefnanda, og Sigurgeir Skúlason landfræðingur.

                Við aðalmeðferð komu fyrir dóminn Ólína Kristín Jónsdóttir, Magnús Viggó Jónsson, Jón Sveinsson, Þrymur Guðberg Sveinsson, Egill Sigurgeirsson, Árni Hjartarson vatnajarðfræðingur, Þórarinn Sveinsson og Sigurgeir Skúlason landfræðingur.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda í aðalsök og stefnda í gagnsök.

                Stefnandi reisir kröfu sína í aðalsök á því að Vökugrafarlækur afmarki land eignarjarðar sinnar, Miðhúsa, að upptökum undan stórum steini í hlíðinni ofan og innan við Reiðhól og þaðan sjónhendingu í Skálarhaus. Mál þetta snúist um ágreining vegna mismunandi orðalags í landamerkjabréfum jarðanna Barma, sem lýst sé í landamerkjaskrá Reykhóla, og Miðhúsa. Ekki sé ágreiningur um staðsetningu landamerkjanna Vökugrófar og Skálarhauss (Skálarhöfuðs), heldur aðeins um hvernig ákvarða skuli landamerkjalínuna milli þeirra. Farvegur Vökugrófarlækjar frá upptökum ofan og innan við Reiðhól, sem stefnandi segir vera í námunda við vatnsból þorpsins á Reykhólum, hafi verið þar frá árinu 1991. Þaðan hafi farvegur Vökugrófarlækjar legið niður hlíðina, síðan til suðurs í áttina að svonefndum Miðhúsamel og þaðan um Vökugróf og áfram til sjávar. Vegaframkvæmdir og framræsla mýra hafi breytt lækjarfarveginum en miða eigi landamerki við lækinn að upptökum sem hann hafi lýst. Stefnandi hafi hnitsett stein, sem vatn komi undan, ofanvert við vatnsbólið en frá honum ráði landamerkum jarðanna bein sjónhending um miðja Skál í Skálarhaus. Ágreiningurinn hafi verið skilgreindur á afmarkaðan hátt í bréfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, dags. 2. apríl 2012, en þar segi orðrétt: „Deiluefnið snýst um hvar lækjarfarvegur Rökugrafarlækjar/Rökugrófarlækjar hafi verið áður en land var ræktað. Landeigendur Barma leggja áherslu á að vatn leiti að lægsta hæðarpunkti og velji sér stystu leið til sjávar.“             

                Miðhúsabréfið hafi verið gert af Páli Ingimundarsyni þáverandi eiganda og ábúanda Miðhúsa að nokkru og landamerkjaskráin samþykkt af Bjarna Þórðarsyni þáverandi eiganda og umboðsmanni jarðanna Reykhóla og Barma. Í landamerkjaskránni segi svo um landamerki Miðhúsa og Barma: ... eftir miðjum álnum út á móts við Vökugröf og upp eftir Vökugrafarlæk og þaðan ræður bein sjónhending í Skál í fjallsbrúninni sem upphaflega er nefnd og skálarhöfuð. Þær breytingar á staðháttum sem orðið hafi á mörkum Barma og Miðhúsa, frá því er merkjunum var lýst og til nútímans, séu að mýrar hafa verið þurrkaðar með framræsluskurðum, tvíbreiður þjóðvegur með bundnu slitlagi verið lagður, mikil möl hafi verið numin og neysluvatn hafi verið tekið úr uppsprettu. Engu að síður megi sjá þegar tiltæk gögn séu skoðuð að vatn renni í aðalatriðum eins um svæðið og það hafi gert. Loftmyndir í góðri upplausn sýni einnig farvegi vatns, bæði gamla og nýja. Greinilega megi sjá að landinu halli í austur fram hjá Hólunum og Reiðhól en um Barmamýrar miðjar taki land að rísa aftur inn á Barmabarð ofan bæjarins. Kveður stefnandi vatnsból Reykhólahrepps í hlíðinni fyrir ofan og innan við Reiðhól vera við upptök Vökugrafarlækjar og hafi lækurinn verið stærri áður en til vatnsveitu kom. Ætíð hafi því sprottið vatn úr fjallshlíðinni fyrir ofan Reiðhól, jafnvel áður en til nokkurrar landröskunar kom, og runnið, eins og það gerir enn í dag, austan við Reiðhól. Þaðan renni lækurinn suður í átt til sjávar, fram af efri bakkanum og niður á þann neðri, vestur eftir þeim neðri og síðan aftur suður í átt til sjávar, niður eftir hvammi þeim rétt upp af ströndinni sem Vökugröf nefnist. Vökugrafarlæk verði auðveldlega fylgt alla leið, hvaðan sem byrjað er, hvort sem er upp frá ósi hans í flæðarmálinu neðan Vökugrafar og upp eftir læknum, eins og Páll Ingimundarson eigandi Miðhúsa geri í landamerkjabréfi Miðhúsa, eða frá upptökum hans ofan og austan Reiðhóls og niður með honum um flatlendið þar sem áður voru Barmamýrar og fram af bökkunum til sjávar. Eigi að taka sjónhendingar eigenda Miðhúsa og Barma sem jafngildar, þ.e. þær lýsi sömu línum, þá ætti Vökugrafarlækur samkvæmt Bjarna ekki að skipta máli fyrst hann sleppi honum alveg. Lækurinn ætti þá allur að vera þráðbein lína sem félli í sjónlínu sem hæfist í Skálarhaus og endaði í miðri Vökugröf.

                Stefnandi byggir á því að miðið Skálarhaus – miðja Vökugrafar sé því í hvoruga áttina nothæft til nákvæmra landamerkja þó svo það hafi um aldir verið notað. Merkjalína svífi í hundruðum metra hæð yfir yfirborði jarðar og merkin á landi séu þar með óskýr. Þar sé því komin gild ástæða til að ætla að eigendur Miðhúsa og Barma hafi í maí 1884 orðið ásáttir um nokkuð aðra og nákvæmari skiptingu en þeir gerðu í febrúar s.á. Þeir hafi þá tekið Vökugrafarlæk inn sem landamerki. Páll verði ekki skilinn þannig að sjónhending hans sé í Skál og síðan sé úr Skálinni tekin ný sjónhending í aðra átt, þ.e. í Skálarhausinn, heldur hafi hann átt við að sú beina sjónlína í Skálarhaus, þaðan sem hann stóð við upptök Vökugrafarlækjar, fari yfir Skál sem næst miðja.   

                Um landamerkin gildi svokallað Miðhúsabréf sem sé yngra og greinilega leiðrétting á svokölluðu „Reykhólabréfi“ og varði einmitt þennan hluta landamerkjanna. Því eigi að leggja Miðhúsabréfið til grundvallar í máli þessu. Lýsingar merkjanna séu gerólíkar og mismunandi dagsetningar sýni að samið hafi verið um merkin upp á nýtt. Aðeins sé minnst á Vökugrafarlæk í Miðhúsabréfinu og hann því orðinn að fullgildum landamerkjum jarðanna. Vökugrafarlækur eigi sér ekki upptök í Miðhúsamel, eins og stefndi haldi fram, en komi úr uppsprettu úr fjallshlíðinni sbr. álitsgerð Árna Hjartarsonar.Þá byggir stefnandi á hinni fornu reglu í íslenskum rétti að öll vötn skuli renna sem að fornu hafi runnið og lögfest sé í 7. gr. vatnalaga nr. 21/1923. Stefnandi vísar einnig í yfirlýsingu Magnúsar Jónssonar í bréfi dags. 22. júlí 2011 en Magnús hafi verið kúasmali á Börmum og muni vel hvar lækurinn rann fyrir jarðrask. Þá mótmæli stefnandi því að landamerkin séu úr Vökugröf í Skálarhaus en sú lína sé dregin af Sigurgeiri Skúlasyni landfræðingi. Einnig mótmælir hann hugleiðingum Egils Sigurgeirssonar og umsögn Þórarins Sveinssonar en þar sé farið rangt með landamerkjabréf Miðhúsa.

                Þá sýni loftmynd bandaríska flotans af svæðinu frá 1946, þ.e. fyrir framræslu og aðeins 62 árum eftir að landamerkjabréf Miðhúsa var samið, að nokkru farveg lækjarins um svæðið og beri myndinni saman við lýsingar staðkunnugra sem muni Barmamýrar fyrir framræslu. Kveði stefnandi greiningu Árna merkja að Vökugrafarlækur hafi ekki breytt farvegi sínum, a.m.k ekki um aldir, en landamerkjabréf Miðhúsa sé ekki nema 128 ára gamalt svo öruggt megi telja að hann hafi líka runnið á sömu slóðum 1884 þegar Miðhúsabréfið var samið. Upptök Vökugrafarlækjar sé að finna í fjallshlíðinni ofan Barmamýra og því geti þau ekki fallið í eða undir sjónmið Reykhólabréfsins sem er Skálarhöfuð-Vökugröf. Þá mótmæli stefnandi því sem fram komi í skýrslu Sigurgeirs Skúlasonar sem röngu. Lækurinn geti ekki hafa runnið með þeim hætti sem Sigurgeir lýsir enda engin ummerki um slíkt. Þá mótmælir stefnandi því að girðing sem vísað sé til í gagnstefnu hafi verið til sem landamerki. 

                Væri Miðhúsabréfinu ætlað að lýsa sömu merkjum og Reykhólabréfið geri þá hefði einfaldlega átt að standa í því: út á móts við Vökugröf og þaðan upp í Vökugröf og þaðan sjónhending í Skálarhöfuð. Frá Vökugröf sjáist Skál og Skálarhöfuð hlið við hlið en ekki í beinni línu hvort við annað. Það sé því ekki til neitt sjónmið Vökugröf-Skál-Skálarhöfuð. Tilraun gagnaðila til að gera söm þau sjónmið sem komi fyrir í sitt hvoru landamerkjabréfinu gangi ekki upp. Telji stefnda í gagnsök skálina vera lélegt sjónmið þar sem um víðan hvamm sé að ræða. Þá mótmæli stefnandi því sem haft sé eftir Hirti Þórarinssyni, sem alist hafi upp á Miðhúsum 1927-1939, enda ekki í samræmi við skjöl málsins og staðreyndir að öðru leyti. 

                Um lagarök vísar aðalstefnandi til vatnalaga nr. 23//1923, landamerkjalaga nr. 41/1919, landskiptalaga nr. 46/1941, jarðalaga nr. 65/1976, laga nr. 6/ 2001 um skráningu og mat fasteigna. Þá er vísað til almennra reglna samninga-, kröfu- og eignarréttarins og reglu um túlkun landamerkjabréfa. Þá er vísað til þinglýsingareglna að fornu og nýju.

III.

Málsástæður og lagarök stefnda í aðalsök og stefnanda í gagnsök

                Stefndi vísar til umsagnar Þórarins Sveinssonar dómkröfum sínum til stuðnings sem hafi kannað og lagt mat á hvernig merki jarðarinnar Barma lægju, m.a. á móti Miðhúsum. Komi þar fram að þann 25. október 2007 hafi Þórarinn farið til fundar við Egil Sigurgeirsson hreppsnefndarmann, Mávavatni. Hafi þeir farið yfir landamerkjabréf Reykhólajarðarinnar og Miðhúsa frá 1884 og borið saman við kort og loftmyndir sem þeir höfðu auk þess sem Egill væri vel staðkunnugur sem heimamaður frá barnæsku. Hafi þeir Egill farið og skoðað landamerki Miðhúsa og Barma. Til sjávarins hafi allt virst skýrt, örnefnin vel þekkt og merkin eðlileg. Töldu þeir vafalaust að svonefnd „Barmalönd“ væru í Miðhúsalandi þrátt fyrir nafnið. Rakagröf væri vel þekkt en Rökugrafarlækur væri varla til sem slíkur í dag en eftir honum hafi verið grafinn affallsskurður vegna framræslu. 

                Þá segir í umsögninni að neðan þjóðvegar austan Vökugrafarlækjar sé nokkurt mýrlendi sem grafnir hafa verið í tveir þurrkskurðir nærri 500 m. að lengd hvor og nefndur affallsskurður taki við mestu af vatninu frá þeim. Þá sé þess getið að við athugun á gömlum jarðabótaúttektum hjá Bændasamtökum Íslands hafi komið í ljós að 1957 hafi verið teknir út í Börmum vélgrafnir skurðir 1.608 m. að lengd. Efi Þórarinn ekki að upptök Rökugrafarlækjar sé að finna undan malarholtunum þar sem nú sé efnisnáma. Þá hafi Þórarinn rætt við systkinin Lilju og Hjört Þórarinsbörn en þau hafi átt heima á Miðhúsum á unglingsárum þar sem foreldrar þeirra bjuggu. 

                Þá vísi stefndi til álitsgerðar Sigurgeirs Skúlasonar máli sínu til stuðnings og sérstaklega til þeirra sjónarmiða hans sem fram koma í kafla dómsins um málavexti. Sé lýsing í landamerkjabréfi Reykhóla m.a. sögð styðjast við áreiðardóm Orms lögmanns Sturlusonar frá 1572. Stefndi hafi lagt fram með gagnstefnu hnitkort Sigurgeirs Skúlasonar þar sem notast er við grunn Loftmynda ehf.

                Þá vísi stefndi til bréfs Egils Sigurgeirssonar sem liggi fyrir í málinu, sem hafi yfirfarið drög Sigurgeirs og ekki gert athugasemdir við þau. Taki Egill eindregið undir þá niðurstöðu að landamerkin séu úr R (Vökugróf) og bein sjónhending í Skálarhaus eins og skýrt komi fram í þinglýstum landamerkjabréfum Miðhúsa og Reykhóla (Barma). Þá hafi faðir hans, Sigurgeir Tómasson, bóndi á Miðhúsum 1933-1993, á Reykhólum 1939-1958 og á Mávavatni 1958-1993, ætíð talað um að landamerkin á milli Barma og Miðhúsa væru eins og að framan greindi.

                Stefndi telji kröfugerð í aðalsök ranga en þá kröfulínu sem byggt sé á í gagnstefnu rétta. Þá mótmæli hann því sem aðalstefnandi haldi fram að örnefnin Rökugrafarlækur/Rökugrófarlækur séu rangnefni og seinni tíma tilbúningur og að Vökugrafarlækur sé réttnefni. Öll örnefnin hafi verið notuð í gegnum tíðina. Stefndi mótmæli þeirri málsástæðu stefnanda að Miðhúsabréf sé greinileg leiðrétting á Reykhólabréfinu varðandi einmitt þennan hluta landamerkjanna. Hér sé um tvö landamerkjabréf að ræða hvort fyrir sína jörðina. Ekki verði séð að orðalag þeirra skarist, heldur sé skilningur aðalstefnda sá að orðalag beggja landamerkjabréfanna lýsi mörkunum eins og stefndi telji þau rétt. 

                Stefndi mótmæli staðhæfingu um að eigendurnir hafi hreinlega samið um ný landamerki eftir að Bjarni skrifaði Reykhólabréfið og segir hana úr lausu lofti gripna. Stefndi mótmælir kröfugerð stefnanda og hnitum þeim sem fram koma í dómkröfum og þeim gögnum sem stefnandi hafi lagt fram í málinu sem styðja eigi þau hnit. Að mati stefnda séu kröfur stefnanda órökstuddar að miklu leyti og sé þeim hafnað.

                Um lagarök vísar stefndi til meginreglna eignarréttar, reglna samninga- og kröfuréttar, en einnig til þinglýsingarreglna að fornu og nýju. Einnig vísar hann til laga nr. 41/1919 um landamerki og til jarðalaga nr. 81/2004, vatnalaga nr. 15/1923, landskiptalaga nr. 46/1941 og laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. 

IV.

Niðurstaða

                Í máli þessu er deilt um hluta landamerkja jarðanna Miðhúsa og Barma. Við vettvangsgöngu dómsins sáust glögglega aðstæður allar, m.a. að vatni, sem kemur úr lind ofan og innan Reiðhóls, ásamt vætlum sem víða sjást í hlíðinni, hefur verið veitt með vegskurði nokkru innar um 85 metra leið í ræsi gegnum þjóðveginn. Við upptök lindarinnar er vatnsból Reykhólahrepps. Í mýrinni neðan vegar hafa verið grafnir tveir skurðir sem nú veita vatni út til Vökugrafar. Mýrarnar eru stórþýfðar sem bendir til þess að þær hafi verið blautar og illfærar fúamýrar með keldum áður en framræst var með fyrrnefndum skurðum. Samrýmist þetta framburði stefnanda og Jóns Sveinssonar, sonar hennar fyrir dóminum. Ekki sjást á vettvangi glögg merki þess að lækur hafi átt sér skýran og afmarkaðan farveg og runnið í hlykkjum frá þeim stað sem vatn úr hlíðinni rann í mýrina og áfram þaðan efst í mýrinni út á móts við Miðhúsamel. Fyrir dómi var vitninu Árna Hjartarsyni vatnafræðingi sýnd loftmynd frá árinu 1946, sem tekin var áður en skurðirnir voru grafnir. Treysti hann sér ekki til þess að draga línu á loftmyndina sem sýnt gæti farveg lækjarins um mýrina

                Stefnandi krefst þess að merki jarðanna verði ákveðin eftir hnitsettum punktum sem Jón Sveinsson hefur merkt inn á kort sem er meðal gagna málsins. Byggir stefnandi á því að Vökugrafarlækur eigi upptök sín undan steini sem er ofan við vatnsbólið í hlíðinni sem fyrr er nefnt. Stefndi krefst sýknu í aðalsök og gerir þær dómkröfur í gagnsök að landamerkin verði bein lína úr Vökugróf í Skálarhaus. 

                Orðalagi í landamerkjabréfum fyrir jarðirnar Miðhús og Barma ber ekki saman þegar landamerkjum á hinu umdeilda svæði er lýst.

                Í landmerkjabréfi jarðarinnar Miðhúsa er merkjum lýst með eftirfarandi hætti:

... og þaðan í vestur eftir miðjum Barmaál mitt millum ?skers (sic, ætti að vera Pundskers) og Blikhólmahleina þaðan eftir miðjum álnum útá móts við Vökugróf og upp eftir Vökugrófarlæk og þaðan ræður bein sjónhending í skál í fjallsbrúninni sem upphaflega er nefnd og skálarhöfuð.

                Í landamerkjabréfi jarðarinnar Reykhóla, þar sem landamerkjum jarðarinnar Barma er lýst segir: ... og þaðan ofan í svonefndan Skálarhaus, þaðan bein sjónhending ofan miðja Vökugróf og þaðan beint áfram á sjó út mitt millum Hundskers (sic, ætti að vera Pundskers) og Bjarmalanda.

                Bréfin eru bæði undirrituð árið 1884, Reykhólabréfið hinn 19. febrúar en Miðhúsabréfið hinn 10. maí. Af þessu leiðir að rétt þykir að styðjast frekar við landamerkjabréf fyrir jörðina Miðhús þar sem það er undirritað tæpum þremur mánuðum síðar en landamerkjabréf Reykhóla auk þess sem því var þinglýst fyrr en hinu.

                Stefnandi reisir kröfugerð sína á því að Vökugrafarlækur eigi sér farveg allt frá Vökugróf austur eftir mýrinni og upp hlíðina að upptökum undir steini ofan við vatnsból sem áður er getið.

                Í lögfestu Páls Ingimundarsonar frá árinu 1870 segir svo: ... og að innanverðu milli Miðhúsa í Vökugróf yfir innrilækjarkvísl sem rennur eptir henni beina sjónhverfing upp í fjall.

                Í örnefnaskrá fyrir jörðina Barma lýsir Þórður Ólafsson Vökugróf með eftirfarandi hætti: .. .þar er Vöggugróf, líklega fremur Vakargröf, vegna lindar sem fellur í sjóinn og heldur þar lengi þýðri vök við landið.

                Að öðru leyti en hér hefur verið rakið er Vökugrafarlækjar ekki getið í örnefnaskrám jarðanna Miðhúsa og Barma. Verður að telja eftir lýsingu í lögfestu Páls Ingimundarsonar að innri lækjarkvíslin hafi verið ofan Vökugrófar og vísað frá Vökugróf til fjalls þar sem eru Skálarhaus og Skál. Fær það stoð í staðháttum á vettvangi.

                Hóll nokkur sem Reiðhóll heitir er á hinu umdeilda svæði. Reiðhól er lýst í örnefnaskrá Barma ásamt öðrum örnefnum sem tilheyra jörðinni. Reiðhóls er hins vegar ekki getið í örnefnaskrá Miðhúsa. Af því verður ráðið að Reiðhóll hafi verið talinn innan landamerkja jarðarinnar Barma sem stangast þá á við yfirlýsingu og framburð Magnúsar Jónssonar fyrir dómi um hið gagnstæða, en Magnús var á barnsaldri vinnumaður á Börmum og Reykhólum. Þá liggja fyrir í gögnum málsins viðbætur við örnefnaskrá jarðarinnar Miðhúsa frá árinu 1979 þar sem stefnandi ásamt fleiri lýsir merkjum jarðanna með öðrum hætti en fram kemur í kröfugerð hennar í máli þessu. Að mati dómsins verður hvorki ráðið af gögnum málsins né ummerkjum á vettvangi að vatn sem rennur austan Reiðhóls í hlíðinni neðan hnitapunkts nr. 18, hafi heitið Vökugrafarlækur eða að Vökugrafarlækur hafi runnið um mýrina, sbr. hnitpunkta nr. 4-6, út til Vökugrafar, eins og stefnandi heldur fram. Þá verður að hafa til hliðsjónar orðalag í landamerkjabréfi Miðhúsa þar sem sjónhendingu er lýst í Skál í fjallsbrúninni. Á vettvangi mátti glögglega sjá að austan við Skálarhausinn er víður hvammur í hlíðinni og klettabelti þar fyrir ofan sem mynda samfellda skál allt upp á fjallsbrún. Það samrýmist því ekki orðalagi landamerkjabréfsins að draga landamerkjalínu í miðjan hvamminn í fjallshlíðinni neðan fjallsbrúnar og þaðan í Skálarhaus. Hvammurinn sem er í hlíðinni neðan fjallsbrúnar yfir Skálinni verður því ekki notaður einn og sér sem viðmið, gegn skýru orðalagi landamerkjabréfsins. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telst stefnandi ekki hafa fært sönnur á að Vökugrafarlækur eigi sér farveg eins og byggt er á frá hnitpunkti nr. 4 til hnitpunkts nr. 18. Ber því að hafna þeirri kröfu hans.

                Koma þá til skoðunar dómkröfur stefnda þ.e. stefnanda í gagnsök. Í landamerkjabréfi Miðhúsa er merkjum lýst upp eftir Vökugrafarlæk og þaðan beina sjónhendingu í Skál í fjallsbrúninni sem áður er nefnd og skálarhöfuð. Landamerkjum jarðarinnar Barma er hins vegar lýst úr Skálarhaus, þaðan beina sjónhendingu ofan í miðja Vökugróf. Ekki verður ráðið af orðalagi í landamerkjabréfi jarðarinnar Miðhúsa að misræmis gæti í lýsingu þótt Skálin sé ekki nefnd í upphafi landamerkjalýsingarinnar þegar vísað er til fjallsbrúnar þeirrar sem getið er í upphafi bréfsins. Af því verður aðeins ráðið að sjónhending ráði merkjum upp eftir Vökugrafarlæk og þaðan sjónhending í Skálina í fjallsbrúninni og Skálarhaus. Eins og landslagi háttar og lýst er hér að framan verður landamerkjalínan, sjónhending frá Vökugrafarlæk í Skálarhaus, ekki dregin um Skálina í fjallsbrúninni. Sú málsástæða stefnda að ósamræmis gæti í lýsingu á landamerkjum Miðhúsa þar sem skálin er ekki upphaflega nefnd í landamerkjabréfinu fær ekki stoð í texta þess. Ótvírætt orðalag landamerkjabréfs Miðhúsa vísar til þess að landamerkjum er lýst frá fjallsbrún í upphafi bréfsins og landamerkjum lokað með því að sjónhending ráði merkjum í fjallsbrúninni, sem upphaflega er nefnd í bréfinu. Er það í samræmi við orðalag í lögfestu Páls Ingimundarsonar sem að framan er rakið. Þá verður á það að líta að hvammurinn í Skálinni getur varla talist nothæft landamerki þar sem um víðan hvamm er að ræða sem liggur í fjallshlíðinni neðan og innan við Skálarhaus. Er fallist á sjónarmið stefnanda í greinargerð hennar í gagnsök um það efni. Einnig er litið til þess að dómkröfur í aðalsök og gagnsök eru þær sömu þegar merkin eru sett niður á Skálarhausinn. Þá skiptir einnig máli fyrir úrlausn málsins að kröfugerð stefnanda í aðalsök takmarkast við hvamminn miðjan í Skálinni en landamerkjum jarðarinnar Miðhúsa er lýst í fjallsbrún Skálarinnar sem er þá utan þess svæðis sem stefnandi gerir dómkröfu um. Er þá einnig litið til þess sem áður er lýst að landamerkjabréf Reykhóla, þar sem landamerkjum jarðarinnar Barma er lýst, er þinglesið óbreytt tveimur árum síðar en landamerkjabréf Miðhúsa án þess að fram hafi komið athugasemdir frá eiganda jarðarinnar Miðhúsa. Að öllu virtu sem að framan greinir er það niðurstaða dómsins að skýra verði orðalag í landamerkjalýsingum jarðanna Miðhúsa og Barma til samræmis.

                Ágreiningslaust er með aðilum að Vökugrafarlækur skipti landamerkjum frá punkti nr. 1 að punkti nr. 4 samkvæmt hnitsettum uppdrætti sem lagður hefur verið fram af hálfu stefnanda. Hnitpunktar nr. 2 og 3 fylgja hins vegar ekki læknum að öllu leyti. Að mati dómsins þykir gleggra að vísa til Vökugrafarlækjar hvað þau mörk varðar. Að því virtu er það niðurstaða dómsins að landamerki jarðanna verði dregin úr punkti nr. 1, upp eftir Vökugrafarlæk í Vökugróf, þaðan í punkt nr. 4 og þaðan sjónhending í punkt nr. 19, Skálarhaus. 

                Rétt þykir að málskostnaður á milli aðila falli niður, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp þennan dóm ásamt meðdómendunum Óðni Sigþórssyni og Pálma Ragnari Pálmasyni.

D Ó M S O R Ð:

                Landamerki milli jarðanna Miðhúsa og Barma, Reykhólahreppi eru: Úr hnitpunkti nr. 1 X 353980 Y 555597, þaðan upp eftir Vökugrafarlæk í Vökugróf, þaðan í hnitpunkt 4 X 353728 Y 555677 og þaðan sjónhending í hnitpunkt 19 X 352762 Y 556065.

                Málskostnaður fellur niður.