Hæstiréttur íslands
Mál nr. 410/2003
Lykilorð
- Skuldamál
- Skaðabætur
- Skriflegur málflutningur
|
|
Föstudaginn 2. apríl 2004. |
|
Nr. 410/2003. |
Bráð ehf. (Ásgeir Þór Árnason hrl.) gegn Veiðimanninum ehf. (enginn) |
Skuldamál. Skaðabætur. Skriflega flutt mál.
V krafði B um greiðslu vangoldinna reikninga, auk leigugjalds fyrir notkun vörumerkis o.fl. Að teknu tilliti til mótmæla B var reikningsfjárhæð lækkuð að litlum hluta. Jafnframt var B dæmd til greiðslu vanefnds leigugjalds. Skaðabótakrafa B á hendur V vegna ólögmætrar uppsagnar leigusamnings þeirra kom til lækkunar og var B dæmd til greiðslu mismunarins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. október 2003. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Málið var flutt skriflega samkvæmt 3. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 12. gr. laga nr. 38/1994.
Atvik málsins eru rakin í hinum áfrýjaða dómi. Svo sem þar greinir var málið höfðað af stefnda til innheimtu á reikningum vegna kaupa áfrýjanda á veiðivörum af stefnda, svo og til heimtu umsamins leigugjalds fyrir svokallað rekstrarleyfi og notkun áfrýjanda á vörumerki stefnda.
Áfrýjandi segir kröfu stefnda vegna sölu á veiðivörum vera of háa og reisir varnir sínar meðal annars á því að stefndi hafi ekki lagt fram vörureikninga áritaða um móttöku. Hann beri því sönnunarbyrði fyrir fjárhæð reikningsskuldarinnar. Auk þess sé afsláttur vanreiknaður að hluta og einnig beri að lækka skuldina vegna inneignarnóta, sem áfrýjandi hafi tekið við frá fyrrum viðskiptamönnum stefnda, og afhent þeim vörur fyrir. Af framburði fyrirsvarsmanna málsaðila verður ekki séð að sú venja hafi ríkt í viðskiptum þeirra að ætíð hafi verið kvittað á reikninga um móttöku áfrýjanda á vörum frá stefnda, en fyrirsvarsmaður áfrýjanda bar fyrir héraðsdómi að enda þótt talsvert hafi verið um rangar vöruafgreiðslur hafi þær verið leiðréttar af stefnda eftir því sem tilefni gafst til. Af þessum orðum hans verður helst ráðið að reikningsfjárhæðin og viðskiptayfirlitið sé rétt þrátt fyrir fullyrðingar áfrýjanda um hið gagnstæða. Eins og fram kemur í héraðsdómi hefur stefndi undir rekstri málsins tekið tillit til mótmæla áfrýjanda að nokkru leyti og lækkað upphaflega kröfufjárhæð um 43.942 krónur. Þá ber að taka tillit til þess að áfrýjandi afhenti viðskiptamönnum vörur upp í inneignarnótur frá stefnda er þeir framvísuðu sem greiðslu, samtals að fjárhæð 58.150 krónur. Samkvæmt framangreindu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að efni séu til að lækka kröfu stefnda umfram þetta og stendur því eftir 1.126.679 króna reikningsskuld áfrýjanda við stefnda.
Svo sem mál þetta er lagt fyrir Hæstarétt kemur ekki til endurskoðunar sú niðurstaða héraðsdóms að uppsögn stefnda á fyrrgreindum leigusamningi 27. febrúar 1998 hafi verið ólögmæt. Óumdeilt er að áfrýjandi hefur ekki reitt fram þá fjármuni, sem honum bar að inna af hendi 15. febrúar 1999 á grundvelli þessa samnings, alls 1.177.518 krónur. Í samræmi við málatilbúnað áfrýjanda er ekki önnur niðurstaða tæk en að dæma hann til greiðslu þeirrar fjárhæðar. Áfrýjandi telur hins vegar að tómlæti stefnda við fjárheimtuna eigi að leiða til þess að dráttarvextir skuli falla niður þann tíma sem leið þar til mál þetta var höfðað. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að áfrýjandi hafi á nokkru stigi þess haft réttmæta ástæðu til að ætla að stefndi hafi hvikað frá kröfu sinni þess efnis að áfrýjandi stæði við fjárskuldbindingar sínar samkvæmt samningi þeirra. Þá hefur áfrýjandi ekki gert líklegt að þær vanefndir hans, sem hér um ræðir, hafi orðið vegna viðtökudráttar stefnda. Af þessum ástæðum verður ekki á það fallist með áfrýjanda að upphafsdegi dráttarvaxta skuli hnikað frá því, sem ákveðið var í héraði. Nemur krafa stefnda samkvæmt öllu framanröktu samtals 2.304.197 krónum.
Áfrýjandi hefur jafnframt reist málatilbúnað sinn á því að með uppsögn leigusamnings aðila frá 27. febrúar 1998 hafi stefndi bakað áfrýjanda tjón, sem nemi að minnsta kosti sömu fjárhæð og dómkrafa stefnda í héraði. Á þessum grundvelli telur áfrýjandi að líta beri svo á að fjárhagslegu uppgjöri málsaðila hafi lokið á árinu 1999, þannig að hvorugur teljist eiga kröfur á hinn. Að beiðni áfrýjanda voru dómkvaddir tveir menn, Ágúst Heimir Ólafsson löggiltur endurskoðandi og Einar S. Hálfdánarson héraðsdómslögmaður, til að meta nánar tilgreind ellefu atriði varðandi verðmæti ofangreinds samnings og ætlað tjón áfrýjanda vegna uppsagnar stefnda á honum. Skiluðu þeir matsgerð, sem lögð var fram í héraðsdómi 10. janúar 2003. Gerð er grein fyrir helstu niðurstöðum matsgerðarinnar í hinum áfrýjaða dómi og á þeim byggt þar, þó þannig að krafa vegna missis tiltekinna muna fyrirsvarsmanns stefnda, sem áttu að vera til sýnis í verslun áfrýjanda, var metin að álitum af héraðsdómi í réttu hlutfalli við þann tíma, sem um var að ræða. Af hálfu áfrýjanda er því haldið fram að í héraðsdómi hafi raunverulegt fjártjón hans vegna uppsagnar samningsins verið vanáætlað, en fullyrðingar hans í þessa veru eru þó ekki studdar viðhlítandi gögnum. Álitsgerð matsmanna hefur ekki verið hnekkt varðandi tjón áfrýjanda vegna uppsagnarinnar og ekki er ástæða til að hrófla við mati héraðsdóms á tjóni áfrýjanda vegna þess að fyrrgreindir munir voru fjarlægðir úr verslun hans. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um fjárhæð skaðabótakröfu áfrýjanda á hendur stefnda, samtals 1.480.000 krónur, sem kemur til lækkunar kröfu stefnda miðað við 10. janúar 2003.
Samkvæmt öllu framanröktu verður niðurstaða héraðsdóms staðfest með þeim hætti, sem nánar greinir í dómsorði.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti dæmist ekki.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Bráð ehf., greiði stefnda, Veiðimanninum ehf., 2.304.197 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 1.177.518 krónum frá 15. febrúar 1999 til 10. mars sama árs, en af 2.304.197 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 1.480.000 krónum miðað við 10. janúar 2003.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. júlí 2003.
Mál þetta, sem dómtekið var 10. júlí sl., er höfðað með stefnu birtri 13. desember 2001.
Stefnandi er Veiðimaðurinn ehf., Funahöfða 17a, Reykjavík
Stefndi er Bráð ehf., Hafnarstræti 5, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda 2.362.346,65 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga af 1.177.518 krónum frá 15. febrúar 1999 til 10. mars 1999, en af 2.406.288,65 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt er krafist málskostnaðar.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður.
MÁLSATVIK
Stefnandi rekur heildsölu í Reykjavík og stefndi rekur verslun með veiðivörur í Reykjavík. Mál þetta er höfðað til greiðslu á annars vegar vangoldnum reikningum vegna kaupa stefnda á veiðivörum af stefnanda og hins vegar umsömdu leigugjaldi fyrir ákveðna notkun á vörumerki o.fl. Stefndi ber fyrir sig að hann eigi skaðabótakröfu á hendur stefnanda vegna ólögmætrar uppagnar á samningi aðila.
Fram til loka febrúar 1998 rak stefnandi verslun að Hafnarstræti 5, Reykjavík, undir nafninu Veiðimaðurinn. Þann 27. febrúar 1998 voru undirritaðir þrír samningar milli stefnanda og stefnda. Voru það kaupsamningur um vörulager og innréttingar í verslun Veiðimannsins, sölusamningur um leigu á rekstrarleyfi og skrásettu vörumerki og umboðssölusamningur. Stefndi keypti þar með vörulager í verslun stefnanda að Hafnarstræti 5, Reykjavík svo og innréttingar í versluninni. Með sölusamningi um leigu á rekstrarleyfi og skrásettu vörumerki tók stefndi á leigu vörumerki Veiðimannsins samkvæmt ákveðnum forsendum, skilmálum og skilgreiningum. Samkvæmt 2. gr. samnings þar um er "Viðskiptavild” nafn verslunar Veiðimannsins, viðskiptamannaskrá, ímynd fyrirtækisins og skrásett og verndað vörumerki þess, afsláttur á vöruinnkaupum í heildsölu seljanda, þátttaka seljanda í auglýsingum, þjálfun starfsfólks og þjálfun við stjórnun verslunarinnar. Sem leigugjald skuldbatt stefndi sig til þess að greiða stefnanda sem nam 4% af heildarveltu verslunarinnar, án virðisaukaskatts, ár hvert. Gjalddagi leigugreiðslunnar var 15. febrúar ár hvert, í fyrsta sinn 15. febrúar 1999. Samningur aðila tók strax gildi.
Fljótlega eftir að stefndi tók við rekstri verslunarinnar að Hafnarstræti 5, Reykjavík, fór að bera á misklíð með aðilum og heldur stefnandi því fram að stefndi hafi ekki viljað standa við samningsskilmálana. Nokkrum dögum eftir undirritun samninganna hafi framkvæmdastjóra stefnanda, Paul O"Keeffe, verið meinaður aðgangur að versluninni þrátt fyrir ákvæði í samningi aðila um náið samstarf um útlit og ímynd verslunarinnar. Síðar hafi komið í ljós að stefndi hafi notað vörumerki stefnanda á ólögmætan hátt og í andstöðu við ákvæði samnings aðila þar um. Á haustmánuðum 1998 hafi forsvarsmenn stefnanda gert ítrekaðar tilraunir til þess að fá stefnda til þess að virða samninga þeirra í milli, þá með bréfaskriftum og fundi í nóvember s.á. þar sem forsvarsmenn stefnanda, endurskoðandi og lögmaður stefnanda auk framkvæmdastjóra stefnda hafi mætt. Á fundinum hafi verið gerðar alvarlegar athugasemdir við notkun stefnda á vörumerki stefnanda og við erfiðleika í samstarfi við félagið að öðru leiti.
Í janúar 1999 sagði framkvæmdastjóri stefnanda, Paul O'Keeffe, upp sölusamningi um leigu á rekstrarleyfi og skrásettu vörumerki munnlega gagnvart forsvarsmanni stefnda. Í kjölfarið var stefnda sent bréf, dags. 18. janúar 1999, sama efnis. Þar eru tilgreindar eftirtaldar ástæður fyrir uppsögn samningsins: 1. Misnotkun á nafninu "Veiðimaðurinn" í viðskiptum erlendis sem innanlands sbr. nánari útlistun í umræddu bréfi. 2. Vandamál með að fá persónulega muni framkvæmdastjóra stefnanda úr versluninni þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar að lútandi 3. Samstarfsörðugleikar sem hafi leitt til erfiðs viðskiptaumhverfis. Tilgreint er að ofangreint hafi leitt til algers trúnaðarbrests milli aðila og ekki annað að gera en segja samstarfinu lausu. Í bréfinu er sérstaklega tekið fram að stefnandi miði við að nafni og vörumerki verði skilað 18. maí 1999 eða réttum fjórum mánuðum eftir uppsagnarbréfið. Í bréfinu áskilur stefnandi sér rétt til skaðabóta vegna vanefnda og misnotkunar á samningnum. Með bréfi dags. 29. janúar 1999 var óskað uppgjörs á útistandandi skuld stefnda við stefnanda fyrir árið 1998.
Með bréfi dags. 11. febrúar 1999 lagði stefndi fram hugmyndir sínar um uppgjör skulda við stefnanda auk þess sem þar kemur fram að stefndi stefnir að því að gera upp leigugjald samkvæmt samningi aðila með skuldabréfi.
Með bréfi dags. 26. febrúar 1999 mótmælti stefndi hins vegar uppsögn stefnanda á sölusamningi um rekstrarleyfi og skrásettu vörumerki og nafni verslunarinnar Veiðimaðurinn. Þar kemur m.a. fram að stefndi muni ekki að svo stöddu greiða þóknun skv. 4. gr. samningsins né aðrar greiðslur og halda þeim greiðslum á meðan lögmæti riftunarinnar hafi ekki verið staðreynt til þess að mæta skaðabótakröfu sinni. Í bréfinu lýsir stefndi sig reiðubúinn til viðræðna um riftun samnings aðila enda verði samið um að D og E liðir 6. gr. samningsins verði áfram gildandi svo og afslættir o.fl.
Með bréfi lögmanns stefnanda dags. 22. mars 1999 var mótmælt þeirri ætlan stefnda að halda eftir umsömdu leigugjaldi og greiðslum fyrir vörukaup vegna meintrar efndabótakröfu hans. Greiðslutilmæli voru ítrekuð vegna útistandandi reikninga og farið fram á að stefndi léti í té veltutölur fyrir árið 1998.
Þann 22. mars 1999 var stefnda jafnframt sent innheimtubréf vegna vanskila á greiðslu reikninga fyrir vörukaup í heildsölu stefnanda. Um var að ræða skuldir fyrir vörukaup á tímabilinu frá 8. febrúar 1998 til 10. mars 1999.
Þann 14. mars 2000 lét lögmaður stefnda í té upplýsingar um heildarveltu fyrirtækisins árið 1998 sbr. framlagt bréf Ernst og Young endurskoðenda dags. 13. mars 2000.
Af hálfu stefnda var óskað að dómkvaddir yrðu menn til þess að leggja sjálfstætt mat á og svara eftirfarandi spurningum með tilliti til þess að gildistími samnings aðila væri til 31. desember 2007.
1. Var matsbeiðanda nauðsyn á að afla sér nýrra viðskiptasambanda eftir uppsögn matsþola á samningi aðila? Ef svar við þeirri spurningu er jákvætt, þá er óskað eftir því að matsmenn reyni að staðreyna hver sá kostnaður hafi verið eða leggi mat á hver hann hafi verið að álitum og hvenær hann hafi til fallið.
2. Varð matsbeiðandi fyrir framlegðartapi í verslun sinni eftir að matsþoli hætti að sjá honum fyrir verslunarvörum, t.d. vegna þess að hann naut ekki lengur afsláttar af vörukaupum frá matsþola eða af öðrum orsökum? Ef svar við þeirri spurningu er jákvætt, þá er óskað eftir því að matsmenn meti hvert það tap hafi verið og hvenær teljist eðlilegt að miða við að það hafi til fallið.
3. Varð matsbeiðandi fyrir auknum auglýsingakostnaði í kjölfar uppsagnar matsþola á samningi aðila, annars vegar vegna þess að matsþoli tók ekki þátt í auglýsingakostnaði eins og kveðið var á um í samningi aðila og hins vegar vegna nýrrar verslunarvöru? Ef svar við spurningunni er jákvætt, þá er þess óskað að matsmenn staðreyni þann kostnað ef þess er kostur eða meti hann að álitum og gefi álit á því hvenær hann hafi til fallið.
4. Hefur smásala matsþola áhrif á afkomu matsbeiðanda? Ef svar við þeirri spurningu er jákvætt, þá er þess óskað að matsmenn meti fjártjón matsbeiðanda vegna þess að álitum.
5. Er fagleg ráðgjöf frá Paul D. A. O"Keeffe, framkvæmdastjóra matsþola einhvers virði við starfrækslu veiðivöruverslunar? Ef svo er þá er þess óskað að matsmenn meti fjártjón matsbeiðanda að álitum vegna þess að hann hefur orðið af slíkri ráðgj öf
6. Hefur matsbeiðandi orðið fyrir fjártjóni vegna þess að ekki er lengur lausafé í eigu Paul D. A. O'Keeffe framkvæmdastjóra matsþola til sýnis í verslun hans? Ef svar við þeirri spurningu er jákvætt þá er þess óskað að matsmenn meti hvert það tjón sé.
7. Hefur matsbeiðandi orðið fyrir tjóni vegna þess að hann er ekki aðalsmásöluaðili Outdoor Technologies Group á Íslandi með ABU-Garcia, Berkley og Fenwick vörur og aðgang að heildsölu matsþola vegna þeirra? Ef svar við þeirri spurningu er jákvætt, þá er þess óskað að matsmenn meti hvert það tjón sé.
8. Hefur matsbeiðandi orðið fyrir tjóni vegna þess að hann nýtur ekki forgangs á allri vöru úr heildsölu matsþola? Ef svo er, þá er þess óskað að matsmenn meti hvert það tjón sé.
9. Er það einhvers virði að hafa einkarétt til notkunar á vörumerkinu "Veiðimaðurinn"? Ef svo er þá er þess óskað að matsmenn meti verðmæti þess að álitum.
10. Er það einhvers virði að hafa heimild til að eignast hlutafé í matsþola? Ef svo er þá er þess óskað að matsmenn meti verðmæti þess að álitum.
11. Er viðskiptamannlisti matsþola með 1.000 nöfnum einhvers virði? Sé svo er þess óskað að matsmenn meti hvert verðmæti slíks lista sé.
Í matsgerð matsmannanna Einars S. Hálfdánarsonar, hrl. og löggilts endurskoðanda og Ágústs Heimis Ólafssonar, löggilts endurskoðanda, dagsettri í janúar 2003 segir varðandi 1. tölulið að ljóst sé að matsbeiðanda hafi verið nauðsyn að afla nýrra viðskiptasambanda og að allur kostnaður þess vegna hafi fallið til á árinu 1999. kostnaður vegna þess liðar er metinn 275.000 krónur. Um 2.-4., 5, og 7.-10. tölulið segja matsmenn að ekkert tjón sé metið. Um 3. tölulið segja matsmenn að stefndi hafi haft aukinn kostnað vegna auglýsinga til þess að auka veltu í kjölfar riftunar samnings og er þessi liður metinn 1.130.000 krónur. Þá komast matsmenn að þeirri niðurstöðu að fjártjón vegna þess að munir Paul O´Keeffe væru ekki lengur til sýnis í verslun stefnanda sé 575.000 krónur og er þar miðað við tímabilið til 31. desember 2001.
MÁLSÁSTÆÐUR
Krafa stefnanda byggir annars vegar á vangreiddum reikningum fyrir vörukaup og vangreiddu leigugjaldi fyrir árið 1998 skv. sölusamningi um leigu rekstrarleyfis og skrásetts vörumerkis.
Samkvæmt hreyfingalista viðskiptamannabókhalds stefnanda fyrir tímabilið frá 8. febrúar 1998 til 10. mars 1999 og eftir að tillit hafi verið tekið til athugasemda er komu fram af hálfu stefnda við meðferð máls þessa sé skuld stefnda við stefnanda 1.184.828,65 krónur. Sé þetta skuld vegna kaupa stefnda á veiðivörum frá heildsölu stefnanda. Reikningana hafi borið að greiða innan 30 daga frá útgáfu skv. áritun á reikningunum sjálfum. Með hliðsjón af samningssambandi milli aðila og velvilja í garð stefnda kveðst stefnandi ekki krefjast dráttarvaxta fyrr en frá lokum viðskiptanna en dráttarvaxta sé krafist af þeirri fjárhæð frá 10. mars 1999.
Samkvæmt 4. gr. samnings milli aðila um leigu á rekstrarleyfi og skrásettu vörumerki dags. 27. febrúar 1998 hafi stefndi skuldbundið sig til þess að greiða stefnanda leigu sem ákvarðaðist 4% af heildarveltu verslunarinnar án virðisaukaskatts ár hvert. Gjalddagi leigunnar skyldi 15. febrúar ár hvert, í fyrsta sinn 15, febrúar 1999.
Stefndi hafi ekki greitt umsamda leigu 15. febrúar 1999 og ekki látið í té upplýsingar um veltu verslunarinnar fyrr en í mars mánuði árið 2000. Krafa stefnanda byggi á upplýsingum um veltu verslunarinnar úr bréfi endurskoðanda stefnda, dags. 13. mars 2000 þar sem staðfest sé að heildarvelta félagsins árið 1998 hafi numið 29.437.945 krónum og hafi skuld stefnda numið 1.177.518 krónum þann 15.02. 1999. Dráttarvaxta er krafist af þeirri fjárhæð frá 15. febrúar 1999.
Kröfufjárhæðin samanstandi af ofangreindum tveimur liðum og sé 2.362.346,65 krónur.
Stefnandi hafnar alfarið tilvist ætlaðrar skaðabótakröfu stefnda í tilefni af uppsögn stefnanda á samningi milli aðila og beitingu stöðvunarréttar m.a. á grundvelli þess að í C lið 6. gr. umrædds samnings segi að komi til vanefnda kaupanda og/eða seljanda sem ekki verði jafnaður með samkomulagi innan mánaðar frá skriflegri tilkynningu hvors aðila um sig til hins eða úr ágöllum bætt innan tilskilins frests í því bréfi megi segja samningi þessum upp með þriggja mánaða fyrirvara. Stefndi hafi ítrekað brotið gegn ákvæðum 5. gr. samningsins. Ítrekaðar bréfaskriftir, fundur aðila og aðvaranir stefnanda, ásamt 4ra mánaða uppsagnarfresti í bréfi dags. 18. janúar 1999 uppfylli skilyrði 6. greinar samningsins fyrir uppsögn hans. Hafi stefnandi frá því í desember 1998 markaðsett rekstur sinn undir nafninu Veiðihornið sbr. bréf stefnda dags. 23. desember 1998 svo og 5. og 6. janúar 1999. Afsláttarkjör við vörukaup og þátttaka í auglýsingum sbr. 2. gr. samningsins geti ekki verið grundvöllur bótakröfu stefnda þar sem veruleg vanskil félagsins í upphafi árs 1999 hafi leitt til þess að lokað hafi verið á frekari viðskipi við félagið. Að auki hafi ákvæði viðauka III. við samninginn aldrei verið uppfyllt af hálfu stefnda.
Þá hafi stefndi ekki hafst að varðandi ætlaða kröfu sína fyrr en með matsbeiðni sinni eftir að mál þetta var höfðað og sé krafa hans fallinn niður fyrir tómlæti.
Loks sé beiting stöðvunarréttar á greiðslu skuldar vegna vörukaupa stefnda ólögmæt þar sem greiðslukrafa stefnanda og efndabótakrafa stefnda vegna meintra vanefnda á leigusamningi séu ekki af sömu rót runnar.
Vísað er til almennra reglna kröfu- og samningaréttar um greiðslu fjárskuldbindinga, sbr. og 5. og 6. gr. l. nr. 39/1922. Krafa um dráttarvexti styðjist við III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 ásamt síðari breytingum fram til 1. júlí 2001 en frá þeim tíma sé stuðst við 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafa um málskostnað byggi á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Það er meginmálsástæða stefnda að uppsögn stefnanda á sölusamningi aðila um leigu á rekstrarleyfi og skrásettu vörumerki og nafni "verslunarinnar Veiðimaðurinn" hafi verið ólögmæt og að stefnandi hafi því með saknæmum hætti bakað stefnda tjón og að fjárhæð þess nemi a.m.k. þeim fjárhæðum sem stefnandi krefur stefnda um með málsókn þessari. Kröfur málsaðila séu af sömu rót runnar og hæfar til að mætast og hafi stefndi lýst yfir skuldajöfnun með skaðabótakröfu sinni á hendur stefnanda vegna hinnar ólögmætu uppsagnar. Því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda og dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað eins og krafist er.
Mál þetta snúist í fyrsta lagi um hvort stefnanda hafi verið heimil einhliða og fyrirvaralaus uppsögn samnings aðila og í öðru lagi, hafi svo ekki verið, hvert hafi verið fjártjón stefnda vegna uppsagnarinnar sem hann geti þá haft uppi sem skaðabætur til skuldajöfnunar við fjárkröfur stefnanda. Í þriðja lagi hvort stefnandi eigi rétt til 4% veltutengdrar þóknunar vegna ársins 1998 þrátt fyrir uppsögn sína. Og í fjórða lagi hver sé réttmæt fjárkrafa stefnanda á hendur stefnda vegna vörukaupa.
Samkvæmt 3. gr. sölusamnings aðila "um leigu á rekstrarleyfi og skrásettu vörumerki" hafi hann gilt í tíu ár frá undirritun hans eða nánar tiltekið til 31. desember 2007. Til þess að uppsögn samningsins væri möguleg af hálfu stefnanda hafi samkvæmt C. lið 6. gr. í fyrsta lagi þurft að vera um vanefnd af hálfu stefnda að ræða og í öðru lagi hafi ákveðið samningsferli þurft að hafa átt sér stað, hvort tveggja samkvæmt ákvæðum B. liðar 6. gr.
Stefnandi hafi sagt samningi aðila fyrirvaralaust upp og nefnt til þess fjórar ástæður. Engin þessara ástæðna hafi veitt honum rétt til riftunar samningsins og beri stefnanda því að svara stefnda skaðabótum fyrir það tjón sem hann hafi bakað honum með saknæmri og ólögmætri uppsögn samningsins enda hefði stefndi að öllu leyti staðið við sinn hluta samningsins þegar honum hafi borist uppsagnarbréf stefnanda og engin alvarleg tilraun verið gerð af hálfu stefnanda til að leita sátta með aðilum.
Stefndi mótmælir því alfarið að hann hafi misnotað nafnið "Veiðimaðurinn" í viðskiptum og alls ekki rétt að stefnandi hafi ítrekað gert athugasemdir vegna þessa. Stefndi hafi fengið bréf frá stefnanda sem dagsett séu 18., 21. og 23. september, 26. október og 17. desember 1998. Þá hafi framkvæmdastjóri stefnda átt fund með fulltrúum stefnanda 2. nóvember s.á. Ekkert þessara bréfa og ekki heldur fundur aðila hafi gefið stefnda sérstakt tilefni til að ætla að stefnandi liti á ætlaða misnotkun stefnda á vörumerkinu "Veiðimaðurinn", sem verulega vanefnd stefnda á samningi aðila. Þvert á móti hafi stefndi kappkostað í tilefni af greindum samskiptum að draga úr notkun vörumerkisins, algerlega umfram skyldu, í því augnamiði að viðhalda sambandi við stefnanda á grundvelli samnings aðila enda réðst aflahæfi stefnda af því að samningur aðila væri virtur.
Stefndi hafi hins vegar bent á að hann hafi ávallt litið svo á, að vörumerkið "Veiðimaðurinn" hafi verið andlag samnings aðila, sbr. 1. gr. hans. Takmörkun á heimild stefnda til notkunar á vörumerkinu hafi hins vegar einungis falist í áskilnaði d) liðar 5. gr. um að það yrði einungis notað með og í tengslum við verslunina og skírskotun til samþykkis stefnanda í ákvæðinu getur ekki átt við hvert einstakt tilvik heldur fremur þau tilvik, sem óvenjuleg eru og ekki í fullu samræmi við tilætlan samningsaðila. Er í því sambandi vert að benda á að skv. E. lið 6. gr. öðlaðist stefndi einkarétt á notkun á nafni og vörumerki stefnanda á samningstímanum.
Stefndi mótmælir því að nokkra þýðingu hafi um réttmæti riftunar stefnanda á samningnum, að Paul D. A. O'Keeffe hafi lent í erfiðleikum með að fá persónulega muni sína afhenta úr versluninni. Slík krafa þriðjamanns geti ekki haft áhrif á samningssamband aðila en auk þess hafi stefndi haft heimild samkvæmt samningi aðila til að hafa afnot af umræddu lausafé út samningstímann og krafa Paul D. A. O´Keeffe um afhendingu þess því falið í sér vanefnd samningsins af hálfu stefnanda.
Stefndi mótmælir því að hann hafi átt sök á einhverjum samstarfsörðugleikum milli félaganna. Þvert á móti hafði stefndi í hvívetna leitast við að heiðra samning aðila allt þar til stefnandi greip til uppsagnar hans. Því er sérstaklega mótmælt að stefndi beri einhverja ábyrgð á trúnaðarbresti sem stefnandi telur í riftunarbréfi sínu að orðið hafi milli félaganna. Eftir standi að ástæður þær sem stefnandi hafi fært fram til stuðnings einhliða riftun sinni á samningi aðila séu léttvægar og hafi ekki getað heimilað honum riftun eftir almennum reglum kröfu- og samningaréttar. Stefnandi hafi augljóslega talið hag sínum betur borgið með því að losna undan samningsskyldum sínum við stefnda og verði því að taka afleiðingum af ólögmætri riftun sinni og svara stefnda skaðabótum.
NIÐURSTAÐA
Stefndi var í skuld vegna vöruúttekta sinna hjá stefnanda og samkvæmt reikningsyfirlitum þeim sem stefnandi hefur lagt fram og að teknu tilliti til lækkunar hans á kröfum sínum um 43.942 krónur við aðalmeðferð málsins nemur umkrafin skuld 1.184.828,65 krónum. Ekki er um það deilt að stefndi hafi skuldað stefnanda vegna vöruúttekta en við málsmeðferðina kom fram að stefndi telur kröfur of háar vegna þess annars vegar að tilteknir reikningar séu ekki viðurkenndir af honum og hins vegar að afsláttur hafi verið vanreiknaður. Þetta greinir í bréfi forsvarsmanns stefnda til lögmanns hans dagsettu 11. febrúar sl. og nemur fjárhæð þessara liða 291.111 krónum. Lækkun sú á kröfum stefnanda sem að framan greinir um 43.942 krónur stafar af því að af hálfu stefnandi er viðurkennt að afsláttur hafi verið vanreiknaður og tiltekinn reikningur er felldur niður. Skýringar stefnanda á kröfugerð að öðru leyti verða teknar til greina og byggt á kröfufjárhæð stefnanda.
Samkvæmt samningi aðila skyldi stefndi greiða stefnanda leigugjald sem næmi 4% af veltu ársins 1998 15. febrúar 1999 eða 1.177.518 krónur. Ekki er tölulegur ágreiningur hvað þennan lið snertir en við munnlegan flutning málsins var því hreyft að ákvæði þetta væri ósanngjarnt og bæri að víkja því til hliðar. Á það verður ekki fallist með stefnda og ber honum samkvæmt samningi aðila þar um að greiða stefnda leigu vegna þessa liðar.
Stefnandi sagði upp samningi aðila og ber fyrir sig vanefndir stefnda samkvæmt ákvæði B-liðar 6. gr. samnings aðila en skv. C-lið sömu greinar skyldi uppsagnarfrestur 3 mánuðir ef sagt væri upp vegna vanefnda en 6 mánuðir og miðast við áramót ef samningi yrði sagt upp. Þær ástæður sem stefnandi ber fyrir sig eru taldar upp í bréfi forsvarsmanns stefnanda til stefnda frá 18. janúar 1999 en þar segir að ástæður uppsagnar hafi verið misnotkun á nafninu Veiðimaðurinn í viðskiptum erlendis og innanlands, vandamál með að fá muni Paul OKeeffe afhenta, samstarf hafi verið erfitt og að trúnaðarbrestur hafi orðið með aðilum.
Ljóst má vera að uppsögn á þeim tíma sem stefnandi vill byggja á var stefnda sérlega þungbær vegna þess að stutt var til þess að veiðitímabil stangveiðimanna hæfist og lítill tími til þess að afla vara frá öðrum aðilum í verslunina. Í samningi aðila var á því byggt að ef ekki kæmu til vanefndir skyldi samningi sagt upp með 6 mánaða fyrirvara, eigi síðar en 30. júní ár hvert, og uppsögn taka gildi frá árslokum. Verður á því að byggja að vanefnd yrði að vera veruleg til þess að uppsagnarfresti þeim er stefnandi vill bera fyrir sig yrði beitt.
Ekki verður fallist með stefnanda á það að vanefndir stefnda hafi verið verulegar og þannig réttlætt uppsögn eins og hér átti sér stað. Uppsögn stefnanda á samningnum með þeim fyrirvara sem gerður var gagnvart stefnda var því ekki heimil og verður því að líta til gagnkrafna stefnda í máli þessu en fallist er á það með stefnda að stefnandi hafi með uppsögn sinni valdið tjóni sem stefnanda beri að bæta honum. Stefndi ber fyrir sig matsgerð dómkvaddra matsmanna um umfang tjóns síns og með því að henni hefur ekki verið hnekkt verður hún lögð til grundvallar hér. Þess ber þó að gæta að við mat á fjártjóni vegna muna þeirra er stefndi hafði en voru í eigu Paul O´Keeffe er miðað við allan samningstímann eða til ársloka 2007. Til þess er að líta að stefnandi gat sagt samningi upp miðað við áramót 1999 og eins og málum var komið í samskiptum aðila blasir við að stefnandi vildi slíta samstarfi þeirra og verður við það að miða við úrlausn um þennan kröfulið stefnda að samningur aðila hafi getað verið úti við árslok 1999 og verður þessi liður því metinn að álitum 75.000 krónur. Samkvæmt þessu er krafa stefnda um skaðabætur tekin til greina með 1.480.000 krónum. Með vísan til 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. nú 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu þykir rétt að kveða svo á um að skaðabótakrafa stefnda beri dráttarvexti frá 11. febrúar 2003 til greiðsludags en matsgerð stefnanda var lögð fram á dómþingi 11. janúar 2003.
Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða málsins að stefnda ber að greiða stefnanda 2.362.346,65 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði að frádregnum 1.480.000 krónum með vöxtum eins og greinir í dómsorði.
Málskostnaður fellur niður.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndi greiði stefnanda 2.362.346,65 krónur með dráttarvöxtum af 1.177.518 krónum frá 15. febrúar 1999 til 10. mars 1999, en af 2.406.288,65 krónum frá þeim degi til greiðsludags að frádregnum 1.480.000 krónum með dráttarvöxtum frá 11. febrúar 2003 til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.