Hæstiréttur íslands
Mál nr. 132/2002
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Fimmtudaginn 2. maí 2002. |
|
Nr. 132/2002. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Indriða Sigurðssyni (Sigmundur Hannesson hrl.) |
Áfrýjunarleyfi. Frávísun frá Hæstarétti.
Tveimur dómum þar sem I hafði verið dæmdur fyrir ölvunarakstur var áfrýjað til Hæstaréttar. I mætti ekki fyrir dóm í héraði og lögðu héraðsdómararnir dóm á mál hans að honum fjarstöddum. Málinu var vísað frá Hæstarétti þar sem ekki hafði verið leitað áfrýjunarleyfis, eins og mælt er fyrir um í 1. mgr. 150. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 25. febrúar 2002. Ákæruvaldið krefst ómerkingar tveggja dóma, dóms Héraðsdóms Reykjavíkur 23. janúar 2002 og Héraðsdóms Reykjaness 30. sama mánaðar, og heimvísunar beggja málanna til löglegrar dómsmeðferðar og dómsálagningar að nýju, en málin hafa verið sameinuð á áfrýjunarstigi.
Ákærði krefst aðallega mildunar refsingar, en til vara fellst hann á kröfu ákæruvaldsins.
Ákærði mætti fyrir dóm í hvorugu málinu. Í því fyrra var hann sakfelldur fyrir að hafa ekið ölvaður dagana 5. og 21. maí 2001 og enn 8. júlí sama ár. Voru fyrri brotin talin varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997 og 3. gr. laga nr. 57/1997, og það síðasta við 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga. Voru brot hans talin ítrekun á ölvunarakstursbroti samkvæmt dómi 19. apríl 2000. Í síðara málinu var hann fundinn sekur um að hafa 4. janúar 2002 ekið undir áhrifum áfengis, án ökuskírteinis og án þess að nota bílbelti. Var brot hans talið varða við 1., sbr. 3. mgr. 45. gr., l. mgr. 48. gr. og 1. mgr. 71. gr. umferðarlaganna, sbr. 20. gr. laga nr. 44/1993, allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga. Var þetta brot hans á sama hátt og í dómi 23. janúar 2002 talið ítrekun á broti samkvæmt dómi 19. apríl 2000. Í síðari dóminum var hins vegar ekkert minnst á fyrri dóminn.
Eins og áður segir mætti ákærði ekki fyrir dóm í framangreindum málum, og töldu héraðsdómararnir sér heimilt að leggja dóm á þau að honum fjarstöddum.
Af hálfu ákæruvaldsins er því haldið fram að brot ákærða hafi átt að varða hann þyngri viðurlögum en einungis sektum og takmarkaðri sviptingu ökuréttar og hafi því þessi málsmeðferð dómaranna ekki verið heimil samkvæmt a. lið 126. gr., sbr. 127. gr., laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Samkvæmt 1. mgr. 150. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 10. gr. laga nr. 37/1994, verður dómi í máli, sem farið hefur verið með samkvæmt 1. mgr. 126. gr. sömu laga, ekki áfrýjað nema að fengnu leyfi Hæstaréttar. Ríkissaksóknari hefur ekki sótt um leyfi til áfrýjunar dóma Héraðsdóms Reykjavíkur 23. janúar 2002 og Héraðsdóms Reykjaness 30. sama mánaðar. Verður því ekki komist hjá því að vísa máli þessu frá Hæstarétti. Er það gert án þess að málflutningur fari fram samkvæmt 1. mgr. 156. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 16. gr. laga nr. 37/1994.
Áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, svo sem nánar er ákveðið í dómsorði.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.