Hæstiréttur íslands

Mál nr. 627/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


         

Þriðjudaginn 27. nóvember 2007.

Nr. 627/2007.

Ákæruvaldið

(Egill Stephensen, saksóknarni)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991.

 

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

    

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. nóvember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. nóvember 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi „allt þar til afstaða til áfrýjunar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-1744/2007, ... liggur fyrir þó eigi lengur en til miðvikudagsins 19. desember 2007 kl. 14.“ Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðila var birtur dómur við dómsuppsögu í ofangreindu máli 21. nóvember 2007. Samkvæmt 106. gr. laga nr. 19/1991 getur dómari úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á áfrýjunarfresti stendur, sbr. 2. mgr. 151. gr. laganna. Skal ákærði lýsa yfir áfrýjun dóms innan fjögurra vikna frá birtingu hans. Fallist er á forsendur héraðsdómara fyrir því að varnaraðili skuli sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Með hliðsjón af kröfugerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

                                   Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 21. nóvember 2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt þar til dómur fellur í máli hans í Hæstarétti Íslands, þó eigi lengur en til mánudagsins 3. mars 2008 kl. 16.

Í kröfu lögreglustjóra kemur fram að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí sl., í máli nr. S-196/2007, hafi dómfelldi hlotið 24 mánaða fangelsisdóm fyrir fjölda auðgunarbrota. Í dag hafi dómfelldi verið sakfelldur með dómi héraðsdóms Reykjavíkur, í máli nr. S-1744/2007, fyrir allmörg auðgunarbrot. Var honum gert að sæta 6 mánaða óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar.

Dómfelldi hafi verið úrskurðaður 28. september sl. til að sæta gæsluvarðhaldi vegna þeirra brota sem hann var nú í dag sakfelldur fyrir, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Ofangreindur dómur í máli nr. S-196/2007 sé ekki fullnustuhæfur þar sem dómfelldi hafi áfrýjað honum til Hæstaréttar Íslands, sbr. Hæstaréttarmálið nr. 499/2007. Þá sé dómur sá sem dómfelldi hlaut í dag sömuleiðis ekki fullnustuhæfur.

Með vísan til brotaferils dómfellda verði að telja hann vanaafbrotamann í skilningi 72. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við rannsókn mála hans hafi komið í ljós að hann væri í mikilli óreglu og án atvinnu. Brotaferill hans, sem virðist einkennast fyrst og fremst af innbrotum í bifreiðar og vörslu þýfis, hafi verið samfelldur og sé það mat lögreglustjóra að hann muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus. Það sé og mat ríkissaksóknara, sbr. bréf hans, dagsett í dag, að nauðsynlegt sé að dómfelldi sæti áfram gæsluvarðhaldi.

Í máli þessu liggi fyrir mat Hæstaréttar Íslands, sbr. dóm réttarins í máli nr. 578/2007, að skilyrðum síbrotagæslu sé fullnægt. Ekkert hafi komið fram í málinu sem breytt geti því mati.

Grundvöllur þess gæsluvarðhalds sem nú sé krafist séu ofangreindir dómar sem dómfelldi hafi hlotið á þessu ári, samtals 30 mánaða fangelsi, svo og c. liður 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Með vísan til framangreinds er þess óskað að krafan nái fram að ganga.

Dómfelldi hefur sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laganna. Hann var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2007 dæmdur í tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir ýmis afbrot. Þá var ákæra gefin út á hendur honum 1. nóvember 2007 fyrir hegningarlaga- og fíkniefnalagabrot, framin á tímabilinu frá mars til október 2007, sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir, en hann játaði brotin. Samkvæmt 106. gr. laga nr. 19/1991 lýkur gæsluvarðhaldi þegar dómur hefur verið kveðinn upp í máli. Eftir kröfu ákæranda getur dómari þó úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á fresti samkvæmt 2. mgr. 151. gr. laganna stendur. Þar sem dómfelldi hefur tekið sér frest til að taka afstöðu til áfrýjunar dóms, sem kveðinn var upp í dag, verður krafa um gæsluvarðhald tekin til greina meðan á fresti samkvæmt 2. mgr. 151. gr. stendur í því máli, með vísan til 106. gr. laga nr. 19/1991, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir, settur héraðsdómari.

                                                           Ú R S K U R Ð A R O R Ð

X, sæti gæsluvarðhaldi, allt þar til afstaða til áfrýjunar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-1744/2007, uppkveðinn í dag, liggur fyrir þó eigi lengur en til miðvikudagsins 19. desember 2007 kl. 14.