Hæstiréttur íslands
Mál nr. 844/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Samkeppni
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
Föstudaginn 9. janúar 2015. |
|
|
Nr. 844/2014.
|
Ákæruvaldið (Birgir Jónasson aðstoðarsaksóknari) gegn X (Vífill Harðarson hrl.) |
Kærumál. Samkeppni. Frávísunarúrskurður staðfestur.
X var meðal þrettán ákærðra í máli Á fyrir brot gegn samkeppnislögum. Í hinum kærða úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, var ákæru Á á hendur X vísað frá dómi þar sem ekki hefði legið fyrir kæra frá S til lögreglu vegna meintra brota hans. Í dómi Hæstaréttar kom fram að skýrlega yrði ráðið af 42. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. 5. gr. laga nr. 52/2007, að það væri í verkahring S að taka ákvörðun um hvort að einstaklingur yrði kærður til lögreglu vegna brots gegn samkeppnislögum. Hefði lögreglu og ákæruvaldi samkvæmt því verið óheimilt að taka mál X til rannsóknar og útgáfu ákæru á hendur honum.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. desember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. desember 2014, þar sem ákæru sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í t. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar að því er varðar þátt sóknaraðila.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði er varnaraðili meðal þrettán ákærðra í máli sem ákæruvaldið höfðaði með ákæru 23. apríl 2014 fyrir brot gegn samkeppnislögum. Ákærðu voru starfsmenn [...] og [...]. Varnaraðili starfaði í afleysingum í [...] þegar ætlað brot hans átti sér stað hinn 28. febrúar 2011. Var brot hans talið varða við a. lið 2. mgr. 41. gr. a, sbr. 1. mgr., samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. 4. gr. laga um breytingu á samkeppnislögum nr. 52/2007, sbr. a. lið 2. mgr. 10. gr., sbr. 1. mgr., laga nr. 44/2005.
Í máli þessu liggur fyrir að Samkeppniseftirlitið kærði tíu einstaklinga 30. nóvember 2010 fyrir brot gegn samkeppnislögum. Að fengnum gögnum frá lögreglu lagði Samkeppniseftirlitið fram viðbótarkæru 23. febrúar 2011 þar sem níu einstaklingar til viðbótar voru kærðir til lögreglu og síðan aðra viðbótarkæru 7. mars sama ár á hendur fimm öðrum einstaklingum. Óumdeilt er að varnaraðili var ekki einn þeirra sem tilgreindir voru í þessum kærum.
Með 5. gr. laga nr. 52/2007 voru gerðar gagngerar breytingar á 42. gr. samkeppnislaga í þeim í þeim tilgangi að eyða óvissu um verkaskiptingu milli Samkeppniseftirlitsins og lögreglu. Í 1. mgr. 42. gr., eins og henni var breytt með 5. gr. laga nr. 52/2007, segir að brot gegn lögunum sæti aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Samkeppniseftirlitsins. Í nefndaráliti um frumvarp til laga um breytinguna var tekið fram að hér væri um að ræða ákveðna takmörkun á valdi ríkissaksóknara og lögreglu til rannsóknar sakamála. Taldi nefndin mikilvægt að Samkeppniseftirlitið gætti samræmis við afgreiðslu mála sem og jafnræðis sakborninga. Í 2. mgr. er kveðið á um að Samkeppniseftirlitið eigi að meta, með tilliti til grófleika brots og réttarvörslusjónarmiða, hvort sá hluti málsins sem varðar refsiábyrgð einstaklings skuli kærður til lögreglu. Kom fram í lögskýringargögnum að tilgangur ákvæðisins væri sá að aðeins alvarlegustu málin vegna brota sem framin væru af ásetningi eða vítaverðu gáleysi yrðu kærð til lögreglu. Samkvæmt 3. mgr. getur Samkeppniseftirlitið ákveðið að kæra ekki einstakling hafi hann, eða fyrirtæki sem hann starfar hjá eða er í stjórn hjá, haft frumkvæði að því að láta Samkeppniseftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna ætlaðra brota gegn 10. eða 12. gr. sem geta leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti eða eru mikilvæg viðbót að mati eftirlitsins við þau sönnunargögn sem það hefur þegar í fórum sínum, enda séu nánari skilyrði uppfyllt sem Samkeppniseftirlitið mælir fyrir um í reglum. Að lokum er mælt fyrir um það í 7. mgr. að ákærandi geti sent mál sem varðar brot á samkeppnislögum og gögn því tengd til Samkeppniseftirlitsins til meðferðar og ákvörðunar.
Af 42. gr. samkeppnislaga verður samkvæmt framansögðu skýrlega ráðið að það er í verkahring Samkeppniseftirlitsins að taka ákvörðun um hvort einstaklingur verði kærður til lögreglu vegna brots gegn samkeppnislögum. Var lögreglu og ákæruvaldi samkvæmt því óheimilt að taka mál varnaraðila til rannsóknar og útgáfu ákæru á hendur honum, þar sem ekki lá fyrir kæra frá Samkeppniseftirlitinu. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun verjanda varnaraðila, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun verjanda varnaraðila, Vífils Harðarsonar hæstaréttarlögmanns, 434.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. desember 2014.
Mál þetta var höfðað með ákæru útgefinni af embætti sérstaks saksóknara samkvæmt lögum nr. 135/2008, 23. apríl 2014, á hendur [...] og X, kt. [...], [...], [...], fyrir eftirtalin brot gegn samkeppnislögum á hendur ákærða X í I. kafla ákærunnar þannig:
I.
Verðsamráð starfsmanna [...] og [...] á árunum 2010 og 2011
Á hendur ákærðu Y, sem framkvæmdastjóra [...], Z, sem verslunarstjóra [...], Þ, sem sölustjóra [...], Æ, sem starfsmanni í [...], X, sem sölumanni í [...], Ö, sem framkvæmdastjóra [...], A, sem sölumanni í [...], B, sem sölumanni í [...], og C, sem starfsmanni í [...], fyrir verðsamráð í framangreindum störfum sínum fyrir [...] og [...], á tímabilinu frá 13. september 2010 til 3. mars 2011, með skipulagðri upplýsingagjöf um verð og tilboðskjör sérgreindra grófvörutegunda, einkum bygginga- og timburvara, í símtölum milli starfsmanna fyrirtækjanna, sem var til þess fallið að hafa áhrif á verð, afslætti, álagningu og önnur viðskiptakjör innan umræddra fyrirtækja. Verðsamráðið var af hálfu starfsmanna [...] viðhaft að undirlagi og/eða samkvæmt fyrirmælum ákærðu Y, Z og Þ en af hálfu starfsmanna [...] að undirlagi og/eða samkvæmt fyrirmælum ákærða Ö. Um var að ræða eftirfarandi tilvik:
[...]
20) Verðsamráð 28. febrúar 2011
Í símtali er stóð yfir í 24 mínútur og 15 sekúndur, frá klukkan 15:19, veitti ákærði B meðákærða X upplýsingar um verð og tilboðskjör 97 vörutegunda hjá [...]. Þá aflaði X, í sama símtali, upplýsinga um sex vörutegundir til viðbótar frá D, starfsmanni í [...], og aflaði því samtals upplýsinga um 103 vörutegundir.
Ákærði X upplýsti meðákærða Z um framangreindar verðupplýsingar, klukkan 16:08, með því að senda honum tölvubréf. Í viðhengi tölvubréfsins var skjal sem bar heitið „28 febrúar 2011 verðkönnun.xlsx“ en skjal það hafði að geyma verðupplýsingarnar sem hann hafði fengið í umræddu símtali, ásamt upplýsingum um verð sambærilegra vörutegunda hjá [...].
Brot samkvæmt I. kafla ákæru eru talin varða við a-lið 2. mgr. 41. gr. a, sbr. 1. mgr., samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. 4. gr. laga um breytingu á samkeppnislögum nr. 52/2007, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr., sbr. 1. mgr., laga nr. 44/2005.
[...]
Ákærði X krafðist frávísunar málsins frá dómi í greinargerð sem hann lagði fram þann 20. nóvember sl. en til vara sýknu. Fór munnlegur málflutningur um frávísunarkröfuna fram þann 4. desember sl. og var málið tekið til úrskurðar að honum loknum.
II.
Lög nr. 44/2005, samkeppnislög, voru sett á Alþingi 11. maí 2005 og tóku gildi þann 1. júlí 2005. Í 9. gr. laganna var ákvæði þar sem ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins sættu kæru til sérstakrar nefndar, áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Í þágildandi 42. gr. laganna sagði að brot gegn lögum þessum, reglum og fyrirmælum settum samkvæmt þeim varði fésektum eða fangelsi allt að tveimur árum en fangelsi allt að fjórum árum ef sakir eru miklar. Dæma megi sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga og fésekt jafnframt fangelsi ef skilyrði 49. gr. almennra hegningarlaga væru fyrir hendi. Þá segir að sá sem gefi aðilum, sem annist framkvæmd laga þessara, rangar skýrslur skuli sæta refsingu skv. XV. kafla almennra hegningarlaga. Í 2. mgr. laganna segir að sektir samkvæmt lögum þessum megi gera jafnt lögaðila sem einstaklingi. Lögaðila megi ákvarða sekt án tillits til þess hvort sök verði sönnuð á starfsmann lögaðilans. Hafi starfsmaður lögaðilans framið brot á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim megi einnig gera lögaðila þessum sekt og sviptingu starfsréttinda, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hafi notið hagnaðar af brotinu. Lögaðili beri ábyrgð á greiðslu sektar sem starfsmaður hans sé dæmdur til að greiða vegna brota á lögunum, enda séu brot tengd starfi hans hjá lögaðilanum. Í 3. mgr. segir að dæma megi sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga og upptöku eigna skv. 69. gr. sömu laga í máli er rís vegna brota á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim. Ekkert annað ákvæði var að finna í lögunum um meðferð mála sem sættu opinberri rannsókn.
Með 5. gr. laga nr. 52/2007 var gerð gagngerð breyting á 42. gr. laganna. Í 1. mgr. segir að brot gegn lögunum sæti aðeins opinberri rannsókn að undangenginni kæru Samkeppniseftirlitsins til lögreglu. Í 2. mgr. segir að varði meint brot á lögunum bæði stjórnvaldssektum og refsingu meti Samkeppniseftirlitið, með tilliti til grófleika brots og réttarvörslusjónarmiða, hvort sá hluti málsins sem varði refsiábyrgð einstaklings skuli kærður til lögreglu. Gæta skuli samræmis við úrlausn sambærilegra mála. Í 3. mgr. segir að Samkeppniseftirlitið geti ákveðið að kæra ekki einstakling hafi hann, eða fyrirtæki sem hann starfi hjá eða sé í stjórn hjá, haft frumkvæði að því að láta Samkeppniseftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota gegn 10. eða 12. gr. sem geti leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti eða séu mikilvæg viðbót að mati eftirlitsins við þau sönnunargögn sem það hafi þegar í fórum sínum, enda séu nánari skilyrði uppfyllt sem Samkeppniseftirlitið mæli fyrir um í reglum. Í 4. mgr. segir að með kæru Samkeppniseftirlitsins skuli fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot sé studdur við. Ákvæði IV.VII. kafla stjórnsýslulaga gildi ekki um ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins að kæra mál til lögreglu. Í 5. mgr. segir að Samkeppniseftirlitinu sé heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hafi aflað og tengjast þeim brotum sem falla undir 2. mgr. Samkeppniseftirlitinu sé heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varði rannsókn þeirra brota sem falla undir 2. mgr. Í 6. mgr. segir að lögreglu og ákæruvaldi sé heimilt að láta Samkeppniseftirlitinu í té upplýsingar og gögn sem þau hafi aflað og tengist þeim brotum sem falli undir 2. mgr. Lögreglu sé heimilt að taka þátt í aðgerðum Samkeppniseftirlitsins sem varði rannsókn þeirra brota sem falla undir 2. mgr. Í 6. mgr. segir að ákærandi geti sent mál sem varði brot á samkeppnislögum og gögn því tengd til Samkeppniseftirlitsins til meðferðar og ákvörðunar.
Í athugasemdum með lagafrumvarpi þessu segir að markmið nefndarinnar hafi verið að móta ný viðmið um beitingu viðurlaga við efnahagsbrotum, þ.e. hvenær sé rétt að beita stjórnvaldssektum annars vegar og annars konar viðurlögum hins vegar. Þá hafi umfjöllun nefndarinnar miðað að því að leggja fram tillögur um hlutverk og verkaskiptingu eftirlitsaðila, sérstaklega hvað varði skil á milli þeirra sem beitt geti stjórnvaldssektum og lögreglu og ákæruvalds. Beindist umfjöllun nefndarinnar um hlutverk og verkaskiptingu eftirlitsaðila einkum að Samkeppniseftirlitinu og Fjármálaeftirlitinu og verkaskiptingu þeirra stofnana gagnvart lögreglu og ákæruvaldi.
Í nefndaráliti með frumvarpi um breytingu á 42. gr. laga nr. 44/2005, sbr. 5. gr. laga nr. 52/2007 voru einkum lagðar til breytingar á IX. kafla samkeppnislaga sem fjallar um viðurlög við brotum á lögunum. Var m.a. lagt til að brot einstaklinga gegn samkeppnislögum sættu einungis opinberri rannsókn að undangenginni kæru Samkeppniseftirlitsins til lögreglu. Segir í nefndarálitinu að hér sé um að ræða ákveðna takmörkun á valdi ríkissaksóknara og lögreglu til rannsóknar sakamála, sbr. þágildandi lög um meðferð opinberra mála. Taldi nefndin mikilvægt að Samkeppniseftirlitið gætti samræmis við afgreiðslu mála og gætti að jafnræði sakborninga. Þá tók nefndin undir sjónarmið í 2. mgr. 5. gr. um að Samkeppniseftirlitið mæti bæði við stjórnvaldssektir og refsingar, m.t.t. grófleika brots og réttarvörslusjónarmiða, hvort sá hluti málsins sem varði refsiábyrgð einstaklings skuli kærður til lögreglu. Tók nefndin undir þau sjónarmið saksóknara efnahagsbrota til nefndarinnar að ekki kæmi til greina að Samkeppniseftirlitið kærði til lögreglu mál þar sem meint brot varði einungis atvik, eitt eða fleiri, sem bersýnilega séu framin af gáleysi. Tilgangur ákvæðisins sé því sá að ljóst sé að aðeins alvarlegustu málin, þau sem framin séu af ásetningi eða vítaverðu gáleysi, verði kærð til lögreglu.
Í umsögn Samkeppniseftirlitsins til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um breytingu á lögum nr. 44/2005 segir að samkvæmt frumvarpinu sé samspili Samkeppniseftirlitsins annars vegar og lögreglu og ákæruvalds hins vegar komið í skýran farveg. Það leiði í fyrsta lagi að því að samkvæmt frumvarpinu sæta fyrirtæki einvörðungu stjórnvaldssektum og einstaklingar einvörðungu opinberri refsingu að undangenginni opinberri ákæru. Í öðru lagi sé kveðið á um að brot gegn samkeppnislögum sæti aðeins opinberri rannsókn að undangenginni kæru Samkeppniseftirlitsins til lögreglu. Í því felist að tryggt sé að einn sérfróður aðili, Samkeppniseftirlitið, gæti samræmis í því hvort brot einstaklinga séu þess eðlis að vísa beri þeim til opinberrar rannsóknar. Þá sé auk þess samkvæmt ákvæðum frumvarpsins kveðið á um samvinnu lögreglu og samkeppnisyfirvalda við rannsókn á þeim brotum sem geti bæði varðað fyrirtæki stjórnvaldssektum og einstaklinga refsiábyrgð.
Að öllu ofansögðu telur dómurinn, með vísan til orðalags 42. gr. laga nr. 44/2005, eins og henni var breytt með 5. gr. laga nr. 52/2007 og lögskýringargagna, að óyggjandi sé að það hafi verið vilji löggjafans að frumrannsókn og ákvörðun sekta vegna samkeppnisbrota sé hjá Samkeppniseftirlitinu. Fær það mat stoð í orðalagi 2. mgr. 42. gr. Þá telur dómurinn, með vísan til orðalags 2. mgr. 42. gr., að lögregla taki ekki mál einstaklings til rannsóknar og efnislegrar meðferðar nema að undangenginni kæru Samkeppniseftirlitsins. Væri málum svo háttað að lögregla hefði sjálfsvald um það hverjir sættu kæru vegna samkeppnisbrota og hverjir ekki, væri Samkeppniseftirlitinu ómögulegt að sinna lögbundinni skyldu sinni um að gæta jafnræðis við ákvörðun viðurlaga og refsinga, sbr. 2. mgr. 42. gr. laganna. Að auki væri ekki tryggt að sömu aðilar sættu ekki refsikenndum viðurlögum, bæði hjá Samkeppniseftirlitinu og svo fyrir dómstólum. Þá telur dómurinn að í orðalagi 1. mgr. 42. gr. felist meginregla þess efnis að brot gegn lögum nr. 44/2005 sæti aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Samkeppniseftirlitsins. Í síðari málsgreinum 42. gr. er nánari útfærsla á því hvernig Samkeppniseftirlitið skuli fara með ætluð brot og ákvarða um framvindu rannsókna sinna og þá eftir atvikum taka ákvörðun um það hvort kæra eigi einstakling til lögreglu vegna brota gegn samkeppnislögum.
Í máli þessu liggur fyrir að ákærði X sætti ekki kæru af hálfu Samkeppniseftirlitsins til lögreglu þann 30. nóvember 2010 né í viðbótarkærum dagsettum 23. febrúar og 7. mars 2011, þar sem tólf nafngreindir einstaklingar voru kærðir til Efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra fyrir ætluð brot gegn lögum nr. 44/2005. Sérstakur saksóknari tók fyrst skýrslu af ákærða X í desember 2013 og fékk hann stöðu kærðs hjá sérstökum saksóknara. Var ákæra síðan gefin út á hendur öllum þrettán einstaklingunum þann 23. apríl 2014.
Að öllu ofangreindu virtu brast lögreglu og síðan ákæruvaldinu heimild til að taka mál ákærða X til rannsóknar eins og það gerði, þar sem ekki lá fyrir kæra á hendur honum frá Samkeppniseftirlitinu, og gefa síðan út ákæru á hendur honum. Af þessum sökum ber að vísa ákæru á hendur X frá dómi.
Ákærði krefst málskostnaðar og að hann verði greiddur úr ríkissjóði. Fyrir liggur tímaskýrsla verjanda ákærða, Vífils Harðarsonar hrl. Er mál þetta umfangsmikið. Telur dómurinn rétt að taka tímaskýrslu verjanda ákærða til greina þannig að málsvarnarlaun hans eru ákveðin hæfileg 2.038.120 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og skulu greidd úr ríkissjóði.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Ákæru sérstaks saksóknara á hendur X er vísað frá dómi.
Allur sakarkostnaður skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda ákærða, Vífils Harðarsonar hrl., 2.038.120 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.