Hæstiréttur íslands
Mál nr. 321/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
|
|
Þriðjudaginn 3. september 2002. |
|
Nr. 321/2002. |
Eftirmenntun rafeindavirkja(Guðni Á. Haraldsson hrl.) gegn Jóni Árna Rúnarssyni (Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti.
E krafðist þess að bú J yrði tekið til gjaldþrotaskipta. E var ekki talinn hafa sýnt nægilega fram á að hann ætti þá fjárkröfu á hendur J, sem hann studdu kröfu sína um gjaldþrotaskipti við. Var kröfu E því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. júlí 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 2002, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að krafa hans um gjaldþrotaskipti verði tekin til greina, en til vara að úrskurður héraðsdómara verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
I.
Af málatilbúnaði aðila verður ráðið að á árinu 1987 hafi varnaraðili hafið störf sem framkvæmdastjóri sóknaraðila. Sóknaraðili ásamt Endurmenntun rafiðna mun um árabil hafa staðið straum af kostnaði við rekstur Rafiðnaðarskólans, ásamt því að annast reksturinn fram til 1993 eða 1994 þegar sérstök stjórn tók við rekstri skólans. Mun varnaraðili þá hafa orðið skólastjóri við Rafiðnaðarskólann og þegið þaðan laun, en eftir sem áður verið framkvæmdastjóri sóknaraðila.
Varnaraðili lét af framangreindum störfum í upphafi árs 2002. Kveður sóknaraðili þá hafa komið í ljós að varnaraðili hafi allar götur frá árinu 1994 greitt sjálfum sér fé af tékkareikningi sóknaraðila, alls 31.850.343 krónur. Segir sóknaraðili að svo virðist sem varnaraðili hafi með þessu verið að taka sér laun fyrir störf sem framkvæmdastjóri sóknaraðila, þótt Rafiðnaðarskólinn hafi tekið við hlutverki sóknaraðila og varnaraðili verið þar á fullum launum. Þessu hafi varnaraðili leynt fyrir sóknaraðila, enda sá fyrrnefndi einn haft ráðstöfunarheimild yfir tékkareikningnum, sem endurskoðanda Rafiðnaðarskólans hafi aldrei verið kunnugt um. Úttektir varnaraðila hafi verið misjafnar milli ára, launabókhald ekki haldið og launaskýrslur ekki gerðar, opinber gjöld hafi ekki verið staðgreidd af þessu fé og það ekki verið talið fram til skatts. Sóknaraðili kveðst telja sýnt að varnaraðili hafi tekið sér þetta fé án nokkurrar heimildar.
Með beiðni til sýslumannsins í Reykjavík 28. febrúar 2002 leitaði sóknaraðili kyrrsetningar á eignum varnaraðila til tryggingar endurgreiðslu á fyrrgreindum 31.850.343 krónum ásamt dráttarvöxtum og kostnaði. Sýslumaður tók beiðnina fyrir 6. mars 2002 og reis þá ágreiningur milli aðilanna, meðal annars um hvort skilyrðum væri fullnægt fyrir kyrrsetningu og að hvaða marki varnaraðili ætti eignir, sem kyrrsettar yrðu. Gerðinni var lokið sama dag með því að kyrrsettur var eignarhluti varnaraðila í nafngreindu einkahlutafélagi, sem sýslumaður mat að andvirði 5.000.000 krónur, en að öðru leyti varð gerðin árangurslaus, eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði. Í framhaldi af þessu lagði sóknaraðili fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur 11. mars 2002 kröfu um að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Jafnframt mun sóknaraðili hafa höfðað mál á hendur varnaraðila til staðfestingar á kyrrsetningunni.
Varnaraðili tók fyrir héraðsdómi til varna gegn kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti. Ber varnaraðili meðal annars fyrir sig að aðilarnir hafi gert samning 10. febrúar 1988 um kjör hans vegna starfs framkvæmdastjóra hjá sóknaraðila og hafi þeim samningi aldrei verið sagt upp, þótt hann hafi orðið skólastjóri Rafiðnaðarskólans á árinu 1994 og fengið upp frá því greidd laun fyrir það starf. Á síðari stigum hafi þessu til viðbótar verið gert munnlegt samkomulag um greiðslur fyrir yfirvinnu frá 1. janúar 1996 að telja. Samkvæmt þessum samningum hefðu laun varnaraðila vegna starfa hjá sóknaraðila einum á tímabilinu frá 1994 til loka árs 2001 átt að nema 53.932.308 krónum, þar af 33.977.138 krónum ef aðeins yrði stuðst við upphafleg launakjör hans samkvæmt samningnum frá 10. febrúar 1988. Varnaraðili hafi ekki getað fengið þessi laun reglulega vegna efnahags sóknaraðila og greiðslurnar því orðið misjafnar milli ára. Varnaraðili andmælir því sérstaklega að laun sín vegna starfs skólastjóra Rafiðnaðarskólans hafi einnig átt að teljast greiðsla fyrir störf sem framkvæmdastjóri sóknaraðila, enda um tvo sjálfstæða lögaðila að ræða og verkefnin fyrir hvorn þeirra í mörgum atriðum ólík.
II.
Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði lét héraðsdómari niðurstöðu sína um að hafna kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti ráðast af því einu að ekki hafi verið fullnægt skilyrðum til að ljúka kyrrsetningu hjá varnaraðila án árangurs. Af þeim sökum var ekki tilefni til að taka þar afstöðu til málsástæðna varnaraðila, sem lúta að því að sóknaraðili eigi enga kröfu á hendur honum. Að þessu gættu eru engin efni til að verða við fyrrgreindri varakröfu sóknaraðila fyrir Hæstarétti um ómerkingu hins kærða úrskurðar, sem reist er á því að héraðsdómari hafi að þessu leyti ranglega farið með málið.
III.
Svo sem að framan greinir deila aðilarnir meðal annars um hvort samningar milli þeirra hafi staðið til þess að frá árinu 1994 myndi varnaraðili samhliða starfi skólastjóra Rafiðnaðarskólans gegna starfi framkvæmdastjóra sóknaraðili gegn greiðslu sérstakra launa, en varnaraðili ber því við eins og áður segir að þau ættu samanlagt að hafa numið hærri fjárhæð en hann greiddi sér af tékkareikningi sóknaraðila á tímabilinu frá 1994 til 2001. Framlögð gögn í málinu taka ekki af skarið um þetta efni. Þegar málið var tekið fyrir í héraði 20. júní 2002 krafðist sóknaraðili þess að fá að leiða sex nafngreinda menn fyrir dóm til að gefa skýrslur við aðalmeðferð málsins, auk þess sem hann gerði kröfu um að varnaraðili kæmi sjálfur fyrir dóm til að gefa aðilaskýrslu. Þessu andmælti varnaraðili. Með úrskurði 24. sama mánaðar hafnaði héraðsdómari ranglega kröfum sóknaraðila um skýrslutökur af vitnum fyrir dómi og var sá úrskurður ekki kærður til Hæstaréttar. Eins og málið liggur af þessum sökum fyrir er varhugavert að telja sóknaraðila hafa sýnt nægilega fram á að hann eigi þá fjárkröfu á hendur varnaraðila, sem krafa um gjaldþrotaskipti er studd við. Að því gættu verður að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar um annað en málskostnað, en rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 2002
Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 14. júní sl.
Sóknaraðili er Eftirmenntun rafeindavirkja, kt. 620684-0589, Skeifunni 11B, Reykjavík.
Varnaraðili er Jón Árni Rúnarsson, kt. 050157-7419, Hlaðhömrum 4, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að krafa hans um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila nái fram að ganga og varnaraðili verði úrskurðaður til þess að greiða sóknaraðila málskostnað.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá er krafist máskostnaðar að skaðlausu auk virðisaukaskatts úr hendi sóknaraðila.
Varnaraðili hefur verið framkvæmdastjóri hjá sóknaraðila frá árinu 1987 en mun hafa hætt störfum hjá sóknaraðila upp úr áramótum 2001/2002. Með bréfi, sem móttekið var í Héraðsdómi Reykjavíkur 11. mars sl., krafðist sóknaraðili að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt ákv. 1. tl. 2. mgr. 65. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Í bréfi sóknaraðila til dómsins er greint frá því að 6. mars sl. hafi kyrrsetning eigna varnaraðila að kröfu sóknaraðila reynst árangurslaus að hluta, en sóknaraðili hafi krafist kyrrsetningar til tryggingar skuldar varnaraðila vegna heimildarlausar úttektar varnaraðila að fjárhæð 31.850.342 kr. af tékkareikningi í eigu sóknaraðila nr. 29460 í Landsbanka Íslands, Háaleitisútibúi, á tímabilinu 1. janúar 1994 til og með 31. desember 2001.
Sóknaraðili byggir á því að skilyrðum 65. gr. laga nr. 21/1991 sé fullnægt. Mótmæli varnaraðila þess efnis að sóknaraðili eigi ekki umrædda fjárkröfu á hendur honum, kveður sóknaraðili verða útkljáð í einkamáli sem höfðað hafi verið til staðfestingar á fjárkröfu sóknaraðila. Í því máli gefist varnaraðila færi á að halda uppi vörnum gegn henni. Í lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31/1990 sé gert ráð fyrir slíkri málsmeðferð, og samkvæmt 41. gr. þeirra laga verði í staðfestingarmálinu fjallað um réttmæti fjárkröfunnar. Ekki sé hlutverk dómara í þessu máli að dæma um fjárkröfu sóknaraðila heldur að skoða hvort skilyrðum 5. gr. laga nr. 31/1990 hafi verið fullnægt og hvort sýslumaður hafi farið rétt að við gerðina. Við þetta mat geti dómari þessa máls óneitanlega þurft að líta til þeirrar fjárkröfu sem uppi er höfð, en gæta verði hann þess að ganga ekki inn í hlutverk dómara í staðfestingarmálinu. Ekki séu skilyrði kyrrsetningar skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 að gerðarbeiðandi leiði sönnur að réttmæti kröfu sinnar, hins vegar beri að synja kröfu um kyrrsetningu ef ætla megi af fyrirliggjandi gögnum að gerðarbeiðandi eigi ekki þau réttindi sem hann hyggst tryggja.
Af yfirlit tékkareiknings nr. 29460 í Landsbanka Íslands hf. sem liggur fyrir í málinu, en varnaraðili hafði einn umráð yfir reikningi þessum, og af staðfestingu skattyfirvalda að varnaraðili hafi engin laun talið fram frá sóknaraðila frá árinu 1994, telur sóknaraðili að álykta megi með réttu að varnaraðili hafi dregið sér fé úr eigu sóknaraðila. Þá sé ekki ástæða til að ætla að kyrrsetningargerðin frá 6. mars sl., er árangurslaus var að hluta, gefi ranga mynd af fjárhag varnaraðila.
Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili eigi raunar enga fjárkröfu á hendur honum. Þvert á móti eigi varnaraðili inni hjá sóknaraðila háar fjárhæðir. Engin skrifleg gögn liggi til grundvallar fjárkröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila nema yfirlit tékkareiknings í eigu sóknaraðila. Varnaraðili hafi verið framkvæmdastjóri sóknaraðila frá árinu 1987 og sem slíkur hafi hann haft heimild til að gefa út tékka af reikningnum. Gerð hafi verið sérstök bókun á stjórnarfundi hjá sóknaraðila 10. febrúar 1998 um þau kjör sem varnaraðili skyldi njóta meðan hann starfaði fyrir sóknaraðila. Á tímabilinu 1994 til júní 2002 hafi laun varnaraðila hjá sóknaraðila numið 33.977.138 kr. samkvæmt ákvörðun stjórnar sóknaraðila 10. febrúar 1998. Þá hafi síðar verið gerður munnlegur samningur við varnaraðila um að honum yrði greitt fyrir 65 eftirvinnutíma á mánuði frá 1. janúar 1996 til viðbótar áður umsömdum launum. Á tímabilinu hafi því greiðslur til varnaraðila átt að vera 53.932.308 kr.
Varnaraðili kveðst hafa hlutast til um að laun yrðu greidd honum af tékkareikningi 29460 á árunum 1994 til 2001. Fjárhagur sóknaraðila hafi ekki alltaf verið með besta móti þannig að varnaraðili hafi ekki greitt sér að fullu umsamin laun. Samkvæmt þeim gögnum sem sóknaraðili hafi lagt fram í málinu hafi varnaraðili fengið í sinn hlut af tékkareikningi þessum 22.202.881 kr. á tímabilinu 1994 til 2001.
Þá byggir varnaraðili á því að skilyrði þess að kyrrsetningargerðin gegn honum yrði lokið án árangurs hafi ekki verið fyrir hendi, sbr. 15. gr. laga nr. 31/1990. Af þessum sökum skorti það skilyrði ákv. 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 að ekki sé ástæða til að ætla að gerðin gefi ranga mynd af fjárhag varnaraðila.
Niðurstaða: Við kyrrsetningargerðina 6. mars 2002 krafðist sóknaraðili að eignir varnaraðila yrðu kyrrsettar til tryggingar 32.971.296 kr. Bókað er að gerðin hafi hafist klukkan 13.10. Fulltrúi sýslumanns ákvað að fresta gerðinni eftir nokkurn ágreining lögmanna aðila til kl. 15.00. Þá var gerðin aftur tekin fyrir og bókað að varnaraðili hafi óskað eftir að benda á 50% hlut sinn í STJÁ-ráðgjöf ehf. og víxil að fjárhæð 5.000.000 kr. Og þá er meðal annars bókað:
„Hvað eignarstöðu gerðarþola varðar að öðru leyti þá lýsir gerðarþoli því yfir að hann hafi leitast við að fá upplýsingar frá endurskoðanda sínum sl. klukkustund um eignastöðu sína m.a. útistandandi kröfur sem einhverjar séu. Endurskoðandinn hafi ekki verið við og því getur gerðarþoli ekki upplýst með nákvæmni hver eignastaða hans er. Lögmaður gerðarþola mótmælir því að hægt sé að ljúka málinu með árangurslausri kyrrsetningu að hluta þar sem gerðarþoli hafi ekki haft tíma til að afla upplýsinga um eignastöðu sína.
Fulltrúi sýslumanns metur verðmæti félagsins kr. 5.000.000.- og því ljóst að það dugir ekki til kyrrsetningar fyrir allri kröfunni. Fulltrúi sýslumanns hafnar ábendingu varðandi víxil að fjárhæð kr. 5.000.000,- þar sem hann er ekki lagður fram. Aðspurður kveðst gerðarþoli ekki geta upplýst frekar um eignastöðu sína með svo skömmum fyrirvara. Skorað er á hann að benda á aðrar eignir sem nægi til kyrrsetningar fyrir allri kröfunni en hann kveðst ekki geta það og vísar til þess sem fram hefur komið. ... Að ábendingu gerðarþola er hér með kyrrsettur eignarhluti hans í STJÁ ráðgjöf ehf. og er kyrrsetningunni, að kröfu lögmanns gerðarbeiðanda, lokið án árangurs að hluta með vísan til 15. gr. laga nr. 31/1990."
Af framangreindu er ljóst að varnaraðili lýsir því ekki yfir með ótvíræðum hætti að hann eigi ekki eignir til tryggingar kröfu sóknaraðila. Hann hafnar því ekki með öllu að benda á nægilegar eignir heldur biður um frest til að afla upplýsinga um eignastöðu sína. Í ljósi þess að fjárnámi verður ekki almennt lokið án árangurs nema vegna frásagnar gerðarþola um eignaleysi, og kyrrsetningargerðin frá 6. mars 2002 getur naumast talist gefa rétta mynd af fjárhag varnaraðila, sbr. 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, verður að hafna kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli framangreindrar kyrrsetningargerðar.
Rétt er að sóknaraðili greiði varnaraðila 49.800 kr. í málskostnað þ.m.t. virðisaukaskattur.
ÚRSKURÐARORÐ:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Eftirmenntun rafeindavirkja, um að bú varnaraðila, Jóns Árna Rúnarssonar, verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 49.800 kr. í málskostnað.