Hæstiréttur íslands
Mál nr. 762/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
- Sjálfskuldarábyrgð
- Ógilding samnings
- Tómlæti
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. nóvember 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. nóvember 2016 þar sem fellt var úr gildi fjárnám sem gert var 27. nóvember 2015 að kröfu sóknaraðila í eignarhluta varnaraðila í fasteigninni Sunnuflöt 33 í Garðabæ. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að áðurgreind aðfarargerð verði staðfest. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, en til vara að málskostnaður í héraði verði lækkaður.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði gekkst varnaraðili ásamt öðrum manni í sjálfskuldarábyrgð með því að undirrita skuldabréf vegna láns sem Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis veitti Pétri Daða Ólafssyni 16. september 2005 að fjárhæð 1.500.000 krónur. Af þessu tilefni mat sparisjóðurinn greiðslugetu skuldarans. Á stöðluðu skjali með yfirskriftinni „Fjárhagsyfirlit“, sem var óundirritað, kom fram að hreinar tekjur hans eftir lánveitingu væru 137.000 krónur á mánuði, en sú upphæð var handskrifuð og jafnframt strikað yfir fjárhæðina 96.858 krónur. Þá var mánaðarleg greiðslubyrði lána sögð vera 47.000 krónur og framfærslukostnaður 38.457 krónur, en afgangur 11.401 króna. Í dálk með heitinu „Annar fastur kostnaður“ var ekki færð nein fjárhæð. Óumdeilt er að niðurstaða matsins um jákvæða greiðslugetu skuldarans var kynnt varnaraðila áður en hann samþykkti að takast á hendur ábyrgð á láninu. Þá er meðal gagna málsins yfirlýsing 6. september 2005 vegna hinnar fyrirhuguðu lánveitingar þar sem varnaraðili staðfesti að hafa fengið og kynnt sér bækling um sjálfskuldarábyrgðir og lánsveð.
Vanskil munu fljótlega hafa orðið á greiðslum af láninu og var skilmálum skuldabréfsins breytt af þeim sökum þrisvar sinnum, 27. október 2006, 8. ágúst 2007 og 31. ágúst 2009, þar sem greiðslum í vanskilum var bætt við höfuðstól þess. Samþykkti varnaraðili þær skilmálabreytingar sem sjálfskuldarábyrgðarmaður með undirritun sinni. Bú skuldarans var síðar tekið til gjaldþrotaskipta og mun skiptum á því hafa lokið á árinu 2013.
Varnaraðila voru frá árinu 2011 reglulega sendar tilkynningar sem ábyrgðarmanni skuldarinnar þar sem fram kom hver væru vanskil skuldarans, síðast frá sóknaraðila 18. mars 2016, en skuldabréfið hafði verið framselt honum 31. desember 2013. Hinn 23. mars 2015 beindi sóknaraðili greiðsluáskorun til varnaraðila þar sem honum var tilkynnt að skuldabréfið hefði verið gjaldfellt vegna vanskila frá 1. apríl 2010 og skorað á hann að greiða höfuðstól þess ásamt áföllnum vöxtum og kostnaði. Þegar varnaraðili varð ekki við þeirri áskorun var gert fjárnám hjá honum að kröfu sóknaraðila og er sem fyrr segir deilt um gildi þeirrar gerðar í þessu máli.
II
Málsaðila greinir ekki á um að Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hafi á sínum tíma verið skylt að meta greiðslugetu skuldarans, Péturs Daða Ólafssonar, samkvæmt 3. grein samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001, sem Samband íslenskra sparisjóða, fyrir hönd sparisjóðsins, var aðili að. Á hinn bóginn deila þeir um hvort rétt hafi verið staðið að matinu og hafi sú ekki verið raunin hvort varnaraðili hafi með tómlæti fyrirgert rétti sínum til að bera það atriði fyrir sig.
Varnaraðili reisir kröfu sína um ógildingu fjárnámsins á því að mat á greiðslugetu skuldarans hafi ekki verið gert með forsvaranlegum hætti. Því er ekki haldið fram af hans hálfu að upphæð hreinna mánaðartekna, sem voru handskrifaðar á matsskjalið, hafi verið röng, heldur hafi mánaðarlegur kostnaður skuldarans verið þar stórlega vanmetinn. Í fyrsta lagi hafi greiðslubyrði lána verið mun meiri en 47.000 krónur á mánuði. Samkvæmt útreikningi varnaraðila, sem sóknaraðili hefur ekki mótmælt, námu mánaðarlegar greiðslur af láninu, sem mál þetta snýst um, 37.118 krónum. Þá telur varnaraðili að greiðslubyrði af helmingi láns, sem Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hafði veitt skuldaranum og unnustu hans til kaupa á fasteign 7. júlí 2005, hafi numið 14.539 krónum á mánuði, svo sem ráða megi af greiðsluseðli frá sparisjóðnum 1. mars 2006. Sé aðeins tekið mið af þessu tvennu hafi greiðslubyrði af skuldbindingum hans við sparisjóðinn einan numið rúmum 51.000 krónum á mánuði. Þar við bætist greiðslur af lánum sem skuldarinn hafi tekið hjá Lýsingu hf. og SP-Fjármögnun hf. til kaupa á tveimur bifreiðum. Ennfremur hafi komið í ljós á yfirliti yfir lán skuldarans, sem sparisjóðurinn aflaði við gerð matsins og sóknaraðili hefur lagt fram hér fyrir dómi, að aðrar skuldir hans hafi numið umtalsverðum fjárhæðum 15. september 2005 eða degi áður en varnaraðili tókst á hendur ábyrgðina án þess að þessi sæjust merki í matsskjalinu. Í annan stað hafi skuldarinn átt á þessum tíma fyrrgreindar tvær bifreiðar og hafi kostnaðar við rekstur þeirra ekki verið getið í skjalinu þar sem aðeins hafi komið fram framfærslukostnaður hans sem barnslauss einstaklings í samræmi við neysluviðmið Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og umboðsmanns skuldara. Samkvæmt þeim viðmiðum hafi kostnaður við að reka bifreið numið 23.000 krónum á mánuði og því hafi borið að greina tvöfalda þá fjárhæð, 46.000 krónur, sem annan fastan kostnað, auk helmings mánaðarlegs kostnaðar við áðurgreinda fasteign skuldarans og unnustu hans sem ekki falli undir framfærslukostnað. Þegar til alls þessa sé litið hafi við gerð matsins ekki verið viðhöfð þau vinnubrögð, sem ætlast hafi mátt til af sparisjóðnum sem fjármálafyrirtæki, og því hafi það ekki gefið rétta mynd af greiðslugetu skuldarans. Varnaraðili bendir einnig á að hann hafi engan persónulegan ávinning haft af því að gangast í sjálfskuldarábyrgðina, en á hinn bóginn hafi sparisjóðurinn, með því að veita lánið, fengið greidd ótryggð lán skuldarans við sig. Varnaraðili kveður verulega hafa hallað á sig þegar loforðið var gefið, enda hafi sparisjóðurinn verið stórt fjármálafyrirtæki á þessum tíma sem haft hafi í sinni þjónustu sérhæft starfsfólk á því sviði sem um ræðir. Vegna þessa lítur varnaraðili svo á að ábyrgðaryfirlýsing sín, sem krafa sóknaraðila um fjárnám er byggð á, sé ógild með skírskotun til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Sóknaraðili telur að umrætt greiðslumat hafi gefið rétta mynd af fjárhag skuldarans þegar varnaraðili tókst ábyrgðina á hendur. Til stuðnings þeirri staðhæfingu hefur sóknaraðili lagt fyrir Hæstarétt þau gögn sem lögð voru til grundvallar við matið. Kveður hann ljóst að sparisjóðurinn hafi aflað sumra þeirra, svo sem yfirlita úr kerfi Reiknistofu bankanna, en önnur hafi skuldarinn afhent. Í matsskjalinu hafi mismunur á mánaðarlegum tekjum hans og kostnaði eftir lántöku ranglega hafa verið sagður 11.401 króna, en hefði að réttu lagi átt að vera 51.543 krónur. Svo virðist sem skuldarinn hafi ekki upplýst um eignarhald sitt á fyrrgreindum tveimur bifreiðum og þar sem yfirlit yfir skuldir hans, sem aflað hafi verið samkvæmt framansögðu, hafi ekki haft að geyma upplýsingar um kröfur allra fjármálafyrirtækja, svo sem þeirra sem veittu bílalán, hafi ekki verið tilefni til að gera ráð fyrir afborgunum af lánum og kostnaði vegna bifreiðanna við mat á greiðslugetu hans. Þótt til álita hefði komið að taka tillit til annarra útgjalda skuldarans, svo sem helmings kostnaðar vegna fasteignar hans og unnustu hans, hefði það ekki megnað að gera niðurstöðu greiðslumatsins neikvæða. Í samræmi við það hafnar sóknaraðili því að brotið hafi verið gegn ákvæðum samkomulagsins frá 2001 við gerð matsins. Verði ekki á það fallist byggir hann á því að varnaraðili hafi sýnt af sér verulegt tómlæti, þar á meðal hafi hann ekki brugðist við fyrr en við fyrirtöku hjá sýslumanni 27. nóvember 2015 vegna aðfararbeiðni sóknaraðila á hendur honum, en þá hafi verið liðin rúm tíu ár frá því að hann tókst á hendur ábyrgðina. Á þeim tíma hafi hann þrisvar sinnum samþykkt að skilmálum skuldabréfsins yrði breytt og fengið reglulega sendar tilkynningar þar sem vanskil af hendi skuldarans hafi komið skýrlega fram. Með vísan til þessa hafi varnaraðili glatað rétti til að krefjast ógildingar á ábyrgðaryfirlýsingu sinni.
III
Eins og að framan greinir eru málsaðilar sammála um að mánaðartekjur Péturs Daða Ólafssonar hafi verið rétt greindar 137.000 krónur þegar Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, sem sóknaraðili leiðir rétt sinn frá, lagði mat á greiðslugetu hans sem skuldara vegna lánsins sem varnaraðili gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir. Einnig liggur nú fyrir hvaða gögn sparisjóðurinn lagði til grundvallar við mat á kostnaði skuldarans, en meðal þeirra var yfirlit yfir lán hans sem fengið var úr kerfi Reiknistofu bankanna. Á yfirlitinu komu fram skuldir hans við önnur fjármálafyrirtæki, þar á meðal vegna viðskipta með greiðslukort, sem námu umtalsverðum fjárhæðum, án þess að séð verði að tekið hafi verið tillit til þeirra við matið. Þá var tekið fram á yfirlitinu að engin svör væru komin frá Lýsingu hf. og SP-Fjármögnun hf. Vitneskja um að svör hefðu ekki borist frá þessum tveimur fjármálafyrirtækjum um skuldbindingar skuldarans hjá þeim lagði þá skyldu á herðar sparisjóðnum að afla frekari upplýsingar um þær, annaðhvort hjá skuldaranum sjálfum eða fyrirtækjunum, að fengnu samþykki hans. Ef það hefði verið gert hefði komið í ljós að hann var eigandi þeirra tveggja bifreiða, sem skráðar voru eign hans á skattframtali ársins 2006, og því borið að líta til kostnaðar við rekstur þeirra við matið. Sem fyrr segir nam sá kostnaður 46.000 krónum á mánuði í samræmi við neysluviðmið Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og umboðsmanns skuldara sem styðjast skyldi við samkvæmt 3. grein samkomulagsins um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001.
Að þessu virtu og öðru því, sem að framan hefur verið rakið, er fallist á með varnaraðila að greiðslumatið, sem gert var, hafi verið alls ófullnægjandi, enda gætti þar innbyrðis ósamræmis, auk þess sem það var hvorki undirritað af hálfu sparisjóðsins né skuldarans. Ef fyrir hefðu legið þær upplýsingar, sem sparisjóðnum var í lófa lagið að afla um greiðslugetu skuldarans, hefði matið bent til að hann gæti ekki efnt skuldbindingar sínar, sem varnaraðili gekkst í ábyrgð fyrir, en borið hefði að tilkynna honum þá niðurstöðu, sbr. 4. grein áðurnefnds samkomulags. Engar líkur hafa verið leiddar að því að varnaraðili hefði gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir láninu ef honum hefði verið kynnt greiðslumat á skuldaranum sem reist var á réttum og fullnægjandi upplýsingum. Þá er ómótmælt staðhæfingu varnaraðila um að hann hafi enga fjárhagslega hagsmuni haft af því að veita ábyrgðina og að með láninu hafi sparisjóðurinn fengið greiddar skuldir sem ekki voru tryggðar. Er því fullnægt skilyrðum 36. gr. laga nr. 7/1936 um að ósanngjarnt sé af hálfu sóknaraðila að bera fyrir sig loforð varnaraðila um að veita sjálfskuldarábyrgð á láninu og þar með tekin til greina krafa hans um ógildingu ábyrgðaryfirlýsingarinnar.
Samkvæmt gögnum málsins var varnaraðili ekki krafinn um greiðslu skuldarinnar sem sjálfskuldarábyrgðarmaður fyrr en með greiðsluáskoruninni 23. mars 2015 þótt skuldin hefði verið í vanskilum frá 1. apríl 2010. Hann hafði því ekki tilefni til að bregðast við kröfu um greiðslu skuldarinnar fyrr en þá sem hann gerði 27. nóvember sama ár. Af þeim sökum verður hann ekki talinn hafa fyrirgert rétti til að hafa uppi fyrrgreinda ógildingarkröfu gagnvart sóknaraðila með tómlæti af sinni hálfu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 21. október 2013 í máli nr. 569/2013.
Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Arion banki hf., greiði varnaraðila, Ingólfi Erni Guðmundssyni, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. nóvember 2016
Með bréfi, sem móttekið var hjá Héraðsdómi Reykjaness 22. janúar 2016, krafðist sóknaraðili, með heimild í 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, úrlausnar héraðsdóms um aðfarargerð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu sem fram fór 27. nóvember 2015. Málið var þingfest 4. mars 2016 og tekið til úrskurðar 17. október 2016. Sóknaraðili er Ingólfur Örn Guðmundsson, Sunnuflöt 33, Garðabæ, en varnaraðili er Arion banki hf.
Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi aðfarargerð varnaraðila, Arion banka hf., frá 27. nóvember 2015, nr. 011-2015-12923, í eignarhlut sóknaraðila í fasteigninni Sunnuflöt 33, Garðabæ. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Af hálfu varnaraðila er þess krafist að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðili verði úrskurðaður til þess að greiða varnaraðila málskostnað.
I
Varnaraðili gerði fjárnám 27. nóvember 2015 hjá sóknaraðila í eignarhlut hans í fasteigninni Sunnuflöt 33, Garðabæ, á grundvelli skuldabréfs fyrir kröfu að fjárhæð 2.625.725 krónur. Í málinu krefst sóknaraðili þess að fjárnámið verði fellt úr gildi. Sóknaraðili var sjálfskuldarábyrgðaraðili á skuldabréfinu og heldur hann því fram að ekki hafi verið staðið rétt að greiðslumati skuldara.
Málavextir eru að öðru leyti þeir að sóknaraðili og Ólafur Reimar Gunnarsson gengust í sjálfskuldarábyrgð á skuldabréfi sem Pétur Dan Ólafsson gaf út 16. september 2005 til viðurkenningar á skuld að fjárhæð 1.500.000 krónur við forvera varnaraðila, Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis. Aðalskuldari, Pétur Dan, hafði 29. apríl 2005 fest kaup á íbúð að Þrastarhöfða 4-6, Mosfellsbæ, ásamt unnustu sinni, og var kaupverð íbúðarinnar 15.380.000 krónur. Forveri varnaraðila virðist hafa lánað fyrir útborgun og kaupsamningsgreiðslu að fjárhæð 6.500.000 krónur með veðskuldabréfi sem var gefið út 7. júlí 2005. Þá kemur fram í greinargerð sóknaraðila að bankinn hafi jafnframt gefið Pétri Dan og unnustu hans lánsloforð fyrir lokagreiðslu kaupsamnings að fjárhæð 8.800.000 krónur.
Sóknaraðili segir að skömmu eftir kaup Péturs Dan á fasteigninni hafi útborguð laun hans lækkað úr 230.000 krónum í 130.000 krónur á mánuði. Auk þess hafi Pétur Dan verið með lausaskuldir hjá bankanum, bílasamning hjá Lýsingu og bílalán hjá SP fjármögnun. Bankinn hafi boðið Pétri Dan að hann gæti gefið út skuldabréf fyrir lausaskuldum sínum við bankann gegn því að hann útvegaði ábyrgðarmenn á skuldabréfið. Sóknaraðili segir að honum hafi verið kynnt af bankanum að Pétur Dan hefði jákvæða greiðslugetu og því hafi hann gengist í ábyrgð fyrir láninu.
Skuldabréfið virðist fljótlega hafa farið í vanskil því að þann 27. október 2006 ritaði sóknaraðili sem sjálfskuldarábyrgðaraðili undir skilmálabreytingu á skuldabréfinu þar sem vanskilum var bætt við höfuðstól þess. Þann 8. janúar 2007 ritaði sóknaraðili aftur undir slíka skuldbreytingu og í þriðja skiptið 31. ágúst 2009. Pétur Dan var úrskurðaður gjaldþrota og lauk skiptum á búi hans haustið 2013.
Í greiðslumati því, sem fram fór af hálfu forvera varnaraðila, er sóknaraðili sagður hafa 137.000 krónur í laun á mánuði, greiðslubyrði lána sé 47.000 krónur og framfærslukostnaður 38.500 krónur. Afgangur er sagður 11.358 krónur á mánuði en á með réttu að vera 51.500 krónur. Greiðslumatið er ekki undirritað, hvorki af skuldara né starfsmanni bankans. Sóknaraðili ritaði 6. september 2005 undir yfirlýsingu um að hann staðfesti að hafa kynnt sér bækling um sjálfskuldarábyrgð og lánsveð. Ekki er ágreiningur um að greiðslumatið var ekki sérstaklega kynnt sóknaraðila en hann kveðst þó hafa fengið upplýsingar um að Pétur Dan hefði staðist matið og að greiðslugeta hans væri jákvæð.
II
Sóknaraðili byggir á því að greiðslumatið uppfylli ekki þær lágmarkskröfur sem gerðar séu til slíks mats og megi telja fullljóst að ef matið hefði verið unnið með forsvaranlegum hætti hefði það skilað neikvæðri niðurstöðu. Þá hefði lánveitanda borið að kynna ábyrgðarmanni sérstaklega niðurstöðuna og fá skriflega staðfestingu á því að hann óskaði engu að síður eftir því að lánið yrði veitt, sbr. lokamálslið 4. gr. samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001.
Í greiðslumatinu sé eingöngu gert ráð fyrir kostnaði vegna matvöru, hreinlætisvöru, tómstunda, lækniskostnaðar, fatnaðar o.fl. samkvæmt viðmiðun Ráðgjafarstofu heimilanna fyrir árið 2005. Ekki sé hins vegar gert ráð fyrir rekstri bifreiða sem þá taldist vera 23.000 krónur fyrir einstaklinga, þrátt fyrir að aðalskuldari Pétur Dan hafi átt tvær bifreiðar á þessum tíma og að auki þungt bifhjól. Aðalskuldari hafi fjármagnað kaup á þessum bifreiðum með bílalánum, annars vegar frá Lýsingu og hins vegar frá SP-fjármögnun. Ekki sé gert ráð fyrir greiðslu trygginga vegna þessara bifreiðaeignar. Þá hafi aðalskuldari jafnframt þurft að standa skil á helmingi kostnaðar við fasteign að Þrastarhöfða en innan þess falli fasteignagjöld, tryggingar, hiti, rafmagn og hússjóður sem hafi verið 8.800 krónur á mánuði á þeim tíma.
Varðandi greiðslubyrði lána geri greiðslumatið eingöngu ráð fyrir greiðslu að fjárhæð 47.000 krónur á mánuði, þótt fyrir hafi legið að afborgun vegna lánsins að fjárhæð 1.500.000 krónur hafi verið 37.000 krónur á mánuði. Greiðslumatið hafi bersýnilega ekki tekið tillit til allra skuldbindinga Péturs Dan á þessum tíma. Þrátt fyrir eftirgrennslan hafi varnaraðili ekki getað upplýst sóknaraðila um á hvaða gögnum greiðslumatið var reist.
Lánveitandi hafi brugðist skyldum sínum, sem hann hafi undirgengist með samkomulaginu um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá nóvember 2001, þar sem vinnubrögð við gerð greiðslumatsins hafi ekki verið í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu til lánveitanda samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og 4. gr. þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti. Því sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera samninginn um sjálfskuldarábyrgðina fyrir sig og sé hún því ógildanleg með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936. Sóknaraðili hafi tekið að sér án nokkurs gagngjalds eða persónulegs ávinnings að ábyrgjast endurgreiðslu láns sem varnaraðili hafi veitt í hagnaðarskyni. Láninu hafi verið ætlað að greiða upp lausaskuldir lántakanda við forvera varnaraðila. Forveri varnaraðila hafi verið fjármálafyrirtæki en sóknaraðili ekki með sérþekkingu á sviði lánastarfsemi.
Varnaraðili byggir á því að við mat á því hvort sjálfskuldarábyrgð teljist ógild á grundvelli ákvæðis 36. gr. laga nr. 7/1936 verði að hafa í huga þá meginreglu samninga- og kröfuréttar að samninga skuli halda. Þá áréttar varnaraðili að sönnunarbyrðin hvíli á sóknaraðila málsins um að skilyrði ógildingarreglna samningaréttarins séu uppfyllt í máli þessu.
Varnaraðili byggir í fyrsta lagi á því að greiðslumat hafi verið rétt framkvæmt. Óumdeilt sé að greiðslumat hafi verið gert í tengslum við umrædda lánveitingu. Varnaraðili bendir á að upplýsingar, sem fram komu í greiðslumati, séu byggðar á þeim upplýsingum sem sóknaraðili hafi látið forvera varnaraðila í té. Lántaki hafi framvísað launaseðlum sínum við gerð greiðslumatsins og séu upplýsingar um tekjur lántaka í greiðslumati á þeim byggðar. Greiðslumatið miðist við fjárhagsstöðu lántaka á þeim tíma sem það var gert. Ýmislegt ófyrirséð geti valdið því að greiðslugeta lántaka breytist til hins betra eða verra frá því sem gert hafi verið ráð fyrir í greiðslumati.
Varnaraðili tekur fram að engar upplýsingar hafi legið fyrir á þessum tíma um bílasamninga Péturs Dan. Á þeim tíma sem greiðslumatið var gert hafi skuldastöðuyfirlit verið tekið úr kerfi Reiknistofu bankanna. Það skuldastöðuyfirlit hafi verið þeim annmörkum háð að ekki hafi öll fjármála- og fjármögnunarfyrirtæki nýtt sér kerfið til að móttaka og senda upplýsingar. Forveri varnaraðila hafi því ekki getað aflað upplýsinga um þau lán sem ekki voru skráð í kerfi Reiknistofu bankanna.
Varnaraðili bendir á að engin ógildingarákvæði séu í samkomulaginu og það að brotið sé gegn ákvæðum samkomulags um notkun ábyrgða leiði ekki sjálfkrafa til ógildingar ábyrgðar, heldur verði að fara fram heildarmat á aðstæðum aðila fyrir og eftir undirritun sóknaraðila á umþrætt skuldabréf. Við matið beri að hafa í huga þá meginreglu samninga- og kröfuréttar að samninga skuli halda. Varnaraðili byggir á því að heildarmat á öllum málsatvikum leiði til þess að hafna beri kröfu sóknaraðila og byggir það á eftirfarandi og áðurnefndum þáttum.
Varnaraðili bendir á að sóknaraðili hafi skrifað ítrekað undir skilmálabreytingar á skuldabréfinu þar sem vanskilum hafi verið bætt við höfuðstól og lengt í láninu.
Loks byggir varnaraðili á því að krafa sóknaraðila um ógildingu hafi fallið niður fyrir tómlæti sóknaraðila. Rúm 10 ár séu liðin frá því að sóknaraðili gekkst í umrædda sjálfskuldarábyrgð. Að mati varnaraðila hafi sóknaraðili haft nægan tíma til að kanna réttarstöðu sína.
Varnaraðili vísar til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi loforða og skyldur til að efna samninga. Þá vísar varnaraðili til meginreglna samningaréttar um tómlæti, til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og til 36. gr. sömu laga.
III
Umrætt skuldabréf, sem liggur til grundvallar aðfarargerð varnaraðila, var framselt varnaraðila 31. desember 2013 og telst hann því réttur aðili málsins.
Greiðslumatið samanstendur af þremur tölum, útborguðum mánaðarlaunum skuldara, Péturs Dan Ólafssonar, að fjárhæð 137.000 krónur, greiðslubyrði lána að fjárhæð 47.000 krónur og framfærslukostnaði að fjárhæð 38.500 krónur. Afgangur er sagður 11.358 krónur á mánuði en á með réttu að vera 51.500 krónur. Framfærslukostnaður er samkvæmt neysluviðmiði sem birtist í ársskýrslum Rannsóknarstofu um fjármál heimilanna og Umboðsmanns skuldara en ekki hefur komið fram í málinu hvernig fjárhæð afborgunar af lánum var fundin. Greiðslumatið er hvorki undirritað af skuldara né starfsmanni bankans.
Sóknaraðili hefur reiknað út að afborganir af skuldabréfi að fjárhæð 1.500.000 krónur, sem deilt er um í þessu máli, hafi verið 37.000 krónur á mánuði árið 2006. Þá eru gögn í málinu um að mánaðarlegar afborganir af skuldabréfi að fjárhæð 6.500.000 krónur, sem skuldari og unnusta hans tóku hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis til kaupa á íbúðinni, hafi verið 29.000 krónur á mánuði í mars 2006. Skuldari átti tvær bifreiðar er greiðslumatið fór fram en ekki var tekið tillit til reksturs þeirra í greiðslumati. Samkvæmt framangreindu neysluviðmiði kostaði 23.000 krónur á mánuði að reka bifreið árið 2006. Í greiðslumati er ekki heldur tekið tillit til afborgana á lánum tengdum bifreiðakaupum skuldara en þau lán komu fram á skattframtali hans svo og bifreiðaeign hans. Í framangreindu neysluviðmiði varðandi einstaklinga kemur fram að fjárhæðin 38.500 krónur, sem miðað er við í greiðslumati, samanstendur af verði á matvöru, hreinlætisvörum, tómstundum, fötum, skóm og lækniskostnaði. Sóknaraðili bendir réttilega á að ekki sé tekið tillit til ýmissa annarra útgjalda í greiðslumati. Nefnir hann liði eins og tryggingaiðgjöld, fasteignagjöld og mánaðarlegt framlag í hússjóð sem hafi verið 8.800 krónur á þessum tíma. Ekki eru upplýsingar í málinu um fjárhæð afborgana af bílalánum.
Samkvæmt framansögðu voru mánaðarleg útgjöld sóknaraðila að lágmarki 38.500 krónur vegna framfærslu, 37.000 krónur vegna afborgana af skuldabréfi því sem deilt er um í málinu, 15.000 krónur vegna helmingsgreiðslu skuldara af mánaðarlegri afborgun vegna láns að fjárhæð 6.500.000 krónur, 46.000 krónur vegna reksturs tveggja bifreiða og 4.400 krónur vegna hússjóðsgjalda eða samtals 140.900 krónur.
Í þessum útreikningi er ekki tekið tillit til útgjaldaliða eins og trygginga, fasteignagjalda og afborgana af bílalánum. Sóknaraðili hefur bent á að samkvæmt kaupsamningi skuldara og unnustu hans um kaup á íbúðinni stóð til að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis fjármagnaði kaup þeirra á íbúðinni að öllu leyti og hefur því ekki verið mótmælt af hálfu varnaraðila. Eftir var því að gefa út skuldabréf að fjárhæð 8.800.000 krónur vegna lokagreiðslu samkvæmt kaupsamningi. Ekki er gert ráð fyrir afborgun af því láni í greiðslumatinu.
Samkvæmt öllu framansögðu er ljóst að hið svokallaða greiðslumat var mjög ófullkomið og tók ekki á öllum nauðsynlegum útgjaldaliðum skuldara með þeim afleiðingum að það gaf ranga mynd af fjárhag hans. Hann var í raun ekki í stakk búinn til að takast á hendur þá skuldbindingu sem sóknaraðili gekkst í ábyrgð fyrir. Bankanum bar að sjá til þess að greiðslumat gæfi rétta mynd af fjárhag skuldara og kynna skuldara niðurstöðu greiðslumatsins, sbr. 3. mgr. 4. gr. samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001, sérstaklega þegar ljóst átti að vera, ef rétt var staðið að gerð greiðslumats, að skuldari stæði ekki undir þeirri skuldbindingu sem hann var að gangast undir.
Ekki verður fallist á þau rök varnaraðila að honum hafi ekki verið kleift við gerð greiðslumats að afla sér upplýsinga um bifreiðaeign skuldara og lántökur hans því tengdar, enda var greiðslumat tilgangslaust ef það var ekki gert.
Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili hafi fyrirgert rétti sínum sökum tómlætis. Þegar litið er til þess að greiðslumatið var unnið með ófullnægjandi hætti og að niðurstaða þess var röng, ennfremur að matið var aldrei kynnt sóknaraðila og honum ekki kynnt að skuldari var frá upphafi ekki í stakk búinn til að greiða af skuldabréfinu og standa við skuldbindingar sínar samkvæmt því, er ekki unnt að fallast á tómlætissjónarmið varnaraðila, enda mátti sóknaraðila ekki vera kunnugt um þessa vankanta á greiðslumati fyrr en innheimta varnaraðila gegn honum hófst.
Með vísan til alls framangreinds og miðað við skyldur sem á varnaraðila sem fjármálafyrirtæki hvíldu þegar greiðslumatið var gert og það traust sem varnaraðili mátti hafa til vinnubragða fyrirtækisins, verður fallist á með sóknaraðila að skilyrðum 36. gr. laga nr. 7/1936 sé fullnægt til þess að verða við kröfu sóknaraðila í málinu og ógilda aðfarargerð varnaraðila.
Eftir þessum úrslitum verður varnaraðili úrskurðaður til þess að greiða sóknaraðila 950.000 krónur í málskostnað.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Felld er úr gildi aðfarargerð varnaraðila, Arion banka hf., frá 27. nóvember 2015 í eignarhluta sóknaraðila, Ingólfs Arnar Guðmundssonar, í fasteigninni Sunnuflöt 33, Garðabæ.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 950.000 krónur í málskostnað.