Hæstiréttur íslands

Mál nr. 715/2009


Lykilorð

  • Lánssamningur
  • Þingmál
  • Þýðing skjals
  • Sjálfskuldarábyrgð


 

Fimmtudaginn 25. nóvember 2010.

Nr. 715/2009.

VBS Fjárfestingabanki hf.

(Ólafur Haraldsson hrl.)

gegn

Kevin Stanford og

(Gestur Jónsson hrl.)

Kcaj LLP

(Heiðar Ásberg Atlason hrl.)

 

Lánssamningur. Sjálfskuldarábyrgð. Þingmál. Þýðing skjala.

 

V hf. höfðaði mál þetta til heimtu skuldar á grundvelli lánssamnings milli V hf., sem lánveitanda, og G, sem lántaka, úr hendi KS og K, ábyrgðarmanna samkvæmt lánssamningnum. Deila málsaðila laut einkum að því hvort stofnast hefði gild sjálfskuldarábyrgð á hendur KS og K samkvæmt lánssamningnum og ef svo væri hvort skilyrði samningsins hefði verið uppfyllt svo krefja mætti þá um efndir hans. Um hið fyrra atriði segir í dómi Hæstaréttar að þegar litið væri til aðdragandans að gerð lánssamningsins og ótvíræðs orðalags hans yrði að telja að KS og K hefðu undirgengist sjálfskuldarábyrgð á skilvísum greiðslum lánsins. Þá segir meðal annars í dómi Hæstaréttar að þótt lántaki hefði einnig sett greiðslur nytjaleyfisgjalda sem tryggingu fyrir skilvísum greiðslum lánssamningsins hefði það ekki áhrif á greiðsluskyldu KS og K, sem sjálfskuldarábyrgðaraðila, gagnvart V hf., sem kröfuhafa, nema um það hefði sérstaklega verið samið, en slíkan fyrirvara væri ekki að finna í lánssamningnum. Var krafa V hf. á hendur KS og K því tekin til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. desember 2009. Hann krefst þess að stefndu verði, hvorum fyrir sig, gert að greiða honum 2.500.000 sterlingspund með 10,45% dráttarvöxtum á ári frá 12. desember 2008 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi stefndu.

Stefndi, Kevin Stanford, krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi áfrýjanda. Stefndi, Kcaj LLP, krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms. Til vara krefst hann þess að honum verði einungis gert að greiða áfrýjanda 2.000.000 sterlingspund með dráttarvöxtum frá þingfestingardegi. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi áfrýjanda.

I

Áfrýjandi gerði lánssamning við enskt félag, Ghost Ltd., 2. ágúst 2007 þar sem félaginu var veitt lán að fjárhæð 5.000.000 sterlingspund. Í inngangi og í 1. kafla samningsins eru stefndu tilgreindir sem ábyrgðaraðilar. Samningurinn er undirritaður af fyrirsvarsmanni Ghost Ltd. sem lántakanda, fyrirsvarsmanni stefnda Kcaj LLP og stefnda Kevin Stanford sem ábyrgðaraðila svo og fyrirsvarsmanni áfrýjanda sem lánið veitti. Lánsfjárhæðin skiptist í lán með nánar tilgreindum afborgunum að fjárhæð 2.000.000 sterlingspund og eingreiðslulán að fjárhæð 3.000.000 sterlingspund. Lánsfjárhæðin var greidd út til lántakanda í fjórum hlutum samkvæmt tilkynningum hans, einni sendri með tölvupósti 1. ágúst 2007 en hinum dagsettum 24. september 2007, 11. október 2007 og 23. nóvember 2007. Með fyrstu tilkynningunni fylgdi fundargerð stjórnarfundar Ghost Ltd., sem haldinn var 1. ágúst 2007, þar sem fram kemur að meirihlutaeigendur Ghost Holdings Ltd., Kcaj LLP og Kevin Stanford hafi samþykkt að ábyrgjast lánið. Samkvæmt gögnum málsins var Ghost Ltd. að fullu í eigu Ghost Holdings Ltd. en ábyrgðarmenn lánsins áttu hvor um sig 46,85% í því.

Samkvæmt 5. gr. lánssamningsins bar lántakanum Ghost Ltd. að greiða vexti af láninu á þriggja mánaða fresti í fyrsta sinn 31. desember 2007. Afborganir vegna höfuðstóls þess þáttar lánsins, sem var lán með nánar tilgreindum afborgunum, skyldi einnig greiða á þriggja mánaða fresti. Samkvæmt samningnum var fyrsta afborgunin ákveðin 30. september 2008 og kveður áfrýjandi að þá hafi orðið greiðslufall á láninu. Af því tilefni gjaldfelldi áfrýjandi allt lánið 21. október 2008 samkvæmt heimild í grein 11.2 (b) í lánssamningum og krafðist greiðslu. Þar sem greiðsla barst ekki kveðst áfrýjandi hafa krafið ábyrgðarmenn lánsins um greiðslu þess með bréfi 12. nóvember 2008. Upplýst er að bú lántakanda Ghost Ltd. hefur verið tekið til skipta og voru skiptastjórar búsins skipaðir 31. október 2008.

Samkvæmt 20. gr. samningsins var hann gerður á ensku en í málinu hefur verið lögð fram þýðing á íslensku gerð af löggiltum þýðanda. Í 21. gr. samningsins er tekið fram að um hann gildi íslensk lög. Loks er tekið fram í 22. gr. samningsins að íslenskir dómstólar skuli hafa lögsögu til þess að fjalla um og leiða til lykta öll mál og ljúka öllum deilum sem kunna að rísa vegna hans eða í tengslum við hann.

Deila málsaðila lýtur einkum að því hvort stofnast hafi gild sjálfskuldarábyrgð á hendur stefndu samkvæmt lánssamningnum 2. ágúst 2007 og ef svo er hvort skilyrði samningsins hafi þá verið uppfyllt svo krefja megi þá um efndir hans. Málsástæður og lagarök aðila eru ítarlega rakin í hinum áfrýjaða dómi.

II

Stefndu reisa sýknukröfu sína á því að ábyrgð þeirra komi hvergi fram í meginmáli samningsins heldur sé hana aðeins að finna í 1. kafla hans sem fjalli samkvæmt fyrirsögn aðeins um skilgreiningar samningsins.

Á forsíðu lánssamningsins eru aðilar samningsins tilgreindir og eru stefndu í hinni löggiltu þýðingu auðkenndir sem „ábyrgðaraðilar“. Nafnritun stefndu undir samninginn á síðustu síðu hans er undir fyrirsögninni „ábyrgðaraðilar“. Í frumtexta lánssamningsins er notað orðið „Guarantors“. Stefndu rituðu einnig upphafsstafi sína á hverja síðu samningsins neðst í hægra horni. Fyrsti kafli umrædds lánssamnings ber fyrirsögnina „skilgreiningar“. Í stað þess að fjalla í sérstökum kafla samningsins um inntak skyldna ábyrgðaraðila er um þær fjallað undir skilgreiningu hugtaksins „trygging“ í fyrsta kafla samningsins. Ekki verður fallist á að þessi framsetning samningsins leiði til þess að umsamin ákvæði um tryggingu séu óskuldbindandi fyrir stefndu, heldur ráðast skyldur þeirra af skýringu á þessum texta samningsins eftir almennum túlkunarreglum.

Stefndu byggja á því að verði talið að þeir hafi undirgengist ábyrgð á efndum samningsins sé aðeins um að ræða einfalda ábyrgð, skilyrta og til vara. Þeir halda því auk þess fram að þýðing á samningnum, sem lögð hefur verið fram, sé röng.

Í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála segir að komi aðilar sér ekki sjálfir saman um rétta þýðingu skjals skuli hún gerð af löggiltum skjalaþýðanda. Áfrýjandi hefur lagt fram þýðingu löggilts skjalaþýðanda og hafa stefndu ekki sýnt fram á að hún sé röng.

Samkvæmt gögnum málsins sendi Brynjólfur Bjarnason, starfsmaður áfrýjanda, Nick Hamer, fyrrverandi fjármálastjóra Ghost Ltd., tölvupóst 30. júlí 2007 og gaf honum færi á að koma að athugasemdum við drög að lánssamningnum. Tölvupósturinn ber með sér að hafa einnig verið sendur á póstföng stefndu. Nick Hamer sendi Brynjólfi Bjarnasyni tölvupóst daginn eftir og óskaði upplýsinga um nokkur atriði samningsdraganna þar á meðal um ábyrgð ábyrgðaraðila. Í þýðingu löggilts skjalaþýðanda segir meðal annars svo í tölvupóstinum: „Ég hélt að sjálfskuldarábyrgðin gilti einungis um eingreiðslulánið. Ef hún gildir um lánssamninginn í heild sinni, þá setjið þið ekkert verð á rétthafagreiðslur – vinsamlegast staðfestið. Fylgja einhver skjöl með lánssamningnum varðandi sjálfskuldarábyrgðir eða er samningurinn heildstæður hvað það snertir.“ Brynjólfur Bjarnason svaraði tölvupóstinum samdægurs og við þennan lið skrifaði hann: „Okkar skilningur hefur verið sá að verði vanskil á rétthafagreiðslum þá beri Kcaj LLP og Kevin Stanford fulla sjálfskuldarábyrgð gagnvart okkur á lánssamningnum í heild sinni.“ Nick Hamer svaraði um hæl sama dag varðandi þennan lið samningsins: „Ég hef samband við ábyrgðaraðilana hvað þetta atriði snertir.“

Í lánssamningnum segir meðal annars svo um ábyrgð stefndu í þýðingu löggilts skjalaþýðanda: „Trygging merkir m.a. ... b. Sjálfskuldarábyrgð af hálfu Kevin Stanford ... og Kcaj LLP ... til tryggingar á endurgreiðslu lánsins ásamt áföllnum vöxtum. Hvor ábyrgð fyrir sig gildir fyrir 50% af útistandandi höfuðstól ásamt áföllnum vöxtum hverju sinni. Hámarks höfuðstólshluti hvorrar ábyrgðar er GBP 2.500.000.“ Með þessu efni undirrituðu stefndu samninginn undir fyrirsögnina „ábyrgðaraðilar“ eða „Guarantors“, eins og áður segir.

Kröfuábyrgð er að íslenskum rétti ekki formbundinn löggerningur. Í ljósi hins íþyngjandi eðlis sjálfskuldarábyrgðar verður ábyrgðarmaður á hinn bóginn almennt ekki talinn hafa gengist undir slíka ábyrgð nema það verði með skýrum hætti leitt af ábyrgðaryfirlýsingunni. Ekki er þó skilyrði að heitið sjálfskuldarábyrgð sé orðað í skuldbindingunni ef ótvírætt er að efndatími ábyrgðarmanns sé við vanefnd aðalskuldara. 

Þegar litið er til aðdragandans að gerð lánssamningsins svo og ótvíræðs orðalags hans verður að telja að stefndu hafi undirgengist sjálfskuldarábyrgð á skilvísum greiðslum lánsins.

Stefndu byggja ennfremur á því að samkvæmt grein 4.2.c. samningsins hafi borið að afla sérstakra ábyrgðaryfirlýsinga stefndu í sérhvert sinn sem Ghost Ltd. sendi tilkynningu um útborgun samkvæmt lánssamningnum. Þar sem það hafi ekki verið gert sé sjálfskuldarábyrgð þeirra ekki gild.

Í ákvæði 4.2. gr. samningsins er fjallað um skilyrði sem þarf að uppfylla svo lánveitanda beri skylda til að veita lán samkvæmt samningnum. Samkvæmt c. lið greinarinnar áttu tryggingaskjöl að hafa verið undirrituð með gildum hætti ásamt öllum skjölum sem því tengdust. Fallist er á með áfrýjanda að ákvæði þetta vísi til trygginga samkvæmt a. lið, um skilgreiningu tryggingar í 1. kafla samningsins, en þar er fjallað um framsal lántaka til bankans á öllum hagnaði vegna greiðslu nytjaleyfisgjalda sem Procter and Gamble Ltd. bar að greiða lántaka samkvæmt nytjaleyfissamningi 26. september 1998, milli lántaka sem leyfisveitanda og Cosmopolitan Cosmetics GmbH sem leyfishafa. Í ljósi efnis og eðlis sjálfskuldarábyrgða stefndu átti ákvæði c. liðar greinar 4.2. í lánssamningnum á hinn bóginn ekki við um þær.

Loks byggja stefndu á því að áfrýjanda sé óheimilt að krefja þá um greiðslu á grundvelli lánssamningsins þar sem ósannað sé að um vanefndir hafi verið að ræða samkvæmt nytjaleyfissamningi, sem Procter and Gamble Ltd. hafi borið að greiða Ghost Ltd., en greiðslur samkvæmt hinum síðarnefnda samningi hafi einnig verið settar til tryggingar skilvísum greiðslum lánssamningsins. Þá sé einnig ljóst að áfrýjandi hafi fallið frá kröfu um nytjaleyfisgreiðslur og því geti hann ekki gengið að sjálfskuldar­ábyrgðaraðilum.

Í fundargerð stjórnar Ghost Ltd. frá 1. ágúst 2007, sem barst með tölvupósti sama dag til áfrýjanda, er vikið að forsendum lántaka varðandi nytjaleyfissamninginn en þar segir m.a. svo: „Tekjur fyrirtækisins af ilmvatnsnytjaleyfinu nægðu fyrir vaxta- og höfuðstólsgreiðslum og samkvæmt áætlunum myndi rekstur fyrirtækisins verða nægilega arðbær til að standa undir eingreiðsluhlutanum að sex árum liðnum.“ Óumdeilt er að áfrýjandi gerði ekki kröfu um að hærri greiðslur bærust samkvæmt nytjaleyfissamningnum en nægði til að halda láninu í skilum. Voru greiddir vextir af láninu á gjalddögum þeirra fram að gjalddaga fyrstu afborgunar af höfuðstól með tekjum af nytjaleyfinu. Ósannað er að áfrýjandi hafi fallið frá nytjaleyfisgreiðslum sem tryggingu fyrir skilvísum greiðslum lánssamningsins. Þótt lántaki hafi sett greiðslur nytjaleyfisgjalda til tryggingar lánssamningnum hefur það ekki áhrif á greiðsluskyldu stefndu sem sjálfsskuldar­ábyrgðar­aðila, nema um það hefði sérstaklega verið samið. Samkvæmt meginreglum um ábyrgðir þurfti áfrýjandi sem kröfuhafi ekki að leita fullnustu í framangreindri tryggingu áður en hann gekk að stefndu sem sjálfskuldar­ábyrgðaraðilum, nema um það hafi sérstaklega verið samið. Slíkan fyrirvara er ekki að finna í lánssamningnum. Þar segir á hinn bóginn að áfrýjanda sé heimilt að krefja ábyrgðaraðila um greiðslu „ef greiðslur vegna nytjaleyfisgjalda eru ekki inntar af hendi til bankans.“ Upplýst er að greiðslufall varð á láninu 30. september 2008 þar sem greiðsla barst hvorki frá lántaka né greiðanda nytjaleyfisgjaldanna og eru því samkvæmt framansögðu uppfyllt skilyrði til þess að taka kröfu áfrýjanda til greina með vöxtum eins og í dómsorði greinir. Í þessu felst jafnframt að ekki eru efni til að taka varakröfu stefnda Kcaj LLP til greina þar sem ábyrgð stefnda var ekki bundin við afborgunarhluta lánsins heldur hlutfall af „útistandandi höfuðstól ásamt áföllnum vöxtum hverju sinni“ eins og segir í lánssamningnum.

Samkvæmt úrslitum málsins verða stefndu með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 dæmdir til að greiða óskipt áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til útlagðs kostnaðar áfrýjanda.

Dómsorð:

Stefndu, Kevin Stanford og Kcaj LLP, greiði hvor fyrir sig áfrýjanda, VBS Fjárfestingabanka hf., 2.500.000 sterlingspund ásamt 10,45% dráttarvöxtum á ári frá 12. desember 2008 til greiðsludags.

Stefndu greiði áfrýjanda óskipt samtals 3.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 2009.

Mál þetta sem dómtekið var 11. september sl. var höfðað 6. janúar 2009.

Stefnandi er VBS Fjárfestingarbanki hf., Borgartúni 26, Reykjavík.

Stefndu eru Kevin Stanford, The Dower House, Royden Hall Road, East Peckham, Kent, TN12 5NH, Bretlandi og Kcaj LLP, með breskt félagsnúmer OC 31799, 43-44 New Bond Street, London, W1S 2SA, Bretlandi.

Dómkröfur   

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu, Kevin Stanford og Kcaj LLP, verði, hvor fyrir sig, dæmdir til að greiða stefnanda 2.553.345,41 breskt sterlingspund (GBP) með 10,45% dráttarvöxtum af 2.500.000 breskum sterlingspundum frá 12. desember 2008 til greiðsludags.

Þá er málskostnaðar krafist óskipt úr hendi stefndu.

Stefndi Kevin Stanford krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Krafist er greiðslu málskostnaðar, auk virðisaukaskatts, úr hendi stefnanda, að mati dómsins.

Stefndi Kcaj LLP gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara að hann verði einungis dæmdur til að greiða stefnanda 2.000.000 GBP, auk dráttarvaxta frá þingfestingardegi.

Þá er jafnframt krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda, auk álags er nemur virðisaukaskatti af málskostnaði, að mati réttarins eða skv. síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

Málavextir

Stefnandi kveður málsatvik þau að þann 2. ágúst 2007 hafi stefnandi gert lánasamning við Ghost ltd. þar sem félaginu, sem lántaka, var veitt lán að fjárhæð 5.000.000 bresk sterlingspund (GBP). Ábyrgðarmenn samkvæmt samningnum hafi verið stefndu Kevin Stanford og Kcaj LLP. Með samningnum hafi þeir gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir endurgreiðslu lánsins, sbr. grein 1.1. í samningnum þar sem fram komi að með ,,ábyrgð“ (e. guarantee) sé átt við sjálfskuldarábyrgð (e. direct payment guarantee).

Við gerð samningsins hafi verið gengið út frá því að allar greiðslur sem Ghost ltd. fengi á grundvelli nytjaleyfissamnings, dags. 26. september 1998, á milli félagsins og Cosmopolitan Cosmetics Gmbh, skyldu renna til stefnanda til endurgreiðslu lánsins, sbr. grein 1.1. í lánasamningnum þar sem útskýrt sé hvernig tryggt sé að afborganir verði greiddar. Í þessu ákvæði hafi jafnframt verið nánar vikið að ábyrgð stefndu Kevin Stanford og Kcaj LLP, en þar segi að með ,,tryggingu“ sé meðal annars átt við sjálfskuldarábyrgð þessara aðila til tryggingar á endurgreiðslu lánsins ásamt áföllnum vöxtum. Tekið sé fram að ábyrgðir þessar séu að virði 50% af höfuðstól lánsins ásamt áföllnum vöxtum, en að ábyrgð hvers aðila fyrir sig sé að hámarki 2.500.000 bresk sterlingspund (GBP). Þá sé tekið fram að ábyrgðin verði eingöngu virk ef einu af tveimur skilyrðum sé fullnægt. Annars vegar að fyrrgreindum nytjaleyfissamningi verði sagt upp eða hann ekki endurnýjaður, sbr. nánar fyrri tölulið ákvæðisins. Hins vegar að greiðslur vegna nytaleyfissamningsins renni ekki til stefnanda, sbr. síðari tölulið ákvæðisins.

Fjallað sé um endurgreiðslu lánsins í grein 5 í samningnum og hafi lántakinn átt að inna greiðslur af hendi á þriggja mánaða fresti. Ghost Ltd. hafi ekki staðið í skilum með afborgun sem átti að fara fram 30. september 2008, samtals að fjárhæð 232.109,45 bresk sterlingspund (GBP), sbr. grein 5.2(a) í samningnum. Í kjölfarið hafi stefnandi sent félaginu bréf, dags. 21. október 2008, þar sem tilkynnt var um vanefndir á greiðslunni og að lánið væri gjaldfellt í heild sinni samkvæmt heimild í grein 11.2(b). Krafist hafi verið greiðslu á heildarupphæð lánsins ásamt vöxtum og févíti (e. penalty), samtals að fjárhæð 6.284.751,66 bresk sterlingspund (GBP). Hafi verið tekið fram að færi greiðsla ekki fram fyrir 31. október 2008 myndi stefnandi grípa til viðeigandi úrræða í því skyni að ná fram efndum. Skemmst sé frá því að segja að stefnanda hafi ekki enn borist greiðsla frá lántakanum Ghost Ltd.

Með bréfum, dags. 12. nóvember 2008, hafi stefnandi krafist greiðslu frá stefnda Kevin Stanford annars vegar og hins vegar stefnda Kcaj LLP, sem sjálfskuldar-ábyrgðarmönnum, vegna skuldarinnar. Í bréfunum sé gerð grein fyrir vanefnd lántakans Ghost Ltd. og útskýrt að skilyrði fyrir greiðsluskyldu ábyrgðarmannanna séu uppfyllt. Samkvæmt þessu hafi stefndu, hvor um sig, verið krafðir um greiðslu að fjárhæð 2.618.283,93 bresk sterlingspund (GBP) sem sundurliðist í höfuðstól, vexti, févíti og lögmannskostnað. Tekið hafi verið fram að færi greiðsla ekki fram innan sjö daga frá dagsetningu bréfanna væri áskilinn réttur til að sækja kröfurnar fyrir dómstólum.

Þar sem ekki hafi borist greiðslur frá stefndu, þrátt fyrir innheimtutilraunir stefnanda, beri honum nauðsyn til málshöfðunar þessarar.

Stefnandi tekur fram að hann hafi upplýsingar um að Ghost Ltd. sé ógreiðslufært og að félagið sé nú til meðferðar í samræmi við bresk lög um gjaldþrotaskipti. Af þessari ástæðu hafi á þessu tímamarki ekki verið höfðað mál gegn félaginu, en áskilinn sé réttur til slíkra aðgerða.

Um málavexti vísar stefndi Kevin til þess að hann sé breskur ríkisborgari. Hann sé hvorki lögmenntaður, né sérfróður um íslensk lög. Stefnandi sé íslenskt fjármálafyrirtæki sem sérhæfi sig í lánastarfsemi.

Hinn 2. ágúst 2007 hafi hann skrifað undir samning við stefnanda sem (skilyrtur) ábyrgðarmaður. Samningurinn hafi verið saminn af sérfræðingum stefnanda, eins og glögglega sjáist af fjölmörgum skilyrðum, fyrirvörum o.fl. fyrir lánveitingu til Ghost Ltd. Stefnandi hafi krafist þess að íslensk lög giltu um samninginn. Stefnandi hafi einnig krafist þess að íslenskir dómstólar hefðu lögsögu. Kveðst hann hafa samþykkt þetta í góðri trú.

Samningur aðila (e. „Loan Term Agreement“) sé óhefðbundinn lánasamningur. Samningurinn hafi einungis falið í sér heimild Ghost Ltd., til að fá allt að 5.000.000 GBP að láni, samkvæmt 3.1. gr. samningsins, til að fjármagna kaup á nýjum fataverslunum í Bretlandi, samkvæmt 3.4. gr. samningsins. Greiðsludagar hafi ekki verið ákveðnir fyrir fram og lántaka ekki skylt að taka lán. Ef lán yrðu veitt færu endurgreiðslur fram í samræmi við ákvæði 5.1 (A) (e. „Facility Term Loan“) fyrir allt að 3.000.000 GBP og samkvæmt ákvæðum 5.1. (B) fyrir allt að 2.000.000 GBP (e. „Bullet Loan“).

Ef lántaki óskaði eftir láni á samningstímanum þurfti hann að tilkynna stefnanda sérstaklega um það með bindandi úttektarbeiðni s.k. „Notice of Drawing“ samkvæmt ákvæðum 3.2. gr. samningsins. Einungis eftir slíka tilkynningu, hafi lántaka verið skylt að fá lánað: „Subject to the Terms of this Agreement, such notice of drawing (“Notice of Drawing“) shall be irrevocable and the Borrower shall be bound to borrow in accordance with such Notice of Drawing“).

Samkvæmt fyrrnefndri 3.1. gr. samningsins hafi stefnanda hins vegar ekki verið skylt að lána lántaka nema að uppfylltum skilyrðum samningsins (e. „terms“) og forsendum (e. „conditions precedent“). Samkvæmt 3.2 gr. þurfti lántaki í hvert skipti sem hann óskaði eftir lánveitingu að tilgreina dagsetningu úttektar, úttektarfjárhæð, bankareikningsnúmer lántaka o.s.frv.

Í 4.2. gr. hafi verið fjallað um forsendur lánveitingar (e. „Conditions Precedent“). Samkvæmt ákvæðum greinarinnar hafi forsendur fyrir lánveitingu verið þær að búið væri að sannreyna ábyrgðaryfirlýsingar lántaka samkvæmt 9. kafla samningsins, lántaki hefði ekki vanefnt lánasamninginn og að sérstök ábyrgðarskjöl (e. „Security Documents“) hefðu verið undirrituð af ábyrgðarmönnum fyrir hverja lánagreiðslu (c-liður greinarinnar). Í grein 1.1. í samningnum, um skilgreiningar hugtaka (e. „Terms Defined“) hafi  orðið „Security“ („trygging“) verið skilgreint. Um væri að ræða nokkrar (e. „several“) ábyrgðir ábyrgðarmanna (m.ö.o. fleiri en tvær), en þó að hámarki samtals 50% af 5.000.000 GBP (heildarláninu) fyrir hvorn ábyrgðarmann, auk áfallinna vaxta á hverjum tíma: „These guarantees are several to the amount of 50% of the outstanding capital...“

Þannig færi fram mat á því í hvert skipti, af hálfu lánveitanda, hvort skilyrði væru til þess að veita lán samkvæmt úttektarbeiðni. Lántaka hafi hvorki fortakslaust verið skylt að taka lán, né lánveitanda að veita það. Ábyrgðarmönnum hafi, á sama hátt, ekki verið fortakslaust skylt að ábyrgjast lánagreiðslur, enda óvíst um endanlegar lánveitingar. Skilningur stefnda Kevins hafi verið sá að stefnanda væri óskylt að lána Ghost ltd., nema ábyrgðarmenn rituðu undir ábyrgðir fyrir hverja útborgun. Stefnandi hafi hins vegar aldrei beðið stefnda Kevin að gangast í ábyrgðir, eins og hann hafði rétt á, fyrir afgreiðslu lána á samningstímanum.

Þar sem stefndi Kevin hafi aldrei ritað undir ábyrgðir, hafi hann talið sig lausan allra mála eftir að úttektartíma lauk, þann 31. desember 2007. Þann 18. nóvember 2008, tæpu ári eftir þetta, hafi stefndi Kevin móttekið kröfubréf frá stefnanda, dags. 12. nóvember sl. Hafi hann mótmælt greiðsluskyldu með bréfi, dags. 1. desember sl.

Stefndi Kcaj LLP kveðst vera breskt eignarhaldsfélag, sem haldi utan um eignarhluti í nokkrum félögum sem stunda smásölu í Bretlandi.

Með lánasamningi dags. 2. ágúst 2007 (svokölluðum „Term Loan Facility”), hafi stefnandi samþykkt að lána félaginu Ghost Ltd allt að 5 milljónir breskra sterlingspunda til að fjármagna kaup lántaka á nýjum fataverslunum í Bretlandi, eins og segi í ákvæði 3.4 í samningnum.

Nánar hafi samningur þessi kveðið á um að lántaki hefði heimild, á tímabilinu frá undirskrift samningsins hinn 2. ágúst 2007 til 31. desember 2007, til að taka lán, annars vegar að fjárhæð allt að 2 milljónir punda, sem skyldu endurgreiðast með tilteknum hætti í samræmi við ákvæði 5.1 (A) (kallað „facility term loan“ í lánasamningnum), og hins vegar að fjárhæð allt að 3 milljónir punda, sem skyldu endurgreiðast í einni greiðslu að loknum 6 ára lánstímanum sbr. 5.1 (B) (svokallað „bullet loan“). Stefndi Kcaj hafi skrifaði undir samninginn, enda hugðist hann gerast ábyrgðarmaður á láninu, þó aðeins að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum.

Með bréfi, dags. 12. nóvember 2008, hafi stefnda Kcaj verið tilkynnt að stefnandi hefði gjaldfellt lánasamninginn og krafið lántaka Ghost um endurgreiðslu alls lánsins auk vaxta og kostnaðar. Hafi verið gerð krafa um að stefndi Kcaj innti af hendi greiðslu í samræmi við þá ábyrgð sem stefnandi taldi að hann hefði tekist á hendur samkvæmt lánasamningnum. Stefndi telur hins vegar að á honum hvíli engin skylda til þess að verða við kröfum stefnanda.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á fyrrgreindum lánasamningi, en samningurinn sé undirritaður af Ghost Ltd. sem lántaka og stefndu Kevin Stanford og Kcaj LLP, sem ábyrgðarmönnum. Sé því ljóst að stefndu hafi tekist á hendur skuldbindingar samkvæmt samningnum og séu bundnir af ákvæðum hans í samræmi við meginreglu samningaréttar um skuldbindingargildi samninga. Stefnandi byggi á því að uppfyllt séu skilyrði fyrir greiðsluskyldu stefndu, sem ábyrgðarmanna, á grundvelli samningsins á þeirri fjárhæð sem gerð sé krafa um. Vísist í því sambandi til ákvæða fyrrgreinds lánasamnings og meginreglu kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga.

Krafa stefnanda á hendur stefndu sé byggð á því að þeir hafi gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir endurgreiðslu á láni Ghost Ltd. á grundvelli fyrrgreinds lánasamnings, en þeir séu nefndir sem ábyrgðarmenn í upphafsorðum samningsins og hafi jafnframt skrifað undir samninginn sem slíkir. Ábyrgð þeirra sé útskýrð í grein 1.1. í samningnum þar sem fram komi að með ,,ábyrgð“ í skilningi samningsins sé átt við sjálfskuldarábyrgð (e. direct payment guarantee).

Áréttað sé að skýra verði ákvæði lánasamningsins í samræmi við íslensk lög þar sem aðilar hafi samið um að þau skyldu gilda um túlkun hans, sbr. grein 21 í samningnum. Samkvæmt meginreglum íslensks réttar um kröfuábyrgðir verði greiðsluskylda þeirra, sem gengist hafa í sjálfskuldarábyrgð, virk þegar vanefnd aðalskuldara liggi fyrir. Hins vegar sé aðilum frjálst að semja um takmörk á sjálfskuldarábyrgð og hafi það verið gert með grein 1.1 í lánasamningnum. Af þessu ákvæði verði ráðið að stefndu hafi, hvor fyrir sig, gengist í ábyrgð fyrir að hámarki 2.500.000 bresk sterlingspund (GBP) vegna endurgreiðslu lánsins. Þá hafi aðilar samið um að ábyrgðin yrði aðeins virk ef annað tveggja skilyrði væri uppfyllt, en annað þeirra var að greiðslur á grundvelli fyrrgreinds nytjaleyfissamnings á milli Ghost ltd. og Cosmopolitan Cosmetics Gmbh rynnu ekki til stefnanda.

Stefnandi byggir á því að sjálfskuldarábyrgð stefndu hafi orðið virk um leið og vanefnd í skilningi samningsins hafi orðið hjá lántakanum Ghost Ltd. Slík vanefnd hafi orðið þann 30. september 2008 þegar félagið hafi ekki staðið skil á greiðslu sem því hafi borið að inna af hendi í samræmi við grein 5.1(a) í samningnum.  Á þessu tímamarki hafi jafnframt verið uppfyllt skilyrði lánasamningsins, sbr. grein 1.1., fyrir því að ábyrgðin yrði virk þar sem greiðslur á grundvelli umrædds nytjaleyfissamnings hefðu ekki borist stefnanda.

Samkvæmt umræddum samningi beri nytjaleyfishafa að greiða lántaka Ghost ltd. ársfjórðungslega 4% þóknun af nettó sölu í Bretlandi og Bandaríkjunum og 3% þóknun af nettó sölu annars staðar í heiminum, sbr. grein 3.1. í samningnum. Þessar greiðslur eigi að renna til stefnanda til tryggingar á endurgreiðslu lánsins, sbr. grein 1.1 í fyrrgreindum lánasamningi og umfjöllun að framan. Stefnanda sé ekki kunnugt um það hversu háar í raun þessar nytjaleyfisgreiðslur til lántaka hafi verið og sé skorað á stefndu að leggja fram upplýsingar um það. Stefnanda hafi hins vegar borist greiðslur frá lántaka sem nægt hafi til að þjónusta greiðslu vaxta af láni þessu.  Engar greiðslur hafi þó borist stefnanda frá lántaka síðan 30. júní 2008. Þar sem nytjaleyfisgreiðslur eigi að berast á þriggja mánaða fresti telur stefnandi ljóst að uppfyllt séu skilyrði lánasamningsins fyrir því að ábyrgð sjálfskuldarmanna verði virk, enda hafi greiðslur á grundvelli nytjaleyfissamningsins ekki borist stefnanda.

Sú fjárhæð sem stefnandi krefji stefndu um, hvorn um sig, sé í samræmi við framangreinda hámarksábyrgð. Kröfurnar sundurliðast nánar með eftirfarandi hætti. 

Höfuðstóll

2.500.000,00   GBP

Vextir til 12/11/08   

53,345,41   GBP

ALLS

2.553.345,41   GBP

Þá sé krafist dráttarvaxta af ofangreindum höfuðstól (2.500.000,00 GBP) frá 12. nóvember 2008, þegar kröfubréf hafi verið sent stefndu, til greiðsludags.

Samkvæmt ákvæði 7.4. í lánasamningnum skuli vaxtafótur dráttarvaxta vera samtala af (i) 2% ársvöxtum (ii) the „Margin“, sem sé 2,6% (sbr. skilgreiningar í grein 1.1.) og (iii) LIBOR, sem hafi verið 5,85% (á sterlingspund) samkvæmt skilgreiningu í grein 1.1 í lánasamningnum. Vaxtafótur dráttarvaxtakröfu af ofangreindri fjárhæð sé því 10,45% (þ.e. 2% + 2,6% + 5,85%).

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga. Þá er vísað til meginreglna íslensks réttar um kröfuábyrgðir.  Um samlagsaðild í málinu vísast til 27. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um málskostnað er studd við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr. Um varnarþing í málinu vísast til 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 en í fyrrnefndum lánasamningi, sbr. grein 22 í samningnum, sé samið svo um að varnarþing vegna mála sem rekin eru vegna samninganna, og skuldbindinga samkvæmt þeim, sé fyrir dómstólum á Íslandi. Sé mál þetta því réttilega höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Málsástæður og lagarök stefnda Kevins Stanford

Stefndi Kevin byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að hann beri ekki ábyrgð á grundvelli 1.1. gr. samnings aðila, þar sem hún fjalli einungis um skilgreiningu hugtaka. Í öðru lagi telur stefndi Kevin að ef ákvæði 1.1. gr. samningsins og ákvæði 4.2.gr. c) í samningnum séu lesin saman, sé ljóst að stefnandi hefði getað gert það að skilyrði fyrir lánveitingu að stefndi Kevin gengist í ábyrgðir, en hafi ekki gert það. Ghost Ltd. hafi því verið veitt lán án ábyrgða. Í þriðja lagi byggir stefndi Kevin á því að rangt og ósannað sé að skilyrði b) liðar 1.1. gr. um vanskil á nytjaleyfisgreiðslum o.fl. séu uppfyllt. Í fjórða lagi telur stefndi Kevin að ábyrgð hans sé ekki sjálfsskuldarábyrgð eins og haldið sé fram í stefnu. Í fimmta lagi bendir stefndi Kevin á að samkvæmt hefðbundnum túlkunarsjónarmiðum íslensks samningaréttar beri að túlka lánasamninginn honum í hag.

Framangreint leiði til sýknu af öllum kröfum stefnanda.

1)                       Mál stefnanda sé alfarið byggt á skilgreiningarkafla lánasamnings (1. gr.)

Í 1. gr. samningsins (bls. 1-5) sé að finna skilgreiningarkafla (e.„Definitions“). Undirgrein 1.1. beri heitið „skilgreind hugtök“ (e. „Terms Defined“). Hinn eiginlega efnishluta samningsins sé svo að finna í þeim köflum sem á eftir komi (grein 2 og áfram), sbr. efnisyfirlit samningsins og orðalag greinanna sjálfra.

Í 1. gr. sé m.ö.o. einungis samið um að ef ákveðin hugtök komi fram seinna í samningnum skuli þau hafa þá þýðingu sem komi fram í greininni. Ekki sé samið um skilyrði ábyrgðar í þessari grein samningsins, heldur skilgreiningu hugtaka. Um sé að ræða mjög hefðbundna uppbyggingu samnings, sem stefnandi, sem fjármálafyrirtæki, eigi að kannast við.

Stefnandi byggi á því að stefndi Kevin hafi samþykkt að bera ábyrgð á endurgreiðslu lánsins með vísan í skilgreiningu hugtakanna „Guarantee“ og „Security“ í 1.1. gr. samningsins. Hið rétta sé, augljóslega, að stefndi Kevin samþykkti einungis í 1.1. gr. að þessi hugtök, „Guarantee“ og „Security“, hefðu þá merkingu sem þar sé kveðið á um, kæmu þau fram í efnishluta samningsins. 

Samkvæmt meginreglu samningaréttar um að samningsákvæði skuli skýrð samkvæmt orðanna hljóðan sé ljóst að í 1.1. gr. hafi einungis verið samið um skilgreiningu hugtaka. Ekki sé hægt að fella 2.500.000 GBP ábyrgð á einstakling, sem eigi í viðskiptum við fjármálafyrirtæki, einungis á grundvelli þess að hann hafi samþykkt að orðið „Security“ hefði ákveðna merkingu ef það kæmi fram seinna í samningnum. 

Stefnandi byggi málatilbúnað sinn samkvæmt stefnu alfarið á 1.1. gr. samningsins og byggi ekki á því að skilyrði annarra greina samningsins hafi verið uppfyllt fyrir ábyrgð. Stefnandi sé bundinn af þeirri nálgun samkvæmt málsforræðis- og útilokunarreglum einkamálaréttarfars. Þegar af þessari ástæðu beri að sýkna stefnda Kevin af öllum kröfum stefnanda.

Bent sé á að í þýðingu á samningnum, sem stefnandi leggi fram, sé því sleppt að þýða heiti 1. greinar samningsins. Af þýðingunni sé því ekki hægt að greina að um skilgreiningarkafla sé að ræða. Gefi það mjög villandi mynd af efni ákvæðisins. Þetta veki athygli í ljósi þess að sömu nálgun sé að finna í stefnu.

2)                       Stefndi Kevin ábyrgðist ekki greiðslur skv. grein 4.2. c) í lánasamningi.

Í 1.1. gr. samningsins sé orðið „Security“ skilgreint. Grein 4.2. c) í samningnum sé eina grein efnishluta samningsins þar sem orðið komi líka fram. Þar segi að stefnanda sé ekki skylt að lána Ghost Ltd. nema að bæði á þeim tíma sem greiðslubeiðni sé lögð fram og á þeim tíma sem lánið sé greitt út af hálfu lánveitanda, hafi verið undirrituð (e. „exectuted“)  ábyrgðarskjöl (e. „Security Documents“), ásamt fylgiskjölum. Í grein 4.2 c) segi þannig orðrétt:

The obligation of the Bank hereunder to advance a Loan is subject to the further conditions precedent that both at the time of the request for and at the time for the advance of such loan .....

(c) .... the Security Documents have been duly executed together with all documents delivarable in connection with it“. (áhersla lögmanns).

Í skilgreiningu á „Security“ í 1.1. gr. b) komi, eins og áður segi, fram að um sé að ræða margar ábyrgðir, að hámarki 50% af heildarláni, auk áfallinna vaxta á hverjum tíma, fyrir hvorn ábyrgðarmann: These guarantees are several to the amount of 50% of the outstanding capital....

Með hliðsjón af orðalagi greinarinnar um undirritun ábyrgða eftir beiðni um lánveitingu og því að um margar ábyrgðir sé að ræða, í samræmi við að útborgunardagar láns kunni að vera margir samkvæmt samningnum, sé útilokað að í ákvæðinu sé verið að vísa til þess lánasamnings sem aðilar hafi undirritað.

Því sé eftirfarandi ljóst:

1)                       Stefnandi hafi áskilið sér rétt til að neita lántaka um lánveitingu ef ábyrgðarmenn rituðu ekki undir ábyrgðir fyrir hverja útborgun.

2)                       Ábyrgðir hafi verið aðrar en hinn umræddi lánasamningur.

3)                       Stefnandi hafi hins vegar ekki gert kröfu um að stefndi Kevin ritaði undir ábyrgðir fyrir afgreiðslu láns.

4)                       Stefnanda hafi ekki verið skylt að lána Ghost Ltd. undir þeim kringumstæðum, en gerði það samt.

Stefndi Kevin hafi gengið út frá því að ef miklar líkur væru t.d. á vanefnd lántaka eða ef ekki hefði fengist staðfesting á því að greiðslur til stefnanda hefðu einnig fengist tryggðar með veði í nytjaleyfisgreiðslum, hefði hann möguleika á að neita að rita undir eða a.m.k. hafa áhrif á efni ábyrgðar. Á þetta hafi þó aldrei reynt þar sem stefnandi hafi ekki gert kröfu um ábyrgðir. Samkvæmt þessu beri að sýkna stefnda Kevin af öllum kröfum stefnanda.

3)                       Skilyrði b) liðar 1.1. gr. lánasamnings („Security“) er ekki uppfyllt.

Þá byggi stefndi Kevin á því að jafnvel þótt talið yrði að hann gæti orðið ábyrgur samkvæmt skilgreiningarhluta samningsins (1.1.gr.), þá bæri engu að síður að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda. Rangt og ósannað sé að skilyrði ábyrgðar samkvæmt 1.1. gr. b) 2) séu uppfyllt.

Samkvæmt orðalagi b) liðar verður ábyrgð ekki virk nema skilyrði 1) eða 2) liðar greinarinnar séu uppfyllt. Byggt sé á því í stefnu að skilyrði 2) liðar séu uppfyllt. Hins vegar sé hvorki greint frá fjárhæðum nytjaleyfisgreiðslna í vanskilum, né  tilgreint nánar hvaða greiðslur hafa borist frá Ghost Ltd., þó einhverjar séu þær greinilega samkvæmt bls. 4 í stefnu. Því sé stefnda Kevin ómögulegt að meta hvort vanefnd hafi átt sér stað. Stefndi Kevin telji fráleitt að stefnandi skori á hann á bls. 4 í stefnu að leggja fram upplýsingar um nytjaleyfisgreiðslur þriðja aðila, enda sé hann ekki stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri Ghost Ltd./Procter & Gamble/stefnanda. Stefndi Kevin hafi engar slíkar upplýsingar og geti ekki brugðist við áskoruninni.

Frá undirritun lánasamnings til tilkynningar um gjaldfellingu láns, þann 21. október 2008, hafi a.m.k. verið þrír gjalddagar á nytjaleyfisgjöldum, en samkvæmt nytjaleyfissamningi skyldu greiðslur inntar af hendi á þriggja mánaða fresti. Í yfirlýsingu Ghost Limited, dags. 10 febrúar 2009, staðfesti fyrrverandi fjármálastjóri Ghost Ltd., Nick Hamer, að stefnandi hafi fallið frá kröfu um nytjaleyfisgreiðslur sem tryggingu fyrir endurgreiðslu láns. Þrátt fyrir eftirgangsmuni Ghost Ltd., eftir undirritun samningsins, hafi stefnandi aldrei stofnað reikning fyrir tryggingagreiðslurnar. Þá hafi stefnandi aldrei beðið Ghost Ltd. að rita undir umboð til að innheimta beint frá Procter & Gamble eins og a) liður 1.1. gr. („Security“) geri ráð fyrir. Því hafi engar tilraunir verið gerðar til að innheimta greiðslurnar, hvorki frá Ghost Ltd. né Procter & Gamble.

Málatilbúnaður í stefnu renni stoðum undir þetta. Af stefnu sé ljóst að stefnandi hafi enga hugmynd um hverjar upphæðir gjaldfallinna nytjaleyfisgreiðslna séu. Engin kröfubréf séu lögð fram um gjaldfallnar nytjaleyfisgreiðslur, hvorki til Ghost Ltd. né Procter & Gamble. Stefnandi virðist hafa látið hjá líða að innheimta greiðslurnar og ekki farið fram á undirritun umboðs til innheimtu (e. „Power of Attorney“) í samræmi við ákvæði greinarinnar. Því telji stefndi Kevin eftirfarandi ljóst:

   Í fyrsta lagi hafi stefnandi fallið frá kröfu um nytjaleyfisgreiðslur sem tryggingu. Þar af leiðandi sé ekki um vanefnd að ræða af hálfu Ghost Ltd. á ákvæðum 1.1. gr. b) 2) í samningum. Ábyrgð verði því ekki virk.

Í öðru lagi verði ábyrgð ekki virk, þar sem hún hafi einungis verið til vara og bundin við að kröfu um nytjaleyfisgreiðslur væri fyrst beint að Ghost Ltd. og svo Procter & Gamble, ef Ghost Ltd. greiddi ekki. Stefnanda hafi ekki verið frjálst að sleppa því alfarið að gera kröfu um nytjaleyfisgreiðslur samkvæmt ákvæðinu. Ef a) liður væri skilinn með þeim hætti væri orðalag ákvæðisins um ferli innheimtu, fyrst hjá Ghost og svo Procter & Gamble, hrein markleysa. Slíkt hafi augljóslega ekki verið ætlun samningsaðila og svo sannarlega ekki ætlun stefnda Kevins.

Því eru skilyrði fyrir ábyrgð samkvæmt 1.1. gr. samningsins ekki uppfyllt.

Stefndi Kevin undirstriki að stefnandi hafi sönnunarbyrði um að skilyrði ábyrgðar séu uppfyllt samkvæmt almennum reglum einkamálaréttarfars. Stefndi Kevin hafi enga aðkomu átt að þessum þætti málsins.

4)                       Engin sjálfsskuldarábyrgð

Samkvæmt meginreglum kröfuréttar sé heimilt að krefja sjálfsskuldarábyrgðar­menn um greiðslu við vanefnd lántaka (aðalskuldara) á greiðslu lánsafborgana. Af skilgreiningu á hugtakinu „Security“ í lánasamningnum verði hins vegar ráðið að ábyrgðarskuldbindingar stefndu verði aðeins gildar ef nytjaleyfissamningur lántaka falli úr gildi eða nytjaleyfisgreiðslur berist ekki til tryggingar endurgreiðslu láns. Þannig væri mögulegt að lántaki stæði ekki í skilum með afborganir af láninu en samt yrðu meintar ábyrgðir stefndu ekki virkar. Því sé ekki um að ræða sjálfsskuldarábyrgð samkvæmt íslenskum rétti.

Í mesta lagi geti ábyrgðin talist (skilyrt) einföld ábyrgð samkvæmt meginreglum íslensks kröfuréttar. Ekki liggi fyrir að innheimta sé árangurslaus hjá Ghost Ltd. þannig að heimilt sé að ganga að ábyrgðarmönnum. Því beri að sýkna stefnda Kevin af öllum kröfum stefnanda.

Þá sé því mótmælt að undirritun stefnda Kevins á lánasamninginn leiði ein og sér til þess að hann sé fortakslaust ábyrgur fyrir endurgreiðslu allra mögulegra lánagreiðslna samkvæmt samningnum. Undirritun stefnda Kevins hafi einungis gefið til kynna að hann samþykkti efni samningsins, eins og almennt á við um undirritanir á samninga, en ekkert annað. Í undirrituninni hafi því ekki falist fyrirvaralaus skuldbinding um ábyrgð á endurgreiðslu allra lánagreiðslna sem Ghost Ltd. kynni mögulega að fá frá stefnanda á úttektartímabilinu, heldur einungis að samþykkt væri ábyrgðarfyrirkomulag gr. 4.2. c).

5)                       Túlkun og skýring samnings stefnda Kevin í hag

Eins og áður segi sé stefndi Kevin breskur ríkisborgari. Hann sé ólögmenntaður og ekki sérfróður um íslensk lög. Stefnandi sé fjármálafyrirtæki sem sérhæfi sig í lánastarfsemi. Stefnandi hafi samið umræddan samning með aðstoð sérfræðinga sinna. Stefndi Kevin hafi ekki notið lögfræðiaðstoðar fyrir undirritun samningsins. Um samninginn gildi íslensk lög, lög þess ríkis sem bankinn starfar í. Íslenskir dómstólar hafi lögsögu. Strangar kröfur séu gerðar til starfsemi fjármálafyrirtækja á borð við stefnanda í íslenskum rétti, sérstaklega í viðskiptum þeirra við einstaklinga. Því beri að skýra allan vafa stefnanda í óhag.

Þess skuli að auki getið að samningsákvæði séu almennt skýrð samkvæmt orðanna hljóðan í breskum rétti. Því hafi stefndi Kevin talið sig geta treyst því að orðalag samningsins stæði og möguleg ábyrgð hans væri úr sögunni eftir að úttektartímabili lauk samkvæmt skýru orðalagi gr. 4.2. c). Einnig sé eðlilegast að stefnandi beri sjálfur áhættuna af því að hafa afgreitt lán til Ghost Ltd. án þess að hafa krafist ábyrgða eins og hann hafði rétt á í samræmi við gr. 4.2. c). Stefndi Kevin vísi um þetta til meginreglna samningaréttar, sérstaklega andskýringarreglunnar. Stefndi Kevin vísi loks til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og ábyrgðir.

Ef ekki verði fallist á að sýkna stefnda Kevin alfarið, telji hann að lækka beri kröfur stefnanda verulega. Í fyrsta lagi geti ábyrgðarkrafan einungis borið dráttarvexti frá 18. des. sl., einum mánuði eftir móttöku kröfubréfs, þar sem gjalddagi greiðslna ábyrgðarmanns hafi ekki verið ákveðinn fyrir fram, sbr. 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Stefnandi krefjist þess hins vegar að skuld beri dráttarvexti frá dags. kröfubréfs, sem eigi sér enga stoð í ákvæðum vaxtalaga. Ef sú væri niðurstaðan bæri meint skuld dráttarvexti fyrir móttöku kröfubréfs, en það hafi verið stimplað um móttöku þann 18. nóvember sl. Slík niðurstaða væri ótæk.

Þá virðist vaxtafjárhæð (53.345,41 GBP) vera reiknuð til dagsetningar kröfubréfs og dráttarvaxta krafist frá þeim degi, sbr. bls. 4 í stefnu. Óljóst sé hins vegar hvernig vaxtafjárhæð sé útreiknuð, hvaða vaxtafótur sé notaður og frá hvaða upphafsdegi. Þó sé ljóst að hún sé vitlaust reiknuð, samkvæmt því sem að framan segi um upphafsdag dráttarvaxta, en stefnandi geri kröfu um vaxtagreiðslur til þess dags. Þá séu vextir að því er virðist höfuðstólsfærðir í kröfugerð miðað við 12. nóvember sl. og þess krafist að greiddir verði dráttarvextir af þeirri upphæð frá 12. nóvember sl., sbr. sundurliðun krafna á bls. 4. Stefndi Kevin telji kröfuna hvorki eiga sér stoð í ákvæðum vaxtalaga né samræmast 80. gr. eml. um skýra kröfugerð og reifun málsástæðna.

Loks byggir stefndi Kevin á því að ef ábyrgð yrði talin vera fyrir hendi, gæti hún að hámarki verið 2.500.000 GBP, sbr. skilgreiningu á Security. Stefndi Kevin telur þetta óumdeilt, sbr. ummæli á bls. 3 í stefnu: Af þessu ákvæði verður ráðið að stefndu hafi, hvor fyrir sig gengist í ábyrgð fyrir að hámarki 2.500.000 bresk sterlingspund (GBP) vegna endurgreiðslu lánsins. Kröfufjárhæð í stefnu sé hins vegar í ósamræmi við skilning stefnanda sjálfs á ákvæðinu,  2.553.345,41 GBP, auk dráttarvaxta.

Með hliðsjón af framansögðu telji stefndi Kevin að lækka beri kröfur stefnanda verulega ef ekki verði fallist á sýknu.

Loks sé vísað í greinargerð meðstefnda Kcaj LLP. Ef þar komi fram málsástæður sem ekki komi fram í greinargerð stefnda Kevins, geri hann þær að sínum.

Stefndi vísar um málskostnaðarkröfu sína til 129.-130. gr. laga nr. 91/1991.  Yfirlit um kostnað stefnda vegna málsins, þ. m. t. virðisaukaskatt, verði lagt fram við aðalmeðferð þess.

Málsástæður og lagarök stefnda Kcaj

Aðalkrafa um sýknu

1. Engin ábyrgðarskuldbinding fyrir hendi

Stefndi Kcaj byggi í fyrsta lagi á því að samkvæmt fyrirliggjandi lánasamningi hvíli engin skuldbinding á honum sem ábyrgðarmanni. Hvergi komi fram í umræddum samningi að stefndi Kcaj taki á sig ábyrgð sem sjálfskuldarábyrgðarmaður á skuldbindingum lántaka við stefnanda. Af samningnum verði aðeins ráðið að aðilar hafi komið sér saman um skilgreiningu á hugtakinu „Guarantee“ og hugtakinu „Security“ sbr. skilgreiningar sem komi fram í kafla 1 og 1.1, sem beri yfirskriftina „Definitions“ og „Terms Defined“. Hvergi í samningnum lofi stefndi Kcaj að bera ábyrgð á skuldbindingum lántaka. Hið sama megi segja um meðstefnda Kevin Stanford.

Fyrir liggi að stefndi Kcaj hafi undirritað lánasamninginn. Af samningnum verði hins vegar ráðið, nánar tiltekið af ákvæði 4.2 (c) á bls. 6, að lánveiting stefnanda væri háð því skilyrði að tiltekin tryggingarskjöl („Security Documents“) hefðu verið undirrituð og afhent bankanum. Með hliðsjón af þessu hafi stefndi Kcaj gert ráð fyrir því að hann tæki ekki á sig endanlega ábyrgðarskuldbindingu gagnvart stefnanda fyrr en hann hefði ritað undir sérstakt ábyrgðarskjal, og slíkt skjal þyrfti hann að undirrita í hvert skipti sem dregið yrði á lánið. Þessu til stuðnings megi benda á að í þýðingunni á lánasamningnum á hugtakinu „Security“ komi fram að um „nokkrar“ ábyrgðir sé að ræða („these guarantees are several...“). Skilgreining á hugtakinu „Security“ segi aðeins til um innihald slíkra skjala í grófum dráttum. Stefndi Kcaj hafi hins vegar aldrei verið beðinn um að skrifa undir slík ábyrgðarskjöl og hafi því aldrei tekið á sig neina ábyrgðarskuldbindingu gagnvart stefnanda. Hafi stefndi Kcaj því gert ráð fyrir að stefnandi hefði fallið frá kröfum um að hann ábyrgðist lánið.

2. Skilyrði til að ganga að ábyrgðarskuldbindingum ekki fyrir hendi

Þá byggi stefndi Kcaj á því að jafnvel þó svo ólíklega færi að talið yrði að hann hefði skuldbundið sig sem ábyrgðarmaður gagnvart stefnanda, þá séu ekki skilyrði til þess að innheimta þá ábyrgð.

2.1 Engar þær aðstæður fyrir hendi sem heimila að ganga að ábyrgðum

Stefnandi byggi á því að hin meinta ábyrgð stefndu hafi orðið virk um leið og Ghost Ltd. hafi vanefnt greiðslur samkvæmt lánasamningnum hinn 30. september 2008. Þessu mótmæli stefndi Kcaj.

Fyrir liggi að hvergi sé skilgreint í hvaða tilvikum heimilt sé að krefja ábyrgðarmenn um greiðslu. Einungis sé sagt að ábyrgðarskuldbindingarnar verði „gildar“ (e. „valid”) við tilteknar aðstæður, sbr. b. liður skilgreiningar á „Security“. Ósannað sé því að uppi séu þær aðstæður að heimilt sé að krefja stefnda Kcaj um greiðslu samkvæmt lánasamningnum.

2.2 Ósannað að ábyrgðin sé sjálfskuldarábyrgð

Þá sé því mótmælt að hin meinta ábyrgðarskuldbinding sé sjálfskuldarábyrgð í skilningi íslensks réttar. Í framangreindum lánasamningi komi fram að um sé að ræða „direct payment guarantee“. Stefndi telur ósannað að hér sé um að ræða sjálfskuldarábyrgð eins og hún sé skilgreind samkvæmt íslenskum rétti. Einungis ábyrgðir með heitunum „unconditional guarantee“ eða „unconditional personal guarantee“ geti komist nálægt því að teljast til sjálfskuldarábyrgðar eins og það hugtak sé skýrt samkvæmt íslenskum rétti. Óljóst sé um hvers konar skuldbindingu sé að ræða, verði á annað borð talið að hún sé fyrir hendi. Í besta falli verði að telja ábyrgðina vera einfalda ábyrgð. Ekki liggi fyrir að búið sé að reyna árangurslausa innheimtu hjá lántaka þannig að heimilt sé að ganga að hinni meintu ábyrgð stefnda Kcaj. Þessu til stuðnings verði að benda á að samkvæmt íslenskum rétti sé almennt heimilt að krefja sjálfskuldarábyrgðarmenn um greiðslu við vanefnd aðalskuldara á skuldbindingu sinni við kröfuhafa. Af skilgreiningu á hugtakinu „Security“ í lánasamningnum verði hins vegar ráðið að hinar meintu ábyrgðarskuldbindingar stefndu verði aðeins gildar („[t]he gurantees will be valid only if:.. eins og segi í skilgreiningunni undir b. lið) að nytjaleyfissamningi lántaka verði annað hvort i) sagt upp/hann ekki endurnýjaður eða ii) ef ekki sé staðið í skilum með greiðslur vegna nytjaleyfisgjalda til stefnanda. Af þessu sé ljóst að mögulegt hafi verið að lántaki stæði ekki í skilum með afborganir af láninu en samt hafi ekki reynt á hinar meintu ábyrgðir stefndu þar sem umræddur nytjaleyfissamningur væri enn í gildi og staðin væru skil á öllum greiðslum vegna nytjaleyfisgjalda til stefnanda. Augljóst sé að slík ábyrgð sé ekki sjálfsskuldarábyrgð samkvæmt íslenskum rétti, enda væri þá ekki hægt að ganga að ábyrgðunum þrátt fyrir að lántaki hefði vanefnt skuldbindingar sínar samkvæmt lánasamningnum. Allan vafa um eðli skuldbindingar stefnda Kcaj verði að skýra honum í hag.

2.3 Ábyrgð aðeins til vara

Þá telji stefndi Kcaj skilyrði b. liðar í skilgreiningu á hugtakinu „Security“ ekki vera uppfyllt. Því sé ekki heimilt að krefja stefnda Kcaj um greiðslu samkvæmt hinni meintu ábyrgðarskuldbindingu.

Í þessu sambandi verði að hafa í huga að ekki sé hægt að krefja stefnda Kcaj um greiðslu á grundvelli hinna meintu ábyrgðarskuldbindinga nema fyrst hafi verið gengið að þeim tryggingum sem lánasamningurinn veitti stefnanda. Þannig sé ljóst af skilgreiningunni á „Security“ að stefndu hafi ekki viljað taka á sig neina ábyrgð nema i) framangreindum nytjaleyfissamningi yrði sagt upp/hann ekki endurnýjaður eða ii) að nytjaleyfisgreiðslur samkvæmt samningnum yrðu ekki inntar af hendi til stefnanda. Í þessu felist að ábyrgð stefndu hafi aðeins átt að vera til vara. Fyrst ætti að ganga að nytjaleyfisgreiðslum, en aðeins ef þær dygðu ekki til að fullnusta lánið mætti ganga að ábyrgðarmönnum. Ekki verði séð að gengið hafi verið að tryggingum í nytjaleyfisgreiðslum. Ekki sé því heimilt að ganga að hinni meintu ábyrgð stefnda Kcaj og því verði að sýkna hann af kröfum stefnanda í máli þessu.

2.4 Stefnandi féll frá ábyrgðarskuldbindingum stefndu

Stefndi Kcaj telur ljóst að stefnandi hafi fallið frá tryggingum í umræddum nytjaleyfisgreiðslum og þar með hinum meintu ábyrgðarskuldbindingum stefnda Kcaj. Því séu ekki skilyrði fyrir hendi til þess að geta gengið að ábyrgð hans nú.

Fyrir liggi að fyrrverandi fjármálastjóri lántaka Ghost hafi staðfest að stefnandi hafi fallið frá því að gera kröfur um að nytjaleyfisgreiðslur yrðu inntar af hendi til hans. Eftir því sem næst verði komist hafi nytjaleyfisgreiðslur heldur aldrei verið inntar af hendi til stefnanda frá undirritun lánasamningsins hinn 2. ágúst 2007 og þar til hann var gjaldfelldur með tilkynningu, dags. 21. október 2008. Á framangreindu tímabili lánasamningsins hafi a.m.k. verið þrír gjalddagar á nytjaleyfisgjöldum samkvæmt ákvæði 3.1 í nytjaleyfissamningi, en skv. honum skyldu greiðslur inntar af hendi á þriggja mánaða fresti. Ekki verði séð að stefnandi hafi krafist þessara greiðslna á tímabilinu frá lántaka. Þá virðist stefnandi ekki hafa nýtt þær heimildir sem hann hafi haft í samningnum til þess að tryggja að nytjaleyfisgreiðslurnar gengju til sín, þ.e. aflað umboðs frá lántaka sem heimilaði honum að senda tilkynningu til nytjaleyfishafa í því skyni að tryggja að greiðslurnar yrðu inntar af hendi beint til stefnanda.

Ljóst sé því að stefnandi hafi fallið frá tryggingum í framangreindum nytjaleyfisgreiðslum strax í upphafi og þar með um leið hinni meintu ábyrgðarskuldbindingu stefnda Kcaj, sem hafi, eins og áður segi, aðeins verið til vara. Það hafi verið skilyrði ábyrgðarskuldbindingar stefnda Kcaj að fyrst yrði gengið að tryggingum í nytjaleyfisgreiðslum, en að þeim frágengnum, ábyrgðum hans. Þar sem stefnandi hafi fallið frá tryggingu í nytjaleyfisgreiðslum geti hann ekki gengið að þeim tryggingum nú og þar með ekki að hinni meintu ábyrgðartryggingu stefnda Kcaj. Einnig sé ljóst, samkvæmt íslenskum rétti, að hafi stefnandi ætlað að gefa eftir aðrar tryggingar, en halda í meinta ábyrgð stefndu, hafi hann ekki getað það án þess að afla áður til þess samþykkis stefnda Kcaj, þar sem slík ráðstöfun væri til þess fallin að rýra réttarstöðu hans.  Þar sem stefnandi hafi ekki leitað samþykkis stefnda Kcaj við brottfellingu tryggingar í nytjaleyfisgreiðslum, hafi stefnandi fyrirgert öllum frekari rétti á hendur stefnda.

3. Túlkun ábyrgðarskuldbindinga

Við skýringu á framangreindum lánasamningi og hinni meintu ábyrgð stefnda Kcaj verði auk þess að hafa í huga að stefnandi er fjármálastofnun með fjölda sérfræðinga á sínum snærum, sem hafi sjálfur ákveðið með hvaða skilmálum lánið skyldi veitt lántaka. Allan vafa um skuldbindingu stefndu verði að skýra stefndu í hag. Stefnandi verði sjálfur að bera áhættuna af því að hafa afgreitt lán til lántaka án þess að hafa gengið frá ábyrgðum í samræmi við ákvæði gr. 4.2 c) í lánasamningi.

Ljóst sé því af öllu ofangreindu að sýkna beri stefnda Kcaj af öllum kröfum stefnanda í málinu.

Varakrafa um lækkun krafna

Fari svo ólíklega að ekki verði fallist á að sýkna stefnda Kcaj alfarið af kröfum stefnanda mótmælir stefndi Kcaj því að ábyrgð hans nái til hærri fjárhæðar en tveggja milljóna breskra punda. Ljóst sé af upphafsorðum lánasamningsins að lánið skiptist í tvennt, annars vegar „bullet loan“ að fjárhæð 3 milljónir punda og hins vegar „term loan facility“ að fjárhæð 2 milljónir punda. Af skilgreiningu á „Security“ í lánasamningnum leiði að ábyrgðunum hafi aðeins verið ætlað að ábyrgjast þann hluta sem kallist „facility“, sbr. eftirfarandi orð: „direct payment guarantees ... guaranteeing the repayment of the facility plus accrued interest.“

Að öðru leyti sé málatilbúnaði stefnanda, eins og hann komi fram í stefnu mótmælt í heild sinni.

Um lagarök vísar stefndi einkum til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga sem og meginreglna þeirra sem gilda um ábyrgðir. Þá er vísað til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.  Um málskostnað er vísað til 129. gr. sbr. 130. gr. sömu laga.

Niðurstaða

Hinn 2. ágúst 2007 gerði stefnandi lánasamning við Ghost Ltd. þar sem félaginu, sem lántaka, var veitt lán að fjárhæð 5.000.0000 breskra sterlingspunda. Kröfur sínar í málinu á hendur stefndu byggir stefnandi á þessum samningi og byggir á því að með samningnum hafi stefndu gengist í sjálfskuldarábyrgð  fyrir endurgreiðslu lánsins.

Fullyrðingu sína þess efnis að stefndu hafi, hvor um sig, tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á láni Ghost Ltd. að fjárhæð 2.500.00 bresk sterlingspund, byggir stefnandi á 1. gr. lánasamningsins þar sem ábyrgð þeirra sé útskýrð. Þar komi fram að með ábyrgð sé átt við sjálfskuldarábyrgð.

Samningur sá sem um ræðir er nokkuð stór í sniðum. Er samningurinn undirritaður af fulltrúa Ghost Ltd., fulltrúa stefnda Kcaj LLP og stefnda Kevin Stanford og fulltrúa stefnanda.

Í 1. grein samningsins er fjallað um skilgreiningar og segir þar að aðilar hafi komið sér saman um þær skilgreiningar sem þar eru nefndar á þar tilgreindum orðum  og hugtökum, m.a. á enska orðinu guarantee, sem í íslenskri þýðingu samningsins útleggst sjálfskuldarábyrgð af hálfu ábyrgðaraðila. Þar er einnig að finna skilgreiningu á orðinu security eða tryggingu. Í b lið þeirrar umfjöllunar kemur fram að sjálfskuldarábyrgð stefndu gildi fyrir 50% af útistandandi höfuðstól ásamt áföllnum vöxtum hverju sinni. Hámarks höfuðstólshluti hvorrar ábyrgðar sé GBP 2.500.000.

Í 4. grein samningsins er fjallað um skilyrði. Grein 4.1 fjallar um skilyrði um skjöl.  Segir þar að skylda bankans samkvæmt samningum til þess að veita lánið sé háð þeim skilyrðum að bankanum hafi borist þar tilgreind skjöl. Í gr. 4.2 er fjallað um frekari skilyrði. Þar segir í c lið að skylda bankans samkvæmt samningnum sé enn fremur háð eftirfarandi frekari skilyrðum, þ.e. bæði á þeim tíma sem beiðni berst um útborgun láns og á þeim tíma sem lánið er veitt að tryggingarskjöl hafi verið undirrituð með gildum hætti ásamt öllum skjölum sem því tengist.

Fyrir liggur að stefndu undirrituðu ekki slík tryggingarskjöl sem um er fjallað í grein þessari. Þá liggur fyrir að engin sérstök yfirlýsing um sjálfskuldarábyrgð stefndu var undirrituð.

Til þess að sjálfskuldarábyrgð verði gild verður að liggja fyrir ótvíræð yfirlýsing þess sem tekur á sig slíka ábyrgð um að hann ábyrgist sem sjálfskuldarábyrgðarmaður tiltekna fjárhæð. Enga slíka yfirlýsingu er að finna í þeim samningi sem stefnandi byggir kröfur sínar á.

Undirritun stefndu á samninginn felur ekki annað í sér en að þeir samþykki hann eins og hann liggur fyrir þ.á m. að með orðinu ábyrgð sé átt við sjálfskuldarábyrgð af hálfu ábyrgðaraðila, sbr. 1. gr. samningsins. Í því felst ekki að stefndu hafi tekist á hendur slíka ábyrgð.

Ekkert hefur komið fram í málinu sem styður það að í framhaldi af gerðum samningi hafi komist á skuldbindandi samningur með stefnanda og stefndu um að stefndu tækjust á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuld Ghost Ltd. svo sem stefnandi heldur fram.

Ber því samkvæmt framansögðu að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða hvorum stefnda 1.500.000 krónur í málskostnað.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndu, Kevin Stanford og Kcaj LLP, skulu vera sýknir af kröfum stefnanda, VBS Fjárfestingabanka hf.

Stefnandi greiði hvorum stefnda 1.500.000 krónur í málskostnað.