Hæstiréttur íslands

Mál nr. 78/2003


Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun
  • Óvenjulegur greiðslueyrir


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. nóvember 2003.

Nr. 78/2003.

Þrotabú Mekkanos ehf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

gegn

EJS group hf.

(Karl Axelsson hrl.)

 

Gjaldþrotaskipti. Riftun. Óvenjulegur greiðslueyrir.

E og G, eigendur félaga sem sameinuð höfðu verið undir nafni M, lánuðu M fé til að rétta hag þess. Nokkrum dögum síðar seldi M tilteknar eigur til K, sem var í eigu E, og skyldi endurgjald vera 106.000.000 kr., sem greiðast skyldi að hluta með yfirtöku K á áðurnefndu láni frá E að fjárhæð 56.000.000 kr. en að öðru leyti með peningum. Innan árs frá gerð þessa samnings höfðu bú beggja félaganna, M og K, verið tekin til gjaldþrotaskipta. Þrotabú M krafðist riftunar greiðslu M á skuld við E, 56.000.000 kr., með vísan til þess að skuldin hefði verið með óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991. Talið var sannað að eigendur M hefðu samið um fyrrgreinda lánveitingu E og hvernig lánið skyldi greitt með afhendingu eigna, en hvort tveggja gekk eftir þegar í kjölfar samningsins. Var að því virtu ekki fallist á að lán E hafi verið greitt með óvenjulegum greiðslueyri. Þá var ekki sýnt fram á að skilyrði væru uppfyllt til þess að kröfur þrotabúsins gætu náð fram að ganga á grundvelli 141. og 142. gr. laga nr. 21/1991.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. febrúar 2003. Hann krefst þess að rift verði greiðslu Mekkanos ehf. á skuld við stefnda að fjárhæð 56.000.000 krónur, sem fram fór með yfirtöku dótturfélags stefnda, Kveikja hf., á greiðsluskyldu hins gjaldþrota félags á tilgreindri skuld samkvæmt kaupsamningi 29. desember 2000. Einnig krefst áfrýjandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 56.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. febrúar 2002 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Bú Mekkanos ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 11. júní 2001. Frestdagur við skiptin var 7. sama mánaðar. Félagið varð til á árinu 2000 við samruna GSP almannatengsla ehf. og Gæðamiðlunar ehf., en í héraðsdómsstefnu er því svo lýst að hið nýja félag hafi verið myndað af tveimur einingum, þ.e. auglýsinga- og almannatengslahluta, sem kom frá fyrrnefnda félaginu, og svokölluðum vefráðgjafa- og netlausnahluta, sem kom frá hinu síðarnefnda. Gæðamiðlun ehf. var í eigu dótturfélags stefnda, Klakka hf., sem eignaðist 75% í Mekkano ehf., en 25% féllu í hlut Gunnars Steins Pálssonar, eiganda GSP almannatengsla ehf.

Rekstur Mekkanos ehf. gekk illa og í desember 2000 lánuðu eigendur félagsins því fé til að rétta við hag þess. Komu 56.000.000 krónur frá stefnda, en 19.000.000 krónur frá Gunnari Steini Pálssyni. Er óumdeilt að um lán hafi verið að ræða, sem stefndi greiddi að sínum hluta 18. desember 2000. Hinn 29. sama mánaðar var síðan gerður samningur milli Mekkanos  ehf. og Kveikja hf., sem var í eigu stefnda, þess efnis að fyrrnefnda félagið seldi hinu síðarnefnda „Pixel hönnun, vefráðgjafa- og netlausnadeildir seljanda“, en í 2. gr. kaupsamningsins kom fram nánari lýsing á hinu selda, sem var ýmis konar lausafé og réttindi. Samkvæmt 4. gr. samningsins skyldi endurgjald vera 106.000.000 krónur og greiðast með yfirtöku kaupandans á áðurnefndu láni frá stefnda að fjárhæð 56.000.000 krónur, en að öðru leyti með peningum í mars 2001. Frá peningagreiðslunni skyldi þó koma til frádráttar ýmis konar óuppgerðar greiðslur seljandans samkvæmt 3. gr., 5. gr. og 7. gr. samningsins. Endanlegt uppgjör kaupverðsins fór ekki fram fyrr en á fyrri hluta ársins 2001 og liggur fyrir yfirlýsing Mekkanos ehf. um fullnaðaruppgjör 21. maí það ár. Samkvæmt því komu ekki til greiðslu til félagsins nema 5.185.745 krónur, þegar tillit hafði verið tekið til frádráttar í samræmi við áðurnefnd ákvæði kaupsamningsins. Annar samningur, sem ber sömu dagsetningu og kaupsamningurinn, var gerður milli Klakka hf. og Gunnars Steins Pálssonar, þar sem hinn síðarnefndi keypti 75% eignarhlut Klakka hf. í Mekkano ehf. fyrir 180.000.000 krónur. Tilraunir eigenda Mekkanos ehf. til að koma félaginu á réttan kjöl báru ekki árangur og var bú þess tekið til gjaldþrotaskipta 11. júní 2001 svo sem áður var getið. Er fram komið að lýstar kröfur í búið nemi rúmlega 200.000.000 krónum. Þá var bú Kveikja hf. einnig tekið til gjaldþrotaskipta 23. nóvember 2001. Liggur fyrir staðfesting skiptastjóra þrotabús þess félags um að stefndi hafi lýst kröfu að höfuðstól 56.000.000 krónur í búið og að krafan muni ekki fást greidd af eignum þess.

II.

Áfrýjandi reisir kröfu sína um riftun í fyrsta lagi á 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Skuld Mekkanos ehf. hafi stofnast við lánveitingu stefnda 18. desember 2000 og ekki verið gengið frá neinum skuldaskjölum af því tilefni. Skuldin hafi síðan verið greidd með óvenjulegum greiðslueyri þar sem eignir félagsins hafi verið afhentar dótturfélagi stefnda, Kveikjum hf., gegn því að það félag tæki að sér greiðsluskyldu gagnvart stefnda á skuldinni. Hér skipti mestu að fyrst hafi verið samið um lántökuna, en sala eignanna og greiðsla skuldarinnar ekki verið ákveðin fyrr en síðar. Ekki hafi því verið samið fyrirfram um þann greiðsluhátt, sem lýst sé í kaupsamningi. Verði að líta til forms greiðslunnar, eins og hún fór frá seljanda, en eignirnar hafi samningsaðilarnir talið 106.000.000 króna virði. Engu breyti um riftunarkröfuna þótt dótturfélagið hafi síðar verið tekið til gjaldþrotaskipta og eignirnar farið forgörðum í meðförum þess, enda rekstur Kveikja hf. verið á ábyrgð stefnda. Með þessu hafi greiðslugeta Mekkanos ehf. verið skert verulega. Þá vísar áfrýjandi einnig til 141. gr. laga nr. 21/1991, en ráðstöfunin hafi á ótilhlýðilegan hátt verið til hagsbóta fyrir stefnda á kostnað annarra kröfuhafa. Önnur skilyrði lagagreinarinnar séu einnig uppfyllt svo riftun megi ná fram að ganga. Er jafnframt haldið fram að þessi ráðstöfun hafi í raun ekki orðið fyrr en síðari hluta febrúar 2001, en þá hafi stjórnarmönnum í félaginu hlotið að vera ljós staða þess, enda séu eignar- og stjórnunartengsl milli allra þeirra félaga, sem hlut eigi að máli. Er um þetta vísað til skýrslu Gunnars Steins Pálssonar fyrir skiptastjóra í þrotabúinu þess efnis að þrátt fyrir dagsetningu samninganna í desember 2000 hafi ekki verið gengið frá þessu fyrr en á ofangreindu tímamarki. Fjárkröfu sína styður áfrýjandi við 142. gr. laga nr. 21/1991. Hafi greiðslan komið stefnda að notum á því tímamarki, sem hún fór fram, og stefndi þannig haft hag af ráðstöfuninni. Beri stefnda að greiða tjónsbætur, enda hafi honum verið kunnugt um riftanleika ráðstöfunarinnar.

Stefndi reisir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti. Hann hafi ekki tekið við neinum verðmætum frá Mekkano ehf. og sé kröfunni ranglega beint að honum. Þá sé ekki rétt að eignirnar, sem seldar voru Kveikjum hf., hafi verið notaðar til að greiða skuld Mekkanos ehf. við stefnda. Kveikir hf. hafi yfirtekið skuldina og þannig orðið skuldaraskipti. Hafi stefndi ekki gefið kröfuna eftir og reynt án árangurs að innheimta hana. Ætti áfrýjandi því með réttu að beina kröfu sinni að þrotabúi Kveikja hf., enda hafi það félag tekið við eignunum. Fyrir Hæstarétti lagði stefndi áherslu á það til stuðnings sýknukröfu sinni að ekki sé unnt að telja afhendingu eignanna vera óvenjulegan greiðslueyri upp í skuld, enda hafi fyrirfram verið um það samið að yfirfærsla eigna á móti þessari skuld skyldi verða með þeim hætti, sem gert var. Vísar hann um það einkum til skjals, sem lagt var fram við aðalmeðferð málsins í héraði og ber fyrirsögnina „Minnisblað vegna samstarfs EJS og GSP í Mekkano.“ Er skjalið dagsett 14. desember 2000 og undirritað annars vegar af stjórnarmanni í stefnda fyrir hönd félagins og hins vegar Gunnari Steini Pálssyni. Segir þar í upphafi að Mekkano ehf. eigi við verulega fjárhagsörðugleika að stríða og þurfi að leggja félaginu til fé. Sé ljóst að því fylgi veruleg áhætta eins og sakir standi. Segir síðan að stefndi og Gunnar Steinn Pálsson séu sammála um að vinna samkvæmt „eftirfarandi ramma“, sem svo er nánar lýst í átta liðum. Þar kemur meðal annars fram að hluthafafundir í Gæðamiðlun ehf. og GSP almannatengslum ehf. samþykki samruna félaganna undir nafninu Mekkano ehf. Þá samþykki stefndi að lána félaginu 56.000.000 krónur og Gunnar Steinn 19.000.000 krónur til að leysa fjárhagsvanda þess. Þeir muni jafnframt stofna fyrirtæki sem kaupi „net-/veflausnahluta Mekkano“, en á þessu sviði séu um 30-35 starfsmenn hjá félaginu. Hið nýja félag selji Mekkano ehf. og öðrum þjónustu sína og við stofnun þess verði áhersla á rekstur þessarar starfsemi betur tryggð. Síðan segir: „Fyrir net-/veflausnadeild Mekkano greiðir hið nýja fyrirtæki 56 mkr. Sú greiðsla minnkar bæði þörf Mekkano fyrir nýtt hlutafé ... og réttir rekstur þess af á árinu (sýnir væntanlega ekki tap). Nýja félagið greiðir kaupverðið með því að yfirtaka lán EJS til Mekkano upp á sömu upphæð.“ Þá eru ákvæði um að stefndi kaupi hlut Gunnars Steins í nýja félaginu fyrir 50.000.000 krónur, hinn síðastnefndi kaupi hlut stefnda í Mekkano ehf. fyrir 200.000.000 krónur. Loks segir: „Gengið verði frá ofangreindu í öllum megin atriðum fyrir árslok 2000.“ Heldur stefndi fram að með þessu hafi eigendur Mekkanos ehf. samið um að endurfjármagna félagið og að vef- og netlausnahlutinn skyldi rekinn í öðru félagi með hagkvæmari hætti en verið hafði. Hafi þá verið byggt á rekstraráætlun, þar sem stuðst var við mat ráðgjafa endurskoðunarskrifstofu. Allt hafi verið ákveðið fyrirfram, nánast í smáatriðum. Liður í því hafi verið að lán stefnda kæmi inn í viðskiptin með þeim hætti að nýtt félag yfirtæki skuldina og netlausnahlutann. Ekki hafi komið til álita að leggja svo mikið fé inn í félagið án þess að ákveða til enda aðgerðir til að koma rekstrinum í skaplegt horf. Þetta hafi verið heildstæð viðskipti og fyrirfram umsaminn greiðslueyrir geti ekki talist vera óvenjulegur greiðslueyrir í merkingu 134. gr. laga nr. 21/1991. Þá sé því mótmælt að greiðsla skuldarinnar hafi skert greiðslugetu félagsins verulega. Hafi því verið þveröfugt farið, enda hafi félagið með þessu verið losað undan þeim þætti í rekstri þess, sem mest tap hafði verið á. Þessi staðhæfing áfrýjanda sé að auki vanreifuð og engum rökum studd. Útfærsla samkomulagsins hafi á hinn bóginn breyst nokkuð þar eð hætt hafi verið við að stofna nýtt félag með sömu eignaraðild og var í Mekkano ehf., heldur hafi dótturfélag stefnda, Kveikir hf. keypt eignirnar og yfirtekið skuldina. Söluverð eignanna hafi af þeim sökum hækkað úr 56.000.000 krónum í 106.000.000 krónur. Söluverð hlutabréfa Klakks hf. í Mekkano ehf. til Gunnars Steins hafi einnig lækkað úr 200.000.000 krónum í 180.000.000 krónur. Að því er varðar vísun áfrýjanda til 141. gr. laga nr. 21/1991 telur stefndi enga sérstaka reifun felast í málatilbúnaði hins fyrrnefnda fyrir því að sú grein geti átt við. Ekkert þeirra ströngu skilyrða, sem þar séu sett fyrir því að riftun megi ná fram að ganga, séu hér uppfyllt. Þá sé alveg víst að eigendur Mekkanos ehf. réðust í áðurnefndar aðgerðir í góðri trú um að þær yrðu félaginu til styrktar. Loks sé tjón ósannað með öllu. Í raun hafi Mekkano ehf. fengið til sín 61.185.745 krónur og greiðslu á ýmsum kostnaði félagsins, samtals 106.000.000 krónur, en látið á móti vef- og netlausnir, sem tæplega hafi nokkurt markaðsvirði. Þá mótmælir stefndi staðhæfingu um að samningar, sem áður var getið um, hafi verið gerðir í febrúar 2001 en ekki í desember 2000, eins og þeir beri með sér. Um það hafi áfrýjandi sönnunarbyrði, sem ekki hafi tekist. Loks gerir stefndi athugasemdir við kröfugerð áfrýjanda í málinu, sem verði að teljast óvenjuleg þegar litið sé til þess hvernig kröfur um riftun séu almennt orðaðar í málum af þessum toga. Verði að telja vafasamt að unnt yrði að fullnægja dómi, sem gengi í málinu á grundvelli kröfugerðar áfrýjanda.

Við flutning málsins fyrir Hæstarétti benti lögmaður áfrýjanda á að stefndi hafi fyrst við aðalmeðferð málsins í héraði lagt fram áðurnefnt minnisblað 14. desember 2000, sem hann telji nú vera svo mikilvægt. Ekki hafi áður verið til þess vísað, hvorki í svarbréfi stefnda við kröfu skiptastjóra áfrýjanda né í greinargerð þáverandi lögmanns stefnda í héraði. Áfrýjanda hafi fyrst orðið kunnugt um tilvist skjalsins við aðalmeðferð málsins í héraði. Þá hafi þeirri málsástæðu ekki verið haldið fram í greinargerð stefnda í héraði að með afhendingu eigna Mekkanos ehf. upp í skuld við stefnda hafi verið um fyrirfram ákveðinn greiðslueyri að ræða. Sú málsástæða sé því of seint fram komin. Stefndi mótmælir því að framangreindri málsástæðu sé ekki teflt fram í greinargerð sinni í héraði. Rúmist hún innan þess málatilbúnaðar, sem þar sé hafður uppi. Í raun mótmæli áfrýjandi ekki sannleiksgildi þess, sem fram komi í minnisblaðinu, heldur sæki hann kröfur sínar fyrst og fremst á grundvelli réttarfarsástæðna, þ.e. að málsástæða stefnda um fyrirfram umsaminn greiðslueyri sé of seint fram komin.

 

 

III.

Við aðalmeðferð málsins í héraði gaf Valgeir M. Baldursson skýrslu, en hann starfaði sem framkvæmdastjóri GSP almannatengsla ehf. á árinu 2000. Kvaðst hann hafa starfað undir stjórn Gunnars Steins Pálssonar, en sameining áðurnefnds félags og Gæðamiðlunar ehf. hafi hafist í apríl 2000. Aðspurður um hvenær gengið var formlega frá sameiningu félaganna svaraði hann að það hafi annað hvort verið 14. eða 17. desember á því ári „sem skrifað er upp á.“ Kannaðist hann við að hafa séð minnisblaðið frá 14. desember 2000. Kaupsamningurinn frá 29. desember 2000 hafi hins vegar ekki verið undirritaður fyrr en í apríl 2001. Kunni vitnið ekki aðra skýringu á því hvers vegna samningurinn væri dagsettur aftur í tímann en þá að mikið „streð og strögl“ hafi verið um þann samning og þá einkum greiðslur samkvæmt honum. Kveikir hf. hafi tekið við vef- og netlausnadeild Mekkanos ehf. í janúar 2001 og flutt hana út úr því félagi, en í desember 2000 hafi verið „alveg niðurneglt“ hvað færi út úr félaginu. Á því tímamarki hafi stjórnendur Mekkanos ehf. haft trú á því að unnt yrði að halda félaginu gangandi. Aðrir forráðamenn Mekkanos ehf. gáfu ekki skýrslu fyrir dómi.

Samkvæmt öllu því sem rakið hefur verið telst sannað að eigendur Mekkanos ehf. sömdu um málefni félagsins með þeim hætti, sem greinir í áðurnefndu minnisblaði frá 14. desember 2000 og stefndi hefur nánar skýrt, sbr. II. kafla að framan. Liður í því var lánveiting stefnda og hvernig lánið skyldi greitt með afhendingu eigna, en hvort tveggja gekk eftir þegar í kjölfar samnings eigendanna. Verður að því virtu ekki fallist á með áfrýjanda að lán stefnda hafi verið greitt með óvenjulegum greiðslueyri í merkingu 134. gr. laga nr. 21/1991. Er jafnframt fallist á með stefnda að málsástæða hans, sem að þessu lýtur, sé nægjanlega skýr í málatilbúnaði hans í héraði og því ekki of seint fram komin. Þá er ekki sýnt fram á að skilyrði séu uppfyllt til þess að kröfur áfrýjanda geti náð fram að ganga á grundvelli 141. gr. og 142. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest um annað en málskostnað, en rétt er að hvor aðilanna beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. desember 2002.

I

                Mál þetta, sem dómtekið var hinn 30. október sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af Þrotabúi Mekkanos ehf., kt. 490597-3879, Lágmúla 7, Reykjavík, á hendur EJS hf., kt. 701294-7269, Grensásvegi 10, Reykjavík, með stefnu birtri hinn 5. mars 2002 og þingfestri 19. mars 2002.

                Dómkröfur stefnanda eru þær, að rift verði greiðslu hins gjaldþrota félags á skuld stefnda að fjárhæð 56.000.000 króna, sem fram fór með yfirtöku Kveikja hf., kt. 691295-2819, dótturfélags stefnda, á greiðsluskyldu hins gjaldþrota félags á tilgreindri skuld samkvæmt kaupsamningi, dags. 29. desember 2000.  Þess er og krafist, að stefndi greiði stefnanda 56.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 11. febrúar 2002 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar, að skaðlausu, úr hendi stefnda.

                Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og stefnanda gert að greiða honum málskostnað, að skaðlausu.

                Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp í málinu.

II

                Bú Mekkanos ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum hinn 11. júní 2001.

                Frestdagur við skiptin var 7. júní 2001, er félagið var tekið til skipta á grundvelli beiðnar stjórnar félagsins.

                Kröfulýsingarfresti lauk hinn 6. september 2001, og var skiptafundur um lýstar kröfur haldinn hinn 20. september 2001.

                Hið gjaldþrota félag varð til við samruna GSP almannatengsla ehf., sem var í eigu Gunnars Steins Pálssonar og Gæðamiðlunar ehf., sem var í eigu Klakka ehf., dótturfélags stefnda.  Samruninn varð með þeim hætti, að GSP almannatengs ehf. rann inn í Gæðammiðlun ehf. og eignaðist Gunnar Steinn Pálsson við það 25% hlut í hinu sameinaða félagi,  Við samrunann var nafni Gæðamiðlunar ehf. breytt í Mekkano ehf.  Samruninn miðaðist við 1. júlí 2000, en ekki var gengið formlega frá honum fyrr en í desember 2000.

                Hið sameinaða félag samanstóð af tveimur einingum, þ.e.a.s. svokölluðum vefráðgjafa- og netlausnahluta, sem kom frá Gæðamiðlun, og auglýsinga- og almannatengslahluta, sem kom frá GSP almannatengslum.

                Í stjórn félagsins voru Gunnar Steinn Pálsson, stjórnarformaður, Olgeir Kristjónsson og Sigurður Grendal.

                Í skýrslu fyrrum stjórnarformanns hins gjaldþrota félags, sem hann gaf hjá skiptastjóra, kemur fram, að haustið 2000 hafi komið í ljós, að fjárhagsstaða hins gjaldþrota félags hafi ekki verið eins góð og talið hafi verið, þegar samstarfið hófst. Kvað hann, að ráðgert hafi verið, að hluthafar myndu leggja félaginu til nýtt hlutafé að fjárhæð 75.000.000 krónur, sem myndi skiptast þannig, að stefndi eða dótturfélag hans legði til 75% þeirrar fjárhæðar, eða 56.000.000 króna, en hann sjálfur 25%, eða 19.000.000 krónur.  Hlutafé hins gjaldþrota félags var ekki hækkað heldur voru tilgreindar fjárhæðir lagðar til félagsins sem lán.  Stefndi greiddi 56.000.000 króna til félagsins hinn 18. desember 2000, og var greiðslan innt af hendi inn á bankareikning félagsins.  Í gögnum málsins liggur ekki fyrir, hvenær og með hvaða hætti lán þetta skyldi endurgreitt.

                Með kaupsamningi, dagsettum 29. desember 2000, seldi Mekkano ehf. Kveikjum hf., sem er dótturfélag stefnda, Pixel hönnun, vefráðgjafa- og netlausnardeildir fyrirtækisins.  Samningur þessi var undirritaður af Olgeiri Kristjónssyni, Helga Þór Guðmundssyni og Sigurði Grendal, f.h. Kveikja hf., og af Gunnari Steini Pálssyni, Olgeiri Kristjónssyni og Sigurði Grendal, f.h. Mekkano ehf.  Samkvæmt 4. gr. samningsins var umsamið kaupverð 106.000.000 króna, sem annars vegar skyldi greiðast með yfirtöku á láni frá stefnda, að fjárhæð 56.000.000 króna og hins vegar með peningum, 40.000.000 króna hinn 2. mars 2001 og 10.000.000 króna, hinn 28. mars 2001, þó þannig, að til frádráttar kæmu óuppgerðar greiðslur seljanda samkvæmt samningnum.  Jafnframt var skuld hins gjaldþrota félags við stefnda færð út úr bókum  þess sem greidd.

                Með yfirlýsingu, dagsettri 21. maí 2001, hafði fullnaðaruppgjör samkvæmt samningnum farið fram með greiðslu á 5.185.745 króna.  Sama dag og fyrrgreindur kaupsamningur er dagsettur, seldi Klakkar hf. Gunnari Steini Pálssyni hlutafé sitt í Mekkano ehf., að nafnverði 680.000 krónur á 180.000.000 króna, en samkvæmt skýrslu Gunnars Steins var ekki gengið frá þessum samningum fyrr en seinnihluta febrúarmánaðar 2001.

                Kveikir hf. var úrskurðað gjaldþrota hinn 21. nóvember 2001, og er skiptum á búinu ólokið.

                Hinn 11. janúar 2002 lýst stefnandi yfir riftun á greiðslu á skuld hins gjaldþrota félags, sem fram fór með framangreindum ráðstöfunum, og krafðist greiðslu á 56.000.000 króna.

                Hinn 28. janúar 2002 tilkynnti stefndi, að ekki væri fallist á riftunarkröfuna.

                Eignir stefnanda nema  um 15.000.000 króna, þar af 10.000.000 króna í peningum.

                Samþykktar forgangskröfur á hendur þrotabúinu nema u.þ.b. 40.000.000 króna.

III

                Stefnandi byggir riftunarkröfur sína á því, að skuld hins gjaldþrota félags við stefnda, að fjárhæð 56.000.000 króna, sem stofnast hafi við lánveitinguna hinn 18. desember 2000, hafi verið greidd með óvenjulegum greiðslueyri, með því að eignir hins gjaldþrota félags hafi verið afhentar dótturfélagi stefnda gegn því, að það félag tæki að sér greiðsluskyldu gagnvart stefnda á skuldinni.  Með þessu hafi eignir, sem kaupsamningur hljóði um, verið notaðar til greiðslu skuldarinnar, enda verði að horfa til þess, hvernig greiðslan hafi farið frá greiðanda, en ekki í hvaða formi hún hafi borist viðtakanda.  Engu breyti um riftunarkröfuna þótt dótturfélagið hafi síðar orðið gjaldþrota, enda rekstur þess félags á ábyrgð og áhættu stefnda, en ekki hins gjaldþrota félags eða stefnanda.

                Einnig byggir stefnandi á því, að greiðslan, sem falist hafi í skuld við stefnda, hafi verið yfirtekin í stað þess, að fjármunir, sem henni hafi numið, greiddust frá kaupanda verðmætanna til hins gjaldþrota félags, sem seljanda, og hafi skert greiðslugetu félagsins verulega.

                Jafnframt byggir stefnandi á því, að ráðstöfunin, sem falist hafi í framangreindum kaupsamningi, hafi leitt til þess, að eignir þær, sem samningurinn fjalli um, hafi ekki verið til ráðstöfunar þrotabúinu.  Ráðstöfunin sé því ótilhlýðileg og til hagsbóta stefnda á kostnað annarra kröfuhafa, enda hafi félagið verið ógjaldfært, þegar ráðstöfunin hafi átt sér stað, eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar.  Hafi stefndi mátt vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður, sem leitt hafi til þess, að ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg.  Ráðstöfun þessi hafi í raun ekki átt sér stað fyrr en í seinni hluta febrúar 2001, og þá hafi stjórnarmönnum félagsins hlotið að vera ljós staða þess, eða minnsta kosti mátt vera staðan ljós, enda liggi fyrir eignar- og stjórnunartengsl milli allra þeirra félaga, sem hér eigi hlut að máli.

                Samkvæmt samningi hins gjaldþrota félags og Kveikja hf. hafi verðmæti hins selda verið metið á 106.000.000 króna, og hafi verið gengið frá fullnaðaruppgjöri miðað við það.  Af þeirri fjárhæð hafi 56.000.000 króna verið greiddar með yfirtöku á greiðsluskyldu gagnvart stefnda.  Megi ætla, að ef ekki hefði komið til yfirtöku kaupanda á skuld hins gjaldþrota félags, hefði greiðst til félagsins 56.000.000 króna, því til ráðstöfunar.

                Með ráðstöfuninni hafi skuldbinding hins gjaldþrota félags gagnvart stefnda endanlega fallið niður, enda hafi félagið á  móti látið frá sér hluta eigna sinna til dótturfélags stefnda.  Með þessu hafi skuldin verið greidd, og eignum þeim, sem staðið hafi að baki greiðslunni, verið ráðstafað frá félaginu.

                Stefnandi byggir fjárkröfu sína á hendur stefnda á því, að greiðslan hafi komið stefnda að notum á því tímamarki, er hún hafi farið fram, og stefndi þannig haft hag af ráðstöfuninni.  Engu breyti hér um, að dótturfélag stefnda, sem komið hafi fram sem kaupandi eignanna, hafi orðið gjaldþrota eftir þetta tímamark, enda alfarið á ábyrgð og áhættu stefnda, að greiðslan færi forgörðum.

                Einnig byggir stefnandi á því, að stefnda beri að greiða stefnanda tjónsbætur, sem nemi stefnufjárhæð, enda hafi stefnda verið kunnugt um riftanleika ráðstöfunarinnar.  Með vísan til framangreindra sjónarmiða verði að miða við, að tjón stefnanda af ráðstöfuninni sé 56.000.000 krónur, og sé fjárkrafa á því byggð.

                Stefnandi krefst dráttarvaxta frá því, að mánuður var liðinn frá því krafan var sett fram í bréfi til stefnda.

                Kröfu um riftun byggir stefnandi á 134. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti.

                Fjárkröfu byggir stefnandi á 142. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti.

                Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

                Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV

                Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á aðildarskorti.  Telur stefndi, að kröfum sé ranglega beint að sér, þar sem hann hafi ekki fengið nein verðmæti frá stefnanda.  Kveður hann rangt, að eignir, sem seldar hafi verið Kveikjum hf., hafi verið notaðar til að greiða skuld hins gjaldþrota félags við stefnda.  Stefndi hafi aldrei gefið eftir kröfu sína og hafi reynt að innheimta hana.  Hins vegar hafi aldrei fengist greitt af því láni,  og ljóst sé, að það muni aldrei gerast, enda séu Kveikir hf. gjaldþrota.  Stefndi kveðst hafa lýst kröfum í þrotabú Kveikja hf., en samkvæmt yfirlýsingu skiptastjóra sé ljóst, að krafan fáist ekki greidd úr búinu.

                Stefndi kveðst hafa lánað hinu gjaldþrota fyrirtæki peninga.  Með áðurnefndum kaupsamningi hins gjaldþrota félags og Kveikja hf. hafi Kveikir hf. tekið yfir skuldina.  Um sé því að ræða skuldaraskipti, en ekki greiðslu skuldar, og skipti engu hér um, að skuldin hafi verið færð úr bókum hins gjaldþrota félags, en slíkt sé eðli skuldaraskipta.  Kröfum sínum ætti því stefnandi að beina að Kveikjum hf., þar sem það félag hafi fengið verðmæti frá hinu gjaldþrota félagi, en ekki stefndi. 

                Stefndi byggir og á því, að skilyrði 134. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, séu ekki fyrir hendi.

                Skilyrði 134. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, um að rifta megi greiðslum sé ekki uppfyllt, þar sem skuld hins gjaldþrota félags við stefnda hafi ekki verið greidd með umræddum samningi.  Um hafi verið að ræða skuldaraskipti, og eigi slík tilvik ekki undir 134. gr. laganna.  Þá hafi umrædd viðskipti verið sjálfstæð, þar sem tilgangurinn hafi ekki verið sá að greiða skuld heldur að selja úr félaginu rekstur, sem verið hafi hinu gjaldþrota fyrirtæki kostnaðarsamur.  Hluti kaupverðsins hafi verið greiddur með yfirtöku skuldarinnar, og hafi stefndi ekki komið að þeim viðskiptum að öðru leyti en með því að samþykkja skuldskeytinguna í verki. 

                Verði talið, að skilyrði 134. gr. um greiðslu sé uppfyllt, byggir stefndi á því, að skilyrði greinarinnar, um að greitt sé með óvenjulegum greiðslueyri, sé ekki uppfyllt.  Umræddur samningur hafi verið liður í endurskipulagningu félagsins, sem hafi miðað að því að gera starfsemi þess arðvænlegri og hafi á allan hátt verið í samræmi við eðlilega viðskiptahætti.  Þá sé fráleitt að telja, að umræddur gerningur hafi skert greiðslugetu hins gjaldþrota félags, þar sem félagið hafi á sama tíma losnað við taprekstur og við að greiða 56.000.000 króna, auk þess að fá fjármuni inn í félagið.  Augljóst sé, að slíkt skerði ekki greiðslugetu félagsins, nema síður sé.

                Stefndi telur skilyrði 141. gr. ekki vera fyrir hendi, þar sem umræddar ráðstafanir geti ekki talist ótilhlýðilegar í skilningi ákvæðisins.  Félagið hafi ekki verið ógjaldfært, þegar ráðstöfunin hafi átt sér stað, eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar, sbr. rekstraráætlun, sem gerð hafi verið í tengslum við kaup Gunnars Steins Pálssonar á öllu hlutafé Klakka hf. í hinu gjaldþrota félagi, sem geri ráð fyrir því, að félagið myndi byrja að skila hagnaði í mars 2001.

                Stefndi kveðst hvorki hafa vitað né mátt vita af ógjaldfærni félagsins og þeim aðstæðum, sem leitt hafi til þess, að ráðstafanirnar voru ótilhlýðilegar.  Glöggt megi sjá af fyrrgreindri rekstraráætlun, að forráðamenn hins gjaldþrota félags hafi talið félagið gjaldfært, bæði við gerð þessara ráðstafana og eftir þær.  Stjórnarformaður félagsins hafi keypt 75% hlutafjár í félaginu á 180.000.000 króna, á sama tíma og stefnandi haldi því fram, að félagið hafi verið ógjaldfært og stefnda átt að vera það ljóst.  Hafi stjórnarmenn á þessum tíma talið, að félagið ætti framtíð fyrir sér.

                Kröfu sína um sýknu af fjárkröfum byggir stefndi á því, að ekki sé hægt að krefja um endurgreiðslu á grundvelli 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, í ríkari mæli en greiðslan hafi orðið riftunarþola að notum.  Framsal kröfunnar til Kveikja hf. hafi ekki leitt til greiðslu til stefnda, og nú hafi hlutafélagið Kveikir verið tekið til gjaldþrotaskipta og ljóst, að stefndi fái ekki greidda kröfuna úr búinu.

                Stefndi hafnar því og, að skilyrði skaðabótakröfu á grundvelli 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, sé fyrir hendi, þar sem skilyrði 141. gr. um saknæma háttstemi stefnda, séu ekki fyrir hendi.  Einnig byggir stefndi á því, að stefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna umdeildra ráðstafana.  Með þessum ráðstöfunum hafi taprekstur verið seldur út úr félaginu fyrir 106.000.000 króna, og hefði stefnandi verið enn verr settur án þeirra.  Tjón stefnanda sé algerlega ósannað og útreikningur tjóns hans algerlega ófullnægjandi.

                Um lagarök vísar stefndi til 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og 134. gr., 141. gr. og 142. gr. laga nr.21/1991, um gjaldþrotaskipti.

                Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

                Eins og að framan hefur verið rakið varð fyrirtækið Mekkano ehf. til við samruna tveggja fyrirtækja, annars vegar GSP-almannatengsla ehf., sem var í eigu Gunnars Steins Pálssonar, og hins vegar Gæðamiðlunar ehf., sem var í eigu stefnda.  Var hlutur GSP í Mekkano ehf. metinn sem 25% og hlutur Gæðamiðlunar ehf. 75%.  Samrunaáætlunin er dagsett 21. september 2000, en var staðfest á hluthafafundi í desember árið 2000.  Samkvæmt samþykktum félagsins var tilgangur þess framleiðsla og sala hugbúnaðar fyrir tölvur, þjónusta á sviði almannatengsla, rekstur fasteigna og lánaviðskipti.  Félagið var úrskurðað gjaldþrota 11. júní 2001, og samkvæmt þeim úrskurði var félagið rekið með 105 milljóna króna tapi á árinu 2000, og reiknað var með 75 milljóna tapi fyrstu fimm mánuði ársins 2001.  Félagið átti litlar sem engar eignir, en fastafjármunir félagsins voru metnir á u.þ.b. 45.000.0000 króna hinn 25. maí 2001.  Er gjaldþrotaúrskurðurinn var kveðinn upp kom fram, að flest tæki, áhöld og tölvur, sem eignfærðar höfðu verið, voru ekki lengur í fórum félagsins, þar sem þau hefðu verið á einhvers konar rekstrarleigusamningum, og þeim verið skilað eigendum.   

                Við aðalmeðferð málsins gaf Valgeir Baldursson, ráðgjafi hjá KPMG, skýrslu, en hann var framkvæmdastjóri GSP- gæðamiðlunar ehf. á árinu 2000.  Bar hann, að í desember árið 2000 hafi verið ljóst, að fjárhagsstaða Mekkanos ehf. væri mjög slæm, en ekki hafi verið vitað, á þeim tíma, hve slæm staðan var.  Þörf hafi því verið á að afla fjár til rekstursins.  Hafi orðið úr, að Gunnar Steinn Pálsson og stefndi lánuðu fyrirtækinu fé.  Samkvæmt gögnum málsins greiddi stefndi inn á reikning félagsins 56.000.000 króna hinn 18. desember 2000.  Skömmu síðar, eða hinn 29. desember 2000, var undirritaður kaupsamningur milli félaganna Mekkanos ehf. og Kveikja hf., þar sem vefráðgjafa- og netlausnardeild Mekkanos ehf., sem í raun var sú starfsemi fyrirtækisins, sem Gæðamiðlun ehf. hafði fengist við, var seld hlutafélaginu Kveikjum.  Kaupverð var ákveðið 106.000.000 króna.  Samningur þessi var undirritaður f.h. kaupanda af Olgeiri Kristjónssyni, Sigurði Grendal Magnússyni og Gunnari Steini Pálssyni. Sama dag var undirritaður kaupsamningur milli Klakka ehf., annars eigenda Mekkanos ehf., og Gunnars Steins Pálssonar, um kaup þess síðarnefnda á hlut Klakka ehf. í Mekkano. Kaupverð samkvæmt samningnum var 180.000.000 króna.  Samkvæmt framburði Valgeirs Baldurssonar, tóku Kveikir ehf. við netlausnadeildinni í janúar árið 2001.

                Stefnandi byggir kröfur sínar aðallega á 134. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti.  Samkvæmt þeirri grein má rifta greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag, ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð, sem hefur skert greiðslugetu þrotamanns verulega, nema greiðslan hafi virst eðlileg eftir atvikum.  Til vara byggir stefnandi kröfu sína á 141. gr. sömu laga, en samkvæmt þeirri grein má krefjast riftunar á ráðstöfunum, sem á ótilhlýðilegan hátt eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiða til þess, að eignir þrotamannsins verða ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiða til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn er ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður, sem leiddu til þess, að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg.

                Óumdeilt er, að stefndi greiddi inn á reikning Mekkanos ehf. 56.000.000 króna hinn 18. desember 2000, og var um að ræða lán til fyrirtækisins.  Þá liggur fyrir, að ekki var samið um greiðslufyrirkomulag á því láni eða gjalddaga þess.  Stefnandi byggir á því, að með fyrrgreindum kaupsamningi um hluta eigna hins gjaldþrota félags og yfirtöku kaupanda á greiðsluskyldu lánsins hafi Mekkano ehf. greitt stefnda tilgreint lán, enda hafi það verið fært úr reikningum félagsins.  Eignirnar hafi því í raun verið notaðar til greiðslu tilgreindrar skuldar Mekkanos ehf. við stefnda, en eigna- og stjórnunartengsl séu á milli kaupanda, Kveikja hf., og stefnda. 

                Eins og áður greinir, var frestdagur 7. júní 2001.  Fyrrgreindur samningur er dagsettur 29. desember 2000, og er því innan sex mánaða frests 134. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti.  Kemur þá til athugunar, hvort um greiðslu á skuld við stefnda hafi verið að ræða.  Þó svo að stjórnunar- og eignatengsl séu milli stefnda og kaupanda umræddra eigna, Mekkanos ehf., þá varð stefndi ekki eigandi þeirra eigna, sem seldar voru.  Verður því ekki séð, að stefndi hafi fengið verðmæti frá Mekkano ehf.  Liggur fyrir, að með þeim gerningi urðu einungis skuldaraskipti á umdeildu láni.    Þá liggur og fyrir, að stefndi hefur ekki enn fengið lán þetta greitt, þar sem hlutafélagið Kveikir  hefur verið úrskurðað gjaldþrota, og samkvæmt yfirlýsingu skiptastjóra í búinu, mun krafan ekki fást greidd af eigum þess.  Þó svo að fyrrgreindur kaupsamningur Mekkanos ehf. og dótturfélags stefnda, Kveikja ehf., hefði verið ætlaður til þess að tryggja greiðslu á skuld Mekkanos ehf. við stefnda, tókst sú fyrirætlan ekki, þar sem stefndi fékk ekki greitt lán sitt með þeim gerningi.  Á hinn bóginn lækkuðu skuldir Mekkanós með þessari ráðstöfun, sem nam upphæð lánsins til hagsbóta öðrum kröfuhöfum. Eignir þær, sem seldar voru, urðu ekki eign stefnda, og verður því ekki séð, að stefndi hafi á nokkurn hátt hagnast á þessum viðskiptum á kostnað annarra kröfuhafa.  Þegar framangreint er virt, verður að telja, að stefnandi eigi ekki kröfu á hendur stefnda vegna umdeildra viðskipta á grundvelli gjaldþrotalaga, og ber því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.    

                Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að dæma stefnanda til þess að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.

                Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

                Stefndi, EJS hf., er sýkn af kröfum stefnanda,  Þrotabús Mekkanos ehf.

                Stefnandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað.