Hæstiréttur íslands
Mál nr. 205/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. mars 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2017, þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 24. sama mánaðar um að varnaraðili skuli sæta nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að nálgunarbanninu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila, Bjarna Hólmars Einarssonar héraðsdómslögmanns, fyrir Hæstarétti, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2017.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra frá 24. mars 2017 þess efnis að varnaraðili, X, kt. [...], sæti nálgunarbanni samkvæmt a. og b. lið 4. gr. laga nr. 85/2011, um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í 6 mánuði þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili brotaþola, A, kt. [...], að [...] á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið. Jafnframt er lagt bann við því að varnaraðili veiti brotaþola eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti.
Krafan barst dóminum 27. mars sl. og var hún tekin fyrir á dómþingi fyrr í dag. Varnaraðili hefur mótmælt kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað. Af hálfu brotaþola er þess krafist að ákvörðunin verði staðfest. Af hálfu verjanda varnaraðila og réttargæslumanns brotaþola er krafist þóknunar úr ríkissjóði.
Í greinargerð aðstoðarsaksóknara kemur fram að lögregla hafi verið kölluð að [...] í [...] aðfararnótt þriðjudagsins 4. október 2016 þar sem óskað var aðstoðar lögreglu eftir að eiginmaður brotaþola, varnaraðili í þessu máli, hafi ráðist á hana og hent henni út úr íbúð þeirra. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi brotaþoli verið á bifreiðastæði framan við heimili sitt íklædd nærbuxum, bol og flíspeysu í rigningu og roki. Hún hafi verið með greinilega áverka á andliti og skurð á höfði og þá hafi hún verið blóðug og bólgin og með skurð á höfði. Brotaþoli hafi upplýst að varnaraðili og börn þeirra tvö, [...], væru inni í íbúðinni. Lögregla hafi barið að dyrum en engin svör fengið og því farið inn um glugga. Varnaraðili hafi fundist í hjónarúmi með skerta meðvitund, líklega vegna neyslu lyfja.
Í skýrslu lögreglu kemur fram að brotaþoli hafi lýst því á vettvangi að varnaraðili hefði ráðist á hana með miklum ofsa, slegið hana þungum höggum í andlit og höfuð, auk þess sem hann hafi slegið hana með glerflösku hægramegin fyrir ofan gagnaugað og kýlt hana þungu höggi í nefið. Loks hafi brotaþoli lýst því að varnaraðili hefði tekið hana kverkataki og hert að þannig að hún hafi óttast um líf sitt og hefði þurft að hafa sig alla við til að losna. Árásin hefði staðið yfir í þó nokkurn tíma en varnaraðili hefði síðan að endingu hent brotaþola út. Brotaþoli hafi verið flutt á slysadeild þar sem hún hafi verið lögð inn og áverkar hennar metnir.
Í greinargerð er getið mynda, sem lögregla hafi tekið á vettvangi, þar sem sjá megi greinilega áverka á brotaþola, auk þess sem áverkarnir séu tilgreindir í áverkavottorði, þ.e. opið sár á hlutum höfuðs, mar á hlutum úlnliðs og handar, mar á framarmi, mar á öxl og upphandlegg, yfirborðsáverkar á ótilgreindum hlutum brjóstkassa, mar á augnloki og augnsvæði, mar og yfirborðsáverkar á hálsi og yfirborðsáverki á nefi. Málið sé nú til meðferðar hjá embætti Héraðssaksóknara.
Brotaþoli hafi einnig lýst því fyrir lögreglu að u.þ.b. viku áður hefði varnaraðili ráðist á hana og tekið hana hálstaki og hert að svo að hún hafi fengið köfnunartilfinningu og átt erfitt með að anda. Í skýrslu, sem tekin hafi verið af brotaþola þann 1. nóvember sl., komi einnig fram að í þetta skipti hafi varnaraðili einnig lamið hana með pottum víðsvegar um líkamann. Þá hafi hún lýst því að varnaraðili hefði ráðist á sig í fleiri skipti, án aðkomu lögreglu, en að ofbeldið hefði stigmagnast síðustu daga. Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi varnaraðili játað að hafa beitt brotaþola líkamlegu ofbeldi og að það hefði byrjað fyrir einhverjum árum síðan og að komið hafi fyrir að það hefði séð á brotaþola vegna þess.
Í lögregluskýrslu frá 1. nóvember 2016 komi fram að brotaþoli segist hrædd við varnaraðila að hún treysti honum ekki en telji hann óútreiknanlegan.
Í kjölfar framangreinds hafi varnaraðili sætt nálgunarbanni og brottvísun af heimili í fjórar vikur frá 4. október 2016 og hafi sú ákvörðun verið staðfest af Héraðsdómi Reykjavíkur með úrskurði í máli nr. R-[...]/2016. Þann 31. sama mánaðar hafi verið tekin ákvörðun um að framlengja bæði nálgunarbann og brottvísun af heimili um fjórar vikur til viðbótar. Sú ákvörðun hafi verið staðfest af Héraðsdómi Reykjavíkur með úrskurði dómsins í máli nr. R-[...]/2016. Krafa lögreglustjóra um nálgunarbann og brottvísun af heimili hafi í bæði skiptin verið samþykkt af varnaraðila.
Þann 2. desember 2016 hafi brotaþoli lagt fram ítrekaða beiðni um að varnaraðila yrði gert að sæta nálgunarbanni en þeirri beiðni hafi verið synjað á þeim forsendum að hann hefði ekki reynt að nálgast brotaþola eða hafa samband við hana frá því að ákvörðun um áframhaldandi nálgunarbann og brottvísun hefði verið tekin þann 31. október. Auk þess hefðu legið fyrir upplýsingar frá verjanda og réttargæslumanni um að aðilar ynnu að hjúskaparslitum og því hafi ekki verið talið nauðsynlegt að beita svo íþyngjandi úrræði sem nálgunarbanni áfram að svo komnu máli.
Þann 5. janúar sl. hafi lögreglu borist tilkynning þess efnis að varnaraðili hefði reynt að brjóta sér leið inn í íbúðina að [...] en hann hafi verið farinn út þegar lögreglu hafi borið að garði. Þá hafi borist tilkynning um að hann hefði hótað því að koma þangað aftur. Hann hefði komið aftur að heimilinu og tekið bílnúmeraplötur af bifreið sem brotaþoli hefði haft til umráða. Varnaraðili hafi verið ósáttur eftir að honum hefðu verið birtir skilnaðarpappírar sem hann hafi neitað að skrifa undir.
Þann 6. janúar sl. hafi brotaþoli komið á lögreglustöð ásamt réttargæslumanni sínum og lagt fram kæru á hendur varnaraðila vegna hótana og brota á friðhelgi einkalífs (mál 007-2017-[...]). Hafi brotaþoli lýst því að eftir atvikið í október (mál 007-2016-[...]) og jafnframt eftir að nálgunarbannið hefði runnið út hefði varnaraðili stanslaust sent henni tölvupósta og hringt í hana. Hún hafi fengið yfir 70 tölvupósta frá varnaraðila sem innihaldi m.a. óbeinar hótanir og eftir að honum hafi verið birtir skilnaðarpappírar, hafi hótanirnar stigmagnast. Tölvupóstar þessir liggi fyrir í gögnum lögreglu. Skýrsla hafi verið tekin af varnaraðila 9. janúar sl. þar sem hann hafi játað að hafa sent umrædda tölvupósta.
Brotaþoli hafi lýst því fyrir lögreglu að henni liði illa, hún væri hrædd og upplifði sig ekki örugga á eigin heimili, auk þess sem börn þeirra séu mjög hrædd við pabba sinn og vilji ekki hitta hann að svo stöddu. Í kjölfarið hafi varnaraðili aftur sætt nálgunarbanni og brottvísun af heimili í fjórar vikur frá 6. janúar sl. samkvæmt ákvörðun lögreglustjóra sem staðfest hafi verið með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-[...]/2017.
Fimmtudaginn 23. mars 2017 hafi brotaþoli komið á lögreglustöð og óskað eftir nálgunarbanni (mál nr. 007-2017-[...]). Hún hafi lýst því að hún yrði fyrir miklu áreiti frá varnaraðila sem hefði tvisvar á síðasta sólarhring komið að heimili hennar að [...]. Þá hafi hún lagt fram tölvupósta þar sem varnaraðili segi m.a. að hann ætli að snúa aftur heim, auk þess sem þar komi fram að hann hafi tekið bílnúmer af bifreið, sem brotaþoli hafi til umráða, en síðar skilað þeim aftur.
Í ljósi ofangreinds telur lögreglustjóri að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt en varnaraðili liggi annars vegar undir sterkum grun um að hafa beitt brotaþola alvarlegu ofbeldi og hins vegar að hafa valdið henni ítrekuðu ónæði og vanlíðan með samskiptum sínum við hana. Með hliðsjón af fyrri sögu sé það mat lögreglu að hætta sé á því að varnaraðili muni áfram valda brotaþola ónæði verði hann látinn afskiptalaus. Ekki sé talið sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti, eins og sakir standi.
Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna sé það mat lögreglustjóra að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011, um nálgunarbann og brottvísun af heimili, séu uppfyllt og ítrekað að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.
Niðurstaða:
Fyrir dóminn hafa verið lögð afrit rannsóknargagna vegna þeirra atvika sem mál þetta lýtur að og urðu tilefni ákvörðunar Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um framangreint nálgunarbann. Að því virtu sem fram kemur í greinargerð lögreglustjóra og gögnum málsins er á það fallist að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa raskað friði brotaþola og ítrekað ónáðað hana með því að koma á heimili hennar og barna þeirra og með öðrum hætti. Þegar litið er til fyrri háttsemi varnaraðila og þess að hann hefur ekki látið segjast, þrátt fyrir að ítrekað hafi verið lagt á hann nálgunarbann á fyrri stigum, að uppfyllt séu skilyrði a- og b-liðar 4. gr. laga nr. 85/2011, um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Þá eru skilyrði 1. mgr. 6. gr. laganna uppfyllt, enda þykir sýnt fram á að ráðstafanir þessar séu nauðsynlegar til að tryggja hagsmuni brotaþola þar sem ekki þykir sennilegt, með vísan til alls framangreinds, að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti. Mat dómsins byggir jafnframt á 2. mgr. 6. gr. laganna.
Sækjandi hefur upplýst að í ákvörðun um nálgunarbann frá 24. mars sl. sé ranglega rakið að krafist hafi verið nálgunarbanns í fjórar vikur. Hið rétta sé að frá upphafi hafi verið krafist nálgunarbanns í sex mánuði. Að öllu framangreindu virtu verður að telja að tímalengd nálgunarbanns samkvæmt ákvörðun lögreglustjóra sé ekki úr hófi.
Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið verður ákvörðun Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 24. mars 2017 staðfest.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, 200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011. Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, 200.000 krónur, greiðist einnig úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 48. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Staðfest er ákvörðun lögreglustjóra frá 24. mars 2017 þess efnis að X, kt. [...], sæti nálgunarbanni samkvæmt a. og b. lið 4. gr. laga nr. 85/2011, um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í sex mánuði þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, kt. [...], að [...] á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti.
Þóknun verjanda varnaraðila, 200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði, sem og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, 200.000 krónur.