Hæstiréttur íslands
Mál nr. 451/2000
Lykilorð
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Örorka
|
|
Fimmtudaginn 7. júní 2001. |
|
Nr. 451/2000. |
Reykjavíkurborg og Vátryggingafélag Íslands hf. (Jakob R. Möller hrl.) gegn Þórdísi Másdóttur (Atli Gíslason hrl.) |
Líkamstjón. Skaðabætur. Örorka.
Þ vann sem sjúkraliði í hálfu starfi, en var að auki húsmóðir á fimm manna heimili þegar hún lenti í umferðarslysi og hlaut líkamstjón af. Ágreiningur reis um það, við hvaða laun skyldi miða bætur fyrir tímabundið atvinnutjón Þ vegna heimilisstarfa og hvaða laun skyldi leggja til grundvallar við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku. Hæstiréttur féllst á kröfu Þ um að henni yrði bætt tímabundið atvinnutjón vegna heimilisstarfa með sömu fjárhæð og hún fékk samtals í mánaðarlaun í hálfu starfi sem sjúkraliði þann tíma sem hún var óvinnufær með öllu, enda væri þeirri kröfu svo í hóf stillt að hún yrði ekki skert. Jafnframt var fallist á kröfu hennar um bætur fyrir varanlega örorku. Tók sú fjárhæð mið af 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, eins og ákvæðið hljóðaði þá. Var talið, að bótagreiðendum hefði ekki tekist að sýna fram á, að Þ hefði ekki getað tvöfaldað tekjur sínar með því að vinna fulla vinnu sem sjúkraliði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 13. desember 2000. Þeir krefjast sýknu af kröfu stefndu gegn greiðslu á 3.008.529 krónum með 2% ársvöxtum frá 29. september 1997 til greiðsludags, svo og gegn greiðslu kostnaðar stefndu af innheimtuþóknun lögmanns hennar miðað við framangreindan höfuðstól 30. desember 1999. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms. Til vara er þess krafist, að áfrýjendum verði gert að greiða henni aðra lægri fjárhæð að mati Hæstaréttar en samkvæmt dómsorði héraðsdóms með sömu vöxtum og þar greinir. Þá er krafist málskostnaðar fyrir Hæstarétti, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
I.
Eins og nánar greinir í héraðsdómi lenti stefnda í umferðarslysi 29. september 1997 og hlaut af nokkur lemstur. Í örorkumati læknanna Jónasar Hallgrímssonar og Ragnars Jónssonar 1. nóvember 1999 var tímabundið atvinnutjón hennar vegna slyssins metið 100% í fjóra mánuði, hún var talin veik án rúmlegu í sex mánuði, varanlegur miski hennar var metinn 8% og varanleg örorka 15%. Hvorki er ágreiningur um þetta mat né fébótaábyrgð áfrýjenda samkvæmt XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987. Fyrir Hæstarétti deila málsaðilar eingöngu um það, við hvaða laun skuli miða bætur fyrir tímabundið atvinnutjón stefndu vegna heimilisstarfa og hvaða laun skuli leggja til grundvallar við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku. Í héraðsdómi er gerð grein fyrir málsástæðum aðila um þetta.
II.
Í gögnum málsins kemur fram, að stefnda vann sem sjúkraliði í hálfu starfi en var að auki húsmóðir á fimm manna heimili. Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skal verðmæti vinnu við heimilisstörf lagt að jöfnu við launatekjur, bæði við ákvörðun bóta fyrir tímabundið atvinnutjón og varanlega örorku, sbr. 2. gr., 2. mgr. 7. gr. og 8. gr. laganna. Hefur þeirri skipan því verið komið á með lögum, að sá, sem gegnir ekki launuðu starfi eða einungis hlutastarfi utan heimilis, teljist verða fyrir fjártjóni vegna þess eins, að hann fari vegna líkamstjóns á mis við að geta sinnt heimilisstörfum að hluta eða öllu leyti. Fjárhæð bóta vegna slíks tjóns á samkvæmt 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga að miðast við verðmæti vinnu við heimilisstörf. Ágreiningur málsaðila lýtur að því, hvernig þetta verðmæti skuli fundið. Engra gagna eða samanburðarhæfra talna nýtur í málinu um það, hvaða launaviðmiðun gæti almennt verið réttlætanleg vegna heimilisstarfa. Hvað sem þessu líður verður þó að líta svo á, að kröfu stefndu sé svo í hóf stillt, að hún verði ekki skert. Ber því þegar að fallast á, að áfrýjendur bæti stefndu tímabundið atvinnutjón hennar vegna heimilisstarfa með 327.495 krónum eða sömu fjárhæð og hún fékk samtals í mánaðarlaun í hálfu starfi þá fjóra mánuði, sem hún var óvinnufær með öllu.
III.
Þar sem stefnda var í hálfu starfi fyrir slysdag ber að ákvarða bætur henni til handa vegna varanlegrar örorku á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, eins og hún var fyrir gildistöku laga nr. 37/1999, en ekki 1. mgr. 7. gr. eða 8. gr. laganna. Samkvæmt því ákvæði skulu árslaun tjónþola til viðmiðunar við ákvörðun bóta metin sérstaklega, en ekki er ráð fyrir því gert, að í slíkum tilvikum verði heildaratvinnutekjur tjónþola á næstliðnu ári fyrir slysdag lagðar til grundvallar, eins og kveðið er á um í 1. mgr. 7. gr. Með hliðsjón af athugasemdum með frumvarpi til skaðabótalaga um 2. mgr. 7. gr. skal ákveða árslaunin, eins og þau hefðu orðið, ef tjónþoli hefði verið í fullu launuðu starfi utan heimilis, sbr. 3. mgr. 1. gr. laganna. Eins og áður greinir var stefnda sjúkraliði í hálfu starfi fyrir slysdag og er fram komið, að hún hafi einkum unnið á kvöldvöktum. Þar sem 2. mgr. 7. gr. felur í sér undantekningu frá meginreglu 1. mgr. sömu greinar um viðmiðun við heildaratvinnutekjur tjónþola á næstliðnu ári fyrir slysdag, þegar árslaun eru metin, ber áfrýjendum sem bótagreiðendum að sýna fram á, að stefnda hefði ekki getað tvöfaldað atvinnutekjur sínar með því að vinna fulla vinnu sem sjúkraliði og þá eftir atvikum á afbrigðilegum vinnutíma. Verður því fallist á kröfu stefndu um 2.817.268 krónur sem bætur vegna varanlegrar örorku. Þá verður jafnframt að miða við 146.610 krónur í þjáningabætur og 372.160 krónur vegna varanlegs miska, eins og stefnda krefst.
IV.
Samkvæmt framansögðu verða áfrýjendur dæmdir til að greiða stefndu 3.663.533 krónur með 2% ársvöxtum frá slysdegi til 30. desember 1999, sbr. 16. gr. skaðabótalaga, eins og hún var fyrir gildistöku laga nr. 37/1999. Telja verður, að 30. nóvember 1999 hafi áfrýjandi Vátryggingafélag Íslands hf. fengið í hendur gögn, er nægðu til að taka afstöðu til kröfu stefndu og greiða að minnsta kosti þá fjárhæð, sem félagið taldi sér skylt að inna af hendi. Verður hin dæmda fjárhæð látin bera dráttarvexti frá 30. desember 1999 í samræmi við 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987.
Áfrýjendur greiði stefndu sameiginlega 500.000 krónur í málskostnað í héraði. Fyrir Hæstarétti ber áfrýjendum að greiða 400.000 krónur í málskostnað og rennur sú fjárhæð í ríkissjóð, en um gjafsóknarkostnað hér fyrir dómi mælir í dómsorði. Við ákvörðun um málskostnað hefur meðal annars verið litið til þess, að áfrýjendur hafa ekki fært fram viðhlítandi skýringar á því, hvers vegna áfrýjandi Vátryggingafélag Íslands hf. varð ekki við margendurteknum óskum stefndu um greiðslu, er hún myndi taka við með fyrirvara, svo sem félaginu var þó skylt samkvæmt 24. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga.
Dómsorð:
Áfrýjendur, Reykjavíkurborg og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði in solidum stefndu, Þórdísi Másdóttur, 3.663.533 krónur með 2% ársvöxtum frá 29. september 1997 til 30. desember 1999 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.
Áfrýjendur greiði stefndu sameiginlega 500.000 krónur í málskostnað í héraði. Þá greiði áfrýjendur sameiginlega 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti og rennur sú fjárhæð í ríkissjóð. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 400.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. október 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var 8. september s.l., er höfðað með stefnu birtri 15. febrúar s.l.
Stefnandi er Þórdís Másdóttir, kt. 300758-4879, Kóngsbakka 6, Reykjavík.
Stefndu eru Borgarstjórinn í Reykjavík fyrir hönd Vélamiðstöðvar Reykjavíkurborgar, kt. 690269-5549 og Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð kr. 3.663.533 með 2% ársvöxtum og vaxtavöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá 29. september 1997 til 1. maí 1999, en frá þeim degi með 4,5% ársvöxtum og vaxtavöxtum samkvæmt 12. gr. laga nr. 37/1999 til 30. desember 1999, en frá þeim degi með dráttarvöxtum og vaxtavöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags. Til vara er krafist annarrar lægri fjárhæðar að mati dómsins með sömu vöxtum og í aðalkröfu. Þá er þess krafist að stefndu verði dæmdir til greiðslu málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts samkvæmt reikningi.
Dómkröfur stefndu eru þær að þeir verði sýknaðir gegn greiðslu á kr. 3.008.529 með 2% vöxtum á ári samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga eins og hún var á slysdegi frá 29. september 1997 til greiðsludags, svo og gegn greiðslu kostnaðar stefnanda af innheimtuþóknun lögmanns stefnanda miðað við ofangreindan höfuðstól 30. desember 1999, auk virðisaukaskatts af innheimtuþóknun. Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Málavextir.
Málavextir eru þeir að mánudaginn 29. september 1997 var stefnandi á ferð á Reykjanesbraut nærri Sæbraut í Reykjavík í bifreið sinni G-25776. Mun hafa verið unnið að viðhaldi Reykjanesbrautar og hluti eystri akreinar lokaður fyrir umferð. Mun vörubifreiðinni R-27998, eign stefnda Vélamiðstöðvar Reykjavíkurborgar, hafa verið ekið aftan á bifreið stefnanda og mun bifreið hennar hafa kastast á sendibifreiðina ZU-746. Stefnandi var þá þunguð og mun hafa verið gengin 18 vikur. Stefnandi hlaut áverka á háls, herðar og mjóbak með leiðni niður í vinstri fót. Þá mun hún hafa þjáðst af höfuðverk í kjölfar slyssins.
Með sameiginlegri matsbeiðni aðila dagsettri 15. september 1999 var óskað eftir mati læknanna Jónasar Hallgrímssonar og Ragnars Jónssonar á afleiðingum slyssins. Örorkumat þeirra er dagsett 1. nóvember 1999 og var niðurstaða þeirra sú að tímabundið atvinnutjón stefnanda var metið 100% í fjóra mánuði, hún var talin veik án rúmlegu í sex mánuði, varanlegur miski hennar var metinn 8% og varanleg örorka 15%. Aðila greinir ekki á um þetta mat læknanna.
Með bréfi dagsettu 30. nóvember s.l. sendi stefnandi stefndu kröfugerð sína og óskaði eftir uppgjöri fyrir 15. desember s.l. Stefnanda barst tilboð frá stefndu 27. desember s.l. og 6. janúar s.l. gerði stefnandi athugasemdir við tilboðið og benti m.a. á að ekki væri gert ráð fyrir bótum fyrir tímabundið tekjutjón vegna heimilisstarfa og þá mótmælti stefnandi tekjuviðmiðun stefndu vegna útreiknings á bótum fyrir varanlega örorku, en stefnandi hafði í kröfugerð sinni miðað við laun sín síðustu tólf mánuði fyrir slys en stefndu miðuðu við meðallaun sjúkraliða. Gerði stefnandi kröfu um leiðréttingu en ella um uppgjör á grundvelli tilboðs stefndu, mótteknu með fyrirvara stefnanda um forsendur tilboðsins og alla uppgjörsliði. Stefnanda bárust samdægurs athugasemdir stefndu og var þeim jafnframt svarað samdægurs. Stefnanda barst síðan nýtt tilboð frá stefndu 13. janúar s.l. og voru þá boðnar bætur fyrir tímabundið tekjutjón vegna heimilisstarfa að fjárhæð kr. 150.000 og jafnframt fól tilboðið í sér lítillega hækkun á bótum fyrir varanlega örorku. Í niðurlagi tilboðsins segir að hugmynd þessi um lokauppgjör tjónsins sé sett fram af hálfu félagsins með fyrirvara um öll þau atriði sem hún byggir á, ef ekki næst samkomulag um fyrirvaralaust uppgjör. Stefnandi lagði til í símbréfi daginn eftir að sæst yrði á að tímabundið tekjutjón vegna heimilisstarfa verði miðað við helming af meðaltals mánaðarlaunum, sem stefndu miðuðu bætur vegna varanlegrar örorku við. Þá var lagt til að viðmiðunarlaun vegna bóta fyrir varanlega örorku miðuðust að hálfu við þessi meðaltalslaun og að hálfu við rauntekjur stefnanda síðustu 12 mánuði fyrir slysið. Þá var tekið fram að stefnandi óskaði eftir uppgjöri á grundvelli tilboðs stefndu, mótteknu með fyrirvara, yrði ekki fallist á sáttatillögurnar. Sættir náðust ekki milli aðila.
Málsástæður og lagarök.
Stefnandi byggir á því að við ákvörðun bóta fyrir tímabundið tekjutjón vegna heimilisstarfa beri að miða við launatekjur hennar utan heimilis, en þær hafi verið staðfestar með launaseðlum. Samkvæmt 3.mgr. 1. gr. skaðabótalaga beri að mati stefnanda að leggja verðmæti vinnu við heimilisstörf að jöfnu við launatekjur. Mat stefnanda á verðmæti heimilisstarfa sé andstætt þessu lagaákvæði og fráleitt þegar horft sé til þess að stefnandi hafi á umræddu tímabili verið húsmóðir á fimm manna heimili. Mánaðarlaun stefnanda í hálfu starfi utan heimilis í slysaforföllum tímabilið 29. september 1997 til 29. janúar 1998 hafi numið kr. 327.495, eða kr. 81.873 að meðaltali á mánuði. Beri að leggja verðmæti heimilisstarfa að jöfnu við þau mánaðarlaun. Hafi skaðabótalögunum beinlínis verið ætlað að bæta réttarstöðu heimavinnandi húsmæðra eins og ráða megi af ummælum í frumvarpi að lögunum. Byggir stefnandi á því að afstaða stefndu feli í sér mismunun, einkum gagnvart konum og brjóti í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, lög um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla og alþjóðasáttmála. Hið stefnda félag mismuni tjónþolum almennt með mati á verðmæti vinnu við heimilisstörf. Þá styðjist kröfur stefnanda við þá staðreynd að stefndu viðurkenni í raun þessi sjónarmið með því að miða bætur fyrir varanlega örorku við meðallaun sjúkraliða, kr. 132.000 á mánuði.
Stefnandi byggir á 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og miðar við laun stefnanda síðustu tólf mánuði fyrir slys varðandi bætur fyrir varanlega örorku. Stefnandi segir rangt að miða við meðallaun sjúkraliða. Stefnandi hafi vegna fjölskyldustærðar kosið að vinna hálfa vinnu á vöktum. Í fullu starfi hefði stefnandi gengið sömu vaktir og í hálfu starfi en tekið helmingi fleiri. Stefnandi eigi þess ekki kost að vinna fullt starf næstu áratugi og beri að miða tekjutap hennar við fyrirliggjandi staðreyndir um tekjuöflun hennar.
Stefnandi byggir kröfur sínar á þeirri meginreglu að hún eigi með bótagreiðslu frá stefndu að verða eins sett og slysið hefði ekki orðið. Stefnandi reisir vaxtakröfur á beinum ákvæðum 16. gr. skaðabótalaga eins og þau voru á slysdegi og jafnframt eins og þeim var breytt með 12. gr. laga nr. 37/1999 með gildistöku 1. maí 1999.
Stefnandi byggir á því að synjun stefndu á að greiða bætur í samræmi við tilboð félagsins nema gegn fyrirvaralausri móttöku stefnanda sé ólögmæt. Stefndu sé beinlínis skylt að greiða stefnanda þær bætur sem hún eigi sannanlega rétt á, sbr. 24. gr. laga nr. 20/1954. Stefndu neiti að greiða bætur fyrir tjónsliði sem enginn ágreiningur sé um. Feli þessi afstaða félagsins í sér ólögmætar þvingunaraðgerðir gagnvart stefnanda og sé til þess fallin að hún geti ekki látið reyna á einstaka ágreiningsliði fyrir dómi. Að mati stefnanda feli uppgjör á grundvelli tilboðs stefndu án fyrirvara stefnanda í sér beina viðurkenningu hennar á sjónarmiðum stefndu um verðmæti vinnu við heimilisstörf og launaviðmiðun við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku og aðra ágreiningsliði og þrengi almennt rétt hennar verulega til endurupptöku samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga. Stefnandi byggir á því að kröfur stefnanda um fyrirvara séu bæði málefnalegar og brýnar, meðal annars vegna þess að dómstólar hafi ekki leyst úr ágreiningi sem lýtur að verðmæti vinnu við heimilisstörf.
Stefnandi vísar til III. kafla umferðarlaga, 1. gr., 2. gr., 3. gr., 4. gr. 5. gr. 6. gr. 7. gr. 9. gr. 11. gr. og 15. gr. skaðabótalaga og 24. gr. laga nr. 20/1954. Þá vísar stefnandi til 65. gr. stjórnarskrárinnar, laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna, einkum 1. gr., 2. gr. 3. gr. og 6. gr. og til alþjóðasamninga um mannréttindi og laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Vaxtakrafa er studd við 16. gr. skaðabótalaga, sbr. 12. gr. laga nr. 37/1999 og dráttarvaxtakrafa er reist á 10. gr., sbr. 14. gr. vaxtalaga. Stefnandi vísar um málskostnað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt er byggð á lögum nr. 50/1988.
Stefnandi sundurliðar kröfu sína þannig að krafa um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón vegna heimilisstarfa er kr. 327.495, krafa um bætur fyrir þjáningar kr. 146.610, krafa um bætur fyrir varanlegan miska kr. 372.160 og krafa um bætur fyrir varanlega örorku kr. 3.633.533.
Stefnandi upplýsti að stefndu hefðu greitt allan útlagðan kostnað að undanskildum reikningi fyrir sjúkraþjálfun kr. 7.500. Sá reikningur er hluti af málskostnaðarkröfu stefnanda.
Af hálfu stefndu er á því byggt að með þeirri greiðslu sem stefnanda standi til boða sé boðin sú fjárhæð sem stefnandi eigi rétt á samkvæmt skaðabótalögum.
Stefndu byggja á því að Hæstiréttur Íslands hafi komist að þeirri niðurstöðu að bætur vegna tímabundins atvinnutjóns samkvæmt 2. gr., sbr. 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga beri að miða við verðmæti vinnu við heimilisstörf. Telja stefndu leiða af sjálfu sér að verðmæti vinnu við heimilisstörf sé óháð þeirri vinnu sem tjónþoli sinnir utan heimilis, en þar geti verið um ýmis störf að ræða og endurgjald fyrir þau mismunandi. Það eigi ekki að hafa áhrif á verðmæti starfa sem fólk í mismunandi starfsgreinum sinnir á heimili sínu. Væri slíkt brot á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar ef sambærileg störf á heimili væru verðlögð á mismunandi hátt eftir ósambærilegum aðstæðum utan heimilis.
Stefndu byggja á því að því sé ekki mótmælt að mánaðarlegar tekjur sjúkraliða í fullu starfi hafi á árinu 1997 numið kr. 132.000. Stefndu benda á að hafa verði í huga að við ákvörðun bóta samkvæmt 7. gr. skaðabótalaga sé verið að bæta starfsorkuskerðingu en ekki tekjumissi í fortíð. Þótt heildarvinnutekjur síðasta árs séu að meginstefnu lagðar til grundvallar útreikningi sé einungis um viðmiðun að ræða. Séu hagir tjónþola þannig að hann hafi ekki nýtt starfsorku sína að fullu á viðmiðunartímabilinu verða tekjur hans ekki lagðar til grundvallar um framtíðartjón vegna starfsorkuskerðingar. Í greinargerð með frumvarpi til skaðabótalaga sé fjallað um slík álitamál. Þar segi eftirfarandi: „Hafi tjónþoli verið í hlutastarfi mundi fjárhæð árslauna einnig verða ákveðin með mati. Ef kona eða karl hefur t.d. unnið hálfan daginn utan heimilis, en að öðru leyti notað starfsorku sína til þess að sinna börnum sínum og öðrum heimilisstörfum, skal ákveða árslaun eins og þau mundu hafa orðið ef tjónþoli hefði verið í fullu launuðu starfi utan heimilis, sbr. 3. gr. 1. gr. frumvarpsins. Í öðrum tilvikum verður við matið m.a. að líta til þess hvort líklegt er að tjónþoli hefði farið í fullt starf.“ Að mati stefndu verður því að miða við árstekjur launþega í sambærilegu fullu starfi, en fram komi hjá stefnanda að hún eigi þess ekki kost að vinna fullt starf næstu áratugi. Samkvæmt framansögðu segjast stefndu bjóða stefnanda bætur samkvæmt þessum lið í samræmi við 7. gr. skaðabótalaga, eða kr. 2.337.409.
Stefndu byggja á því að samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga eins og hún var á slysdegi skyldu vextir af bótakröfu vera 2% á ári frá því tjón varð að viðbættum verðbótum samkvæmt 15. gr. laganna. Í lögum nr. 37/1999 sé tekið fram í 15. gr. að lögin eigi við um skaðabótaábyrgð vegna tjón sem rakið verði til bótaskylds atviks eftir gildistöku laganna. Sé því tilefnislaus sú krafa stefnanda að um vexti fari samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga eins og hún varð með lögum nr. 37/1999.
Stefndu byggja á því að 19. janúar 2000 hafi stefnanda staðið til boða sú fjárhæð, sem boðin var í greinargerðinni og eigi stefnandi því ekki rétt á dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð.
Stefndu reisa kröfu um málskostnað á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Forsendur og niðurstaða.
Í máli þessu er ekki deilt um bótaskyldu stefndu. Þá er ágreiningslaust að tímabundið atvinnutjón stefnanda var metið 100% í fóra mánuði, hún var talin veik án rúmlegu í sex mánuði, varanlegur miski var metinn 8% og varanleg örorka 15%. Ágreiningur aðila í máli þessu snýst í fyrsta lagi um það við hvaða laun skuli miðað þegar bætur vegna tímabundins atvinnutjóns stefnanda eru ákveðnar. Í öðru lagi er deilt um launaviðmiðun varðandi bætur fyrir varanlega örorku. Þá er ágreiningur um það hvort breyting sú, sem gerð var með lögum nr. 37/1999 á vaxtafæti 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga, eigi við um tjón stefnanda. Einnig er ágreiningur um dráttarvexti. Skilja verður greinargerð stefndu og málflutning svo að ekki sé lengur ágreiningur með aðilum um að stefnandi eigi rétt á þjáningabótum í 181 dag.
Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga skal verðmæti vinnu við heimilisstörf lagt að jöfnu við launatekjur, sbr. 2. gr., 2. mgr. 7. gr. og 8. gr. Upplýst er að stefnandi vann sem sjúkraliði í hálfu starfi áður en hún lenti í slysinu 29. september 1997 og sinnti auk þess heimilisstörfum, en samkvæmt gögnum málsins var um fimm manna fjölskyldu að ræða. Mánaðarlaun stefnanda í hálfu starfi þá fjóra mánuði sem hún var óvinnufær námu kr. 327.495 og gerir stefnandi þá kröfu að verðmæti heimilisstarfa verði lögð að jöfnu við þessi mánaðarlaun. Stefndu bjóða stefnanda hins vegar kr. 150.000 í bætur fyrir tímabundið atvinnutjón og byggja þá niðurstöðu á útreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar, tryggingafræðings, en þeir eru byggðir á launatöxtum Iðju, félags verksmiðjufólks. Í athugasemdum um 1. gr. frumvarpsins sem varð að skaðabótalögum segir svo um 3. mgr. að ákvæðið að verðmæti vinnu við heimilisstörf skuli leggja að jöfnu við launatekjur skipti máli þegar ákveða skal bætur fyrir atvinnutjón skv. 2. gr. (tímabundið atvinnutjón) eða varanlega örorku skv. 2. mgr. 7. gr. Þá er vakin á því athygli í athugasemdum um 2. gr. að nýmælið í 3. mgr. 1. gr. geti haft veruleg áhrif þegar bætur eru ákvarðaðar fyrir atvinnutjón. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna í því horfi sem hún var fyrir lagabreytinguna 1. maí 1999, skulu árslaun metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi, t.d. breytingar á tekjum eða atvinnuhögum. Í athugasemdum um þessa lagagrein er sérstaklega tekið fram að hafi tjónþoli verið í hlutastarfi myndi fjárhæð árslauna einnig verða ákveðin með mati. Hafi kona eða karl unnið hálfan daginn utan heimilis en að öðru leyti notað starfsorku sína til þess að sinna börnum sínum og öðrum heimilisstörfum, skuli ákveða árslaun eins og þau myndu hafa orðið ef tjónþoli hefði verið í fullu launuðu starfi utan heimilis, sbr. 3. mgr. 1. gr. Að mati dómsins fer ekki milli mála að ætlan löggjafans var að sömu uppgjörsreglur skyldu gilda að þessu leyti, hvort sem um tímabundið atvinnutjón eða varanlega örorku var að ræða. Þessi niðurstaða fær stoð í ummælum um 8. gr. frumvarpsins, en þar er að finna reglur um ákvörðun bóta til þeirra sem nýta vinnugetu sína þannig að þeir hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur. Kemur þar fram að reglum frumvarpsins um þetta efni sé ætlað að tryggja, eftir því sem frekast er unnt, að réttur þeirra sem vinna heimilisstörf án verulegra tekna af vinnu utan heimilis, verði almennt ekki lakari en tjónþola sem hafa launatekjur. Verður krafa stefnanda um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón því tekin til greina.
Með sömu rökum og að framan greinir ber að fallast á þá kröfu stefnanda að henni beri bætur fyrir varanlega örorku í samræmi við laun hennar síðustu tólf mánuði fyrir slysið.
Þar sem ekki er ágreiningur um bætur fyrir þjáningar og varanlegan miska, verða kröfur stefnanda að því leyti teknar til greina.
Stefnandi gerir þá kröfu að miðað verði við 2% ársvexti frá slysdegi til 1. maí 1999, en 4,5% ársvexti frá þeim degi til 30. desember 1999, sbr. 12. gr. laga nr. 37/1999, en samkvæmt þeirri lagagrein breyttist vaxtafótur 16. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt 15. gr. laga nr. 37/1999 öðluðust þau gildi 1. maí 1999 og eiga við um skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem rakið verður til bótaskylds atviks eftir gildistöku laganna. Þar sem stefnandi slasaðist fyrir gildistöku laganna fer ekki á milli mála að um skaðabótaábyrgð fer eftir lögunum í þeirri mynd er þau voru fyrir lagabreytinguna 1. maí 1999. Hið sama hlýtur að gilda um vexti af skaðabótakröfum. Er kröfu stefnanda um 4,5% ársvexti því hafnað.
Samkvæmt gögnum málsins fengu stefndu í hendur öll gögn sem máli skipta 30. nóvember s.l. og gátu stefndu þá tekið afstöðu til bótakröfu stefnanda. Stefndu halda því fram að 19. janúar s.l. hafi stefnanda staðið til boða sú fjárhæð sem boðin er í greinargerð. Gögn málsins sýna að stefnandi hafi ítrekað reynt að ganga til uppgjörs á grundvelli tilboðs stefndu með fyrirvara, síðast 27. janúar s.l., en stefndu hafi ekki ljáð máls á því. Hefur stefndu því ekki tekist að sýna fram á að stefnanda staðið umræddir fjármunir til boða eins og þeir halda fram. Ber því að fallast á dráttarvaxtakröfu stefnanda.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefndu til að greiða stefnanda in solidum kr. 500.000 í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndu, borgarstjórinn í Reykjavík fyrir hönd Vélamiðstöðvar Reykjavíkurborgar og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, Þórdísi Másdóttur, skaðabætur að fjárhæð kr. 3.663.533 með 2% ársvöxtum og vaxtavöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá 29. september 1997 til 30. desember 1999, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags og kr. 500.000 í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.