Hæstiréttur íslands

Mál nr. 728/2014


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Matsgerð
  • Ómerking héraðsdóms


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 19. mars 2015.

Nr. 728/2014.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Guðmundsson hrl.

Tryggvi Agnarsson hdl.)

(Margrét Gunnlaugsdóttir hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Matsgerð. Ómerking héraðsdóms.

Undir rekstri kynferðisbrotamáls hafði verið dómkvaddur matsmaður samkvæmt 128. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til að leggja mat á hvort ástand brotaþola hafi verið með þeim hætti að hann hefði ekki getað spornað við kynmökum við X sökum andlegrar fötlunar. Vegna ágalla við dómkvaðningu matsmanns samkvæmt 128. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og framkvæmd mats taldi Hæstiréttur ekki unnt að vefengja þá fullyrðingu X að vörn hans hafi af þeim sökum orðið áfátt. Var hinn áfrýjaði dómur ómerktur og málinu heimvísað til dómsálagningar á ný að fenginni matsgerð dómkvadds manns á andlegum högum brotaþola.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson, Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari og Garðar Gíslason fyrrverandi hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. október 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, til vara að hann verði sýknaður en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð.

A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 2.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði. Til vara krefst hann þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um einkaréttarkröfu sína.  

I

Ákærða er gefin að sök kynferðisleg áreitni og nauðgun með því að hafa föstudagskvöldið 20. júlí 2012 á heimili sínu káfað innanklæða á kynfærum A, þá 17 ára, og aðfaranótt þess 21. haft kynferðismök við A og við það notfært sér yfirburðastöðu gagnvart honum sökum aldurs- og þroskamunar og þess að hann gæti ekki spornað við verknaðinum vegna andlegrar fötlunar. Í ákæru er háttsemi ákærða heimfærð undir 199. gr. og 1. mgr. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með hinum áfrýjaða dómi var talið sannað að ákærði hefði bæði káfað innanklæða á piltinum og haft við hann kynferðismök. Var allt atferli ákærða talið hafa verið gegn vilja piltsins sem ekki hafi getað spornað við því sökum þroskahömlunar. Um síðastgreint atriði vísaði héraðsdómur til matsgerðar dr. B sálfræðings og framburðar hans fyrir dómi.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi munu bæði brotaþoli og ákærði vera samkynhneigðir. Kvað brotaþoli ákærða hafa, er hann káfaði á sér innan klæða umrætt kvöld, sagt sér að hitta sig síðar og þá myndi hann hafa við hann kynferðismök. Það gekk eftir. Á brotaþola var helst að skilja að hann hefði heimsótt ákærða þá um nóttina til að athuga hvort ákærði væri enn undir áhrifum áfengis og að óska eftir afsökunarbeiðni frá honum vegna þeirrar kynferðislegu áreitni sem ákærði hafi sýnt sér fyrr um kvöldið. Ákærði hefði sagt að hann sæi að brotaþoli væri til í tuskið, sem hann hafi ekki verið. Kvaðst brotaþoli hafa orðið ofsahræddur og ekki getað veitt ákærða viðnám, auk þess sem hann hefði ekki getað komist óhindrað út úr húsinu þar sem útidyrnar hefðu verið læstar. Af því sem fram er komið í málinu virðist sem ákærði hafi ekki haft fyrir venju að læsa útidyrunum og er brotaþoli missaga um hvort þær hafi verið læstar.

Eftir að lögreglustjórinn á Selfossi sendi ríkissaksóknara málið til ákvörðunar um ákæru endursendi ríkissaksóknari það til frekari rannsóknar með bréfi 28. ágúst 2013. Þar sagði meðal annars: „Þá telur ríkissaksóknari nauðsynlegt að upplýst verði betur um andlega hagi brotaþola og hvort ástand hans hafi verið með þeim hætti að hann hafi ekki getað spornað við kynmökum sökum andlegrar fötlunar. Samkvæmt gögnum málsins hefur hann verið greindur með væga þroskahömlun. Að mati ríkissaksóknara er rétt að lögreglustjóri beiðist þess við Héraðsdóm Suðurlands að dómkvaddur verði matsmaður til að meta þroska og heilbrigðisástand brotaþola í þágu rannsóknar á meintu kynferðisbroti og hvort ástand hans hafi verið með þeim hætti að hann gat ekki getað spornað við kynmökum sökum andlegrar fötlunar.“

Lögreglustjórinn sendi héraðsdómi 30. ágúst 2013 „beiðni um að dómkvaddur verði matsmaður til að meta þroska og heilbrigðisástand meints brotaþola í málinu samkvæmt 1. mgr. 128. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008.“ Þar sagði: „Vegna rannsóknar ofangreinds máls óskar lögregla þess að dómkvaddur verði matsmaður til að leggja mat á andlega hagi brotaþola og hvort ástand hans hafi verið með þeim hætti að hann hafi ekki getað spornað við kynmökum sökum andlegrar fötlunar.“ Lagði ákæruvaldið til að áðurnefndur B yrði dómkvaddur til verksins.

Í þinghaldi 9. september 2013 var matsbeiðnin tekin fyrir sem sérstakt mál ákæruvaldsins gegn brotaþola. Bókað var um þingsókn af hálfu ákæruvaldsins og brotaþola sem væru sammála um að afla matsgerðar og var B dómkvaddur til verksins. Var jafnframt bókað að á matsfund skyldi boða matsbeiðanda og réttargæslumann brotaþola sem matsþola.

Matsmaður skilaði matsgerð 24. október 2013 er hann nefndi „athugun sálfræðings“ þar sem sagði meðal annars: „Athugun fólst í öflun upplýsinga í viðtali við A, fyrirlagningu greindarprófs og annarra sálfræðilegra prófa, sem veita upplýsingar um greindarfarslega stöðu hans og fyrirlagningu spurningalista og mats á aðlögunarfærni.“ Getið var um gögn sem lágu fyrir matsmanni frá Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins og Barna- og unglingageðdeild Landspítalans og lýst viðtali matsmannsins við brotaþola. Þá voru tilgreindar niðurstöður prófana er brotaþoli sætti, en í niðurstöðukafla sagði svo: „Niðurstöður greindarprófunar og annarra sálfræðilegra prófana sýna greind á stigi vægrar þroskahömlunar hjá A auk marktækra frávika á sviði aðlögunar. Hann uppfyllir greiningarviðmið fyrir væga þroskahömlun eins og niðurstöður fyrri athugana hafa leitt í ljós. A á við margháttaða og alvarlega erfiðleika í hegðun og líðan að stríða, til dæmis þunglyndi sem hefur leitt til innlagna á geðdeild LSP og athyglibrest/ofvirkni. Þrátt fyrir að geðrænir erfiðleikar A hafi verið til staðar um langt skeið hafa þeir farið mjög vaxandi eftir það kynferðislega ofbeldi sem hann varð fyrir í júlí 2012. Fötlun A er því fjölþætt og alvarleg. Eins og algengt er um fólk með þroskahömlun, þá er hann áhrifagjarn og hefur ríka þörf fyrir að geðjast öðrum. Hann er því viðkvæmur fyrir þrýstingi sem hann er beittur og hefur því átt erfitt með að veita geranda viðnám. Það kynferðisbrot sem hann varð fyrir er því alvarlegt og hefur haft mjög slæmar afleiðingar fyrir A. Líklegt verður að telja að þessi áhrif verði varanleg og A muni þurfa mikla aðstoð vegna þessa á komandi árum.“ Matsmaður staðfesti matsgerðina við meðferð málsins í héraði. Aðspurður um hver væri „munurinn“ á brotaþola fyrir og eftir atvik kvaðst hann hafa velt því mikið fyrir sér, en „það var mitt hlutverk í málinu. Munurinn var einfaldlega sá að hann varð fyrir þessum atburði og líðan hans og ástand versnaði.“ Þá kom fram að matsmaður boðaði ekki til fundar eins og kveðið var á um við dómkvaðninguna. Kvaðst hann ekki geta gefið skýringu á því.

Héraðsdómur lét þá aðferð sem viðhöfð var við framkvæmd matsins ekki hafa áhrif niðurstöðu málsins, en tiltók í því sambandi að lögregla hafi verið matsbeiðandi, en brotaþoli matsþoli.

Af öðrum gögnum sérfræðinga sem fyrir liggja um hagi brotaþola verður ekki slegið föstu um hversu leiðitamur hann hafi verið sökum þroskaskerðingar. Þannig sagði til að mynda í skýrslu frá barna- og unglingageðdeild Landspítalans 14. október 2010 að brotaþoli næði ekki greiningarviðmiðunum á hegðunarröskun en væri með einkenni „s.s. leggur aðra í einelti, hótar þeim eða ógnar og líkamleg harðneskja gagnvart fólki. Væg einkenni ofkvíðaröskunar.“

II

Málatilbúnaður ákæruvaldsins er á því reistur að ákærði hafi notfært sér fötlun brotaþola til að ná fram vilja sínum gagnvart honum. Taldi það því nauðsynlegt að dómkvaddur yrði sérfróður maður samkvæmt 1. mgr. 128. gr. laga nr. 88/2008 til að meta hvort ástand brotaþola hafi verið með þeim hætti að hann hafi ekki getað spornað við kynmökum við ákærða sökum andlegrar fötlunar.   

Samkvæmt 1. mgr. 86. gr. laga nr. 88/2008 leitar lögregla í þágu rannsóknar til sérfróðra manna þegar þörf er á sérfræðilegri skoðun eða rannsókn til að upplýsa mál, svo sem læknisskoðun. Ef ástæða er til getur lögregla eða ákærandi farið fram á að dómkvaddur verði matsmaður í þessu skyni samkvæmt 128. gr. laganna. Var það gert í þessu máli. Á hinn bóginn var við fyrirtöku matsbeiðni ekki gætt að því að boða ákærða til þings samkvæmt 2. mgr. greinarinnar. Þá var ekki hugað að því að leggja fyrir matsmann að gefa ákærða kost á að gæta hagsmuna sinna við framkvæmd matsins, sbr. 5. mgr. greinarinnar. Til viðbótar þessu hélt hinn dómkvaddi maður ekki matsfund áður en hann lauk matsgerð. Loks kom fram hjá matsmanninum við skýrslugjöf fyrir dómi að hann hafi talið helsta hlutverk sitt að meta líðan brotaþola fyrir og eftir ætluð brot og er bótakrafa brotaþola einkum byggð á niðurstöðu matsmannsins um það atriði.

Við niðurstöðu um hvort brotaþoli hafi verið í stakk búinn til að veita ákærða viðnám umrætt sinn vísaði héraðsdómur til álits hins dómkvadda manns, auk þess að taka mið af því við mat á framburði ákærða og brotaþola. Vegna framangreindra ágalla við dómkvaðningu matsmanns og framkvæmd matsins verður ekki vefengd sú fullyrðing ákærða að vörn hans hafi af þeim sökum verið áfátt. Verður niðurstaða um heimfærslu háttsemi ákærða því hvorki reist á áliti matsmannsins né verður skírskotað til þess við mat á framburði fyrir dómi. Af þessum sökum verður að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til dómsálagningar á ný að fenginni matsgerð dómkvadds manns á andlegum högum brotaþola.

 Ákvörðun um sakarkostnað í héraði bíður nýs dóms í málinu. Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða og þóknun réttargæslumanns brotaþola sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Sveins Guðmundssonar hæstaréttarlögmanns, 868.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Margrétar Gunnlaugsdóttur hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.