Hæstiréttur íslands
Mál nr. 329/2000
Lykilorð
- Skuldabréf
- Sjálfskuldarábyrgð
- Endurkrafa
|
|
Fimmtudaginn 1. febrúar 2001. |
|
Nr. 329/2000. |
Anna Elísabet Bjarnadóttir(Erla S. Árnadóttir hrl.) gegn Sigurði J. Hendrikssyni (Magnús Thoroddsen hrl.) |
Skuldabréf. Sjálfskuldarábyrgð. Endurkrafa.
S hafði greitt skuldabréf vegna sjálfskuldarábyrgðar sem hann hafði gengist í fyrir aðalskuldarann, A. Í kjölfarið höfðaði S mál á hendur aðalskuldaranum og R, sem auk hans hafði gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir þeirri skuld sem málið varðaði. Ekki var fallist á málsástæður A um að hafna bæri kröfum S vegna þess að hún hefði ekki í raun tekið lán það er skuldabréfið varðaði eða að víkja bæri kröfu S á hendur A til hliðar með vísan til 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að A bæri að greiða S þá fjárhæð sem hann hafði þurft að inna af hendi vegna sjálfskuldarábyrgðar sinnar á skuldabréfinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir og Haraldur Henrysson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. ágúst 2000 og krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að hún verði dæmd til að greiða stefnda lægri fjárhæð en héraðsdómur kveður á um og í því tilviki er krafist niðurfellingar málskostnaðar á báðum dómstigum.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Stefndi hagaði málatilbúnaði sínum í héraði svo að hann gerði kröfu um að áfrýjanda sem aðalskuldara og Rannveigu Jónsdóttur, sem auk hans hafði gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuld þeirri er málið varðar, yrði in solidum gert að greiða tilgreindar fjárkröfur. Krafðist hann 1.016.242 króna úr hendi áfrýjanda, en það var höfuðstóll þeirrar kröfu sem hann þurfti að greiða vegna ábyrgðar sinnar fyrir hana, og 508.121 króna úr hendi Rannveigar Jónsdóttur, auk tilgreindra dráttarvaxta og málskostnaðar. Með dómi héraðsdóms var áfrýjandi dæmd til greiðslu þeirrar fjárhæðar, sem krafist var, með tilgreindum dráttarvöxtum og Rannveig Jónsdóttir dæmd in solidum með áfrýjanda til að greiða þá fjárhæð, sem hún var krafin um, auk dráttarvaxta. Eins og að framan greinir krefst áfrýjandi hér fyrir dómi aðallega sýknu af kröfum stefnda, en Rannveig Jónsdóttir hefur ekki áfrýjað héraðsdómi af sinni hálfu.
II.
Fallist er á þá niðurstöðu héraðsdóms að áfrýjanda sé skylt að greiða stefnda þá fjárhæð sem hann þurfti að inna af hendi vegna sjálfskuldarábyrgðar sinnar á skuldabréfi því, sem hún gaf út, og málið varðar. Eru ekki efni til þess að taka málsástæður hennar um sýknu í heild eða að hluta til greina. Í ljósi þess að Rannveig Jónsdóttir er með hinum áfrýjaða dómi dæmd in solidum með áfrýjanda til að greiða helming þeirrar fjárhæðar sem áfrýjandi er krafin um, verður fallist á þá niðurstöðu dómsins að dæma hana til að greiða 1.016.242 krónur með dráttarvöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.
Í héraðsdómi var áfrýjandi dæmd til að greiða málskostnað 250.000 krónur in solidum með Rannveigu Jónsdóttur. Verður skyldu Rannveigar til greiðslu málskostnaðar óskipt með áfrýjanda ekki breytt. Rétt þykir að dæma áfrýjanda til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Anna Elísabet Bjarnadóttir, greiði stefnda, Sigurði J. Hendrikssyni, 1.016.242 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af 255.278 krónum frá 9. nóvember 1998 til 2. desember sama ár, af 276.326 krónum frá þeim degi til 11. janúar 1999, en 297.718 krónum frá þeim degi til 8. febrúar sama ár, af 318.657 krónum frá þeim degi til 11. mars sama ár, af 339.877 krónum frá þeim degi til 15. sama mánaðar, en af 1.016.242 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Áfrýjandi greiði stefnda samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Austurlands 25. maí 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 30. mars 2000 að loknum munnlegum málflutningi, hefur Sigurður J. Hendriksson, kt. 280346-6759, Fífuseli 13, Reykjavík, höfðað fyrir Héraðsdómi Austurlands með stefnu útgefinni 7. október 1999 gegn Önnu Elísabetu Bjarnadóttur, kt. 110474-3859, Bleiksárhlíð 60, Eskifirði og Rannveigu Jónsdóttur, kt. 150353-4599, Hátúni 25, Eskifirði og var málið þingfest á Egilsstöðum hinn 19. október 1999.
Dómkröfur stefnanda í málinu eru, að stefndu verði dæmdar in solidum til að greiða stefnanda eftirgreindar fjárkröfur:
1. Annars vegar að stefndu, Önnu Elísabetu Bjarnadóttur, beri að endurgreiða stefnanda kr. 1.016.242, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum, af kr. 255.278 frá 09.11.1998 til 02.12.1998, af kr. 276.326 frá þeim degi til 11.01.1999, af kr. 297.718 frá þeim degi til 08.02.1999, af kr. 318.657 frá þeim degi til 11.03.1999, af kr. 339.877 frá þeim degi til 15.03.1999, af kr. 1.016.242 frá þeim degi til greiðsludags.
2. Hins vegar að stefndu, Rannveigu Jónsdóttur, beri skylda til að endurgreiða stefnanda kr. 508.121 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum, af kr. 127.639 frá 09.11.1998 til 02.12.1998, af kr. 138.163 frá þeim degi til 11.01.1999, af kr. 148.859 frá þeim degi til 08.02.1999, af kr. 159.329 frá þeim degi til 11.03.1999, af kr. 169.939 frá þeim degi til 15.03.1999, af kr. 508.121 frá þeim degi til greiðsludags.
Þess er krafist að dæmt verði að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti frá hverri greiðslu í fyrsta sinn 09.11.1999, og að lokum þann 15.03.2000, en síðan árlega þann dag.
Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu samkvæmt gjaldskrá Lögsáttar ehf., að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti, samkvæmt framlögðum málskostnaðar-reikningi.
Stefnda, Anna Elísabet Bjarnadóttir, krefst sýknu af öllum kröfum stefnenda, en til vara krefst stefnda þess, að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar.
Þá krefst stefnda, Anna Elísabet Bjarnadóttir, þess, að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað að mati dómsins eða skv. síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.
Af hálfu stefndu, Rannveigar Jónsdóttur, var ekki sótt þing er málið var þingfest og ekki við síðari fyrirtökur málsins.
Málavextir eru þeir, að stefnda, Anna Elísabet Bjarnadóttir, gaf hinn 30. desember 1997 út skuldabréf til Búnaðarbanka Íslands, Egilsstöðum, að fjárhæð kr. 865.000.
Skuldabréfið var verðtryggt með grunnvísitölu 181,7 með kjörvöxtum 6,15% og vaxtaálagi 4,25% frá útgáfudegi, við útgáfu 10,40%. Gjalddagi fyrstu afborgunar var 02.02.1998, en síðan mánaðarlega, en lánstíminn var 5 ár.
Stefnandi og stefnda Rannveig Jónsdóttir tókust samkvæmt skuldabréfinu á hendur sjálfskuldarábyrgð á láninu (ábyrgð in solidum) og árituðu bréfið til samþykkis því.
Stefnda, Anna Elísabet Bjarnadóttir mun hafa greitt einungis fyrstu afborgun af bréfinu, en ekkert eftir það, þannig að skuldin fór í vanskil á öðrum gjalddaga, 2. mars 1998.
Með innheimtubréfi Búnaðarbanka Íslands hf., dags. 18.09.1998, krefur bankinn ábyrgðaraðila samkvæmt skuldabréfinu um greiðslu gjaldfallins höfuðstóls ásamt vöxtum og dráttarvöxtum auk annars áfallins kostnaðar, samtals kr. 1.019.132, innan 10 daga frá dagsetningu bréfsins. Í innheimtubréfinu stendur að samrit hafi verið sent stefndu, Önnu Elísabet Bjarnadóttur, aðalskuldara bréfsins og ábyrgðarmanni, Rannveigu Jónsdóttur, en þær eru mæðgur. Af hálfu stefnenda var haft samband við stefndu, aðalskuldara og samábyrgðaraðila og skorað á þær að koma skuldabréfinu í skil, án árangurs.
Með stefnu dagsettri 20.10.1998, stefndi Búnaðarbanki Íslands hf. stefndu Önnu Elísabetu Bjarnadóttur, aðalskuldara, ásamt sjálfskuldarábyrgðarmönnum, stefndu Rannveigu Jónsdóttur og stefnanda Sigurði J. Hendrikssyni, fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur þann 19.11. 1998. Dómkrafan var, að stefndu og stefnandi yrðu dæmd in solidum til að greiða stefnanda, Búnaðarbanka Íslands hf. skuld að fjárhæð kr. 859.371 og bankakostnað kr. 3.205, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 02.03. 1998 til greiðsludags, að viðbættum málskostnaði.
Í stefnu segir, að af hálfu stefnanda hafi verið haft samband við stefndu báðar og skorað á þær að koma skuldinni í skil svo að ekki kæmi til málaferla. Stefnandi kveðst þá hafa fengið skýr boð um að stefnda, Anna Elísabet, ætlaði ekki að greiða skuldina né aðhafast neitt í málinu. Sama afstaða hafi verið uppi hjá stefndu Rannveigu. Stefnandi hafi þá ekki séð annan kost vænni en að semja við Búnaðarbanka Íslands hf. um að hann greiddi inn á kröfuna og kæmi skuldabréfinu í skil gegn því að bankinn félli frá málsókn.
Lauk stefnandi greiðslu skuldarinnar 1. mars 1999 og hafði þá greitt samtals kr. 1.016.241.
Málsástæður stefnanda:
Með bréfi dagsettu 18. febrúar 1999 var fyrir hönd stefnanda skorað á stefndu að ganga til samninga við stefnanda eða bankann um greiðslu skuldarinnar. Þeirri áskorun var hafnað.
Þar sem hvorug stefndu hefur staðið við skyldur sínar samkvæmt skuldabréfi nr. 30880 við Búnaðarbanka Íslands hf., og aðalskuldari neitað að greiða kröfueiganda, og samábyrgðaraðili stefnanda, stefnda Rannveig, hafi ekki orðið við áskorun hans um að axla sameiginlega solidariska ábyrgð, sem þau gengust undir gagnvart kröfueiganda með greiðslu á helmingi fjárskuldbindingarinnar, sé stefnanda nauðsyn að fá dóm um endurkröfurétt sinn á hendur stefndu, Önnu Elísabetu og Rannveigu og solidariska ábyrgð þeirra gagnvart stefnanda um endurgreiðslu fjárins.
Fram hefur komið í málinu, að stefnda Anna Elísabet var í óvígðri sambúð með syni stefnanda, Jóhanni Ágúst Sigurðssyni, á því tímabili sem skuldabréf þessi voru gefin út. Telur stefnandi að sú staðreynd hafi enga þýðingu í þessu máli. Á það beri að líta, að samkvæmt meginreglum kröfuréttar um viðskiptabréf, beri skuldara að endurgreiða kröfuhafa þá fjárhæð, sem fengin er að láni í samræmi við efni löggernings, í þessu tilviki skuldabréfs nr. 30880 við Búnaðarbanka Íslands hf. Ef á sjálfskuldarábyrgð ábyrgðarmanna reynir, vegna vanefnda aðalskuldara, þá beri aðalskuldara að endurgreiða greiðandanum, ábyrgðarmanninum, alla þá fjárhæð sem hann hefur innt af hendi fyrir aðalskuldara. Engu skipti í þeim lögskiptum milli aðalskuldara og ábyrgðarmanns, að sonur stefnanda og stefnda Anna Elísabet hafi verið í óvígðri sambúð þegar til fjárskuldbindingarinnar var stofnað. Sama gildi um réttarsamband stefnanda og stefndu Rannveigar, þau hafi gengist undir sjálfskuldarábyrgð á skuldabréfinu gagnvart kröfueiganda og lofað að greiða skuldina ef stefnda, aðalskuldari, stæði ekki við greiðsluskyldu sína gagnvart bankanum.
Því beri stefndu in solidum skylda til að endurgreiða stefnanda í samræmi við þær fjárhæðir sem réttarsamband þeirra innbyrðis gefur tilefni til og stefnandi velur að beina til kröfu um endurgreiðslu. Stefndu Önnu Elísabetu beri sem aðalskuldara að endurgreiða stefnanda alla fjárhæðina eða kr. 1.016.242, en stefndu, Rannveigu, beri sem samábyrgðaraðila að endurgreiða stefnanda helming þeirrar fjárhæðar eða kr. 508.121.
Stefnandi vísar til meginreglna samningaréttarins um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna löggerninga, skuldara til að greiða samkvæmt efni skuldabréfsins og ábyrgð sjálfskuldarábyrgðarmanna in solidum til að standa kröfueiganda fullnaðarskil á þeirri fjárskuldbindingu, ef vanefndir verða af hálfu aðalskuldara. Ennfremur vísast til réttareglna um viðskiptabréf og réttarvenju í kröfurétti, eðli máls og meginreglna laga um greiðsluskyldu skuldara og ábyrgðarmanna in solidum gagnvart kröfueiganda, ásamt endurkröfurétti sjálfskuldarábyregðarmanns, sem greitt hefur kröfuna, á hendur aðalskuldara og samábyrgðaraðila um endurgreiðslu.
Kröfu um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.
Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn að fá dóm fyrir skatti þessum úr endi stefndu.
Málsástæður stefnda:
Stefnda, Anna Elísabet Bjarnadóttir, byggir á því, að stefnandi hafi í raun verið að ábyrgjast lán fyrir son sinn Jóhann Ágúst Sigurðsson. Jóhann Ágúst hafi fengið stefnanda til að ábyrgjast lánið og sagt stefnanda að hann mundi afla tekna til að endurgreiða lánið. Stefnda hafi verið lántaki að nafninu til í þágu Jóhanns Ágústs Sigurðssonar. Byggt sé á því, að stefnanda hafi verið kunnugt um að stefnda Anna Elísabet hafi haft litlar sem engar tekjur þegar stefnandi ábyrgðist lánið og vegna framangreinds hafi honum verið ljóst bæði að stefnda hafi ekki haft burði til og jafnframt að hún hafi ekki ætlað að endurgreiða lánið heldur sonur stefnanda sem á þeim tíma m.a. hafi stundað sjómennsku. Stefnda byggi jafnframt á því að stefnandi hafi vitað eða mátt vita að andvirði skuldabréfsins gengi til greiðslu skulda sem Jóhann Ágúst hafi verið skuldari að. Stefnda byggi á því, að í raun sé ekkert kröfuréttarsamband á milli sín og stefnanda. Stefnandi eigi því ekki endurkröfurétt á hendur stefndu og hún sé með öllu skuldlaus við stefnanda. Endurkröfuréttur ábyrgðarmanns þurfi að byggja á raunverulegu kröfuréttarsambandi og byggir stefnda á því að það sé ekki fyrir hendi í máli þessu Stefnandi hafi ekki rétt til að krefjast endurgreiðslu á grundvelli viðskiptabréfsreglna heldur beri honum að sanna raunverulegt kröfuréttarsamband á milli sín og stefndu.
Til vara sé byggt á því að meintu samningssambandi stefndu og stefnanda, þ.e. því sambandi sem stefnandi byggir endurkröfurétt sinn á, beri að víkja til hliðar í heild eða að hluta, þar sem telja verður ósanngjarnt af hálfu stefnanda að bera það fyrir sig vegna þess, sem áður sagði um vitneskju þeirra um að stefnda hafi ekki verið fær um að endurgreiða lánið og vegna þess, að lánið hafi verið tekið í þágu annars manns, sonar stefnanda. Atvik við samningsgerðina alla hafi verið með þeim hætti að bersýnilega sé ósanngjarnt af hálfu stefnanda að beita endurkröfurétti. Stefnanda hafi mátt vera kunnugt um að stefnda gat aldrei staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt skuldabréfinu, enda hafi annar maður í raun ætlað að standa við það og um það hafi stefnanda einnig verið kunnugt. Sérstaklega sé ósanngjarnt af hálfu stefnanda að bera fyrir sig samningssambandið og endurkrefja stefndu eftir skilnað sonar stefnanda og stefndu. Þá sé stefnanda jafnframt kunnugt um að stefnda hafi greitt ýmsar kröfur fyrir hönd Jóhanns Ágústs Sigurðssonar, bæði skuldir sem stefnda stofnaði til sameiginlega með Jóhanni Ágústi og skuldir sem stofnað var til í þágu Jóhanns Ágústs eins og sér.
Þá sé ennfremur til vara byggt á því að stefnandi eigi ekki rétt til að krefja stefndu um endurkröfu nema að hluta. Í raun hafi staða stefndu verið hin sama og staða ábyrgðarmanns. Eins og stefnanda hafi verið kunnugt um, hafi lánið verið tekið í þágu Jóhanns Ágústs Sigurðssonar. Jóhann Ágúst hafi ætlað að endurgreiða lánið og stefnda í raun ábyrgst greiðslu lánsins gagnvart lánveitanda í þágu Jóhanns Ágústs. Stefnandi hafi vitað eða mátt vita þetta og eigi hann því ekki endurkröfu á hendur stefndu fyrr en sýnt er að raunverulegur skuldari, Jóhann Ágúst, geti ekki greitt og ekki nema hlutfallslega í samræmi við endurkröfureglur kröfuréttarins, eins og stefnda væri ábyrgðarmaður.
Til viðbótar framangreindum rökum fyrir aðal- og varakröfu er jafnframt krafist sýknu af endurkröfu kr. 676.364,40 ásamt vöxtum af þeirri fjárhæð frá 15. 03. 1999, þ.e. síðasta lið stefnukrafnanna. Endurkröfuréttur stefnanda á hendur stefndu Önnu Elísabetar vegna þeirrar greiðslu hafi ekki stofnast. Eins og sannað sé með dómskjali nr. 11, hafi Hjördís Björg Kristinsdóttir, fyrrverandi tengdamóðir stefndu greitt þá greiðslu. Stefnda hafi litið á þá greiðslu sem gjöf eða óafturkræft framlag Hjördísar Bjargar til sonar síns sem í raun skuldaði umrætt lán og barnsmóður hans, þ.e. stefndu, sem væri fyrrverandi tengdadóttir Hjördísar Bjargar og var skráður skuldari á lánið í þágu Jóhanns Ágústs.
Stefna Anna Elísabet vísar til meginreglna kröfuréttar varðandi framangreindar málsástæður sínar svo og til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð o.fl. varðandi þá kröfugerð að samningssambandi aðila verði vikið til hliðar í heild eða að hluta.
Um málskostnaðarkröfu vísar stefnda Anna Elísabet til ákvæða laga nr. 91/1991 einkum til 129. gr. og 130. gr.
Niðurstaða:
Ekki verður talið, að ákvæðum XVII. kafla laga nr. 91/1991 verði beitt í máli, sem ábyrgðarmaður, sem leyst hefur til sín kröfu samkvæmt skuldabréfi, höfðar á hendur aðalskuldara og meðábyrgðarmanni. Sæta varnir, sem stefndu er heimilt að hafa uppi gegn kröfu stefnanda því ekki takmörkunum 118. gr. laga nr. 91/1991.
Stefnda hefur haldið því fram, að Jóhann Ágúst Sigurðsson sé raunverulegur skuldari þeirrar skuldar, sem umrætt skuldabréf hljóðar upp á og eigi því að beina kröfum þessum að honum.
Fram hefur komið, að stefnda mætti sjálf á fund með þeim bankamönnum hjá Búnaðarbanka Íslands hf., sem önnuðust um lánveitinguna og tók þátt í samningum og viðræðum um lánið. Fram kom, að hún hefði verið í viðskiptum hjá bankanum og hefði það verið ástæðan fyrir því, að lánið var veitt henni. Stefnda hefur ekki lagt fram nein gögn þess efnis, að Jóhann Ágúst Sigurðsson, eða neinn annar en stefnda sjálf hafi í raun verið skuldari þeirrar skuldar, sem hér um ræðir.
Óumdeilt er, að stefnda var á þeim tíma, er lánið var tekið, í sambúð með nefndum Jóhanni Ágúst Sigurðssyni. Verður þó ekki talið, að þótt lánið væri notað til þess að greiða skuldir, sem voru á nafni nefnds Jóhanns Ágústs leiði til þess, að stefnda verði ekki talin vera skuldari.
Þeirri vörn hefur verið haldið fram, af hálfu stefndu Önnu Elíasabetar, að víkja beri til hliðar meintu samningssambandi stefnanda og stefndu í heild eða að hluta, þar sem telja verði ósanngjarnt af hálfu stefnanda að bera það fyrir sig, vegna vitneskju hans um að stefnda hafi ekki verið í stakk búin til að endurgreiða lánið og vegna þess að lánið hafi verið tekið í þágu annars manns.
Ekkert er fram komið í málinu um vitneskju stefnanda um að stefnda gæti ekki endurgreitt lánið eða að lánið væri tekið „í þágu annars manns.” Þá hefur heldur ekki verið gert líklegt, að stefnandi hafi með einhverjum hætti hagnast á því að taka á sig ábyrgð á láninu eða að það geti á neinn hátt talist ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju, sbr. meginreglur 36. gr. laga nr. 7/1936, að krefja stefndu um efndir skuldbindingarinnar.
Verður því á því byggt, að stefnda Anna Elísabet Bjarnadóttir, sé ein aðalskuldari samkvæmt því skuldabréfi, sem hér er til umfjöllunar.
Með því að greiða skuldina, eignaðist stefnandi endurkröfu á hendur stefndu Önnu Elísabetu, sem svarar því fé, sem hann þurfti að inna af hendi til þess að greiða skuldina upp.
Gildir þá einnig einu, hvort hann greiddi eigin hendi, eða að eiginkona hans greiddi fyrir hann í banka.
Samkvæmt þessu ber að taka til greina allar kröfur stefnanda og dæma stefndu Önnu Elísabetu Bjarnadóttur til að greiða stefnanda kr. 1.016.242 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, eins og nánar greinir í dómsorði.
Stefnda Rannveig Jónsdóttir, sótti ekki þing, er málið var þingfest eða síðar, þegar málið var tekið fyrir. Verður málið hvað hana snertir, dæmt eftir kröfum og málatilbúnaði stefnanda, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 og kröfur stefnanda á hendur henni teknar til greina að öllu leyti.
Stefndu, Anna Elisabet Bjarnadóttir og Rannveig Jónsdóttir greiði in solidum stefnanda, Sigurði J. Hendrikssyni kr. 250.000 í málskostnað.
Logi Guðbrandsson, dómstjóri kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefnda, Anna Elísabet Bjarnadóttir, greiði stefnanda, Sigurði J. Hendrikssyni, kr. 1.016.242, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af kr. 255.278 frá 09.11.1998 til 02.12.1998, af kr. 276.326 frá þeim degi til 11.01.1999, af kr. 297.718 frá þeim degi til 08.02.1999, af kr. 318.657 frá þeim degi til 11.03.1999, af kr. 339.877 frá þeim degi til 15.03.1999, af kr. 1.016.242 frá þeim degi til greiðsludags.
Stefnda Rannveig Jónsdóttir, greiði in solidum með stefndu Önnu Elísabetu Bjarnadóttur, stefnanda, Sigurði J. Hendrikssyni, kr. 508.121 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af kr. 127.639 frá 09.11.1998 til 02.12.1998, af kr. 138.163 frá þeim degi til 11.01.1999, af kr. 148.859 frá þeim degi til 08.02.1999, af kr. 159.329 frá þeim degi til 11.03.1999, af kr. 169.939 frá þeim degi til 15.03.1999, af kr. 508.121 frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndu greiði in solidum stefnanda kr. 250.000 málskostnað.