Hæstiréttur íslands
Mál nr. 362/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Kæra
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Þriðjudaginn 26. maí 2015. |
|
Nr. 362/2015.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Einar Laxness aðstoðarsaksóknari) gegn X (Hólmgeir Elías Flosason hdl.) |
Kærumál. Kæra. Frávísun frá Hæstarétti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem staðfest var ákvörðun L um að X skyldi sæta nálgunarbanni á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Málinu var vísað frá Hæstarétti þar sem kæran uppfyllti ekki áskilnað 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru, sem barst héraðsdómi 22. maí 2015 og réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2015, þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 4. sama mánaðar um að varnaraðili sætti nálgunarbanni, eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að nálgunarbanni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Mælt er fyrir um það í 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að vilji maður kæra úrskurð skuli hann lýsa því yfir innan þriggja sólarhringa frá því að hann fékk vitneskju um úrskurðinn. Sé kæru lýst yfir á dómþingi má kærandi láta við það sitja að bókað verði um hana í þingbók, þar á meðal í hvaða skyni kært er. Að öðrum kosti skal hann afhenda héraðsdómara skriflega kæru, þar sem greint skal frá því hvaða úrskurður sé kærður, kröfu um breytingu á honum og ástæður sem kæra er reist á.
Skipaður verjandi varnaraðila var viðstaddur uppsögu hins kærða úrskurðar og lýsti því þá yfir að hann tæki sér lögboðinn frest til að taka ákvörðun um hvort varnaraðili kærði úrskurðinn til Hæstaréttar. Kæra barst héraðsdómi 22. maí 2015, en þá var liðinn kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Verður málinu því vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2015.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti þá ákvörðun lögreglustjóra, 4. maí sl., að X sæti nálgunarbanni í sex mánuði þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A að [...] í [...] á svæði sem afmarkist af 50 metra radíus umhverfis húsið. Jafnframt að lagt verði bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana á annan hátt.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að X og A séu hjón og eigi saman tvær stúlkur, fæddar 23. apríl sl. Sunnudaginn 3. maí sl. hafi foreldrar A tilkynnt lögreglu að þau óttuðust um A eftir að hafa rætt við hana í síma. Hún hafi verið stödd, ásamt X, á heimili móður hans við [...] í [...] og hann líklega beitt hana ofbeldi. Lögregla hafi farið á vettvang og rætt við A sem hafi lýst því að hún hefði legið með X upp í rúmi þar sem hann hafi haldið utan um hana. A segðist vera með sauma á maganum eftir keisaraskurð en X hefði ýtt á saumana svo hana verkjaði. Hún hafi reiðst honum vegna þessa og viljað fara út af heimilinu og tekið dætur þeirra í fangið. Hún hafi ætlað að hringja og biðja um að hún yrði sótt en þá hafi X rifið símann úr sambandi, öskrað á hana og rifið í hár hennar. Meðan hún hafi haldið á dætrum þeirra hafi hann rifið hana niður í gólfið á hárinu og þar sem hún hafi legið, hafi hann slegið hana í andlitið með flötum lófa. Móðir X hafi þá tekið stúlkurnar og X haldið áfram að rífa í hár A og slegið hana ítrekað með flötum lófa í andlitið. Sjá hafi mátt áverka á A, bæði í andliti og á höndum. X hafi verið handtekinn í kjölfarið á vettvangi.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur einnig fram að þegar lögregla hefði rætt við A hefði hún sagst óttast X og að þetta væri ekki í fyrsta skiptið sem hann veittist að henni. Hún hafi skýrt frá tilviki þegar hann hefði ógnað henni á fæðingardeildinni eftir að dætur þeirra fæddust. Frásögn A um það fái stoð í framburði hjúkrunarfræðings á Landspítalanum sem hafi verið á vakt umrætt sinn. Lögregla hafi einnig rætt við foreldra A sem hafi lýst því fyrir lögreglu að samband A og X hefði einkennst af mikilli kúgun og ofbeldi og segðust þau óttast mjög um hana og dætur hennar þegar hún væri í kringum X. Fram hafi komið hjá foreldrum A að X hefði sent á systur A mynd sem sýndi A í kynferðislegum athöfum. Einnig lægju fyrir sms-samskipti hans við móður A þar sem hann viðurkenni háttsemi sína gagnvart A að hluta.
Lögreglustjóri tekur fram að X neiti að hafa ráðist á A 3. maí sl. en geti ekki gefið skýringar á áverkum hennar. Hann kannist hins vegar við að hafa brotið síma og tölvu sem hún var með á fæðingardeildinni og að hafa sent systur A mynd af henni. Þá hafi lögreglan haft samband við móður X en talið sé að hún hafi orðið vitni að atvikinu á heimili hennar að [...], 4. maí sl., en hún neiti að tjá sig.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur loks fram að 6. maí sl. hafi lögreglu borist skilaboð sem X hafi sent A sama dag, þrátt fyrir að hann vissi að hann sætti nálgunarbanni gagnvart henni. Þau gögn sem lögregla hafi undir höndum beri með sér að A stafi mikil ógn af X og ljóst sé að hún hafi undanfarið orðið fyrir miklu ónæði og vanlíðan af hans hálfu á sama tíma og hún sé að jafna sig eftir fæðingu tveggja barna og hefði þurft á öllum hans stuðningi að halda. Þyki X hafa raskað mjög heimilisfriði A og barna þeirra með háttsemi sinni.
Í ljósi framangreinds telji lögreglustjóri að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt en X liggi undir sterkum grun um að hafa nú beitt A líkamlegu ofbeldi sem talið sé varða við 217. gr. almennra hegningarlaga. Það sé mat lögreglu að X muni beita A frekara ofbeldi og valda ónæði sé hann látinn afskiptalaus. Lögreglustjóri telji ekki sennilegt að friðhelgi A og barna þeirra verði vernduð á annan og vægari hátt eins og sakir standi. Með vísan til framangreinds og fram lagðra gagna sé ítrekað að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða:
Samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/2011 er heimilt að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að varnaraðili hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola.
Varnaraðili og brotaþoli eru hjón og eiga saman tvær dætur sem eru tveggja vikna gamlar. Síðastliðna mánuði hafa þau þó ekki búið saman.
Fyrir dóminum bar varnaraðili að atvik hefðu ekki verið á þann hátt sem eiginkona hans og foreldrar hennar hefðu lýst fyrir lögreglu en lögregla byggði kröfuna alfarið á framburði þeirra en tæki ekkert tillit til framburðar hans í kröfu sinni. Hann viðurkenndi að hafa togað í hönd konu sinnar og að þau hefðu rifist og að atburðarás hafi verið hröð en eiginkona hans hafi líka slegið hann.
Fyrir dóminn hafa verið lögð fram afrit rannsóknargagna lögreglu, sem eru tilefni þeirrar ákvörðunar lögreglustjóra, 4. maí sl., að varnaraðili skyldi sæta nálgunarbanni. Eftir atvikin á milli varnaraðila og brotaþola 3. maí sl. fór brotaþoli fór á bráðadeild síðdegis þann dag. Hver svo sem var hárnákvæm rás atburða sýnir vottorð læknis að á brotaþola voru ummerki um átök. Hún hafði yfirborðsáverka í hársverði og var aum án þess þó að hárflygsur væru lausar. Hún var bólgin og marin vinstra megin í andliti. Á hægri upphandlegg var stórt mar 10x8 cm eins og eftir handtak og minna mar á vinstri upphandlegg.
Fallist er á það með lögreglustjóra að þessi gögn sýni að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa raskað friði brotaþola á þann hátt að heimilt sé, til að vernda friðhelgi hennar, að banna honum að nálgast hana, sbr. 4. gr. laga nr. 85/2011. Þegar varnaraðili veitti henni þessa áverka voru einungis liðnir 10 dagar frá því að hún eignaðist tvö börn þeirra með keisaraskurði og var hún því einstaklega veik fyrir og er enn.
Réttargæslumaður brotaþola bar að brotaþoli vildi halda kröfu sinni til streitu. Börnin, sem væru á brjósti, tækju alla hennar orku og hefði hún hvorki líkamlegt né andlegt þrek til þess að búa við stöðugan ótta um að varnaraðili kæmi í heimsókn til þess að fá að sjá börn sín.
Varnaraðili kvaðst ekki hafa áhuga á að umgangast brotaþola neitt frekar og væri hann ekki á leiðinni á það heimili enda óvelkominn. Hann þyrfti þó að sækja þangað muni og þyrfti einnig að eiga kost á sjá dætur sínar.
Dómurinn tekur undir það mat lögreglustjóra að ekki þyki sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð á annan og vægari hátt en að varnaraðili sæti nálgunarbanni. Því þykja uppfyllt skilyrði 6. gr. laga nr. 85/2011 til þess að staðfesta ákvörðun lögreglustjóra, eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Ekki þykja efni til að marka nálgunarbanni skemmri tíma er þar er ákveðið.
Vegna réttar varnaraðila til þess að umgangast dætur sínar eru í barnalögum nr. 76/2003 ítarleg ákvæði um umgengnisrétt og úrræði sem sýslumaður hefur til þess að koma umgengi á, þurfi þess með. Þessi réttur varnaraðila kemur því ekki í veg fyrir að krafa lögreglustjóra um nálgunarbann nái fram að ganga.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Hólmgeirs Elíasar Flosasonar hdl. 100.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði, samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011. Einnig greiðist úr ríkissjóði, samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga nr. 88/2008, þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Láru V. Júlíusdóttur hrl. 80.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Staðfest er sú ákvörðun lögreglustjóra, 4. maí sl., að X skuli sæta nálgunarbanni í sex mánuði þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A að [...] í [...] á svæði sem afmarkast af 50 metra radíus umhverfis húsið. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana á annan hátt.
Þóknun verjanda varnaraðila, Hólmgeirs Elíasar Flosasonar hdl., 100.000 krónur og réttargæslumanns brotaþola, Láru V. Júlíusdóttur hrl. 80.000 krónur skal greidd úr ríkissjóði.