Hæstiréttur íslands
Mál nr. 148/2010
Lykilorð
- Ákæra
- Bókun
- Refsiheimild
- Ómerking
- Heimvísun
|
|
Fimmtudaginn 27. janúar 2011. |
|
|
Nr. 148/2010. |
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir settur saksóknari) gegn X og Y (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) |
|
Ákæra. Bókanir. Refsiheimild. Ómerking. Heimvísun.
X og Y voru með ákæru ákærðir fyrir brot gegn 231. og 168. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa farið í heimildarleysi inn á flugvallarsvæði, með því að klifra yfir girðingu, og hlaupið mörg hundruð metra innan svæðisins og raskað með því öryggi loftfara. Í héraði voru ákærðu fundnir sekir um brot gegn 1. mgr. 70. gr. sbr. 141. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir, 1. mgr. 19. gr. sbr. 40. gr. reglugerðar nr. 361/2005 um flugvernd og 1. mgr. 168. gr. almennra hegningarlaga. Fyrir Hæstarétti byggðu ákærðu á því að vörn þeirra hafi orðið áfátt vegna meðferðar málsins í héraði. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að skýra verði 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála svo að veita skuli ákærða tíma og aðstöðu til að undirbúa vörn sína miðað við breyttan lagagrundvöll málsins. Var héraðsdómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar á ný.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. mars 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að ákærðu verði sakfelldir samkvæmt ákæru og héraðsdómur staðfestur um refsingu þeirra.
Ákærðu krefjast sýknu af kröfum ákæruvalds.
I
Samkvæmt ákæru er ákærðu gefin að sök húsbrot og almannahættubrot með því að hafa, að morgni fimmtudagsins 3. júlí 2008 farið í heimildarleysi inn á flugvallarsvæðið við Flugstöð Leifs Eiríkssonar með því að klifra yfir girðingu, og hlaupið mörg hundruð metra innan svæðisins. Segir í ákæru að með háttsemi sinni hafi ákærðu raskað öryggi loftfara en á flugvallarsvæðinu hafi verið flugvélar á leið í áætlunarflug og hafi orðið að stöðva flugumferð þar til ákærðu hafi verið handsamaðir á flugbrautinni „Charlie“. Í ákæru er háttsemi ákærðu talin varða við 231. gr. og 168. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við meðferð málsins í héraði kom í ljós að „Charlie“ mun ekki vera flugbraut heldur akbraut fyrir flugvélar.
Að lokinni skýrslugjöf í héraði var bókað: „Sakflytjendur telja ekki þörf á frekari sönnunarfærslu og kveðast reiðubúnir að flytja málið. Hefst nú munnlegur málflutningur. Sækjandinn tekur til máls og gerir sömu kröfur og í ákæru. Sækjandinn reifar málavexti og lagaatriði málsins, ítrekar gerðar kröfur og leggur málið í dóm með fyrirvara. Sækjandinn reifaði málið með hliðsjón af því að verknaður ákærðu kynni að varða við 176. gr. alm. hgl., 70. gr., sbr. 140. gr. loftferðalaga og reglugerð um flugvernd, 19. og 40. gr.“ Af hálfu ákærðu var aðallega krafist sýknu en til vara vægustu refsingar. Þá var bókað: „Verjandinn reifar málavexti og lagatriði málsins, ítrekar gerðar kröfur og leggur málið í dóm með fyrirvara. Hann mótmælir því að hafa ekki getað undirbúið vörn í málinu með hliðsjón af nýjum og óvæntum tilvísunum ákæruvaldsins til refsiheimilda. Ákærðu ávarpa dóminn. Málið er dómtekið.“
Með hinum áfrýjaða dómi voru ákærðu fundnir sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök og hún heimfærð undir 168. gr. almennra hegningarlaga, en einnig 1. mgr. 70. gr., sbr. 141. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir og 1. mgr. 19. gr., sbr. 40. gr. reglugerðar nr. 361/2005 um flugvernd. Á hinn bóginn var háttsemi ákærðu ekki talin varða við 231. gr. almennra hegningarlaga. Í héraðsdómi er tekið fram að málið hafi verið reifað með tilliti til heimfærslu undir framangreind ákvæði laga nr. 60/1998 og reglugerðar nr. 361/2005, sbr. 4. málslið 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
II
Í 152. gr. laga nr. 88/2008 er kveðið á um efni ákæru. Samkvæmt c. lið 1. mgr. á að greina hver sú háttsemi er sem ákært er út af, hvar og hvenær brotið er talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og loks heimfærslu þess til laga og stjórnvaldsfyrirmæla, ef því er að skipta. Í 1. mgr. 180. gr. laganna segir að hvorki megi dæma ákærða fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir né heldur dæma aðrar kröfur á hendur honum. Þó megi sakfella ákærða þótt aukaatriði brots, svo sem staður og stund þess, séu ekki skýrt eða rétt greind, enda telji dómari að vörn hafi ekki verið áfátt þess vegna. Dómari geti gefið aðilum færi á að tjá sig um atriði að þessu leyti, ef þurfa þyki. Með sömu skilyrðum sé dómara og rétt að dæma eftir öðrum refsiákvæðum en fram komi í ákæru, þó aldrei aðrar kröfur en þar greini.
Við meðferð máls geta sjónarmið og kröfur um heimfærslu brota undir önnur lagaákvæði en í ákæru greinir, bæði komið frá dómara og sakflytjendum. Heimilt er þannig að breyta heimfærslu þeirrar háttsemi sem ákært er fyrir til laga með bókun í þingbók, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 88/2008. Á hinn bóginn verður að skýra 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 svo að veita skuli ákærða tíma og aðstöðu til að undirbúa vörn sína miðað við breyttar forsendur, eftir atvikum með því að ákærði og vitni gefi á nýjan leik skýrslur fyrir dómi um atriði sem máli kunna að skipta, meðal annars með tilliti til þess hvort lýsing ætlaðs brots í ákæru eigi við það refsiákvæði sem vísað er til eftir breytinguna. Fyrir Hæstarétti hafa ákærðu haldið því fram að vörn þeirra hafi orðið áfátt vegna framangreindrar meðferðar málsins í héraði. Upplýst er að verjanda ákærðu var, þegar að lokinni ræðu sækjanda og án frekari fyrirvara, gert að flytja málið um það hvort ætluð háttsemi ákærðu kynni að varða við önnur lagaákvæði en í ákæru greinir. Er þessi meðferð málsins í andstöðu við 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008. Verður hinn áfrýjaði dómur því ómerktur án kröfu og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar á ný.
Rétt er að ákvörðun sakarkostnaðar í héraði bíði niðurstöðu héraðsdóms en allur áfrýjunarkostnaður málsins skal greiðast úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærðu fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar að nýju.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, X og Y, fyrir Hæstarétti, Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. febrúar 2010.
Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 8. apríl sl. á hendur ákærðu, X, kt. [...], [...], Reykjavík, og Y, kt. [...], [...], Reykjavík, „fyrir húsbrot og almannahættu, með því að hafa, að morgni fimmtudagsins 3. júlí 2008, farið í heimildarleysi inn á flugvallarsvæðið við Flugstöð Leifs Eiríkssonar, með því að klifra yfir girðingu, og hlaupið mörg hundruð metra innan svæðisins. Röskuðu ákærðu með háttsemi sinni öryggi loftfara en á flugvallarsvæðinu voru flugvélar á leið í áætlunarflug og varð að stöðva flugumferð þar til ákærðu voru handsamaðir á flugbrautinni „Charlie“.
Telst þetta varða við 231. gr. og 168. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar. Ennfremur er krafist greiðslu sakarkostnaðar.“
Málavextir
Fyrir liggur að skömmu fyrir klukkan átta, fimmtudagsmorguninn 3. júlí 2008, fóru ákærðu að girðingu sem umlykur flugvallarsvæðið við flugstöðina á Keflavíkur-flugvelli. Við girðinguna voru allstór kefli undan kapalvír og komust ákærðu yfir girðinguna með því að stíga upp á keflin. Af ljósmyndum sem málinu fylgja má ætla að það hafi ekki verið erfitt. Fyrir liggur ennfremur að ákærðu höfðu ekki heimild til þess að fara inn á afgirt flugvallarsvæðið. Fram er komið í málinu að á þessum tíma voru margar farþegaþotur að búa sig til brottfarar. Verið var að ræsa hreyfla einnar af þessum flugvélum, TF-FIV, og búast til að aka henni frá stæði nr. 11 á flughlaðinu við flugstöðvarhúsið eftir akbraut flugvéla á átt að flugbrautinni. Ákærðu hlupu fram með flugvélinni í nokkurri fjarlægð og fram fyrir hana. Flugmenn á vélinni hættu við að aka vélinni af stað þegar þeir sáu til mannanna og mun nokkur töf hafa orðið á umferð um völlinn af þessum sökum. Ákærðu voru handteknir og færðir í fangageymslu. Fyrir liggur að brautin, sem ákærðu eru í ákæru sagðir hafa verið handsamaðir á, er akbraut fyrir flugvélar en ekki flugbraut.
Meðal gagna málsins eru ljósmyndir af girðingunni sem ákærðu klifruðu yfir, loftmynd af flugstöðinni og næsta nágrenni hennar svo og uppdráttur af því sama.
Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í meðferð málsins fyrir dómi.
Ákærðu hafa í öllum meginatriðum borið á sama hátt um atvikin þennan umrædda fimmtudagsmorgun og kveðast vera saklausir af því broti sem þeir eru ákærðir fyrir. Bera þeir því við að þennan morgun hafi verið fluttur nauðugur úr landi maður frá Kenýa, A að nafni, frá konu og ungu barni. Maður þessi hefði sótt um landvist hér sem flóttamaður en umsókn hans um það verið synjað. Þá er það komið fram hjá þeim báðum að þeir álitu það hafa verið borgaralegan rétt sinn og skyldu að reyna að koma í veg fyrir það að maður þessi væri fluttur til Ítalíu, þaðan sem hann hafði komið hingað til lands. Væru kjör manna í flóttamannabúðum þar hin verstu og jafnframt væri hætta á því að hann yrði fluttur til heimalands síns, Kenýa, en þar væri líf hans beinlínis í hættu. Brottvísunin væri þannig sjálf ólögleg og siðferðilega röng og hefði það auk þess í för með sér að fjölskyldu flóttamannsins hefði verið sundrað. Væri þetta í andstöðu við alþjóðlega sáttmála, bæði sáttmála um mannréttindi og sáttmála um barnavernd. Þeir segjast því hafa tekið þá ákvörðun að reyna að stöðva flugvélina, sem þeir álitu að maðurinn væri í, og koma þannig í veg fyrir að hún gæti flogið með hann brott af landinu. Þeir segjast aðspurðir ekki hafa fengið leyfi til þess að fara inn á flugvallarsvæðið sem afgirt er en neita því að þeir hafi raskað öryggi flugvéla sem leið áttu um völlinn með athæfi sínu. Benda þeir á að einungis hafi hlotist óveruleg röskun af því og að ekki hafi skapast bein hætta fyrir menn og verðmæti við vélina, sem þeir hlupu fram fyrir. Hafi flugvélin ekki verið á hreyfingu, hreyflar hennar hafi verið í lausagangi og þeir ekki komið nálægt vélinni.
B flugstjóri var við stjórn flugvélarinnar í umrætt sinn. Hann segir að nýbúið hafi verið að ýta vélinni aftur á bak af stæðinu og þeir flugmenn verið að ræsa hreyflana. Þegar þeir hafi verið að ræsa seinni hreyfilinn hafi menn komið hlaupandi fram með vélinni, nálægt henni, og hlaupið fram fyrir hana. Kveðst hann hafa óttast að mennirnir gætu sogast inn í hreyflana en þeir hafi verið í lausagangi. Vélin hafi verið kyrrstæð þegar þetta gerðist. Hann segist ekki hafa árætt að hreyfa vélina, haft samband við flugturninn og beðið um að lögregla yrði kölluð til. Sé maður nær hreyfli af þessari gerð en 5 - 7 metra geti hann sogast inn og farist. Annars sé þetta auðvitað komið undir því hversu hratt hreyfillinn sé keyrður. Mennirnir hafi líklega ekki verið það nálægt vélina að þeir hafi skapað hættu fyrir flugvélina en þó verið hættulega nálægt henni. Hætta fyrir mennina hafi samt verið óveruleg. Hann segir þá hafa verið um 10 metra frá vængenda vélarinnar og hreyfillinn sé á að giska 10 metrum innar. Hann kveður mennina svo hafa hlaupið út á akbraut flugvéla sem þarna er fram undan.
C, sem var flugvallarstjóri á Keflavíkurflugvelli þegar atburðurinn varð, hefur komið fyrir dóminn. Hann segist hafa fengið upplýsingar um það að menn hefðu komist yfir girðingu og inn á flugvélahlaðið. Hafi þetta valdið töluverðri truflun á starfsemi á flugvellinum þannig að brottför flugvéla seinkaði meðan gengið var úr skugga um að hættuástandinu hefði lokið. Hafi þetta valdið 20 30 mínútna seinkun á flugi, að hann minnir. Talið sé að hættuástand myndist þegar óviðkomandi menn fari inn á merkt og varið haftasvæði sem þetta enda séu afleiðingar þess ófyrirsjáanlegar. Þá sé á að líta að þessir menn geti sjálfir verið í hættu og að hans mati hafi svo verið í þetta sinn. Að hans áliti hafi ekki verið hætta fyrir þessa umræddu flugvél. Þá verði truflun á flugvallarstarfseminni og geti seinkun sem þessi verið kostnaðarsöm fyrir flugvélar sem séu bundnar við ákveðinn lendingartíma á áfangastað erlendis. Hann segir svæði þetta vera afgirt og undir eftirliti. Þeir sem þar hafi aðgang þurfi að hafa skilríki um það og að hafa sótt sérstök námskeið. Séu skilti á íslensku og ensku á girðingunni með 25 m bili, sem gefi til kynna að um bannsvæði sé að ræða. Þá sé girðingin sjálf um 2,20 m.
Niðurstaða
Ákærðu bera það fyrir sig í málinu að þeir hafi farið inn á flugvallarsvæðið í krafti borgaralegs réttar og skyldu, enda hafi þeir með þessu verið að reyna að koma í veg fyrir að lög og mannréttindi væru brotin A og fjölskyldu hans. Jafnvel þótt fallist væri á það að með brottvísuninni hefðu verið brotin landslög eða alþjóðlegir samningar íslenska ríkisins á manninum og fjölskyldu hans (sem reyndar hefur ekki verið sýnt fram á í þessu máli), getur það ekki leitt til refsileysis fyrir ákærðu í málinu.
Í ákærunni er athæfi ákærðu talið varða við 231. gr. almennra hegningarlaga en sækjandinn hefur í málflutningi vakið athygli á því að það kunni að eiga undir 70., sbr. 141. gr. laga um loftferðir nr. 60, 1998 og við 1. mgr. 19. gr., sbr. 40. gr. reglugerðar um flugvernd nr. 361, 2005. Hefur málið verið reifað að þessu leyti, sbr. 4. ml. 1. mgr. 180. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008. Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. loftferðalaga er flugmálastjórn heimilt að takmarka aðgang að flugvöllum og flugvallarsvæðum og umferð um þau, svo og að banna umgengni eða dvöl á slíkum svæðum ef hún telur það nauðsynlegt vegna öryggis. Þá er, samkvæmt 1. mgr. 19. gr. reglugerðarinnar um flugvernd, einstaklingum, með undantekningum sem greinir í 2. mgr. en ekki skipta máli hér, því aðeins heimil ferð um og inn á flugsvæði flugvallar, þ.m.t. haftasvæði, að þeir hafi tilteknar gildar aðgangsheimildir útgefnar af viðeigandi flugvallaryfirvöldum. Þessi ákvæði loftferðalaga og reglugerðarinnar eru sérlög gagnvart hinu almenna ákvæði 231. gr. hegningarlaga og ganga framar því.
Sem fyrr segir höfðu ákærðu ekki heimild til þess að fara inn á afgirt svæðið við flugstöðina og þurftu að klifra yfir allrammgera girðingu til þess að komast þar inn. Hlutu þeir að gera sér grein fyrir því að almenningi var bannaður aðgangur að svæðinu. Með þessu athæfi brutu ákærðu gegn 1. mgr. 70., sbr. 141. gr. laga um loftferðir og gegn 1. mgr. 19., sbr. 40. gr. reglugerðar um flugvernd.
Verknaður ákærðu er í ákærunni einnig heimfærður til 168. gr. almennra hegningarlaga. Dómurinn lítur svo á að ekki hafi verið sýnt fram á það að ákærðu hafi með athæfi sínu valdið brýnni hættu fyrir menn eða verðmæti. Aftur á móti hlýtur ævinlega að fylgja því ófyrirséð og almenn hætta að fara um flugvelli og athafnasvæði við flugstöðvar. Þá geta afleiðingar af óhöppum á slíkum stöðum orðið geigvænlegar, eins og alkunnugt er. Verður að telja að með því að ryðjast inn á athafnasvæðið við flugstöðina, beinlínis til þess að trufla umferð þegar annríki var þar vegna brottfarar margra flugvéla, hafi þeir raskað öryggi flugvélanna sem þar voru. Hafa þeir með þessu athæfi orðið sekir um brot gegn 1. mgr. 168. gr. almennra hegningarlaga.
Refsing og sakarkostnaður
Þegar ákærðu er gerð refsing í málinu ber að hafa hliðsjón af refsimörkum 231. gr. almennra hegningarlaga en ekki refsimörkum 141. gr. laga um loftferðir. Jafnframt ber að hafa hliðsjón af refsimörkum 1. mgr. 168. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 2. mgr. 77. gr. þeirra laga.
Ákærði X hafði, þegar hann framdi brot sitt, þrisvar sinnum verið sektaður fyrir brot gegn 19. gr. lögreglulaga, síðast þremur dögum fyrir atburðinn. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga.
Ákærði Y hefur ekki áður gerst sekur um refsilagabrot. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 45 daga. Rétt er að fresta því að framkvæma refsingu þessa og ákveða að hún falli niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Dæma ber ákærðu til þess óskipt að greiða verjanda sínum, Ragnari Aðalsteinssyni hrl, 250.000 krónur í málsvarnarlaun, sem dæmast með virðisaukaskatti.
Ekki er kunnugt um annan kostnað af málinu.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 60 daga.
Ákærði, Y, sæti fangelsi í 45 daga. Frestað er framkvæmd refsingar hans og fellur hún niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu að telja, haldi ákærði almennt skilorð.
Ákærðu greiði verjanda sínum, Ragnari Aðalsteinssyni hrl, óskipt 250.000 krónur í málsvarnarlaun.