Hæstiréttur íslands
Mál nr. 41/2004
Lykilorð
- Manndráp
- Líkamsárás
- Sakhæfi
- Matsgerð
- Læknaráð
- Öryggisgæsla
|
|
Fimmtudaginn 13. maí 2004. |
|
Nr. 41/2004. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn Steini Stefánssyni (Björn L. Bergsson hrl.) |
Manndráp. Líkamsárás. Sakhæfi. Matsgerð. Læknaráð. Öryggisgæsla.
X var ákærður fyrir manndráp með því að hafa ráðist að B á heimili hans í Reykjavík og stungið hann með hnífi í brjóst, kvið og framhandlegg með þeim afleiðingum að B lést skömmu síðar. Þá var X einnig ákærður fyrir líkamsárás með því að hafa veist að gæslumanni á réttargeðdeildinni að Sogni. Deilt var um sakhæfi X en í málinu lágu fyrir ósamhljóða matsgerðir um geðheilbrigði hans. Staðfest var sú niðurstaða héraðsdóms að X hafi framið þau brot sem um ræddi. Talið var ljóst að hæfni X til að stjórna viðbrögðum sínum væri skert og að minnsta kosti á stundum væri hann haldinn ranghugmyndum og líklegur til að rangtúlka aðstæður þegar hann teldi sér ógnað. Með vísan til þessa, og framburðar starfsmanna réttargeðdeildarinnar að Sogni, sem báru um hversu gjörsamlega hömlulaus X var þegar hann framdi fyrrnefnda líkamsárás, var fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að X væri ósakhæfur og því bæri að sýkna hann af kröfu ákæruvalds um refsingu, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 2. janúar 2004 af hálfu ákæruvaldsins sem krefst sakfellingar samkvæmt ákæru 31. janúar 2003 og fyrri lið ákæru 4. apríl 2003 og refsiákvörðunar. Til vara er krafist öryggisgæslu samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur en til vara að ákærði verði látinn sæta öryggisgæslu með vísun til 16. gr., sbr. 62. gr., almennra hegningarlaga. Til þrautavara er krafist vægustu refsingar að lögum og að frá refsingunni verði dreginn sá tími sem ákærða var gert að sæta gæsluvarðhaldi.
Frekari gögn um geðheilsu ákærða hafa verið lögð fyrir Hæstarétt.
I.
Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Niðurstaða héraðsdóms var sú að ákærði hefði framið þau brot sem hann er sakaður um og til meðferðar eru fyrir Hæstarétti. Ríkissaksóknari og ákærði una heimfærslu héraðsdóms til refsiákvæða á þessum brotum. Héraðsdómur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að ákærði hefði þegar hann framdi brotin verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum og að honum yrði því ekki refsað, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga. Ákæruvaldið fellir sig ekki við þessa niðurstöðu.
Lögreglustjórinn í Reykjavík óskaði eftir því undir rannsókn málsins við Sigurð Pál Pálsson geðlækni að hann rannsakaði geðheilbrigði ákærða. Niðurstaða læknisins er rakin í héraðsdómi og kemur þar fram það álit hans að ákærði hafi verið sakhæfur þegar hann framdi brotið samkvæmt ákæru 31. janúar 2003 og að gögn málsins bendi ekki til þess að hann hafi haft geðrofseinkenni við verknaðinn. Hann hafi hins vegar verið undir talsverðum áhrifum lyfja og „líklegast verið undir niðri mjög ör, spenntur, tortrygginn og léttilega árásargjarn.“ Stutt hafi þá verið í ofsafengin viðbrögð teldi hann sér ógnað. Vitnaði Sigurður Páll til þess að ákærði hafi áður verið vistaður í fangelsi í langan tíma og refsing komið að litlu gagni. Taldi læknirinn að vegna geðrofseinkenna ákærða á tímabilum og annarra vandamála yrði að meta það hverju sinni hvar best væri að vista hann.
Héraðsdómur varð við þeirri beiðni verjanda ákærða að dómkveðja tvo matsmenn, geðlæknana Sigmund Sigfússon og Helga Garðar Garðarsson, til þess að meta hvort ákærði væri sakhæfur í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga og yrði niðurstaðan sú að hann væri sakhæfur að meta hvort ætla mætti að refsing gæti borið árangur, sbr. 16. gr. sömu laga. Í héraðsdómi er álit þeirra rakið. Það var skoðun þeirra að samkvæmt gögnum málsins mætti ætla að ákærði hefði verið í geðrofsástandi nær óslitið frá 21 árs aldri og væri því afar ólíklegt að hann hefði ekki verið í því ástandi þegar hann framdi verknaðinn 26. september 2002. Töldu matsmennirnir að þegar svo alvarlegur geðsjúkdómur sé fyrir hendi snúist spurningin um sakhæfi ekki eingöngu um hvort um virk geðrofseinkenni hafi verið að ræða á verknaðarstundu. Hin umfangsmiklu áhrif sjúkdómsins á dómgreind, hvatastjórn, reiðistjórn og fleira skipti jafn miklu máli. Var niðurstaða matsmanna sú að ákærði hafi sökum geðveiki verið ófær um að stjórna gerðum sínum þegar verknaðurinn var framinn og hann því ósakhæfur.
Þegar matsgerðin lá fyrir óskaði sækjandi málsins eftir því að héraðsdómur legði álitaefnið um sakhæfi ákærða fyrir læknaráð með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 14/1942 um læknaráð. Álit þess var að ákærði eigi við alvarlegan geðsjúkdóm að stríða (geðklofa með ofsóknarkennd) og flestar líkur bendi til að sakhæfi hans hafi verið skert þegar verknaðurinn var framinn en þó hafi ekki verið sýnt fram á að ákærði hafi á þeirri stundu verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum. Taldi ráðið að flest benti til að 16. gr. almennra hegningarlaga ætti við í þessu tilviki.
Sigurður Páll Pálsson geðlæknir kom fyrir héraðsdóm og sagði skoðun sína ekki hafa breyst um að ákærði hafi þegar verknaðurinn var framinn verið sakhæfur. Hann taldi að ákærði ætti best heima í öruggu fangelsi eða á stofnun, sem væri eins og réttargeðdeildin að Sogni en fyrir sakhæfa. Hann kvað fólk með persónuleikatruflanir ekki stýrast af ranghugmyndunum, en það ætti auðveldara með að missa algjörlega stjórn á gerðum sínum. Hann taldi refsingu geta borið árangur.
Matsmennirnir Sigmundur Sigfússon og Helgi Garðar Garðarsson komu einnig fyrir dóm og staðfestu matsgerðina og ítrekuðu þau sjónarmið sem þar koma fram. Þeir voru sammála um það að ákærði væri hættulegur og óútreiknanlegur svo sem dæmi sýndu úr sögu hans. Hann myndi verða það um langa framtíð meðan ekki væri unnt að ná betri tökum á sjúkdómsástandi hans. Í fangelsum landsins væru ekki viðunandi meðferðaraðstæður. Erfitt væri að ná góðu sambandi við hann vegna persónuleikaröskunar.
II.
Álit Sigurðar Páls Pálssonar geðlæknis byggist á athugun hans á ákærða undir rannsókn málsins og matsgerð geðlæknanna Sigmundar Sigfússonar og Helga Garðars Garðarssonar á sjálfstæðri geðheilbrigðisrannsókn á honum á tímabilinu 2. júlí 2003 til 1. september sama ár. Álit læknaráðs er hins vegar umsögn um skriflegar álitsgerðir þessara lækna um rannsóknir þeirra, svo sem lagt var fyrir ráðið að veita.
Starfsmenn réttargeðdeildarinnar að Sogni komu fyrir héraðsdóm og sögðu frá því hversu gjörsamlega hömlulaus ákærði var þegar hann framdi verknað þann sem getið er um í fyrri lið ákæru 4. apríl 2003, hversu langan tíma tók að róa hann og til hvaða aðgerða varð að grípa. Styðja þær frásagnir það álit matsmanna að hann verði óútreiknanlegur þegar honum þykir að sér þrengt. Saga hans, sem meðal annars kemur fram í dómi Hæstaréttar 21. maí 1993 í máli nr. 67/1993, bls. 1081 í dómasafni, dómi Héraðsdóms Suðurlands 8. júní 1999 og framlögðum gögnum frá fangelsinu á Litla-Hrauni, styður þetta einnig. Jafnframt styðja gögn frá réttargeðdeildinni á Sogni, sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, álit matsmanna.
Með framangreindum athugasemdum en annars með vísun til raka héraðsdóms þykir bera að staðfesta hann.
Áfrýjunarkostnaður þar með talin málsvarnarlaun ákærða greiðast úr ríkissjóði, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Björns L. Bergssonar hæstaréttarlögmanns, 550.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. desember 2003.
Mál þetta, sem dómtekið var 9. desember sl., var höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 31. janúar 2003 á hendur Steini Stefánssyni, kennitala 071066-5179, Sogni, Selfossi, fyrir manndráp með því að hafa, að kvöldi fimmtudagsins 26. september 2002, veist að Braga Ólafssyni, fæddum 17. nóvember 1936, á heimili hans að Klapparstíg 11, Reykjavík og stungið hann með hnífi í brjóst, kvið og tvívegis í hægri framhandlegg, með þeim afleiðingum að Bragi lést skömmu síðar af völdum stungusárs í brjóst sem náði inn í hjarta.
Þetta er talið varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Hinn 8. maí 2003 var sakamálið nr. 1031/2003 þingfest og sameinað þessu máli en þar er ákærða gefin að sök eftirgreind hegningarlagabrot með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 4. apríl 2003:
1. Brot gegn valdstjórninni með því að hafa, fimmtudaginn 27. desember 2001, veist að Kristjáni Einarssyni, kennitala 180162-7719, gæslumanni á réttargeðdeildinni að Sogni, sparkað í bak Kristjáns, bitið sundur málmól á armbandsúri hans og slegið hann tvö hnefahögg í vinstri vanga, með þeim afleiðingum að hann marðist á baki, marðist og hruflaðist á vinstri úlnlið, marðist á vinstri kinn, fékk glóðarauga og brotnaði uppúr fjórum tönnum.
Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 101/1976 og lög nr. 82/1998.
2. Fyrir líkamsárás, sunnudaginn 9. mars 2003, í fangelsinu að Litla Hrauni, með því að hafa veist að Agnari Víði Bragasyni, kennitala 160966-3009, slegið hann hnefahögg í enni og hrint honum svo að hann féll í gólfið, með þeim afleiðingum að hann marðist á enni og hálsi og hlaut sár á fæti.
Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Hinn 10. september 2003 gaf ríkissaksóknari út framhaldsákæru við áður útgefnar ákærur frá 31. janúar og 4. apríl 2003 með heimild í 1. mgr. 118. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, á grundvelli nýrra læknisfræðilegra gagna um geðheilsu ákærða:
Á eftir kröfu um að ákærði verði dæmdur til refsingar komi: en til vara að honum verði gert að sæta öryggisráðstöfunum á viðeigandi stofnun samkvæmt 62. gr. og 63. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Verjandi ákærða gerir þær kröfur að ákærði verði alfarið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins en til vara að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa. Þá er krafist hæfilegra réttargæslu- og málsvarnarlauna að mati dómsins sem greiðist úr ríkíssjóði.
Ákæra frá 31. janúar 2003
Málsatvik.
Þann 26. september 2002 kl. 21:35 voru lögreglumenn sendir að Klapparstíg 11 en þaðan hafði borist tilkynning til Neyðarlínu um blóðugan mann eftir átök innandyra. Lögreglumenn komu á vettvang kl. 21:38 og tók vitnið Flosi á móti þeim og vísaði þeim inn í anddyri á 1. hæð hússins. Þar inni sat Bragi Ólafsson á stól og stóðu vitnin Ramona og Ulrich yfir honum. Bragi var í blóðugum háskólabol og var hann alblóðugur í kringum magann. Bragi var blóðugur á höndum og var einnig með blóðkám á andliti. Lögreglumenn spurðu Braga hvað hefði gerst og segir í skýrslunni að hann hafi svarað: „Steinn Ármann stakk mig.“ Lögreglumenn spurðu Braga hver Steinn Ármann væri og svaraði þá Bragi: „hinn eini sanni Steinn Ármann.“ Nokkuð var farið að draga af Braga þegar lögreglumenn ræddu við hann, komu sjúkraflutningamenn og læknir á vettvang skömmu síðar. Bragi missti meðvitund skömmu eftir að lögreglumenn ræddu við hann, og var hann úrskurðaður látinn stuttu eftir komu á slysadeild.
Flosi Magnússon, íbúi á 2. hæð hússins, kvaðst hafa setið í stofunni hjá sér þegar hann heyrði þunga dynki koma frá íbúð Braga. Íbúð Braga er í risi á 3. hæð hússins. Tjáði hann lögreglu að hann hefði heyrt Braga hrópa. Flosi kvaðst ekki hafa kippt sér upp við þetta þar sem ekki væri óvanalegt að hávaði kæmi frá íbúð Braga. Skömmu síðar hafi hann heyrt einhvern brölta niður stigann, frá risinu og niður á 1. hæð. Þá hafi hann heyrt Ramonu, sem býr á 1. hæð, hrópa og hafi hún komið strax upp til Flosa og beðið hann um að hringja eftir aðstoð þar sem Bragi væri slasaður. Flosi kvaðst hafa hringt strax í Neyðarlínuna. Flosi sagðist hafa séð mann koma niður stigann frá risinu þegar hann stóð frammi á gangi og hafi maðurinn verið á hlaupum. Maðurinn hafi sagt við Flosa þegar hann mætti honum „ég gerði þetta ekki“ og hafi hann svo rokið út úr húsinu. Flosi sagði manninn vera u.þ.b. 30 til 35 ára, dökkhærðan, feitlaginn, í svörtum buxum og blárri og svartri úlpu.
Ramona Pittroff og Ulrich Pirsch, sem búa á 1. hæð hússins, eru bæði þýsk og tala ekki íslensku en eitthvað í ensku. Þau sögðu Braga hafa knúið dyra hjá þeim en þau hafi ekki skilið hvað hann sagði. Þau hafi séð að Bragi var blóðugur og illa haldinn. Ramona hafi hlaupið beint upp til Flosa og beðið hann að hringja eftir hjálp. Þau hafi náð í stól inn til sín og látið Braga setjast á hann þar sem hann hafi verið orðinn máttlítill. Ramona og Ulrich sáu einnig manninn, sem kom hlaupandi niður úr risinu, og var lýsing þeirra á honum á sama veg og lýsing Flosa.
Á gólfi í stofu íbúðar Braga var blóðpollur við suðurvegg stofunnar. Einnig var blóðkám á suðurveggnum sjálfum. Greinileg ummerki átaka voru inni í stofunni m.a. var stofuborð á hvolfi, lampi brotinn, skrifborðsstóll var í sundur og geisladiskastandur lá á hliðinni. Engin ummerki innbrots voru sjáanleg á hurðinni að íbúð Braga. Blóðkám var á veggjum inni í stigahúsinu.
Síðar var lögð fram skýrsla um blóðugt lófa- og fingrafar sem tæknideild lögreglu fann á lampa á vettvangi.
Réttarkrufning var framkvæmd af Þóru S. Steffensen réttarmeinafræðingi og er skýrsla hennar dagsett 16. desember 2002. Ályktunarorð skýrslunnar eru svohljóðandi:
„Dánarorsök Braga Ólafssonar er stungusár í brjóstkassa og er um manndráp að ræða.
Stungusárið gekk inn í hjartað og olli blæðingu. Braga hefur blætt mikið innvortist og útvortis, skv. lýsingu á háskólabol Braga í lögregluskýrslu. Ef blæðing er hröð, getur lostástand orðið (þ.e. viðkomandi blætt út) við tap á svo litlu sem 15% af heildarblóðrúmmáli. Miðað við 5-5,5 lítra heildarrúmmál blóðs í fullorðnum karlmanni er það 750-780 ml. Innvortis í brjóstholi og gollurshúsi Braga voru tæpir 450 ml af blóði. Þar sem um var að ræða stungu beint í hjartað, getur skert starfsemi hjartans vegna áverkans verið hluti af skýringunni á losti Braga (hjartað getur ekki pumpað eðlilega vegna áverkans).
Auk þess var Bragi með stungusár á kviðvegg (sem var grunnt) og varnarsár á höndum og hægri framhandlegg.
Útlit sáranna bendir til að sagtenntur, eineggja hnífur hafi valdið þeim.
Réttarefnafræðilegar mælingar sýna amfetamín í blóði í styrk sem er innan þeirra marka sem búast má við þegar amfetamín er tekið í stærstu lækningalegum skömmtum. Bendir það til að Bragi hafi verið undir áhrifum amfetamíns þegar hann lést. Í blóði mældist einnig díazepam og nordíazepam í styrk sem er undir lækningalegum mörkum. Bendir það til að nokkuð langt sé liðið, líklega meira en sólarhringur (fyrir dauða) síðan Bragi tók díazepam síðast.
Það æxli sem fannst í heiladingli Braga var góðkynja. Sérlitanir sýndu ekki merki um hormónaframleiðslu æxlisfrumnanna. Ólíklegt er að Bragi hafi haft nokkur einkenni frá æxlinu.
Hvorki amfetamínneyslan, né kransæðasjúkdómur/hjartasjúkdómur Braga, né æxlið í heiladingli eiga þátt í dauðanum.“
Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Við aðalmeðferð málsins var tekin skýrsla af ákærða og vitnum svo sem nú verður rakið.
Ákærði, Steinn Stefánsson, vísaði í skýrslur sem hann hafði gefið hjá lögreglu 8. október 2002 og 23. desember 2002. Skýrslurnar voru bornar undir hann og kannaðist hann við efni þeirra og játaði þær réttar.
Við þingfestingu málsins játaði ákærði sök. Í lögreglurannsókn 8. október 2002 viðurkenndi ákærði að hafa orðið Braga Ólafssyni að bana með eggvopni. Þar kemur fram að hann lagði fram skriflega játningu. Í henni segir að ákærði hafi farið seinnipart fimmtudagsins í hús neðst á Lindargötu þar sem Pétur nokkur búi en hann hafi ætlað að kaupa eitt spjald af Ritalíni. Pétur hafi kallað á Braga sem kom til dyra. Bragi hafi sagst eiga Ritalín en spjaldið kostaði 5.000 krónur. Ákærði hafi aðeins verið með 3.000 krónur á sér en Bragi féllst á að taka gsm símann hans sem pant en hafi sagt honum að ef hann borgaði ekki fyrir klukkan ellefu myndi hann slá eign sinni á símann. Um kvöldið hefði hann náð í 2.000 krónur og hringt í Braga sem sagði honum að koma á Klapparstíg 11. Bragi hafi þar boðið honum að ganga í bæinn. Þeir hafi sest í stofunni. Ákærði hafi sest norðanvið en Bragi sunnanvið. Bragi hafi sagt honum að hann væri búinn að taka þetta saman og honum hafi reiknast til að ákærði skuldaði honum 18.000 krónur og hann fengi ekki símann fyrr en hann hefði gert upp þá skuld. Ákærði hafi ekki ætlað að láta hlunnfara sig á þennan hátt og gripið símann, sem lá á borðinu, og stungið honum í vasann. Hann hafi snúið sér í átt að útganginum en fengið þá þungt högg á hnakkann og fallið við. Bragi hafi þá staðið yfir sér með eitthvað barefli en hann sá ekki hvað það var þar sem ekkert ljós var í íbúðinni. Ákærði hafi gripið vasahníf, sem var í vinstri jakkavasa hans, og opnað hann með sömu hendi og stungið Braga í hægri hendi þannig að högg hans geigaði. Bragi hafi reitt aftur til höggs en þá hafi ákærði fært hnífinn í hægri hendi og stungið hann. Hann var ekki viss um hve ákverkar hans voru miklir en það hafi verið eins og allur máttur væri úr Braga. Bragi hafi grátbeðið hann að hjálpa sér fram á gang, sem hann gerði, og hann hafi heyrt hann banka á dyr nágranna sinna.
Í lögregluskýrslunni er haft eftir ákærða að hann hafi gengið Klapparstíginn niður á Sæbraut og austur hana. Hann hafi gengið á grasinu milli Skúlagötu og Sæbrautar og hent hnífnum frá sér í grasið þar á leiðinni. Hann sagði hnífinn vera kínverskan vasahníf með 7-8 cm löngu blaði og sé hann með hnífsblaði og einnig flugbeittu sagarblaði að sömu lengd og hnífsblaðið. Hann kvaðst hafa stungið Braga með hnífsblaðinu. Ákærði kvaðst hafa stungið Braga til að reyna að bjarga eigin lífi. Hann hafi talið sig vera í sjálfsvörn. Ákærði kvaðst hafa aðstoðað Braga við að komast fram á gang og hann hafi leitað að síma til að hringja á Neyðarlínuna en hafi engan fundið. Hann sagðist ekki hafa vitað þá að hægt væri að hringja í Neyðarlínuna úr gsm símanum án þess að eiga inneign á símakortinu. Hann hafi vitað að fólkið á neðri hæðum myndi hringja í Neyðarlínuna. Hann sagðist hafa farið út úr íbúð Braga og á leið sinni niður stigann hafi hann séð að flestar hurðir voru opnar. Hann hafi séð eitthvað fólk á leið sinni út. Þegar hann var kominn að útihurðinni hafi hann séð að Bragi sat á einhverju sem hann hélt vera kassa eða einhvað slíkt.
Vitnið, Flosi Magnússon, kvaðst hafa heyrt hávaða frá íbúð Braga fimmtudags-kvöldið 26. september í fyrra. Hann muni ekki klukkan hvað það var. Hann kvaðst búa á annarri hæð í húsinu en Bragi hafi búið í risinu. Hann kvað alvanalegt að það væru læti í íbúð Braga og á stigaganginum frá gestum eða viðskiptavinum Braga. Hann kvaðst hafa orðið var við þennan hávaða og skark og læti og svo uml í Braga. Hann kvað Braga hafa verið mjög óskýrmæltan. Vitnið sagðist hafa heyrt þegar Bragi staulaðist niður stigann og kvað hann hafa farið niður á 1. hæð. Næst hafi Ramóna Pittroff, sem býr á 1. hæðinni, bankað hjá sér og sagt að það hefði orðið slys og að það þyrfti að hringja í sjúkrabíl fyrir Braga og að honum blæddi. Flosi kvaðst hafa hringt strax í 112. Lögreglan hafi komið mjög fljótt. Hann kvaðst þá fyrst hafa gengið niður stigann til að athuga hvað væri. Vitnið sagði Ramonu og Ulrich sambýlismann hennar hafa sett stól undir Braga í lítilli forstofu þarna í húsinu og hann hafi setið þar og haldið um kvið sér og stunið. Lögreglan hafi komið í þeim svifum og Bragi hafi einungis ítrekað: „Þetta var Steinn Ármann - þetta var Steinn Ármann náið honum.“ Hann kvaðst aðspurður hafa heyrt þetta sjálfur en auk þess hafi einn eða tveir lögreglumenn verið í forstofunni að athuga með Braga. Flosi kvaðst aðspurður hafa séð mann í stigaganginum. Hann kvaðst hafa staðið ásamt Ramónu í dyragætt íbúðar sinnar en stigagangurinn sé nánast óupplýstur. Í rökkrinu hafi komið maður sem hafi muldrað eitthvað með sjálfum sér: „Ég gerði það ekki, þetta var ekki mér að kenna.“ Hann kvaðst hafa séð þennan mann ganga niður og beint út. Sagði hann manninn hafa verið dökkhærðan, heldur lægri en hann sjálfur og líklega í úlpu eða jakka. Hann hafi verið dökkklæddur. Aðspurður sagði Flosi að sér hafi fundist eins og átök ættu sér stað þegar hann heyrði hávaða frá efri hæðinni og eins og húsgögn væru færð til. Sagðist hann hafa heyrt rödd Braga og einhverjar aðrar raddir eða aðra rödd.
Vitnið, Ulrich Prisch, kvaðst að kvöldi 26. september í fyrra hafa heyrt einhvern koma niður tröppurnar. Þá hafi Bragi hringt dyrabjöllunni hjá þeim. Hann hafi haldið höndunum á maganum á sér og sést hafi blóð á honum. Hann kvaðst hafa hringt í lækni í 110 en þeir hafi ekki skilið hann og þess vegna hafi Ramona sambýliskona hans farið upp til Flosa og beðið hann um að ná í lögregluna og sjúkrabíl. Ulrich kvaðst hafa reynt að hjálpa Braga, hafi hann náð í stól og sett hann þar. Lögregla hafi komið, og einni til tveimur mínútum seinna hafi sjúkrabíllinn komið. Áður en lögreglan kom hafi hann séð mann koma niður stigann. Maðurinn hafi verið í bláum jakka með svörtum kraga og verið með skegg. Maðurinn hafi sagt eitthvað en vitnið kvaðst ekki hafa skilið hvað hann sagði. Maðurinn hefði virkað alveg rólegur. Hann hefði farið út úr húsinu og inn í Lindargötu til austurs. Svo hefði lögreglan komið og læknir sem hafi séð um Braga.
Vitnið, Ramona Pittroff, kvaðst að kvöldi 26. september á síðasta ári, hafa orðið vör við að einhver kom niður tröppurnar. Þá hafi dyrabjöllinni verið hringt hjá þeim og fyrir utan hafi Bragi verið blóðugur. Ramona kvaðst hafa farið upp til Flosa en Ulrich hefði verið eftir hjá Braga. Vitnið sagði hurðina á íbúð Flosa hafa verið opna og hefði hún séð mann koma niður tröppurnar. Sagði hún manninn hafa verið dökkhærðan og í regnjakka, svona sportjakka. Minnti hana að jakkinn hefði verið blásvartur en var ekki viss. Aðspurð sagði Ramona það hafa liðið u.þ.b. tvær mínútur frá því að þau opnuðu fyrir Braga og voru að átta sig og þangað til hún fór upp til Flosa.
Vitnið, Sigurður Jóhann Stefánsson lögreglumaður, kvaðst hafa komið á vettvang að Klapparstíg 11 fimmtudagskvöldið 26. september 2002 og ritað frumskýrslu í málinu. Hann sagði lögreglu hafa fengið tilkynningu um að það væru slagsmál á Klapparstíg og þar væri blóðugur maður. Á leiðinni þangað hafi þeir fengið upplýsingar um að hann hefði hugsanlega verið stunginn. Þegar þeir komu á vettvang hafi Bragi setið á stól í anddyrinu og fólk staðið yfir honum. Bragi hafi verið alblóðugur og farið að draga svolítið af honum. Hann hafi greinilega verið búinn að missa mikið blóð. Vitnið kvaðst hafa spurt hann hvað hefði gerst og hver hefði ráðist á hann. Kvaðst vitnið telja sig muna að Bragi hefði sagt „Steinn Ármann stakk mig.“ Hann hafi þá spurt „Steinn Ármann hver?“ og Bragi svarað: „Steinn Ármann hinn eini sanni“ eða „hinn rétti“ og hafi þeim þremur lögreglumönnum, sem voru á vettvangi, öllum dottið sami maðurinn í hug. Sigurður sagði aðspurður að sig minnti að ekki hefði verið mjög góð birta inni í íbúðinni. Hún hafi verið nokkuð dimm. Hann kvaðst vera nokkuð viss um að það hafi verið kveikt ljós inni í því herbergi þar sem átökin áttu að hafa átt sér stað. Hann kvaðst aðspurður ekki muna hvort þar var loftljós eða lampi. Hann kvaðst ekki muna hvort það var birta frá sjónvarpi.
Vitnið, Sigurður Jónasson lögreglumaður, kvaðst hafa komið á staðinn umrætt kvöld ásamt félaga sínum. Sagði hann þá hafa verið fyrsta á vettvang. Vitnið kvaðst hafa farið inn í íbúð á 1. hæð en þar hefði setið maður á stól með stungusár. Hann kvaðst hafa spurt manninn hvað hefði gerst og hann hafi sagt: „Hann stakk mig.“ Hann kvaðst hafa spurt: „Hver stakk þig?“ og hann hefði svarað: „Steinn Ármann.“ Hann kvaðst hafa spurt hann: „Hver er Steinn Ármann“ og hann svarað: „Steinn Ármann hinn eini sanni. Þið þekkið hann.“ Vitnið sagði sjúkraliðið hafa komið þarna í kjölfarið en hann hafi aðstoðað það við að færa manninn á börur og síðan ekið sjúkrabílnum með forgangi á slysadeild að þeirra beiðni. Vitnið sagði aðspurt að Braga hefði hrakað mjög ört. Hann hefði verið orðinn meðvitundarlítill ef ekki meðvitundarlaus þegar hann hafi verið kominn á börurnar.
Vitnið, Sigurður Pétursson lögreglumaður, kvaðst hafa komið á vettvang að Klapparstíg 11 umræddan dag. Hann kvaðst hafa verið í annarri áhöfn, sem kom á staðinn, en þá hafi borið að nánast á sama tíma. Hann hafi hitt Braga þar fyrir og hafi hann verið með stungusár. Taldi vitnið að Sigurður Jónasson lögreglumaður hefði spurt Braga að því hver hefði stungið hann og hefði Bragi svarað: „Steinn Ármann“ og spurður hvaða Steinn Ármann, hefði hann sagt eitthvað sem svo: „Þið eigið að þekkja hann, hann er alltaf í höndunum á ykkur þessi eini sanni.“ Hefðu strax verið kallaðir út bílar til þess að leita að ákærða. Eftir að sjúkraliðið kom, sem hefði verið fljótt, þá hefði hann leitað að hugsanlegu vopin og ákærða í nágrenninu.
Vitnin, Pétur W. B. Arnþórsson slökkviliðsmaður og Helgi Þór Loftsson sjúkraflutningsmaður, lýstu fyrir dóminum aðkomu á vettvangi og vinnu sinni þar og í sjúkrabifreið á leið á slysadeild.
Vitnið, Mikael Smári Mikaelsson læknir, lýsti aðkomu sinni á vettvang. Kvað hann manninn með hnífstunguna hafa verið með einhverja meðvitund þegar hann kom á vettvang, en lítið svarað sér, verið fölleitur og sveittur, en fylgst með umhverfi sínu. Hann hefði misst meðvitund þegar verið var að flytja hann niður tröppurnar. Hann hafi verið fluttur í sjúkrabílinn og þar hafin grunn endurlífgun en þá hafi hann enn verið með þreifanlegan púls. Það hafi verið sett á hann súrefni og settur upp vökvi. Lífgunartilraunir hefðu verið í gangi í sjúkrabílnum, en einhversstaðar á leiðinni á slysadeildina hefðu þeir misst hann alveg.
Vitnið, Friðrik Sigurbergsson læknir, kvaðst hafa verið læknir á slysa- og bráðasviði Landspítalans í Fossvogi 26. september á síðasta ári þegar komið var með Braga Ólafsson. Hann sagði að það hefði verið hringt frá Neyðarlínu á slysadeildina og sagt að á leiðinni væri sjúkrabíll með mann sem hefði orðið fyrir hnífstungu í húsi við Klapparstíg og að ástand hans væri alvarlegt. Komið var með manninn á slysadeildina 21.55 en þá var hann fullkomlega líflaus. Hafnar hefðu verið hefðbundnar aðgerðir til að reyna að koma lífi í manninn sem tókust ekki. Aðgerðum hafi verið hætt eftir tuttugu mínútur. Hann hafi verið úrskurðaður látinn kl. 22.15.
Vitnið, Árni Þormóðsson, kvaðst vera næturvörður á Vogi. Hann hafi verið við vinnu þetta kvöld sem ákærði kom. Hann hefði líklega komið um ellefuleytið og viljað fá innlögn. Hann hafi viljað tala við hjúkrunarfræðing. Það séu starfsreglur að menn séu ekki teknir inn á nóttunni og eftir samtal við hjúkrunarfræðing hafi það orðið að ráði að hann fengi gistingu hjá lögreglu. Hann kvaðst hafa talað við ákærða á meðan hann beið eftir lögreglunni um ástæðu þess að hann vildi koma þarna inn. Sagði hann ákærða hafa sagt við sig að hann hefði lent í einhverju eða gert eitthvað, lent í einhverju hroðalegu eða gert eitthvað hroðalegt, eitthvað slíkt. Kvaðst vitnið ekki muna þetta nákvæmlega. Aðspurður um hvernig ákærði hefði verið í háttum sagði vitnið hann ekki hafa verið ósvipaðan því sem hann var vanur að vera. Hann hafi verið þungur og niðurdreginn. Honum hefði sýnst hann vera rólegur þótt hann ætti í einhverri innri baráttu. Vitnið var spurt hvort ákærði hafi haft orð á því að honum hefði orðið svakalega á í messunni. Vitnið sagði ákærða hafa orðað það þannig, en það væri orðið nokkuð langt síðan þetta samtal átti sér stað. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa séð blóð eða neitt slíkt á fötum ákærða.
Vitnið, Guðrún Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur á Vogi kvað ákærða hafa komið á Vog um miðnætti, hún hefði verið að enda vaktina og hefði verið beðin um að koma fram í anddyri. Sagði hún ákærða hafa verið að leita sér hjálpar, en hún hefði sagt honum að það væri ekki vakt þarna og hann gæti ekki fengið aðstoð hjá þeim núna. Kvaðst hún hafa spurt hann hvort hún ætti að hringja á lögreglu. Hann hafi engan annan stað haft að fara á og því hafi hann fallist á það. Vitnið kvaðst aðspurt hafa séð að ákærða leið ekki vel. Hann hafi verið sveittur en ekki sýnt þeim óvild. Guðrún sagði aðspurð að ákærði hefði klæðst íþróttaklæðnaði, úlpu og joggingbuxum að hana minnti. Hún sagðist ekki hafa orðið vör við blóð á fatnaði hans. Borin voru undir vitnið ummæli þess í lögregluskýrslu um að ákærði hefði beðið hana að kalla á lögreglu. Kvaðst Guðrún ekki þora alveg að segja um það hvort svo hafi verið en hélt að það hefði ekki verið þannig. Sagði hún ákærða hafa verið því samþykkan hvernig sem það hefði verið.
Vitnið, Svanur Elísson, rannsóknarlögreglumaður, lýsti fyrir dóminum vinnu sinni á vettvangi. Hann annaðist vettvangsvinnu í málinu, ljósmyndaði vettvang og tók sýni. Hann staðfesti rannsóknargögn þau sem hann hafði unnið í málinu. Svanur sagði lýsingu í íbúðinni hafa verið ábótavant. Það hefði vantað lýsingu á nokkrum stöðum. Hann kvaðst ekki muna hvort kveikt hefði verið ljós í lofti í stofunni en sagði að kveikt hefði verið á sjónvarpi. Sagði hann stofu íbúðarinnar hafa borið greinileg merki átaka. Svanur sagði aðspurður að lampi og slaghamar hefðu verið skoðuð með tilliti til fingrafara. Sagði hann ekki hafa fundist nothæf fingraför á slaghamrinum en smá blóð hefði verið á hamrinum. Sagði hann að á lampanum hefði verið blóð og þar hefðu fundist lófaför.
Vitnið, Bjarni J. Bogason aðstoðaryfirlögregluþjónn, lýsti rannsókn á fingraförum og lófafari á lampa sem fannst á vettvangi. Sagði hann að á lampanum hefðu verið blóðug för. Sagði hann rannsókn hafa leitt í ljós að þau hefðu ekki stafað frá ákærða. Sagði hann aðspurður að það hefðu verið til fingraför af hinum látna, en ekki lófafar. Það hefði ekki verið hægt að kveða á um það hvort fingraförin væru frá hinum látna, gæði þeirra hefðu ekki verið nægilega góð til þess. Hinn látni hefði samkonar tegund fingrafara og þarna fannst, ekki væri hægt að útiloka að það stafaði frá honum.
Vitnið, Sveinn Magnússon læknir, kvaðst hafa skoðað ákærða ítarlega eftir handtöku. Hann kvaðst aðspurður ekki hafa séð nein merki um að ákærði hefði fengið höfuðhögg. Aðspurður taldi Sveinn mjög líklegt að maður, sem hefði verið sleginn með barefli þungt aftan á höfuðið, væri með merki eftir það. Sagði hann engin slík merki hafa verið á ákærða, hvorki í formi eymsla eða kúlu eða annars slíks. Vitnið sagði aðspurður að honum hefði fundist ákærði vel áttaður. Hann hefði vitað hvar hann var og stað og stund. Hann sagði ákærða hafa gert sér grein fyrir aðkomu vitnisins og hvað var að gerast þarna, en sér hefði fundist eins og honum brygði við að heyra nánar um það, eins og honum hefði komið á óvart að þetta hefði endað svona. Aðspurður sagði hann að ekki hefði borið á neinum ranghugmyndum hjá ákærða. Aðspurður kvað hann ákærða ekki hafa tjáð sig að fyrra bragði.
Vitnið, Gunnlaugur B. Geirsson prófessor, staðfesti fyrir dóminum álitsgerð sína um DNA-rannsókn í málinu. Hann sagði blóðsýni úr úlpu er lögregla færði honum hafa verið sent til DNA-rannsóknar. Rannsóknarniðurstaðan hefði verið á þá leið að DNA-snið það sem vannst úr blóðinu, sem var í efni úlpunnar, og það sem var tekið úr hinum látna hafi verið samskonar. Sagði hann að ávallt ættu að vera lægri líkur en 1/10.000 á að finna annan mann með sama sniði.
Vitnið, Þóra Steinunn Steffensen réttarmeinafræðingur, staðfesti skýrslu sína og skýrði niðurstöður. Hún var beðin að gera grein fyrir helstu niðurstöðum krufningarinnar. Hún bar að til staðar hefði verið stungusár á brjóstkassa framanverðum lítillega til hægri, sem að gekk í gegnum bringubeinið og gollurshúsið og inn í hægri slegil hjartans, og hefði leitt til blæðingar í gollurshúsi og blæðingar í vinstra brjóstholi. Síðan hefði verið stungusár á kviðvegg vinstra megin sem að hefði gengið í fituna í kviðveggnum en ekki náð inn í kviðarholið. Þá hefðu verið fimm sár á efri útlimum, svokölluð varnarsár, tvö stungusár á hægri framhandlegg og skurðsár á hægra handarbaki, hægra litla fingri og vinstri löngutöng. Spurð hvort hægt væri að segja til um með hve miklu afli stungusár Braga hefðu verið veitt, sagði hún að í þessu tilviki hefði hnífurinn gengið í gegnum bringubeinið og þyrfti meira afl til að hnífur gengi í gengum bein en mjúkvef. Sagði hún að af mjúkvefjum væri það húðin sem veiti mest viðnám við stungu og ef hnífur væri beittur og með hvassan odd væri talað um að það þyrfti ekki meira en tveggja punda þrýsting til að hann kæmist gegnum húðina en meiri kraft þyrfti til að komast í gegnum bein og til þess þyrfti mikið afl. Hér færi sárið á brjóstkassanum í gegnum bringubeinið, hnífurinn hafi sett 2,8 sm sár á bringubeinið og gengið niður í hjartað sem sé varið af bringubeininu. Vitninu var sýnd mynd af hnífi og var spurð hvort líklegt væri að svipuðum hnífi hefði verið beitt. Sagði hún það geta verið að slíkur hnífur hefði valdið sárum Braga en að sjálfsögðu kæmu aðrar tegundir eineggja og skörðóttra hnífa til greina. Kvaðst hún telja að eineggja skörðóttum hníf hefði verið beitt. Sléttur hnífur kæmi einnig til greina ef hann hefði þá gengið það langt inn að hakið hefði farið inn fyrir bringubeinið. Vitnið kvaðst aðspurð ekki geta staðsett hnífsstungumanninn á verknaðarstund miðað við Braga sjálfan en sagði staðsetningu á sárunum benda til þess að Bragi hefði verið uppréttur. Sérstaklega spurð kvað vitnið ekki hægt að útiloka að Bragi kynni að hafa beygt sig fram og yfir stungumanninn. Vitnið sagði að eingöngu stungusárið í brjóstholið hefði valdið dauða Braga.
Vitnið, Pétur Hreinn Sighvatsson, kvað ákærða hafa komið heim til sín um morguninn þennan umræddan dag með öðrum manni sem hefði átt hjá sér peninga. Maðurinn hafi farið fram á það við sig að hann kæmi til móts við hann og léti hann hafa lyf upp í skuldina en vitnið kvaðst hafa þvertekið fyrir það. Þetta hefði endað með því að vitnið hefði flúið út úr húsinu og upp í Samhjálp þar sem ákærði hefði gert atlögu að honum. Hefði sér fundist eins og maðurinn hefði sent ákærða á hann. Hefði þetta endað með því að hann hefði hent í þá tveimur spjöldum af lyfjum sem hann notaði. Sagði hann ákærða hafa komið aftur á heimili sitt síðdegis og viljað biðja hann afsökunar. Þá hefði einhver stúlka verið í för með honum. Fyrr um daginn hefði hann séð stúlkuna með manninum sem hann kannaðist við. Hann kvaðst aðspurður hafa verið einn heima þá. Hann sagði ekki rétt að Bragi hefði verið hjá sér þegar ákærði kom, hann hefði ekki hitt Braga þennan dag, en talað við hann í síma og ætlað að fara til hans. Borin var undir vitnið skýrsla sem tekin var af honum hjá lögreglu en þar segir hann að sig minni að einhver maður hafi verið með sér en honum sé ómögulegt að muna hver það var. Vitnið sagðist ekki minnast þessa nú. Hann sagðist ekki muna sérstaklega eftir að hafa sagt þetta í lögregluskýrslunni, en kvaðst enga ástæðu hafa til að rengja skýrsluna. Aðspurður kvaðst hann hafa munað þetta örlítið betur þá en hann geri í dag.
Vitnið Elsa María Sverrisdóttir kvaðst minnast þess að hafa farið með ákærða heim til vitnisins Péturs Hreins um morguninn umræddan dag. Aðspurð kvað hún Braga hafa verið þar og hafi ákærði talað eitthvað við hann, en hún hafi ekki þekkt hann. Hún kvaðst hafa verið í miklu rugli þarna og búin að vaka lengi, en taldi að ákærði hefði verið að fá fíkniefni eða eitthvað annað hjá Braga. Hún kvaðst hafa farið þaðan aftur með ákærða en svo hafi þau orðið viðskila. Hún minnntist þess að ákærði hefði talað um að fara til ákærða um kvöldið, hafi henni skilist að Bragi skuldaði honum peninga. Spurð hvaða efni ákærði hefði verið að fá hjá Braga, kvaðst hún telja það hafa verið Rítalín. Spurð hvor ákærði hefði borgað fyrir þetta, taldi hún hann hafa látið Braga hafa símann sinn. Hún kvaðst ekki vita hvernig þeim samdist, en venjulega leysi menn síma til sín aftur með peningum. Vitnið kvað ákærða hafa verið undir einhverjum áhrifum, líklega Rítalíns. Borin voru undir vitnið ummæli í lögregluskýrslu um að ákærði eða einhver annar hefði talað um að ræna Braga, kvaðst hún ekki geta fullyrt hver hefði sagt þetta. Hún kvaðst lítið hafa þekkt ákærða og hún hefði verið dálítið smeyk við hann. Hún mundi ekki eftir samtali sem vitnið Pétur Hreinn hefur borið um nokkrum dögum eftir morðið, þar á hún að hafa sagt að ákærði hefði ætlað heim til Braga til að leggja til hans, en hún tók ekki fyrir að það gæti hafa átt sér stað.
Niðurstaða.
Að kvöldi fimmtudagsins 26. september var lögregla og sjúkralið kvödd að Klapparstíg 11, Reykjavík. Þar fannst fyrir Bragi Ólafsson með stungusár, var hann með meðvitund en all nokkuð af honum dregið. Tjáði hann lögreglumönnum að Steinn Ármann hefði stungið sig. Missti hann meðvitund þegar verið var að flytja hann út í sjúkrabifreiðina. Hann var úrskurðaður látinn skömmu eftir að hann kom á sjúkrahús, en lífsmörk hurfu á leið þangað í sjúkrabifreiðinni og endurlífgunartilraunir báru ekki árangur. Samkvæmt niðurstöðu Þóru Steffensen, var dánarorsök stungusár í brjóstkassa, sem gekk inn í hjartað og olli því að Braga blæddi út. Að auki var hann með stungusár á kviðvegg, sem ekki gekk inn í kviðarhol, og varnarsár á höndum og hægri framhandlegg. Morðvopnið hefur ekki fundist en samkvæmt lýsingu ákærða var það vasahnífur með tveimur 8,5 sm löngum eineggja blöðum, öðru tenntu.
Ákærði hefur játað að hafa stungið Braga Ólafsson ofangreint kvöld. Hann hefur lítið tjáð sig fyrir dóminum en staðfesti þar skriflega játningu sína og lögregluskýrslur. Samræmist játning hans og frásögn, eftir að hann fór að muna atburðarásina, öðrum málsgögnum. Blóð var á fötum ákærða og var staðreynt með DNA rannsókn að það væri úr Braga heitnum.
Ákærði kveðst hafa hitt Braga heitinn fyrr sama dag, heima hjá vitninu Pétri Hreini, og keypt af honum lyf, Rítalín, en ekki hafa átt fyrir öllu því endurgjaldi sem upp var sett og lagt gsm síma sinn í pant fyrir afganginum. Vitnið Elsa María var í samfylgd ákærða fyrr þennan dag og staðfestir hún þessa frásögn ákærða. Pétur Hreinn staðfestir að ákærði hafi komið til sín þennan dag en ekki Bragi. Ákærði ber að hann hafi farið til Braga um kvöldið í þeim erindagerðum að borga skuld sína frá því um morguninn og endurheimta símann sinn. Vitnið Elsa María taldi sig muna að komið hefði fram að ákærði ætlaði síðar sama dag til Braga og taldi hún að það hefði verið vegna skuldar. Hún kvaðst ekki geta staðfest það sem kemur fram í lögregluskýrslum hennar og Péturs Hreins, annars vegar að hún hefði heyrt að ákærði eða einhver annar ætlaði að ræna Braga, og hins vegar að ákærði hefði sagt þegar þau skildu, að hann ætlaði að fara og leggja til Braga.
Ákærði lýsir fundi þeirra Braga heitins þannig að þegar hann hafi ætlað að greiða Braga eftirstöðvarnar, 2.000 krónur, og taka símann sinn hafi Bragi krafið hann um mun hærri upphæð eða 18.000 krónur. Hann hafi þá tekið síma og ætlað að fara út, en þá fengið þungt högg í höfuðið, dottið og vankast, er hann hefði snúið sér við hefði Bragi staðið yfir honum með eitthvað barefli reitt til höggs. Kvaðst hann ekki hafa séð hvað það var sem Bragi hélt á. Hefði hann þá sér til varnar tekið hnífinn úr vasanum og stungið Braga, fyrst í handlegg og síðan aftur. Upplýst er að íbúðin var mjög illa lýst og samræmist það frásögn ákærða, einnig getur það staðist samkvæmt vætti Þóru Steffensen að Bragi hafi lotið yfir ákærða þegar atlögurnar áttu sér stað, þó ekki sé hægt að fullyrða neitt um stöðu mannanna annað en það að Bragi hafi ekki verið útafliggjandi. Blóðugt handarfar og fingrafar var á lampa í íbúðinni, sem ekki er eftir ákærða en gæti verið eftir Braga þótt þetta sé ekki staðfest. Á hinn bóginn fundust við læknisrannsókn á ákærða engin merki um höfuðhögg.
Ákærði kveðst hafa áttað sig á að Bragi þyrfti læknishjálp eftir atlögur sínar, og hafi Bragi borið sig illa. Ákærði kveðst hafa hjálpað honum fram á gang og leitað að síma en ekki fundið, en hann hafi haldið að hann gæti ekki hringt úr sínum síma. Hann kveðst síðan hafa forðað sér af vettvangi, á leiðinni niður stigann hafi hann séð Braga sitja niðri og opið hafi verið inn í íbúðir. Ákærði leitaði innlagnar á Vogi og var handtekinn þar um einum og hálfum tíma eftir atburðinn.
Með játningu ákærða og öðrum málsgögnum er sannað að ákærði framdi það brot sem í ákæru greinir og er þar réttilega heimfært til refsiákvæðis.
Ákæra frá 4. apríl 2003.
Ákæruliður 1.
Málsatvik.
Hinn 27. desember 2001 fóru lögreglumenn að Sogni, Ölfushreppi til að annast flutning á ákærða frá Sogni að Litla-Hrauni. Að sögn Hrafnhildar, hjúkrunarfræðings að Sogni, hafði kastast í kekki milli ákærða og Bergþóru Guðmundsdóttur vistmanns. Þegar tveir starfsmenn, Árni Rúnar Baldursson og Kristján Einarsson, hafi ætlað að hemja ákærða hafi hann veist að þeim. Starfsmennirnir hafi eitthvað meitt sig í átökunum og Kristján eyðilagt armbandsúr. Þá hefði ákærði hrækt framan í Kristján.
Ákærði, Steinn Stefánsson, neitaði sök. Hann vildi ekki tjá sig um málið fyrir dómi en vísaði í lögregluskýrslu sem tekin var af honum 9. janúar 2003.
Framburður ákærða og vitna fyrir dómi og önnur sakargögn.
Samkvæmt lögregluskýrslunni kvaðst ákærði hafa í umrætt sinn verið staddur í reykherbergi í kjallara að Sogni þegar Bergþóra Guðmundsdóttir hafi komið þar inn. Hún hafi tekið að rífast í honum en hann hafi sagt við hana að tala við geðlækninn sinn en ekki sig ef hún ætti í einhverjum vandamálum. Ákærði kvaðst hafa staðið upp og snúið Bergþóru niður í gólf. Þá hafi gæslumennirnir Kristján og Árni Rúnar komið. Þeir hafi tekið hann og sett hann í stólinn og sagt honum að vera rólegur. Hann hafi hlýtt því. Sagði hann Kristján og Árna hafa stillt sér upp fyrir framan hann og snúið baki í hann. Fyrir framan þá hafi Bergþóra verið og hrópað eitthvað að ákærða í móðursýkiskasti. Ákærði kvaðst hafa beðið gæslumennina þrisvar eða fjórum sinnum að fjarlægja Bergþóru en þeir hafi ekki orðið við því. Skyndilega hafi Bergþóra komist á milli Kristjáns og Árna og sparkað í hann. Þegar hún hafi sparkað aftur í hann hafi hann reiðst og ákveðið að standa upp og fara í herbergi sitt sem var á þriðju hæð og losna úr þessu því gæslumönnunum hafi ekki tekist að verja hann fyrir Bergþóru. Ákærði kvaðst hafa olnbogað sig áfram upp úr stólnum. Sagði hann hugsanlegt að hann hefði rekist í Kristján og Árna en það hefði ekki verið ætlun hans að slá og meiða þá. Ef þeir hafi orðið fyrir höggi, hafi það verið algjört óviljaverk. Ákærði sagði Kristján og Árna hafa í framhaldi af þessu tekið sig fantatökum og skellt sér á bakið ofan á borð og haldið sér þannig að hann fékk köfnunartilfinningu. Hann kvaðst hafa skyrpt út úr sér blóði, sem hafi safnast fyrir í munni hans, en hann hafi ekki beint því að gæslumönnum. Kvað hann þá hafa haldið sér föstum þar til lögregla kom á staðinn.
Vitnið, Kristján Einarsson, öryggisgæslumaður á Sogni, kvaðst hafa verið staddur í matsal á réttargeðdeildinni að Sogni þennan dag líklega um klukkan sjö. Þá hafi neyðarbjalla í kjallara hringt. Hann kvaðst hafa stokkið niður og þar hafi verið tveir skjólstæðingar, ákærði og Bergþóra Gunnarsdóttir, að kýtast og hafi þau verið komin í handalögmál. Hann sagðist hafa gengið á milli þeirra. Þar sem Bergþóra hafi gert sig líklega til að ráðast á ákærða hafi hann gengið á milli og snúið baki í ákærða til að verja hann fyrir höggum frá Bergþóru. Sagði hann ákærða ábyggilega hafa misskilið þessa vörn og sparkað í bakið á sér. Hann kvaðst hafa rétt út höndina til að ýta ákærða frá sér en þá hafi hann bitið í úrið hjá sér þannig að ólin á því hafi rifnað í sundur. Sagði hann aðra gæslumenn hafa komið einhverjum sekúndum síðar og hafi þeir aðstoðað við að fjarlæga Bergþóru úr herberginu en ákærði hafi verið mjög æstur og lamið til þeirra og í þá nokkrum sinnum þar til þeir hafi náð almennilegum tökum á höndum hans. Aðspurður kvaðst vitnið hafa fengið högg á vinstri vangann og einhverjar tennur hafi skemmst. Aðspurður kvaðst hann halda að höggin hefðu verið þrjú án þess að hann geti staðsett þau. Þau hafi verið fleiri en eitt. Hefðu þetta verið hnefahögg. Kristján kvað þá hafa haldið ákærða, en hjúkrunarfræðingur hefði sprautað ákærða með einhverju geðlyfi til að róa hann niður. Sagði hann ákærða hafa haldið áfram að vera æstur og þeir hafi haldið honum í um tuttugu mínútur eða þar til lögregla kom á staðinn. Aðspurður kvaðst Kristján hafa hlotið sár inni í munnholi eða inni í kinnum og brotnað hafi upp úr tönnum. Hann sagðist aðspurður hafa fengið hrufl þar sem ólin fór í sundur, á úlnliðnum, og gott ef ekki mar á baki. Hann hélt það vera allt og sumt.
Undir vitnið var borinn framburður ákærða um að Bergþóra hefði náð til hans eftir að gæslumenn komu. Sagði vitnið það ekki vera rétt. Kvaðst hann hafa staðið á milli þeirra og Bergþóra hefði aldrei komið á ákærða höggi eða sparki eftir að hann kom á vettvang. Sagði vitnið að framburður ákærða um að hann hefði verið rólegur og setið, ekki vera réttan. Ákærði hefði verið mjög æstur og því hefðu þeir orðið að halda honum. Það hafi ekki verið hægt að slaka á því að hann hafi verið það agressivur. Aðspurður um hvort ákærði hafi beðið gæslumenn um að fjarlægja Bergþóru en þeir ekki orðið við því, sagði vitnið að ákærði hefði beðið um það og hún hefði verið fjarlægð. Það hefði tekið ákveðinn sekúndufjölda að ná öllum gæslumönnunum á staðinn og fjarlæga hana. Kvaðst hann giska á að það hefðu verið 40 sekúndur til mínúta.
Vitnið, Árni Rúnar Baldursson, starfsmaður á Sogni, kvaðst hafa verið í vinnu umrætt sinn. Hann hefði verið staddur í vaktherbergi á 2. hæð hússins og hefði séð í myndavél að ósætti var í gangi í reykherbergi í kjallara. Hann kvaðst hafa séð Bergþóru Guðmundsdóttur slá til ákærða og hafi þeir þá drifið sig niður. Sagði hann a.m.k. tvo hafa verið á undan sér niður, þ.á.m. Kristján Einarsson. Kristján hefði verið byrjaður að stilla til friðar þegar hann kom og hann hefði sjálfur reynt það sama. Hann kvaðst hafa reynt að róa ákærða en það hafi gengið erfiðlega. Bergþóra hefði æst hann upp og ákærði hafi verið orðinn gjörsamlega hömlulaus. Hann kvað ákærða hefði slegið til Kristjáns og sparkað. Hann kvaðst sjálfur hafa fengið högg. Sagði hann þá hafa náð að leggja ákærða á gólfið og ná taki á honum. Þeir hafi lagt hann á hrygginn upp á borð og haldið honum þar í tuttugu mínútur til hálftíma þar til lögreglan kom og tók hann. Í millitíðinni hafi hjúkrunarfræðingur sprautað hann niður. Ákærði hafi verið farinn að róast allverulega þegar lögreglan kom. Árni kvaðst aðspurður hafa séð fyrsta höggið sem Kristján fékk. Taldi hann ákærða þá hafa slegið Kristján í andlitið. Hann kvaðst aðspurður ekki hafa séð ákærða sparka í bak Kristjáns. Hann sagði aðspurður að ákærði hefði særst í munni þegar hann reyni að bíta Kristján en lenti á úrinu hans, og hefði keðjan á því þá losnað. Undir vitnið var borinn framburður ákærða um að Bergþóra hefði náð að komast að honum og sparka í hann tvívegis á meðan þeir Kristján hefðu staðið fyrir framan hann. Vitnið sagði þetta ekki vera rétt. Undir vitnið var einnig borinn framburður ákærða um, að hafi hann slegið Kristján hafi það verið óviljaverk. Sagði vitnið ákærða hafa verið gjörsamlega hömlulausan. Hann kvaðst aðspurður efast um að ákærði hafi vitað hvað hann var að gera.
Vitnið, Sæmundur Hörður Friðriksson, öryggisgæslumaður á Sogni, kvaðst hafa verið í vinnu umræddan dag. Ákærða og Bergþóru hafi lent saman. Viðvörunarbjalla hefði hringt og hann hafi strax farið niður. Þegar hann kom niður hafi ákærði setið á stól og Bergþóra verið með ógnanir. Aðrir starfsmenn, Kristján og Árni Rúnar, hafi verið komnir og staðið á milli þeirra. Vitnið sagði að þegar þeir hafi verið reyna að koma Bergþóru út hafi ákærði sprottið upp og rennt í þá eða sparkað þannig að þeir hafi henst frá honum. Þá hafi þeir komið Bergþóru fram og út og síðan hafi orðið átök áfram þarna niðri. Aðspurður um hvort hann hafi séð Kristján fá í sig högg frá ákærða, sagðist hann hafa upplifað þetta þannig að ákærði hefði risið upp og sparkað eða slegið í þá. Aðspurður sagði Sæmundur að hjúkrunarfræðingur hefði sprautað ákærða niður. Hann sagði ákærða ekki hafa róast strax við það, það hefði tekið svolítinn tíma. Ekki hefði verið þorandi að slaka neitt á, því að á Sogni væru engin tæki eða tól s.s. handjárn. Hann kvaðst ekki muna hversu langur tími leið þangað til lögregla kom en taldi að það hefði verið upp undir hálftími. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa orðið var við að Bergþóru tækist að sparka í ákærða eftir að þeir komu á vettvang, en hún hefði reynt það. Undir vitnið var borinn framburður hans hjá lögreglu hinn 9. janúar 2002 þar sem segir m.a. að ákærði hafi setið á stól og hafi hann skyndilega séð Árna Rúnar og Kristján hendast frá ákærða sem skyndilega hafi staðið upp og slegið með hnefa í bak Árna Rúnars og svo Kristján hnefahögg í andlitið. Vitnið sagði þetta mega vel vera en það sé orðið svolítið langt síðan þetta var. Aðspurður um hvort hann hafi munað þetta þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu sagðist hann halda það, svona nokkurn veginn.
Vitnið, Inga Jóna Finnbogadóttir, gæslumaður á Sogni, kvaðst hafa verið að vinna umrætt sinn. Hún hafi verið að koma inn í vaktherbergi þegar hún hafi litið í eftirlitsmyndavél og hafi séð Bergþóru slá ákærða niður með krepptum hnefa í reykherbergi. Kvaðst hún hafa farið strax niður og í því hafi neyðarbjalla hringt. Sagði hún Kristján hafa verið fyrstan inn í reykherbergið en þau hin hafi komið á eftir. Ákærði hafi setið á stól upp við vegg, en þeir Árni Rúnar og Kristján hafi varið ákærða fyrir Bergþóru og staðið á milli þeirra. Kvað hún ákærða hafa ráðist á Árna Rúnar og Kristján og sparkað í bakið á Kristjáni og hann hafi fallið við. Þeir hafi þá snúið sér að ákærða, sem hafi þá náð að slá Kristján. Aðspurð sagði Inga ákærða hafa slegið hann á vangann og hingað og þangað. Hann hafi sem sagt barist. Hún kvaðst ekki hafa séð það alveg. Hún sagði aðspurð höggið í vangann hafa verið með hnefa. Hún sagði það hafa tekið þau einhverjar, e.t.v. þrjátíu sekúndur að fjarlægja Bergþóru úr herberginu og hún hafi ásamt Þorsteini Gunnarssyni farið með Bergþóru út. Þá hafi Kristján og Árni Rúnar náð að taka ákærða og leggja hann á bakið þarna yfir borð. Sagði hún ákærða hafa bitið í úr á handleggi Kristjáns um það leyti sem hún fór út úr herberginu með Bergþóru. Borinn var undir vitnið framburður ákærða um að Bergþóra hefði náð að sparka í hann þrátt fyrir að Árni og Kristján stæðu þarna, sagði vitnið það ekki rétt. Vitnið kvaðst aðspurð hafa séð að ákærði særðist í munni þegar hann beit.
Meðal málsgagna er læknisvottorð Óskars Reykdalssonar, heimilislæknis, dagsett 14. janúar 2002. Þar segir að Kristján hafi komið á vaktina hjá þeim 27. desember 2001 kl. 22:30 og lýst því að hann hafi verið við vinnu sína, sem starfsmaður og gæslumaður á Sogni, þegar vistmaður, sem sé mjög stór og þungur, hafi fengið brjálæðiskast og þurft hafi að halda honum. Við þetta hafi Kristján fengið spark í bakið, vinstri kjálka og einnig hafi verið bitið í úr hans sem var á vinstri úlnlið. Við skoðun hafi Kristján verið með hruflsár og mar við úlnliðinn, einnig á baki þar sem var marblettur upp á 5x5 cm og á vinstri kjálka hafi verið eymsli og þykkildi. Hann hafi verið allur lurkum laminn, stirður í hálsi og herðum og eymsli yfir einstaka segmentum hálsliðar og niður eftir efri hluta brjóstbaksins. Hann hafi verið töluvert þreyttur en að öðru leyti hafi ekki verið frekari áverkar. Þá segir að líklegast sé um að ræða whiplash áverka í viðbót við almennt andlegt áreiti, streitu og minniháttar marbletti. Búast megi við því að hann jafni sig og þetta verði ekki vandamál en í einstaka tilvikum verði whiplash áverki til einhverra lengri tíma vandamála.
Einnig liggur fyrir læknisvottorð vegna slyss (áverkavottorð), á eyðublaði til Tryggingastofnunar ríkisins, sem Sigríður Sverrisdóttir tannlæknir gaf út, dagsett 9. janúar 2002. Þar kemur fram að hún hafi fyrst séð Kristján af þessu tilefni 4. janúar 2002. Sjúkdómsgreining er samkvæmt vottorðinu að tennur hafi brotnað og fyllingar farið:
“24 brotnir báðir kúspar þvert og fylling farin. Karíusfrí.
26 rótarfyllt tönn með karíus geri mér ekki grein fyrir hvort fylling var þar eða ekki.
27 brotin og fylling farin. Einhver karíus.
34 fylling farin distalt, einhver karíus.”
Niðurstaða.
Brotaþola og þremur öðrum starfsmönnum á Sogni ber saman um það sem átti sér stað. Öll segja þau rangt að Bergþóra hafi komist að ákærða, en brotaþoli og vitnið Árni Rúnar stóðu á milli þeirra til að verja hann. Öll bera þau að Bergþóra hafi verið fjarlæg eftir mjög skamma stund, en ákærði ber að ekki hafi verið orðið við beiðni hans um að fjarlægja hana. Ákærði neitar að hafa ráðist á brotaþola, en hin bera öll um högg, og brotaþoli og Inga Jóna einnig um spörk, Sæmundur um að ákærði hafi sparkað eða slegið, en Árni Rúnar kvaðst ekki hafa séð ákærða sparka. Ljóst er af frásögnum vitnanna að ákærði var þarna hömlulaus, var hann sprautaður en engu að síður þurfti að halda honum í um hálfa klukkustund þar til lögregla kom. Meiðslum brotaþola er lýst í framangeindum tveimur vottorðum og geta þau samrýmst áverkalýsingu í ákæru.
Með framburði framangreindra vitna þykir sannað að ákærði hafi veist að Kristjáni Einarssyni gæslumanni á réttargeðdeildinni á Sogni eins og í ákæru greinir og er fallist á heimfærslu brotsins til refsiákvæðis.
Ákæruliður 2.
Málsatvik.
Sigurður Georgsson hæstaréttarlögmaður kærði með bréfi dagsettu 17. mars 2003, f.h. Agnars Víðis Bragasonar árás ákærða á hann í fangelsinu á Litla Hrauni hinn 9. mars 2003. Ákærði og kærandi voru samfangar þar þegar atvikið átti sér stað. Í bréfi Agnars Víðis til lögmannsins, dagsettu 9. mars 2003, sem fylgdi bréfi þess síðarnefnda til lögreglu, segir að Agnar Víðir hafi beðið ákærða um að loka hjá sér glugga vegna trekks sem skapist í hvassviðri. Ákærði hafi brugðist hinn versti við. Tveir fangar hafi síðar farið inn í klefa ákærða til að róa hann en hinir hafi tekið til við hádegisverð. Á meðan snætt var hafi ákærði vaðið fram búinn þröngum leðurhönskum grenjandi „ég drep þig.“ Hafi Agnar stokkið á fætur til að verja líf sitt og limi. Engin slys hafi orðið á fólki fyrir utan minniháttar marbletti sem kærandi hafi hlotið. Í kæruskýrslu Agnars Víðis hjá lögreglu frá 19. mars 2003 er haft eftir honum að ákærði hafi ráðist að honum og slegið hann einu sinni og hafi höggið lent á enni hans. Að því loknu hafi ákærði hrint honum í gólfið. Aðspurður um áverka sagðist hann hafa fengið marbletti á hálsinn og smá blóðmarsfleiður á enni, rétt ofan við augu, á milli þeirra. Hann hafi einnig fengið smá sár á öklaliðinn á vinstra fæti.
Ekkert læknisvottorð er lagt fram vegna ákæru.
Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði, Steinn Stefánsson, neitaði sök og vísaði fyrir dómi í lögregluskýrslur sem teknar höfðu verið af honum. Í lögregluskýrslu frá 26. mars 2003 er haft eftir honum að hann kannist ekki við að hafa slegið Agnar Víði. Sagði hann samfanga sinn Róbert hafa verið inni í klefanum hjá sér þegar Agnar Víðir hafi komið þar inn og öskrað á hann að hann ætti að loka glugganum í klefanum. Hann hafi lokað glugganum og Agnar Víðir farið í burtu, en hann hafi opnað gluggann að nýju þar sem hann og Róbert hafi verið að reykja pípu. Sagði hann Agnar Víði hafa komið í þrígang inn í klefann hans og öskrað á hann að loka glugganum. Í þriðja skiptið hafi Agnar Víðir hrækt framan í hann og hafi hann þá hent honum út úr klefanum. Ákærði sagði Agnar Víði hafa farið inn í sameiginlegt rými fanga og hafi hann farið á eftir honum en þegar hann kom þangað hafi Agnar Víðir setið við borð og verið að borða. Ákærði sagðist hafa gengið að honum og sagt við hann að hann væri aumingi. Sagði hann Agnar Víði þá hafa staðið upp og ráðist á sig. Hann hefði slegið sig á vangann tvisvar sinnum og einnig tvisvar í þindina. Ákærði sagðist hafa tekið Agnar Víði tökum og haldið honum í smá tíma og hrint honum í gólfið. Að því loknu hefði hann gengið til baka inn í klefa sinn. Ákærði neitaði að hafa slegið Agnar einu sinni í andlitið en kannast við að hafa ýtt honum í gólfið eftir höggið.
Vitnið, Tryggvi Rúnar Guðjónsson, sagði ákærða og Agnar Víði hafa rifist eða verið að þrasa. Kvaðst hann síðan hafa beðið ákærða um að koma inn í herbergið sitt og ræða við sig og hafi hann reynt að róa hann aðeins niður. Síðan hafi ákærði hlaupið fram úr klefanum en hann hafi staðið eftir og aðeins séð aftan á bakið á honum. Um leið og Agnar Víðir hefði séð ákærða koma hlaupandi hefði hann stokkið upp og hafi honum sýnst þeir hlaupa saman. Agnar Víðir hefði dottið á gólfið, og það hafi verið allt og sumt, ákærði hafi farið aftur inn í klefann sinn. Það hefði einhver kergja verið búin að vera þarna á milli þeirra í einhverjar vikur. Agnar Víðir hefði verið búinn að vera með leiðindi við ákærða. Ítrekað spurður sagði hann Agnar Víði hafa setið við borð og þegar hann hefði séð ákærða koma hlaupandi hefði hann staðið upp og komið á móti honum. Hann hefði séð þá hlaupa saman og Agnar Víði detta í gólfið. Hann kvaðst ekki hafa séð högg ganga á milli þeirra.
Vitnið, Aðalsteinn Árdal Björnsson, kvaðst hafa orðið vitni að atvikinu, en muna það óljóst. Þeir hefðu verið að borða og ákærði og Agnar Víðir hefðu verið eitthvað að rífast, hefði ákærði síðan stokkið á Agnar Víði og hrint honum og haft í hótunum við hann. Spurður um tilefni rifrildisins, kvað hann Agnar Víði hafa verið með „attitúd“ og kvaðst ekki vera frá því að Agnar Víðir hefði byrjað þetta. Spurður hvort hann myndi eftir umræðum um opinn glugga, sagði hann rétt að Agnar Víðir hefði verið að skipta sér af klefanum hjá ákærða, segja honum að loka glugganum eða eitthvað slíkt, og þetta hefði komið upp í kjölfarið. Beðinn um að lýsa þessu nánar sagði hann ákærða allt í einu hafa komið út úr klefanum sínum og stokkið á Agnar Víði, sem hefði ýtt eitthvað á móti. Svo hafi allir á ganginum verið lokaðir inni í klefa. Hann taldi að einhverjar stympingar hefðu orðið en enginn dottið í gólfið. Hann kvaðst ekki hafa séð neinn með áverka á eftir. Spurður út í ummæli sín í lögregluskýrslu um að ákærði hefði slegið Agnar Víði í höfuðið, kvaðst hann ekki viss um að hann hafi verið í nógu góðu jafnvægi þegar hann gaf skýrslun til að muna hlutina rétt. Hann kvaðst viss um að muna, að Agnar Víðir hefði ýtt í ákærða. Kvaðst hann telja að þetta hefðu verið upptök beggja og ekkert frekar ákærða að kenna, Agnar Víðir hefði verið búinn að vera með leiðinda „attitúd“ við ákærða í marga daga. Ítrekað spurður um meiðsli Agnars Víðis, kvað hann Agnar hafa talað um þau en hann hefði ekki séð neitt.
Niðurstaða.
Kærandi, Agnar Víðir Bragason, hefur ekki mætt fyrir dóminn þrátt fyrir ítrekaðar boðanir. Atvikið varð þegar fangar sátu við borðhald, en aðeins tvö vitni hafa komið fyrir dóminn. Hvorugur þeirra kannaðist við að hafa séð ákærða veita Agnari Víði hnefahögg. Vitnið Tryggvi Rúnar bar að Agnar Víðir hefði komið á móti ákærða og að þeir hefðu hlaupið saman, Agnar hefði dottið í gólfið. Vitnið Aðalsteinn, sagði einhverjar stympingar hafa orðið en enginn dottið í gólfið. Hann taldi sig vera vissan um að Agnar Víðir hefði ýtt ákærða. Enginn vitnisburður er um þau meiðsli Agnars Víðis sem í ákæru er lýst og ekkert læknisvottorð hefur verið lagt fram.
Þegar neitun ákærða, framburður vitnanna, sú staðreynd að kærandi kom ekki fyrir dóminn og það að meiðsli kæranda eru ekki staðfest eru metin, þá þykir ekki sannað að ákærði hafi slegið Agnar Víði Bragason eða hrint honum með þeim afleiðingum sem í ákæru er lýst. Skal hann vera sýkn af þessum ákærulið.
Um sakhæfi og refsingu.
Með bréfi, dagsettu 30. september 2002, óskaði fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík eftir því við Sigurð Pál Pálsson geðlækni að hann framkvæmdi geðrannsókn á ákærða. Í niðurstöðu þeirrar rannsóknar hans, sem dagsett er 22. desember 2002, segir:
„1. Það er niðurstaða mín að Steinn sé sakhæfur. Gögn málsins benda til þess að Steinn hafi ekki haft geðrofseinkenni við morðið. Þetta styðst einnig af geðskoðun undirritaðs sem fann engin merki alvarlegs geðsjúkdóms nokkrum dögum eftir morðið. Engin einkenni rugls komu fram en ranghugmyndir og ofskynjannir komu fram nokkrum vikum seinna við breytingar og álag. Steinn var í neyslu fyrir manndrápið. Þó finnast enginn spor um eiturlyf í blóði eða þvagi. Steinn var hinsvegar undir talsverðum áhrifum prómethazine þegar morðið var framið. Steinn hefur þá líklegast verið undir niðri mjög ör, spenntur, tortrygginn og léttilega árásargjarn. Stutt hefur þá verið í ofsafengin viðbrögð ef hann hefur talið sér ógnað. Vímuáhrif þessi breyta þó í engu um sakhæfi hans.
2. Erfitt er að meta hvort Steinn þoli fangavist en ljóst er þó að Steinn hefur áður verið vistaður í langan tíma í fangelsi og þá liðið misvel. Neysla Steins innan og utan fangelsis gæti verið að auka einkenni hans á köflum. Steinn hefur hingað til haft mjög stutt tímabil án misnotkunar fíknilyfja. Refsing hefur hingað til komið að litlu gagni.
3. Steinn þarf vegna geðrofseinkenna sinna á tímabilum að hafa þétta læknismeðferð. Ljóst er að geðlæknir þarf að meta hverju sinni hvar best sé að vista Stein. Geðrofs sjúkdómsmynd Steins nú breytir í engu sakhæfi hans.
4. Steinn hefur á tímabilum verið vistaður á Sogni vegna geðrofseinkenna og annarra vandamála og eðlilegt er að taka slíka vistun til athugunar reglulega. Þó virðist ljóst að Steinn hefur ekki nýtt sér ágætis meðferðar prógram þar á réttan hátt. Forsenda og markmið fyrir vistun að Sogni þarf að vera skýr svo og hvernig skuli tekið á sífelldum agabrotum Steins. Það að einstaklingur sé erfiður er ekki forsenda vistunar. Steinn er og mun verða erfiður á tímabilum breyti hann ekki hegðun sinni. Þess á milli er hann ljúfur og þægilegur. Fíknisjúkdómur Steins er líklegast stærsti einstaki þátturinn sem útskýrir geðsveiflur, ranghugmyndir og árásargirni.“
Hinn 12. mars sl. varð dómsformaður við beiðni verjanda ákærða um að dómkveðja tvo matsmenn, Sigmund Sigfússon geðlækni og Helga Garðar Garðarsson geðlækni til að meta hvort ákærði væri sakhæfur í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga og ef niðurstaðan yrði sú að ákærði væri sakhæfur að þá yrði metið hvort ætla mætti að refsing gæti borið árangur sbr. 16. gr. sömu laga. Matsgerð er dagsett 8. september 2003. Í kaflanum „Samantekt og álit” segir svo:
“Steinn Stefánsson er tæplega 37 ára gamall karlmaður sem ákærður er fyrir að hafa banað manni með hnífsstungum hinn 26.09. 2002.
Steinn fékk fyrstu einkenni um alvarlegan geðsjúkdóm með geðrofi árið 1987, 21 árs gamall. Hann hafði þá um margra ára skeið haft sjúkdómseinkenni sem samrýmast forstigum geðklofasjúkdóms. Við álítum að Steinn hafi þegar á árinu 1987 uppfyllt skilmerki um aðsóknargeðklofa (Schizoprenia paranoides). Það er einkum lýsing móður Steins á ástandi hans í aðdraganda fyrstu innlagnar hans á geðdeild Landspítala 14.10. 1987 sem gefur okkur skýrar vísbendingar um þetta.
Allt frá barnsaldri hefur Steinn átt í verulegum erfiðleikum með sjálfan sig og samskipti sín við annað fólk. Þetta birtist í viðkvæmni hans, litlu kvíða- og mótlætisþoli, lítilli hvata- og reiðistjórn, þunglyndi með sjálfsvígshugsunum og verulegum erfiðleikum í félagslegum samskiptum. Allt líf Steins hefur síðan markast af þessum sjúklegu einkennum með ósveigjanlegum hætti og komið í veg fyrir að hann hafi getað aðlagað sig umhverfi sínu og nýjum viðfangsefnum. Þessi einkenni hafa komið í veg fyrir að góð greind Steins hafi nýst honum í lífsbaráttunni sem skyldi. Hann hefur ekki getað fundið lífi sínu uppbyggilegan farveg. Einkennin hafa haft í för með sér skaðlegar afleiðingar, bæði fyrir Stein sjálfan og þá sem lent hafa í samskiptum við hann.
Við teljum engan vafa leika á því að Steinn var haldinn alvarlegri persónuleikaröskun allt frá 10 ára aldri. Rannsóknir hafa sýnt að einstaklingar með persónuleikaröskun hafa mun oftar en aðrir önnur geðræn vandamál, til dæmis þunglyndi, hugrof (dissociation) og fíknisjúkdóma. Umdeilt er hvort beint samband sé milli persónuleikaröskunar og geðrofssjúkdóms.
Steinn hefur allt frá unglingsárum á löngum tímabilum misnotað áfengi og önnur fíkniefni í þeim mæli að það hefur skaðað hann og umhverfi hans og spillt enn frekar hæfni hans til félagslegra samskipta.
Við teljum, metið út frá gögnum og lýsingum viðmælenda okkar á Steini Stefánssyni, að hann hafi verið í geðrofsástandi nær óslitið frá 21 árs aldri og því sé afar ólíklegt að hann hafi ekki verið í geðrofsástandi á þeim tímapunkti sem hann framkvæmdi verknaðinn 26.09. 2002.
Fleira felst í sjúkdómsgreiningunni geðklofi en geðrofseinkenni. Sjúkdómurinn nær að jafnaði til nánast allra þátta í persónuleika og lífi fólks með gagngerum hætti (hugsanalíf, tilfinningalíf). Þótt sjúkdómur Steins Stefánssonar hefði verið vel meðhöndlaður og hann ekki haft virk (productive) geðrofseinkenni (ofskynjanir, ranghugmyndir) á þeim tíma sem hann framdi afbrotið, þá hefði samt sem áður neikvæðra áhrifa sjúkdómsins gætt á dómgreind hans og hegðun á verknaðarstundu. Við teljum að þegar um svo alvarlegan geðsjúkdóm sé að ræða þá snúist spurningin um sakhæfi eða ósakhæfi ekki eingöngu um það hvort um virk geðrofseinkenni hafi verið að ræða á verknaðarstundu. Við teljum að hin umfangsmiklu áhrif sjúkdómsins á dómgreind, hvatastjórn, reiðistjórn og fleira skipti jafn miklu máli.
Við álítum að Steinn Stefánsson hafi sökum geðveiki verið ófær um að stjórna gerðum sínum á þeim tíma sem hann framdi verknaðinn hinn 26.09. 2002. Við álítum hann því vera ósakhæfan.“
Þegar matsgerð lá fyrir óskaði sækjandi eftir því að dómurinn legði álitaefnið um sakhæfi ákærða fyrir læknaráð með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga um læknaráð nr. 14/1942 og var orðið við því með úrskurð dómsins hinn 12. september 2003. Svar læknaráðs barst með bréfi dagsettu 19. nóvember 2003. Þar segir:
„Svör læknaráðs við spurningum Héraðsdóms Reykjavíkur eru eftirfarandi og byggja á niðurstöðum réttarmáladeildar:
1. Spurning: Er læknaráð sammála niðurstöðu Sigurðar Páls Pálssonar, geðlæknis um sakhæfi ákærða, sbr. það sem segir í skýrslu hans, dagsettri 22. desember 2002, bls. 30:
"Það er niðurstaða mín að Steinn sé sakhæfur. Gögn málsins benda til þess að Steinn hafi ekki haft geðrofseinkenni við morðið. Þetta styðst einnig af geðskoðun undirritaðs sem fann engin merki alvarlegs geðsjúkdóms nokkrum dögum eftir morðið. Engin einkenni rugls komu fram en ranghugmyndir og ofskynjanir komu fram nokkrum vikum seinna við breytingar og álag."?
Svar: Nei. Með vísan til ofangreindra gagna telur læknaráð flestar líkur benda til þess að Steinn Stefánsson eigi við alvarlegan geðsjúkdóm að stríða (geðklofi með ofsóknarkennd). Læknaráð telur því líklegt að sakhæfi Steins Stefánssonar hafi verið skert á þeirri stundu er umræddur verknaður var framinn þó ekki hafi verið sýnt fram á að hann hafi verið haldinn ranghugmyndum eða ofskynjunum í nánasta aðdraganda verknaðarins. Eðli umrædds sjúkdóms, vitræn geta viðkomandi og flkniefnaneysla geta torveldað greiningu og mat á sjúkdómsferli.
2. Spurning: Er læknaráð sammála niðurstöðu geðlæknanna Helga Garðars Garðarssonar og Sigmundar Sigfússonar um sakhæfi, sbr. það sem segir í matsgerð þeirra, dagsettri 8. september 2003, bls. 24:
"Við teljum, metið út frá gögnum og lýsingum viðmælenda okkar á Steini Stefánssyni, að hann hafi verið í geðrofsástandi nær óslitið frá 21 árs aldri og því sé afar ólíklegt að hann hafi ekki verið í geðrofsástandí á þeim tímapunkti sem hann framkvæmdi verknaðinn 26.09.2002.
Fleira felst í sjúkdómsgreiningunni geðklofi en geðrofseinkenni. Sjúkdómurinn nær að jafnaði til nánast allra þátta í persónuleika og lífi fólks með gagngerum hætti (hugsanalíf, tilfinningalíf). Þótt sjúkdómur Steins Stefánssonar hefði verið vel meðhöndlaður og hann ekki haft virk (productive) geðrofseinkenni (ofskynjanir, ranghugmyndir) á þeim tíma sem hann framdi afbrotið, þá hefði samt sem áður neikvæðra áhrifa sjúkdómsins gætt á dómgreind hans og hegðun á verknaðarstundu. Við teljum að þegar um svo alvarlegan geðsjúkdóm sé að ræða þá snúist spurningin um sakhæfi eða ósakhæfi ekki eingöngu um það hvort um virk geðrofseinkenni hafi verið að ræða á verknaðarstundu. Við teljum að hin umfangsmiklu áhrif sjúkdómsins á dómgreind, hvatatjórn, reiðistjórn ogfleira skipti jafn miklu máli.
Við álítum að Steinn Stefánsson hafi sökum geðveiki verið ófær um að stjórna gerðum sínum á þeim tíma sem hann framdi verknaðinn hinn 26.09.2002. Við álítum hann því vera ósakhæfan. "?
Svar: Læknaráð telur ekki að sýnt hafi verið fram á að Steinn Stefánsson hafi átt við geðrofsástand að stríða nær óslitið frá 21 árs aldri.
Læknaráð fellst á niðurstöður geðlæknanna Helga Garðars Garðarssonar og Sigmundar Sigfússonar að því er varðar 3. mgr. spurningarinnar.
Læknaráð telur sbr. að ofan að flestar líkur bendi til þess að sakhæfi Steins Stefánssonar hafi verið skert á þeim tíma er viðkomandi verknaður var framinn en telur ekki að sýnt hafi verið fram á að Steinn Stefánsson hafi á þeirri stundu verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum.
3. Spurning: Ef læknaráð er sammála niðurstöðum Helga Garðars Garðarssonar og Sigmundar Sigfússonar, telur þá ráðið að:
a) ákærði hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum á þeim tíma sem hann framdi brotin og því skuli eigi refsa ákærða, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Svar: Læknaráð telur að ekki hafi verið sýnt fram á að veikindi Steins Stefánssonar hafi verið með þeim hætti þegar umræddur verknaður var framinn að ákvæði 15. gr. almennra hegningalaga nr. 19/1940 eigi við í þessu tilviki.
b) ákærði hafi ekki verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum á þeim tíma sem hann framdi brotið og að refsing geti borið árangur, sbr. l. mgr. 16. gr. sömu laga?
Svar: Læknaráð telur að Steinn Stefánsson hafi ekki verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum á þeim tíma sem umræddur verknaður var framinn en telur hins vegar að flestar líkur bendi til þess að ákvæði 16. greinar almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eigi við í þessu tilviki. Læknaráði þykir ljóst að Steinn Stefánsson þurfi á reglubundnu eftirliti og meðferð geðlækna að halda.“
Vitnið Sigurður Páll Pálsson geðlæknir kom fyrir dóminn og staðfesti geðheilbrigðisrannsókn sína dagsetta 22. desember 2002. Þar kemst hann að þeirri niðurstöðu að ákærði sé sakhæfur og gögn málsins bendi ekki til þess að hann hafi haft geðrofseinkenni við morðið.
Vitnið kvaðst hafa byrjað rannsókn sína fljótlega eftir að atburðurinn átti sér stað og hafi hún náð yfir um þriggja mánaða tímabil. Vitnið kvað þá skoðun sína ekki hafa breyst að ákærði væri sakhæfur og að ekkert benti til þess að hann hefði haft geðrofseinkenni við morðið, væri þetta skýrt af þeim geðskoðunum sem hann hefði gert fljótlega eftir atburðinn. Seinna, þegar ákærði hefði verið kominn úr einangrun og farinn að neyta eiturlyfja inni í fangelsinu, þá hefðu komið fram ákveðin einkenni. Vitnið kvað það vera sameiginlega niðurstöðu sinnar rannsóknar og allra fyrri geðrannsókna á ákærða, að hann væri haldinn mjög alvarlegri persónuleikaröskun. Það sem flækti málin væri það, að hann hefði átt mjög stutt tímabil án neyslu. Neysla ýtti mjög undir öll einkenni persónuleikaröskunar og yrðu slíkir einstaklingar oft „paranoid,“ en til þess að geta gefið sjúkdómsgreininguna geðklofi yrði að vera alveg ljóst að viðkomandi væri ekki í neyslu. Vitnið kvaðst taka undir það að ákærði hefði á tímabilum haft geðrofseinkenni, en taldi greininguna „aðsóknargeðklofi“ alls ekki vera örugga ennþá. Ítrekaði vitnið að ákærði hefði ekki verið sturlaður þegar hann talaði við hann rétt eftir atburðinn, en síðan hefðu komið upp ýmis hegðunarvandkvæði og upphlaup eins og hefðu einkennt sögu ákærða. Lýsti vitnið þeirri skoðun sinni að ákærði væri í raun minna veikur í dag en hann hefði verið 1992. Hann kvað ákærða vera heilsteyptan og vel gefinn, en hann reyndi að stjórna fólki og væri lúmskur í eðli sínu, en þetta hefði með hans persónuleika að gera, en ekkert með geðklofa. Þessi einkenni væru þekkt hjá honum frá unga aldri, þá hafi hann komið til skoðunar vegna hegðunarbresta, hvatvísi eða af því hann missti stjórn á sér. Hann kvað ákærða, við rannsóknina, hafa verið ágætlega meðvitaðan um hvað hann hafði gert, en hann hefði forðast að ræða atburðinn. Hann hafi munað það sem hann vildi muna og hafi saga hans ekki verið trúverðug. Vitnið taldi forsendu þess að einhver væri talinn ósakhæfur, vera að viðkomandi hefði stýrst af ranghugmyndum undir atburðinum. Taldi vitnið ákærða hafa vitað hvað hann var að gera, hann hefði verið í slæmum málum, en það væri mjög langsótt að hann hefði verið með einhverjar ranghugmyndir sem hefðu stýrt þessari gerð hans. Vitnið kvað það einkennandi fyrir verulega persónuleikaraskað fólk að það afneitaði eða fegraði sannleikann og ætti til að yfirfæra öll sín vandamál á aðra.
Vitnið kvaðst telja ákærða eiga best heima í öruggu fangelsi, eða ef til væri stofnun eins og Sogn fyrir sakhæfa. Vitnið taldi að hægt væri að veita ákærða fullnægjandi aðstoð í fangelsi samkvæmt mati geðlæknis hverju sinni. Aðspurður af verjanda kvað hann fólk með persónuleikatruflanir ekki stýrast af ranghugmyndum, en eiga auðveldara með að missa algjörlega stjórn á gerðum sínum og þá séu engar hömlur til staðar, en það væri ekki sami hluturinn og að bera ekki ábyrgð á gerðum sínum. Þannig væri þetta með flesta sakamenn í stærri málum. Vitnið kvað neyslumynstur ákærða glæða einkenni hans og taldi vitnið alveg ljóst að neysla væri hans stærsta vandamál. Vitnið taldi refsingu geta borðið árangur.
Vitnið, Helgi Garðar Garðarsson geðlæknir, var annar tveggja dómkvaddara matsmanna sem falið var, að kröfu verjanda, að meta sakhæfi ákærða.
Vitnið kvað helstu niðurstöðu matsmanna, samkvæmt matsskýrslu frá september sl. vera þá, að þrjár sjúkdómsgreiningar ættu við um ákærða: aðsóknargeðklofi, alvarleg persónuleikaröskun og fíknisjúkdómur. Vitnið taldi að viðunandi meðferðaraðstæður væri ekki hægt að skapa fyrir ákærða í fangelsi vegna þess að hann þyrfti heilbrigðisstarfsfólk nálægt sér allan daginn. Vitnið kvað fíknisjúkdóm vera mjög algengan hjá þeim sem hefðu geðrofssjúkdóma, en erfitt væri að greina hvað væri orsök og hvað afleiðing. Ekki væru allir geðklofasjúklingar með persónuleikaraskanir, en margir væru það og litaði það þá sjúkdóminn mjög, og væri viðkomandi sjúklingur þá erfiðari en ella. Aðspurður taldi vitnið ákærða hafa verið alls ófæran um að stjórna gerðum sínum á þeim tíma sem verknaðurinn var framinn. Þetta væri vegna þess að hann gæti ekki með yfirveguðum hætti hugsað sinn gang um hvað hann ætti að gera þegar hann fengi einhverja skyndihvöt eins og reiði. Viljinn væri aðeins að litlu leyti frjáls.
Vitnið sagði að þegar aðsóknarkennd væri komin fram hjá einstaklingi breyttist það ekki þó á stundum væri meiri ró yfir sjúklingi. Aðsóknargeðklofi væri tegund af hugsunarhætti, ranghugmyndir sem væru til staðar svo að segja alltaf eftir að sjúkdómurin væri kominn af stað. Það væri hefðbundið viðhorf til þessa sjúkdóms að hann væri ólæknanlegur, annað væru algjörar undantekningar. Aðspurður kvaðst vitnið vera ósammála niðurstöðum eldri geðheilbrigðisrannsókna á ákærða þar sem hann væri metinn sakhæfur, að minnsta kosti frá árinu 1992. Kvaðst hann telja að áhrif sjúkdómsins á sakhæfið væru þar of þröngt skilgreind, geðklofasjúkdómurinn væri miklu umfangsmeiri sjúkdómur en svo að sakhæfi standi og falli aðeins með virkum einkennum hans. Kvað hann fræðimenn í Danmörku telja nánast vera jafnaðarmerki á milli þess að hafa geðklofasjúkdóm og þess að vera ósakhæfur. Spurður um tilhneigingu ákærða til að stýra öðrum, kvað vitnið það fylgja svo að segja öllum persónuleikaröskunum að vera með „manipúlasjónir.“ Sjúklingarnir reyni að snúa fólki í kringum sig til þess að fá sínum vilja framgengt og væri ákærði þar ekkert undanskilinn. Einnig hefði sú knýjandi löngun sem fylgdi fíkniefnasjúkdómi það í för með sér að hann reyni að ná sér í lyf. Taldi vitnið þessa eiginleika ákærða ekki hafa haft áhrif á niðurstöður sínar.
Aðspurður taldi vitnið ákærða vera hættulegan og geta orðið það um langa framtíð á meðan ekki væri hægt að ná betri tökun á sjúkdómsástandi hans. Erfiðara væri að mynda gott og varanlegt meðferðarsamband við hann vegna þess að hann væri einnig persónuleikaraskaðaður. Þar sem hann væri vel greindur væri þetta þó ekki útilokað, á hinn bóginn yrði einnig að líta til þess að hann hefði verið sjúkur lengi án eða með litla meðhöndlun og geðrofsástandið sem slíkt væri skaðlegt fyrir heilann og ylli örorku.
Ítrekað spurður kvaðst vitnið telja að ákærði gæti ekki stjórnað gerðum sínum. Hann stjórnaðist mjög af hvötum og hefði afar takmarkaða hæfni til yfirvegaðrar umhugsunar. Hvatinn næði tökum á honum og stýrði hegðuninni, og það skorti tengsl við sjálfið til þess að ákvörðunin yrði merkingarbær, til þess að hann gæti greint á milli þess hvað væri rétt og rangt.
Vitnið, Sigmundur Sigfússon geðlæknir, vann framangreinda matsgerð með vitninu Helga Garðari og staðfesti hana. Hann kvað helstu niðurstöðu vera þá að ákærði væri haldinn aðsóknargeðklofa. Sjúkdómssaga hans væri löng og einkenni hans m.a. fjölbreytilegar ranghugmyndir, hugsanatruflanir og ofskynjanir, og persóna hans væri mótuð af langvarandi veikindum. Ákærða hætti því til að túlka aðstæður sér mjög í óhag, ýmist oftúlkaði eða rangtúlkaði, ætlaði öðrum verri hug í sinn garð en e.t.v. væri raunhæft. Ef honum fyndist að sér þrengt þá væri það eðli sjúkdóms hans að hann teldi sig vera í hættu. Vitnið kvaðst telja að ekki væri hægt að skapa viðunandi aðstæður fyrir ákærða í fangelsi, eins og umhverfi þar væri í dag, bæði vegna félagsskaparins og skorti á viðhlítandi hjúkrun og læknismeðferð. Vitnið staðfesti að um helmingur þeirra einstaklinga, sem væru greindir með geðklofa, uppfylltu einnig skilmerki efnamisnotkunar eða efnafíknar, ætti þetta einkum við í stórborgum. Vitnið kvað erfitt að fullyrða í því sambandi hvað væri þar orsök og hvað afleiðing.
Bornar voru undir vitnið efasemdir vitnisins Sigurðar Páls geðlæknis varðandi það að geðklofagreining á ákærða væri örugg og að erfitt væri að greina sjúkdóminn ef menn væru í neyslu. Vitnið kvaðst telja að á þeim tíma sem liðinn væri síðan ákærði fyrst fékk þessa sjúkdómgreiningu „paranoid schizophrenia“ hjá Högna Óskarssyni geðlækni í október 1992, hefðu verið það löng tímabil án fíkniefna að það væri hægt að skilja þar í milli. Strax árið 1987 hefði komið upp grunur um geðklofaþróun og í fimm innlögnum 1997-1998 á Sjúkrahúsi Reykjavíkur geðdeild, þá undir stjórn Hannesar Péturssoar prófessors, hefði hann fengið sömu útskriftargreiningu. Kvaðst vitnið telja ákærða vera haldinn þessum sjúkdómi nú. Einkenni persónuleikaröskunar hefðu komið fram miklu fyrr. Það að vera með þetta tvennt saman gerði vont verra. Það væri erfiðara að ná tökum á meðferðinni og sjúklingurinn óútreiknanlegri og hvatvísari.
Vitnið var spurt hvort hann teldi ákærða hafa verið alls ófæran um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstund. Vitnið kvaðst hafa hugsað mikið um aðstæður á vettvangi og það væri hans niðurstaða, að ákærði hefði verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum. Þarna hefðu komið upp aðstæður sem hefðu komið upp áður, að hann teldi sig vera í hættu, teldi sér ógnað og gripi til varna. Það væri sitt mat að dómgreindarbrestur og skortur á rökhugsun hefði átt þarna þátt í þessum ofsafengnu viðbrögðum. Að baki þessu áliti væru fyrst og fremst líkindi reist á þeirri staðreynd að ákærði hefði verið haldinn alvarlegum geðsjúkdómi ómeðhöndluðum á þessu augnabliki, geðsjúkdómi sem ekki batni af sjálfum sér.
Vitnð kvaðst telja ákærða hættulegan. Væri það vegna þess hversu óútreiknanlegur hann væri við þær aðstæður þar sem honum fyndist að sér þrengt. Nefndi vitnið nokkur alvarleg dæmi úr sögu ákærða þar sem hann hefði ætlað öðrum verri hug í sinn garð heldur en efni hefðu staðið til og hefði metið aðstæður þannig að hann greip til ofbeldis. Kvaðst vitnið telja að hægt væri að ná árangri hjá ákærða með viðhlítandi meðhöndlun.
Sakaferill.
Ákærði er fæddur á árinu 1966. Hann hefur samkvæmt sakarvottorði hlotið sjö dóma vegna brota á hegningarlögum. Þá hefur hann sex sinnum gengist undir greiðslu sekta fyrir brot á almennum hegningarlögum, lögum og reglum um ávana- og fíkniefni, umferðarlögum og áfengislögum. Á árinu 1987 gekkst ákærði tvisvar undir greiðslu sekta annars vegar fyrir brot á umferðarlögum en hins vegar fyrir brot á áfengislögum. Aftur gekkst hann undir greiðslu sektar fyrir brot gegn umferðarlögum á árinu 1989. Það ár var hann einnig dæmdur í fimm mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Á árinu 1991 hlaut ákærði tvo fangelsisdóma, annars vegar var hann dæmdur í sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir þjófnað en hins vegar í átta mánaða fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga. Þann 26. júní 1992 hlaut ákærði reynslulausn í tvö ár á eftirstöðvum refsingar áttatíu dögum. Hinn 4. desember 1992 var ákærði dæmdur í 7 ára fangelsi fyrir ýmis brot gegn almennum hegningarlögum. Sá dómur var staðfestur í Hæstarétti 21. maí 1993. Hinn 24. mars 1997 hlaut ákærði reynslulausn í tvö ár á eftirstöðvum refsingar 840 dögum. Á árinu 1998 hefur ákærði gengist undir greiðslu sektar vegna brota á umferðarlögum. Hinn 12. maí 1998 var ákærði dæmdur í tveggja mánaða fangelsi skilorðsbundið í tvö ár fyrir skjalafals. Ákærði hefur á árinu 1999 gengist undir greiðslu sektar vegna brota á lögum og reglum um ávana- og fíkniefni. Síðast var ákærði dæmdur hinn 8. júní 1999 í fjögurra ára fangelsi fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. og 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hefur hinn 17. desember 2002 gengist undir greiðslu sektar fyrir þjófnað.
Niðurstaða.
Það er niðurstaða dómsins að ákærði, Steinn Stefánsson, hafi framið þau brot sem lýst er í ákæru frá 31. janúar 2003 og í 1. lið ákæru frá 4. apríl sama ár, en að ósannað sé að háttsemi hans hafi verið eins og lýst er í í 2. lið sömu ákæru.
Deilt er um sakhæfi ákærða. Fyrir liggur geðheilbrigðisrannsókn Sigurðar Páls Pálssonar geðlæknis, dagsett 22. desember 2002, og matsgerð tveggja dómkvaddra matsmanna, geðlæknanna Helga Garðars Garðarssonar og Sigmundar Sigfússonar, dagsett 8. september 2003, og loks álit læknaráðs, dagsett 19. nóvember 2003. Framangreindir þrír læknar hafa einnig komið fyrir dóminn og gert nánari grein fyrir rannsóknum sínum á ákærða. Hafa álitin og vætti þeirra verið rakin hér að framan. Voru þeir sammála um það að ákærði hefði alvarlega persónuleikaröskun og fíknisjúkdóm, en ósammála um hvort hann skyldi greindur með aðsóknargeðklofa. Vitnið Sigurður Páll telur þetta ekki hafa verið staðfest, og telur ákærða ekki hafa átt nægilega löng tímabil án neyslu til þess að unnt sé að skera úr um hvort geðklofi sé í raun til staðar. Hann telur ákærða sjálfan bera ábyrgð á mikilli lyfja- og fíkniefnaneyslu og á því að nýta ekki læknismeðferð sem honum hafi staðið til boða. Matsmennirnir eru hins vegar sammála um að ákærði hafi greinst með geðklofa árið 1992 og ítrekað síðar og að afbrotasaga hans styðji þessa greiningu. Telja þeir báðir að hann hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum þegar hann varð Braga Ólafssyni að bana. Vitnið Sigurður Páll telur fullnægjandi aðstæður vera til staðar í fangelsum til að veita ákærða þá læknismeðferð og eftirlit sem hann þurfi. Matsmenn telja viðunandi aðstæður ekki vera til staðar í fangelsum þar sem ákærði þurfi hjúkrunarfólk með sér öllum stundum.
Læknaráð kemst að þeirri niðurstöðu að flestar líkur bendi til þess að ákærði stríði við geðklofa með ofsóknarkennd og að sakhæfi hans hafi verið skert á þeirri stundu þegar hann varð mannsbani, en telur ekki að sýnt hafi verið fram á að hann hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum. Það telur ekki að 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eigi við, en að 16. gr. sömu laga geti átt við. Læknaráð telur ljóst að ákærði þurfi á reglubundnu eftirliti og meðferð geðlækna að halda.
Þegar framangreind álit sérfræðinga hafa verið skoðuð og sakarferill ákærða, virðist vera ljóst að hæfni hans til að stjórna viðbrögðum sínum sé skert og að minnsta kosti á stundum sé hann haldinn ranghugmyndunum og líklegur til að rangtúlka aðstæður þegar hann telur sér ógnað. Virðast þessi einkenni koma fram í báðum þeim málum, sem hér hafa verið til meðferðar, og hann er talinn hafa gerst brotlegur í. Telur dómurinn því að fallast beri á niðurstöðu dómkvaddra matsmanna um að ákærði sé ósakhæfur og að sýkna beri hann af kröfu ákæruvaldsins um refsingu, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Einnig er fallist á það álit matsmanna að ákærði sé hættulegur. Réttaröryggis vegna skal því gera ráðstafanir til að varna því að hann valdi skaða. Þykir rétt að ákærði sæti öryggisgæslu samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 á viðeigandi stofnun. Áfrýjun dómsins frestar ekki framkvæmd öryggisgæslu sbr. 3. mgr. 139. gr. laga nr. 19/1991.
Allur sakarkostnaður skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur héraðsdómslögmanns, sem ákvarðast 1.200.000 krónur.
Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Ragnheiður Harðardóttir saksóknara.
Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari sem dómsformaður og meðdómendurnir Jón Finnbjörnsson og Sigurður H. Stefánsson héraðsdómarar kváðu upp dóminn.
D ó m s o r ð
Ákærði, Steinn Stefánsson, skal vera sýkn af refsikröfu ákæruvaldsins.
Ákærði skal sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun. Áfrýjun dómsins frestar ekki framkvæmd öryggisgæslu.
Allur sakarkostnaður skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur héraðsdómslögmanns, 1.200.000 krónur.