Hæstiréttur íslands

Mál nr. 292/2012


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Kröfugerð
  • Dómkvaðning matsmanns
  • Matsgerð
  • Réttarfarssekt
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 31. janúar 2013.

Nr. 292/2012.

Bjarni Snorrason

(Kristján Stefánsson hrl.)

gegn

C

(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.)

og

Jón Egilsson

(sjálfur)

gegn

Bjarna Snorrasyni og

C

Skaðabætur. Líkamstjón. Kröfugerð. Dómkvaðning matsmanns. Matsgerð. Réttarfarssekt. Gjafsókn.

C höfðaði mál á hendur A og B og krafðist skaðabóta vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna líkamsárásar af þeirra hálfu 5. nóvember 2006. Með dómi héraðsdóms höfðu A og B verið sakfelldir á grundvelli 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fyrir líkamsárás á C og var B gert að greiða C miskabætur. Í málinu byggði C skaðabótakröfu sína á niðurstöðu matsgerðar dómkvaddra matsmanna þar sem fram kom að afleiðingar líkamsárásarinnar hafi verið mun alvarlegri en þau gögn sem byggt hafi verið á í sakamálinu gáfu til kynna. Mótmælti B því að matsgerðin hefði sönnunargildi við úrlausn málsins þar sem meinbugir hafi verið á dómkvaðningu matsmanna og framkvæmd matsins. Með vísan til niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna, sem fengi stuðning af fyrirliggjandi gögnum, taldi héraðsdómur sannað að tjón C mætti rekja til líkamsárásar þeirrar er hann varð fyrir 2006 og að tjón hans væri fyrst og fremst að rekja til háttsemi B. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um að matsgerðin yrði lögð til grundvallar við úrlausn málsins og var B gert að greiða C umkrafðar skaðabætur. Með hinum áfrýjaða dómi var hæstaréttarlögmanninum J gert að greiða réttarfarssekt vegna hegðunar sinnar fyrir dóminum. Var sú niðurstaða einnig staðfest í Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandinn Bjarni Snorrason skaut málinu til Hæstaréttar 30. apríl 2012 og áfrýjandinn Jón Egilsson 7. júní sama ár að fengnu áfrýjunarleyfi. Áfrýjandinn Bjarni krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms og að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að „héraðsdómaranum, Kolbrúnu Sævarsdóttur, verði gert að víkja sæti.“ Að því frágengnu krefst hann sýknu og loks lækkunar á kröfu stefnda C. Þá krefst áfrýjandinn málskostnaðar í héraði „í samræmi við gjafsóknarleyfi“ og fyrir Hæstarétti. Áfrýjandinn Jón Egilsson krefst þess aðallega að réttarfarssekt, sem sér hafi verið gerð með hinum áfrýjaða dómi, verði felld úr gildi „og hegðun [sín] við flutning málflutningsræðu verði án nokkurra viðurlaga“, en til vara að öðrum og vægari  úrræðum verði beitt af því tilefni. Að því frágengnu krefst hann þess að sektin verði lækkuð. Þá krefst áfrýjandinn málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi C krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms, að öðru leyti en því að 2.500.000 krónur, sem sér hafi verið greiddar 3. apríl 2012 samkvæmt lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, komi til frádráttar kröfu sinni. Þá krefst stefndi málskostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi áfrýjandans Bjarna án tillits til gjafsóknar sem sér hafi verið veitt, en að málskostnaður milli sín og áfrýjandans Jóns verði látinn niður falla.

I

Skýra verður kröfugerð áfrýjandans Bjarna Snorrasonar um málskostnað sér til handa í héraði „í samræmi við gjafsóknarleyfi“ á þann veg að með því krefjist hann þess hér fyrir dómi að honum verði dæmdur gjafsóknarkostnaður í héraði, þar á meðal verði ákveðin þóknun lögmanns hans fyrir flutning málsins í héraði, jafnvel þótt hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.

Í greinargerð í héraði 16. mars 2011 gerði áfrýjandinn kröfu um málskostnað úr hendi stefnda C án þess að hafa uppi þá kröfu sem að framan greinir. Hinn 24. febrúar 2012 var áfrýjandanum veitt leyfi til gjafsóknar til reksturs málsins fyrir héraðsdómi samkvæmt umsókn hans 3. janúar sama ár sem lögð var fram í málinu daginn eftir við lok aðalmeðferðar þess. Í þingbók er tekið fram að við flutning málsins í héraði hafi lögmaður áfrýjandans gert „sömu dómkröfur og tilgreindar eru í greinargerð.“ Stefndi naut gjafsóknar við rekstur málsins í héraði og krafðist hann málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp 30. janúar 2012 og var áfrýjandanum gert að greiða hluta málskostnaðar stefnda í ríkissjóð. Að þessu virtu kemur framangreind krafa áfrýjandans, sem hann hefði getað haft uppi í héraði, ekki til álita við úrlausn máls þessa hér fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 163. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

II

Málsatvik eru skilmerkilega rakin í hinum áfrýjaða dómi, en þau eru í megindráttum að áfrýjandinn Bjarni Snorrason og Ari Þór Þrastarson voru ákærðir „með því að hafa aðfaranótt ... 5. nóvember 2006, fyrir utan verslunina [...] í [...] í Kópavogi, ráðist í félagi á C ... þannig að hann féll í götuna og Bjarni þá sest ofan á hann klofvega og kýlt hann í andlit og í höfuð en Ari sparkað í fætur hans“ með nánar greindum afleiðingum. Í sakamálinu gerði stefndi þá kröfu að áfrýjandinn og Ari Þór yrðu dæmdir til að greiða sér miskabætur, auk bóta vegna tekjutaps, læknis- og sjúkrakostnaðar og lögfræðiaðstoðar. Í kröfugerð stefnda var tekið fram að kæmi síðar í ljós að hann hefði hlotið varanlegan miska eða örorku af völdum líkamsárásarinnar áskildi hann sér rétt til að láta meta það tjón sérstaklega og krefjast bóta vegna þess tjóns síðar í einkamáli. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 24. janúar 2008 voru áfrýjandinn og Ari Þór sakfelldir fyrir líkamsárásina á grundvelli 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og dæmdir til greiðslu sekta. Jafnframt var áfrýjandanum gert að greiða stefnda 100.000 krónur í miskabætur og 45.000 krónur vegna lögmannskostnaðar.

Með matsbeiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2009 fór stefndi þess á leit að dómkvaddir yrðu tveir menn til að láta í té skriflegt og rökstutt álit um afleiðingar fyrrgreindrar líkamsárásar. Í matsbeiðninni var tekið fram að „til þess að gæta hagsmuna sinna vegna matsbeiðni, matsútnefningar og matsgerðar“ væri óskað að nafngreindum lögmanni stefnda, áfrýjandanum og Ara Þór yrði „tilkynnt þar um“. Héraðsdómari sendi tilkynningu til áfrýjandans þar sem greint var frá því að áðurnefnd matsbeiðni hafi borist héraðsdómi og yrði matsmálið tekið fyrir 23. október 2009 á nánar tilgreindum stað og tíma. Myndi dómari þá dómkveðja Örn Höskuldsson hæstaréttarlögmann og Torfa Magnússon heila- og taugasjúkdómalækni, nema fram kæmu rökstudd mótmæli við dómkvaðningu þeirra. Tilkynningin var send með skeyti á lögheimili áfrýjandans þar sem það var afhent af starfsmanni Íslandspósts hf. 13. október 2009. Hinn 23. þess mánaðar var málið tekið fyrir af héraðsdómara og fært í þingbók að matsbeiðnin væri lögð fram. Mætt væri af hálfu matsbeiðanda og matsþola Ara Þórs. Til að framkvæma hið umbeðna mat væru kvaddir til þeir Örn Höskuldsson og Torfi Magnússon.

Í bréfi Arnar Höskuldssonar til áfrýjandans 29. desember 2009 var skýrt frá dómkvaðningu matsmanna og tekið fram að ekki hafi verið sótt þing af hálfu áfrýjandans. Síðan sagði í bréfinu: „Matsfundur var haldinn 19. nóvember 2009. Þú varst ekki boðaður til matsfundarins þar sem ekki þótti rétt að fundum þínum og matsbeiðanda bæri saman. Þér er nú gefinn kostur á að kynna þér matsgögn og koma að athugasemdum þínum á skrifstofu minni h. 05.01. 2010 kl. 13:00.“ Í bréfinu kom fram hvar skrifstofan væri til húsa og á bréfsefninu voru ennfremur upplýsingar um heimilisfang og símanúmer hennar. Bréfið var birt fyrir áfrýjandanum sjálfum af stefnuvotti að kvöldi 4. janúar 2010.

Samkvæmt matsgerð hinna dómkvöddu manna 5. janúar 2010 var talið að stefndi hafi verið veikur í skilningi 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 vegna árásarinnar 5. nóvember 2006 í þrjár vikur eftir hana. Varanlegur miski stefnda af völdum hennar samkvæmt 4. gr. laganna var metinn samtals 15 stig og varanleg örorka samkvæmt 5. gr. þeirra 5%. Í kjölfarið höfðaði stefndi mál þetta á hendur áfrýjandanum og Ara Þór og krafðist skaðabóta úr hendi þeirra á grundvelli matsgerðarinnar. Í greinargerð áfrýjandans í héraði var þess aðallega krafist að málinu yrði vísað frá dómi og var sú krafa reist „á meinbugum við dómkvaðningu matsmanna og framkvæmd mats.“ Var því meðal annars haldið fram að áfrýjandinn sem hafi verið matsþoli í skilningi laga hafi þrátt fyrir það ekki verið boðaður á dómþing þar sem matsbeiðni var tekin fyrir. Hann hafi því engan kost átt á að gera athugasemdir við val á matsmönnum eða hafa efnisleg áhrif á hvað skyldi lagt fyrir þá. Til vara krafðist áfrýjandinn sýknu, fyrst og fremst vegna þess að skilyrði skaðabótaábyrgðar væru ekki fyrir hendi.

Málið var þingfest í héraði 20. janúar 2011 og fór málflutningur um frávísunarkröfu áfrýjandans fram 29. apríl sama ár. Í þinghaldi 23. maí 2011 var bókað að málið væri endurupptekið á grundvelli 104. gr. laga nr. 91/1991. Ennfremur að dómari legði fram sem dómskjöl afrit af símskeyti til áfrýjandans vegna áðurnefnds matsmáls og endurrit úr þinghaldi í því. Væri aðilum veittur kostur á að koma með athugasemdir vegna þessa. Með úrskurði héraðsdóms 26. maí 2011 var kröfu áfrýjandans um frávísun málsins hafnað. Í þinghaldi 7. september sama ár var af hálfu áfrýjandans gerð krafa um að héraðsdómari viki sæti í málinu vegna vanhæfis. Að því búnu fór fram málflutningur um þá kröfu sem var reist á þeim röksemdum, sbr. b. og g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991, að dómarinn hefði með því að leggja fram fyrrgreind dómskjöl gætt réttar stefnda og þar með veitt honum ólögskyldar leiðbeiningar. Væru því fyrir hendi aðstæður sem væru til þess fallnar að áfrýjandinn gæti með réttu dregið óhlutdrægni dómarans í efa. Með úrskurði héraðsdóms 21. september 2011 var kröfu áfrýjandans hafnað og var sá úrskurður ekki kærður til Hæstaréttar.

Með hinum áfrýjaða dómi var krafa stefnda um skaðabætur úr hendi áfrýjandans tekin til greina, en Ari Þór sýknaður af henni. Á hinn bóginn var lögmanni hans, áfrýjandanum Jóni Egilssyni, gerð réttarfarssekt eftir e. og f. liðum 1. mgr. 135. gr. laga nr. 91/1991 fyrir að hafa í málflutningsræðu sinni hermt eftir stefnda á niðurlægjandi hátt. Áfrýjandinn kærði þetta ákvæði héraðsdóms til Hæstaréttar sem vísaði málinu frá réttinum með dómi 12. mars 2012 í máli nr. 103/2012.

III

Áfrýjandinn Bjarni Snorrason reisir kröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms og frávísun málsins frá héraðsdómi einkum á því að verulegir ágallar hafi verið á dómkvaðningu matsmanna og framkvæmd mats þeirra Arnar Höskuldssonar og Torfa Magnússonar. Ennfremur styðst krafa hans um sýknu við að matsgerð hinna dómkvöddu manna hafi verið ófullnægjandi, fyrst og fremst sökum þessara formgalla.

Í fyrsta lagi heldur áfrýjandinn því fram að sér hafi ekki verið gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna í þinghaldinu þegar dómkvaðning matsmanna fór fram. Eftir 2. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 skulu aðilar matsmáls kvaddir á dómþing þar sem matsbeiðni er tekin fyrir. Í samræmi við fyrirliggjandi matsbeiðni var áfrýjandanum sem fyrr segir tilkynnt um þinghaldið og tilkynningin sannanlega birt á lögheimili hans með tíu daga fyrirvara. Með því móti var honum gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna við dómkvaðninguna samkvæmt áðurnefndu lagaákvæði með þeirri aðferð sem boðin er í 1. mgr. 92. gr., sbr. a. lið 3. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991.

Í öðru lagi kveðst áfrýjandinn ekki hafa verið boðaður á matsfund, heldur hafi sér verið boðið að kynna sér gögn sem hinir dómkvöddu matsmenn höfðu undir höndum sama dag og matsgerð þeirra var undirrituð. Þar með hafi hann ekki getað gætt hagsmuna sinna við matið og haft áhrif á niðurstöðu þess. Í 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 er svo fyrir mælt að matsmaður skuli tilkynna aðilum svo fljótt sem verða má og með sannanlegum hætti hvar og hvenær verði metið. Sú ákvörðun hinna dómkvöddu matsmanna að boða áfrýjandann og stefnda ekki til sameiginlegs matsfundar af þeirri ástæðu, sem greind var í bréfi Arnar Höskuldssonar til áfrýjanda 29. desember 2009, fól út af fyrir sig ekki í sér brot á þessu lagaákvæði. Á hinn bóginn fór í bága við það sem þar er fyrir mælt að tilkynna áfrýjandanum sem matsþola fyrst um matið að kvöldi 4. janúar 2010, þegar honum var sannanlega afhent bréfið, aðeins degi áður en matsmenn gengu endanlega frá matsgerð sinni. Með bréfinu var áfrýjandanum þó gefið færi á að kynna sér matsgögn og koma að athugasemdum sínum, en hann hefði getað mætt hjá matsmanninum á tilsettum tíma þótt fyrirvarinn væri skammur eða boðað ella forföll og óskað eftir öðrum tíma. Að því gættu verður ekki litið framhjá umræddri matsgerð við úrlausn máls þessa.

Aðrar röksemdir sem áfrýjandinn hefur fært fyrir ómerkingarkröfu sinni og frávísun málsins frá héraðsdómi eru haldlausar. Krafa hans um ómerkingu hins áfrýjaða dóms á þeirri forsendu að dómsformaður héraðsdóms hafi verið vanhæfur til að fara með málið er sama marki brennd, en heimild héraðsdómara til að leggja sjálfur fram gögn í máli sem eru í vörslum dómsins, svo sem endurrit úr þingbókum og tilkynningum um þinghöld, styðst við rótgróna dómvenju.

Samkvæmt því sem að framan greinir verður fallist á með héraðsdómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, að matsgerð þeirra Arnar Höskuldssonar og Torfa Magnússonar verði lögð til grundvallar við úrlausn málsins. Að því gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um bótafjárhæð og vexti, að teknu tilliti til breyttrar kröfugerðar stefnda hér fyrir dómi, eins og greinir í dómsorði.

Eftir þessum málsúrslitum verður áfrýjandanum gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði, auk þess sem um gjafsóknarkostnað stefnda hér fyrir dómi fer eftir því sem þar segir.

IV

Áfrýjandinn Jón Egilsson heldur því fram að það sé rangt sem fram komi í hinum áfrýjaða dómi að hann hafi hermt eftir stefnda C í málflutningsræðu sinni fyrir héraðsdómi og gert grín að honum. Áfrýjandinn kveðst einungis með látbragði sínu hafa verið að sýna fram á að stefndi hafi ekki uppfyllt skilyrði þess að vera með áfallastreituröskun, svo sem haldið hafi verið fram af hans hálfu. Þá byggir áfrýjandinn á því að sem lögmaður hafi hann rúmt tjáningarfrelsi til að gæta hagsmuna umbjóðanda síns, meðal annars í málflutningsræðu.

Í athugasemdum dómsformanns í héraði í fyrrgreindu kærumáli nr. 103/2012, sem lagðar hafa verið fram í þessu máli, sagði um framferði áfrýjandans í málflutningsræðunni að til að leggja áherslu á orð sín hafi hann leikið stefnda C að hringja í lögmann sinn, sett ímyndað símtól upp að öðru eyranu og endurtekið með kjökrandi röddu „ég hélt ég myndi deyja“. Í kæru sinni kvaðst áfrýjandinn hafa sýnt „lágstemmd hræðslutilþrif“ og ekki hækkað róminn eða hreyft líkamann, heldur sýnt „aðeins með andlitinu og breytingu á rödd, hræðslu manns sem væri dauðhræddur.“ Í athugasemdum dómsformanns kom ennfremur fram að eftir að hann hafi gripið fram í fyrir áfrýjandanum og ekki sagst kunna að meta svona leikræna tjáningu hafi áfrýjandinn beðist velvirðingar. Hann hafi þó ekki beðið stefnda eða lögmann hans afsökunar á framkomu sinni og heldur ekki lýst því yfir að það hafi á engan hátt verið ætlan sín að niðurlægja málsaðila.

Samkvæmt framansögðu verður að leggja til grundvallar fyrrgreinda frásögn dómsformanns af framferði áfrýjandans meðan á málflutningsræðu hans stóð og jafnframt það mat hins fjölskipaða héraðsdóms að áfrýjandinn hafi hermt eftir stefnda á niðurlægjandi hátt. Þá er ósannað að áfrýjandinn hafi beðið stefnda afsökunar á framkomu sinni.

Í samræmi við stöðu sína njóta lögmenn rúms tjáningarfrelsis þegar þeir tala máli umbjóðenda sinna og gæta hagsmuna þeirra fyrir dómi. Því frelsi eru þó takmörk sett, meðal annars vegna réttinda eða mannorðs annarra, sbr. 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt 34. gr. siðareglna Lögmannafélags Íslands, sem styðjast við 2. mgr. 5. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, skal lögmaður sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitsemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna.

Áfrýjandinn hefur ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að þörf hafa verið fyrir hann að líkja eftir stefnda á þann hátt sem að framan er lýst til að tala máli umbjóðanda síns í máli því sem hér er til úrlausnar. Samkvæmt því og að teknu tilliti til þess sem áður greinir verður staðfest ákvæði hins áfrýjaða dóms um réttarfarssekt hans á grundvelli f. liðar 1. mgr. 135. gr. laga nr. 91/1991, en ekki verður litið svo á að ummæli hans sem slík hafi verið ósæmileg í garð stefnda þannig að þau falli undir e. lið sömu málsgreinar.

Vegna þess að hvorugur stefnda hefur gert kröfu um málskostnað úr hendi áfrýjandans ber hver aðili sinn kostnað af þessum þætti málsins.  

Dómsorð:

Áfrýjandinn Bjarni Snorrason greiði stefnda C 3.319.794 krónur með 4,5% vöxtum af 1.341.027 krónum frá 5. nóvember 2006 til 5. apríl 2007 og af 3.306.598 krónum frá þeim degi til 20. febrúar 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 3.319.794 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 2.500.000 krónum sem áfrýjandanum voru greiddar 3. apríl 2012.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um réttarfarssekt áfrýjandans Jóns Egilssonar skal óraskað.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu óröskuð.

Áfrýjandinn Bjarni Snorrason greiði 505.063 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð. Allur gjafsóknarkostnaður stefnda C fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 500.000 krónur. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur að öðru leyti niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. janúar 2012.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 4. janúar sl., var höfðað af A, [...], [...], með stefnu á hendur Ara Þór Þrastarsyni, [...], Reykjavík og Bjarna Snorrasyni, [...], [...], Noregi.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða honum 3.319.794 kr., ásamt 4,5% ársvöxtum af 1.341.027 krónum frá 5. nóvember 2006 til 5. apríl 2007, en af 3.306.598 kr. frá þeim degi til 20. febrúar 2011, en ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 af stefnufjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar.

Af hálfu stefnda Ara Þórs er aðallega krafist sýknu af kröfum stefnanda en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar verulega. Þá krefst hann málskostnaðar.

Af hálfu stefnda Bjarna er þess aðallega krafist að máli stefnanda verði vísað frá dómi. Til vara krefst stefndi sýknu af kröfu stefnanda en til þrautavara að stefnukrafa verði lækkuð verulega. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda.

II

Málavextir

Stefnandi varð fyrir líkamsárás 5. nóvember 2006 aðfaranótt 5. nóvember 2006 fyrir utan verslunina [...], [...], Kópavogi. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu barst tilkynning frá starfsmanni verslunarinnar þess efnis að ráðist hefði verið á mann í versluninni. Er lögregla kom á vettvang sagði hann fjóra til fimm menn hafa ráðist á útlending í versluninni. Hann hefði heyrt að útlendingurinn hefði ýtt við einhverjum þeirra og þeir því lamið hann. Þeir hefðu farið í burtu. Kona árásarþolans (stefnanda), D, hefði komið á vettvang og sagt mann sinn slasaðan eftir líkamsárás. Stuttu síðar hafi stefnandi komið á vettvang ásamt félaga sínum. Hann hafi verið með kúlu á enninu og blætt hafi úr því. Þá hafi augu hans verið mjög rauð. Stefnandi og félagi hans hafi báðir verið með álrör úr ryksugu í hendi. Flutti lögregla stefnanda á slysadeild. Reynt var að fá hann til að lýsa því sem hefði gerst og fá lýsingu á mönnunum en stefnandi sagðist ekkert muna. Starfsmaður á nærliggjandi veitingastað gat gefið lögreglu upplýsingar sem leiddu hana á slóðir stefnda Bjarna. Haft var símsamband við hann og viðurkenndi hann „að hafa gengið í skrokk á [...] sem var að rífa kjaft og ætti hann skilið að vera í sjónum í bútum“. Í kjölfar kæru stefnanda hóf lögregla hefðbundna rannsókn málsins. Samkvæmt gögnum lögreglu sást á myndbandsupptöku úr versluninni að fimm strákar komu að stefnanda þar sem hann stóð við afgreiðslukassann og fóru að ræða við hann. Til einhverra stympinga hafi komið og hverfi þeir úr mynd.

Með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 1. nóvember 2007, voru stefndu ákærðir fyrir að hafa ráðist í félagi á stefnanda þannig að hann féll í götuna og hafi stefndi Bjarni þá sest klofvega ofan á stefnanda og kýlt hann í andlit og höfuð en stefndi Ari sparkað í fætur stefnanda þar sem hann lá í götunni, með þeim afleiðingum að stefnandi bólgnaði vinstra megin á enni og hruflaðist í vinstra eyra, bólgnaði fyrir nefrót, hlaut glóðaraugu, roðablett á hálsi og í hársverði upp við hnakka, rispur yfir spjaldhrygg vinstra megin og þreifieymsli á hálsi, hnakka, herðum og niður með hryggvöðvum. Brot ákærðu var heimfært til 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærðu játuðu skýlaust brot sín og með dómi Héraðsdóms Reykjaness, uppkveðnum 24. janúar 2008, voru þeir sakfelldir í samræmi við þá háttsemi sem þeim var gefin að sök í ákæru. Var stefndi Bjarni dæmdur til að greiða 100.000 kr. í sekt í ríkissjóð en stefndi Ari Þór 80.000 kr. Þá var stefnda Bjarna gert að greiða stefnanda 100.000 kr. í miskabætur vegna ólögmætrar meingerðar en bótakrafan beindist að honum einum.

Stefnandi kveður afleiðingar líkamsárásarinnar, líkamlegar og andlegar, mun alvarlegri en þau gögn sem byggt hafi verið á í sakamálinu gefi til kynna, einkum vegna þess höfuðhöggs sem hann hafi orðið fyrir af völdum stefnda Bjarna.

Ýmis læknisfræðileg gögn liggja fyrir um heilsu stefnanda eftir að hann varð fyrir umræddri líkamsárás.

Í læknabréfi Hlyns Þorsteinssonar á Landspítala-háskólasjúkrahúsi, dags. 5. nóvember 2006, segir að við skoðun hafi stefnandi verið með bólgu vinstra megin á enni og smáhrufl á vinstra úteyra. Þá hafi hann verið með bólgu yfir nefrót en nefið hafi verið alveg beint, engin hliðrun hafi orðið á nefbeinum. Hann væri svolítið marinn á hvítu í hægra auga, virtist vera með þunna hvítu þar líka þannig að kannski væri þetta eitthvað annað í bland. Pínulítil rispa var yfir nærkjúkulið á hægri litlafingri. Stefnandi svaraði í samhengi og ekki væru merki um neina alvarlega áverka. Var stefnandi greindur með yfirborðsáverka á höfði og heilahristing.

Í vottorði Skúla Bjarnasonar læknis á Landspítala-háskólasjúkrahúsi, dags. 28. nóvember 2006, kemur fram greiningin mar og hrufl á höfði og grunur um heilahristing og er stefnanda jafnframt vísað í áfallahjálp.  Í endurkomu eftir hádegi 5. nóvember 2006 segi að stefnandi hafi þá haft verulega verki í hnakka, hálsi og herðum og niður eftir baki.

Í vottorði Stefáns Björnssonar, læknis á Heilsugæslustöðinni Hvammi, dags. 14. mars 2008, segir að hópur ungra manna hafi af tilefnislausu ráðist á stefnanda og látið höggin dynja á höfði hans, andliti og baki og fór hann beint á slysavarðstofu. Hafi hann farið í endurkomu 9. nóvember 2006 og kvartað um verki í höfðinu og minnisleysi í jafnvel hálftíma til klukkustund eftir að hann var laminn. Tölvusneiðmynd af höfði hafi ekki sýnt neitt athugavert og hafi þá verið bætt við greiningunni hálstognunaráverki (whiplash áverki). Enn fremur hafi hann fengið heilahristing. Eftir þetta hafi verið vaxandi verkir og stirðleiki í hnakka og herðum, höfuðverkur og vaxandi andleg vanlíðan. Hann hafi verið óvinnufær í 3 vikur eftir árásina, farið svo að vinna aftur en í framhaldinu fundið fyrir vaxandi þunglyndi og kvíða og verkjum í hnakka og herðum. Hann hafi verið óvinnufær frá 1. febrúar 2008. Kom hann til læknisins 6. sama mánaðar vegna vaxandi þunglyndis og kvíða og jafnvel dauðahugsana og sjálfsvígshugsana og svefntruflana og treysti sér ekki til vinnu. Hafi hann verið í meðferð hjá Ingu Maríu, sálfræðingi á Sjónarhóli. Við skoðun læknis hafi verið orðið vart stirðleika og eymsla í hnakka og herðum, styttingar á hálsvöðvum, verkja undir herðablaðinu og milli herðablaða. Engin eymsli voru yfir hryggjartindum sjálfum. Kraftar í útlimum beggja vegna eðlilegir og skyn eðlilegt. Stefnandi hafi verið kominn á samning hjá [...] en vegna þessa áverka og veikinda hafi honum verið sagt upp. Árásin hafi greinilega valdið honum miklum  og langvarandi óþægindum og vanlíðan bæði á líkama og sál. 

Í vottorði Guðbjargar Vignisdóttur, læknis á göngudeild geðdeildar Landsspítala -háskólasjúkrahúsi, dags. 14. nóvember 2008, segir m.a.: „Það er ljóst að árás sú sem hann varð fyrir hefur haft afar neikvæð áhrif á hans geðrænu vandamál og jafnvel orðið kveikja að þeim. Hann neitar fyrri sögu um sambærileg einkenni og hann glímir við í kjölfar árásarinnar. Hann væri nú óvinnufær vegna sinna veikinda og hefði verið sótt um endurhæfingarlífeyri fyrir hann og sett upp endurhæfingarprógramm. Tækist honum að sinna þeirri meðferð sem sett hefur verið upp fyrir hann ættu batahorfur hans að teljast góðar.“

Í vottorði Guðbjargar Daníelsdóttur, sálfræðings á Landspítala-háskólasjúkrahúsi, dags. 3. júní 2009, segir m.a.: „C glímir við ýmis einkenni áfallastreituröskunar.  Hann er kvíðinn, forðast að vera úti á kvöldin og hefur einangrað sig nokkuð. Hann hefur verið dapur, orkulaus og með talsvert vonleysi. Einnig hefur hann glímt við svefntruflanir og mikið lystarleysi. C mun þurfa á áframhaldandi endurhæfingu að halda næstu mánuði, bæði sálrænni og líkamlegri.“

Að beiðni lögmanns stefnanda gerði Þórunn Finnsdóttur, sérfræðingur í klínískri sálfræði, sálfræðilegt mat á andlegum afleiðingum líkamsárásarinnar. Í niðurstöðum hennar, dags. 20. maí 2009, segir m.a. að samkvæmt frásögn stefnanda hafi hann upplifað mikla skelfingu og ótta við að deyja þegar árásin hafi átt sér stað. Tilfinningaleg og líkamleg ásýnd í viðtali endurspegluðu þá upplifun, sem samræmdust fyrsta viðmiði í greiningu áfallastreituröskunar. Önnur einkenni, sem C lýsti og komi fram í sálfræðilegum prófum, samræmdust öðrum viðmiðunargildum og þróun áfallastreituröskunar. Var það álit Þórunnar að stefnandi hefði upplifað alvarlegt sálrænt áfall þegar hann varð fyrir árás í nóvember 2006, sem hefði haft víðtæk áhrif á líf hans og líðan. Sálræn einkenni uppfylltu að fullu greiningarskilmerki áfallastreituröskunar auk alvarlegs þunglyndis. Það mætti ætla að einkenni hinna ýmsu kvíðaraskana skýrist helst af undirliggjandi áfallastreituröskun. Þar sem einkenni hafa verið til staðar í tvö og hálft ár væri ólíklegt að fullur bati næðist án sálfræðimeðferðar, þar sem áhersla er lögð á að fá sálræna úrvinnslu áfallsins. Niðurstaðan var áfallastreituröskun (ICD-10, F43.1) og djúp geðlægð (F32.2).

Til að meta afleiðingar líkamsárásarinnar voru að beiðni stefnanda dómkvaddir tveir hæfir og óvilhallir matsmenn, þeir Örn Höskuldsson hrl. og Torfi Magnússon læknir. Í matsgerð þeirra, dagsettri 5. janúar 2010, kemur fram að tímabundið atvinnutjón stefnanda hafi verið þrjár vikur. Eigi hann rétt á þjáningarbótum fyrir það tímabil. Stöðugleikatímapunkt töldu matsmenn vera sex mánuðum eftir árásina, þ.e. 5. apríl 2007. Við mat á varanlegum miska, sbr. 4. gr. skaðabóta, litu matsmenn til vægra tognunareinkenna í hálsi með verkjageislun út í herðasvæði og niður í hægra herðablað. Einnig tóku þeir tillit til vægra einkenna frá hægri öxl. Væri þessi líkamlegu einkenni alfarið að rekja til árásarinnar. Vegna afleiðinga árásarinnar hafi stefnandi fengið talsverð einkenni áfallastreitu, og með tímanum hafi bæst við einkenni þunglyndis. Þunglyndiseinkenni hafi farið versnandi í fyrstu, en einkum þó í kjölfar þess að stefnandi hafi missti föður sinn [...] 2007. Í kjölfar leitaði hann sálfræðimeðferðar, sem skilað hafi nokkrum árangri. Fyrir um mánuði hefðu einkenni stefnanda ýfst enn upp í tengslum við að hann flæktist inn í afbrotamál vegna tengsla við vitni. Töldu matsmenn að geðræn einkenni hans væru að hluta til af afleiðingum árásarinnar, að hluta af andlegu áfalli vegna föðurmissis og einnig vegna ótta í tengslum við fyrrnefnt afbrotamál. Líkamsárás sú er matsbeiðandi hafi orðið fyrir þann 5. nóvember 2006 hafi verið kveikjan að geðrænum vandkvæðum hans og eigi að helmingi þátt í núverandi geðrænum einkennum hans. Heildarmiska matsbeiðanda vegna líkamlegra einkenna mátu matsmenn 5 stig og töldu að rekja mætti allan þann miska til líkamsárásarinnar. Heildarmiska matsbeiðanda vegna geðrænna einkenna mátu matsmenn 20 stig og töldu að 10 miskastig mætti rekja til líkamsárásarinnar. Sammetinn heildarmiska matsbeiðanda vegna afleiðinga líkamsárásarinnar mátu þeir þannig 15 stig. Við mat á varanlegri örorku samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga litu þeir til þeirra kosta sem stefnandi ætti til að afla sér tekna með vinnu sem sanngjarnt væri að ætlast til að hann starfaði við. Hann hefði starfað hér sem verkamaður og unnið líkamlega nokkuð erfiða vinnu. Hann hefði ekki starfsmenntun sem nýttist honum hér á landi en það var álit matsmanna að hægt væri að ætlast til þess að hann ynni störf sem ekki krefðust mikilla átaka. Töldu þeir að starfsval hans væri takmarkað að þessu leyti og vinnugeta því nokkuð skert. Matsmenn töldu ekki að hin geðrænu einkenni sem rekja mætti til árásarinnar 5. nóvember 2006 hefðu skert aflahæfi matsbeiðanda. Teldist varanleg örorka hæfilega metin 5%.

Skýrslur fyrir dóminum gáfu stefnandi, stefndu, Torfi Magnússon, Harpa Hrund Albertsdóttir, Örn Höskuldsson, E, F, G, H, Skúli Bjarnason, Hlynur Þorsteinsson, Þórunn Finnsdóttir og D.

III

Málsástæður stefnanda

Af hálfu stefnanda er á því byggt að hann hafi orðið fyrir alvarlegri og tilefnislausri líkamsárás af hendi stefndu, þann 5. nóvember 2006, og af því hlotist líkamlegt, andlegt og fjárhagslegt tjón. Stefndu hafi verið ákærðir fyrir líkamsárás, játað brot sín skýlaust fyrir dómi og verið dæmdir til greiðslu sekta í ríkissjóð. Stefndi Bjarni var hins vegar einn dæmdur til greiðslu miskabóta vegna ólögmætrar meingerðar gagnvart stefnanda, þar sem kröfunni hafði aðeins verið beint gegn honum. Í miskabótakröfu stefnanda í refsimálinu hafi sérstaklega verið tekið fram að ef í ljós kæmi síðar að brotaþoli hefði orðið fyrir varanlegum miska eða varanlegri örorku af völdum líkamsárásarinnar áskildi hann sér rétt til að sækja rétt sinn til bóta í sérstöku einkamáli.

Stefnandi telur sannað að stefndu hafi veitt honum þá líkamsáverka sem metnir hafi verið stefnanda til m.a. varanlegs miska og varanlegrar örorku. Stefndu hafi í félagi, ráðist á stefnanda, kýlt hann og sparkað í hann liggjandi, eins og í ákæru greini, og veitt stefnanda tognunaráverka á hálsi, með verkjageislun út í herðasvæði og niður í hægra herðablað, auk einkenna frá hægri öxl. Vísar stefnandi um tjón sitt til matsgerðar dómkvaddra matsmanna. Þáttur hvors stefndu í tjóni stefnanda verði ekki aðgreindur  og beri þeir því solidaríska ábyrgð á því tjóni sem stefnandi búi nú við og muni búa við til frambúðar. Orsakasamband sé milli áverka stefnanda og líkamsárásarinnar, bæði í tíma og samkvæmt fyrirliggjandi læknisfræðilegum gögnum. Enn fremur hafi stefndu viðurkennt að hafa ráðist á stefnanda og staðfesti vitni það.

Með ásetningi eða af stórkostlegu gáleysi hafi stefndu verið valdir að tjóni stefnanda. Líkamsárásin hafi verið með öllu tilefnislaus og afar fólskuleg. Stefndu beri samábyrgð á þessari háttsemi og afleiðingum hennar. 

Stefnandi krefst skaðabóta fyrir annað tjón stefnanda, en þær miskabætur sem þegar hafi verið dæmdar í máli S-1039/2007.  Stefnandi sundurliðar kröfu sína á eftirfarandi hátt:

Annað fjártjón skv. 1. gr.

kr.         13.196

Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr.

Þjáningarbætur skv. 3. gr. (700*7160/3282*21 daga fótaferð)

kr.         32.069

Varanlegur miski skv. 4. gr. (4.000.000*7160/3282*15/100)

kr.    1.308.958

Varanleg örorka skv. 5-7. gr. (2.653.622*14,814*5/100)

kr.    1.965.571

Samtals

kr.    3.319.794

Um lagarök vísar stefnandi til ólögfestrar meginreglu skaðabótaréttar um að sá sem valdur sé að tjóni af ásetningi eða með gáleysi beri á því bótaábyrgð. Þá byggir hann á skaðabótalögum nr. 50/1993. Um málskostnað er vísað til laga nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. grein.

Málsástæður stefnda Ara Þórs

Af hálfu stefnda er á því byggt að útilokað sé að hann geti borið ábyrgð á tjóni stefnanda því hann hafi ekkert gert á hluta hans. Stefndi hafi verið áhorfandi að illindum stefnanda við aðra. Þá liggi fyrir í læknisvottorðum að stefnandi hafi enga áverka á fótum. Hafi hann ekki vitað að stefndi hafi danglað í fót hans. Hann hafi engin samskipti haft við stefnanda og hafi stefnanda ekki staðið ógn af honum. Stefnandi hafi legið meðvitundarlaus undir öðrum manni er stefndi hafi komið út úr versluninni og sparkað í fót hans. 

Stefndi vísar til þess að stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að heilsu hans hafi hrakað með þeim eindæmum sem greini í matsgerðinni. Engin læknisfræðileg gögn séu til um andlega eða líkamlega heilsu hans fyrir þetta atvik. Þá hafi stefnandi upplýst um áfall vegna föðurmissis, skilnaðar og þá hafi aðilar í mansalsmáli hótað honum. Beri hann sönnunarbyrði fyrir því að matsgerðin byggist öll á þessum minniháttar átökum en ekki öðru. Matsgerðin sjálf taki ekki afstöðu til þessa né heldur hvort stefndi Ari geti átt þar sök. Verði því að sýkna stefnda.

Stefndi vísar til þess að stefndu hafi báðir verið ólögráða ungmenni þegar meint atvik hafi átt sér stað en stefnandi á besta aldri. Telur stefndi stefnanda upphafsmann átakanna. Hann hafi farið heim eftir atvik og komið til baka vopnaður við annan mann og viljað halda áfram átökum.

Stefndi telur kröfu stefnanda fyrnda og að hann hafi fyrirgert mögulegum bótarétti vegna tómlætis.

Hvað varðar varakröfu um lækkun vísar stefndi til þess að hann sé eignlaus, ómenntaður maður sem hafi tengst máli þegar hann hafi verið ófjárráða.

Málsástæður stefnda Bjarna

Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því að meinbugir hafi verið við dómkvaðningu matsmanna og framkvæmd mats. Stefndi, sem hafi verið matsþoli, hafi ekki verið boðaður á dómþing þar sem matsbeiðni hafi verið tekin fyrir sbr. 2. mgr. 61. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Hann hafi því ekki átt nokkurn kost á að gera athugasemdir við val á matsmönnum, né hafi hann getað haft efnisleg áhrif á hvað lagt yrði fyrir matsmenn. Með þessu hafi að engu verið hafður tilgangur dómkvadds mats. Matsgerðin hafi því ekki meira sönnunargildi en sérfræðigagn sem aðili afli einhliða. Telur stefndi að málatilbúnaður stefnanda fari gegn ákvæðum 80. gr. laga um meðferð einkamála. Þá vísar stefndi til þess að hann hafi ekki fengið að sitja matsfund með matsþola vegna þess að matsmenn hafi ekki talið það rétt vegna þeirra afleiðinga sem árásin hefði haft. Með þessu hafi stefndi ekki einasta verið sviptur lögbundnum rétti sínum til að verja hagsmuni sína, heldur hafi matsmenn afhjúpað fyrir fram mótaðar hugmyndir sínar um afleiðingar árásarinnar.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að skilyrði skaðabótaábyrgðar um sök, tjón og orsakasamband séu ekki fyrir hendi. Mat dómkvaddra matsmanna sé ófullnægjandi og feli ekki í sér lögfulla sönnun fyrir því að andleg og líkamleg einkenni séu sennileg afleiðing líkamsárásarinnar. Stefnandi hafi aðeins mætt á einn matsfund hjá matsmönnum sem haldinn hafi verið tæpum þremur árum eftir árásina. Matsfundurinn hafi farið fram fyrir milligöngu túlks sem túlkaði á [...]. Í matsgerðinni segi um varanlegan miska að matsbeiðandi hafi sýnt talsverð einkenni áfallastreitu eftir árásina, en hvergi sé getið neinna læknisfræðilegra gagna sem styðji slíka niðurstöðu, enda séu engin læknisfræðileg gögn til. Samtímaáverkavottorð gefi ekki tilefni til að ætla að átök hafi haft svo djúpstæðar eða varanlegar afleiðingar. Hann hafi ekki sótt sér sálfræði- eða geðhjálp og þá séu engar upplýsingar að finna um komu á heilsugæslu eða sjúkrastofnanir. Matsmenn byggi niðurstöðu um andlegar afleiðingar árásarinnar fyrir árið 2007 eingöngu á upplýsingum frá stefnanda sjálfum sem þeir öfluðu frá honum á einum matsfundi sem haldinn var rúmum þremur árum eftir að árásin átti sér stað, og eftir að stefnandi hafði gengið í gegnum mikla erfiðleika í sínu persónulega lífi, þar á meðal fráfall föður, skilnað sem og þá staðreynd að stefnandi flæktist inn í alvarleg sakamál í gegnum fyrrverandi konu sína. Matsmenn telji árásina árið 2006 hafa verið kveikju að geðrænum vandkvæðum stefnda og eiga helmings þátt í núverandi einkennum. Engin læknisfræðileg gögn styðji þetta enda hafi ekki borið skugga á andlegt heilbrigði stefnanda í tæpa 14 mánuði eftir árásina. Strax í kjölfar þess að stefnandi missti föður sinn á jóladag hafi hann leitað sálfræðilegrar aðstoðar og síðan þá hafi sjúkrasaga hans verið samfelld um andlega erfiðleika. Miklu sennilegra sé að andlega erfiðleika stefnanda megi rekja til fráfalls föður hans.

Stefndi bendir á að tekjur stefnanda árið 2007 hafi aukist frá árinu áður og stefnandi hafði ekki áður haft viðlíka tekjur, allan tímann sem hann hafi verið búsettur á Íslandi. Af þessu megi ráða að aflahæfi hafi aukist en ekki minnkað. Stefnandi hafi aðeins einu sinni leitað til heilsugæslu vegna verkja á árinu 2007, en þá verki má alveg eins skýra með því að stefnandi hafi unnið langa vinnudaga og erfiðisvinnu. Stefnandi eigi ekki val um það hvaða atvik eða atburður sé kveikjan að andlegum erfiðleikum hans. Sjúkrasagan tali sínu máli sjálfstætt og gangi í berhögg við frásögn stefnanda. Stefndi hafi þegar greitt 100.000 kr. í miskabætur fyrir árásina og telur hann um fullnaðarbætur að ræða.

Til stuðnings kröfu sinni um lækkun skaðabóta byggir stefndi á því að matsgerðin sé ekki viðhlítandi grundvöllur til þess að reisa bótaábyrgð á. Matsmenn hafi hitt stefnanda einu sinni að máli og hvorugur matsmanna hafi haft sérfræðilega burði til að leggja mat á trúverðugleika stefnanda. Þá hafi það verið enn erfiðara þar sem fundurinn hafi farið fram á móðurmáli stefnanda, [...], með aðstoð túlks. Matsmenn hafi engan reka gert að því að kalla eftir sjúkrasögu stefnanda frá því fyrir árásina, þegar hann hafi verið búsettur í [...]. Sjúkrasaga hans þaðan kynni að hafa varðað miklu fyrir niðurstöðu þessarar matsgerðar. Þá telur stefndi matsmenn hafa farið langt út fyrir sérfræðilega þekkingu sína við vinnslu matsgerðarinnar. Annar matsmanna sé lögfræðingur og hinn heila- og taugalæknir. Ekki sé unnt að sjá hvernig matsmönnum hafi átti að vera fært að tengja saman miska og örorku stefnanda við atburð sem varð rúmum þremur árum áður og engin gögn að styðjast við. Stefndi áskilur sér af þessum sökum rétt til að kalla eftir nýrri matsgerð.

Kröfu um málskostnað styður stefndi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Niðurstaða

Með úrskurði uppkveðnum 26. maí sl. var kröfu stefnda Bjarna, um frávísun málsins, hafnað. Að mati dómsins eru ekki fram komin frekari rök til þess að fallast á ítrekaða kröfu stefnda um frávísun málsins og er henni því hafnað.

Í máli þessu er deilt um ábyrgð stefndu á tjóni sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir vegna líkamsárásar af þeirra hálfu 5. nóvember 2006 fyrir utan verslunina [...], [...], Kópavogi. Stefndu draga í efa niðurstöðu matsgerðar um tjón stefnanda og þá telja þeir orsakasamhengi milli verknaðar þeirra og tjóns stefnanda ósannað.

Stefnandi kærði líkamsárásina til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sem hóf hefðbundna rannsókn málsins og gaf í kjölfar þess út ákæru á hendur stefndu. Voru þeir ákærðir fyrir að hafa ráðist í félagi á stefnanda þannig að hann féll í götuna og stefndi Bjarni þá sest klofvega ofan á stefnanda og kýlt hann í andlit og höfuð en stefndi Ari sparkað í fætur stefnanda þar sem hann lá í götunni, með þeim afleiðingum að stefnandi hlaut bólgu vinstra megin á enni og hrufl í vinstra eyra, bólgu fyrir nefrót, glóðaraugu, roðablett á hálsi og í hársverði upp við hnakka, rispur yfir spjaldhrygg vinstra megin og þreifieymsli á hálsi, hnakka, herðum og niður með hryggvöðvum. Brot ákærðu var heimfært til 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærðu játuðu skýlaust brot sín og með dómi Héraðsdóms Reykjaness, uppkveðnum 24. janúar 2008, voru þeir sakfelldir í samræmi við þá háttsemi sem þeim var gefin að sök í ákæru og dæmdir til sektargreiðslna. Þá var stefnda Bjarna gert að greiða stefnanda 100.000 kr. í miskabætur vegna ólögmætrar meingerðar, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en bótakrafan beindist að honum einum.

Í bótakröfu þeirri sem lögð var fram í sakamálinu áskildi stefnandi sér rétt til að láta meta sérstaklega og krefjast skaðabóta kæmi í ljós að hann hefði hlotið varanlegan miska, sbr. 4. gr. skaðabótalaga, eða varanlega örorku, sbr. 5. til 7. gr. sömu laga. Staðfest hefur verið með matsgerð dómkvaddra matsmanna að afleiðingar líkamsárásarinnar, líkamlegar og andlegar, hafi verið mun alvarlegri en gögn þau sem byggt var á í sakamálinu gáfu til kynna. Töldu matsmenn líkamsárásina hafa verið kveikju að hans geðrænu vandkvæðum og ætti að helmingi þátt í núverandi geðrænum einkennum hans. Sammetinn heildarmiska mátu þeir 15 stig en varanlega örorku 5%. Niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna er að mati dómsins ágætlega rökstudd og ítarleg og hafa stefndu ekki leitast við að fá henni hnekkt með yfirmati. Þá verður ekki talið að þeir annmarkar séu á henni að hún verði ekki lögð fram til grundvallar við úrlausn málsins. Enn fremur ber að horfa til þess að matsgerðin er í samræmi við þau læknisfræðilegu gögn sem liggja fyrir í málinu. Þannig kemur fram í vottorði Skúla Bjarnasonar, læknis á Landspítala-háskólasjúkrahúsi, til lögreglu, dagsettu 28. nóvember 2006, að stefnandi kvartaði um verulega verki í hnakka, hálsi og herðum og niður eftir baki í endurkomu í byrjun nóvember 2006. Þá kemur fram að hann hafi verið skoðaður að nýju að beiðni Margrétar Blöndal sem hafi með áfallahjálp að gera þar sem stefnandi væri með minnisgloppur og myndi ekki gjörla hvernig hann hefði farið heim til sín. Í ársbyrjun 2008 leitaði stefnandi til Stefáns Björnssonar, læknis á Heilsugæslustöð Kópavogs, vegna vaxandi þunglyndis og kvíða og jafnvel dauðahugsana og sjálfsvígshugsana og svefntruflana og treysti sér ekki til vinnu. Við skoðun læknis mun hafa verið orðið vart stirðleika og eymsla í hnakka og herðum, styttingar á hálsvöðvum, verkja undir herðablaðinu og milli herðablaða. Taldi læknirinn að árásin hefði greinilega valdið honum miklum og langvarandi óþægindum og vanlíðan bæði á líkama og sál. Þá liggur fyrir vottorð Guðbjargar Vignisdóttur læknis og greinargerð Guðbjargar Daníelsdóttur sálfræðings báðar á göngudeild geðdeildar Landsspítala háskólasjúkrahúsi, þar sem fram kemur það álit þeirra að líkamsárásin hafi haft neikvæð áhrif á heilsu stefnanda. Sálfræðilegt mat Þórunnar Finnsdóttur, sem unnið var að beiðni lögmanns stefnanda, styður að stefnandi hafi upplifað sálrænt áfall þegar hann varð fyrir líkamsárásinni sem hefði haft víðtæk áhrif á líf hans og heilsu.

Ekki liggja fyrir gögn um sjúkrasögu stefnanda frá heimalandi hans, [...], en hann mun hafa flutt til Íslands árið [...], þá rúmlega tvítugur. Stefnandi kvaðst sjálfur ekki hafa átt við veikindi að stríða fyrr en hann lenti í líkamsárásinni. Í matsgerð kemur fram að samkvæmt afriti sjúkraskrár frá Heilsugæslunni í Kópavogi, þar sem stefnandi bjó, hafi hann fyrst leitað til heilsugæslunnar 24. apríl 2007, þ.e. hálfu ári eftir líkamsárásina. Þá kemur fram að stefnandi hafi fyrst leitað til Landsspítala - háskólasjúkrahúss í kjölfar líkamsárásarinnar. Að mati dómsins hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að veikindi stefnanda megi rekja til atvika er gerðust fyrir líkamsárásina 2006.

Með vísan til niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna, sem fær stuðning af fyrirliggjandi gögnum, er talið sannað að tjón stefnanda megi rekja til líkamsárásar þeirrar sem hann varð fyrir 2006. Um var að ræða atburð sem fallinn var til þess að valda ógn og skelfingu hjá stefnanda en fyrir liggur að eftir að hann hafi lent í orðaskiptum við stefndu og félaga þeirra eltu þeir hann út úr búðinni þar sem þeir veittust að honum eins og frá greinir í ákæru. Sérstaklega hlýtur það að hafa valdið stefnanda skelfingu er stefndi Bjarni sat ofan á honum og barði hann ítrekað í höfuðið en stefnandi virðist við það hafa misst rænu. Í læknisfræðilegum gögnum málsins, þá var strax í kjölfar árásarinnar grunur um að stefnandi hafi fengið heilahristing í árásinni og talið var rétt að vísa honum í áfallahjálp. Þannig eru læknisfræðileg gögn málsins sem og atburðarlýsing í lögregluskýrslum strax á fyrstu stigum í samræmi við líklega og mögulega þróun heilsufars stefnanda. Það er að hann fengi eins og síðar er staðfest í matsgerð, umtalsverða og varanlega tognunaráverka sem og varanleg geðeinkenni sem afleiðingu árásarinnar. 

Í máli ákæruvaldsins gegn stefndu í máli þessu, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjaness, voru ekki til umfjöllunar þær afleiðingar af líkamsárásinni sem fram koma í matsgerð dómkvaddra matsmanna. Reyndi því ekki á að hve miklu leyti tjón stefnanda væri unnt að rekja til háttsemi hvors stefndu fyrir sig. Að mati dómsins verður að miða við að tjón það sem stefnandi krefst bóta fyrir eigi sér fyrst og fremst orsök í árás, þ.m.t. höfuðhöggum stefnda Bjarna, þar sem hann sat ofan á stefnanda, en ekki þeirri háttsemi stefnda Ara Þórs, að sparka skó af fæti stefnanda. Tjón stefnanda getur m.ö.o. ekki talist sennileg afleiðing af verknaði stefnda Ara Þórs og ber því að sýkna hann af kröfum stefnanda í máli þessu. Samkvæmt þessu verður fallist á að stefndi Bjarni sé bótaskyldur gagnvart stefnanda vegna tjóns þess sem stefnandi hlaut af hans völdum. Ekki eru rök til að fallast á lækkunarkröfu stefnda Bjarna. Engar athugasemdir hafa verið gerðar við sundurliðun eða útreikning dómkrafna stefnanda.Verður stefndi Bjarni því dæmdur til að greiða stefnanda 3.319.794 kr., ásamt 4,5% ársvöxtum af 1.341.027 kr. frá 5. nóvember 2006 til 5. apríl 2007, en af 3.306.598 kr. frá þeim degi til 20. febrúar 2011, en ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af stefnufjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður

Með vísan til atvika máls og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að málskostnaður milli stefnanda annars vegar og hins vegar stefnda Ara Þórs falli niður. Báðir þessir aðiljar málsins hafa gjafsókn.

Málskostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hans, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hrl., 1.000.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.

Rétt er að stefndi Bjarni greiði í ríkissjóð hluta málskostnaðarfjárhæðar stefnanda, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, 500.000 kr.

Málskostnaður stefnda, Ara Þórs, þar með talin þóknun lögmanns hans, Jóns Egilssonar hrl., 750.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.

Réttarfarssekt

Í málflutningsræðu sinni hermdi lögmaður stefnda Ara Þórs, Jón Egilsson hrl., á niðurlægjandi hátt eftir stefnanda, sem viðstaddur var þinghaldið ásamt aðstandendum sínum, er hann lék stefnanda kjökrandi að hringja í lögmann sinn vegna málsins. Hegðaði hann sér þannig á ósæmilegan hátt gagnvart stefnanda og misbauð virðingu dómsins. Verður lögmanninum gerð sekt vegna þessarar háttsemi eftir e. og f. liðum 1. mgr. 135. gr. laga um meðferð einkamála sem ákveðst 100.000 kr. og renni í ríkissjóð.

Kolbrún Sævarsdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn, ásamt meðdómendunum Kristni Tómassyni geð- og embættislækni og Sigurði Thorlacius, sérfræðingi í heila- og taugasjúkdómum.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Ari Þór Þrastarson, er sýknaður af kröfum stefnanda, C.

Stefndi, Bjarni Snorrason, greiði stefnanda 3.319.794 kr., ásamt 4,5% ársvöxtum af 1.341.027 kr. frá 5. nóvember 2006 til 5. apríl 2007, en af 3.306.598 kr. frá þeim degi til 20. febrúar 2011, en ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af stefnufjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður milli stefnanda annars vegar og hins vegar stefnda Ara Þórs fellur niður.

Málskostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hans, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hrl., 1.000.000 kr. greiðist úr ríkissjóði.

Stefndi Bjarni greiði í ríkissjóð málskostnað að fjárhæð 500.000 kr.

Málskostnaður stefnda, Ara Þórs, þar með talin þóknun lögmanns hans, Jóns Egilssonar hrl., 750.000 kr. greiðist úr ríkissjóði.

Jón Egilsson hrl. greiði 100.000 kr. í sekt í ríkissjóð.