Hæstiréttur íslands
Mál nr. 399/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Barnavernd
- Vistun barns
- Gjafsókn
|
|
Miðvikudaginn 30. júlí 2008. |
|
Nr. 399/2008. |
A(Þórdís Bjarnadóttir hdl.) gegn Barnaverndarnefnd Reykjavíkur (Gunnar Eydal hrl.) |
Kærumál. Barnavernd. Vistun barns. Gjafsókn.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að börn A skyldu vistast utan heimilis í sex mánuði með heimild í 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. júlí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2008, þar sem varnaraðila var heimilað að vista börn sóknaraðila, B og C, utan heimilis hennar í sex mánuði frá 15. apríl 2008 að telja. Kæruheimild er í 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu varnaraðila um vistun barnanna utan heimilis hennar, en til vara að aðeins verði fallist á vistun B utan heimilis og að vistun drengsins standi skemur. Að því frágengnu krefst hún þess að vistun beggja barnanna verði ákveðin í skemmri tíma. Þá krefst hún kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila án tillits til gjafsóknar sem hún nýtur.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili hefur lagt nokkur ný gögn fyrir Hæstarétt. Meðal þeirra er sálfræðilegt mat á líðan B, beiðni um mat á forsjárhæfni sóknaraðila og beiðni um sálfræðilegt mat á líðan C. Þrátt fyrir að lagt yrði til grundvallar að vilji stúlkunnar sé sá sem fram kom í skýrslu talsmanns hennar frá 19. júní 2008 verður talið að hagsmunum hennar sé best borgið með því að tekin verði til greina krafa varnaraðila um vistun hennar utan heimilis sóknaraðila. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili nýtur gjafsóknar fyrir Hæstarétti samkvæmt 60. gr. barnaverndarlaga og fer um gjafsóknarkostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2008.
Mál þetta var þingfest 20. maí sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 23. júní sl.
Sóknaraðili er A, kt. [...].
Varnaraðili er Barnaverndarnefnd Reykjavíkur.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu varnaraðila um að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að börnin, B og C, verði vistuð utan heimilis í 6 mánuði frá 15. apríl 2008 að telja, sbr. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Til vara er þess krafist að krafa varnaraðila taki einungis til drengsins, C, og jafnframt að vistun hans verði ákveðin skemmri en 6 mánuðir.
Til þrautavara er þess krafist að vistun beggja barnanna verði ákveðin til skemmri tíma en 6 mánaða.
Að auki er krafist lögmannskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti, 24.5%, samkvæmt málskostnaðarreikningi, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Varnaraðili krefst þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að B og C, verði vistuð utan heimilis sóknaraðila í sex mánuði frá 15. apríl 2008 að telja, sbr. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Ekki er gerð krafa um kærumálskostnað.
Málavextir
Hinn 15. apríl 2008 kvað Barnaverndarnefnd Reykjavíkur upp þann úrskurð að börnin, B og C skyldu tekin af heimili sínu og vistuð utan heimilisins í allt að tvo mánuði, frá og með 15. apríl 2008.
Um er að ræða systkinin B, 14 ára og C, 11 ára, sem lúta sameiginlegri forsjá foreldra sinna, þeirra A og D. Foreldrar hafa ekki búið saman frá árinu 1999 en lögheimili barnanna hefur verið hjá móður allt til ársins 2005 er lögheimili drengsins var flutt til föður. B bjó hjá föður sínum í eitt ár frá hausti 2005 en systkinin hafa, að þeim tíma frátöldum, búið hjá móður sinni. Umgengni barnanna hefur verið nokkuð regluleg við föður en samskiptaerfiðleikar foreldra hafa komið niður á umgengni barnanna við föður sinn.
Afskipti hafa verið af högum barnanna á grundvelli barnaverndarlaga allt frá árinu 2001. Á þeim tæpu sjö árum sem liðin eru hafa ítrekaðar tilkynningar borist vegna lélegrar skólasóknar B og einnig hefur borið á miklum fjarvistum hjá C samkvæmt gögnum máls. Þá kemur fram að samskipti við sóknaraðila hafi verið erfið, sem sýndi ekki vilja til samvinnu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Í greinargerð, sem lögð var fyrir fund Barnaverndarnefndar 15. apríl 2008, er ítarlega farið yfir málavexti frá árinu 2001 og til 2008 og gerð grein fyrir málsmeðferð barnaverndaryfirvalda í málum barnanna á því tímabili. Í kjölfar úrskurðar Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 15. apríl 2008 var C komið til föður síns en B var vistaður á fósturheimili í sveit fyrir austan.
Upphaflega setti sóknaraðili fram kröfu um það að úrskurði varnaraðila frá 15. apríl sl. um vistun barnanna utan heimilisins í allt að tvo mánuði yrði hrundið, en undir rekstri málsins kom fram krafa frá varnaraðila um 6 mánaða vistun barnanna, sem málið snýst nú um.
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðili byggir aðallega á því að ekki sé ástæða til að ákveða vistun barnanna, og þá sérstaklega stúlkunnar, utan heimilis án hennar samþykkis. Meginregla barnaverndarlaganna sé sú að ávallt skuli fyrst leita úrræða til að styrkja foreldra í foreldrahlutverkinu og aðstoða börn við óbreyttar aðstæður, áður en ákveðið verði að vista barn utan heimilis. Sóknaraðili hafi verið til samvinnu við nefndina og hafi óskað eftir aðstoð inn á heimilið en það hafi ekki gengið eftir.
Í öðru lagi sé krafan á því byggð að vistun barnanna, og þá sérstaklega vistun stúlkunnar, sé alls ekki líkleg til að bæta aðstæður þeirra að nokkru leyti enda drengurinn orðinn 14 ára og stúlkan á 11. aldursári. Þekkt sé að vistun barna á þeirra aldri utan heimilis hafi sjaldnast í för með sér miklar breytingar til hins betra, heldur þvert á móti sé líklegt að áhrifin af slíku á börn á þessum aldri séu frekar til hins verra. Þá hafi verið ákveðið að vista drenginn á afskekktum stað úti á landi og þar séu aðstæður ekki með öllu vel til þess fallnar að tryggja hagsmuni hans. Drengurinn hafi fyrir nokkrum árum síðan átt við félagsleg vandamál að stríða, m.a. í formi eineltis, en hann hafi þó átt góð tengsl við vinahóp í hverfinu og hafi stoðunum verið kippt undan fótum hans hvað það varðar. Ákvörðun um vistun stúlkunnar heima hjá föður sínum, í allt öðru hverfi en hennar uppeldishverfi, sé bæði þvert gegn óskum hennar og sé alls ekki til hagsbóta fyrir stúlkuna. Styrkur stúlkunnar hafi einmitt legið í sterkri stöðu hennar félagslega, en hún eigi margar vinkonur í sínu hverfi, og jafnframt í þátttöku hennar í félagsstarfi. Báðum þessum atriðum hafi verið kippt undan fótum hennar. Óttist sóknaraðili mjög að með vistun barnanna utan heimilis, og á þeim stöðum sem þau séu nú, verði skorið á þessi vinatengsl.
Í þriðja lagi byggir sóknaraðili kröfu sína á því að varnaraðili hafi ekki nýtt þann tíma sem börnin hafa verið í tímabundnu fóstri til að bæta líðan þeirra og þar af leiðandi sé engin ástæða til að ákveða lengri þvingunarvistun barnanna á vegum varnaraðila. Tímabundið fóstur eigi að nýta til úrbóta fyrir börnin, en ekki aðeins að geyma þau á meðan beðið sé lengri sviptingar forsjár. Varnaraðili hafi ekki nýtt þennan tíma eins og lög geri ráð fyrir og þar af leiðandi sé engin staðfesting fyrir hendi um það hvort tímabundin vistun í styttri tíma, þ.e. 2 mánuði, sé ekki nægjanleg fyrir bæði börnin.
Í fjórða lagi byggir krafa sóknaraðila á því að ekki hafi legið fyrir fullnægjandi forsendur til vistunar stúlkunnar utan heimils þar sem ekki hafi legið annað fyrir en að sóknaraðili sé hæf til að annast stúlkuna. Stúlkunni hafi gengið vel í skólanum, hún standi styrkum fótum félagslega og því engin ástæða til að ætla að nauðsyn krefði að taka hana af heimili sóknaraðila. Hafi sóknaraðili jafnvel áhyggjur af því að úrskurður nefndarinnar hafi byggst á ómálefnalegum forsendum, án þess þó að það kæmi skýrt fram. Telur sóknaraðili þetta birtast í því að barnaverndarnefnd hafi samsamað stúlkuna við bróður sinn þrátt fyrir að algerlega ólík sjónarmið eigi við um þau tvö.
Enn fremur telur sóknaraðili ljóst, af reglum barnaverndarnefndar, að vilji löggjafans, með því að skipa málum svo að úrskurður barnaverndarnefndar um vistun barns utan heimilis án samþykkis forelda geti mest numið tveimur mánuðum, hafi verið sá að slík úrræði væru skoðuð sem vægari úrræði og bæri að beita þeim og kanna áhrifin af þeim úrræðum áður en til þess kæmi að krefjast þess fyrir dómi að úrskurðað væri um lengri vistun barns utan heimils. Telur sóknaraðili að með því að mæla fyrir um það að fela borgarlögmanni að gera kröfu um vistun barnanna utan heimilis í 6 mánuði, samtímis úrskurði um vistun utan heimilis í 2 mánuði, þá hafi barnaverndarnefnd í raun þegar tekið afstöðu til þess að sóknaraðili sé ekki í þeirri aðstöðu eftir vistun samkvæmt úrskurðinum að hún geti tekið við umsjá barnanna aftur. Hafi nefndin með þessu brotið gegn meðalhófi og meginreglu á sviði barnaréttar, þ.e. að almennt skuli hafa það að leiðarljósi að halda fjölskyldu saman og styðja hana fremur en að skilja hana að.
Með vísan til alls framangreinds verði ekki séð að nein skilyrði séu fyrir því að verða við kröfu varnaraðila um vistun beggja barnanna utan heimilis í 6 mánuði.
Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins er þess krafist til vara að krafan nái einungis til drengsins B og jafnframt að vistunartími hans verði styttur verulega. Sóknaraðili ítrekar að barnið C sé látin líða fyrir vandræði bróður síns og á þann hátt hafi varnaraðili ekki gætt meðalhófs í aðgerðum sínum hvað hana varðar. Ef ekki verði fallist á varakröfuna er þess krafist til þrautavara að vistunartími beggja barnanna verði styttur verulega.
Málsástæður varnaraðila
Málsástæður
I. Vilji barnanna og viðhorf til vistunar utan heimilis
Sóknaraðili byggir málatilbúnað sinn á því að börnin vilja hvorugt búa hjá föður sínum og að þau vilji hvergi annars staðar búa en hjá sóknaraðila. Varnaraðili bendir á að gögn málsins gefi til kynna vanmátt sóknaraðila að því er varðar daglega reglu, s.s. fæðu, svefn og líkamlega umhirðu barnanna og einnig að hún ofverndi börnin, t.a.m. með því að halda þeim frá skóla við minnsta lasleika. Félagsleg staða B sé slök og hafi gengið erfiðlega að meta líðan hans og stöðu þar sem hann sæki ekki skóla og starfsmönnum Barnaverndar gangi illa að ná sambandi við sóknaraðila eða heimili. Þegar drengurinn dvaldi utan heimilis sóknaraðila árið 2005 var skólasókn hans til fyrirmyndar og virtist félagsleg og námsleg staða hans styrkjast mjög. Þá var talið að hann hefði einnig gott af sálfræðiviðtölum sem hann nýtti sér en hann hafi ekki þegið áframhaldandi sálfræðiaðstoð eftir að hann flutti aftur á heimili sóknaraðila. Bæði börnin hafi samþykkt að njóta liðsinnis talsmanns sem hafi gætt réttinda þeirra og komið afstöðu þeirra á framfæri. Varnaraðili ítrekar að málefnalegar ástæður hafi legið að baki uppkvaðningu úrskurðar um vistun utan heimilis og að meðalhófsreglunnar hafi verið gætt í hvívetna við meðferð málsins. Úrskurðurinn hafi verið kveðinn upp eingöngu með sjónarmið um heilsu og velferð barnanna að leiðarljósi og með vitund um þá brýnu nauðsyn að stuðningsaðgerða væri þörf. Úrskurður varnaraðila frá 15. apríl 2008 sé í samræmi við 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 en þar segi að í barnaverndarstarfi skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að barni séu fyrir bestu. Þá sé varnaraðili eingöngu að fara að lagaskyldu en samkvæmt 1. tölul. 12. gr. barnaverndarlaga sé hlutverk varnaraðila að kanna aðbúnað, hátterni og uppeldisskilyrði barna og meta sem fyrst þarfir þeirra sem ætla megi að búi við óviðunandi aðstæður eða eigi í alvarlegum félagslegum erfiðleikum. Barnaverndarnefndir skuli, samkvæmt 2. tölul. 12. gr. laganna, beita þeim úrræðum samkvæmt lögunum til verndar börnum sem best eigi við hverju sinni.
II. Samvinna sóknaraðila við barnaverndaryfirvöld
Sóknaraðili byggi á því að hún hafi ávallt verið til samvinnu við varnaraðila, mætt á fundi og tekið því vel að fá stuðning heim. Með hliðsjón af því sem rakið sé í greinargerð varnaraðila um málavexti, og gögn málsins greini frá, geti varnaraðili ekki tekið undir þessa staðhæfingu. Skortur á vilja eða getu sóknaraðila til samvinnu við stuðningsaðila hafi verið einkennandi allt frá því að barnaverndaryfirvöld fengu mál barnanna til meðferðar árið 2001 og hafi það hamlað því að unnt hafi verið að bæta uppeldisaðstæður barnanna. Úrskurðinum til grundvallar liggi m.a. sú staðreynd að sóknaraðili hafi annað hvort ekki viljað eða getað nýtt sér þann stuðning sem boðinn hafi verið í því skyni að bæta aðstæður barnanna.
Varnaraðili styður kröfu sína um vistun utan heimilis fyrst og fremst með því að erfiðlega hefur reynst að kanna aðstæður og líðan barnanna og meta þörf fyrir stuðning vegna skorts á vilja sóknaraðila til samvinnu. Áhyggjur séu af geðheilsu sóknaraðila og hæfni hennar til að veita börnunum viðunandi uppeldisumhverfi. Fjölskyldan virðist nokkuð félagslega einangruð og hafi B ekki mætt í skóla frá því í október 2007 án lögmætra forfalla. Svo virðist sem sóknaraðili geti ekki veitt honum nauðsynlegt aðhald og drengurinn nái sínu fram á heimilinu og stjórni. Vandi drengsins hafi farið vaxandi undanfarna mánuði og sé nú svo komið að hann virðist nánast félagslega einangraður. Hann virðist haga lífi sínu eftir eigin hentugleika og mæti ekki almennum kröfum skóla eða samfélagsins í heild. Það sé því mat varnaraðila að drengurinn þarfnist sárlega aðstoðar og hafi það sýnt sig þegar B var á heimili föður að unnt sé að aðstoða hann með því að koma reglu á líferni hans.
Vaxandi áhyggjur hafi verið af umhirðu og líðan C og gefi nýlegar upplýsingar frá skóla tilefni til verulegra breytinga á uppeldisaðstæðum telpunnar þannig að viðunandi verði. Stuðningur á grundvelli barnaverndarlaga þykir fullreyndur og verði að telja að getu- eða viljaleysi sóknaraðila, nema hvort tveggja sé, til nauðsynlegrar þátttöku í þeim stuðningi sé meginástæða þess að uppeldisaðstæður barnanna séu taldar óviðunandi og þörf sé á vistun utan heimilis. Þá þyki nauðsynlegt að mat fari fram á líðan og stöðu barnanna þannig að unnt sé að meta þörf þeirra á stuðningi. Varnaraðili telur jafnframt nauðsynlegt að sóknaraðili undirgangist forsjárhæfnismat á tímabilinu þannig að unnt sé að gera betur grein fyrir þeim stuðningi sem nýst geti fjölskyldunni. Löggjafinn hafi ákveðið það fyrirkomulag að barnaverndarnefnd sé heimilt að kveða upp úrskurð um vistun barns utan heimilis í tvo mánuði án atbeina dómstóls, sbr. 1. mgr. 27. gr. en að atbeina dómstóla þurfi til lengri vistunar, sbr. 1.mgr. 28. gr. Í því felist ekkert annað enda megi ljóst vera af orðalagi 1. mgr. 28. gr. að það skuli hverju sinni vera mat barnaverndarnefndar hvort vistun þurfi að standa lengur en í þá tvo mánuði sem nefndinni sé heimilt að úrskurða um. Barnaverndarnefndir skulu að sjálfsögðu gæta meðalhófs í því mati. Í þessu máli sé það mat varnaraðila að vistun utan heimilis þurfi að standa lengur en í tvo mánuði ef einhver von eigi að vera til þess að stuðningur og önnur úrræði komi að gagni.
Varnaraðili telur þá niðurstöðu, að nauðsynlegt sé að vista börnin utan heimilis, í samræmi við meginreglu barnaréttar, en við slíka ákvörðun beri sem endranær, þegar málum barna sé skipað, að taka það ráð sem barni sé fyrir bestu.
Þar sem varnaraðili telur nauðsynlegt að vistun barnanna standi lengur en þá tvo mánuði sem nefndin hafi heimild til að úrskurða um, sbr. 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga, sé sú krafa gerð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að börnin C og B verði vistuð á heimili á vegum varnaraðila í sex mánuði frá og með 15. apríl 2008, sbr. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga. Faðir sé samþykkur vistun barnanna utan heimilis, eins og gögn máls beri með sér og beinist því þessi krafa varnaraðila eingöngu að sóknaraðila.
Niðurstaða
Með úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur uppkveðnum, 15. apríl 2008, var ákveðið að börnin B og C skyldu vistuð á fósturheimili á vegum Barnaverndarnefndar í allt að tvo mánuði, frá og með 15. apríl 2008 á grundvelli b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Í forsendum fyrir niðurstöðu úrskurðarins segir svo:
Erfiðlega hefur reynst að kanna aðstæður og líðan barnanna og meta þörf fyrir stuðning vegna skorts á vilja móður til samvinnu. Áhyggjur eru af geðheilsu móður og hæfni hennar til að veita börnunum viðunandi uppeldisumhverfi. Fjölskyldan virðist nokkuð félagslega einangruð og hefur B ekki mætt í skóla frá því í október 2007 án lögmætra forfalla. Kveðst hann vera að byggja sig upp en hann hefur ekki nýtt sér þau sálfræðiviðtöl sem honum hafa boðist á tímabilinu. Svo virðist sem móðir hans geti ekki veitt honum nauðsynlegt aðhalda og nái drengurinn sínu fram á heimilinu og stjórni. Vandi drengsins hefur farið vaxandi undanfarna mánuði og er nú sú komið að hann virðist nánast félagslega einangraður og hefur ekki sótt skóla í hálft ár. Hann virðist haga lífi sínu eftir eigin hentugleika og mætir ekki almennum kröfum skóla eða samfélagsins í heild. Það er mat nefndarinnar að drengurinn þarfnist sárlega aðstoðar og hafi það sýnt sig þegar B var á heimili föður að unnt sé að aðstoða hann með því að koma á reglu á líferni hans.
Vaxandi áhyggjur hafa verið af umhirðu og líðan C og gefa nýlegar upplýsingar frá skóla tilefni til verulegra breytinga á uppeldisaðstæðum telpunnar þannig að viðunandi verði. Stuðningur á heimilinu á grundvelli barnaverndarlaga þykir fullreyndur og verður að telja að getu- eða viljaleysi móður, nema hvort tveggja sé, til nauðsynlegrar þátttöku í þeim stuðningi sé meginástæða þess að uppeldisaðstæður barnanna eru taldar óviðunandi og þörf sé á vistun utan heimilis. Þá þykir nauðsynlegt að mat fari fram á líðan og stöðu barnanna þannig að unnt sé að meta þörf þeirra á stuðningi.
Af gögnum máls verður ráðið að brýnir hagsmunir barnanna hafi mælt með því að vista börnin utan heimilis á grundvelli 27. gr. barnaverndarlaga. Sérstaklega hafi vandi drengsins verið það mikill, vegna fjarveru frá skóla, félagslegrar einangrunar og skorts á uppeldislegu aðhaldi, að nauðsynlegt hafi verið að grípa til þessara aðgerða að því er hann varðar. Þá hafi upplýsingar frá skóla, varðandi umhirðu og líðan telpunnar, gefið tilefni til að grípa í taumanna varðandi uppeldisaðstæður hennar. Stuðningsúrræði hafi verið fullreynd og verulega hafi skort á samstarfsvilja móður samkvæmt gögnum máls.
Í málinu er nú til úrlausnar sú krafa varnaraðila að börnin, B og C, verði vistuð utan heimilis sóknaraðila í sex mánuði frá 15. apríl 2008 að telja, sbr. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Faðir barnanna er samþykkur því að börnin verði vistuð á fósturheimili á vegum barnaverndarnefndar, en sóknaraðili, móðir þeirra, er andvíg því. Sérstaklega er sóknaraðili andvíg vistun stúlkunnar utan heimilis þar sem ekki liggi annað fyrir en hún sé hæf til að annast stúlkuna.
Samskipti barnaverndaryfirvalda og forsjáraðila vegna afskipta af börnunum eru ítarlega rakin í gögnum máls og greinargerð varnaraðila.
Eins og fram kemur í gögnum máls samþykkti sóknaraðili haustið 2005 að breyting yrði gerð á lögheimili B þannig að hann dveldi hjá föður sínum. B bjó á heimili föður í eitt ár og sinnti þá námi sínu vel og mætti nánast án forfalla í skóla. Félagsleg og námsleg staða hans styrktist mjög á tímabilinu og sótti hann viðtöl hjá sálfræðingi. B var hjá föður sínum fram í október 2006 en þá hafði faðir samband við Barnavernd og lét vita af því að sóknaraðili hafði ekki sent B til baka úr umgengni. Drengurinn fór ekki aftur til föður og eftir það fór fljótlega að bera aftur á fjarvistum hans í skóla. Tilkynning barst frá E skóla þann 6. desember 2006 vegna B. Þar kom fram að viðvera hans í skólanum væri óviðunandi. Engin samvinna væri við sóknaraðila og þegar B hefði verið hjá föður sínum hefði hann mætt reglulega í skólann og virst ánægður. Foreldrar urðu ásáttir um að drengurinn færi að nýju til föður vorið 2007 enda hefðu fjarvistir hans í skóla verið miklar eftir að hann flutti til sóknaraðila að nýju. Viku síðar dró sóknaraðili samþykki sitt til baka og B flutti aftur á heimili hennar.
Á meðferðarfundi þann 26. júlí 2007 var ákveðið og það bókað að sóknaraðili yrði boðuð til viðtals og rætt yrði við hana um framhald málsins. Lagt var til að daglegt tölvusamband yrði haft við skóla drengsins vegna mætinga og líðan hans. Farið yrði í skólann og rætt við bæði börnin og rætt um að „Stuðningurinn heim“ kæmi á heimili sóknaraðila en það er þjónusta á vegum Félagsþjónustunnar í Reykjavík þar sem markmiðið er að leiðbeina fjölskyldum við uppeldi og umönnun barna sinna og styrkja þær í foreldrahlutverkinu. Þá yrði jafnframt óskað eftir tillögum sóknaraðila um úrbætur. Sóknaraðili hafði samband að fyrra bragði í gegnum tölvupóst og baðst afsökunar á því að ekki hefði verið hægt að ná í hana. Sagðist hún vera tilbúin að koma og þiggja aðstoð. Hún fékk tíma í lok júlímánaðar 2007 en mætti ekki í viðtalið. Í framhaldi af því var henni margsinnis sent bréf með viðtalsboðun og reynt að ná í hana símleiðis. Þann 11. september 2007 fóru starfsmenn Barnaverndar á heimili sóknaraðila eftir að hafa rætt við hana í síma nokkrum dögum áður. Starfsmaður bauðst til að koma á heimili hennar til að ræða einhvers konar stuðning þar sem hún hafði ekki mætt í boðuð viðtöl og illa hefði gengið að ná í hana. Ekki var svarað af hálfu sóknaraðila þegar dyrabjöllu var hringt.
Hringt var í E skóla til að athuga með mætingar B í skólann. Þær upplýsingar fengust að hann væri búinn að mæta um 30% af þeim dögum sem liðnir voru af skólaárinu. Í lok septembermánaðar 2007 hafði faðir drengsins samband til að láta vita af því að haft hefði verið samband við hann úr skóla drengsins og var hann ósáttur við að ekkert væri gert í málum drengsins. Sagðist hann tilbúinn að taka börnin til sín ef á þyrfti að halda. Áfram var reynt að hafa samband við sóknaraðila sem hafði af og til samband til að bóka viðtal sem hún mætti síðan aldrei í. Farið var á heimili sóknaraðila þann 4. október 2007 en, eins og áður, var ekki svarað. Sóknaraðili hafði samband síðar sama dag og sagðist vera veik og því ekki geta tekið á móti starfsmanni Barnaverndar.
Upplýsingar bárust frá E skóla þann 5. október 2007, þar sem fram kemur að B mætti illa í skólann. Einnig kom fram að frá því að skóla lauk um vorið og þar til hann kom á ný í skólann hefði hann þyngst mjög mikið. Áfram var reynt að ná sambandi við sóknaraðila og tókst nokkrum sinnum að bóka viðtal en hún hringdi ýmist og boðaði forföll vegna veikinda eða lét ekki sjá sig. Einnig var farið á heimili sóknaraðila í tvígang án árangurs. Málið fór því fyrir meðferðarfund þann 11. október 2007, þar sem gerð var einhliða áætlun um meðferð málsins ásamt bókun um stöðu þess.
Sóknaraðila var sent bréf þar sem áfram var óskað eftir samstarfi í tengslum við einhliða áætlun sem gerð var á meðferðarfundi þann 11. október 2007. Einnig var bréf sent í skólann þar sem óskað var eftir upplýsingum um drenginn. Þann 22. október 2007 bárust þær upplýsingar og lýsti skólinn yfir miklum áhyggjum af skólagöngu drengsins. Erfitt væri að greina daglega líðan hans, lítið færi fyrir honum þegar hann hefði mætt í skólann og hegðun hans væri góð. Samskipti við móður hefðu verið erfið en faðir hefði vilja til góðra verka. Mætingar B væru mjög slæmar.
Í byrjun árs 2008 var sóknaraðila sent bréf og óskað eftir því að hún mætti til viðtals. Sóknaraðili mætti ekki en hafði samband stuttu seinna og bar fyrir sig veikindi á heimilinu. Bauð hún starfsmanni að koma á heimilið og var ákveðið að sá tími yrði 29. janúar 2008. Það varð þó ekki af því og voru nokkrir tímar bókaðir en ávallt hringdi sóknaraðili samdægurs til að afboða viðtölin.
Að því er varðar telpuna C þá barst Barnavernd Reykjavíkur tilkynning frá E skóla þann 30. nóvember 2006 vegna hennar. Þar var áhyggjum nemendaverndarráðs skólans lýst er varðar vanhirðu, líðan og aðbúnað telpunnar Tekið er fram að C líði oft á tíðum illa, vanlíðan fari vaxandi og hún dragi sig í hlé. Tekið var fram að samskipti við móður hafi ekki verið með ásættanlegum hætti, hún komi ekki í boðuð viðtöl og hafi óskað eftir því við skólann að hringja ekki í sig framar.
Tilkynning barst Barnavernd Reykjavíkur frá E skóla þann 17. október 2007 vegna C, þar sem lýst var yfir áhyggjum af líðan og aðbúnaði telpunnar. Einnig kom fram að samskipti við sóknaraðila hafi ekki verið með ásættanlegum hætti, hún mæti ekki í boðuð viðtöl og hafi óskað eftir því að starfsfólk skólans hringi ekki í sig framar.
Þá bárust Barnvernd Reykjavíkur upplýsingar frá skóla C þann 20. febrúar 2008, þar sem enn var lýst yfir þungum áhyggjum er varða líðan, aðbúnað og umhirðu telpunnar. Hún hafi verið mikið frá vegna veikinda og það sé farið að koma niður á stöðu hennar í námi. Nýr kennari hafi tekið við bekknum og hafi sóknaraðili tvívegis haft samband við hana símleiðis til að spyrjast fyrir en að öðru leyti hafi samskipti sóknaraðila ekki verið með ásættanlegum hætti. Hún mæti ekki á boðaða fundi, svari ekki hringingum skólans og hafi óskað eftir því við skólann að hann hringdi ekki í sig framar.
Bréf voru send í skóla barnanna þar sem upplýsinga um stöðu mála var óskað. Upplýsingar bárust frá skóla B þann 19. febrúar 2008, þar sem fram kom að drengurinn hefði ekki mætt í skólann síðan um haustið. Erfitt væri að greina daglega líðan hans, ástand mætinga væri mjög slæmt og miklar áhyggjur voru af skólagöngu hans.
Bréf var sent til forsjáraðila þann 13. mars 2008 þar sem kynnt var eftirfarandi bókun meðferðarfundar hjá Barnavernd Reykjavíkur frá 6. mars 2008:
Staða málsins er verulega slæm og algerlega óviðunandi. Drengurinn hefur ekki mætt í skólann frá því í október 2007 og þar áður mætti hann verulega illa í skólann. Lýst er yfir þungum áhyggjum af telpunni í skólanum og í gegnum tíðina hafa verið miklar áhyggjur af aðstæðum barnanna. Nú er fullljóst að samvinna við móður er engin um það að bæta aðstæður barnanna.
Lagt er til að málið verði lagt fyrir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hið fyrsta. Þar verði gerð tillaga um það að bæði börnin fari af heimili móður vegna óviðunandi aðstæðna þeirra þar. Lagt verður til að um tímabundna vistun í 5 mánuði utan heimilis verði að ræða á meðan að mat fer fram á móður og börnum.
Faðir hefur áður lýst sig reiðubúinn að taka börnin til sín en það hefur ekki gengið eftir þar sem drengurinn hefur leitað heim til móður á ný. Þegar drengurinn hefur verið hjá föður hefur hann hins vegar mætt í skólann þann tíma.
Drengurinn fékk sáfræðiaðstoð þegar hann dvaldi hjá föður, sem talið var að hann þyrfti á að halda áfram. Móðir tók þó fyrir framhald á því úrræði þegar hann fór heim á ný. Nú er lagt til að skoðað verði á ný með sálfræðilega aðstoð við bæði börnin.
Sóknaraðili hafi samband símleiðis og sagðist mjög ósátt við að málið færi fyrir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, varnaraðila í máli þessu. Hún kvaðst ekki samþykkja að börnin færu út af heimilinu.
Faðir barnanna mætti til viðtals þann 13. mars 2008 þar sem farið var yfir stöðu mála og honum kynnt að málið færi fyrir varnaraðila. Sagðist hann ekki halda að drengurinn gæti verið hjá sér, búið væri að reyna það og ljóst væri að hann færi bara til sóknaraðila. Taldi hann drenginn vera mjög illa staddan og þyrfti mikla hjálp til að ná sér á strik á ný. Sagðist hann sjá fyrir sér að drengurinn færi á fósturheimili um tíma en hann gæti tekið C til sín væri þess þörf. Faðir hefði lítið séð til telpunnar undanfarið þar sem sóknaraðili kæmi í veg fyrir að hann gæti hitt hana eða að hún kæmi til hans í umgengni.
Mál B og C var tekið fyrir á fundi varnaraðila þann 15. apríl 2008. Fyrir fundinum lá að taka afstöðu til tillögu Barnaverndar um að börnin yrðu vistuð utan heimilis sóknaraðila tímabundið. Fram kom hjá föður að hann væri samþykkur því að börnin yrðu vistuð utan heimilis sóknaraðila tímabundið og að þeim yrði veitt viðeigandi aðstoð. Sóknaraðili mætti einnig á fundinn ásamt föður sínum en fór af fundi án þess að tjá sig um málið. Framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur ræddi við hana utan fundar og eftir það samtal voru þau skilaboð færð inn á fundinn frá sóknaraðila að hún samþykkti að B yrði vistaður utan heimilis en ekki C. Í niðurlagi fundargerðarinnar segir svo:
Barnaverndarnefnd Reykjavíkur telur stuðning á heimili vera fullreyndan enda skorti vilja eða getu umsjáraðila bananna til að taka við þeim stuðningi og nýta. Brýnt sé að koma börnunum til aðstoðar en ljóst sé að þegar B var á heimili föður voru aðstæður hans allt aðrar og námástund góð. Því telur nefndin ekki hjá því komist að börnin verði vistuð utan heimilis eða með eða án samþykkis móður þannig að unnt sé að bæta aðstæður systkinanna. Faðir barnanna, sem einnig fer með forsjá þeirra, er sammála því mati. Nefndin telur nauðsynlegt að móðir undirgangist forsjárhæfnimat á tímabilinu þannig unnt sé að gera betur grein fyrri þeim stuðningi sem nýst gæti fjölskyldunni. Þá sé nauðsynlegt að fram fari mat á líðan og aðstæðum barnanna en það hefur reynst óframkvæmanlegt við núverandi aðstæður. Nefndin telur að sex mánuðir sé sá lágmarkstími sem þarf til að unnt sé að framkvæma framangreindar athuganir.
Í kjölfar úrskurðar Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 15. apríl 2008 var C komið til föður síns en B var vistaður á fósturheimili fyrir austan.
Bæði börnin hafa samþykkt að njóta liðsinnis talsmanns, sem hefur gætt réttinda þeirra og komið afstöðu þeirra á framfæri. Fyrir milligöngu talsmanns hefur börnunum verið gefin kostur á því að tjá sig um mál þetta, sbr. ákvæði 3. mgr. 55. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Samkvæmt skýrslu talsmanns, dags. 19. júní sl., kom fram í máli telpunnar C, sem vistuð er tímabundið hjá kynföður sínum, að henni hafi liðið ágætlega hjá föður sínum þann tíma sem hún hefur dvalið hjá honum. Aftur á móti tjáði hún skýrt vilja sinn til þess að búa hjá móður sinni og sagðist ekkert vilja frekar en að hún og B bróðir hennar búi hjá móður þeirra. Aðspurð sagðist C sætta sig við að búa hjá föður sínum ef Barnavernd tæki ákvörðun um það, en í rauninni væri hún ósátt við að vera hjá honum. Samkvæmt skýrslu talsmanns, dags. 19. júní sl., kom fram kom í máli B, sem er í tímabundnu fóstri úti á landi, að hann væri mjög sáttur við hjónin á bænum og segist ekki hafa getað farið á betra heimili. Þau hafi tjáð honum að þau styðji hann hvernig sem málin þróist hjá honum. Hann segir þau mjög góð við sig á allan hátt. B greindi frá því að hann væri nú í unglingavinnunni og gengi vel þar. Hann ætti fullt af vinum sem hann hitti þar og gaman væri að vera með. Drengurinn sagðist sáttur við sveitina og allt á staðnum væri mjög fínt, aftur á móti vildi hann helst af öllu fara heim aftur. Hann fengi stundum heimþrá þegar hann færi að sofa á kvöldin og hugsaði heim til mömmu sinnar og systur. B sagðist sætta sig við að vera áfram í sveitinni ef það yrði ákveðið, en hann vildi þá fá að hafa meiri samskipti við móður sína en hann gerir í dag.
Þegar litið er til gagna málsins og þess sem rakið hefur verið samkvæmt framansögðu verður að telja að brýnir hagsmunir barnanna mæli með því að vista þau áfram utan heimilis sóknaraðila. Þótt þörfin á því hafi verið brýnni að því er drenginn B varðar hefur skólagöngu og aðbúnaði C einnig verið ábótavant, eins og lýst er í gögnum málsins. Stuðningsúrræði á heimili hafa ekki dugað til enda hefur verulega skort á samstarfsvilja sóknaraðila í þeim efnum eins og gögn málsins bera með sér. Við þær aðstæður er þörf á því að fram fari mat á forsjárhæfni sóknaraðila. Þegar þetta er virt og haft í huga hvað börnunum er fyrir bestu, sbr. 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga, er fallist á að fullnægjandi forsendur séu fyrir þeirri kröfu varnaraðila að bæði börnin verði vistuð utan heimilis sóknaraðila í sex mánuði frá 15. apríl 2008 samkvæmt 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Er þá einnig litið til þess að faðir barnanna er samþykkur þeirri ráðstöfun og börnunum líður vel þar sem þau eru vistuð og vistunin er til þess fallin að bæta aðstæður þeirra. Ekki er tekið undir þau sjónarmið sóknaraðila að meðalhófsreglu hafi ekki verið gætt við meðferð málsins. Krafa varnaraðila um vistun barnanna utan heimilis í 6 mánuði er ekki óeðlileg miðað við aðstæður og er fallist á það mat varnaraðila að vistun utan heimilis þurfi að standa í þann tíma ef stuðningur og önnur úrræði eigi að koma að fullu gagni. Er því ekki fallist á varakröfu sóknaraðila eða þrautavarakröfu um það að krafa varnaraðila taki einungis til drengsins B eða vistun barnanna verði ákveðin til skemmri tíma en 6 mánaða.
Samkvæmt framansögðu er kröfum sóknaraðila í málinu hafnað en fallist á kröfu varnaraðila um það að heimil sé vistun beggja barnanna utan heimilis sóknaraðila í sex mánuði eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Af hálfu varnaraðila er ekki krafist málskostnaðar.
Allur gjafsóknarkostnaðar sóknaraðila greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar Þórdísar Bjarnadóttur hdl., 504.225 krónur með virðisaukaskatti.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfum sóknaraðila, A, er hafnað.
Varnaraðila, Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, er heimilt að vista börnin C og B, utan heimilis sóknaraðila í sex mánuði frá 15. apríl 2008 að telja.
Allur gjafsóknarkostnaðar sóknaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar Þórdísar Bjarnadóttur hdl., 504.225 krónur með virðisaukaskatti.