Hæstiréttur íslands
Mál nr. 231/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Innsetningargerð
|
|
Föstudaginn 22. maí 2009. |
|
Nr. 231/2009. |
Fasteignafélagið KGR ehf. (Bjarni Eiríksson hdl.) gegn Formaco ehf. (enginn) |
Kærumál. Innsetningargerð.
K keypti af R fasteign ásamt lausafé samkvæmt ódagsettum kaupsamningi, sem afhentur var til þinglýsingar 3. júlí 2008. Í samningnum var þessu lausafé lýst sem öllu byggingarefni sem verið hefði á fasteigninni 20. maí 2008 og við undirritun kaupsamningsins. F kvað R hafa á tilteknu tímabili tekið á leigu hjá sér byggingarefni. Þegar vanskil urðu á leigugjaldi hefði F farið að huga að þessum munum og komist að raun um að K hefði þá í sínum vörslum og teldi sig hafa keypt þá af R, en það félag hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta. F fór þess að leit með beiðni til héraðsdóms að sér yrði heimilað að fá nánar tilgreinda muni tekna úr vörslum K með innsetningargerð og fengna sér. Í dómi Hæstaréttar kom fram að af tiltektarlistum, afhendingarseðlum og skilanótu yrði ekkert samræmi fundið við framlagða samantekt frá F um muni, sem hann virtist telja að ekki hefðu skilað sér úr útleigu til R, en við hana var upptalning muna í beiðni hans um aðfarargerð í meginatriðum studd. Þá hefði F ekki lagt fram samning um leigu á þessum lausafjármunum. Fallist var á með K að réttindi F væru ekki það ljós að fært væri að leita fullnustu þeirra með beinni aðfarargerð, sbr. 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. apríl 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. apríl 2009, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að honum yrði heimilað að fá nánar tiltekna lausafjármuni tekna með beinni aðfarargerð úr vörslum sóknaraðila. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila verði hafnað og honum gert að greiða málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt gögnum málsins gerði sóknaraðili ódagsettan samning, sem afhentur var til þinglýsingar 3. júlí 2008, við Rúmmeter ehf. og Fjármeter ehf. um kaup þess fyrstnefnda á fasteigninni Víkurhvarf 7 í Kópavogi „auk lausafjárs sem er til staðar við fasteignina“. Í samningnum var þessu lausafé lýst nánar á þann hátt að um væri að ræða „allt byggingarefni sem var á fasteigninni þann 20. maí s.l. og er jafnframt á fasteigninni við undirritun kaupsamnings þessa. Byggingarefnið er m.a. byggingamót, plötuundirsláttarefni og svokallað minimaxkerfi.“ Varnaraðili kveður Rúmmeter ehf. hafa á tímabilinu frá 14. nóvember 2007 til 26. febrúar 2008 tekið á leigu hjá sér byggingarefni, svokallað loftaundirsláttarefni. Þegar vanskil hafi orðið á leigugjaldi hafi varnaraðili farið að huga að þessum munum og komist að raun um að sóknaraðili hefði þá í sínum vörslum og teldi sig hafa keypt þá af Rúmmeter ehf., en það félag hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Varnaraðili hafi leitast við að ná samkomulagi við sóknaraðila um að hann tæki yfir leigu á þessum munum, en það hafi ekki tekist. Með beiðni 21. nóvember 2008 til Héraðsdóms Reykjavíkur fór varnaraðili þess á leit að sér yrði heimilað að fá muni, samtals 731 stykki af 11 tegundum, sem nánar eru taldir upp í hinum kærða úrskurði, tekna úr vörslum sóknaraðila með innsetningargerð og fengna sér. Mál þetta var þingfest af því tilefni 12. desember 2008.
Í málinu hefur varnaraðili ekki lagt fram samning við Rúmmeter ehf. um leigu á því byggingarefni, sem krafa hans lýtur að. Hann hefur á hinn bóginn lagt fram átta svokallaða tiltektarlista, sem virðast stafa frá tímabilinu 28. febrúar 2007 til 18. febrúar 2008, níu afhendingarseðla frá tímabilinu 14. nóvember 2007 til 26. febrúar 2008, eina skilanótu frá 22. mars 2007 og ellefu leigureikninga, sem dagsettir eru frá 31. mars 2007 til 31. júlí 2008. Í tveimur elstu reikningunum, fyrir mars og apríl 2007, er að finna upptalningu á hinu leigða, sem svarar ekki til þess sem fram kemur í beiðni varnaraðila um aðfarargerð. Í öllum hinum reikningunum er vitnað til yfirlita, sem ekki eru lögð fram í málinu, en fjárhæð þessara reikninga er mjög breytileg eftir tímabilum. Af tiltektarlistum, afhendingarseðlum og skilanótu verður ekki fundið samræmi við framlagða samantekt frá varnaraðila um muni, sem hann virðist telja að ekki hafi skilað sér úr útleigu til Rúmmeters ehf., en við hana er upptalning muna í beiðni hans um aðfarargerð í meginatriðum studd. Þegar af þessum ástæðum verður að fallast á með sóknaraðila að réttindi varnaraðila séu ekki það ljós að fært sé að leita fullnustu þeirra með beinni aðfarargerð, sbr. síðari málslið 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu varnaraðila, Formaco ehf., um heimild til beinnar aðfarargerðar hjá sóknaraðila, Fasteignafélaginu KGR ehf.
Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. apríl 2009.
Með bréfi mótteknu í Héraðsdómi Reykjavíkur, 24. nóvember 2008, krefst sóknaraðili, Formaco ehf., Fossaleyni 8, Reykjavík dómsúrskurðar um að eftirtaldir lausafjármunir verði teknir með beinni aðfarargerð úr vörslum varnaraðila og fengnir sóknaraðila:
|
Númer |
Vöruheiti |
Magn |
|
189930000 |
Dokabitar H-20 eco P 2,90 m |
18 stk |
|
189931000 |
Dokabitar H-20 eco P 3,90 m |
271 stk |
|
189932000 |
Dokabitar H-20 eco P 4,90 m |
1 stk |
|
189937000 |
Dokabitar H-20 eco P 2,65 m |
151 stk |
|
189942000 |
Dokabitar H-20 eco P 3,60 m |
1 stk |
|
189943000 |
Dokabitar H-20 eco P 4,50 m |
1 stk |
|
583012000 |
Doka skeleton transport box 1,70*0,80 |
1 stk |
|
586086000 |
Doka floor prop Eurex 20 250 |
144 stk |
|
586087000 |
Doka floor prop Eurex 20 300 |
104 stk |
|
586088000 |
Doka floor prop Eurex 20 350 |
38 stk |
|
586151000 |
Doka stacking pallet 1,55*0,85m |
1 stk |
Þá er krafist málskostnaðar og að við ákvörðun hans tekið tillit til skyldu sóknaraðila til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun. Þá er þess krafist að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.
Varnaraðili, Fasteignafélagið KGR ehf., Óðinsgötu 1, Reykjavík, krefst þess að kröfu sóknaraðila verði synjað. Þá er krafist málskostnaðar.
I
Í beiðni sóknaraðila kemur fram að Rúmmeter ehf. hafi tekið á leigu byggingarefni (loftaundirsláttarefni) af sóknaraðila samkvæmt upptalningu á leigulista á tímabilinu frá 14. nóvember 2007 til 26. febrúar 2008. Hermann Hinriksson hafi komið fram fyrir hönd Rúmmeters ehf. sem nú sé gjaldþrota. Þegar sóknaraðili hafi farið að huga að hinum leigðu munum vegna vanskila Rúmmeters ehf. hafi hann fengið upplýsingar um að varnaraðili hefði vörslur þeirra og teldi sig hafa keypt munina af Rúmmeter ehf.
Starfsmenn sóknaraðila hafi í byrjun ágúst 2008 hafið viðræður við forsvarsmenn varnaraðila í þeim tilgangi að fá félagið til að taka yfir leiguna. Í fyrstu hafi forsvarsmenn varnaraðila virst tilbúnir til þess en síðan fallið frá því. Starfsmenn sóknaraðila hafi farið, hinn 15. september 2008, að Víkurhvarfi 7 í Kópavogi til að kanna með eignir sínar og sækja þær. Þar hafi þeir hitt fyrir lögfræðing varnaraðila sem hafi hótað þeim kæru vegna þjófnaðar ef þeir myndu reyna að fjarlægja byggingarefnið.
Sóknaraðili byggi á því að hann sé eigandi umræddra lausafjármuna. Um fullkomna vanheimild hafi því verið að ræða af hálfu Rúmmeters ehf. Fyrirtækið hafi alls engan rétt átt yfir hlutunum og enga heimild haft til sölu þeirra. Varnaraðili hafi því ekki getað öðlast neinn rétt yfir þeim. Varnaraðila beri því að afhenda hlutina en eigi þá sjálfur kröfu á hendur viðsemjanda sínum á grundvelli 41. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, sbr. einnig 30. 40. gr. laganna.
Fyrrgreindir lausafjármunir séu nú staðsettir að Víkurhvarfi 7. Sumir hlutanna hafi verið afhentir Rúmmeter ehf. að Hestvaði 5-7 en fyrirtækið hafi flutt þá síðar að Víkurhvarfi 7, þar sem þeir séu nú. Nánar tiltekið sé um að ræða eftirtalda hluti og séu magntölur sundurgreindar eftir upphaflegum afhendingarstað.
|
Númer |
Vöruheiti |
Magn og afhending |
|
189930000 |
Dokabitar H-20 eco P 2,90 m |
18 stk, 10 afhentir að Víkurhvarfi 7 en 8 að Hestvaði 5-7. |
|
189931000 |
Dokabitar H-20 eco P 3,90 m |
271 stk, 260 afhentir að Víkurhvarfi 7 en 11 að Hestvaði 5-7. |
|
189932000 |
Dokabitar H-20 eco P 4,90 m |
1 stk, afhentur að Hestvaði 5-7. |
|
189937000 |
Dokabitar H-20 eco P 2,65 m |
151 stk, allir afhentir að Víkurhvarfi 7. |
|
189942000 |
Dokabitar H-20 eco P 3,60 m |
1 stk, afhentur að Hestvaði 5-7. |
|
189943000 |
Dokabitar H-20 eco P 4,50 m |
1 stk, afhentur að Hestvaði 5-7. |
|
583012000 |
Doka skeleton transport box 1,70*0,80 |
1 stk, afhent að Dalaþingi 8. |
|
586086000 |
Doka floor prop Eurex 20 250 |
144 stk, 140 afhentir að Víkurhvarfi 7 en 4 að Hestvaði 5-7. |
|
586087000 |
Doka floor prop Eurex 20 300 |
104 stk, 78 afhentir að Víkurhvarfi 7, 13 að Dalaþingi 8 og 13 að Hestvaði 5-7. |
|
586088000 |
Doka floor prop Eurex 20 350 |
38 stk, allir afhentir að Víkurhvarfi 7. |
|
586151000 |
Doka stacking pallet 1,55*0,85m |
1 stk, afhent að Víkurhvarfi 7. |
Varnaraðili hafi ekki orðið við áskorunum um að afhenda hlutina eða ganga frá leigusamningi fyrir afnot þeirra. Sóknaraðili byggi á því að varnaraðila sé ekki heimilt að hafa vörslur og afnot hlutanna. Með því að varnaraðili neiti að láta vörslur þeirra af hendi sé sóknaraðila með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttinda sem hann eigi. Varnaraðili aftri þannig sóknaraðila með ólögmætum hætti að nýta eignir sínar og sé honum því rétt að krefjast umráða þeirra með tilvísun í 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
II
Í greinargerð varnaraðila kemur fram að hann hafi keypt fasteignina Víkurhvarf 7, Kópavogi af Rúmmeter ehf. og Fjármeter ehf. með kaupsamningi dags. 3. júlí 2008.
Fasteigninni hafi fylgt m.a. lausfé í formi byggingarefnis sem hafi verið fyrir á fasteigninni þann 20. maí 2007 þegar kauptilboð var undirritað af aðilum.
Í 3. gr. samningsins hafi lausfé verið tilgreint sem allt byggingarefni s.s. byggingarmót, plötuundirsláttarkerfi og svokallað minimaxkerfi.
Þegar varnaraðili hafi fengið vitneskjum um að sóknaraðili teldi sig eiga hluta af því byggingarefni sem hann keypti með fasteigninni hafi það komið honum á óvart sökum þess að seljendur fullyrði að allt byggingarefnið hafi verið þeirra eign við söluna.
Byggingarefnið hafi verið með öllu ósundurgreint og engar vísbendingar um að byggingarefnið að Víkurhvarfi 7 væri eign sóknaraðila.
Byggingarefnið sem varnaraðili keypti sé af algengri gerð sem gangi kaupum og sölum og ekki sé óvarlegt að ætla að á landinu séu til u.þ.b. milljón svonefndra dokabita. Engin leið sé að þekkja meintar eignir sóknaraðila og fráleitt að fallast á að sóknaraðili geti, á grundvelli engra haldbærra gagna, farið á byggingarstað og tekið hluti sem hann telji sig eiga án þess að sanna eignartilkall sitt.
Af framlögðum gögnum sóknaraðila megi ráða að byggingarefni það sem hann nú telji sína eign hafi verið afhent á nokkrum stöðum þ.m.t. að Víkurhvarfi 7. Sóknaraðili segi að þeir hlutir sem afhentir voru annars staðar hafi verið fluttir að Víkurhvarfi 7. Sé sú fullyrðing ekki studd neinum gögnum og sé henni mótmælt sem ósannaðri og einsýnt að sóknaraðili sé að teygja sig nokkuð langt í meintu eignartilkalli sínu.
Að mati varnaraðili uppfylli beiðni sóknaraðila ekki þær kröfur um skýrleika sem 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför geri. Krafa um beina aðfarargerð verði að byggja á rétti sem sé bæði glöggur og skýr. Til þess séu framlögð gögn of óljós og misvísandi samanber að hluti efnisins sé sagður afhentur á öðrum stað en þeim sem sóknaraðili segi að það sé nú.
Mestur hluti framlagðra skjala séu listar sem sóknaraðili hafi unnið sjálfur og hafi því lítið eða ekkert sönnunargildi. Athygli veki að sóknaraðili leggi ekki fram skriflega leigusamninga, hvorki við Rúmmetra ehf. eða Fjármetra ehf. Gefi það til kynna að skráningu sóknaraðila um leigða muni hafi verið léleg eða hitt að þetta byggingarefni hafi ekki verið leigt út til Rúmmetra ehf. líkt og sóknaraðili haldi fram. Verði sóknaraðili að bera hallann af þeirri óvissu.
Af þeim gögnum sem sóknaraðili leggi fram hefðu svonefndir tiltektarlistar á dskj. 3 e.t.v. getað skýrt málið eitthvað. Virðist vera viðtökukvittanir en samkvæmt þeim þá hafi byggingarefni eingöngu afhent að Hestvaði 1-7 en aldrei að Víkurhvarfi.
Til þess svo að réttlæta tilkall sitt til þess byggingarefnis sem sé í eigu varnaraðila sé svo fullyrt í greinargerð að það hafi verið flutt að Víkurhvarfi. Samt sé sundurgreint í greinargerð sóknaraðila hvernig og hvar byggingarefni hafi verið afhent á hina ýmsu staði, en engir tiltektarlistar séu lagðir fram um afhendingu byggingarefnis að Víkurhvarfi 7. Virðist upplistun sóknaraðila í greinargerð fyrst og fremst þjóna þeim tilgangi að reyna að gera kröfuna trúverðuga.
Með sömu aðfararfræði gæti sóknaraðili nánast gengið inn á hvaða byggingarsvæði og sagst eiga byggingarefni sem hefði verið flutt þangað frá Hestvaði 1-7.
Varnaraðili telji að sóknaraðili hafi ekki sannað réttindi sín yfir byggingarefni sem þar sé að finna, hvorki í heild eða hluta.
Varnaraðili sé á hinn bóginn réttmætur eigandi alls þess byggingarefnis samkvæmt skýru ákvæði kaupsamningsins, dags. 3. júlí 2008.
III
Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um það hvort varnaraðila sé skylt að afhenda sóknaraðila lausafjármuni þá sem krafa sóknaraðila lýtur að og staðsettir eru að Víkurhvarfi 7 í Kópavogi.
Sóknaraðili kveðst vera eigandi lausafjármunanna sem hann hafi leigt Rúmmeter ehf. Varnaraðili byggir hins vegar á að með kaupsamningi við Rúmmeter ehf. og Fjármeter ehf. um fasteignina Víkurhvarf 7 í Kópavogi hafi hann auk fasteignarinnar keypt allt lausfé í formi byggingaefnis, sem staðsett var við hana þann 20. maí 2008, þ.m.t. umkrafða lausafjármuni.
Það er skilyrði fyrir beinni aðfarargerð samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför að réttindi gerðarbeiðanda séu svo ljós að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum sem afla má samkvæmt 1. mgr. 83. gr. aðfararlaga.
Af gögnum málsins þykir ljóst að sóknaraðili leigði Rúmmeter ehf. hina umkröfðu lausafjármuni sem þykja nægjanlega tilgreindir. Engum vafa sé því undirorpið að þeir séu eign sóknaraðila. Þykir engu breyta þar um að varnaraðili telur sig hafa keypt lausafjármunina enda ekki sýnt fram á að Rúmmeter ehf. og Fjármeter ehf. hafi haft lögmæta heimild til sölu þeirra.
Samkvæmt því sem að framan greinir er það niðurstaða dómsins að uppfyllt séu skilyrði 78. gr. laga um aðför nr. 90/1989 til að verða við kröfu sóknaraðila eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ekki eru efni til þess að mæla fyrir um heimild til fjárnáms fyrir kostnaði af væntanlegri gerð vegna ákvæða 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Fallist er á kröfu sóknaraðila, Formaco ehf., um að eftirtaldir lausafjármunir verði teknir með beinni aðfarargerð úr vörslum varnaraðila, Fasteignafélagsins KGR ehf., og fengnir sóknaraðila:
|
Númer |
Vöruheiti |
Magn |
|
189930000 |
Dokabitar H-20 eco P 2,90 m |
18 stk |
|
189931000 |
Dokabitar H-20 eco P 3,90 m |
271 stk |
|
189932000 |
Dokabitar H-20 eco P 4,90 m |
1 stk |
|
189937000 |
Dokabitar H-20 eco P 2,65 m |
151 stk |
|
189942000 |
Dokabitar H-20 eco P 3,60 m |
1 stk |
|
189943000 |
Dokabitar H-20 eco P 4,50 m |
1 stk |
|
583012000 |
Doka skeleton transport box 1,70*0,80 |
1 stk |
|
586086000 |
Doka floor prop Eurex 20 250 |
144 stk |
|
586087000 |
Doka floor prop Eurex 20 300 |
104 stk |
|
586088000 |
Doka floor prop Eurex 20 350 |
38 stk |
|
586151000 |
Doka stacking pallet 1,55*0,85m |
1 stk |
Málskostnaður fellur niður.