Hæstiréttur íslands

Mál nr. 633/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Samkeppni
  • Gagn
  • Hald
  • Kæruheimild


Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009. 

Nr. 633/2009.

Samkeppniseftirlitið

(Brynjar Níelsson hrl.)

gegn

Valitor hf.

(Hákon Árnason hrl.)

 

Kærumál. Samkeppni. Gögn. Hald. Kæruheimild.

V kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfum hans um að S yrði gert að aflétta haldi á átján tilgreindum gögnum, sem tekin voru við húsleit hjá V, og að öllum afritum sem tekin voru af gögnunum yrði sannarlega eytt. Í dómi Hæstaréttar segir að kröfur V snúi í reynd að því einu að S verði gert að eyða afritum gagnanna. Samkvæmt 2. mgr. 102. gr., sbr. 3. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008 sé V heimilt að leita úrlausnar dómstóla um þá kröfu. Fram kemur að V hafi í málatilbúnaði sínum rökstutt í einstökum liðum að umrædd gögn varði ekki efnisatriði rannsóknar S. Hefði því S ekkert verið að vanbúnaði að taka rökstudda afstöðu til þess hvort aðrar rannsóknarnauðsynjar gæti staðið til þess að S fengi haldið afritum þessara gagna að einhverju leyti eða öllu. Var krafa V um eyðingu gagnanna því tekin til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson og Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. nóvember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2009, þar sem hafnað var kröfum varnaraðila um að sóknaraðila yrði gert að aflétta haldi á tilgreindum gögnum, sem tekin voru við húsleit hjá varnaraðila 1. júlí 2009, og að öllum afritum sem tekin voru af gögnunum yrði sannanlega eytt. Um kæruheimild vísar varnaraðili til g. liðar 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Hann krefst þess fyrrgreindar kröfur hans verði teknar til greina og sóknaraðila gert að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað. 

Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili fékk með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2009 heimild til leitar í tilteknum húsakynnum varnaraðila, svo og til að leggja þar hald á muni og gögn og taka afrit af gögnum á tölvutæku formi, vegna rannsóknar á því hvort varnaraðili hefði með misnotkun markaðsráðandi stöðu brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, en rannsókn þessi mun hafa átt rætur að rekja til kæru, sem sóknaraðila hafði borist frá Borgun hf. Húsleit á grundvelli þessa úrskurðar mun hafa farið fram 1. júlí 2009. Varnaraðili kveður sóknaraðila hafa þar meðal annars tekið afrit af öllum gögnum, sem hafi farið um og verið vistuð á svokölluðum póstþjóni í tölvum varnaraðila. Ekki verður séð að hann hafi gert athugasemdir við að sóknaraðili framkvæmdi á þennan hátt rannsóknaraðgerðir á grundvelli fyrrnefnds dómsúrskurðar. Af gögnum málsins verður ráðið að sóknaraðili hafi ekki hafið könnun á tölvutækum gögnum, sem afrituð voru við húsleitina, fyrr en 30. september 2009 og hafi fulltrúi varnaraðila verið þar viðstaddur. Vegna þeirrar könnunar reis ágreiningur milli aðilanna, sem leiddi til þess að varnaraðili krafðist með bréfi 2. október 2009 að sóknaraðili léti af frekari athugun þessara gagna og eyddi að auki afritum átján nánar tiltekinna tölvupóstsendinga og fylgigagna með þeim. Þessu hafnaði sóknaraðili 6. október 2009 og lagði varnaraðili 7. sama mánaðar kröfu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur um að sóknaraðila yrði með úrskurði gert að aflétta haldi á þeim gögnum, sem áður er getið, og að öllum afritum, sem tekin hafi verið af þeim, „hvort sem er rafrænum eða í áþreifanlegu formi, verði sannanlega eytt“. Þessari kröfu var hafnað með hinum kærða úrskurði.

Líta verður svo á að kröfur varnaraðila snúi í reynd að því einu að sóknaraðila verði gert að eyða afritum þeirra gagna, sem áður er getið. Samkvæmt 2. mgr. 102. gr., sbr. 3. mgr. 69. gr., laga nr. 88/2008 er varnaraðila heimilt að leita úrlausnar dómstóla um þá kröfu, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 3. maí 2002 í máli nr. 178/2002 og 19. janúar 2004 í máli nr. 487/2003, og er heimild til kæru úrskurðar héraðsdóms um þetta efni í d. og g. liðum 1. mgr. 192. gr. laganna. Aðalkröfu sóknaraðila um að málinu verði vísað frá dómi er því hafnað.

Varnaraðili hefur í málatilbúnaði sínum rökstutt í einstökum liðum að gögnin, sem krafa hans beinist að, varði ekki efnisatriði rannsóknarinnar, sem mun standa yfir hjá sóknaraðila og var grundvöllur heimilda hans samkvæmt áðurnefndum dómsúrskurði 30. júní 2009. Þessu hefur sóknaraðili í engu hnekkt. Hann hefur í nærri fimm mánuði haft undir höndum afrit tölvutækra gagna, sem hann tók við húsleitina, og eru nú tæpir tveir mánuðir frá því að varnaraðili krafðist þess að átján tilteknum gögnum úr því safni afrita yrði eytt. Sóknaraðila hefur því ekkert verið að vanbúnaði að taka rökstudda afstöðu til þess hvort aðrar rannsóknarnauðsynjar geti staðið til þess að hann fái haldið afritum þessara gagna að einhverju leyti eða öllu. Hann hefur ekki hreyft því í málatilbúnaði sínum að svo geti verið. Eru því ekki efni til annars en að taka kröfu varnaraðila til greina.

Um málskostnað í héraði og kærumálskostnað fer sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Sóknaraðila, Samkeppniseftirlitinu, er skylt að eyða öllum afritum þeirra gagna, sem talin eru upp í töluliðum 1. til 18. í hinum kærða úrskurði.

Sóknaraðili greiði varnaraðila, Valitor hf., samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2009.

Mál þetta var tekið til úrskurðar hinn 20. október sl., að loknum munnlegum málflutningi.  Með beiðni, dagsettri 7. október sl., beiddist sóknaraðili, sem er Valitor hf., Laugavegi 77, Reykjavík, að varnaraðila, Samkeppniseftirlitinu, Borgartúni 26, Reykjavík, verði gert skylt að aflétta haldi á eftirgreindum gögnum, sem hald var lagt á í húsleit í höfuðstöðvum sóknaraðila að Laugavegi 77, hinn 1. júlí 2009, og að öllum afritum sem tekin hafa verið af neðangreindum gögnum, hvort sem er rafrænum eða í áþreifanlegu formi, verði sannanlega eytt:

1.        Tölvupóstur frá Halldóri Brynjari Halldórssyni til Höskuldar H. Ólafssonar, Harðar Felix Harðarsonar og Jónasar Hagan Guðmundssonar, dagsettur 22. júní 2009, kl. 15.21, ásamt viðhengi.

2.        Tölvupóstur frá Birki Hólm Guðnasyni forstjóra Icelandair til Höskuldar H. Ólafssonar, dagsettur 30. júní 2009, kl. 15.49.

3.        Tölvupóstur frá Preben Bergholdt til Höskuldar H. Ólafssonar, dagsettur 30. júní 2009, kl. 07.46, áframsendur tölvupóstur frá Neil Fraser til Preben Bergholdt.

4.        Tölvupóstur frá Erlu Þuríði Pétursdóttur til Höskuldar H. Ólafssonar, dagsettur 26. júní, kl. 17.00, ásamt viðhengi.

5.        Tölvupóstur frá Ingibjörgu Arnarsdóttur til Höskuldar H. Ólafssonar, dagsettur 26. júní 2009, kl.10.21.

6.        Tölvupóstur frá Halldóri Brynjari Halldórssyni til Höskuldar H. Ólafssonar, dagsettur 25. júní, kl. 17.32.

7.        Tölvupóstur frá Finni Sveinbjörnssyni, forstjóra Nýja Kaupþings banka hf., til Höskuldar H. Ólafssonar, dagsettur 25. júní 2009, kl. 15.26.

8.        Tölvupóstur frá Guðmundi Kr. Tómassyni til Höskuldar H. Ólafssonar, dagsettur 25. júní 2009, kl. 08.25.

9.        Tölvupóstur frá Hugh Stokes til Höskuldar H. Ólafssonar, dagsettur 18. júní 2009, kl. 09.01.

10.     Tölvupóstur frá Helgu M. Óttarsdóttur til Höskuldar H. Ólafssonar, dagsettur 15. júní 2009, kl. 23.32.

11.     Tölvupóstur frá Ingibjörgu Arnarsdóttur til Höskuldar H. Ólafssonar, dagsettur 15. júní 2009, kl. 16.35, ásamt fylgiskjali.

12.     Tölvupóstur frá Reginn Mogensen til Höskuldar H. Ólafssonar, dagsettur 15. júní 2009, kl. 14.06.

13.     Tölvupóstur frá Preben Bergholdt til Höskuldar H. Ólafssonar, dagsettur 15. júní 2009.

14.     Tölvupóstur frá Erni Þráinssyni til Höskuldar H. Ólafssonar, dagsettur 12. júní 2009, kl. 14.29.

15.     Tölvupóstur frá Kjartani Jóhannssyni til Höskuldar H. Ólafssonar, dagsettur 11. júní 2009, kl. 17.36.

16.     Bréf frá Fjölgreiðslumiðlun hf. til Valitors hf., dagsett 10. júní 2009, fylgiskjal við tölvupóst Loga Ragnarssonar, dagsettur 11. júní 2009, kl. 16.17.

17.     Tölvupóstur frá Erni Þráinssyni til Höskuldar H. Ólafssonar, dagsettur 11. júní 2009, kl. 15.22.

18.     Tölvupóstur frá Halldóri Brynjari Halldórssyni til Harðar Felix Harðarsonar, dagsettur 11. júní 2009, kl. 13.27.

 

Kröfur varnaraðila, Samkeppniseftirlitsins, eru þær aðallega, að kröfum sóknaraðila verði vísað frá dómi, en til vara að þeim verði hafnað.  Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila, samkvæmt mati dómsins.

Hinn 30. júní 2009, var varnaraðila, með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, veitt heimild til leitar og haldlagningar á munum og gögnum hjá sóknaraðila, auk þess að taka afrit af gögnum sem geymd væru í tölvutæku formi.  Á grundvelli þess úrskurðar var gerð húsleit hjá sóknaraðila hinn 1. júlí 2009 og afrit tekin af tölvugögnum.  Hinum haldlögðu gögnum og skjölum var skilað hinn 8. júlí 2009, en hin afrituðu gögn eru geymd á einangruðu staðarneti, að sögn varnaraðila, og aðgangur að þeim verndaður með lykilorðum.  Sóknaraðili kveður að hald hafi verið lagt á mikið magn af gögnum og m.a. tekin afrit af öllum þeim gögnum sem hefðu farið um og verið vistuð á póstþjóni sóknaraðila, þ.á m. tölvupóstsamskipti allra starfsmanna sóknaraðila, ótilgreint.  Athugun á hinum afrituðu tölvugögnum hafi hafist 30. september sl. og hafi fulltrúum varnaraðila verið gefinn kostur á því að fylgjast með opnun og skoðun gagnanna, sem hann nýtti sér.

Hinn 2. október 2009 ritaði lögmaður sóknaraðila varnaraðila bréf og gerði athugasemdir við að haldlögð hefðu verið gögn, sem ekki tengdust þeim brotum sem til rannsóknar væru.  Gerði sóknaraðili jafnframt þá kröfu að frekari skoðun yrði stöðvuð þar til varnaraðili tæki afstöðu til lögmætis framkvæmdarinnar. Var og krafist að varnaraðili skilaði og eyddi tilteknum gögnum.

Með bréfi, dagsettu hinn 6. október 2009, hafnaði varnaraðili kröfum sóknaraðila.  Í kjölfarið gerði sóknaraðili fyrrgreinda kröfu fyrir dómi.

II

Sóknaraðili byggir kröfu sína annars vegar á því, að haldlagning þessara gagna hafi verið umfram það sem heimilað var í úrskurði héraðsdóms og hins vegar að eyða beri öllum afritum hinna tilgreindu gagna þar sem hald þeirra sé ekki lengur þarft.

Byggir sóknaraðili á því, að ekki sé heimilt að leggja hald á önnur gögn en tengjast þeirri rannsókn sem úrskurður um húsleit var grundvallaður á.  Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 178/2002 hafi haldlagning á póstþjóni í heilu lagi hins vegar verið heimiluð með svohljóðandi rökstuðningi: „Þótt ætla verði að sóknaraðili hafi með þessu tekið í vörslur sínar mikið af gögnum, sem geta ekki varðað rannsókn hans, verður ekki horft fram hjá því að athugun allra tölvutækra gagna á vettvangi hefði bersýnilega tekið langan tíma og truflað mjög starfsemi varnaraðila.  Að þessu gættu er ekki unnt að líta svo á að aðgerðir sóknaraðila hafi farið úr hófi, enda helgaðist heimild hans til húsleitar af því að á skrifstofum varnaraðila kynni að mega finna gögn, sem vörðuðu rannsókn hans, þar á meðal í tölvutæku formi.“

Heimild varnaraðila til að leggja hald á póstþjón sóknaraðila í heilu lagi hafi helgast af nauðsyn þess að trufla ekki starfsemi sóknaraðila.  Hún geti hins vegar ekki náð til þess að haldleggja í kjölfarið fjölda gagna sem á engan hátt tengist rannsókn þess, af þeirri einu ástæðu að leggja hafi orðið hald á póstþjóninn í heilu lagi vegna tímaskorts.  Byggir sóknaraðili á því að varnaraðila beri í kjölfar svo umfangsmikillar haldlagningar að fara yfir hin haldlögðu gögn, og skila eða eftir atvikum eyða þeim gögnum sem ekki varði rannsókn þess.  Byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi því enga heimild til að skoða eða leggja hald á gögn sem bersýnilega tengist ekki rannsókn hans.

Bendir sóknaraðili í þessu samhengi á úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 17/1997, þar sem áfrýjunarnefndin hafi fjallað um gagnaöflunarheimildir samkeppnis-yfirvalda.  Hafi áfrýjunarnefndin talið að Samkeppnisstofnun hefði ekki takmarkað gagnaöflunarbeiðni við þann grundvöll málsins sem stofnunin hefði afmarkað og hafi gagnaöflunin því verið talin ólögmæt.  Af þessum úrskurði verði að draga þá ályktun að samkeppnisyfirvöld verði að takmarka gagnaöflunarbeiðni við þau meintu brot sem séu til rannsóknar.

Með þetta í huga verði að skoða heimild Samkeppniseftirlitsins til þess að rannsaka mál með húsleit.  Eðli málsins samkvæmt og í samræmi við aðrar rannsóknarheimildir Samkeppniseftirlitsins verði sú rannsókn sem fylgi í kjölfar húsleitar að vera innan þess ramma sem húsleit sé afmarkaður í upphafi.  Að öðrum kosti sé eftirlitinu veittar rýmri heimildir þegar um sé að ræða húsleitir en á grundvelli annarra rannsóknarúrræða sem sé í hæsta máta óeðlilegt með tilliti til þess hversu íþyngjandi gagnaöflunarheimild húsleit sé. 

Sóknaraðili telur því að ekki séu efni til að túlka 20. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 þannig að hún veiti víðtækari heimild til gagnaöflunar en 19. gr. sömu laga.  En hún takmarki sérstaklega heimild til gagnaöflunar við allar upplýsingar sem nauðsynlegar þyki við athugun einstakra mál.

Þá bendir sóknaraðili á, að sama takmörkun gildi á heimildum framkvæmdastjórnar EB til gagnaöflunar og húsleitar í EB samkeppnisrétti.  Þannig sé framkvæmdastjórninni ekki heimilt að leggja hald á önnur gögn en tengjast rannsóknarefninu, eins og það hafi verið afmarkað í húsleitarbeiðni.  Bendir sóknaraðili á að Samkeppniseftirlitið hafi ítrekað slegið því föstu í ákvörðunum sínum að túlka verði íslenskan samkeppnisrétt til samræmis við EB-samkeppnisrétt.

Sú rannsókn varnaraðila sem húsleitarúrskurður grundvallist á hafi verið afmörkuð á þann hátt í kröfu að um hafi verið að ræða ætluð brot sóknaraðila á 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 í formi verðlagningar sem sérstaklega hafi beinst að félaginu Borgun hf.  Sóknaraðili byggir á því, að varnaraðila beri að eyða þeim afritum sem hann hafi tekið af gögnum sem bersýnilega varði ekki þá rannsókn.  Telur sóknaraðili að meðal þeirra gagna séu hin tilgreindu gögn í kröfugerð, en þau séu bæði vistuð á tölvu varnaraðila og hafi verið prentuð út, en sóknaraðila sé ekki kunnugt um hvernig vistun hinna prentuðu eintaka sé háttað.  Hin tilgreindu gögn í kröfugerð geti ekki með nokkrum hætti varðað rannsókn varnaraðila, sem hér segi:

1.        Tölvupóstur frá Halldóri Brynjari Halldórssyni til Höskuldar H. Ólafssonar, Harðar Felix Harðarsonar og Jónasar Hagan Guðmundssonar, dagsettur 22. júní 2009, kl. 15.21, ásamt viðhengi.  Tölvupóstur þessi varði mögulega málshöfðun til ógildingar á úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 6/2009.

2.        Tölvupóstur frá Birki Hólm Guðnasyni frá forstjóra Icelandair, dagsettur 30. júní 2009, kl. 15.49, varði rekstur punktakerfis vegna vildarnotkunar Icelandair.

3.        Tölvupóstur frá Preben Bergholdt, dagsettur 30. júní 2009, kl. 07.46, áframsendur tölvupóstur frá Neil Fraser til Preben Bergholdt og varði úrlausnaratriði vegna draga Seðlabankans að uppgjörsreglum.

4.        Tölvupóstur frá Erlu Þuríði Pétursdóttur, dagsettur 26. júní, kl. 17.000, ásamt viðhengi, varði kaup á hlut í félaginu Farsímagreiðslur ehf.

5.        Tölvupóstur frá Ingibjörgu Arnarsdóttur, dagsettur 26. júní 2009, kl. 10.21, varði úrlausnaratriði vegna draga Seðlabankans að uppgjörsreglum.

6.        Tölvupóstur frá Halldóri Brynjari Halldórssyni, dagsettur 25. júní 2009, kl. 17.32, varði mögulega málshöfðun til ógildingar á úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 6/2009.

7.        Tölvupóstur frá Finni Sveinbjörnssyni, forstjóra Nýja Kaupþings banka hf., dagsettur 25. júní 2009, kl. 15.26, varði fund samtaka fjármálafyrirtækja vegna umsagnar við innleiðingu á greiðslumiðlunartilskipun Evrópusambandsins.

8.        Tölvupóstur frá Guðmundi Kr. Tómassyni, dagsettur 25. júní 2009, kl. 08.25, varði drög Seðlabankans að uppgjörsreglum.

9.        Tölvupóstur frá Hugh Stokes, dagsettur 18. júní 2009, kl. 09.01, varði samskipti lögmanns sóknaraðila við VISA EU vegna samskipta sóknaraðila við Samkeppniseftirlitið í ótengdum málum.

10.     Tölvupóstur frá Helgu M. Óttarsdóttur, dagsettur 15. júní 2009, kl. 23.32, varði kröfu samkeppnisaðila um aðgang að þeim gögnum sem ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2008 hafi verið reist á.

11.     Tölvupóstur frá Ingibjörgu Arnarsdóttur, dagsettur 15. júní 2009, kl. 16.35, ásamt fylgiskjali, varði samskipti sóknaraðila við VISA EU vegna ótengdra mála.

12.     Tölvupóstur frá Reginn Mogensen, dagsettur 15. júní 2009, kl. 14.06, varði mögulega málshöfðun til ógildingar á úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 1/2009.

13.     Tölvupóstur frá Preben Bergholdt, dagsettur 15. júní 2009, kl. 12.24, varði úrlausnaratriði vegna draga Seðlabankans að uppgjörsreglum.

14.     Tölvupóstur frá Erni Þráinssyni, dagsettur 12. júní 2009, kl. 14.29, varði ráðgjöf óháðs aðila vegna reksturs ótengdra mála fyrir Samkeppniseftirlitinu.

15.     Tölvupóstur frá Kjartani Jóhannssyni, dagsettur 11. júní 2009, kl. 17.36,v arði bókun Reiknistofu bankanna.

16.     Bréf frá Fjölgreiðslumiðlun hf. til Valitors hf., dagsett 10. júní 2009, fylgiskjal við tölvupóst Loga Ragnarssonar, dagsett 11. júní 2009, varði samskipti sóknaraðila við félagið Fjölgreiðslumiðlun hf.

17.     Tölvupóstur frá Erni Þráinssyni, dagsettur 11. júní 2009, kl. 15.22, varði starfsemi öryggisnefndar samtaka fjármálafyrirtækja.

18.     Tölvupóstur frá Halldóri Brynjari Halldórssyni til Harðar Felix Harðarsonar, dagsettur 11. júní 2009, kl. 13. 27, varði mögulega málshöfðun til ógildingar á úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 6/2009.

Þar sem ekkert ofangreindra gagna geti með nokkru móti tengst þeirri rannsókn varnaraðila sem úrskurður um húsleit hafi byggst á, telur sóknaraðili, að varnaraðila beri að eyða öllum afritum af þeim þegar í stað.  Þannig hafi hann í fyrsta lagi enga heimild til haldlagningar þeirra og í öðru lagi hafi hann skoðað efni þeirra.  Með þeirri skoðun hafi varnaraðili átt að sjá þegar í stað, að þau gætu ekki tengst rannsókn hans og því hafi hann átt að eyða afritum af þeim, en það verði að telja þátt í afléttingu halds á gögnum, sbr. 1. mgr. 72. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Auk þess telur sóknaraðili að gögn sem tilgreind séu nr. 1, 10 og 18 í dómkröfum, varði samskipti sóknaraðila við utanaðkomandi lögmenn sína.  Samkvæmt 2. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008, sé óheimilt að leggja hald á muni ef þeir hafi að geyma upplýsingar um það sem sakborningi og verjanda hans hafi farið á milli, svo og upplýsingar sem 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008, taki til.

Byggir sóknaraðili á því, að fylgja skuli ákvæðum ofangreindra laga þar sem við framkvæmd húsleitar varnaraðila, sbr. 20. gr. samkeppnislaga, séu ekki efni til að túlka ofangreint ákvæði við meðferð leitar á grundvelli samkeppnislaga á annan hátt en þann, að ákvæðið taki til samskipta sóknaraðila við lögmenn sína.

Þá byggir sóknaraðili á því, að 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008, taki m.a. til upplýsinga um einkahagi manns, sem lögmanni hafi verið trúað fyrir og trúnaðarskylda fylgi, sbr. b-lið greinarinnar.  Lögmenn beri ríka trúnaðar- og þagnarskyldu, sbr. ákvæði 22. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998.  Um samskipti lögmannanna og sóknaraðila, sé lögmennirnir bundnir þagnarskyldu, sbr. fyrrgreint ákvæði.  Trúnaðar- og þagnarskylda lögmanna séu grundvallarreglur sem gildi í öllum réttarríkjum.  Þær séu forsenda fyrir störfum lögmanna yfirleitt.  Byggir sóknaraðili á því að þessar skyldur séu varðar af stjórnarskrá um friðhelgi einkalífs og um réttláta málsmeðferð fyrir dómi.

Sóknaraðili byggir og á því, að túlka verði heimildir varnaraðila til haldlagningar að einhverju leyti með hliðsjón af reglum EB réttar, en varnaraðili hafi ítrekað slegið því föstu í ákvörðunum sínum að beita beri slíkri túlkun.  Byggir sóknaraðili á því að reglur EB réttar heimili ekki haldlagningu á samskiptum við utanaðkomandi lögmenn við meðferð samkeppnismála, sbr. dóm Evrópudómstólsins í máli nr. 155/79.

Um lagarök vísar sóknaraðili til 3. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.  Um málsmeðferð vísar sóknaraðili til XXVII. kafla sömu laga.  Um réttindi sóknaraðila vísar hann til 2. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008, sbr. einnig b-lið 2. mgr. 119. gr. sömu laga.  Einnig vísar sóknaraðili til 1. mgr. 72. gr. laga nr. 88/2008, 20. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005,  22. gr. laga nr. 77/2998, um lögmenn, og stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, einkum 70. og 71. gr.

III

Varnaraðili byggir aðalkröfu sína á því, að afritun tölvugagna teljist ekki haldlagning gagna og útprentun slíkra gagna feli ekki í sér haldlagningu í skilningi samkeppnislaga nr. 44/2005 og laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. athugasemdir við 2. mgr. 68. gr. í frumvarpi til þeirra laga.  Öllum gögnum, sem haldlögð hafi verið, hafi verið skilað 8. júlí sl. og því verði ágreiningsefnið ekki borið undir dómara samkvæmt 3. mgr. 69. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. R-321/2006 og dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 268/2009.

Líti dómurinn svo á að afrituð tölvugögn séu haldlagning í skilningi laga byggir varnaraðili á því, að haldlagningin sé fullkomlega lögmæt og í samræmi við úrskurð héraðsdóms og gildandi lög.  Jafnframt sé því mótmælt að haldlagningin á umræddum gögnum sé ekki lengur nauðsynleg.  Af þessum ástæðum beri að hafna kröfum sóknaraðila.

Í úrskurði héraðsdóms komi fram að varnaraðila hafi borist óformlegar ábendingar um að sóknaraðili hafi með ýmsum hætti leitast við að hamla samkeppni með ólögmætum hætti.  Rannsókn varnaraðila snúi að því hvort sóknaraðili hafi brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga og eftir atvikum hvort hann hafi brotið gegn fyrirmælum samkvæmt ákvörðun varnaraðila nr. 4/2008.  Í ákvörðun varnaraðila nr. 4/2008 hafi sóknaraðili fallist á að hlíta níu tölusettum skilyrðum að viðlögðum stjórnvaldssektum.  Af þessu leiði að fleiri aðgerðir sóknaraðila en þær sem beinlínis kunni að beinast gegn Borgun hf., sem borið hafi fram formlega kvörtun til varnaraðila, séu til rannsóknar.  Því telji varnaraðili nauðsynlegt að skoða öll afrituð gögn sóknaraðila og meta hvort og hvaða þýðingu þau hafi við rannsókn málsins.  Í þessu sambandi beri að hafa í huga að varnaraðila sé heimilt að skoða afrituð tölvugögn fyrirtækja til að leggja mat á hvort þau tengist máli sem til rannsóknar sé hverju sinni, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 178/2002.

Samkvæmt áðurgreindum úrskurði héraðsdóms hafi heimild varnaraðila náð til leitar og haldlagningar og til að taka afrit gagna sem geymd séu á tölvutæku formi.  Hvorki í úrskurðinum né heimildarákvæði 20. gr. samkeppnislaga sé að finna fyrirvara um eða takmarkanir á hvers konar gögn megi haldleggja eða afrita.  Vegna eðlis hluta tölvupósts sem hér um ræði sé rétt að benda á að trúnaðar- og þagnarskylda í sérlögum komi almennt ekki í veg fyrir að varnaraðili fái gögn í hendur, sbr. ákvæði 19. gr. samkeppnislaga og úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála í málinu nr. 3/2001.  Ákvæði 2. málsliðs 1. mgr. 68. gr. laga um meðferð sakamála eigi ekki við í máli þessu þar sem sóknaraðili teljist ekki sakborningur í skilningi laga um meðferð sakamála enda fari rannsókn þessa máls eftir ákvæðum samkeppnis- og stjórnsýslulaga.  Brot á 11. gr. samkeppnislaga, og eftir atvikum skilyrðum ákvörðunar varnaraðila nr. 4/2008, varði eingöngu stjórnvaldssektum á fyrirtæki eða samtök fyrirtækja samkvæmt samkeppnislögum.  Því séu umræddir lögmenn sem eigi í þessum tölvupóstssamskiptum við sóknaraðila ekki skipaðir eða tilnefndir verjendur samkvæmt lögunum um meðferð sakamála.

Varnaraðili mótmælir því að túlka beri heimildir hans til haldlagningar með hliðsjón af EB rétti.  Þó svo að það kunni að vera mismunandi reglur um húsleitir og haldlagningu gagna á Íslandi og í EB rétti sé engin krafa um það í samningi um evrópska efnahagssvæðið, eða í öðrum samningum, sem lagagildi hafa hér á landi að samræma beri löggjöf aðildarríkja um rannsóknir í samkeppnismálum.

V

Eins og að framan greinir krafðist varnaraðili þess fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 30. júní 2009, að sér yrði heimilað að gera leit í húsnæði varnaraðila til leitar og haldlagningar á munum og gögnum í húsnæðinu og læstum hirslum og til að taka afrit gagna sem geymd voru á tölvutæku formi, vegna rannsóknar á ætluðu broti sóknaraðila á 11. gr. samkeppnislaga.  Vísaði varnaraðili til þess að sér hefði nýlega borist kæra frá Borgun hf., sem gæfi ríkar ástæður til að ætla að sóknaraðili hefði með alvarlegum hætti brotið gegn samkeppnislögum á greiðslumarkaðinum, þ.e. einkum á mörkuðum fyrir færsluhirðingu og leigu á posum, en sóknaraðili og forveri þess fyrirtækis hefði lengi haft yfirburði á markaðinum.  Héraðsdómur veitti varnaraðila umbeðnar heimildir með úrskurði uppkveðnum 30. júní 2009.

Húsleit var síðan gerð 1. júlí 2009 hjá sóknaraðila á grundvelli úrskurðar héraðsdómara og lagt hald á ýmis skjöl og jafnframt tekin afrit nánar tilgreindra gagna.  Samkvæmt því sem fram er komið var hinum haldlögðu skjölum og gögnum skilað 8. júlí sl.  Athugun varnaraðila á gögnunum hófst síðan 30. september sl.

Með bréfi, dagsettu 7. október sl., leitaði sóknaraðili úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur um afléttingu haldlagningar gagna við framangreinda húsleit, en um heimild til þess vísaði sóknaraðili til 3. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Samkvæmt 3. mgr. 69. gr. fyrrgreindra laga getur eigandi eða vörsluhafi munar, sem hald er lagt á, og ekki vill hlíta þeirri ákvörðun, borið ágreiningsefnið undir dómara.  Krafa um að aflétta haldi frestar því þó ekki.  Samkvæmt þessu ákvæði verður að telja að leita megi úrlausnar dómstóla í máli, sem rekið er með stoð í 69. gr. laga nr. 88/2008, á því hvort leggja hafi mátt hald á einstök gögn svo og hvort farið hafi verið fram úr hófi við haldlagningu gagna og hvort farið hafi verið fram úr hófi við afritun einstakara gagna án þess að leggja mat á sönnunargildi þeirra.

Verður að líta svo á að með þessu sé sóknaraðili í raun að leita úrlausnar dómstóla um hvort varnaraðila hafi verið heimilt að leggja hald á gögn og muni, sem hann tók í vörslur sínar við húsleitina og hvort honum beri eftir atvikum að skila þeim aftur til sóknaraðila, að því leyti sem það hefur ekki þegar verið gert.

Í ljósi þess, sem áður greinir, verður að leggja til grundvallar að varnaraðili hafi ekki enn kannað efni gagna sem hann afritaði við húsleit hjá sóknaraðila.

Samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur var veitt heimild til þess að leita að og finna gögn, sem hald skyldi lagt á í þágu rannsóknar á meintum brotum sóknaraðila.  Var varnaraðila því rétt, vegna rannsóknar sinnar og í skjóli húsleitarheimildar, að taka afrit af gögnum í tölvubúnaði sóknaraðila í þágu rannsóknar á meintum brotum og leggja hald á gögn í þágu rannsóknarinnar.  Varnaraðili kveðst ekki hafa lokið skoðun allra þeirra gagna sem afrituð voru og því ekki geta gert sér grein fyrir þýðingu þeirra fyrir rannsókn málsins.  Eins og áskilið er hafði varnaraðili aflað sér dómsúrlausnar fyrir leitinni og naut hann þannig, eins og áður greinir, lagaheimildar til að leggja þar hald á gögn sem og afrita skjöl og tölvutæk gögn.  Þó svo að ekki verði horft fram hjá því að varnaraðili kunni að hafa tekið í vörslur sínar gögn sem í ljós gæti komið að ekki varði rannsókn hans hefur ekki verið sýnt fram á í máli þessu að varnaraðili hafi farið út fyrir heimild sem honum var veitt með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 30. júlí sl.   Þá verður ekki talið að sóknaraðili sé sakborningur í skilningi 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008, enda fer um rannsókn málsins eftir samkeppnislögum.  Er því ekki fyrir hendi sú aðstaða sem um ræðir í 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008.  Þá verður heldur ekki talið að tilvitnuð ákvæði stjórnarskrár standi þessari niðurstöðu í vegi. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu sóknaraðila, Valitors hf., hafnað, en ekki þykja efni til að kveða á um málskostnað.

Úrskurðinn kvað upp Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu sóknaraðila, Valitors hf., er hafnað.