Hæstiréttur íslands
Mál nr. 311/2009
Lykilorð
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Kærumál
|
|
Þriðjudaginn 9. júní 2009. |
|
Nr. 311/2009. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Kristján B. Thorlacius hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A- liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir.
Varnaraðili skaut málinu til
Hæstaréttar með kæru 5. júní 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8.
sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2009, þar sem
varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 15. júní 2009
klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í
l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili
krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara
að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og honum verði ekki gert að sæta
einangrun.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða
úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2009.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur
krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að
sæta gæsluvarðhaldi, allt til mánudagsins 15. júní 2009 kl. 16:00. Þá er gerð
krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að kærði hafi
verið handtekinn í gær, hinn 4. júní 2009 en lögregla hafi verið send að
[...] í Reykjavík eftir að tilkynning
hefði borist um mann sem hlotið hefði rispur og sár, líklega eftir átök. Á
vettvangi hafi lögregla hitt fyrir tvær konur, Y og M, og einn karlmann, Z, er
vísuðu þeim á mann, Þ, sem lá hreyfingalaus í rúmi í herbergi í húsinu en um er
að ræða sérbýli innréttað með nokkrum herbergjum til útleigu. Var Þ alblóðugur og andlit hans bólgið og
marið. Andaði hann grunnt og ört en svaraði ekki áreiti. Bentu áverkar til
líkamsárásar. Þrátt fyrir blóð á líkama og í fötum Þ var þó ekki að sjá blóð á
rúmi eða kodda sem hann hvíldi á. Þá var ekkert blóð sýnilegt í herberginu.
Þykir því ekki ólíklegt Þ hafi verið komið fyrir í rúminu og eftir að hann
hlaut áverkana.
Þ var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild. Að
sögn sjúkraflutningamanna var hann með mar á hrygg.
Lögregla ræddi við Y, M og Z á vettvangi. Tjáðu
þau lögreglu að Þ væri ekki til heimilis í húsinu [...] en kæmi þar daglega.
Hann hefðu áður verið þar til heimilis en hafði flutt fyrir um 2-3 mánuðum
síðan. Þau vissu ekki hvert. Aðspurð hver væri til heimilis í herberginu þar
sem Þ lá í , sögðust þau ekkert um það vita.
Y og M sögðust búa þarna í herbergi/íbúð nr. [...]. Þær sögðu að Z hafi bankað hjá þeim og sagt þeim frá manninum sem lá þarna og í framhaldi hafi þær hringt í 112. Að sögn Z hafði hann komið þarna kl. 12 til að heimsækja vin sinn Æ sem er með herbergi á sama gangi og herbergið sem Þ fannst í. Z sagðist hafa tekið eftir því að hurðin á einu herberginu væri opin og sá hann mann liggja í rúminu. Hann sagðist svo hafa kíkt inn í herbergið og séð Þ hreyfingalausan með mikla áverka í andliti. Hann hafi þá kallað til nágrannanna (Y og M) svo þær gætu hringt eftir hjálp. Z sagði að Æ vinur hans hafi ekki verið heima og væri líklega úti að borða.
Við skoðun á vettvangi fann lögregla lak í
ruslatunnu utandyra og undir lakinu tvo blóðuga inniskó merkta B hóteli. Þá
fann lögregla einnig einn slíkan inniskó í ruslatunnu inni í herberginu þar sem
Þ fannst. M hafði áður hafði tjáð lögreglumönnum að hún starfaði á B hóteli en
gat ekki gefið trúverðugar skýringar á lakinu eða inniskónum í ruslinu.
Í húsinu [...] fundust einnig blóðblettir
víðsvegar á gangi í þar sem herbergið sem Þ fannst í. Í herberginu sjálfu
fannst m.a. blóðugt júdó- eða karatebelti í vaski. Lögregla fann einnig blóð í
herbergi Y og M. Herbergi þeirra var þó óvenju hreint að öðru leyti og var búið
að fjarlægja sófa sem staðið hafði í herberginu.
Var rannsóknardeild og tæknideild kölluð á
vettvang en Y, M, Æ og Z voru handtekin og öll flutt á lögreglustöðina að
Hverfisgötu. Skömmu síðar voru tveir aðilar til viðbótar, Ö og X, handteknir en
við yfirferð rannsóknarlögreglumann á vettvangi var komið að þeim þar sem þeir
reyndu að fela sig í herbergi Y og M. Þess má geta að Y, M, Ö og X er öll
litháískir ríkisborgarar en Æ og Z eru pólskir ríkisborgarar.
Hin handteknu voru öll yfirheyrð í gærkvöldi með
réttarstöðu sakborning. Var framburður þeirra mjög misvísandi og þá sérstaklega
framburðir þeirra Y, M, Ö og X. Verða framburðir þeirra stuttlega raktir hér.
M bar í skýrslutöku að hafa
farið í miðbæinn ásamt Y að morgni 4. júní 2009. Áður hafi hún farið í
þvottahús og sett þvott í vél. Einnig hafi þær Y borið bláan sófa í eigu Y út í
garð. Það hafi þær gert fyrir kunningja sinn sem hafi ætlað sækja sófann. Þær Y
hafi svo komið heim saman en hún var ekki viss á tímanum. Hún hafi ætlað inn í
þvottahús að huga að þvottinum þegar hún sá Þ liggja hálfan upp í rúmi í
herbergi Ö. Y hafi tekið blóðugan kodda undan höfði Þ og farið með inn í
þvottahús. Y hafi í kjölfarið hringt á sjúkrabifreið en hún hafi sjálf farið
út. Aðspurð kvaðst M ekki hafa tekið eftir neinu óvenjulegu þegar hún fór í
þvottahúsið um morguninn. Sagði hún að herbergi Ö hafi verið opið en hún hafi
ekki séð neinn þar inni.
Y bar í skýrslutöku að pólskur nágranni hennar
hefði beðið hana um að hringja á sjúkrabifreið sem hún gerði. Hún hafi þá verið
stödd út í garði að borða. Kvaðst hún hafa vaknað um kl. 10 þann 4. júní 2009.
Hún hafi þá farið að taka til og farið í Bónus að versla. Hún hafi svo verið
með kærasta sínum, V. Svo hafi hún verið beðin um að hringja á sjúkrabifreið.
Kvaðst hún hafa farið inn í herbergi hins slasaða áður en lögreglan kom. Hún
hafi þá tekið lak undan hinum slasaða og farið með það lak inn í þvottahús.
Aðspurð um sófa sem var fyrir utan [...] kvað hún að þær vinkonurnar hafi ætlað
fleygja sófanum. Þær hafi borið sófann út um kl. 12. Y var kynnt að tveir menn hefðu verið í íbúð hennar þegar
lögregla kom á vettvang og spurð hvað hún hefði um það að segja. Kvaðst hún
hafa verið ein með kærasta sínum og enginn annar hefði verið með þeim. Y gat
ekki útskýrt blóð sem fannst í herbergi hennar en kvað að það gæti verið blóð
undan skónum hennar.
X kvað í skýrslutöku að Y hefði komið til hans og
sagt að Þ hefði komið á illa haldinn á [...]
og væri slasaður. Hún hafi fengið síma hans til þess að hringja á
sjúkrabíl. X hafi svo lagt sig þar sem hann vildi ekki láta lögreglu sjá sig. X
kvaðst þekkja Þ sem gamlan nágranna sinn af [...] en það hafi ekki verið mikil
samskipti við hann. Kvaðst hann ekki hafi verið einn í herberginu þegar
lögreglan knúði þar dyra. Þar hafi einnig verið nágranni hans, Ö, sem búi í
herberginu þar sem Þ fannst. Ö hafi ekki heldur viljað láta sjá sig. X gaf
engin svör við því hvenær Ö hefði farið inn í herbergið með honum. X kvaðst
hafi verið út í garði með félaga sínum, U, að kvöldi 3. júní 2009. Þeir hafi
svo farið á Mónakó og verið þar fram eftir kvöldi. Hann hafi svo farið heim að
sofa. Hann hafi síðan vaknað þegar Y kom og sagði honum að Þ væri slasaður.
Aðspurður um sófann sem hafi verið úti í garði sagðist X kannast við hann. Sagði að hann og Ö hefðu
borið hann út vegna þess að það hefði skvettst á hann úr glasi.
Ö bar að Þ hefði komið til hans að morgni 4. júní
2009 illa haldinn. Ö hafi þá verið einn heima. Þ hafi lagst upp í rúmið og
liðið illa. Hann hafi þá fengið stelpurnar í næstu íbúð til þess að hringja á
sjúkrabíl og Y hefði hringt. Aðspurður um af hverju hefði fundist blóðugt júdó-
eða karatebelti í vask hans kvaðst hann ekki hafi hugmynd um það. Aðspurður um
blóðugan kodda í íbúðinni kvað hann að Þ hefði legið á koddanum í rúmi hans. Kvað
hann að Þ hefði komið til hans í tvö til þrjú skipti í gær. Kvaðst hann hafa
látið hann fá sígarettur en neitaði því alfarið að hafa lánað Þ nokkurn hlut. Kvað hann þá Þ hafi farið inn
í íbúð Æ í gærkvöldi til þess að horfa á sjónvarp. Annað hefði ekki gerst í
herberginu. Kvað hann þá X hafi farið inn í íbúð stelpnanna til þess að losna
við að vera handteknir af lögreglu.
Z greindi frá því að hann hefði farið að [...]
einhvern tímann eftir hádegi 4. júní sl., en hann ætlaði að hitta Æ félaga
sinn, sem reyndist þá ekki vera heima. Er hann fór inn á stigaganginn hafi hann
veitt því athygli að hurð í íbúð til vinstri var opinn. Hann hafi litið þar inn
séð að maður lá þar í rúminu með mikla áverka í andliti. Sagðist Z ekki hafa
farið inn í herbergið heldur út í bakgarðinn þar sem hann hitti tvær stelpur og
fékk þær til að hringja á sjúkrabíl. Aðspurður hvort fleiri hefðu verið á
staðnum sagði Z að litháískur maður, íbúi herbergisins sem Þ fannst í, hefði
verið þar og ungur litháískur maður hefði einnig verið þar. Sagði hann að þeir
hefðu farið inn í íbúð stúlknanna þegar lögreglu bar að garði. Z sagði einnig
frá því að Æ hefði kvöldið fyrir atburðinn greint honum frá því að litháískur
maður hefði elt Þ inn í herbergi til hans með kjöthamar á lofti. Æ hefði sagst
hafa náð af honum kjöthamrinum en hefði haft á orði að annars hefði Þ verið
drepinn. Fram kom einnig að Æ hefði heyrt litháíska manninn ganga í skrokk á Þ
inni á salerni í íbúð sinni seinna um kvöldið, en þetta hefði verið út af
stuldi á 20.000 krónum af debet-korti litháíska mannsins en hann hefði lánað Þ
debet-kortið til að kaupa sígarettupakka.
Í yfirheyrslum af Æ greindi hann frá því að hann
hefði séð Þ hlaupa undan Ö að kvöldi til 3. júní milli 17:00 og 18:00, en Ö
hefði viljað lemja Þ þar sem hann hefði stolið frá honum 20.000 krónum af
debetkorti. Sagðist Æ hafa stíað mönnunum í sundur og að kona sem hann taldi
heita T og ungur litháískur maður hefðu komið þarna að til að róa þau niður.
Eftir þetta hefðu þau öll farið í burtu og hann hefði lokað á eftir sér.
Sagðist Æ hafa farið að sofa eftir þetta og vissi ekki hvað gerðist eftir það
en hann hefði þó heyrt háreysti frá litháunum síðar um nóttina. Æ sagðist svo
hafa vaknað um kl. 6:00 að morgni 4. júní sl. og að Ö hefði þá komið inn í
herbergið til hans og sagt honum að hann hefði lamið manninn fyrir stuld á
20.000 krónum. Síðar um daginn hefði Æ farið niður í miðbæ og er hann snéri
aftur að [...] hefði lögregla verið komin á staðinn.
Áverkar brotaþola eru töluverðir. Samkvæmt
bráðbirgðaáverkavottorði Andra Jóns Heide, læknis, var brotaþoli með verulega
áverka á andliti, miklar bólgur í kring um augu og á öllu andliti sem og áverka
á baki. Við fyrstu skoðun sást að blæðing á djúpheila og var talið að um væri
að ræða rofinn æðargúlp sem væri afleiðing fyrrnefndra áverka á höfði. Lögregla
ræddi símleiðis við lækni morgun og var þá staðfest að brotaþoli væri með
blæðingu í heila og heilahimnu, auk þess sem hann væri með heilabjúg. Sagði læknir að áverkar
brotaþola væri líklega tilkomnir vegna barsmíða en sneiðmyndataka hefði
útilokað aðrar skýringar. Er brotaþola nú haldið sofandi en til stendur að
reyna að vekja hann í dag. Er brotaþoli enn talinn vera í lífshættu.
Rannsókn málsins er enn á frumstigi. Nauðsynlegt
er að yfirheyra sakborninga frekar með tilliti til þeirra mismunandi framburða
sem fyrir liggja. Þá fara þarf fram nokkuð umfangsmikil rannsókn tæknideildar á
vettvangi og öðrum gögnum, þ.á.m. rannsókn á blóði, sem varpað getur skýrari
ljósi á atvik. Um er að ræða hrottalega líkamsárás sem hefur haft í för með sér
stórfellt heilsutjón. Sakborningar í málinu hafa gefið mjög misvísandi
skýringar á atvikum og verður að telja framburð þeirra afar ótrúverðugan. Að
mati lögreglu má ætla að ef kærði verði látinn laus muni hann eiga þess kost að
torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að tala við samverkamenn sína og/eða
vitni í málinu og reyna að hafa áhrif á þeirra framburð. Þá kann hann að reyna
að koma undan gögnum í málinu. Lögregla telur það brýnt fyrir framgang málsins
að fallist verði á framkomna kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli
rannsóknarhagsmuna til að koma í veg fyrir að kærði geti spillt rannsókn
málsins.
Sakarefni málsins sé talið varða við 2. mgr. 218.
gr. almennra hegningarlaga nr. 19/ 1940, en brot gegn ákvæðinu getur varðað
fangelsi allt að 16 árum ef sök sannast. Eftir atvikum getur verið um að ræða
brot á 221. gr. almennra hegningarlaga en brot gegn þeirri grein varðar
fangelsi allt að 2 árum. Að mati lögreglu er framkominn rökstuddur grunur um að
kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem getur varðað fangelsisrefsingu. Um
heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð
sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu
stendur er vísað til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.
Kærði er undir rökstuddum grun um að vera viðriðinn brot sem geta
varðað við 2. mgr 218. gr og e.a. 221. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Rannsókn er á algeru frumstigi og framburður kærðu eru ósamstæðir og
stangast jafnvel á. Þá liggja ekki fyrir niðurstöður vettvangsrannsóknar.
Fallist er á það með lögreglustjóra að nauðsyn beri til að kærði sæti
gæsluvarðhaldi svo sem krafist er enda eru skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 fyrir
hendi. Samkvæmt þessu, er krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu tekin
til greina, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 15.
júní 2009 kl. 16:00. Kærði skal vera látinn í einrúmi á meðan á gæluvarðhaldinu
stendur.