Hæstiréttur íslands
Mál nr. 670/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Kröfugerð
- Lögvarðir hagsmunir
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta
|
|
Þriðjudaginn 17. janúar 2012. |
|
Nr. 670/2011. |
Aðalvík ehf. Ámundi Ingi Ámundason Baldur Jónsson ehf. Björn Einarsson Bunustokkur ehf. Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf. Eðallagnir ehf. Einar Helgi Einarsson Einar Sigurðsson ehf. Erlingur Kristjánsson EVH verktakar ehf. Eykt ehf. Flæðipípulagnir ehf. GG-lagnir ehf. Gissur og Pálmi ehf. Grand-lagnir ehf. Guðjón Hilmarsson Gunnar Bjarnason HS pípulagnir ehf. Heggur ehf. Helgi Skúlason Hilmar Kjartansson Húsafl sf. Ingimundur Magnússon J.E. Skjanni Byggingaverktakar ehf. Jakob Marínósson JB Pípulagnir ehf. Jóhannes Halldórsson Jón og Salvar ehf. JS-hús ehf. K.S. verktakar hf. K16 ehf. Kristinn Auðunsson ehf. Kristján Ólason Króm og hvítt ehf. Lagnameistarinn ehf. Lurkur ehf. M. Hlíðdal ehf. Magnús Pálsson Marínó Jóhannsson ehf. Markholt ehf. Miðstöðin Vestmannaeyjum ehf. Mótamenn ehf. Mótás hf. Nábúi sf. Neslagnir ehf. Pípulagningameistarinn ehf. Pípulögn sf. Presslagnir ehf. Rennsli ehf. Rör og tæki ehf. Rörmenn Íslands ehf. Rörverk ehf. SS Lagnir ehf. S.Þ. verktakar ehf. Sérverk ehf. Sigurjón Einarsson S.I.H. pípulagnir ehf. SL ehf. Stefánsson ehf. Lagnaþjónusta Steinar Þ. Ólafsson Stuðlar ehf. Súperlagnir ehf. T. Guðjónsson ehf. Trésmiðja Snorra Hjaltasonar Trésmiðjan Jari ehf. Tröllalagnir ehf. Týrus hf. Valdimar Valdimarsson ÞG verktakar ehf. Þórtak ehf. Örlygur Vigfús Árnason og Örn Sigurjónsson (Einar S. Hálfdánarson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) |
Kærumál. Kröfugerð. Lögvarðir hagsmunir. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta.
A ehf. og fleiri kærðu úrskurð héraðsdóms þar sem máli þeirra á hendur Í var vísað frá dómi. Fyrri liður aðalkröfu A ehf. og fleiri laut að því að felld yrði úr gildi álagning iðnaðarmálagjalds fyrir árið 2010. Í dómi Hæstaréttar sagði að þótt þessi krafa þeirra væri ekki berum orðum takmörkuð við álagningu gjaldsins, að því er þá eina varðaði, ylli það ekki frávísun hennar, enda leiddi það af 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að dómur um kröfuna byndi aðeins aðila málsins og þá sem að lögum kæmu í þeirra stað. Um síðari lið aðalkröfu auk varakröfu A ehf. og fleiri sagði í dómi réttarins að þær þættu ekki dómtækar, enda yrðu slíkar kröfur um aðfararhæfan dóm því aðeins dæmdar að fjárhæð væri tilgreind um hvern og einn þeirra, en það hefðu þeir ekki gert. Þá þótti málatilbúnaður sem laut að þrautavarakröfu þeirra vanreifaður. Staðfesti Hæstiréttur því niðurstöðu héraðsdóms að öðru leyti en því að felldur var úr gildi sá hluti úrskurðarins sem varðaði frávísun á fyrri lið aðalkröfu A ehf. og fleiri
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 22. nóvember 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar, en til vara að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi að hluta. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Fyrir héraðsdómi gerðu sóknaraðilar í fyrsta lagi þá aðalkröfu að felld yrði úr gildi álagning iðnaðarmálagjalds árið 2010. Af þeirra hálfu var lagður fram listi með upplýsingum, sem aflað var hjá ríkisskattstjóra, þar sem fram kemur að þeir sættu allir slíkri álagningu tilgreint ár. Í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 er fleirum en einum heimilt að sækja mál í félagi ef dómkröfur þeirra eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Fallist er á með sóknaraðilum að þeir séu í sömu aðstöðu að þessu leyti og þeim sé heimilt að leita í sama máli dóms um að álagning verði felld úr gildi. Er krafan nægilega reifuð í héraðsdómsstefnu. Þótt þessi krafa sóknaraðila hafi ekki berum orðum verið takmörkuð við álagningu gjaldsins, að því er þá eina varðar, veldur það ekki frávísun hennar, enda leiðir af 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 að dómur um kröfuna bindur aðeins aðila málsins og þá sem að lögum koma í þeirra stað. Verður ákvæði hins kærða úrskurðar um frávísun þessarar kröfu felld úr gildi.
Í öðru lagi kröfðust sóknaraðilar þess aðallega fyrir héraðsdómi að varnaraðila ,,verði gert að endurgreiða álagt iðnaðarmálagjald árin 2007-2009 á grundvelli laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.“ Þessi kröfuliður felur ekki í sér viðurkenningarkröfu heldur kröfu um aðfararhæfan dóm fyrir samanlögðu iðnaðarmálagjaldi, sem lagt var á sóknaraðila tilgreind ár. Slík krafa verður því aðeins dæmd að fjárhæð hennar sé tilgreind um hvern sóknaraðila, en það hafa þeir ekki gert. Þessi krafa er því ekki dómtæk og verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um frávísun hennar.
Sóknaraðilar kröfðust þess til vara fyrir héraðsdómi að varnaraðila verði „gert að endurgreiða álagt iðnaðarmálagjald árin 2007-2009 á grundvelli ólögfestra reglna kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár.“ Þessi krafa er hin sama og seinni liður aðalkröfu þeirra, sem síðast var lýst, en reist á öðrum röksemdum. Henni verður því vísað frá héraðsdómi af sömu ástæðum.
Að því frágengnu gerðu sóknaraðilar þá kröfu fyrir héraðsdómi að viðurkennd verði skaðabótakrafa þeirra „er nemi fjárhæð álagðs iðnaðarmálagjalds að frádregnum álögðum tekjuskatti árin 2007-2009.“ Viðurkenningarkröfu þessa reisa sóknaraðilar á 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Til þess að telja megi málsaðila hafa lögvarða hagsmuni af því að hafa uppi kröfu fyrir dómi til viðurkenningar skaðabótaábyrgðar annars manns hefur í dómaframkvæmd Hæstaréttar verið lagt til grundvallar að hann verði, auk þess að gera grein fyrir bótagrundvellinum, að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni af nánar tilteknu tilefni og gera grein fyrir því í hverju tjónið felist. Má um þetta meðal annars vísa til dóma réttarins 17. nóvember 2005 í máli nr. 182/2005, 7. desember 2006 í máli nr. 160/2006, 8. maí 2008 í máli nr. 450/2007 og 25. nóvember 2009 í máli nr. 600/2009. Sóknaraðilar hafa ekki gert grein fyrir því hvort þeir hafi í raun greitt hið álagða gjald, auk þess sem vanreifað er í stefnu í hverju tjón þeirra felst. Þá er greinargerð þeirra í stefnu um grundvöll skaðabótaábyrgðar alls ófullnægjandi. Verður því fallist á með héraðsdómi að viðurkenningarkröfunni skuli vísa frá héraðsdómi.
Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi að því er varðar frávísun á fyrri lið aðalkröfu sóknaraðila í héraði og lagt fyrir héraðsdómara að taka kröfuna til efnismeðferðar. Úrskurðurinn verður að öðru leyti staðfestur um frávísun málsins.
Ákvörðun málskostnaðar í héraði í þessum þætti málsins bíður efnisdóms, en rétt er að hver aðila beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi að því er varðar frávísun á fyrri lið aðalkröfu sóknaraðila um að felld verði úr gildi álagning iðnaðarmálagjalds árið 2010 og er lagt fyrir héraðsdómara að taka þá kröfu til efnismeðferðar. Úrskurðurinn er staðfestur um frávísun málsins að öðru leyti.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2011.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar hinn 25. október sl., að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda, var höfðað af Aðalvík ehf., Ármúla 15, Reykjavík, Ámunda Inga Ámundasyni, Gvendargeisla 108, Reykjavík, Baldri Jónssyni ehf., Grænahjalla 25, Kópavogi, Birni Einarssyni, Flétturima 14, Reykjavík, Bunustokki ehf., Akralind 5, Kópavogi, Eðallögnum ehf., Dalbraut 45, Akranesi, Einari Helga Einarssyni, Þverási 15, Reykjavík, Einari Sigurðssyni ehf., Ásgarði 12, Reykjavík, Erlingi Kristjánssyni, Leirutanga 17A, Mosfellsbæ, EVH verktökum ehf., Tangasundi 1, Grindavík, Eykt ehf., Skúlagötu 63, Reykjavík, Flæðipípulögnum, Svæði, Dalvík, GG lögnum ehf. Nesvegi 17, Grundarfirði, Gissuri og Pálma ehf., Staðarseli 6, Reykjavík, Grand-lögnum ehf., Smárarima 88, Reykjavík, Guðjóni Hilmarssyni, Teigagerði 17, Reykjavík, Gunnari Bjarnasyni, Öldugötu 25, Reykjavík, HS Pípulögnum ehf., Hraunbæ 78, Reykjavík, Heggi ehf. pappír, Bíldshöfða 18, Reykjavík, Helga Skúlasyni, Löngumýri 31, Garðabæ, Hilmari Kjartanssyni, Ásbúð 17, Garðabæ, Húsafli ehf., Nethyl 2, Reykjavík, Ingimundi Magnússyni, Önundarholti, Selfossi, Ingimundi Magnússyni ehf., Suðurlandsbraut 10, Reykjavík, JE Skjanna byggingarverktökum ehf., Malarhöfða 8, Reykjavík, Jakobi Marínóssyni, Baughúsi 35, Reykjavík, JB Pípulögnum, Suðurgötu 8, Vogum, Jóhannesi Halldórssyni, Logafold 44, Reykjavík, Jóni og Salvari ehf., Smiðjuvegi 44, Kópavogi, JS-húsi ehf., Keldulandi 11, Reykjavík, KS verktökum hf., Akralind 4, Kópavogi, K16 ehf., Kárastíg 12, Reykjavík, Kristni Auðunssyni ehf., Klapparhlíð 5, Mosfellsbæ, Kristjáni Ólafssyni, Mosarima 33, Reykjavík, Krómi og hvítu ehf. Álaleiru 7, Höfn í Hornafirði, Lagnameistaranum ehf., Móbarði 36, Hafnarfirði, Lurki ehf., Huldubraut 12, Kópavogi, M. Hlíðdal ehf., Brekkuhjalla 10, Kópavogi, Magnúsi Pálssyni, Reynihvammi 0, Kópavogi, Marínó Jóhannssyni ehf., Eyktarási 17, Reykjavík, Markholti ehf., Hásölum 13, Kópavogi, Miðstöðinni ehf., Strandvegi 30, Vestmannaeyjum, Mótamönnum ehf., Þúfuseli 2, Reykjavík, Mótási ehf., Stangarhyl 5, Reykjavík, Nábúa sf., Melgerði 16, Kópavogi, Neslögnum ehf., Bergási 12, Reykjanesbæ, Pípulagningarmeistaranum ehf., Skemmuvegi 44, Kópavogi, Pípulögn sf., Miðhúsum 27, Reykjavík, Pressulögnum ehf., Funafold 29, Reykjavík, Rennsli ehf., Holtsbúð 52, Garðabæ, Rörum og tækjum ehf., Njarðarbraut 3d, Reykjanesbæ, Rörmönnum Íslands ehf., Ársölum 1, Kópavogi, Rörverki ehf., Vörðusundi 5, Grindavík, SS Lögnum ehf., Kirkjuvöllum 7, Hafnarfirði, SÞ verktökum ehf., Suðurási, Reykjavík, Sérverki ehf., Askalind 5, Kópavogi, Sigurjóni Einarssyni, Laufbrekku 6, Kópavogi, SIH Pípulögnum ehf., Hrísarima 27, Reykjavík, SL ehf., Álfaskeiði 127, Hafnarfirði, Stefánssyni ehf.- Lagnaþjónustu, Reykjum 1, Stað, Steinari Þ. Ólafssyni, Ástjörn 2a, Selfossi, Stuðlum ehf., Egilsgötu 22, Reykjavík, Súperlögnum ehf., Álfhólum 3, Selfossi, T. Guðjónssyni ehf., Biðarrima 54, Reykjavík, Trésmiðju Snorra Hjartarsonar, Týrusi hf., Kirkjustétt 2-6, Reykjavík, Trésmiðjunni Jara ehf., Funahöfða 3, Reykjavík, Tröllalögnum ehf., Auðnukór 3, Kópavogi, Valdimar Valdimarssyni, Mýrarseli 4, Reykjavík, ÞG Verktökum ehf., Fossaleyni 16, Reykjavík, Þórtaki ehf., Brúnastöðum 73, Reykjavík, Örlygi Vigfúsi Árnasyni, Hraunbæ 60, Reykjavík, Erni Sigurjónssyni, Leiðarhömrum 32, Reykjavík, á hendur íslenska ríkinu, með stefnu áritaðri um birtingu 16. mars 2011.
Dómkröfur stefnenda eru þær aðallega, að felld verði úr gildi álagning iðnaðarmálagjalds árið 2010. Þá krefjast stefnendur þess, að stefnda verði gert að endurgreiða álagt iðnaðarmálagjald árin 2007-2009 á grundvelli laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna opinberra gjalda.
Til vara krefjast stefnendur þess, að felld verði úr gildi álagning iðnaðarmálagjalds árið 2010 og að stefnda verði gert að endurgreiða álagt iðnaðarmálagjald árin 2007-2009 á grundvelli ólögfestra reglna kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár.
Til þrautavara krefjast stefnendur þess, að felld verði úr gildi álagning iðnaðarmálagjalds árið 2010 og að viðurkennd verði skaðabótakrafa stefnenda er nemi fjárhæð álagðs iðnaðarmálagjalds að frádregnum álögðum tekjuskatti árin 2007-2009. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi og hverjum stefnenda verði gert að greiða stefnda málskostnað, samkvæmt mati dómsins, en til vara krefst stefndi sýknu af kröfum stefnenda og að hverjum stefnenda verði gert að greiða stefnda málskostnað, samkvæmt mati dómsins.
Hinn 25. október sl. fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnda og er einungis sá þáttur málsins til úrlausnar. Í þessum þætti málsins krefst stefndi þess að málinu verði vísað frá dómi og að honum verði úrskurðaður málskostnaður. Stefnendur krefjast þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og krefjast málskostnaðar úr hendi stefnanda vegna þessa þáttar málsins.
II
Stefnendur kveðast byggja aðild sína á 19. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Í greininni sé að finna heimild fyrir því að tveir eða fleiri höfði mál í sameiningu um kröfur sínar á hendur sama gagnaðila. Telji stefnendur skilyrði ákvæðisins uppfyllt í þessu tilviki þar sem dómkröfur þeirra byggi á sömu aðstöðu, ólögmætri innheimtu gjalds sem teljist vera andstætt stjórnarskrá.
Aðalkröfu sína byggja stefnendur á 65. gr., 72. gr., 2. mgr. 74. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar og samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis sem sé fylgiskjal með lögum nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu, um bann við mismunun og um félaga-, hugsana- og tjáningarfrelsi.
Í 3. gr. laga nr. 134/1993, um iðnaðarmálagjald hafi verið kveðið á um að allir einstaklingar og félög sem stundi tiltekinn rekstur skyldu greiða félagsgjald til samtakanna. Hvað varði gjaldstofninn, hafi hann, í samræmi við 1. gr. laganna, verið tekjur næstliðins árs. Með lögum nr. 124/2010, frá 22. september 2010, hafi lögum nr. 134/1993 verið breytt á þann veg að samkvæmt 3. gr. laganna skuli iðnaðarmálagjald renna í ríkissjóð og vera ráðstafað til verkefna á sviði menntunar og nýsköpunar í iðnaði í stað þess að renna til Samtaka iðnaðarins. Hafi lagabreytingin átt að taka til álagðs iðnaðarmálagjalds vegna ársins 2009 auk þess sem það iðnaðarmálagjald sem álagt sé vegna fyrri ára eftir gildistöku laganna skyldi renna í ríkissjóð. Með lagabreytingunni í þá átt að gjaldtaka skuli hafa skýrt markmið og gjaldið renna til almennra nota, en ekki til sérgreindra félagasamtaka hafi ætlunin verið að gera tilgang gjaldheimtunnar samrýmanlegan ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og mannréttindasáttmála Evrópu.
Stefnendur byggja á því að engin álagningarheimild hafi verið til álagningar iðnaðarmálagjalds. Í sama mund og ætlunin hafi verið að breyta iðnaðarmálagjaldi í gjaldtöku í sérstöku skyni í ríkissjóð, hafi verið felld brott 3. mgr. 1. gr. laga nr. 134/1993, um iðnaðarmálagjald þess efnis að um álagningu og innheimtu iðnaðarmálagjalds færi samkvæmt ákvæðum VIII.-XIV. kafla laga um tekjuskatt eftir því sem við á. Með öðrum orðum hafi fallið burt heimild skattstjóra til að leggja gjaldið á, án þess að ný skattlagningarheimild til annarra stjórnvalda hafi komið í staðinn.
Atvik þau sem ráði skattskyldu við álagningu ársins 2010 hafi verið bundin við tiltekin atriði árið áður, annars vegar tekjur viðkomandi árið 2009 og hins vegar hafi tilteknir aðilar vera gjaldskyldir til Samtaka iðnaðarins. Í 1. gr. laga um iðnaðarmálagjald hafi sagt: „Iðnaðarmálagjald má draga frá tekjum þess rekstrarárs þegar stofn til þess myndaðist.“ Gjaldstofninn hafi því myndast árið 2009. Með lögum nr. 124/2010, frá 22. september 2010 hafi sömu aðilum verið gert að greiða gjald vegna ársins 2009, í sérstökum tilgangi í ríkissjóð. Með lagabreytingu þessari hafi því verið brotið gegn 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrár, þar sem segi að enginn skattur verði lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik hafi orðið sem ráði skattskyldu.
Í öðru lagi telji stefnendur gjaldendur iðnaðarmálagjalds skattlagða sérstaklega umfram aðra almenna gjaldendur án þess að efnislegar ástæður, svo sem eins og þær að gjaldinu skuli varið þeim til hagsbóta, séu fyrir hendi, sbr. skilyrði sem skattheimtu á afmarkaða þjóðfélagshópa hafi hingað til verið sett með dómum Hæstaréttar Íslands. Stefnendur telja að almenn skattlagning á alla sem eins sé ástatt um sé heimil þótt það sé í fárra þágu þegar lög leiði til útgjaldanna sem til sé stofnað. Jafnframt hafi verið viðurkenndur þröngur réttur til að leggja skatta á afmarkaða hópa, en þó með því fororði að það sé þeim sjálfum til hagsbóta eða í þágu hagsmuna þeirra og jafnvel hafi verið talið heimilt að skattleggja þrengri hópa eftir efnislegum mælikvarða sem þátt í almennri skattleggingu til almennra útgjalda. Þau skilyrði séu ekki uppfyllt við þessa gjaldtöku í ríkissjóð. Hið nýja iðnaðarmálagjald sem nú renni í ríkissjóð og skuli ráðstafað til verkefna á sviði menntunar og nýsköpunar í iðnaði í stað þess að renna til Samtaka iðnaðarins sé stefnendum ekkert meira hagsmunamál en öðrum skattgreiðendum, enda dulbúin aðferð til að greiða fyrir verkefni sem áður hafi verið á könnu Samtaka iðnaðarins og þau hafi skuldbundið sig til að greiða fyrir. Þetta síðastnefnda eigi við um þá gjaldendur iðnaðarmálagjalds sem ekki séu aðilar að Samtökum iðnaðarins, sem séu m.a. meðlimir Meistarasambands byggingamanna. Innan Samtaka verslunarinnar sé fjöldi fyrirtækja sem reki gjaldskylda starfsemi, s.s. viðgerðarverkstæði fyrir raftæki og skrifstofutæki og innan Bílgreinasambandsins séu bílaviðgerðaverkstæðin.
Jafnframt telja stefnendur að álagning iðnaðarmálagjalds standist hvorki 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, með síðari breytingum, né 14. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis. Vísað sé til 65. greinarinnar og laga nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu, m.a. vegna þess að samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga um iðnaðarmálagjald nr. 134/1993, séu undanþegin gjaldinu fyrirtæki sem að öllu leyti séu í eign opinberra aðila, svo og fyrirtæki sem stofnuð séu samkvæmt sérstökum lögum til að vera eign opinberra aðila að verulegu leyti nema annars sé getið í þeim lögum, þ.e. eignarhaldsformið ráði skattheimtunni. Stefnendur telja einnig að hin tilviljunarkennda tilgreining atvinnugreinarnúmera, sem skattlögð skuli samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga um iðnaðarmálagjald, standist heldur ekki.
Stefnendur kveða iðnaðarmálagjald vegna rekstrarársins 2009 renna í ríkissjóð. Tekjunum skuli varið til verkefna á sviði menntunar og nýsköpunar í iðnaði eftir því sem nánar sé ákveðið í fjárlögum. Því sé óheimil sú mismunun atvinnugreina sem felist í að atvinnugreinin, sem flokkist undir atvinnugreinanúmerið 10.20.3, mjöl og lýsisvinnsla, sé undanþegin gjaldinu, en 10.20.4, framleiðsla lagmetis úr fiskafurðum, krabbadýrum og lindýrum, sem einnig sé úrvinnsla sjávarafurða, sé gjaldskyld. Með sama hætti sé til að mynda ísgerð, atvinnugreinanúmer 10.52.0, undanþegin gjaldinu, en ekki 10.3, vinnsla ávaxta og grænmetis, 10.42, framleiðsla smjörlíkis og svipaðrar feiti til manneldis, 10.6, framleiðsla á kornvöru, mjölva og mjölvavöru, 10.70, framleiðsla á bakarís- og mjölkenndum vörum 10.9, fóðurframleiðsla, 10.8, framleiðsla á öðrum matvælum, 11, framleiðsla á drykkjarvörum, 13, framleiðsla á textílvörum, 14, fatagerð, 15, framleiðsla á leðri og leðurvörum. Allur kjötiðnaður, hverju nafni sem nefnist, sé undanþeginn gjaldinu. Margt af því sem gjaldskylt sé, teljist úrvinnsla landbúnaðarafurða, ef réttlætingin fyrir undanþágunni eigi að felast í úrvinnslu landbúnaðarafurða. Þá sé 38,3, endurnýting efnis, sem sé mengunarvörn, gjaldskyld. Leiga á vinnuvélum með stjórnanda sé gjaldskyld, en hins vegar ekki leiga vinnuvéla og tækja til byggingariðnaðar (71.32.0). Gjaldskyld séu atvinnunúmerin 45.2, bílaviðgerðir og viðhald, þ.m.t. hjólbarðaviðgerðir, 58.2 hugbúnaðarútgáfa, 62 þjónustustarfsemi á sviði upplýsingatækni, 63.1 gagnavinnsla, hýsing og tengd starfsemi, vefgáttir, ljósmyndaþjónusta sem falli undir 74, aðra sérfræðilega, vísindalega og tæknilega starfsemi og að lokum 96.02, hárgreiðslu- og snyrtistofur sem falli undir 96, aðra þjónustustarfsemi. Engin rökræn tengsl séu milli þessara atvinnugreina og skattlagningar til ríkissjóðs í þágu verkefna á sviði menntunar og nýsköpunar í iðnaði. Um marga stefnendur, sem falli undir atvinnunúmerin 41 og 42, byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, sé skattlagningin gjörsamlega út í hött. Hins vegar sé t.d. mesta stórfyrirtæki landsins, raforkuframleiðandinn Landsvirkjun, ekki gjaldandi iðnaðarmálagjalds þótt það ætti að vera það ef marka megi tilgang skattlagningarinnar. Malbikunarstöð Reykjavíkurborgar, stærsti malbiksframleiðandi landsins, teljist undanþegin vegna eignarhalds. Sama eigi við um Endurvinnsluna hf. o.fl. fyrirtæki. Það eina sem gjaldendur eigi sameiginlegt sé að hafa, andstætt algildum mannréttindum, verið gert að greiða iðnaðarmálagjald.
Stefnendur telja, að með skylduaðild að Samtökum iðnaðarins gegn vilja þeirra þar til síðla árs 2010, hafi verið brotinn á þeim réttur sem þeim beri, samkvæmt 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og lögum nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu, einkum 11. gr., en einnig 9., 10. og 14. gr. samningsins um vernd mannréttinda og mannfrelsis, sem sé fylgiskjal með lögunum, sbr. og almenna þjóðréttarlega skuldbindingu Íslands sem aðila að mannréttindasáttmála Evrópu og dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í málinu nr. 24-1992-369-443, Strassborg, 30. júní 1993.
Stefnendur telja að með dómi Hæstaréttar Íslands hafi rétturinn breytt fyrri afstöðu sinni, væntanlega í framhaldi af dómi Mannréttindadómstólsins í Strassborg í máli Varðar Ólafssonar gegn Íslandi, hinn 27. apríl 2010, þar sem skorið hafi verið úr um að lög um iðnaðarmálagjald hafi ekki staðist ákvæði 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Stefnendum hafi þar af leiðandi ekki verið skylt að standa skil á greiðslu gjaldsins.
Stefnendur telji jafnframt að þegar ákveðið hafi verið með lögum að taka fé þeirra og afhenda það félagi sem þeir hafi ekki átt aðild að hafi verið um óheimila eignaupptöku að ræða sem hafi brotið í bága við ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar.
Stefnendur telja aðstæður sínar hafa verið algjörlega sambærilegar við aðstæður Víkurvers ehf. í fyrrgreindu máli og eigi þeir því rétt á að íslenska ríkinu verði gert að endurgreiða álagt iðnaðarmálagjald árin 2007-2009 á grundvelli laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna opinberra gjalda. Stefnendur telja sig eiga ótvíræðan rétt á endurgreiðslu þess fjár sem greitt hafi verið meðan gjaldið hafi runnið til Samtaka iðnaðarins. Engin ákvæði um endurgreiðslu á iðnaðarmálagjaldi sé að finna í lögum nr. 134/1993 um iðnaðarmálagjald og sé því gert ráð fyrir að um hana fari eftir lögum nr. 29/1995.
Í athugasemdum við frumvarp það sem orðið hafi að lögum nr. 29/1995, segi meðal annars að með frumvarpinu sé lögfest sú meginregla að gjaldandi, sem ofgreitt hafi skatta og gjöld, eigi rétt á endurgreiðslu óháð því hvort hann hafi greitt með fyrirvara eða ekki, og að gert sé ráð fyrir því að stjórnvöld hafi frumkvæðið að endurgreiðslu þegar ljóst sé að ofgreitt hafi verið. Hefði því stefnda borið að endurgreiða stefnendum gjaldið um leið og ljóst hafi verið að innheimta þess hafi verið andstæð lögum. Beri því að endurgreiða álagt iðnaðarmálagjald vegna áranna 2007, 2008 og 2009, samkvæmt ákvæðum laganna.
Fyrsta lið varakröfu sinnar kveða stefnendur byggja á sömu málsástæðum og aðalkröfu sína. Verði ekki fallist á annan lið aðalkröfu krefjast stefnendur þess að stefnda verði gert að endurgreiða álagt iðnaðarmálagjald árin 2007-2009 á grundvelli ólögfestra reglna kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár.
Fyrsta lið þrautavarakröfu sinnar byggja stefnendur á sömu málsástæðum og aðalkrafa sé byggð á. Verði ekki fallist á annan lið varakröfu sé krafist viðurkenningar á skaðabótakröfu stefnenda er nemi fjárhæð álagðs iðnaðarmálagjalds að frádregnum álögðum tekjuskatti árin 2007-2009.
Kröfu um viðurkenningu á bótarétti byggja stefnendur á 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Verði fallist á þessa kröfu stefnenda þurfi síðar að reikna tjón hvers þeirra.
Stefnendur krefjast viðurkenningar á skaðabótum er nemi iðnaðarmálagjaldi að frádregnu hagræði af tekjuskattsfrádrætti á árunum 2007-2009 vegna álagðs iðnaðarmálagjalds. Ef stefndi hafi brotið gegn 65., 72. og 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar með því að leggja iðnaðarmálagjald á stefnendur þvert á ákvæði stjórnarskrár og samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sem sé fylgiskjal með lögum nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu, um bann við mismunun og um félaga-, hugsana- og tjáningarfrelsi, eigi þeir rétt á skaðabótum á grundvelli almennu skaðabótareglunnar.
Fjármálaráðherra beri stjórnskipulega ábyrgð á álagningu og innheimtu gjaldsins, vegna þess að gjaldið hafi verið lagt á af skattstofnum, samkvæmt 1. gr. laga nr. 134/1993. Iðnaðarráðherra hafi á hinn bóginn borið stjórnskipulega ábyrgð á ráðstöfun þess fjár sem aflist með álagningu þess.
Um lagarök vísa stefnendur til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum, svo og laga nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu, sem og samningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sem sé fylgiskjal með lögunum. Einnig vísa stefnendur til laga nr. 134/1993, um iðnaðarmálagjald og samningsviðauka nr. 1 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis með breytingum samkvæmt samningsviðauka nr. 11.
Kröfu um málskostnað byggja stefnendur á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
III
Stefndi byggir kröfu sína á því, að allar dómkröfur stefnenda, að skaðabótakröfunni undanskilinni, séu settar þannig fram að ætla megi að þær eigi við um álagningu iðnaðarmálagjalds í heild sinni en takmarkist ekki við álagningu gjaldsins á stefnendur. Þeir 75 aðilar sem stefna í málinu hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að álagning á rúmlega 10 þúsund gjaldendur iðnaðarmálagjalds verði felld úr gildi. Kröfurnar séu því ekki dómhæfar, sbr. 24. gr. og 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. einnig 80. gr. sömu laga.
Stefnu fylgi engar upplýsingar um það hvort á stefnendur hafi verið lagt iðnaðarmálagjald árin 2007, 2008 og 2009. Með stefnu fylgi listi frá ríkisskattstjóra yfir álagt iðnaðarmálagjald á 141 aðila, þ.m.t. stefnendur. Sá listi hafi eingöngu að geyma upplýsingar um álagt iðnaðarmálagjald árið 2010. Engar upplýsingar fylgi stefnu um það hvort iðnaðarmálagjald hafi yfir höfuð verið lagt á þessa sömu aðila árin 2007, 2008 og 2009, né um hvaða fjárhæð hafi þá verið að ræða.
Framsetning krafna á þennan hátt sé ekki í samræmi við 19. gr. laga nr. 91/1991, enda sé nauðsynlegt að hver geri kröfu fyrir sig þegar sakarefni varði álagningu gjalda eða skatta, endurgreiðslu þess eða kröfur til skaðabóta. Þá sé málið ótækt til efnisdóms um kröfurnar þar sem ekki sé greint frá álagningu gjaldsins á hvern og einn umrædd ár og hvergi komi fram hvernig það hafi verið ákvarðað við álagningu skatta, en endurgreiðsluréttur, ef til kæmi, væri einnig háður endurákvörðun opinberra gjalda, svo sem lög nr. 134/1993, um iðnaðarmálagjald, geri ráð fyrir. Kröfurnar, hvort sem sé um álagningu 2010, endurgreiðslu vegna fyrri ára eða til greiðslu skaðabóta, séu því vanreifaðar, sbr. 25. gr. og 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Bótakrafa standist til að mynda engan veginn þann áskilnað sem dómstólar hafi mótað síðustu misseri með tilliti til 25. gr. nefndra laga.
IV
Krafa stefnenda, samkvæmt stefnu, er þannig fram sett að felld verði úr gildi álagning iðnaðarmálagjalds árið 2010 og að íslenska ríkinu verði gert að endurgreiða álagt iðnaðarmálagjald árin 2007-2009. Í aðalkröfu er einnig krafist endurgreiðslu á grundvelli laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna opinberra gjalda, en í varakröfu er krafist endurgreiðslu á grundvelli ólögfestra reglna kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár, en í þrautavarakröfu er krafist viðurkenningar á skaðabótakröfu, er nemi fjárhæð álagðs iðnaðarmálagjalds að frádregnum álögðum tekjuskatti árin 2007-2009.
Frávísunarkrafa stefnda byggir m.a. á því að kröfur stefnenda séu ekki dómhæfar, sbr. 24. gr. og 25. gr. laga nr. 91/1991, sbr. einnig 1. mgr. 80. gr. sömu laga, og að framsetning krafna stefnenda sé ekki í samræmi við 19. gr. laga nr. 91/1991.
Stefnendur byggja aðild sína á 19. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, þar sem dómkröfur þeirra allra byggi á ólögmætri innheimtu gjalds, en innheimta þess hafi verið andstæð nánar tilgreindum ákvæðum stjórnarskrár sem og lögum nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu um bann við mismunun og um félaga-, hugsana-, og tjáningarfrelsi. Stefnendur hafa í stefnu gert grein fyrir því af hverju þeir telji að álagning iðnaðarmálagjalds, sem krafa þeirra er risin af, hafi verið óheimil og fari í bága við tilgreind ákvæði stjórnarskrárinnar. Séu því skilyrði til þess að stefndi endurgreiði gjaldið, Þá séu skilyrði skaðabótaábyrgðar fyrir hendi. Í stefnu er hins vegar ekki að finna sundurliðun á álagningu gjaldsins á hvern og einn stefnenda þau ár sem krafið er um endurgreiðslu og eða skaðabóta fyrir eða gerð grein fyrir meintu tjóni hvers og eins, í hverju tjón þeirra felist og hver tengsl þess séu við hina ætluðu skaðabótaskyldu háttsemi.
Áður en munnlegur málflutningur fór fram um frávísunarkröfu stefnda lögðu stefnendur fram svofellda bókun: „Vegna frávísunarkröfu stefnda skal tekið fram að krafa stefnenda um að felld verði úr gildi álagning iðnaðarmálagjalds og kröfugerð henni tengd er aðeins vegna stefnenda. Eins og fram kemur í upphafi kröfugerðar segir að stefnendur geri þessar dómkröfur. Tvítekning á orðinu „stefnendur“ gerði kröfugerðina ekki skýrari og væri raunar misþyrming á íslensku máli“.
Þrátt fyrir þessa bókun óskuðu stefnendur ekki eftir því að breyta dómkröfu sinni og stendur því dómkrafan óbreytt frá því í stefnu. Krafan, eins og hún er fram sett, þ.e. að felld verði úr gildi álagning iðnaðarmálagjalds árin 2010 og að stefnda verði gert að endurgreiða álagt iðnaðarmálagjald árin 2007-2009, verður ekki skilin öðru vísi en svo að hún taki til ótilgreinds fjölda gjaldenda iðnaðarmálagjalds. Hafa stefnendur ekki lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr þeim kröfum., sbr. 24. gr. og 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, er fleiri en einum heimilt að sækja mál í félagi ef dómkröfur þeirra eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Hafa stefnendur ekki sýnt fram á að framangreindum skilyrðum 19. gr. um samaðild í málinu, sé fullnægt.
Þegar framangreint er virt hafa stefnendur því ekki sýnt fram á að þeir hafi lögvarða hagsmuni af því að leita viðurkenningardóms um álagningu iðnaðarmálagjalds, endurgreiðslu þess eða skaðabótaskyldu stefnda, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Er málið vanreifað að þessu leyti, sbr. e-lið 1. mgr. 80. gr. sömu laga.
Framangreind atriði saman eða hvert um sig leiða til þess að málið er ódómtækt og ber því að vísa því frá dómi.
Eftir þessari niðurstöðu ber að úrskurða stefnendur til þess að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn samtals 365.000 krónur, sem stefnendur greiði að jöfnu.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnendur, Aðalvík ehf., Ámundi Ingi Ámundason, Baldur Jónsson ehf, Björn Einarsson, Bunustokkur ehf., Eðallagnir ehf., Einar Helgi Einarsson, Einar Sigurðsson ehf., Erlingur Kristjánsson, EVH verktakar ehf., Eykt ehf., Flæðipípulagnir, GG lagnir ehf., Gissur og Pálmi ehf., Grand-lagnir ehf., Guðjón Hilmarsson, Gunnar Bjarnason, HS Pípulagnir ehf., Heggur ehf. pappír, Helgi Skúlason, Hilmar Kjartansson, Húsafl ehf., Ingimundur Magnússon, Ingimundur Magnússon ehf., JE Skjanni byggingarverktakar ehf., Jakob Marínósson, JB Pípulagnir, Jóhannes Halldórsson, Jón og Salvar ehf., JS-hús ehf., KS verktakar hf., K16 ehf., Kristinn Auðunsson ehf., Kristján Ólafsson, Króm og hvítt ehf. Lagnameistarinn ehf., Lurkur ehf., M. Hlíðdal ehf., Magnús Pálsson, Marínó Jóhannsson ehf., Markholt ehf., Miðstöðin ehf., Mótamenn ehf., Mótás ehf., Nábúi sf., Neslagnir ehf., Pípulagningarmeistarinn ehf., Pípulagnir sf., Pressulagnir ehf., Rennsli ehf., Rör og tæki ehf., Rörmenn Íslands ehf., Rörverk ehf., SS Lagnir ehf., SÞ verktakar ehf., Sérverk ehf., Sigurjón Einarsson, SIH Pípulagnir ehf., SL ehf., Stefánsson ehf.- Lagnaþjónusta, Steinar Þ. Ólafsson, Stuðlar ehf., Súperlagnir ehf., T. Guðjónsson ehf., Trésmiðja Snorra Hjartarsonar, Týrus hf., Trésmiðjan Jari ehf., Tröllalagnir ehf., Valdimar Valdimarsson, ÞG Verktakar ehf., Þórtak ehf., Örlygur Vigfús Árnason, Örn Sigurjónsson, greiði hver um sig stefnda, íslenska ríkinu, 5.000 krónur í málskostnað.