Hæstiréttur íslands
Mál nr. 482/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. D. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 7. september 2006. |
|
Nr. 482/2006. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Ingimundur Einarsson varalögreglustjóri) gegn X (Guðrún Sesselja Arnardóttir hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. D. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Fallist var á að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli d. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Kröfu um tilhögun gæsluvarðahaldsvistar hans var vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. september 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. september 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 26. september 2006 kl. 16 og sæta jafnframt geðrannsókn. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi að því er varðar gæsluvarðhald hans en til vara að því verði markaður skemmri tími. Verði ekki fallist á aðalkröfu hans krefst hann þess að „einangrun verði ekki beitt“ og að hann verði vistaður á viðeigandi stofnun „meðan á gæsluvarðhaldinu og geðrannsókn stendur“. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Skilja verður kröfugerð varnaraðila svo að kveðið verði á um að tilhögun gæsluvarðhaldsvistar hans, verði ekki fallist á framangreinda aðalkröfu. Ekki verður séð að varnaraðili hafi borið þetta atriði undir héraðsdómara samkvæmt 4. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 og verður krafan því ekki borin undir Hæstarétt að svo stöddu.
Af gögnum málsins verður ráðið að skilyrði séu til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli d. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og eru ekki efni til að marka því skemmri tíma en kveðið er á um í hinum kærða úrskurði. Með þessari athugasemd verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Það athugist að ótvírætt samþykki varnaraðila lá fyrir því að hann sætti geðrannsókn og var því ekki þörf á að krefjast úrskurðar dómara um það atriði, sbr. niðurlagsákvæði d. liðar 1. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1991.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Kröfu varnaraðila, X, um tilhögun gæsluvarðhaldsvistar er vísað frá Hæstarétti.
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. september 2006.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, [kt. og heimilisfang], sæti gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 26. september 2006, kl. 16:00. Jafnframt er þess krafist að X verði gert að sæta geðrannsókn.
Í kröfunni segir svo: “Upp úr kl. 1 sl. nótt var óskað eftir lögreglu á slysadeild Landspítalans í Fossvogi vegna þess að þangað hafði leitað maður, A, með stungusár á baki. Greindi sá maður frá því að hann hefði verið í bíltúr með 16 - 17 ára gömlum dreng, sem kallaður væri [...] og hefðu þeir kynnst fyrir rúmri viku síðan í gegnum internetið. Kvaðst hann hafa stöðvað bifreiðina við Skautahöllina í Laugardal, þar sem [...] hefði farið út úr bílnum til að reykja en sjálfur hefði hann farið út úr bílnum til að kasta af sér vatni. Kvað hann [...] hafa komið aftan að sér en síðan hefði hann fundið högg ofarlega á bakið, litið við og séð [...] hlaupa á brott. Kvaðst hann í fyrstu hafa talið að [...] hefði slegið sig í bakið en þegar hann þreifaði á bakinu hefði hann fundið að hnífur stóð úr út bakinu á sér. Kvaðst hann hafa tekið hnífinn úr bakinu og farið inn í bifreið sína. Komst hann af sjálfsdáðum á slysadeild þar sem gert var að sárum hans en samkvæmt upplýsingum frá vakthafandi lækni fór betur en á horfðist þó lagið hafi farið í gegnum vöðva og reyndist nóg að sauma sárið.
Samkvæmt ábendingum frá brotaþola fór lögregla að heimili kærða. Fannst kærði í nágrenni við húsið og var handtekinn þar kl. 03:34 vegna gruns um líkamsárás. Við handtökuna kvaðst kærði aðspurður oft vera kallaður [...]. Aðspurður um árásina kvaðst kærði viðurkenna verknaðinn og skýrði frá því að hann hefði farið á heimasíðu á internetinu til að kynnast manni og að það hefði hann gert með það í huga að drepa einhvern. Þar hefði hann komist í samband við A og hitt hann í framhaldi af því þrisvar sinnum. Fyrst við heimili hans þar sem þeir hefðu rétt talað saman. Síðan hefðu þeir farið á rúntinn þann 3. september sl. og hefði hann þá tekið hníf með sér til að stinga og drepa A en hann ekki fengið tækifæri til þess. Þeir hefðu aftur farið á rúntinn að kvöldi 4. september og hann þá aftur tekið hnífinn með sér til að drepa A. Hann kvað þá hafa ekið í Laugardalinn við Skautahöllina þar sem hann hefði farið út til að reykja en A hefði farið út til að kasta af sér vatni. Kvaðst kærði þá hafa læðst aftan að honum og stungið hann í bakið. Kvað hann A hafa litið við og hefði hann þá takið á rás og hlaupið í burtu. Aðspurður kvað hann þetta hafa verið vilja sinn og að hann langaði að prófa að drepa mann og að A hafði verið sá fyrsti sem hann fann til þess.
Eftir handtöku kærða gerði lögregla húsleit á heimili hans með hans samþykki og lagði hald á farsíma hans, fartölvu, tvo hnífa og leðurhulstur undan hnífi. Lögregla skoðaði enn fremur bifreiðina sem A hafði verið á og fann þar hníf með 9,6 cm löngu blaði og tréskefti, sem var blóðugur.
Kærði hefur játað að hafa stungið mann í bakið með hnífi sl. nótt og hafi hann haft vilja til að drepa manninn. Lögregla telur því að fyrir liggi rökstuddur grunur um að kærði hafi framið verknað sem fangelsisrefsing liggur við.
Rannsókn málsins er enn á frumstigi þó játning kærða liggi fyrir. Telur lögregla að fara þurfi fram rannsókn á geðheilsu kærða og taka þurfi skýrslur af vitnum, auk þess sem eftir er að rannsókna þá haldlögðu muni sem að framan hefur verið gerð grein fyrir.
Að mati lögreglu má ætla að ef kærði verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot og skjóta munum undan auk þess sem hætta sé þá á að kærða verði kleift að hafa áhrif á vitni gangi hann laus. Telur lögregla því ríka rannsóknarhagsmuni vera fyrir því á þessu stigi málsins að kærði sæti gæsluvarðhaldi.
Þá telur lögregla, með vísan til þess sem að framan er rakið um að kærði hafi lýst því yfir að hann hafi löngum til að prófa að drepa mann, að hann kunni að vera hættulegur öðrum mönnum og því sé nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi til að verja aðra fyrir árásum hans, enda hefur hann sagt að fórnarlamb hans sl. nótt hafi verið sá fyrsti sem hann fann til þess fylgja þessari löngun sinni.
Með hliðsjón af eðli hins meinta verknaðar og yfirlýsinga kærða, um vilja hans til að drepa mann, er talið nauðsynlegt að kærði sæti geðrannsókn til að meta sakhæfi hans skv. 15. gr. almennra hegningarlaga eða til að athuga hvort refsing geti borið árangur, sbr. 16. gr. sömu laga.
Verið er að rannsaka meint brot gegn 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, eða 2. mgr. 218. gr. sömu laga, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a- og d-liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála. Um heimild til geðrannsóknar er vísað til d-liðar 1. mgr. 71. gr. sömu laga”.
Kærði hefur játað að hafa stungið mann í bakið með hnífi og sagt að vakað hafi fyrir honum að verða manninum að bana. Rannsókn málsins er á frumstigi og nauðsyn er á því að kærði sæti geðrannsókn. Þá verður að telja að kærði geti verið hættulegur öðru fólki. Eins og á stendur í þessu máli telur dómarinn að ekki sé tryggt að geðrannsókninni verði komið fram, gangi kærði laus. Þá er brýnt að tryggja það að hann vinni ekki öðru fólki mein. Ber því að taka kröfu lögreglustjóraembættisins til greina og ákveða með heimild í a- og d- liðum 1. mgr. 103. gr. oml. að kærði sæti gæsluvarðhaldi og geðrannsókn.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 26. september 2006, kl. 16:00. Jafnframt skal kærði, X, sæta geðrannsókn.