Hæstiréttur íslands
Mál nr. 108/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Þinglýsing
|
|
Föstudaginn 10. mars 2006. |
|
Nr. 108/2006. |
IB ehf. (Friðjón Örn Friðjónsson hrl.) gegn Degi Dagssyni Guðmundi Bjarnasyni Þórlaugu Bjarnadóttur (Heimir Örn Herbertsson hrl.) Þóru Valdísi Hilmarsdóttur og
ÖR-verki ehf. (Óskar Sigurðsson hrl.) |
Kærumál. Þinglýsing.
Talið var að skilyrði 1. mgr. 28. gr.
þinglýsingalaga nr. 39/1978 væru uppfyllt til að þinglýsa mætti stefnu í máli
sem I hafði höfðað á hendur D, G, ÞB, ÞVH og Ö.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Markús Sigurbjörnsson
og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. febrúar 2006, sem
barst Héraðsdómi Suðurlands 17. sama mánaðar. Kærumálsgögn bárust Hæstarétti
27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 25. janúar 2006 þar
sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að honum yrði heimilað að þinglýsa stefnu í
máli hans gegn varnaraðilum. Kæruheimild er í 1. mgr. 28. gr. þinglýsingalaga
nr. 39/1978. Sóknaraðili krefst þess að þinglýsing stefnu í málinu verði heimiluð
á þá eignarhluta fasteignarinnar Austurvegar 34 í Árborg sem auðkenndir eru með
fastanúmerunum 218-5442, 218-5443 og 218-5444. Þá krefst hann
kærumálskostnaðar.
Varnaraðilarnir Dagur Dagsson, Guðmundur Bjarnason og Þórlaug Bjarnadóttir
krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að
úrskurður héraðsdóms verði staðfestur. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.
Varnaraðilarnir Þóra Valdís Hilmarsdóttir og ÖR-verk ehf. krefjast
staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Krafa varnaraðilanna Dags, Guðmundar og Þórlaugar um frávísun málsins frá
Hæstarétti byggist á því að kæra sóknaraðila sé of seint fram komin. Í kærunni
er þess getið að aðilar hafi ekki verið boðaðir til uppkvaðningar hins kærða
úrskurðar en eintak af honum hafi verið sent með rafpósti til sóknaraðila 30.
janúar 2006. Sóknaraðili hafi fyrst fengið vitneskju um úrskurðinn 3. febrúar
2006. Varnaraðilar bera ekki brigður á þessar fullyrðingar sóknaraðila og
verður heldur ekki séð af framlögðum gögnum að boðað hafi verið til þinghalds
til uppkvaðningar úrskurðarins, þrátt fyrir skýr fyrirmæli þar um í 3. mgr.
115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kæra sóknaraðila barst
héraðsdómi 17. febrúar 2006, eða réttum tveimur vikum eftir að sóknaraðila varð
samkvæmt framansögðu kunnugt um úrskurðinn. Var kæra hans því sett fram innan
þess frests sem greindur er í 1. mgr. 144. gr. laga nr. 91/1991 og verður
frávísunarkrafan því ekki tekin til greina.
Óumdeilt er að sóknaraðili gerði varnaraðilunum Degi, Guðmundi og Þórlaugu skriflegt kauptilboð í fasteign þeirra að Austurvegi 34. Það kauptilboð var áritað af þessum varnaraðilum um samþykki. Tilheyrandi fasteigninni var hús er skiptist í íbúð, verslunarhúsnæði og bílskúr og hefur hver þessara eignarhluta sitt fastanúmer í landsskrá fasteigna. Varnaraðilinn Þóra Valdís hafði á leigu tæpan helming verslunarhluta hússins. Samkvæmt leigusamningnum naut hún forkaupsréttar „á öllu húsnæðinu.“ Aðilar deila um hvort sá réttur hennar hafi fallið niður og hversu víðtækur hann hafi verið. Sóknaraðili reisir ýtrustu kröfu sína á því að forkaupsréttur þessi hafi ekkert gildi gagnvart honum. Vara- og þrautavarakrafa hans eru hins vegar á því reistar að forkaupsrétturinn hafi ekki tekið til annarra hluta fasteignarinnar en þess sem varnaraðilinn Þóra Valdís hafði á leigu, eða í mesta lagi til verslunarhúsnæðisins. Varnaraðilar kveða Þóru Valdísi hafa átt forkaupsrétt að allri fasteigninni og samþykki þeirra á kauptilboði sóknaraðila hafi á engan hátt raskað honum. Þá deila aðilar jafnframt um hvort sóknaraðila hafi verið kunnugt um forkaupsrétt þennan.
Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. þinglýsingalaga getur dómari ákveðið með úrskurði að þinglýsa megi stefnu í máli er varðar réttindi yfir fasteign, eða útdrætti úr stefnu. Markmið þessarar heimildar er að gera viðsemjendum þinglýsts eiganda viðvart um ágreining sem varðar réttindi yfir fasteign. Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi til þinglýsingalaga kemur fram að til þess að rétt sé að taka til greina kröfu um þinglýsingu stefnu þurfi aðstæður að vera svipaðar því sem kveðið er á um í 2. mgr. 27. gr. laganna. Sá sem þess krefst þarf því að færa fram nægileg rök fyrir staðhæfingu um réttindi sín yfir viðkomandi fasteign, þótt ekki verði á því stigi máls tekin efnisleg afstaða til ágreiningsefna aðila. Þegar litið er til þeirra atriða sem fram eru komin um ágreiningsefnin má telja fullnægt skilyrðum til að fallist verði á kröfu sóknaraðila um þinglýsingu stefnunnar.
Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Sóknaraðila, IB ehf., er heimilað að fá þinglýst stefnu í máli sínu nr.
E-639/2005, gegn varnaraðilunum Degi Dagssyni, Guðmundi Bjarnasyni, Þórlaugu
Bjarnadóttur, Þóru Valdísi Hilmarsdóttur og ÖR-verki ehf., á þá eignarhluta
fasteignarinnar Austurvegar 34 í Árborg, sem auðkenndir eru með fastanúmerunum
218-5442, 218-5443 og 218-5444.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms
Suðurlands 25. janúar 2006.
Mál þetta höfðar IB ehf., [kt.], Fossnesi A í Árborg með
stefnu birtri 5. og 6. desember s.l.
Stefndu eru Dagur Dagsson, [kt.], Austurvegi 34, Árborg,
Guðmundur Bjarnason, [kt.], Dúfnahólum 4, Reykjavík, Þórlaug Bjarnadóttir,
[kt.], Hátúni 9, Bessastaðahreppi, Þóra Valdís Hilmarsdóttir, [kt.], Úthaga 17,
Árborg og Ör-verk ehf., [kt.], Birkigrund 20, Árborg.
Dómkröfur stefnanda eru aðallega þær að stefndu Degi,
Guðmundi og Þórlaugu verði gert skylt að gefa út afsal til handa honum fyrir
þeim eignarhlutum fasteignarinnar Austurvegs 34 í Árborg, sem auðkenndir eru
með fastanúmerunum 218-5442, 218-5443 og 218-5444 gegn greiðslu 30.000.000
króna. Til vara krefst stefnandi þess
að viðurkennt verði að 12. gr. samnings stefndu Dags, Guðmundar og Þórdísar við
stefndu Þóru Valdísi, dags. 30. september 2004, um leigu á 50 m² atvinnuhúsnæði
að Austurvegi 34 í Árborg, veiti stefndu Þóru Valdísi aðeins forkaupsrétt til
hins leigða húsnæðis samkvæmt 2. gr. samningsins. Til þrautavara krefst stefnandi þess að 12. gr. samningsins veiti
stefndu Þóru Valdísi aðeins forkaupsrétt til þess eignarhluta fasteignarinnar
Austurvegs 34 í Árborg sem er auðkenndur með fastanúmerinu 218-5443. Að því frágengnu krefst stefnandi þess að
stefndu Degi, Guðmundi og Þórlaugu verði gert að greiða honum óskipt 1.000.000
króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. janúar
2006 til greiðsludags. Þá er krafist
málskostnaðar.
Stefndu Dagur, Guðmundur og Þórlaug krefjast aðallega
frávísunar á varakröfu, þrautavarakröfu og fjárkröfu stefnanda. Til vara krefjast þessi stefndu sýknu af öllum
kröfum stefnanda og málskostnaðar úr
hendi hans.
Stefndu Þóra Valdís og Ör-verk ehf. krefjast aðallega
frávísunar á kröfum stefnanda en til vara sýknu. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi hans.
Stefnandi lýsir málavöxtum svo að stefndu
Dagur, Guðmundur og Þórlaug hafi falið Fasteignamiðlun Kópavogs að selja
fasteignina Austurveg 34 í Árborg, en hún skiptist í þrjá eignarhluta, 150,9 m²
íbúð (fastanúmer 218-5442), 34 m² bílskúr (fastanúmer 218-5444) og 117,6 m²
verslunarhúsnæði (fastanúmer 218-5443).
Hluti verslunarhúsnæðisins, þ.e. 50 m², sé leigður til stefndu Þóru
Valdísar, en hún reki þar hárgreiðslustofu.
Hafi fyrirsvarsmaður stefnanda, Ingimar Baldvinsson, fengið veður af því
að fasteignin væri til sölu í byrjun nóvember 2005 og hafi hann rætt tvívegis
við stefnda Guðmund. Hafi stefndi
Guðmundur gert grein fyrir því að hluti verslunarhúsnæðisins væri leigður út og
væru tvö ár eftir af leigutímanum.
Stefnandi heldur því fram að stefndi Guðmundur hafi í hvorugt skiptið
minnst á að leigutaki ætti forkaupsrétt að eigninni. Hafi stefnandi í kjölfar þessa tjáð sölumanni fasteignasölunnar
að hann væri reiðubúinn að staðgreiða 28.000.000 krónur fyrir eignina. Stefndi Ör-verk ehf. mun jafnframt hafa lýst
yfir áhuga sínum og hafi stefnandi þá tilkynnt stefnda Guðmundi að hann hækkaði
boð sitt í 31.000.000 krónur. Vegna
misskilnings mun stefndu Degi, Guðmundi og Þórlaugu hafi verið tilkynnt að
stefnandi byði 30.000.000 krónur í eignina.
Stefnanda mun hafi verið tilkynnt um hádegisbil 6. nóvember s.l. að
síðastgreind stefndu hefðu samþykkt kauptilboð hans og var skriflegt kauptilboð
undirritað um kl. 14:30 sama dag.
Stefnandi heldur því fram að hvorki þá né á fyrri stigum hafi honum
verið gerð grein fyrir því að eignin eða hluti hennar væri háður
forkaupsrétti. Áður en síðastgreind stefndu
samþykktu kauptilboðið hafi Fasteignamiðlun Kópavogs auglýst að eignin yrði
sýnd almenningi milli kl. 16:00 og 17:00 sama dag. Mun sölumaður hafa tilkynnt
þeim sem komu að skoða eignina að hún væri seld og við það tækifæri hafi
sölumaðurinn tilkynnt stefnanda að stefnda Þóra Valdís, sem hefði 50 m² af verslunarhúsnæðinu til leigu, ætti
forkaupsrétt að húsnæðinu. Segir
fyrirsvarsmaður stefnanda sér hafa brugðið við þessi tíðindi, enda hefði aldrei
verið minnst á að eignin væri háð forkaupsrétti. Síðar um daginn hafi stefndu Dagur, Guðmundur og Þórlaug hins
vegar undirritað kauptilboð stefnanda án nokkurs fyrirvara um forkaupsrétt
stefndu Þóru Valdísar. Taldi stefnandi
það gert í ljósi þess að hún hygðist ekki neyta réttar síns. Daginn eftir segir stefnandi að sölumaður
fasteignasölunnar hafi tilkynnt að stefnda Þóra Valdís hygðist neyta
forkaupsréttar síns. Kvað stefnandi hafa komið í ljós að samkvæmt 12. gr.
leigusamnings stefndu Þóru Valdísar um leigu á umræddu 50 m² atvinnuhúsnæði
ætti leigutaki forkaupsrétt „á öllu húsnæðinu“. Taldi stefnandi ljóst að með hinum tilvitnuðu orðum væri átt við
hið leigða húsnæði, en ekki alla þrjá matshluta fasteignarinnar, enda hafi
leigusamningnum aðeins verið þinglýst á matshluta verslunarhúsnæðisins. Með hliðsjón af því að stefndu Dagur,
Guðmundur og Þórlaug hefðu aldrei gert fyrirvara um forkaupsrétt þriðja manns,
skoraði stefnandi á þau með bréfi dagsettu 10. nóvember s.l. að gera
kaupsamning við hann um eignina og var sú áskorun ítrekuð í bréfi 19. sama mánaðar. Stefndu munu ekki hafa sinnt áskoruninni og
24. nóvember s.l. munu þau hafa gert kaupsamning við stefndu Þóru Valdísi um
alla eignarhluta fasteignarinnar og afsalað þeim til hennar. Samhliða þessu mun stefnda Þóra Valdís hafa
afsalað öllum eignarhlutum fasteignarinnar til stefnda Ör-verks ehf. og mun þar
hafa verið um að ræða efndir á samningi sem hún hafði gert við þennan stefnda
um að hún neytti forkaupsréttar síns í því skyni að afsala fasteigninni til
þessa stefnda.
Stefnandi mun hafa óskað eftir því 10.
nóvember s.l. að kauptilboði hans yrði þinglýst á fasteignina til að tryggja
réttarstöðu sína. Hið sama munu stefndu
Þóra Valdís og Ör-verk ehf. hafa gert að því er snerti kaupsamning stefndu
Dags, Guðmundar og Þórlaugar við stefndu Þóru Valdísi, afsal þeirra til hennar
og afsal hennar til stefnda Ör-verks ehf.
Þinglýsingarstjóri mun hafa ákveðið 1. desember s.l. að þinglýsa
kauptilboði stefnanda á þann eignarhluta fasteignarinnar sem auðkenndur sé með
fastanúmerinu 218-5442. Mistök
fasteignasölunnar við samningu tilboðsins hafi hins vegar valdið því að ekki
var unnt að þinglýsa á eignarhluta 218-5443.
Hafi þetta leitt til þess að afsali stefndu Þóru Valdísar til stefnda
Ör-verks ehf. hafi verið þinglýst á þann eignarhluta sem auðkenndur sé með
fastanúmerinu 218-5443. Í úrlausn
þinglýsingarstjóra komi fram að leigusamningi stefndu Þóru Valdísar hafi ekki
verið þinglýst á þann eignarhluta sem auðkenndur sé með fastanúmerinu 218-5442,
enda hafi þess ekki verið krafist að tilgreina fastanúmer. Þá séu skilyrði 11. gr. þinglýsingalaga ekki
uppfyllt um til hvaða réttinda þinglýsing eigi að taka. Af þessu leiði að forkaupsréttarákvæði
leigusamningsins sé ekki kvöð á umræddan eignarhluta. Ekki sé hins vegar tekin afstaða til þess hvort forkaupsréttarákvæðið
sé kvöð á þeim eignarhluta sem sé auðkenndur með fastanúmerinu 218-5443 af
þeirri ástæðu að kauptilboð stefnanda hafi ekki verið dagbókarfært á þann
eignarhluta.
Stefnandi reisir aðalkröfu sína á þeirri
málsástæðu að stefndu Dagur, Guðmundur og Þórlaug hafi fyrst munnlega og síðar
skriflega samþykkt kauptilboð hans án þess að gera fyrirvara um forkaupsrétt
þriðja manns og er á því byggt að komist hafi á kaupsamningur milli stefnanda
og stefndu. Hafi stefnandi, sem fengið
hafi óskýrar upplýsingar um forkaupsrétt þriðja manns eftir að stefndu
samþykktu munnlegt kauptilboð hans, mátt treysta því að stefndu efndu
samninginn sem komist hafi á með samþykkt tilboðsins. Þá er á því byggt að forkaupsréttur stefndu Þóru Valdísar njóti
ekki verndar gagnvart rétti stefnanda samkvæmt hinu samþykkta kauptilboði, þar
sem hún hafi ekki þinglýst rétti sínum sem sérstakri kvöð á fasteignina heldur
látið sitja við að geta hans í þinglýstum leigusamningi um hluta af einum
eignarhluta eignarinnar. Þar sem
stefndu Dagur, Guðmundur og Þórlaug hafi samþykkt kauptilboð stefnanda án þess
að gera fyrirvara um forkaupsrétt stefndu Þóru Valdísar, sem ekki hafi verið
þinglýst sem kvöð á eignina í samræmi við 11. gr. þinglýsingalaga, haldi
forkaupsrétturinn ekki gildi sínu gagnvart rétti stefnanda samkvæmt hinu
samþykkta kauptilboði, sbr. 1. mgr. 29. gr. sömu laga. Af fordæmi Hæstaréttar
megi ráða að ekki sé nægjanlegt að þinglýsa leigusamningi, sem hafi að geyma
ákvæði um forkaupsrétt leigutaka, til að slíkur réttur haldi gildi gegn þeim
sem reisi rétt sinn á samningum um eignina. Sé nauðsynlegt að þinglýsa
sérstakri kvöð um forkaupsrétt.
Stefnandi byggir einnig á því að réttur
stefndu Þóru Valdísar samkvæmt 12. gr. leigusamningsins taki aðeins til hins
leigða húsnæðis, en það sé ekki afmarkað með eignaskipayfirlýsingu og
forkaupsréttur verði því ekki veittur að því.
Af sömu ástæðu geti eignayfirfærsla að húsnæðinu ekki átt sér stað, sbr.
4. mgr. 16. gr. laga um fjöleignarhús.
Þar sem forkaupsrétturinn sé jafn óskýr og raun beri vitni, hafi hann
enga þýðingu að lögum gagnvart stefnanda.
Þá byggir stefnandi á því að það sé í reynd
stefndi Ör-verk ehf. sem neyti forkaupsréttarins, en ekki stefnda Þóra
Valdís. Beri gögn málsins með sér að
það sé stefndi Ör-verk ehf. sem fjármagni kaupin og að þau séu stefndu Þóru
Valdísi óviðkomandi. Þá sé ekkert komið
fram um að gætt hafi verið ákvæða 9. gr. laga um fasteignakaup.
Í öllum tilvikum byggir stefnandi á því að um
vanheimild stefndu Dags, Guðmundar og Þórlaugar sé að ræða við sölu fasteignarinnar
til stefndu Þóru Valdísar og aftur vanheimild stefndu Þóru Valdísar við sölu
eignarinnar til stefnda Ör-verks ehf.
Hvorki stefnda Þóra Valdís né stefndi Ör-verk ehf. geti öðlast betri
rétt en viðsemjendur þeirra. Þar sem
afsalshafi geti aldrei öðlast betri rétt en sá aðili sem hann leiði rétt sinn
frá verði þau bæði að þola aðalkröfu stefnanda.
Varakrafan er á því byggð að með orðunum „öllu
húsnæðinu“ í 12. gr. leigusamningsins sé skírskotað til hins leigða húsnæðis
samkvæmt 2. gr. hans, en þar sé tekið fram að húsnæðið sé leigt undir rekstur
hársnyrtistofu. Sé hvergi að því vikið
að með framangreindum orðum sé átt við alla þrjá eignarhluti
fasteignarinnar. Stefnandi byggir
einnig á því að afstaða stefndu til þess hvernig eigi að skýra ákvæðið geti
ekki haft þýðingu gagnvart honum þar sem stefndu Dagur, Guðmundur og Þórlaug
hafi samþykkt kauptilboð hans án fyrirvara um forkaupsrétt, en öðru máli gegndi
ef slíkur fyrirvari hefði verið gerður.
Byggt er á því að slík ákvæði verði að vera afdráttarlaus svo þau haggi
samningsbundnum rétti þriðja manns.
Ákvæðið sé ekki fortakslaust og hafi ekki verið þinglýst sem kvöð á
eignina, heldur sé að finna í leigusamningi um hluta af einum eignarhluta
hennar.
Þrautavarakrafa stefnanda er reist á því að
umrædd orð í 12. gr. leigusamningsins feli aðeins í sér skírskotun til þess
eignarhluta sem leigusamningurinn tók til að hluta. Samkvæmt fyrirsögn leigusamningsins og efni hans taki hann aðeins
til atvinnuhúsnæðis. Sé því unnt að
álykta að með hinum tilvitnuðu orðum sé átt við þann eignarhluta
fasteignarinnar sem sé verslunarhúsnæði
og auðkenndur með fastanúmerinu 218-5443. Það styðji þessa niðurstöðu að leigusamningnum hafi aðeins verið
þinglýst á þennan eignarhluta.
Fjárkrafa stefnanda er á því byggð að stefndu
Dagur, Guðmundur og Þórlaug hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið honum
tjóni með því að hafa ekki upplýst hann um að eignin væri háð forkaupsrétti
þriðja manns. Hafi stefnandi, sem reki
atvinnustarfsemi, varið dýrmætum tíma í að gera tilboð í eignina og jafnframt
hafi hann haft af því kostnað að leita sér lögfræðiaðstoðar. Hafi hluti eignarinnar verið keyptur með það
fyrir augum að reka þar verslun og hefði stefnandi pantað vörur frá útlöndum í
því skyni að selja þar í nóvember- og desembermánuði s.l.
Stefnandi vísar til 28. gr. þinglýsingalaga að
því er varðar kröfu sína um að þinglýsa megi stefnu á fasteignina Austurvegi 34
í Árborg en að öðru leyti er krafan ekki rökstudd í greinargerð eða með
framlögðum gögnum. Við munnlegan
flutning um kröfu stefnanda kvað hann veigamikil rök standa til þess að
stefnunni yrði þinglýst og væri það gert til þess að gera viðvart um ágreining
sem uppi væri í málinu. Stefnandi kvað
samþykkt kauptilboð liggja fyrir og hefði aldrei verið minnst á forkaupsrétt
við stefnanda. Þá hafi forkaupsrétti
ekki verið þinglýst sem kvöð á eigninni, heldur hafi í leigusamningi verið
getið um forkaupsrétt á afmörkuðum hluta eignarinnar. Þá kvað stefnandi umrætt ákvæði í leigusamningnum mjög óljóst
orðað. Þá bendir stefnandi á það að
samningurinn ryðji burt rétti þriðja manns, sem ekki sé þinglýst.
Stefndu byggja á því að leigusamningi um
forkaupsrétt að öllu húsnæðinu hafi verið þinglýst og megi ráða af stefnu og
gögnum málsins að stefnanda hafi verið forkaupsrétturinn ljós. Stefndu benda á að þinglýsing stefnu geti
takmarkað eignarráð þeirra og verði því að fara varlega í þeim efnum.
Niðurstaða.
Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. þinglýsingalaga getur
dómari ákveðið með úrskurði að stefnu í máli er varðar réttindi yfir fasteign,
eða útdrætti úr stefnu í slíku máli, megi þinglýsa, en markmið þessarar
heimildar er að gera viðsemjendum þinglýsts eiganda viðvart um ágreining sem
varðar réttindi yfir fasteign. Í
athugasemdum með frumvarpi til laganna kemur fram að til þess að rétt sé að
taka til greina kröfu um þinglýsingu stefnu þurfi aðstæður að vera svipaðar því
sem kveðið er á um í 2. mgr. 27. gr. laganna.
Þarf stefnandi því að færa fram nægileg rök fyrir staðhæfingu sinni um
réttindi sín yfir umræddri fasteign.
Ágreiningur aðila máls þessa snýst um gildi
forkaupsréttar stefndu Þóru, en samkvæmt þinglýstum leigusamningi á hún
forkaupsrétt á öllu húsæðinu að Austurvegi 34.
Það bíður efnisdóms í máli þessu að taka afstöðu til ágreinings aðila að
þessu leyti en það er hins vegar álit dómsins að stefnandi hafi ekki fært fram
nægileg rök fyrir kröfu sinni til að fullnægt sé skilyrðum 28. gr.
þinglýsingalaga til að taka til greina kröfu hans um þinglýsingu stefnu.
Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms í
málinu.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri, kveður
upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu stefnanda, IB ehf., um að
honum verði veitt heimild til að þinglýsa stefndu máls þessa.
Málskostnaður bíður efnisdóms.