Hæstiréttur íslands

Mál nr. 341/1999


Lykilorð

  • Víxill
  • Stefna
  • Frávísunarkröfu hafnað


           

Fimmtudaginn 3. febrúar 2000.

Nr. 341/1999.

Ísberg ehf.

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

gegn

Pétri Sigurðssyni

(Helgi Jóhannesson hrl.)

                                              

Víxilmál. Stefna. Frávísunarkröfu hafnað.

P höfðaði mál gegn Í og reisti kröfur sínar á víxli samþykktum af Í. Undir rekstri málsins lækkaði P kröfu sína vegna atvika, er tengdust lögskiptum að baki víxlinum. Í krafðist aðallega frávísunar málsins, þar sem heimilisfang P hefði ekki verið tilgreint með fullnægjandi hætti í stefnu, heldur hefði í þeim efnum einungis verið vísað til pósthólfs í Hafnafirði og sagt að P væri búsettur í „USA“. Talið var, að Í hefði verið ljóst hver beindi málshöfðun gegn honum og af hvaða tilefni. Þóttu ekki efni til frávísunar málsins þrátt fyrir annmarka á stefnunni enda hefði P bætt úr þeim undir meðferð málsins. Til vara krafðist Í þess að hann yrði dæmdur til að greiða aðra og lægri fjárhæð en P krafðist. Talið var, að lækkun P á dómkröfu sinni leiddi ekki sjálfkrafa til þess að Í gæti komið að vörnum í málinu, sem ekki væru heimilaðar í 118. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en P rak málið sem víxilmál samkvæmt XVII. kafla laganna. Þótti Í ekki geta haft uppi þær varnir um efni máls, sem hann leitaðist við að gera og var því krafa P um að Í greiddi víxilkröfuna, eftir lækkun hennar, tekin til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. ágúst 1999. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að sér verði aðeins gert að greiða stefnda 260.156 krónur án dráttarvaxta eða kostnaðar. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að hafnað verði kröfu áfrýjanda um frávísun málsins og að héraðsdómur verði staðfestur.  Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Krafa áfrýjanda um frávísun málsins frá héraðsdómi er á því reist, að heimilisfang stefnda, sem var stefnandi málsins í héraði, hafi ekki verið tilgreint með þeim hætti, sem a. liður 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áskilur, heldur hafi í þeim efnum einungis verið tilgreint pósthólf í Hafnarfirði og sagt að hann væri „búsettur í USA.“

Í stefnu var nafn stefnanda og kennitala réttilega tilgreind. Áfrýjanda var ljóst hver beindi málshöfðun gegn honum og af hvaða tilefni. Hann mætti við þingfestingu málsins til þess að gæta hagsmuna sinna. Stefndi lagði að gefnu tilefni frá áfrýjanda síðar fram upplýsingar í málinu um heimilisfang sitt. Að þessu gerðu verður að telja, þrátt fyrir framangreinda annmarka á stefnunni, að þeir geti ekki varðað frávísun málsins frá héraðsdómi.

II.

Mál þetta er höfðað sem víxilmál samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991. Ekki er deilt um að skjal það, sem kröfur stefnda eru reistar á, sé lögformlegur víxill og honum réttilega lýst í stefnu til héraðsdóms. Áfrýjandi hefur uppi varnir, sem lúta að því, að um sé að ræða tryggingarvíxil vegna greiðslu hluta kaupverðs fyrir heildverslun, sem hann keypti af stefnda. Vanefndir hafi orðið á kaupsamningnum og eigi hann því fjárkröfur á hendur stefnda. Stefndi hafi fallist á hluta þeirra og lækkað kröfu sína í málinu um 500.000 krónur. Með því hafi hann fallist á að varnir, sem lúti að lögskiptum að baki víxlinum, fái að komast að í málinu. Stefndi hefur mótmælt því að þeim vörnum, sem áfrýjandi teflir fram, verði komið að.

Lækkun stefnda á dómkröfu leiðir ekki sjálfkrafa til þess að áfrýjandi fái komið að vörnum í málinu, sem ekki eru heimilaðar í 118. gr. laga nr. 91/1991. Gegn andmælum stefnda getur áfrýjandi ekki haft uppi þær varnir um efni málsins, sem hann leitast við að gera. Ber því að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms. Þá verður áfrýjandi dæmdur til að greiða málskostnað eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi greiði stefnda 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 1999.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 15. júní s.l., er höfðað með stefnu út gefinni 26. ágúst s.l. og birtri 31. ágúst s.l.

Stefnandi er Pétur Sigurðsson, kt. 040555-2779, búsettur að 105 Kaiser Lane, Long Wood, FL 32759 í Bandaríkjunum.

Stefndi er Ísberg ehf., kt. 490298-2079, Laugavegi 51, Reykjavík, fyrirsvarsmaður Atli Viðar Jónsson, kt. 220553-2139, Veghúsum 15, Reykjavík.

Stefnandi krafðist þess upphaflega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 1.000.000 og bankakostnað, kr. 7.500, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga af kr. 1.000.000 frá 9. maí 1998 til greiðsludags.  Þá er krafist málsksotnaðar samkvæmt reikningi auk virðisaukaskatts.

Undir rekstri málsins lækkaði stefnandi dómkröfu sína þannig að þess var krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 500.000 og bankakostnað, kr. 7.500 ásamt dráttarvöxtum af kr. 500.000 og málskostnað eins og að framan er rakið.

Dómkröfur stefnda eru þær að honum verði gert að greiða stefnanda kr. 260.156 án dráttarvaxta eða annars kostnaðar.  Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.

 

Málavextir.

 

Stefnandi kveður skuldina vera vegna víxils að fjárhæð kr. 1.000.000 en hann er út gefinn og framseldur 11. febrúar 1998 af stefnanda en samþykktur til greiðslu af stefnda Ísbergi ehf. 9. maí 1998 í Íslandsbanka í Reykjavík.  Víxillinn var án afsagnar.

Stefndi lýsir málavöxtum þannig að í tengslum við kaupsamning dags. 11. febrúar 1998 var gengið frá skjali sem bar yfirskriftina “Tryggingarvíxill” og á bakhlið hans var ritað: “Tryggingarvíxill: víxill þessi er til tryggingar greiðslu samkv. 2. tl. 2. gr. kaupsamnings dags. 11/2 1998 vegna kaupa Ísbergs ehf. á rekstri heildversl. af Pétri Sigurðssyni ehf., kt. 471290-1149.”  Stefndi heldur því fram að hinn seldi rekstur hafi ekki reynst eins blómlegur og upplýst hafði verið um af hálfu stefnanda.  Hafi það leitt til þess að stefnandi gaf eftir kr. 200.000 af greiðslu samkvæmt 2. tl. 2. gr. samningsins.   Samtímis eða 26. maí 1998 voru honum greiddar kr. 300.000.  Stefndi unir því ekki að greiða eftirstöðvarnar kr. 500.000 þar sem hann taldi stefnda bera ábyrgð á ýmsum kostnaði.  Hefur stefndi lagt fram gögn er hann telur sýna að stefnandi skuldi honum fé vegna viðskiptanna.  Er þar um að ræða símareikninga frá því í desember 1997, samtals að fjárhæð kr. 63.643, vegna ábyrgða á vörum seldum áður en stefndi keypti reksturinn og annarra atriða tengdum kaupunum, samtals kr. 176.201.  Samtals er  um að ræða kr. 239.844 sem stefndi telur að draga beri frá lokagreiðslu samningsins.  Upplýst hefur verið að stefndi deponeraði kr. 300.000 vegna ofangreindrar skuldar 10. febrúar s.l.

 

Málsástæður og lagarök.

 

Stefnandi byggir kröfur sínar á áðurgreindum víxli og vísar til víxillaga nr. 93/1933, einkum 7. kafla laganna um fullnustu vegna greiðslufalls.  Stefnandi rekur málið samkvæmt 17. kafla laga nr. 91/1991.  Stefnandi mótmælir því að víxilréttur hafi fallið niður við það að dómkrafa var lækkuð.  Lækkunin hafi verið til hagsbóta fyrir skuldara og bendir stefnandi á það að reglur víxillaga séu settar víxilhafa til hagsbóta. Stefnandi vísar um vaxtakröfur til III. kafla vaxtalaga og málskostnaðarkrafa er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndi mótmælir því að unnt sé að reka mál þetta sem víxilmál, þar sem það varði lokauppgjör á kaupsamningi.  Fyrir liggi yfirlýsing stefnanda um að stefndi skuldi honum aðeins kr. 500.000. Stefnandi reyni í skjóli form- og efnisreglna réttarfars og víxilréttar að knýja fram greiðslu sem hann á ekki kröfu til.  Stefndi hafi lagt fram gögn sem sýni að hann skuldi stefnanda aðeins kr. 260.156 sem hann sé reiðubúinn að greiða nú þegar.

Við aðalmeðferð málsins byggði stefndi á því að lækkun dómkröfu niður í kr. 500.000 feli í sér yfirlýsingu um að stefnandi hafi fallið frá víxilrétti í máli þessu.  Sú krafa sé ekki byggð á áðurgreindum víxli og honum hafi ekki verið breytt til samræmis við hina nýju dómkröfu.

Stefndi byggir á reglum samninga- og kröfuréttar, svo og reglum víxillaga.

 

Forsendur og niðurstaða.

 

Stefndi hreyfði þeirri málsvörn við aðalmeðferð málsins að stefnandi hefði glatað víxilrétti er hann lækkaði dómkröfu sína.  Ekki verður fallist á að lækkun á dómkröfum samkvæmt víxli skuldara til hagsbóta leiði til þess að víxilréttur víxilhafa falli niður.  Til þess að svo megi verða þarf ótvíræða yfirlýsingu víxilhafa þar að lútandi.  Þar sem slík yfirlýsing hefur ekki verið gefin í máli þessu verður að telja að víxilréttur stefnanda sé í fullu gildi.

Samkvæmt 17. gr. víxillaga nr. 93/1933 getur varnaraðili eigi borið fram neinar þær varnir gegn víxilhafa er lúta að viðskiptum hans við útgefanda. Varnir þær sem stefndi hefur uppi í máli þessu eru þess eðlis að þær verða ekki hafðar uppi í víxilmáli, sbr. 2. mgr. 118. gr. laga nr. 91/1991.  

Í máli þessu hefur verið lagður fram víxill sem uppfyllir öll formskilyrði víxillaga nr. 93/1933.  Þar sem kröfur stefnanda þykja að öðru leyti nægum gögnum studdar verða þær teknar til greina að öllu leyti.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda kr. 200.000 í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

DÓMSORÐ.

 

Stefndi, Ísberg ehf., greiði stefnanda, Pétri Sigurðssyni, kr. 507.500 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga af kr. 500.000 frá 9. maí 1998 til greiðsludags og kr. 200.000 í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.