Hæstiréttur íslands

Mál nr. 179/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vistun á stofnun


Þriðjudaginn 4

 

Þriðjudaginn 4. apríl 2006.

Nr. 179/2006.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari)

gegn

X

(Lúðvík Emil Kaaber hdl.)

 

Kærumál. Vistun á stofnun.

Skilyrði þóttu fyrir hendi til að X yrði í stað gæsluvarðhalds gert að sæta vistun á viðeigandi stofnun samkvæmt lokamálslið 110. gr. laga nr. 19/1991.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og  Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. mars 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. mars 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til fimmtudagsins  8. júní 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fallist er á með sóknaraðila að fram sé kominn sterkur grunur um að varnaraðili hafi gerst sekur um brot gegn 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eða 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Af gögnum málsins má ráða að hnífur sá sem beitt var sé með 10,5 sm löngu blaði en hann stóð á kafi upp að hjöltum í efra baki brotaþola við komu á sjúkrahús. Er ljóst að tilviljun ein hafi ráðið að áverki sá sem brotaþoli hlaut var ekki lífshættulegur. Verður því staðfest sú ályktun héraðsdóms að í málinu séu fyrir hendi skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi.

Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði liggur fyrir í málinu niðurstaða geðrannsóknar Tómasar Zoëga geðlæknis á varnaraðila. Með vísan til þess sem þar greinir verður að telja að fyrir liggi í málinu fullnægjandi gögn um að skilyrði séu fyrir hendi til að varnaraðila verði í stað gæsluvarðhalds gert að sæta vistun á viðeigandi stofnun samkvæmt lokamálslið 110. gr. laga nr. 19/1991 þar til dómur gengur í máli hans, þó ekki lengur en til fimmtudagsins 8. júní 2006 kl. 16.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti vistun á viðeigandi stofnun þar til dómur gengur í máli hans, þó ekki lengur en til fimmtudagsins 8. júní 2006 kl. 16.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. mars 2006.

Ríkissaksóknari hefur krafist þess að X, [kt.], verði með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi í 10 vikur eða til 8. júní 2006, kl. 16.00, en þó eigi lengur en þar til dómur fellur í máli hans, sbr. 106. gr. s.l.

Í greinargerð ríkissaksóknara segir að þann 11. febrúar sl. hafi kærði verið handtekinn grunaður um að hafa stungið föður sinn A, í bakið, á heimili hans.

Kærði hafi viðurkennt að hafa lent í átökum við föður sinn og hafa síðan í reiði stungið hann með hníf. Játning kærða styðjist m.a. við framburð brotaþola, framburð B, 9 ára systur kærða og framburð móður kærða sem sagði hann hafa hringt í sig og sagt að hann hefði stungið föður sinn. Samkvæmt framburði brotaþola hafi kærði farið fram í eldhús í framhaldi af átökum þeirra á milli og náð í hníf sem kærði síðan stakk hann með.

Í málinu liggi fyrir vottorð Hlyns Þorsteinssonar læknis á slysa- og bráðadeild LSH. Þar komi fram að hnífurinn hafi lent í baki rétt hægra megin við hrygg og að oddurinn virðist hafa beinst örlítið niður og til hægri og hafa verið í hæð við 2. brjóstlið. Einnig komi þar fram að sneiðmynd af brjóstkassa hafi sýnt að hnífsoddurinn hafi rétt náð að snerta lungnatopp hægra megin. Samkvæmt vottorði Hlyns telji hann að hending ein hafi ráðið því að ekki hafi verið um lífshættulega áverka að ræða.

Kærði sé sjálfræðissviptur og þegar atvik gerðust hafi hann verið í helgarleyfi frá Kleppsspítala þar sem hann hafði dvalist.

Í málinu liggi fyrir geðrannsókn sem Tómas Zoëga hafi framkvæmt. Þar komi fram að hann telji kærða vera haldinn alvarlegum geðrofssjúkdómi, aðsóknargeðklofa með ofskynjunum og ranghugmyndum. Einnig sé hann haldinn persónuleikabrenglun með mikilli hvatvísi og stjórnleysi á hegðun sinni auk árásarkenndar. Til viðbótar sé hann með fjölfíknisjúkdóm. Telji Tómas að allt þetta, og þá sé líklegast að geðrofs­sjúk­dómurinn spili stærsta hlutverkið, verði til þess að hvatvísi hans taki yfir og kærði verði á köflum augljóslega ófær um að stjórna gerðum sínum. Síðan segi: “Atferli [X] er á köflum óútreiknanlegt og framkoma er sérkennileg. Mjög lítið sjúkdóms­innsæi og af læknis­fræðilegum ástæðum er mjög ólíklegt að refsing geti borið tilætlaðan árangur.”

Sterkur grunur sé um að kærði hafi gerst sekur um brot gegn 211., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eða 2. mgr. 218. gr. sömu laga, en brot gegn þessum lagaákvæðum varði fangelsi allt að 16 ár.

Mál þetta hafi borist ríkissaksóknara þann 27. mars sl. Ákæra á hendur kærða verði send héraðsdómi á næstu dögum. kærði hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald þann 12. febrúar 2006, og hafi verið í gæsluvarðhaldi síðan. Fyrst á grundvelli a- og d- liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, en frá 17. febrúar sl. á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Almanna­hagsmunir krefjist þess að kærði verði í gæsluvarðhaldi uns dómur gangi í máli hans, og sé vísað til dómvenju í þeim efnum og t.d. dóma Hæstaréttar í málum nr. 521/2004 og 563/2002.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, og 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sé þess krafist að framangreind krafa nái fram að ganga.

 Fyrir liggur rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um brot gegn 211., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eða eftir atvikum við 2. mgr. 218. gr. sömu laga.  Að þessu virtu og með hliðsjón af því hversu alvarlega háttsemi kærði er sakaður um eru uppfyllt skilyrði til að hann sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 enda er meint brot þess eðlis að telja verður gæsluvarðhald nauð­synlegt með tilliti til almannahagsmuna

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærði, X, skal sæta áfram gæslu­varðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 8. júní 2006, kl. 16.00.