Hæstiréttur íslands

Mál nr. 261/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Réttarfar


Föstudaginn 2

Föstudaginn 2. júlí 1999.

Nr. 261/1999.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

Kio Alexander Ayomambele Briggs

(Helgi Jóhannesson hrl.)

Kærumál. Farbann. B.liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Réttarfar.

Talið var að skilyrðum b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála væri fullnægt til þess að K sætti farbanni sbr. 110. gr. laganna. Hins vegar var kröfum ákæruvalds um tiltekna framkvæmd farbannsins hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. júní 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. júlí sama árs. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 1999, þar sem varnaraðila var bönnuð för úr landi allt þar til dómur gengur í máli hans í Hæstarétti, en hafnað kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði skylt að gefa sig fram við lögreglu meðan á farbanni stæði með nánar tilgreindum hætti. Kæruheimild er í 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að ákvörðun héraðsdóms um að hann sæti farbanni verði felld úr gildi, en að öðru leyti verði hún staðfest.

Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun héraðsdóms um að varnaraðili sæti farbanni verði staðfest. Hann krefst þess einnig að varnaraðila verði gert skylt að gefa sig fram við lögreglu á hverjum degi, á fyrirfram ákveðnum stað og tíma, meðan á farbanni stendur.

Varnaraðili var handtekinn við komu til landsins 1. september 1998 með 2031 töflu af fíkniefninu MDMA í farangri sínum. Með ákæru 17. desember 1998 var hann sóttur til saka fyrir að hafa brotið með þessari háttsemi gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974. Varnaraðili sætti gæsluvarðhaldi frá 2. september 1998 til 21. maí 1999. Með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra þann dag var kröfu sóknaraðila um áframhaldandi gæsluvarðhald hafnað, en varnaraðila bönnuð för úr landi þar til dómur gengi í máli hans í héraði. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar 27. sama mánaðar. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní sl. var varnaraðili sýknaður af kröfu ákæruvaldsins um refsingu. Segir meðal annars í forsendum héraðsdóms, að með vísan til 46. gr. laga nr. 19/1991 þætti vera svo mikill vafi um að varnaraðila hafi verið kunnugt um að fíkniefnin væru í tösku hans við komu hans til landsins, að sýkna bæri hann af kröfu ákæruvaldsins. Sóknaraðili áfrýjaði héraðsdóminum með stefnu 30. júní 1999.

Á það verður fallist með sóknaraðila að skilyrðum b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt til þess að varnaraðila verði bönnuð för úr landi, sbr. 110. gr. laganna. Samkvæmt þessu, svo og með vísan til 106. gr. laga nr. 19/1991, verður varnaraðila bönnuð för úr landi meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Í samræmi við grunnrök 110. gr. laga nr. 19/1991 er sóknaraðila rétt að gera ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til þess að tryggja framkvæmd farbanns yfir varnaraðila. Er varnaraðila heimilt að bera ákvarðanir sóknaraðila um nánari tilhögun farbanns undir dómara samkvæmt 75. gr. laganna. Hins vegar brestur skilyrði til þess að dómstólar ákveði, að kröfu sóknaraðila, hvernig nánari tilhögun farbanns verði háttað.

Dómsorð:

Varnaraðila, Kio Alexander Ayomambele Briggs, er bönnuð för úr landi meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti, þó ekki lengur en til 1. október nk. kl. 16.