Hæstiréttur íslands

Mál nr. 238/2015


Lykilorð

  • Meiðyrði


                                     

Fimmtudaginn 10. desember 2015.

Nr. 238/2015.

Vilhelm Róbert Wessman

(Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.)

gegn

Bjarna Ólafssyni

(Geir Gestsson hrl.)

Meiðyrði.

V krafðist ómerkingar ummælanna „Sakar [V] um að hafa dregið sér fé frá Actavis Group hf.“, sem birtust á forsíðu Viðskiptablaðsins í ágúst 2014, og að B, sem ritstjóri blaðsins, yrði dæmdur til refsingar vegna þeirra og gert að greiða sér miskabætur. B reisti kröfu sína um sýknu á því að ummælin hefðu verið rétt og sannleiksgildi þeirra ótvírætt enda um að ræða beina tilvísun í stefnu og kæru nafngreinds manns á hendur V. Í dómi Hæstaréttar kom fram að V stundaði umfangsmikil viðskipti hérlendis sem erlendis og hefði þátttaka hans í þeim oft hlotið mikla umfjöllun fjölmiðla. Umfjöllun um slík viðskiptamálefni ætti erindi við almenning og væri hluti mikilvægrar þjóðfélagsumræðu. Frétt Viðskiptablaðsins bæri glögglega með sér að stefnandinn í hinu umrædda dómsmáli teldi í stefnu og kæru á hendur V þá tilfærslu fjármuna, sem þar væri greint frá, hafa verið ólögmæta og saknæma og að augljóslega væri þar átt við fjárdrátt. Samkvæmt þessu hefði í hinum umstefndu ummælum falist staðhæfing um staðreynd sem væri efnislega rétt. Ekki hefði hvílt skylda á blaðamanni þeim sem ritaði fréttina að ganga úr skugga um réttmæti þeirrar staðhæfingar sem í ummælunum hefði falist. Var B því sýknaður af kröfum V.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. mars 2015. Hann krefst þess að nánar tilgreind fyrirsögn sem birtist á forsíðu Viðskiptablaðsins 28. ágúst 2014 verði ómerkt og stefndi dæmdur til refsingar vegna hennar samkvæmt 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða sér 3.391.183 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.000.000 krónum frá 28. ágúst 2014 til 2. október sama ár, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Atvikum málsins er réttilega lýst í hinum áfrýjaða dómi að öðru leyti en því að afrit tölvubréfs þess sem blaðamaður Viðskiptablaðsins sendi starfsmanni áfrýjanda degi áður en umrædd frétt birtist í blaðinu var sent stefnda en ekki Björgólfi Thor Björgólfssyni.

Eins og greinir í héraðsdómi stundar áfrýjandi umfangsmikil viðskipti hérlendis sem erlendis og hefur þátttaka hans í þeim oft hlotið mikla umfjöllun fjölmiðla. Umfjöllun um slík viðskiptamálefni á erindi við almenning og er hluti mikilvægrar þjóðfélagsumræðu. Fallist er á með hinum áfrýjaða dómi að frétt sú í Viðskiptablaðinu, sem um ræðir í málinu, beri glögglega með sér að Björgólfur Thor Björgólfsson telji í stefnu og kæru á hendur áfrýjanda þá tilfærslu fjármuna, sem þar er frá greint, hafa verið ólögmæta og saknæma og að augljóslega sé þar átt við fjárdrátt. Samkvæmt þessu fólst í hinum umstefndu ummælum í fyrirsögn blaðsins staðhæfing um staðreynd sem var efnislega rétt. Á blaðamanni þeim sem ritaði fréttina hvíldi ekki skylda til að ganga úr skugga um réttmæti þeirrar staðhæfingar sem í ummælunum fólst. Þegar af þessum ástæðum verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Eftir framangreindum úrslitum verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Vilhelm Róbert Wessman, greiði stefnda, Bjarna Ólafssyni, 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. janúar 2015. 

Mál þetta var höfðað 23. september 2014 og dómtekið 16. janúar 2015.

Stefnandi er Vilhelm Róbert Wessman, Lálandi 10, Reykjavík.

Stefndi er Bjarni Ólafsson, Álftamýri 18, Reykjavík og til réttargæslu Myllusetrið ehf., Nóatúni 17, Reykjavík.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að fyrirsögnin „Sakar Róbert um að hafa dregið sér fé frá Actavis Group hf.“ sem birtist á forsíðu Viðskiptablaðsins þann 28. ágúst 2014 verði ómerkt með dómi.

Þess er krafist að stefndi verði dæmdur til refsingar vegna framangreindra ummæla samkvæmt 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Einnig er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð. 2.000.000 kr. með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 28. ágúst 2014 til þingfestingardags málsins en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda  1.391.183 kr. til að kosta birtingu dóms í málinu, þ.e. forsendna og dómsorðs, með áberandi hætti í tveimur víðlesnum dagblöðum, sbr. 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Loks krefst stefnandi málskostnaðar.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

I.

Málavextir

                Þann 28. ágúst 2014 birtist á forsíðu Viðskiptablaðsins áberandi frétt með fyrirsögninni „Björgólfur kærir Róbert“ sem stillt er yfir mynd af Björgólfi Thor Björgólfssyni og stefnanda. Fyrir ofan fyrirsögnina stendur með smærra letri „Dómsmál Björgólfur Thor hefur bæði stefnt og kært Róbert Wessman“. Með enn smærra letri undir fyrirsögninni stendur „Björgólfur segist hafa orðið fyrir verulegu fjártjóni“. Þar á eftir „Sakar Róbert um að hafa dregið sér fé frá Actavis Group hf.“. Að lokum „Róbert segir stefnu Björgólfs tilefnislausa“. Í blaðinu er að finna frekari umfjöllun á heilli síðu um ofangreint undir fyrirsögninni „Björgólfur stefnir Róbert“. Þar fyrir ofan stendur með smærra letri „Dómsmál Sérstakur saksóknari hefur fengið afhenta kæru á hendur Róbert Wessman og Árna Harðarsyni“. Inngangur að fréttinni hefst með orðunum „Björgólfur Thor telur Róbert Wessman hafa valdið sér fjártjóni upp á tvær milljónir evra“. Fréttinni er skipt upp í fjóra kafla og er vísað á nokkrum stöðum til stefnu Björgólfs Thors á hendur Róbert, Árna og Salt Investements ehf., félags er var í eigu Róberts. Tveir kaflar bera yfirskriftirnar „Segir Róbert báðum megin borðs“ og „Tóku fjármuni „traustataki“. Í lokakafla fréttarinnar  undir yfirskriftinni „Málið til að þyrla ryki í augu almennings“ er að finna viðbrögð forsvarsmanna Salt Investment ehf. við stefnunni. Segi þeir stefnuna vera tilraun Björgólfs Thors til að hefja mannorð sitt, sem sé skaddað hér á landi, aftur til vegs og virðingar. Vísað er til viðbragða Róberts við stefnunni og til yfirlýsingar þar að lútandi þar sem segir: „Hins vegar mun Róbert, úr því að Björgólfur var svo friðlaus yfir því að eiga ekki í dómsmáli við Róbert, gera gagnkröfur í málinu á Björgólf sem eru mun hærri.“ Í fréttinni er jafnframt að finna innskot með sérstakri fyrirsögn „Skora á Björgólf að fara í ísfötubað“ en þar er fjallað um tilkynningu Róberts Wessman sem send var Viðskiptablaðinu vegna málsins. Þar segir orðrétt: „Enn og aftur fara spunameistarar Björgólfs Thors Björgólfssonar af stað og í þetta skiptið er sett fram tilefnislaus stefna sem á sér enga stoð í raunveruleikanum. Björgólfur Thor er oft hugmyndaríkur þegar kemur að því að spinna sögur og í þetta skiptið fer hann af stað með málatilbúnað sem hefur það eina markmið að þeyta ryki í augu almennings. Þetta virðist einnig vera hluti af stöðugri varnarbaráttu Björgólfs Thors á Íslandi þar sem hann ver skaddað mannorð sitt. Ég vil nota tækifærið og skora á Björgólf Thor að fara í ísfötubað, enda virðist hann þurfa smá kælingu. Þannig má líka komast hjá því að eyða tíma og fjármunum dómstóla í að fjalla um tilhæfulaus mál.“

                Degi áður en ofangreind frétt var birt, eða 27. ágúst 2014, upplýsti blaðamaður viðskiptablaðsins, höfundur greinarinnar, stefnanda um að hann hefði undir höndum stefnu Björgólfs Thors í máli hans. Var stefnanda þá gefinn kostur á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og var honum m.a. sendur spurningalisti blaðamannsins í tölvubréfi en afrit var sent á Björgólf Thor. Fyrir liggur að starfsmaður stefnanda gerði athugasemd við millifyrirsögn fréttar sem birtist á vefmiðli Viðskiptablaðsins að kvöldi þessa dags, sem varð til þess að henni var breytt skömmu síðar.          

                Einkamál það sem vísað er til í ofangreindri frétt var höfðað gegn stefnanda, Árna Harðarsyni og Salt Investments ehf. með birtingu stefnu 18. júlí 2014. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 2. október 2014.

                Fyrir liggur að kæru Björgólfs Thors á hendur forsvarsmönnum Salt Investments ehf. frá 2. júní 2014 til sérstaks saksóknara vegna ætlaðra auðgunarbrota var vísað frá 28. nóvember 2014.

                Stefnandi máls þessa, Róbert Wessman, krefst ómerkingar á ummælunum „Sakar Róbert um að hafa dregið sér fé frá Actavis Group hf.“ sem birtust á forsíðu Viðskiptablaðsins eins og  áður er lýst. Í stefnu kemur fram að stefnandi hafi verið viðskiptafélagi Björgólfs Thors er hann var forstjóri lyfjafyrirtækisins Actavis Group hf. og Björgólfur Thor aðaleigandi þess og stjórnarformaður. Á þeim tíma hafi þeir tekið þátt í nokkrum fjárfestingarverkefnum. Þá er ítarlega gerð grein fyrir sjónarmiðum stefnanda og að hann telji málatilbúnað Björgólfs Thors í ofangreindu einkamáli, tilhæfulausan með öllu enda byggt á röngum málsatvikum.

                Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu þann 23. september 2014 án undanfarandi tilkynningar til stefndu þar um.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda  

Stefnandi kveður stefnda sem ritstjóra Viðskiptablaðsins bera, í krafti stöðu sinnar, ábyrgð í þeim tilvikum sem a- og b-liðir 1. mgr. 51. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 eigi ekki við samkvæmt c-lið sömu greinar. Þar sem ummæli þau sem krafist er ómerkingar á séu á forsíðu Viðskiptablaðsins og ekki auðkennd neinum þá beri stefndi sem ritstjóri blaðsins ábyrgð á þeim og sé honum því stefnt í málinu. Samkvæmt  2. mgr. 51. gr. sömu laga beri fjölmiðlaveita ábyrgð á greiðslu stjórnvaldssekta, fésekta og skaðabóta sem starfsmanni hennar kann að vera gert að greiða samkvæmt 51. gr. laganna. Réttargæslustefndi Myllusetrið ehf. sé lögaðili sem starfræki fjölmiðilinn Viðskiptablaðið og sé því fjölmiðlaveita samkvæmt 15. tl. 2. gr. laganna. 

Kröfur sínar reisir stefnandi á því að með hinum umdeildu ummælum hafi stefndi farið langt út fyrir mörk tjáningarfrelsisins og þannig brotið gegn friðhelgi einkalífs og æru stefnanda sem njóti verndar 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Í ákvæðinu sé kveðið á um vernd friðhelgi einkalífs manna en undir hugtakið falli æra og mannorð þeirra. Í samræmi við 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar hafi verið lögfest ákvæði í almennum hegningarlögum um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs sem feli í sér takmarkanir á tjáningarfrelsinu sem greinin mæli fyrir um.

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi farið með rangt mál er hann fjallaði um hann opinberlega með þeim hætti sem raun bar vitni. Hafi þannig verið um að ræða ósannan fréttaflutning. Í ummælunum felist ærumeiðandi aðdróttun samkvæmt 235. gr. almennra hegningarlaga. Þá telur stefnandi að stefndi hafi einnig brotið gegn 236. gr. laganna með því að breiða út gegn betri vitund að Björgólfur Thor telji stefnanda hafa gerst sekan um fjárdrátt gagnvart Actavis Group hf. Stefndi hafi ekki haft sennilega ástæðu til að halda það rétt að stefnandi hafi gerst sekur um fjárdrátt, sbr. 2. mgr. 236. gr. laganna. Þá telur stefnandi að í ummælunum felist einnig ærumeiðandi móðgun samkvæmt 234. gr. laganna. Stefndi hafi ranglega haldið því fram að stefnandi hafi verið sakaður um að hafa dregið sér fé frá Actavis Group hf. og sé þar með dróttað að stefnanda að hann hafi dregið sér fé sem sé refsiverð háttsemi samkvæmt XXVI. kafla almennra hegningarlaga. Fyrir liggi í málinu að stefndi, af ásetningi eða fyrir stórkostlegt gáleysi, hafi tekið ákvörðun um að birta opinberlega, á forsíðu þess blaðs sem hann stýrir, ásakanir á hendur stefnanda um alvarlegt trúnaðarbrot á starfsskyldum sínum sem er þar að auki refsivert.

Í umfjöllun um stefnu Björgólfs Thors í Viðskiptablaðinu komi fram að blaðamaður hafi stefnuna undir höndum. Við lestur stefnunnar verði ekki ráðið að stefnandi hafi á nokkurn hátt komið að millifærslu umræddra fjármuna. Verði að teljast verulegt ábyrgðarleysi af hálfu stefnda, sem ritstjóra Viðskiptablaðsins, að slá hinum umþrættu ummælum upp á forsíðu blaðsins.

Við mat á háttsemi stefnda og ásetningi hans til að brjóta gegn æru stefnanda með því að setja fram, og birta opinberlega, aðdróttanir á hendur stefnanda, beri að horfa til þess að stefndi sé ritstjóri eina blaðsins á Íslandi sem helgi sig fréttum af viðskiptalífinu. Sem slíks verði að gera þær kröfur til hans að hann kunni skil á fjármálum fyrirtækja og geti gert sér grein fyrir því hvort ásakanir sem hafðar séu uppi á hendur stefnanda í stefnu Björgólfs Thors séu byggðar á traustum grundvelli eða ekki. Þá ætti hann að kunna skil á því hversu alvarleg ásökun það sé á hendur forstjóra félags að bera upp á hann fjárdrátt. Stefndi má einnig gera sér grein fyrir því að vegna stöðu hans, og Viðskiptablaðsins, vænti lesendur blaðsins þess líklega að ekki séu í blaðinu birtar rangar og óstaðfestar ásakanir.

Með ummælunum drótti stefndi að stefnanda um refsivert athæfi þar sem stefndi hafi haldið fram röngum, villandi og meiðandi ummælum í fyrirsögn á forsíðu Viðskiptablaðsins þann 28. ágúst 2014. Samkvæmt 241. gr. almennra hegningarlaga megi dæma óviðurkvæmileg ummæli ómerk og þar sem hin umdeildu ummerki brjóta gegn 234.-236. gr. laganna verði að telja ákvæðið eiga við.

Hvað útbreiðslu ummælana varði telur stefnandi Viðskiptablaðið vera víðlesið blað og þá sérstaklega í heimi viðskipta þar sem stefnandi starfi. Þá fylgist erlendir aðilar, og þeir sem eiga viðskipti við Ísland, með skrifum blaðsins og láti þýða fyrir sig helstu fréttir. Stefnda megi vera þetta ljóst sem og að skaðleg áhrif ærumeiðandi aðdróttana Viðskiptablaðsins ná langt út fyrir landsteina Íslands.

Frétt Viðskiptablaðsins, og þar með hin umdeildu ummæli, hafi fengið mikla útbreiðslu enda hafi flestir fjölmiðlar landsins fjallað um hana.  Það sé því ljóst að fréttin og þar með ummælin, sem hafi fengið rækilega kynningu, hafi farið víða.

Stefndi hafi sett hin umdeildu ummæli fram þrátt fyrir að blaðamaður Viðskiptablaðsins hefði haft samband við stefnanda sem hafi lýst því yfir að málatilbúnaður stefnunnar væri úr lausu lofti gripinn og stæðist enga skoðun. Telji stefnandi að slá megi því föstu að stefndi hafi birt umrædd ummæli gegn betri vitund eða án þess að skeyta um sannleiksgildi þeirra. Þessu til staðfestingar megi benda á að stefndi hafi séð að sér og breytt millifyrirsögn í frétt um margumtalaða stefnu á vefmiðlinum vb.is að kvöldi 27. ágúst 2014.

Stefnandi telur hin umdeildu ummæli ekki vera hluta af sanngjarni þjóðfélagsumræðu sem eigi erindi við almenning. Ummælin séu uppspuni og sögð byggja á stefnu Björgólfs Thors þó að sú sé ekki raunin.  Ummælin hafi ekki annan sjáanlegan tilgang en þann að ráðast að persónu og æru stefnanda með það að markmiði að gera hann tortryggilegan. Með því að halda því fram að þekktur maður í viðskiptalífinu hafi sakað stefnanda um fjárdrátt í starfi sé stefndi að vega að trúverðugleika stefnanda og með þeim hætti að leitast við að skaða mannorð hans og æru.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til refsingar vegna framangreindra ummæla samkvæmt 234. gr., 235. gr. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Vísar hann til þeirra málsástæðna sem fram eru komnar um ómerkingu ummæla. Stefnandi árétti að hann telji þátt stefnda enn alvarlegri í því ljósi að það hafi verið hann sem hafi tekið ákvörðun um að birta opinberlega ásakanir á hendur stefnanda, en ekki Björgólfur Thor. Verði varla talið að ásakanir sem birtist í stefnu í einkamáli tveggja aðila hafi verið birtar opinberlegar. Slík opinber birting hafi fyrst átt sér stað með ákvörðun stefnda, sem síðan hafi leitt til umfjöllunar annarra fjölmiðla.  Við mat á hæfilegri refsingu stefnda telur stefnandi að horfa verði til stöðu hans sem ritstjóra blaðs sem sérhæfir sig í viðskiptum svo og annarra atriða sem rakin hafa verið. 

Stefnandi krefst miskabóta samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.vegna þeirra ummæla sem getið er um í kröfugerð stefnanda enda sé haldið  fram röngum, villandi og meiðandi staðhæfingum um stefnanda.Vísar hann til þeirra málsástæðna sem fram eru komnar um ómerkingu ummæla.

Verði fallist á kröfu stefnanda um ómerkingu á fyrirsögn þeirri sem birtist á forsíðu Viðskiptablaðsins krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða kostnað af birtingu á dómsorðinu með eins áberandi hætti í tveimur víðlesnum dagblöðum. Telur stefnandi að það muni reynast honum erfitt eða líklega ómögulegt að ná fram leiðréttingu á hinni ærumeiðandi fullyrðingu.

Málskostnaðarkrafa stefnanda er byggð á 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur og því er nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar. Um vaxtakröfu sína vísar stefnandi til laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

III.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir á því að umstefnd umfjöllun njóti sérstakrar verndar skv. tjáningarfrelsisákvæðum 73. stjórnarskrár og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Skilyrði til skerðingar tjáningarfrelsis séu ekki uppfyllt í þessu máli. Því beri að sýkna af öllum kröfum stefnanda. 

Löng dómaframkvæmd sé fyrir því að fjölmiðlar njóti aukins tjáningarfrelsis, bæði fyrir Hæstarétti Íslands og Mannréttindadómstól Evrópu. Umfjöllun um viðskiptalífið, og aðila sem séu áberandi innan þess, njóti enn rýmri tjáningarfrelsisverndar en almennt gerist, sbr. t.d. Hrd. 1995:408 og dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Markt Intern Verlag Gmbh og Klaus Beerman gegn Þýskalandi frá 20. nóvember 1989. Þá gildi rúmt tjáningarfrelsi um almannapersónur, eins og margoft hefur verið staðfest í dómaframkvæmd. Bæði stefnandi og Björgólfur séu almannapersónur. Sömuleiðis gildi rúmt tjáningarfrelsi um deilur stefnanda og Björgólfs. Deilur þeirra um þetta málefni og önnur hafi að stórum hluta verið opinberar á undanförnum árum. Hafi báðir aðilar óhikað notað fjölmiðla til að vekja athygli á eigin málstað, ásökunum og gagnásökunum. Með því hafi þeir báðir opnað á aukna umfjöllun fjölmiðla. Rúmt tjáningarfrelsi gildir þannig um alla umfjöllun um deilumál stefnanda og Björgólfs.

Eins og fram komi í gögnum málsins hafi stefnandi svarað ásökunum um fjárdrátt samdægurs, í öllum helstu fjölmiðlum landsins. Þar hafi hann hafnað ásökununum efnislega og sagt að um væri að ræða tilraunir Björgólfs til að lappa upp á laskað mannorð sitt hérlendis. Ekki verði séð annað en að stefnandi sjálfur hafi gert í því að vekja athygli á málinu í fjölmiðlum. Áskoranir hans um að Björgólfur kældi sig niður og færi í „ísfötubað“, hafi birst í öllum fjölmiðlum landsins. Um sé að ræða afar óhefðbundna aðferð viðskiptamanns til að svara ásökunum um fjárdrátt, sem augljóslega sé sérstaklega notuð til þess, eða a.m.k. almennt til þess fallin, að auka áhuga fjölmiðla og almennings á málinu. Enginn vafi sé á því að stefnandi hafi nýtt sér fjölmiðla til að koma eigin málstað á framfæri. Stefnandi hafi því augljóslega ekki talið sjálfur að um viðkvæmt einkamálefni væri að ræða, sem ekkert erindi ætti í fjölmiðla. Í öllu falli sé um að ræða eðlilega tjáningu og gagntjáningu tveggja manna sem deila, í lýðfrjálsu þjóðfélagi. Varnir stefnanda hafi a.m.k. fengið jafnmikla athygli og ásakanir Björgólfs í íslenskum fjölmiðlum.

Ef málsástæður stefnanda, um að fjölmiðlaumfjöllun um ásakanir Björgólfs brytu gegn friðhelgi einkalífs hans stæðust, sé ljóst að fjölmiðlum á Íslandi væri framvegis alfarið óheimilt að flytja fréttir af vettvangi dómsmála, um málefni tengd viðskiptalífinu. Sé því mótmælt að umfjöllun um ásakanir Björgólfs á hendur stefnanda falli undir friðhelgi einkalífs stefnanda skv. 71. gr. stjórnarskrár. En jafnvel þó að svo væri, er ljóst þeir hagsmunir víkja fyrir tjáningarfrelsisvernd skv. 73. gr. stjórnarskrár.

Stefnandi áréttar sérstaklega að það brjóti gegn stjórnarskrárvörðu tjáningarfrelsi stefnda sem fjölmiðlamanns að gera honum að sanna staðhæfingar þriðja aðila, Björgólfs, um fjárdrátt stefnanda. Stefnda verði hvorki gert að sanna þær staðhæfingar né staðhæfingar stefnanda um sakleysi. Stefndi hafi aðeins flutt fréttir af ágreiningi tveggja manna, en sé augljóslega ekki í aðstöðu til að sanna eða afsanna málstað þeirra. Úr ágreiningnum um það hvort fjárdráttur hafi átt sér stað verði væntanlega leyst í því einkamáli sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Fjölmiðlar verði að getað fjallað um deilur tveggja aðila, án þess að vera gert að sanna málstað annars eða beggja.

Stefndi telur að honum verði einungis gert að sanna sannleiksgildi þeirra ummæla sem birtust á forsíðu Viðskiptablaðsins og krafist er ómerkingar á. Umstefnd ummæli eru sönn, enda sakaði Björgólfur stefnanda um fjárdrátt frá Actavis Group hf. Þegar af þessari ástæðu ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. Verði þetta ráðið af umfjöllun stefnanda í stefnu sinni. Hann virðist hins vegar ekki telja ásakanirnar á rökum reistar samkvæmt umfjöllun í stefnu en það sé þessu máli algerlega óviðkomandi og sé raunar viðfangsefni sérstaks dómsmáls sem rekið er milli stefnanda og Björgólfs.

Stefndi byggir jafnframt á því að bæði stefnan og kæra til sérstaks saksóknara sýni að Björgólfur saki stefnanda um fjárdrátt. Í kærunni megi ljóslega sjá að sambærileg ásökun um fjárdrátt komi fram. Það nægi að slík ásökun komi fram í öðru hvoru skjalinu kæru eða stefnu, til að sýkna beri stefnda. Þá vitnar stefndi til umfjöllunar í stefnu og telur ljóst að kæran og stefnan séu samhljóða um ásakanir Björgólfs. Undirstrikað sé að hvergi hafi verið staðhæft að stefnandi væri sekur í hinum umstefndu ummælum. Þá hafi m.a. verið greint frá því á forsíðu að stefnandi teldi ásakanir Björgólfs tilhæfulausar. Uppfylltar hafi verið ýtrustu hlutlægniskröfur, sbr. 1. mgr. 26. gr. fjölmiðlalaga nr. 38/2011.

Verði talið ósannað að Björgólfur hafi sakað stefnanda um fjárdrátt, bendir stefndi á að ósannaðar staðhæfingar fjölmiðlamanna um staðreyndir geti í ákveðnum tilvikum notið tjáningarfrelsisverndar, sbr. dóma Mannréttindadómstólsins í málum Flux gegn Moldavíu, dags. 24. nóvember 2009 (25367/05) og White gegn Svíþjóð, dags. 19. september 2006 (42435/02). Samkvæmt framangreindum dómum nægi að gerðar hafi verið viðeigandi tilraunir til þess að kanna staðreyndagrundvöll ummælanna og að stuðst hafi verið við áreiðanlegar heimildir. Í máli þessu hafi verið kannaður staðreyndagrundvöllur umstefndra ummæla, leitað eftir tjáningu beggja aðila deilumáls og stuðst við áreiðanlegar heimildir við vinnslu fréttarinnar.

Hvað varði kröfu um ómerkingu ummæla skv. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 byggir stefndi á þeim málsástæðum er raktar hafa verið og beri því að sýkna hann af ómerkingarkröfu. Hið sama gildi um kröfu um refsingu skv. 234.-236. gr. laganna. Þá sé því mótmælt að saknæmisskilyrði 18. gr. hgl. séu uppfyllt. Stefndi hafi að öllu leyti komið fram í góðri trú. Þá sé því mótmælt að stefndi hafi meitt æru stefnanda eða borið út ærumeiðingar í skilningi 234. gr. hgl. Ekki sé heldur um að ræða aðdróttun sem sé virðingu stefnanda til hnekkis, skv. 235. gr. laganna. Ummælin byggist á staðreyndum sem færðar hafi verið sönnur á. Ummælin hafi þannig ekki verið höfð uppi gegn betri vitund stefnda í skilningi 1. mgr. 236. gr. sömu laga. Af þessu leiði einnig að ekki séu skilyrði til að beita 1. mgr. 241. gr. laganna.

Þá telur stefndi að hvers kyns refsidómur á hendur honum fyrir tjáningu brjóti gegn tjáningarfrelsi hans skv. 73. gr. stjórnarskrár og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Eigi það sérstaklega við um dóm um fangelsisvist. Þá sé refsing á hendur ritstjóra, fyrir annað hvort störf blaðamanns eða ummæli þriðja aðila, á hlutlægum grunni, í andstöðu við 69. gr. stjórnarskrár. Loks er bent á að mjög hefur dregið úr því að íslenskir dómstólar refsi fyrir tjáningu manna. Fáheyrt sé orðið að fjölmiðlamenn séu dæmdir til refsingar.

Krafa stefnda um sýknu af kröfu um miskabætur er reist á sömu málsástæðum og tilgreindar hafa verið. Skilyrði 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 séu að mati stefnda ekki uppfyllt fyrir miskabótaskyldu enda sé ekki um ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda að ræða af hálfu stefnda. Háttsemi stefnda hafi að öllu leyti verið lögmæt. Þá komi fram í greinargerð með 26. gr. laganna að verulegt gáleysi þurfi til að miskabótaskylda stofnist. Stefndi byggir á því að það skilyrði miskabótaskyldu væri aldrei uppfyllt í þessu máli, enda hafi hann verið í góðri trú. Hann hafi einfaldlega birt fréttir af því að stefnandi og Björgólfur stæðu enn á ný í deilum fyrir dómstólum og taldi sig fjalla um báðar hliðar málsins, án þess að tekin væri afstaða til þess hvor hefði rétt fyrir sér. Stefndi telur að ekki hafi einu sinni verið um einfalt gáleysi að ræða og enn síður efra stig gáleysis. Þá beri hann ekki miskabótaskyldu á hlutlægum grunni. Fjárhæð miskabótakröfu sé sérstaklega mótmælt, enda í engu samræmi við dómaframkvæmd í sambærilegum málum. Telur stefndi auk þess að stefnandi hafi ekki orðið fyrir nokkrum miska af hans hálfu.

Stefndi krefst sýknu af kröfu um greiðslu kostnaðar af birtingu dóms í málinu, sbr. 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga óháð því hvort aðrar kröfur eru teknar til greina í heild eða að hluta. Engin rök standi til þess að dæma sérstaka fjárkröfu til að fá birtan dóm í þessu máli. Þá sé fjárhæð kröfunnar mótmælt, sem of hárri og úr öllum takti við dómaframkvæmd.

Verði ekki fallist á kröfu um sýknu, byggir stefndi á því að lækka beri allar fjárkröfur stefnanda verulega. Því til stuðnings vísar hann til þeirra sjónarmiða sem áður hefur verið vikið að. Taka verði sérstakt tillit til þess að stefndi sé venjulegur launamaður. Hann hafi, ólíkt stefnanda, ekki fjárhagslegt bolmagn til að standa í rekstri ágreiningsmála fyrir dómi. Stefndi telur sanngirnisástæður mæla með því að fjárkröfur stefnanda verði lækkaðar og þá sérstaklega fjárhæð miskabótakröfu, skv. almennri lækkunarheimild 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Því sé mótmælt að kröfur stefnanda beri vexti. Þá er upphafsdagsetningum vaxtakrafna mótmælt, þ.m.t. að 28. ágúst 2014 sé tjónsdagur í skilningi 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.

Stefndi byggir málskostnaðarkröfu sína á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum 129. gr. og 130. gr. laganna. Þess sé óskað að tekið verði tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar að málshöfðun þessi hafi verið algerlega að ófyrirsynju. Þá hefði stefnanda verið í lófa lagið að reyna að komast hjá málshöfðun þessari, með því að leita sátta og/eða senda kröfubréf fyrir málshöfðun, eins og hefðbundið sé. Fyrirvaralaus málshöfðun, þegar engin sérstök ástæða sé til þess að hraða málshöfðun, brjóti gegn 36. gr. siðareglna lögmanna.

IV.

Niðurstaða

Eins og nánar er lýst í kafla um málavexti krefst stefnandi ómerkingar ummælanna „Sakar Róbert um að hafa dregið sér fé frá Actavis Group hf.“ sem birtust á forsíðu Viðskiptablaðsins þann 28. ágúst 2014. Þá krefst stefnandi að stefnda, ritstjóra Viðskiptablaðsins, verði refsað með vísan til 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, honum gert að greiða miskabætur og að greiða fyrir birtingu á forsendum dómsins og á dómsorði. Ummælin voru ekki höfundarmerkt og er kröfum því réttilega beint að stefnda samkvæmt c-lið 1. mgr. 51. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 sem kveður á um ritstjórnarlega ábyrgð.

Stefnandi reisir kröfur sínar á því að stefndi hafi með ummælum sínum farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis sem varið er af 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og þar með brotið gegn friðhelgi einkalífs hans og æru sem njóti verndar 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Með ummælunum hafi því ranglega verið haldið fram að stefnandi hafi verið sakaður um að hafa dregið sér fé, sem feli í sér ærumeiðandi aðdróttun og móðgun samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum almennra hegningarlaga. Sé því ranglega haldið fram af stefnda að ummælin byggi á stefnu Björgólfs Thors Björgólfssonar í einkamáli því er hann hafi höfðað gegn stefnanda. Þá hafi hann í engu rannsakað hvort ásakanir þær sem frem kæmu í stefnu væru byggðar á traustum grundvelli.

Stefndi reisir kröfu sína um sýknu á því að ummælin hafi verið rétt og sannleiksgildi þeirra ótvírætt enda um að ræða beina tilvísun í stefnu Björgólfs Thors á hendur stefnanda.

Stefnandi er aðili sem um árabil hefur stundað umfangsmikil viðskipti bæði hérlendis og erlendis sem hafa jafnan fengið mikla athygli fjölmiðla. Telst hann vera þjóðþekktur einstaklingur rétt eins og Björgólfur Thor. Eins og ráða má af dómaframkvæmd njóta fjölmiðlar að meginstefnu til víðtækara tjáningarfrelsis í umfjöllun sinni um málefni þjóðþekktra einstaklinga en gengur og gerist um hinn almenna borgara. Þegar um er að ræða viðskiptatengd málefni tengd slíkum einstaklingum má oftar en ekki álykta svo, að umfjöllun um þau eigi erindi til almennings. Geta þeir því þurft að sæta meiri skerðingu á æruvernd sinni en aðrir. Má til hliðsjónar vísa til dóma Hæstaréttar 18. október 2012 í máli nr. 673/2011, 15. nóvember 2012 í máli nr. 69/2012 og 24. janúar 2013 í máli nr. 383/2012.

Eins og áður er lýst skírskota hin umdeildu ummæli til fréttar í blaðinu þar sem fjallað er um stefnu Björgólfs Thors á hendur stefnanda, Árna Harðarsyni og Salt Investments ehf. vegna tilfærslu fjármuna er tengdust Actavis Group hf. Á meðal gagna málsins er stefna í því máli en þar gerir Björgólfur Thor þær dómkröfur aðallega að stefndu verði dæmdir til að greiða sameiginlega 2.000.000 evra. Í stefnunni segir um atvik málsins: „Þann 3. desember 2007 voru 4.000.000 evrur, sem Mainsee 516 516 GmbH átti inn á bankareikningi Actavis Group hf. Group hf., millifærðar inn á bankareikning Salt Investments ehf. Sú millifærsla var óheimil og voru fjármunir millifærðir að beiðni stefndu Árna og Vilhelms Róberts, sem báðir stýrðu Salt Investment ehf.“ Þá segir: „Stefndi, Vilhelm Róbert, var eigandi Salt Investments ehf. og á þeim tíma jafnframt forstjóri Actavis Group hf. Group hf. Stefndi, Árni, var framkvæmdastjóri Salt Investments ehf. Millifærsla fjármunanna var í þágu Salt Investments ehf. og eiganda félagsins, stefndu í máli þessu. Salt Investments ehf. nýtti fjármuni Mainsee 516 VV GMbH í eigin þágu og í þágu eigenda félagsins, stefndu í máli þessu.“ Jafnframt segir: „Á því er byggt af hálfu stefnanda að stefndu, Árni og Vilhelm Róbert hafi með millifærslu fjármunanna dregið fjármuni til félagsins og til eigenda þess. Sú háttsemi stefndu hafi verið ólögmæt og saknæm enda hafi 4.000.000 evrur í eigu Mainsee 516 VV GMbH í raun verið teknar traustataki af stefndu. Stefndu höfðu ekki umboð frá stjórn Mainsee 516 VV GMbH til að ráðstafa fjármunum félagsins til Salt Investments ehf.[...]“

Í fyrrgreindri frétt er vísað beint í og til stefnunnar auk þess sem upplýst er að Björgólfur hefði kært stefnanda og samstarfsmann hans til embættis sérstaks saksóknara vegna ofangreinds. Er þar vísað til kæru Björgólfs Thors vegna ætlaðra auðgunarbrota forsvarsmanna Salt Investments ehf. Í kærunni segir m.a.: „Með vísan til framangreinds telur umbj. minn að fyrir liggi rökstuddur grunur um að forsvarsmenn og eigendur Salt hafi með ólögmætum hætti dregið fjármuni til félagsins eða eftir atvikum til annarra aðila, enda átti Salt ekki lögmætt tilkall til fjármunnanna sem sannarlega tilheyrðu Mainsee [...]“ Umræddri kæru hefur nú verið vísað frá en frekari rökstuðningur fyrir frávísuninni liggur ekki fyrir í gögnum málsins.

Hin umdeildu ummæli „Sakar Róbert um að hafa dregið sér fé frá Actavis Group hf.“ fela í sér, eins og rakið hefur verið, staðhæfingu um staðreynd sem er rétt og nákvæm endursögn á því sem fram kemur í stefnu Björgólfs Thors, nánar tiltekið það sem segir í stefnunni: „Á því er byggt af hálfu stefnanda að stefndu, Árni og Vilhelm Róbert, hafi með millifærslu fjármunanna dregið fjármuni til félagsins og til eigenda þess.“ Birting ummælana fól þannig í sér útbreiðslu á sannri staðhæfingu. Þá verður í þessu sambandi að líta til fréttar Viðskiptablaðsins í heild sinni, annars vegar forsíðu hennar og hins vegar þeirrar fréttar er fyrirsagnir hennar vísa til. Ber fréttin glögglega með sér að Björgólfur Thor telur að fyrrnefnd tilfærsla fjármuna hafi verið ólögmæt og saknæm, bæði samkvæmt almennum hegningarlögum og almennu skaðabótareglunni. Er hér augljóslega átt við fjárdrátt og til þess vísa ummælin.

Stefnandi heldur því fram að á stefnda hafi hvílt rík rannsóknarskylda og hafi honum borið að kanna sérstaklega sannleiksgildi þeirra ásakana er fram kæmu í stefnu Björgólfs Thors áður en hann tók ákvörðun um að birta ummælin.

Fyrir liggur að blaðamaðurinn er ritaði fréttina hafði m.a. undir höndum stefnu í einkamálinu svo og kæru til sérstaks saksóknara. Gaf hann stefnanda færi á að tjá sig og sendi ítarlegan spurningalista um málsatvik og millifærslu fjármunanna. Fékk hann þau svör í tölvubréfi frá starfsmönnum stefnanda að málsatvikum væri ekki rétt lýst í stefnunni og að þeir flyttu ekki mál í fjölmiðlum frekar en önnur dómsmál. Þá segir þar jafnframt: „Skiljum ekki stefnuna eða á hverju hún er byggð en verðum náttúrulega að taka til varna og höfum ekki áhyggjur af niðurstöðunni.“ Hins vegar fékk blaðamaðurinn senda tilkynningu stefnanda og var hún birt orðrétt sem hluti af fyrrgreindri frétt, eins og áður segir.

Að mati dómsins var vinnsla umræddrar fréttar og framsetning hennar í blaðinu eðlileg þar sem sjónarmið stefnanda komu skýrlega fram, m.a. á forsíðu. Þá var umfjöllunin ekki hlutdræg eða í henni að finna sjálfstæða umfjöllun blaðamannsins er vann fréttina. Í tengslum við fréttaflutning af þessu tagi verða hvorki gerðar kröfur til blaðamannsins né stefnda, sem ritstjóra blaðsins, að kanna sérstaklega réttmæti málsgrundvallar Björgólfs Thors í einkamáli því sem um ræðir. Ljóst er að Björgólfur Thor ber sönnunarbyrði fyrir staðhæfingum þeim er hann heldur fram í stefnu í margnefndu einkamáli og er það hlutverk dómara að leysa úr því hvort honum hafi tekist sú sönnun.

Þegar af þeim ástæðum er raktar hafa verið verður ekki talið að í ummælunum hafi falist ærumeiðandi aðdróttun eða móðgun gagnvart stefnanda sem stefndi hafi gerst sekur um að breiða út. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem þykir hæfilegur 1.500.000 krónur.

Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð:

                Stefndi, Bjarni Ólafsson, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Vilhelms Róberts Wessman.

      Stefnandi greiði stefnda 1.500.000 krónur í málskostnað.