Hæstiréttur íslands
Mál nr. 93/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. febrúar 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. febrúar 2016 þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans í Hæstarétti, en þó eigi lengur en til 31. mars 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í b. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að vægari úrræðum verði beitt, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með dómi Héraðsdóms Reykjaness [...] 2016 var varnaraðili sakfelldur fyrir brot gegn 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og dæmdur í sex mánaða fangelsi. Varnaraðili sætti gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 28. júlí til 26. ágúst 2015, en frá þeim tíma farbanni. Rannsókn hófst að nýju 31. október sama ár vegna gruns um önnur brot varnaraðila og var honum með dómi Hæstaréttar 6. nóvember sama ár í máli nr. 754/2015 gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Hefur sú gæsluvarðhaldsvist í þrígang verið staðfest með dómum Hæstaréttar, síðast með dómi 11. janúar 2016 í máli nr. 28/2016, þegar varnaraðili tók sér lögbundinn fjögurra vikna frest til ákvörðunar um áfrýjun áðurgreinds héraðsdóms, en varnaraðili hefur nú lýst yfir áfrýjun dómsins með tilkynningu til ríkissaksóknara.
Í 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 segir að gæsluvarðhaldi ljúki þegar héraðsdómur hefur verið kveðinn upp í málinu, en eftir kröfu ákæranda getur dómari þó úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan mál er til meðferðar fyrir Hæstarétti uns dómur er þar upp kveðinn. Samkvæmt þessu og þar sem fullnægt er skilyrðum c. liðar 1. mgr. 95. gr. laganna verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. febrúar 2016.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að dómfelldi, X, fæddur [...], sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti Íslands, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 31. mars 2016, kl. 16:00.
Í greinargerð með kröfunni segir að lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi höfðað sakamál á hendur dómþola með ákæru dagsettri 4. nóvember 2015 í máli nr. S-[...]/2015 og hafi dómur verið kveðinn upp 7. janúar sl. Hafi dómfeldi verið dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir þau brot sem honum voru gefin að sök í ákærunni. Þá segir í greinargerðinni að vegna alvarleika sakarefnisins þyki nauðsynlegt, vegna almannahagsmuna, að dómfeldi sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gangi í máli hans. Þá sé dómþoli erlendur ríkisborgari sem hafi engin tengsl við nokkurn mann hér á landi. Af þeim sökum telji lögregla einnig hættu á að dómþoli muni reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér með örðum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar gangi hann laus meðan mál hans sé til meðferðar innan dómkerfisins.
Einnig segir í greinargerðinni að dómþoli hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 28. júlí 2015 til 26. ágúst 2015 er honum hafi þá verið gert að sæta farbanni. Þann 3. nóvember sl. hafi verið gerð ný krafa um að dómþola yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi vegna endurtekinna brota. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness sama dag hafi dómþola verið gert að sæta farbanni. Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 754/2015 hafi dómþola hins vegar verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á ný og hafi hann setið í gæsluvarðahaldi síðan þá, í upphafi vegna rannsóknarhagsmuna skv. a-lið 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 en síðar á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Sakarefnið sé talið varða við 248. og 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en brot gegn þeim ákvæðum varði allt að sex ára fangelsi. Krafan nú sé byggð á b- og c-lið 1. mgr. 95. gr., sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2009.
Dómþoli mótmælti kröfunni og kvaðst núþegar hafa setið í gæsluvarðhaldi í rúmar tólf vikur og mótmælti því að skilyrði b- og c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 væru uppfyllt. Til vara krafðist hann þess að vægari úrræði yrði beitt.
Fyrir liggur að dómþoli áfrýjaði dómi í máli nr. S-[...]/2015, sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjaness þann [...] sl. til Hæstaréttar Íslands. Í því máli var ákærði sakfelldur fyrir fjársvik framin 26. júlí 2015. Var dómþoli úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna þeirra brota þann 26. júlí 2015 fram til 26. ágúst 2015. Í kröfugerð sækjanda í máli þessu er tiltekið að dómþola hafi síðan verið gert að sæta farbanni og á ný verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna endurtekinna brota. Fyrir dóminum kvað sækjandi síðari gæsluvarðhöld dómþola stafa af öðrum brotum en dæmt var fyrir í ofangreindu sakamáli. Engin gögn voru lögð fram í málinu því til stuðnings.
Skilyrði b-liðar 1. mgr. 95. gr. sakamála eru að ætla megi að sakborningur muni reyna að koma sér úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar. Dómþoli, sem er erlendur ríkisborgari, virðist ekki eiga neina tengingu við Ísland utan að hafa dvalið hér á landi í einhvern tíma án atvinnu eða fjölskyldu. Dómþoli hefur hlotið sex mánaða fangelsisdóm og telur dómari að skilyrði b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt. Skilyrði c-liðar 1. mgr. 95. gr. eru þau að ætla megi að sakborningur muni halda áfram brotum meðan mál hans er ekki lokið eða rökstuddur grunur leiki á að hann hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum hafi verið sett í skilroðsbundnum dómum. Engin gögn hafa verið lögð fyrir dóminn nú til stuðnings þessari málsástæðu.
Með þeim úrskurðum sem greindir eru í greinargerð sækjanda hefur dómþoli sætt gæsluvarðhaldi samtals í 109 daga. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að hann eigi ólokið, af refsingunni sem honum var gerð, 71 dag. Með vísan til 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 og því að skilyrði b-liðar 1. mgr. 95. gr. sömu laga eru uppfyllt verður krafa sækjanda tekin til greina.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
ÚRSKURÐARORÐ.
Dómfellda, X, fæddum [...], er gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans nr. S-[...]/2015 í Hæstarétti Íslands, þó eigi lengur en til 31. mars 2016, kl. 16:00.